Grænmeti plús kjúklingur

Punktar

Grænmetisstaðir hafa verið frá ómunatíð í þessu húsnæði á annarri hæð á horni Laugavegs og Klapparstígs. Fyrst var hér Matstofa náttúrulækningafélagsins. Nú er kominn hingað einn fimm birtingarstaða veitingahúsakeðju Sollu og heitir Gló eins og hinir. Innrétting er kunnugleg, bætt við þversöguðum trjábolsþynnum til skrauts á veggjum, einkennistákni keðjunnar. Hér er boðinn kjúklingur auk hins hefðbundna grænmetis. Valið er milli fimm rétta, sem breytast daglega. Ég fékk mér teriyaki kjúkling með vali meðlætis af hlaðborði grænmetis. Þetta var gott í hádegi, stór skammtur, en ekki þungur í maga. Sönn grænmetisæta hefði fremur valið sér lasagna eða böku dagsins. Solla hefur ítrekað fengið fyrstu verðlaun í árlegri samkeppni alþjóðlegra samtaka um þessa tegund heilsumatreiðslu.