Punktar

Óraunhæf óskhyggja

Punktar

Efast um sameiginlegt framboð stjórnarandstöðuflokka. Þegar slíkt hefur verið reynt, kvarnast jafnan úr heildarfylginu. Sannfærðir eins flokks menn vilja ekki kjósa lista með fólki úr öðrum flokkum. Skynsamlegra er að lýsa vilja til samstarfs út á tilgreind atriði sameiginleg. Ég efast líka um heilindi gömlu flokkanna á brýnustu sviðum. Tel Samfylkinguna hafa lítinn áhuga á að siðvæða bankana, bankavinir Árna eru þar sterkir. Tel Samfylkinguna og Vinstri græna hafa lítinn áhuga á innköllun kvótans og uppboði veiðileyfa, hvað þá á nýju stjórnarskránni. Flokkarnir sviku hvort tveggja við lok síðasta kjörtímabils.

Samfylkingin jörðuð

Punktar

Gunnar Smári Egilsson jarðar Samfylkinguna í grein sinni í Fréttatímanum, sem ég tengi við hér fyrir neðan. Verklýðsályktun flokksins er firrt, mælir með enn einni þjóðarsáttinni. Slíkt er ófært meðan ríki og atvinnurekendur standa saman sem einn klettur gegn lífskjörum fólks. Í lokin segir GSE: „Samfylkingin varð hins vegar til á Blair-árunum, þegar hluti vinstrimanna vildi trúa endalokum sögunnar, að stéttaátök liðinnar aldar væru að baki og að við sigldum inn í tíma þar sem sátt væri um öll meginkerfi samfélagsins og að stjórnmál snérust nú frekar um stíl og blæbrigði samfélagsins en átök um réttlæti og jöfnuð.“

SMÁRI

Samfylking segir pass

Punktar

Harmur einkennir skrif í persónumiðlum um formannskjör í Samfylkingunni. Verst líður liðsmönnum formannsins. Fá ekki dulið gremju sína. Það endurspeglar, að útkoman var ekki sigur Árna Páls Árnasonar. Fólk veit, að kallinn hefur aldrei fiskað neitt í kosningum og könnunum. Og mun ekki fiska neitt í náinni framtíð. Blairismi er á útleið sem kjölfesta krataflokka. Og það kann ekki góðri lukku að stýra að hafa bankavin sem formann. Fólk er óðum að fatta, að bankarnir eru eitrið í samfélagi Vesturlanda. Ryksuga fjármagnið og brenna því. Framundan eru hægfara versnandi lífskjör almennings og Samfylkingin segir pass úti á túni.

Táknar ekki neitt

Punktar

Andstaða Samfylkingarinnar við olíuvinnslu norðaustur af landinu er einskis virði þykjustuleikur. Nærtækari er hér á landi stórfelldur umhverfisvandi, sem Samfylkingin sinnir lítt. Andstaðan við olíuleitina er flótti frá veruleika skelfilegrar stöðu íslenzkra umhverfismála. Við þurfum að vinda ofan af þeirri firringu, að hér þurfi að búa til örfá störf með tombóluverði á raforku. Með tilheyrandi umróti og flutningsturnum munu þær framkvæmdir valda stórfelldum skaða á náttúru og þjóðarsál. Í samanburði er olían bara óljós draumur eða martröð, sem fjarar út löngu fyrir framkvæmd. Mannalætin tákna ekki neitt.

Íslenzk pólitík geld

Punktar

Fróðlegt verður að sjá, hvaða stjórnmálaflokkur tekur fyrstur opinberlega stöðu með verkalýðshreyfingunni og hennar hóflegu kröfum. Samfylkingin gerði það ekki á sínum landsfundi, sem hefði þó verið tilvalið. Merki um, að lágstéttir hafa þar í flokki vikið fyrir miðstéttarfólki með lífsstílsvanda. Svipaða sögu er að segja af Vinstri grænum. Einnig þar er horfið sambandið við þá, sem eiga varla til hnífs og skeiðar. Um Bjarta framtíð þarf ekki að tala, hún hefur eingöngu skoðun á ráðherrastólum. Ég er dáldið hissa á pírötum að grípa ekki tækifærið til að gera það, sem hinir stirðnuðu áttu að gera. Íslenzk pólitík er geld.

Sjónhverfingar fyrir túrista

Punktar

Skrítnar eru þessar fyrirhuguðu fornminjar á Selfossi. Þótt forsætis telji, að svona sé gert víða í Evrópu, er það rangt. Þar hafa verið endurbyggðar götur og hverfi eins og þau voru áður. Alls ekki reistar neinar hugdettur um gömul hús. Eftirlíking af miðaldakirkju hefur aldrei verið á Selfossi. Það sem Árborg er að gera er að nýsmíða hugdettur, Pótemkin-tjöld, Disney-land, fyrir túrista. Á sama tíma flýtur kúkurinn frá Selfossi um Ölfusá. Þarna eru að verki menn, sem hvorki hafa tilfinningu fyrir fortíð né sögu. Eru bara sölumenn sjónhverfinga fyrir túrista. Við hæfi er, að sjónhverfinga-forsætis sé hafður með í ráðum.

Skilja ekki – tala hratt

Punktar

Nokkrir ráðherranna eiga svo erfitt með skilning, að þeir lesa upp úr plöggum frá ráðuneytinu án þess að skilja textann. Þetta er mest áberandi hjá Gunnari Braga Sveinssyni. Fyrir bragðið getur ráðherrann ekki útskýrt neitt, þegar saumað er að honum í þingi eða þingnefnd. Einnig áberandi hjá Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Að minnsta kosti þessi tvö þurfa reynda aðstoðarmenn, sem geta sett saman texta, er ráðherra skilur. Stöður aðstoðarmanna mega ekki vera leikvöllur fyrir ungabörn í pólitík. Vandi Vigdísar Hauksdóttir er annar. Eins og Hanna Birna talar hún hraðar en hún hugsar. Getur svo ekki klórað sig út úr útkomunni.

Nýjasta fjáraustrið

Punktar

Nýjasta sparnaðarráð ríkisstjórnarinnar er að fjölga seðlabankastjórum í þrjá. Um leið gefst tækifæri til að ráða tvo menn, sem passa upp á, að bankinn hlýði peningadellum ríkisstjórnarinnar. Til að auðvelda þetta á líka að hvíla leynd yfir nöfnum umsækjenda. Þá verður minni umræða um, hvernig minna hæfir menn eru teknir fram yfir meira hæfa. Þetta er í ósamræmi við kröfu nútímans um opnari stjórnsýslu. Þegar ríkisstjórnin vill svindla og svínast, er peningaskortur engin fyrirstaða. Þegar alþýðan þarf grið fyrir árás stjórnvalda á lífskjörin, eru hins vegar ekki til neinir peningar. Þetta er sjálfvirkt náttúrulögmál.

Lausn húsnæðisvandans

Punktar

Venjuleg viðbrögð pólitíkusa við hærri húsnæðiskostnaði fólks er að skipa nefnd í málið. Auðvitað skipar Eygló Harðardóttir hverja nefndina á fætur annarri í þetta mál. Og frambjóðendur til formennsku í Samfylkingunni segjast vilja finna lausn á málinu. Fáir líta á orsökina: Greiðslugeta fólks minnkar, laun lækka í samanburði við húsnæðiskostnað. Svo er komið í fyrsta sinn um áratugi, að ungt fólk hefur hvorki efni á að leigja né kaupa húsnæði. Einfaldasta leiðin til að leysa málið er að brúa bilið milli launa og húsnæðiskostnaðar. Að knýja fram réttlát laun. Gráðugir auðgreifar hafa efni á að borga hálfa milljón á mánuði.

Endastöð formennskunnar

Punktar

Landsfundurinn var endastöð formennsku Árna Páls Árnasonar. Samfylkingarfólk sér, að hann er lík í lestinni. Kemur ekki á óvart. Mér hefur litizt ógæfulega á gaurinn, síðan hann var ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu. Fannst hann vera of hallur að yfirmönnum bankanna. Kallaði hann „bankavininn bezta“. Árni hafði frumkvæði að svikum við stjórnarskrána nýju og þjóðareign auðlinda. Svo kom í ljós, að Samfylkingin rétti ekki úr kútnum eftir hrakfarir Árna Páls formanns í þingkosningunum 2013. Flokkinn hefur rekið á reiðanum í okkar brýnustu málum. Það eru þjóðarauðlindirnar, stjórnarskráin, sultarlaunin, yfirgangur bankanna.

Peningabófar vaða uppi

Punktar

Síðustu árin hafa 874 dómsmál snúist um glæpafélagið Lýsingu, ógeðfelldasta fyrirtæki landsins. Það er í eigu stóru bankanna eins og Drómi. Þessi tvö félög taka hvorki mark á lögum né dómum og viðurkenna engin fordæmisgildi. Reyna með herveitum glæpahneigðra lagatækna að þreyta fórnardýrin, sem ekki hafa efni á langvinnum málaferlum. Eru minnisvarði um auðnuleysi tveggja fjármálaráðherra, fyrst Steingríms og síðan Bjarna Ben. Engum böndum var komið á bankana eða innheimtur þeirra. Þær eru skipaðar sams konar glæpavörgum og voru fyrir hrun. Stjórnendur og deildarstjórar fjármálastofnana eiga yfirleitt að sitja inni.

Píratar gæti sín

Punktar

Ítrekaðar rosatölur pírata í könnunum ættu að verða þeim áhyggjuefni. Hætta er á, að lukkuriddarar læði sér að flokknum og fari að reyna að taka þátt í opnu starfi hans. Siðblindingjar hafa þefnæmi á pólitíska möguleika og eiga auðvelt með að ljúga sig inn á fólk. Þegar píratar fara að undirbúa kosningar, þurfa þeir að hafa gætur á efstu sætum framboðslistanna. Ekki hleypa þar inn slíku sérhagsmunaliði, sem mun svíkja málin, þegar á hólminn er komið. Fyrir slíku er reynsla. Nægir að minna á Jón Bjarnason og Ásmund Einar Daðason, þegar Vinstri grænir voru að sigla upp á sínum tíma. Til þess eru vítin að varast þau.

Fylgislaus Samfylking

Punktar

Ógæfa Samfylkingarinnar byrjaði með aðild að hrunstjórninni. Æ síðan hefur hún ráfað um í leiðslu. Hefur glatað tengslum við almúgann; fólkið, sem þarfnast hærri lágmarkslauna og betri velferðar og heilsugæzlu. Hefur glatað tengslum við stóru efnahagsmálin, fiskikvóta, auðlindarentu og fiskmarkaði. Hefur glatað tengslum við stóra málið, stjórnarskrána. Er mest í einhverju fúski, svo sem þrengingu gatna og bíllausum lífsstíl. Út á þetta hefur fylgið hrunið og engin endurreisn fengizt út á andstöðu við fífl og fól ríkisstjórnar bófaflokkanna. Mestu máli skiptir, að í kallinn í brúnni hjá Samfylkingunni fiskar ekki neitt.

Fávísi ráðherrann

Punktar

Nú er komið í ljós, að einn ráðherra er alger fálki. Þjösnast í hverju málinu á fætur öðru í óþökk allra, sem um vita, jafnvel stjórnarsinna. Þannig var um náttúrupassann furðulega, sem nánast allir höfnuðu. Nú er það 700 milljóna gjöf til fyrirtækis í eigu frænda fjármálaráðherra. Hún tók ekki mark á athugasemdum efnahags- og viðskiptanefndar alþingis. Tók ekki mark á alvarlegum athugasemdum ríkisskattstjóra. Gerði meira að segja Jón Gunnarsson forviða og er hann þó ýmsu vanur. Ragnheiður Elín Árnadóttir veður samt áfram um rústir mála sinna. Sýnir ítrekað, að hún veldur ekki embættinu. Vinsamlega losið okkur við fíflið.

Hvað – hver – hvernig

Punktar

Sumir skrifa eða tala um mál, aðrir skrifa eða tala um menn. Svo eru þeir, sem skrifa eða tala mest um mál, en fara líka í manninn í leiðinni, misjafnlega mikið. Allt þetta þrennt sést vel á spjallmiðlum á borð við fésbók. Svo er líka til fámennur hópur, sem fjallar mest um, hvernig sé skrifað eða talað um mál. Hvort það sé hæfilega orðað, hvort notuð séu stóryrði utan einhvers ramma hins hæfilega. Þannig hafa allir eitthvað að iðja í bloggi og á fésbók, sem er hið bezta mál. Gott væri þó, að fleiri hefðu ein eða tvenn eða þrenn rök fyrir því, sem þeir fullyrða, burtséð frá meðfylgjandi persónurýni og/eða orðavali.