Punktar

Kvótinn gerður arðbær

Punktar

Ég efast um, að rétt sé að veiða meiri fisk en vísindamenn á Hafró telja rétt. Skömmtun leiðir til umframeftirspurnar, í henni felst verðgildi auðlindarinnar. Samkvæmt markaðslögmálum ber að opna öllum færi á að bjóða árlega í hlutdeild. Allur kvóti verði leigukvóti, sem leiði til auðlindarentu fyrir þjóðina. Einnig er brýnt að skammta aðganginn að hluta til niður á hafnir. Núverandi samþjöppun fyrirtækja leiðir til eyðingar sjávarplássa, sem verður að stöðva. Loks ætti allur fiskur að fara á uppboðsmarkað. Okkur vantar því 1) uppboð á kvóta, 2) skömmtun kvóta á hafnir 3) uppboð á fiski 4) nýja leið til að minnka brottkast.

Lausn Alexanders

Punktar

Þótt Grikkir séu skemmtilegir, er erfitt að lána þangað fé. Grískar framkvæmdir eru oftast ósjálfbærar. Eins og að lána Íslendingum peninga; að lokum fæst ekki króna úr búinu. Spillingin í Grikklandi mátti öllum vera ljós. Ekki sízt stórum bönkum, sem lánuðu þangað peninga. Flest er komið í steik. Ljóst, að Grikkland er ósjálfbært, getur ekki borgað neitt. Samt fela bankar sig að baki Evrópska seðlabankans, Evrópusambandsins og Alþjóðabankans. Heimta að fá að verða teknir úr snörunni. Engin leið er að leysa gríska vandann, hann er í hnút. Aðeins er í boði ein leið, leið Alexanders mikla, höggva á hnútinn, afskrifa grísku lánin.

Möntrur og miðaldir

Punktar

Hér á landi kunna fáir trúarjátninguna. Í kirkjum heyra menn sálma og predikun, sem fer fyrir ofan garð og neðan. Íslam er allt öðruvísi trú. Þar þylja trúaðir í síbylju sömu möntrurnar. Til dæmis Allahu akbar, sem þýðir Allah er mestur. Eða Ilaha illallah, sem þýðir Allah einn er guð. Eða Alhamdulillah, sem þýðir Lof sé Allah. Þetta er sjálfssefjun. Ennfremur er íslam enn miðaldatrú, sem ekki slípaðist af mótlæti endurreisnar og þekkingarbyltingar eins og kristnin neyddist til. Dæmi eru um, að múllar prediki, að sólin snúist um jörðina, eins og klerkar predikuðu á fyrri öldum. Forneskja heftir íslam í nútímasamfélagi.

Gríska klabbið

Punktar

Gríski vandinn er margþættur. Grískir greifar og þjóðin studdu svínaríið, sem brenndi lánsfé frá Evrópu á vegum Evrópusambandsins. Auðvitað náðu greifarnir í 95% gróðans. Þegar svo átti að herða sultarólina, svikust allir undan merkjum. Fátt var framkvæmt af því, sem Evrópusambandinu var lofað. Ennfremur neita lánveitendur að viðurkenna, að þeir beri ábyrgð á sjúkum lánum til Grikklands. Því er málið í steik. Núna frestar stjórn Grikklands að efna nýjustu loforðin við útlandið. Sumpart stafar það af, að ekki er hægt að efna þau. Grikkland er nefnilega ekki sjálfbært. Samt tregðast bankarnir enn við að afskrifa klabbið.

Þú borgar fylleríið

Punktar

Fyllerí Orkuveitunnar á tíma virkjanaæðis leiddi til mikilla skulda, sem lengi hafa hvílt á notendum í Reykjavík. Orkuberandi skuldir hafa verið lækkaðar um fjórtán milljarða á fáum árum. Upphæðin hefur að mestu náðst með hækkun gjalda á neytendur um ellefu milljarða á sama tíma. Almenningur ber því hita og þunga kostnaðar af virkjanafylleríinu á Hellisheiði. Einnig hefur komið þar upp ýmis vandi, svo sem brennisteinsmengun og jarðskjálftar af mannavöldum. Í stað þess að sóa Hverahlíðum til að þjóna svipuðu æði í Reykjanesbæ eru þær látnar mæta rýrnun Hellisheiðarvirkjunar. Jarðhitinn er nefnilega ekki endurnýjanlegur. Þegar Hellisheiðarvirkjun þornar upp, eru Reykvíkingar enn að borga fylleríið.

Þjóðleiðir á vefnum

Hestar, Punktar, Þjóðleiðir

Efni bókarinnar „Þúsund og ein þjóðleið“ er komið hér á síðuna, enda er bókin fyrir löngu uppseld. Raunar eru leiðirnar orðnar 1132 og verða varla fleiri. Þetta er án bókarkortanna af leiðunum. Um þau vísast til bókasafna. Þú kemst í þennan vef gegnum orðið Þjóðleiðir hægra megin á heimasíðunni. Síðan geturðu skráð heiti leiðarinnar í reitinn, sem merktur er LEITA. Munir þú ekki heitið eða manst leiðina undir öðru heiti, geturðu fyrst leitað að nálægri leið og síðan fetað þig áfram eftir orðunum í listunum: Nálægir ferlar eða Nálægar leiðir. Getur líka gert það með að slá fyrst inn heiti landshlutans, t.d. Vestfirðir. Gott væri að fá leiðréttingar og viðbætur í tölvupósti til: jonas@hestur.is

(Ef einhver WordPress sérfróður gæti sett landshlutana (subcategories) í „drop down“ skrunlista undir orðið Þjóðleiðir (category) á heimasíðunni, mundi það einfalda grúsk lesenda)

Alvöru kortagerð

Punktar, Þjóðleiðir

Alvöru kortagerð var lítil hér í nærri heila öld. Herforingjaráðskortin dönsku voru svo frábær, að litlu var þar við að bæta. Voru fagurlega teiknuð í byrjun 20. aldar og sýndu veruleikann. Í endurprentunum var fljótlega farið að falsa kortin að óskum bænda að sovézkri fyrirmynd. Vildu ekki sjá þjóðleiðir í sínu landi. Með tilkomu GPS gervihnattamælinga undir lok 20 aldar fór þetta svo að lagast. Einnig birtust kort ferða- og útivistarstofa sveitarfélaga, árbækur Ferðafélags Íslands og kortavefur Landssambands hestamanna. Ég safnaði slíkum heimildum 2011 í kortabókina Þúsund og eina þjóðleið, sem er uppseld, en fæst á bókasöfnum.

Ljúga ítrekað léttilega

Punktar

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra ljúga ítrekað, að í nágrannalöndunum séu seðlabankastjórar fleiri en einn. Þvert á móti er einn seðlabankastjóri í hverju norðurlandanna og einnig einn í Bretlandi og í Bandaríkjum. Ættu hér á landi að vera þrír seðlabankastjórar jafngilti það 3000 seðlabankastjórum í Bandaríkjunum miðað við fólksfjölda. Bitur reynsla er af ráðningu pólitískra kvígilda í seðlabankann, einkum fyrrverandi flokksformanna. Allt mælir gegn fleiri seðlabankastjórum hér. Athyglisvert er, hversu léttilega ljúga Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, þegar það hentar á líðandi stund.

Lífstílsmál á oddinum

Punktar

Fimm meginmál eru sett á oddinn í ályktun landsfundar Samfylkingarinnar. Aðeins eitt þeirra höfðar til láglaunafólks, fjölgun leiguíbúða. Ekki er þar bent á, hvernig láglaunafólk eigi að borga húsaleiguna. Hin fjögur atriðin höfða til miðstéttarfólks með lífsstíl. Andstaða við borun eftir olíu og þjóðgarður á miðhálendinu eiga að höfða til kjósenda Vinstri grænna. Loks eru tvö hrein lífsstílsmál, lækkun kosningaaldurs og aukinn aðskilnaður ríkis og kirkju. Með þessum fimm höfuðmálum hyggst hin þreytta Samfylking sigla inn í nútíma, sem kallar á annað. Hún kallar á stéttastríð, mannsæmandi laun og auðlindarentu.

Margt sem sameinar

Punktar

Píratar hafa skýrt betur hugmyndina um kosningasamstarf stjórnarandstöðunnar. Hún felur ekki í sér sameiginlegt framboð, heldur samkomulag um grundvöll, stjórnarskrá og lýðræðisumbætur. Ennfremur að þetta samstarf verði til skamms tíma. Með þessum hætti lítur málið mun betur út. Raunar eru fleiri atriði, sem andstæðingar bófaflokka ríkisstjórnarinnar eru sammála um, auðlindarentu, hærri lágmarkslaun og fleira. Eðlilegt er að þreifa fyrir sér um slíkt. Finna síðan eftir kosningar, um hvaða mál næst sami meirihluti og næst um grundvöllinn og þá til lengri tíma. Leitið bara með þolinmæði að því marga, sem sameinar ykkur.

Mikil heift í fámenni

Punktar

Mikil heift getur rúmast í litlum flokki. Samfylkingin vandist því að ráfa um grafarbakkann í friði kirkjugarðsins. Þar hefur engum bátum verið ruggað. Þar hefur fólk ekki klórað sér í höfðinu út af smánarlitlu fylgi við kjöraðstæður, stjórnarandstöðu gegn bófaflokkum. Tveggja turna talið er löngu gleymt. Fólkið pússaði gleraugun sín á ríkiskontórum sínum. Óvænt er svo spýtt í framboð til formanns og þá fá svefngenglarnir hjartaáfall. Rónni hafði verið raskað, æpt er um lúalegt herbragð, þaulskipulagt banatilræði, illvirki, misráðið framboð. Furðulegt er, hversu mikil heift getur rúmast í litlum flokki á grafarbakka.

Örugglega annarlegt

Punktar

Engin ástæða er til að ætla, að málefnalegar ástæður séu að baki frumvarpsins um fjölgun seðlabankastjóra. Að baki Bjarna Benediktssonar eru ætíð annarlegar ástæður. Öll tilvera stjórnarinnar snýst um að þjóna hagsmunum hinna auðugustu. Kvótagreifarnir vilja ljúfari þjónustu bankans í gjaldeyrisviðskiptum. Einnig sker í augu, að tveir af þremur höfundum frumvarpsins eru stjórnarmenn bankans og sá þriðji er úr Eimreiðarhópnum. Bjarni Benediktsson er þarna örugglega að stíga viðbótarskref í yfirtöku Flokksins á helztu stofnunum samfélagsins. Að gefa í skyn málefnalegar forsendur fjölgunar seðlabankastjóra er léleg fyndni.

Stóryrði eru brýn

Punktar

Hjárænulegt er að áminna þingmann fyrir að segja pírata kenna sig við skipulögð glæpasamtök. Fréttnæmt er að vísu, að einmitt þingmaður bófaflokks tali þannig um hjartahreint fólk, en vítavert er það ekki. Allt of mikið er kvartað yfir svokölluðum stóryrðum. Þau eru yfirleitt ekki annað en rétt lýsing á umræðuefninu. Of lengi hefur tíðkast að nota mjálm um glæpi, tala til dæmis um skattasniðgöngu. Í gamla daga var bannhelgi á orðinu krabbamein. Krabbamein íslenzkra stjórnmála felst í, að við völd eru tveir bófaflokkar. Þar af annar skipaður óvenjulega heimsku þingliði, sem minnir á kjósendur þessara flokka. Þetta þarf að orða.

Vinsælir sérfræðingar

Punktar

Töluverð sókn er orðin í háskólamenn, sem fyrir peninga vilja setja nafn sitt undir pappíra. Þetta er til dæmis orðin atvinna fyrir lögfræðinga, sem eru ekki nógu snjallir til að verja fjárglæframenn. Einnig eru hagfræðingar eftirsóttir. Við sáum slíkt plagg, þegar mælt var með þremur seðlabankastjórum, sem valdir væru með leynd. Svo eru líka nokkrir stjórnmálafræðingar, sem skýra tölur úr könnunum með almæltum þvættingi. Þannig hafa birzt fyndnar útskýringar á tölum úr formannskosningu Samfylkingarinnar. Í stað kauplausra nefnda eru nú skipaðir hálaunaðir „sérfræðingahópar“, sem eindregið mæla með þvættingi hagsmunaaðila.

Já-og-amen grein

Punktar

Neytendablaðinu tókst að birta óralanga uppsláttarfrétt um bættar merkingar á mat, án þess að geta um erfðabreytt efni. Þar eru listar yfir það, sem merkja ber, en ekkert minnst á notkun erfðabreyttra efna. Málgagn neytenda minnist ekki á þátt, sem margir vilja vita um. Fróðlegt hefði verið að frétta, hvort skylt sé að merkja slíkt eða ekki og hvers vegna. Neytendasamtökin eru varla á vaktinni. Rétt eins og verkalýðssamtökin eru varla á vaktinni í kjaramálum. Grein Neytendablaðsins var já-og-amen lofgrein um kerfið. Hefði heldur kosið grein um aðgerðir, ef einhverjar eru, gegn leyndinni um erfðabreytt efni í mat.