Punktar

Snerist á punktinum

Punktar

„Auðlindasjóður er nokkuð sem ég hlýt að setja fyrirvara við vegna þess að við erum með sjálfbærar auðlindir.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson, þegar hann var í stjórnarandstöðu. Núna ber hann sér á brjóst og mælir með auðlindasjóði. Það er auðvelt fyrir vindhanann að snúast eftir vindi í 180 gráður á svipstundu. Auðlindasjóður var freistandi áður en Bjarni skipti um skoðun og er það enn. Sjóðurinn þyrfti að vera hannaður að hætti norska olíusjóðsins. Annars mundu Engeyingar bara klófesta hann. Eins og arðurinn af símanum var klófestur, þegar Davíð sagðist reisa hátæknisjúkrahús. Íslenzkur auðlindasjóður þarf að ná yfir auðlindarentu af sjávarútvegi, orku og ferðaþjónustu, sem eru okkar auðlindir.

Hvorki Eva né Jóka

Punktar

Hér varð hrun og það var á vegum bófa í bönkum, embættum og pólitík. Hrunið var hvorki Evu Joly né Jóhönnu Sigurðardóttur að kenna. Nýjustu tilraunir til að endurskrifa sagnfræðina segja, að hér hafi ekki verið hrun og að hrunið hafi verið Evu og Jóhönnu að kenna. Treggáfaðir kjósendur þurfa auðvitað skáldlega fræðimenn til að hugsa fyrir sig. Við því er ekkert að gera, kvótagreifar og einokunargreifar borga hvers kyns rugl. Uppgjör þjóðarinnar við pólitíkusa fór út um þúfur. Pólitískir bófaflokkar eru enn við völd í boði kjósenda. Uppgjör hennar við bankstera stendur yfir í dómsölum. Erfitt er að spá um lyktir þess.

Verst er heimskan

Punktar

Ekki er nóg með, að ráðherrar og þingmenn bófaflokkanna tveggja séu vondir menn með illt í hyggju. Eru líka afspyrnu heimskir, sem er hálfu verra. Ragnheiður Elín hefur beinlínis fjögur handarbök og tíu þumalputta, þegar hún þykist kosta verndun ferðastaða. Sigurður Ingi böðlast um völlinn og gerir allt brjálað og nær engu fram. Gunnar Bragi á í óskiljanlegum bréfaskriftum við kontórista í Bruxelles. Eygló talar um gæzku sína, en enginn bófanna hlustar. Kristján Þór stútaði Landsspítalanum. Illugi er á framfæri orkubófanna. Bjarni eys benzíni á eld verkfalla. Sigmundur er samfellt frík. Vigdís vermir enn varamannabekkinn.

Nautin rása um flagið

Punktar

Aldrei datt mér í hug, að ríkisstjórnin mundi sameina fólsku og fíflsku svona villt. Í tvö ár hafa snargalin nautin rásað um flagið sitt og sparkað því upp um alla veggi. Hafa æst meirihluta þjóðarinnar upp á móti sér. Njóta nú aðeins stuðnings heimskasta þriðjungs þjóðarinnar. Hafa gert ítrekaðar atlögur að heilsufari þjóðarinnar, að víðernum landsins, að launafólki, að þjóðareign á kvóta, að heilbrigðri skynsemi yfirleitt. Ráðherrar reynast hver á fætur öðrum vera fyrirbæri, sem þú vildi ekki sitja með til borðs. Þá er ég ekki bara að tala um forsætis. Tryllt naut í þjónustu greifa hafa breytt lýðræði í þjófræði.

Hafið byrjað að deyja

Punktar

Hópur vísindamanna skrifar grein í fræðiritið BIOGEOSCIENCES um, að hlutar af Atlantshafi séu að deyja. Þar þrífist ekki líf. Fundist hafa 400 misstórir hvirfilstraumar, sá stærsti 150 kílómetrar að þvermáli. Straumarnir framkalla þörungavöxt, sem drepur líf niður á 100 metra dýpi. Fræðimennirnir leiða líkur að þætti loftslagshlýnunar. Smithsonian stofnunin hafði áður gefið út skýrslu um, að 94% dauðu svæðanna séu á stöðum, þar sem hitinn hefur hækkað um tvær gráður á Celcius eða meira. Annars staðar hafa verið leiddar líkur að hnignun Golfstraumsins, sem mundi hafa geigvænlegar afleiðingar við strendur Íslands.

Dýrkeypt er froðan

Punktar

Miði á froðufund í Hörpu um afmæli kosningaréttar kvenna kostar 140 þúsund krónur. Þar mun froðufólk mæta til að hlusta á froðuaðal. Fólk, sem getur látið stofnanir og fyrirtæki borga fyrir sig snobb. Ég efast samt um, að íslenzkar stofnanir hafi ráð á slíku bruðli. Nokkuð er þó um svona viðburði erlendis. Sameiginlegt einkenni er að gefa þotuliði færi á að skilja sig frá plebbum. Færi á að ímynda sér, að það sé eins konar aðall. Annað sameiginlegt einkenni fundanna er, að þeir skipta alls engu máli. Froðufólk hlustar á froðusnakk um, hvað froðuaðall hafi gert mikið fyrir almenning, menninguna og framtíðina.

Þjóðarmorð staðfest

Punktar

Samtök fyrrverandi hermanna Ísraels hafa leitt fram fjölda vitna, sem segja, að herinn hafi skipulagt þjóðarmorð í stríðinu gegn Gaza í fyrrasumar. Hermönnum var sagt að skjóta á allt kvikt. „Ekki gera ráð fyrir, að neinn sé saklaus“, var þeim sagt. Þá var Ísrael sakað erlendis um tilraun til þjóðarmorðs, en stjórn Ísraels neitaði öllu. Nú eru sönnunargögnin að birtast. Því verður nú að draga Ísrael fyrir fjölþjóðadómstól um stríðsglæpi. Framferði Ísraels gagnvart Palestínumönnum hefur lengi verið samfelld SS-grimmd. Sjálfur hef ég í tvígang verið í Ísrael og varð gáttaður á frekju og yfirgangi venjulegs almennings.

Kona velur kónginn

Punktar

Labour nær ekki vopnum sínum þrátt fyrir vonda og óvinsæla Tory ríkisstjórn í Bretlandi. David Cameron hefur skást fylgi í skoðanakönnunum. Ed Milliband er frosinn í  gamla Blair-ismanum, það er „Thatcher light“, og býður ekki nothæft mótvægi við íhaldið. Í kjörinu um sjálfstæði Skotlands gerði Milliband þá villu að standa á forsendum Íhaldsflokksins gegn sjálfstæðinu. Því er Milliband lík í lestinni. Í Skotlandi hefur Skozki þjóðarflokkurinn hreinan meirihluta. Nicola Sturgeon er á réttum stað í pólitík, til vinstri við Verkamannaflokkinn. Hún mun fá alla þingmenn Skotlands á fimmtudaginn og velja ríkinu forsætisráðherra.

Hættið að styrkja ÍR

Punktar

Mér sýnist, að birkið, sem Íþróttafélag Reykjavíkur sagaði við Breiðholtsbraut, hafi verið utan lóðar félagsins. Jafnvel sé gróðaskilti félagsins einnig utan lóðar félagsins. Vandséð er, að borgin komist hjá að fylgja fast eftir málinu gegn félaginu og ruddastjórn þess. Ólíðandi er, að menn komist upp með ofbeldi af þessu tagi. Birki af gerðinni Emblu lifir ekki sögun. Vegamálastjóri neitar ábyrgð, segist hafa bent á að leita þyrfti leyfis borgaryfirvalda. Í stað þess hagar ÍR sér eins og Árni Johnsen, „égummigfrámértilmín“. Borgin á auðvitað að fella niður styrki til gróðafíkla, sem haga sér svo. ÍR er víti til að varast.

Stefnufátækir píratar

Punktar

Mikið vantar uppá, að Píratar hafi stefnu á ýmsum sviðum, sem helzt brenna á þjóðinni. Í Grunnstefnunni er ekki minnst á stjórnarskrána, sem þjóðin samdi og var síðan svikin um. Þar er ekki minnst á kvótann, né nein atriði þess máls, svo sem uppboð á kvóta og fiski. Þar er ekki minnst orði á auðlindir, hvað þá þjóðarauðlindir, svo sem orku, fisk og ferðamenn. Þar er ekki minnst á banka og hlutverk þeirra í náinni framtíð. Þar er ekki minnst á framtíð tolla. Þar er ekki minnst á framtíð velferðar og ekki á jöfnun lífskjara. Að öllu samanlögðu er afar margt ósagt í grunnstefnu pírata. Gott er þó, að píratar vilji gagnrýna hugsun, réttindi og frelsi, gegnsæi og ábyrgð, svo og bætt lýðræði. Út frá þeim grunni má mynda stefnu á öðrum sviðum.

MMR sannar Gallup

Punktar

Könnun MMR sannar könnun Gallups. Sjálfstæðis er orðinn 20% flak, Framsókn er 10% flak. Samanlagt hafa bófaflokkarnir innan við þriðjungs fylgi. Hefðbundna andstaðan nær engu flugi, Samfylkingin og Vinstri græn eru hvor um sig 10% flök eins og varahjól fjórflokksins, Björt framtíð. Flugið er bara hjá Pírötum, sem nú þurfa sannarlega að gæta sín vel. Í 30% flokkinn flykkjast „kjörþokkalitlir smáflokkaflakkarar“ að freista gæfunnar. Píratar þurfa sjálfir, án flakkara, að koma sér upp stefnu í stjórnarskrá, kvóta, þjóðarauðlindum, stóriðju, bönkum, velferð og jöfnuði. Hafa lítinn tíma til að afla sér stefnu til að halda fylgi.

Uppnefndur pilsfaldur

Punktar

Nýjasta newspeak bófaflokkanna í ríkisstjórn er „fyrirsjáanleiki“, sem áður hét pilsfaldur ríkisins eða pilsfaldakapítalismi. Það er sú séríslenzka andúð á frjálsum markaði, sem lýsir sér í, að ríkið skuli tryggja gróðafíklum gróðann. Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra segir, að fyrirsjáanleiki sé nauðsynlegur í því, sem áður hét kvótasetning. Núna heitir hún „hlutdeildarsetning“, samkvæmt newspeak. Kvótagreifarnir, sem kosta og eiga bófana og bófaflokkana tvo, hafa lengi hatað frjálsan markað meira en nokkurt annað fyrirbæri. Til þess að leyna sínum sósíalisma andskotans tala bófarnir newspeak á borð við fyrirsjáanleika.

Græðgisvæðing Isavia

Punktar

Þegar einokunarstofnunum ríkisins er breytt í opinber hlutafélag, er einokunin græðgisvædd. Markmið græðginnar taka við markmiðum almannaheillar. Öll spjót eru höfð úti við að reyna að misnota einokunina. Gott dæmi er Isavia. Þar er gráðugur forstjóri, sem talar um, að starfsmenn þurfi að vera graðir, það er væntanlega tillitslausir. Nú reynir einokunin að láta leigubílstjóra borga hagsmunagjald fyrir að fá að taka upp farþega fyrir utan Leifsstöð. Isavia og aðrar stofnanir, sem hafa verið hlutafélagavæddar á liðnum árum, þurfa aftur að verða stofnanir. Þannig verður hindrað, að almannaheill víki fyrir ofurgræðgi.

Hún er líka hættuleg

Punktar

Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur lagt tvö raforkulög fyrir alþingi. Markmiðið er að reyna að hindra, að jarðstrengir leysi raflínuturna af hólmi. Þau þrengja jarðstrengjakosti og takmarka getu sveitarfélaga til að verjast ágangi hins illræmda Landsnets. Ætla mætti, að raflínuturnar séu kirkjur eða helgistaðir orkuráðherrans, þvílíkar mætur hefur hún á þeim. Vill einkum koma þeim fyrir á friðuðum og öðrum viðkvæmum svæðum á Sprengisandi, í Öxnadal og Skagafirði og á Reykjanesskaga. Sér í lagi vill hún, að Hafnfirðingar fái að njóta turnanna. Ragnheiður Elín er ekki bara bjáni, heldur er hún líka hættuleg landi og þjóð.

Þriðji heimur hér

Punktar

Landlæknisembættið hefur fundið út, að þeim fjölgar ört, sem fresta eða neita sér um læknisþjónustu. Hvort tveggja er vegna aukinnar fátæktar. Einkum reynist þetta vera unga fólkið. Jafnframt fjölgar þeim ört, sem ekki taka út lyf vegna aukinnar hlutdeildar sjúklings í kostnaði. Landspítalinn er hættur að nota ný lyf, sem virka. Notar í staðinn ódýrar Afríkubirgðir gamalla lyfja með vondar aukaverkanir. Aðstæður á spítalanum eru ekki lengur vestrænar, heldur eins og í sjúkraskýli á styrjaldarsvæðum Sýrlands. Galin ríkis stjórn rænir og ruplar öllu lausafé. Fórnar meira að segja sjúklingum til að safna fyrir kvótagreifa.