Punktar

Hrun heimsveldis

Punktar

Bandaríkin nutu þrjátíu ára sigurgöngu gegnum tvær heimsstyrjaldir, þegar þau gerðust heimsins eina heimsveldi. Síðan lágu þau fimmtán ár á lárviðarsveigum. Megnuðu aðeins jafntefli við geðsjúklingana í Norður-Kóreu. Var upphafið að endalokunum, sem hafa verið sýnileg í hálfa öld. Birtust fyrst í ósigrinum í Víetnam og síðan í ósigrum víða um heim. Latneska Ameríka gerðist þeim mótdræg eftir byltingu Kissinger í Chile. Stríð töpuðust í Miðausturlöndum gegn Íran, Afganistan og Írak. Stríðið fyrir grænu vori múslima tapaðist líka, verst í Sýrlandi. Þar veit enginn lengur, hver styður hvern til hvers, hvað snýr upp eða niður.

Hið Íslenzka Þjóðvarðlið

Punktar

Slysist Sigmundur Davíð til að lesa fréttir af fylgi Framsóknar í könnunum, sér hann tölur á borð við 8,5% og 8,6%. Hann þarf því að grípa til örþrifaráða. Útlendingahatur er efst á blaði, hefur fleytt æstum þjóðrembuflokkum í stjórnir Noregs, Finnlands og Danmerkur. Leið til viðbótar er eina hugmyndin, sem Guðni „bakviðeldavélina“ fékk á sínum ráðherraferli. Ráð er fyrir Sigmund að stofna Hið Íslenzka Þjóðvarðlið. Yrði skipað hestvönu fólki í ofurskrautlegum búningum á baki vel hirtra hesta. Sigmundur mundi hanna búningana. Varðliðið yrði notað við þjóðrembdar hræsnishátíðir, á dýrðarfundum SDG og BB í Hörpu og til að ganga fram af erlendum tignargestum.

„1984“ er komið aftur

Punktar

Líklega árið 1954 náði ég í skáldsöguna „1984“ eftir George Orwell í þýðingu Thorolfs Smith og Hersteins Pálssonar. Sagan hafði sterk áhrif á mig, stuðlaði að miðlægri hugsun. Varð frábitinn „newspeak“ hvers kyns isma og Sovétríkjunum, sem voru helzta fyrirmynd hryllingsheims Orwells. Síðan hef ég verið frábitinn ídeólógíum. Bókin hefur lengi verið uppseld og kemur núna út í nýrri þýðingu Þórdísar Bachmann, sem mér virðist ágæt. Vonandi kemst ungt fólk í tæri við þá bók, sem er til þess fallin að slá á hugsjónakerfi. Leiða ætíð til ills. Nú er „newspeak“ úr „1984“ aftur á uppleið, að minnsta kosti hjá ríkisstjórn okkar.

Tími farísea liðinn

Punktar

Píratar eru ekki bara í hæstum hæðum samkvæmt nýjustu könnun MMR, heldur bæta þeir við sig. Komnir með meira fylgi en samanlagðir flokkar ríkisstjórnarinnar. Píratar með 34%, Sjálfstæðis með 21% og hinir flokkarnir með 11% hver. Ég efast um, að þetta raskist í náinni framtíð og alls ekki vegna hávaðans við 17. júní fínimannaruglið á Austurvelli. Það er einfaldlega ekki nóg fylgi við hræsni og yfirdrepskap gamla tímans. Tími faríseanna er liðinn, þótt nokkrir signi sig og sveii í blogginu. Fólk er komið með upp í kok af bófum og bjánum ríkisstjórnar og þingflokka hennar. Fjöldinn sér, að þetta er andstyggilegt lið þjóðníðinga.

Æsið ekki fíkilinn

Punktar

Fréttablaðið gerði okkur óleik með því að veifa brennivínsflösku framan í róna og segja áfengið vera guðaveig. Skoðanakönnun um vinsæla dreifingu á prentuðum seðlum hefur sömu áhrif á sannfærðan lýðskrumara. Hann fær kosningaskjálfta að sjá færi á að kaupa kosningar. Sigmundur Davíð fær stjörnur í augun. Auðvitað má undir engum kringumstæðum prenta hér froðuseðla til að framkalla annað hrun. Krónur eigenda þrotabúa bankanna eru bara froðukrónur, tekjudæmi í excel á móti skuldadæmi í excel. Froðukrónur nýtast bara til að lækka hrunskuldir. Að segja fíklum eitthvað annað er ávísun á vandræði. Einkum ef fíkillinn er valdamikill.

Sáttir við kúgun

Punktar

Meira en átta áratugir eru síðan Halldór Laxness gaf þjóðrembdum afkomendum víkinga þessa hárnákvæmu einkunn: „Það er álitið að fáar þjóðir hafi þolað kúgun og yfirgang af meiri kurteisi en Íslendingar. Um aldaraðir alt fram á þennan dag lifðu þeir í skilningsríkri sáttfýsi við kúgun, án þess að gera nokkru sinni tilraun til uppreistar. Eingri þjóð var byltingarhugtakið jafn hulið. Ævinlega voru Íslendingar reiðubúnir að kyssa þann vöndinn er sárast beit og trúa því að kaldrifjaðasti böðullinn væri sönnust hjálp þeirra og öruggast skjól.“ Ef Halldór bara vissi, að þrælslundin er enn magnaðri núna.

(Sjö töframenn. Ósigur ítalska loftflotans í Reykjavík 1933)

Rotnun stéttarfélaga

Punktar

Hratt vex rotnun stéttarfélaga. Lífeyrissjóðir þeirra eru komnir í samstarf við Heiðar Má Guðjónsson fjárglæframann um Framtakssjóð. Hann á að fá tíu milljarða startfé af eigum lífeyrisþega. Áður voru sjóðirnir komnir í sæng með umdeildu sjúkrahóteli Ásdísar Höllu Bragadóttur í kvartmilljarðs villunni. Á sama tíma halda sjóðirnir ekki uppi verðgildi á greiðslum til lífeyrisþega. Félögin eru orðin svo samansúrruð einkavinavæðingunni, að þau glata tilfinningu fyrir hag félagsmanna. Í vor lögðu þau fram hlægilega lágar kröfur og gerðu handónýtan samning um óverðtryggð laun. Eins og svefngengill horfði Sigurður Bessason bara brostnum augum í tökuvélar sjónvarps.

Flissandi kontóristinn

Punktar

Steingrímur Ari Arason flissaði undirfurðulega í Kastljósi. Gat ekki útskýrt, hvers vegna Sjúkratryggingar Íslands halda verndarhendi yfir Sinnum. Lýsingar á skorti á hreinlæti og friðsæld á sjúkrahóteli þess skera í merg og bein. Hann virðist ákveðinn í að vernda einkavinavæðingu í þágu Ásdísar Höllu Bragadóttur. Hún kaupir sér kvartmilljarðs villu fyrir ríkispeninga, sem betur væri varið á vegum Landspítalans. Eftir Kastljósið eru augu fólks að opnast. Það sér, að ríkisstjórnin er að rústa heilsu fólks í þágu einkavina sinna á borð við Ásdísi Höllu. Sinnuleysi Kristjáns Þórs Júlíussonar ráðherra er hornsteinn atlögunnar.

„Vér mótmælum öll“

Punktar

Flest árin hefur sautjándi júní verið hvimleiðasti dagur ársins. Þjóðrembingar þenja sig á torgum og ljúga um ágæti forveranna. Pabbar kaupa blöðrur og börnin éta heimsins verstu pylsur. Lúðrasveitir þramma út úr takti. Sú breyting varð árið 2009, að stjórnarfari var mótmælt og gert hróp að forsætisráðherra. Nú á aftur að lífga upp á daginn og nota hann til að láta valdastéttina heyra það. Frábært er, ef í vana kemst að nota daginn til að gera eitthvað, sem skiptir máli. Sérstaklega ef það til hátíðarbrigða reitir þjóðrembingana til reiði. Einkunnarorð dagsins minna á Jón Sigurðsson og segja: „Ríkisstjórnin burt – vér mótmælum öll.“

Brennuvargur yppir öxlum

Punktar

Í gær höfðu Landspítalanum borizt 42 uppsagnir hjúkrunarfræðinga og 21 uppsögn geislafræðinga. Þar er hálf hjarta- og lungnaskurðdeildin. Öll gjörgæzludeildin í Fossvogi er á leiðinni út. Fleiri uppsagnir munu berast fyrir mánaðamótin. Þetta eru rústirnar, er Kristján Þór Júlíusson heilsuráðherra yppir öxlum yfir. Hann hristir sig svo á alþingi og vísar vandanum til stjórnenda Landsspítalans. Brennuvarginum sjálfum kemur auðvitað þessi bruni ekkert við. Er bara hryggur út af sjúklingunum, guð blessi þá. Kristján Þór er fulltrúi grimmdarstefnu á ofstækiskantinum. Hyggst rústa Landspítalanum til að rýma fyrir einkarekstri.

Hagspeki loddarans

Punktar

„Án íslensku krónunnar hefði ekki verið hægt að afnema gjaldeyrishöft með þeim hætti sem gert var.“ „Þó að hún hafi verið rót vandans, þá er hún líka stór hluti af lausninni.“ Spekin er höfð eftir hagfræðingum Sigmundar Davíðs, þeim Benedikt Gíslasyni og Sigurði Hannessyni. Krónan er semsagt frábær, því að hún leysti vandann, sem hún skóp! Slík rökfræði þekkist aðeins í Framsókn. Að auki er tvennt athugavert. „Lausnin“ fólst í, að allri súpunni var slengt á herðar almennings með gengislækkun upp á 30% kjararýrnun. Semsagt ekki lausn fyrir almenning. Í öðru lagi hafa höftin ekki enn verið afnumin, þau voru hert núna á flotta fundinum í Hörpu.

Drukkin, veik eða andsetin

Punktar

Fyrrverandi kjósendur Sjálfstæðis og Framsóknar frá 2013 bera ábyrgð á volæði þjóðarinnar. Aðeins fimm árum eftir hrun völdu tugþúsundir kjósenda að binda trúss sitt við bófa og bjána. Samkvæmt skoðanakönnunum hafa þessar tugþúsundir núna séð að sér. En það nægir ekki að krossa sig í leyni. Hvort sem þetta fólk var drukkið, fárveikt eða andsetið árið 2013, þá ber það prívat og persónulega ábyrgð á lönguvitleysu ríkisstjórnarinnar árið 2015. Ábyrgð á fátækt hálfrar þjóðarinnar. Ábyrgð á flótta þúsunda í öryggi og hálaun norðurlandanna. Ábyrgð á innleiðingu stjórnarfars gerræðis, þjófræðis og auðræðis í stað lýðræðis.

Smánarsamningar renna út

Punktar

Orkuverð til stóriðju er hér á landi með því lægsta í heimi. Svipað og í þeim þriðja heims löndum, þar sem sjálfstæðis- og framsóknarpólitíkusar staðarins lifa á mútum auðhringa. Verðið hér er 20 dollarar á megawattstundina. Sem betur fer byrja smánarsamningarnir að renna út árið 2019, eftir fjögur ár. Mikilvægt er að koma því á framfæri á heimsvísu, að orkan verði boðin út og að núverandi bræðslur fái þar engan forgang. Gefa þarf hæstbjóðandi lysthafendum góðan tíma til að koma sér fyrir í tæka tíð fyrir árið 2019. Tími tombóluprísa á raforku er liðinn og nú er kominn tími til að þjóðin fái auðlindarentuna í sinn hlut.

Vantraust á hagfræðingum

Punktar

Þeim fækkar, sem vilja taka tölur hagfræðinga fram yfir sýnilegan veruleika. Enda eru tölurnar meira eða minna ímyndaðar. Byggja á vísvitandi rangri notkun hugtaka, vísvitandi vali grunnpunkta og villtri extrapólun. Tölurnar byggjast á trúarbragðakerfum, þar sem spámenn koma og fara. Dæmi eru tölur um jöfnuð í samfélaginu. Þótt vaxandi ójöfnuður eigna sé vel sýnilegur, kjósa hagfræðingar ímyndaðar talnarunur. Þótt versnandi lífskjör og fátækt láglaunafólks séu vel sýnileg atriði, kjósa hagfræðingar ímyndaðar talnarunur. Þótt gjaldeyrishöftin séu sýnilega vaxandi, kjósa hagfræðingar að kalla það losun gjaldeyrishafta. Þótt hrun krónunnar hafi sýnilega flutt byrðar hrunsins yfir á almenning, kjósa tveir brenglaðir hagfræðingar að segja krónuna hafa verið sjálfa lausn vandans.

Tví-, fjór- og fimmflokkur

Punktar

Munur er á fjórflokki, fimmflokki og tvíflokki. Allir eru þeir þjóðarböl, en ekki allir jafn róttækt. Tvíflokkur ríkisstjórnarinnar er hreinn bófaflokkur. Er ógeð, sem með gerræði reynir að breyta lýðræði í auðræði. Fjórflokkurinn er ekki bófaflokkur, en gagnslaus í ríkisstjórn. Þar svíkur hann brýnustu loforð sín svo sem auðlindarentu og stjórnarskrá fólksins. Í stjórnarandstöðu er hann aftur á móti brúklegur. Fimmflokkurinn er svo raunar sama og fjórflokkurinn, svíkur á örlagastundu, þegar kemur að árekstrum almanna- og sérhagsmuna. Eini flokkurinn utan þjóðarböls tví-, fjór og fimmflokksins er flokkur pírata.