Punktar

Byltingin er hafin

Punktar

Byltingin er hafin í þeim tveim ríkjum, sem auðhyggjan lék verst, Bandaríkjunum og Bretlandi. Mun ekki sigra í fyrstu atrennu, en hugsanlega nær Bernie Sanders forustu í flokki demókrata og Jeremy Corbyn í Labour. Að baki þeirra stendur þétt fylking fólks, sem fattar stóra svindlið, yfirtöku auðræðis á lýðræðinu. Auðræðið á alla þingmenn og forseta Bandaríkjanna og svipað er í Bretlandi, þar sem Tony Blair sveik alþýðuna í hendur greifanna. Hér eru sömu hræringar. Unga fólkið fattar, að vitlaust er gefið í spilunum, treystir ekki stétt pólitíkusa. Unga fólkið hjá pírötum mun taka við og leiða okkur inn í spennandi framtíð.

Píratar verjist brögðum greifanna

Punktar

Píratar verða auðvitað að gæta sín á kvótagreifum, sem munu hafa samráð um að bjóða ekki upp kvótann hver fyrir öðrum. Nauðsynlegt er að hafa útboðsmengi svo lítil, að nýliðar geti boðið, til dæmis eigendur smærri veiðiskipa. Og útboðin þurfa að vera svo fjölþjóðleg, að útlendir geti boðið. Ef ekki verður passað upp á slík atriði, munu kvótagreifar hafa ríkisstjórn pírata að fífli. Þetta eru gamalreyndir stríðsmenn og munu nota öll brögðin í bókinni til að hindra gagnsemi útboðanna. En þannig er með öll lög og reglur, það mikilvægasta verður í smáa letrinu. Ég efast ekki um, að píratar muni hafa gagnaðgerðir á hreinu.

Næsti bær við helvíti

Ferðir, Punktar

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á að vera hlý, bjóða gesti velkomna með íslenzkum vörum og góðri þjónustu. Ekki næsti bær við helvíti með froðufellandi græðgi við hvert fótmál, löngum biðröðum og skítalykt. Leifsstöð á ekki að vera þriðji heimurinn, heldur næsti bær við himnaríki. Þetta mundi stofnunin skilja, væri hún ríkisstofnun. En hún hefur verið hlutafélagavædd, ráðið sér snarvitlausan forstjóra, sem froðufellur af græðgi, hatar starfsfólkið og skilur ekki bofs í gildi íslenzkrar menningarsögu. Isavia er gangandi auglýsing gegn einkavæðingu, rétt eins og Strætó. Eruð þið ekki orðin langþreytt á vitfirringu hlutfélaga?

Píratar með einu lausnina

Punktar

Píratar eru alveg með þetta. Búnir að leggjast yfir kvótakerfi sjávarútvegsins. Komust að nákvæmlega réttri niðurstöðu í einu allra brýnasta máli okkar: Allar aflaheimildir boðnar upp á frjálsum markaði, leigugjaldið renni til ríkisins og öll úrslit uppboða verði opinberar upplýsingar. Þetta hefur enginn flokkur áður þorað að segja, enda eru þeir ónýtir til góðra verka. Píratar vilja lögfesta auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar, sem fimmflokkurinn stakk undir stól. Þeir vilja, að allar handfæraveiðar verði frjálsar. Píratar hafa fattað, að uppboð leiða í ljós, hver sé rétt auðlindarenta. Óþarfi sé að rífast um hana eða sitja áfram undir orgi og áróðri kvótagreifa. Bravó, píratar, þið valtið yfir bófana.

Þétt skipuð fávitum

Punktar

Tvö fjölþjóðasamtök hafa verið sprengd að innan og gerð að fífli. Þýzkaland eyðilagði Evrópusambandið með aðförinni gegn Grikklandi. Lætur gríska plebeja borga glæfra þýzkra banka með grískum auðgreifum. Bandaríkin eyðilögðu viku síðar Atlantshafsbandalagið með aðförinni að Kúrdum. Styðja loftárásir Tyrkja gegn Kúrdum undir því yfirskini, að þær séu stríð við ISIS. Samt eru Kúrdar virkustu andstæðingar ISIS. Rústun tveggja bandalaga á einni viku sýnir glöggt, að vestrænt stjórnkerfi stuðlar ekki að viti bornum leiðtogum. Þvert á móti er forusta hins vestræna heims þétt skipuð fávitum. Jafnvel Merkel virkar ekki.

Mestu sukkararnir

Punktar

Fróðlegt væri, að fjölmiðill listaði upp pólitíkusa, sem stýrðu landsins verstu athafnaórum, Landeyjahöfn, Hellisheiðarvirkjun og Vaðlaheiðargöngum. Þetta eru þrjú verstu dæmin um spillt brall verktaka og pólitíkusa í kjördæmapoti. Nýja  sukkið er í Vaðlaheiði, sem átti að vera einkaframkvæmd, en hefur þegar kostað ríkið fimm milljarða, sem aldrei fást til baka. Verði haldið áfram með göngin, munu þau kosta skattgreiðendur tuttugu milljarða. Frægt er, að Kristján Þór, Steingrímur J. og Kristján Möller voru á kafi í potinu, en fleiri tóku þátt. Við þurfum svo að muna, hvaða slíkir potarar verða næst í framboði til valda.

Illugi missti málið

Fjölmiðlun, Punktar

Illugi Gunnarsson lenti í vanda eins og Hanna Birna. Hún í valdníðsluvanda og hann í mútuvanda. Sambúð Illuga og Orku HS komst í hámæli, hagsmunagæzla hans í Kína, húsnæðisreddingar og undarlegar ofurgreiðslur Orku til hans. En þróunin var önnur hjá Illuga. Hanna Birna laug og þagði á víxl. Þegar fyrri lygi var götuð af fjölmiðlum, bauð hún upp á nýja lygi, sem einnig var götuð. Þannig drap hún sig pólitískt á rúmu ári. Illugi hefur annan háttinn á. Varð málstola, þegir út í eitt. Talar aðeins við fjölmiðla með því skilyrði, að þeir nefni ekki Orku HS. Hann kemst upp með það, því að fjölmiðlar eru orðnir fótaþurrka.

Í húsi Davíðs eru ýmsar kompur

Punktar

Gæti verið nýr flokkur eða annað hvort Framsókn eða Sjálfstæði eða báðir saman. Þjóðrembuflokkur Davíðs, Ólafs Ragnars og Moggans getur víða leitað fanga. Þar rúmast útlendingahatarar og múslimahatarar, Evrópu- og evruhatarar, hatursmenn erlendra skuldbindinga um samstöðu. Þar rúmast Heimssýn, sjónvarp Ínn og útvarp Saga og burðarásinn væri auðvitað Mogginn. Fjárhaldsmenn yrðu auðvitað greifar, sem vilja sjálfir nota evru og láta pöpulinn hata evru. Gæti samkvæmt evrópskri reynslu fengið 20% fylgi. Stokkið upp í 30%, ef eitthvað alvarlegt gerðist, sem æsir upp undirliggjandi hatur í samfélaginu. Leiðarar Davíðs stefna að þessu.

Davíð býr til Ólafsflokk

Punktar

Mogginn hefur á einni viku tekið sérstöðu í tveimur málum. Fyrst vildi Davíð haga seglum eftir vindi í utanríkismálum. Segja skilið við samstöðu vestrænna ríkja og vernda Rússlandsviðskiptin. Síðan vildi Davíð herða andstöðuna við innflutning útlendinga. Þjóðremban tengir þetta tvennt saman. Sama fólkið hatar  hælisleitendur og siðmenntuð vestræn ríki. Davíð telur þau sitja á svikráðum við okkur. Á þar samleið með Heimssýn, sem einkum hatar samband Evrópuríkja. Allt tengist saman í ferli Ólafs Ragnars Grímssonar. Fjárhaldsmenn þessa flokks eru kvótagreifar, sem telja hatur á útlandinu beztu leiðina til að varðveita þrælatökin.

Eygló í mótvæginu

Punktar

Reynslan sýnir, að húsaleigubætur virka ekki, því að leiga hækkar til jafns við bætur. Samt ákvað Eygló Harðardóttir að ganga gegn ótal nefndum, sem hún hefur skipað á ráðherraferli sínum. Vandinn felst ekki í skorti á mótvægisaðgerðum, heldur í skorti á launatekjum. Fólk hefur einfaldlega of lág laun til að kaupa íbúð. Nær er að hækka lágmarkslaun upp í 500.000 krónur á mánuði. Hins vegar er það stefna ríkisstjórnar greifanna, að laun megi ekki hækka meira á þremur árum en upp í 300.000 krónur. Lágmarkslaun gilda í mörgum ríkjum heims. Því að vesæl stéttarfélög hafa sjálf misst allan mátt til að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna.

Flokkar deyja – málin lifa

Punktar

Nánast dautt er hefðbundna vinstrið, sem áður stóð fyrir velferð. Samfylkingin og Vinstri græn eru og verða áhrifalitlir 10% flokkar. Á sama tíma mælist 90% eindreginn stuðningur við málefni þeirra, heilbrigði, skóla og húsnæði fyrir alla. Grimmd og græðgi, einkavinavæðing og pilsfaldur fyrir gæludýr Sjálfstæðis og Framsóknar njóta lítils sem einskis fylgis. Kjósendur treysta ekki vinstrinu fyrir þess eigin málum. Jafnvel ekki hinni sívinsælu Katrínu Jakobsdóttur. Fólk óttast líklega Árna Pál og Möller, Steingrím og Ögmund. Treystir pírötum betur til að leysa hin himinháu vandræði heilbrigðis og skóla og húsnæðis fyrir alla.

Þeir gjaldfelldu sig

Punktar

Þegar kratískir pólitíkusar taka upp orðfæri hægri sinna til að höfða til miðju kjósenda, gjaldfella þeir velferðina. Þegar þeir styðja bankstera gegn fólkinu, gjaldfella þeir fólkið. Þegar þeir dressa sig upp og segjast tilbúnir í stjórn með bófunum, gjaldfella þeir heiðarleika. Þess vegna eru Árni Páll Árnason og Guðmundur Steingrímsson búnir að vera. Eru orðnir eins konar Vigdís light. Þeir gera grimmd og græðgi gjaldgengar og þeir gjaldfella velferð. Þannig varð líka Samfylkingin sem heild í stjórn Geirs H. Haarde. Varð hluti af helreið grimmdar og græðgi í íslenzku samfélagi. Sem normalt væri hallt undir norræna velferð.

Miðjan færist til

Punktar

Tony Blair taldi brezkum krötum trú um, að þeir yrðu að fara inn á miðjuna, þar sem kjósendur væru. Labour gerðist Thatcher light, en kjósendur færðu sig meira til hægri. Þannig fer, þegar menn elta fylgi, er vill vera milli aðalflokkanna, hvar sem miðjan er hverju sinni. Útkoman var, að opinber þjónusta í Bretlandi varð lakari en á Vestur-Evrópu, svo sem sjúkrahús og skólar. Leiddi til spennu í Labour, sem lýsir sér í vinsældum Jeremy Corbyn. Hann höfðar til þeirra, sem vilja ekki, að Bretland verði þriðja heims ríki græðgi og grimmdar. Sama ferli er að baki vinsælda Bernie Sanders í Bandaríkjum, afturhvarf til Roosevelt.

Makríl-æsingurinn er froða

Punktar

Evrópusambandið stendur ekki fyrir viðskiptaþvingunum á Rússland. Bandaríkin höfðu frumkvæði gegnum Nató og þrýstu á tregt Evrópusambandið að vera með. Því er rangt hjá Bjarna Benediktssyni og Vigdísi Hauksdóttur að kenna Evrópu um vanda Íslands. Málið í heild er uppæsingur úr Davíð Oddssyni. Allt árið hefur verið samdráttur í sölu makríls til Rússlands og verð farið lækkandi. Rússland er vita staurblankt og hefur ekki ráð á að kaup makríl af okkur. Viðskiptabannið á makríl er tæpast hefnd. Fremur er það hluti af gjaldeyrissparnaði Pútíns, sem auðvitað grípur til markaðsaðgerða, sker niður innflutning matvæla. Grátur kvótagreifa vegna viðskiptaþvingana er tilbúningur að venju.

Þetta eru terroristarnir

Punktar

Meginstefna ríkisstjórnarinnar er að rústa ríkinu. Heldur ekki uppi eftirliti með skattsvikum, til dæmis í skattaskjólum og ferðaþjónustu. Tefur líka bætta inniviði ferðamála fram og aftur til að framkalla kaos. Notar sams konar tafir í endurbótum á húsnæðismálum ungs fólks. Skapar óvissu í opinberum störfum með efnisrýrum hótunum um að flytja stofnanir út og suður. Sýnir Landspítalanum algert áhugaleysi. Þetta er ekki bara leti og vangeta ráðherra, heldur markviss stefna að rústa ríkinu sem mest. Búa í haginn fyrir yfirtöku greifa á verkefnum ríkisins, sjá til dæmis sjúkrahótel Ásdísar Höllu. Þetta eru terroristarnir.