Punktar

Ráðamenn kúgaðir ramba

Punktar

Með því að reyna að kúga ráðamenn vinveittra ríkja til stuðnings við Íraksstríð gegn vilja kjósenda hinna vinveittu ríkja hefur George W. Bush skaðað ráðamennina. Hann hefur eyðilagt Tony Blair í Bretlandi og Jose María Aznar á Spáni. Hann hefur grafið undan Recep Tayyip Erdogan í Tyrklandi og Pervez Musharraf í Pakistan. Hvarvetna hafa ráðamenn þurft að velja milli eindregins almenningsálits heima fyrir og undirgefninnar við heimsvaldastefnuna. Þeir fáu, sem hafa kosið að fylgja Bush, munu aldrei bíða þess bætur heima fyrir. Þessi augljósi vítahringur fækkar stuðningsmönnum Bandaríkjanna og einangrar Bandaríkin. Og ekki munu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ríða feitum hesti frá stuðningi þeirra við trúarofstækismann með einbeitta stríðsþrá.

Hvers á Símon að gjalda?

Punktar

Simeone Saxe-Coburg Gotha, forsætisráðherra Búlgaríu, var ekki hafður með á þríveldafundinum á Azoreyjum, þar sem George W. Bush frá Bandaríkjunum lagði Tony Blair frá Bretlandi og Jose María Aznar frá Spáni lífsreglurnar. Skemmtilegra hefði verið að hafa fullt hús allra þeirra stríðsglöðu, sem vilja árás á Írak án samþykktar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Alls eru fjórar ríkissjórnir þeirrar skoðunar í öryggisráðinu, en ekki þrjár. Spurningin er, hvers á Símon að gjalda?

CNN er vondur fréttamiðill

Punktar

Dögum saman hefur sjónvarpsstöðin CNN sagt, að Jose María Aznar sé forseti Spánar, þótt allir aðrir viti, að Spánverjar hafa kóng og að enginn hefur kóng og forseta í senn. Fáfræði fréttamanna stöðvarinnar og sérbandarískt sjónvarhorn eru oft það eina, sem ferðamenn hafa sér til upplýsingar í útlöndum, ef þeir skilja ekki mál landsins og hafa ekki aðgang að heimspressunni eða internetinu. CNN er gott dæmi um, að sjónvarpið er fremur leikhús en fréttamiðill og að andlitin á skjánum eru fremur leikara en fréttamanna. Í gamla Persaflóastríðinu tókst stöðinni að telja mönnum trú um, að það væri fréttamiðill, sem sýndi stríð í beinni útsendingu. Í rauninni var stöðin að sýna falsaðar og fyrirfram gerðar myndir frá bandaríska hernum. Í yfirvofandi stríði fáum við enn betur að sjá, hvernig sjónvarpsstöðin þjónar bandarískum hagsmunum með enn viðameiri myndfölsunum til að réttlæta árásina.

Dísill slær við vetni

Punktar

Rannsóknir við Massachusetts Institute of Technology benda til, að vetnisbílar eigi langt í land, þrátt fyrir mikla áherzlu á tilraunir með þá, enda séu þeir alls ekki eins vistvænir og af er látið. Til skamms tíma litið eru meiri líkur á, að unnt verði að bæta eldsneytisnýtingu dísilvéla með rafmótorum, svokölluðu blönduðu kerfi, sem til skamms tíma er talið vistvænna en vetnistæknin eins og hún horfir við um þessar mundir. Sé hins vegar litið þrjá-fimm áratugi fram í tímann, er enginn kostur sjáanlegur til að knýja bíla annar en vetni. Frá þessu var sagt á BBC.

Mannfólkinu fer að fækka

Punktar

Frjósemisstuðull mannkyns er kominn niður í 1,85 samkvæmt nýjustu tölum Sameinuðu þjóðanna, en þarf að vera 2,1 til að halda óbreyttum mannfjölda í heiminum, þegar til langs tíma er litið. Stuðullinn var um 6 í þróunarlöndunum fyrir 35 árum, en er nú kominn þar niður í 2,9. Í Evrópu er stuðullinn kominn niður í 1,4 og í Japan niður í 1,3. Á þeim svæðum má búast við mikilli fólksfækkun vegna takmarkana á fjölda nýbúa. Bandaríkjamönnum mun hins vegar áfram fjölga vegna mikils aðstreymis nýbúa. Í International Herald Tribune rökræðir Ben J. Wattenberg hugsanlegar afleiðingar þessarar byltingar.

Hlé á skrifum

Punktar

Vegna utanferðar verður hlé á punktaskrifum til þriðjudagsins 18. marz.

Evrópa ekki talin meðsek

Punktar

Brian Whitaker segir í Guardian, að andstaða almennings í Evrópu við fyrirhugað stríð Bandaríkjanna og Bretlands við Írak hafi komizt til skila í hugum fólks í Miðausturlöndum. Þar sé ekki lengur litið á málið sem vestrænt ofbeldi, heldur bandarískt ofbeldi. “Lifi Frakkland”, stendur á áróðursspjöldum í Egyptalandi.

Andstæðingum þjappað saman

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að tilraunir Bandaríkjastjórnar til að deila og drottna í Evrópu hafi þjappað saman andstæðingum heimsvaldastefnunnar og styrkt trú almennings á Vesturlöndum á Sameinuðu þjóðirnar sem eina tækið til að halda Bandaríkjunum og einstefnu þeirra í skefjum.

Sveik loforð um Palestínu

Punktar

Á fjórveldafundi Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, Rússlands og Sameinuðu þjóðanna í desember lofaði George W. Bush Bandaríkjaforseti að leggja fram umsamda vegaáætlun um friðarferli í Palestínu eftir kosningarnar, sem voru í Ísrael í janúarlok. Nú hefur Bush ákveðið að svíkja þetta loforð. Hann hyggst ekki leggja fram vegaáætlunina fyrr en eftir fyrirhugað stríð við Írak. Þetta hefur valdið mikilli reiði í Evrópu og stuðlað að andstöðu við stríðið. Evrópskur embættismaður orðaði þetta svo, að stjórn Bush mundi ekki gera neitt, sem Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, væri andvígur. Frá þessu segir Steven R. Weisman í New York Times.

Stríðið talið stríðsglæpur

Punktar

Margir alþjóðlega viðurkenndir lögmenn halda fram, að fyrirhugað stríð Bandaríkjanna við Írak sé ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum, nema það verði fyrirfram samþykkt af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Samþykkt öryggisráðsins nr. 1441 sé svo loðin, að hún veiti enga heimild til stríðs, án þess að ný ályktun taki af skarið. Mark Littman segir í Guardian, að án slíkrar heimildar verði stríð Bandaríkjanna glæpur allra glæpa, sem geti endað með, að helztu forvígismenn stríðsins geti ekki farið til annarra landa án þess að eiga á hættu að vera dregnir fyrir stríðsglæpadómstól.

Stuðningsríkin eru ófús

Punktar

Gary Younge segir í Guardian, að stuðningurinn við fyrirhugað stríð við Írak sé ekki meiri en svo í hinum fáu stuðningsríkjum stríðsins, að einungis 39% Bandaríkjamanna, 22% Ástrala, 15% Ítala og Breta, 13% Búlgara og 2% Spánverja styðji stríð án samþykktar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann segir, að stríðið snúist ekki um Írak, heldur hvernig heimi við viljum lifa í og hvort eitt ríki hafi rétt á að hunza vilja alþjóðasamfélagsins. Hann á ekki við Írak, heldur Bandaríkin.

Bush eyðileggur allt

Punktar

Maureen Dowd segir í New York Times, að George W. Bush hafi splundrað Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu, Evrópusambandinu, stjórnmálaferli Tony Blair og fjárlögum Bandaríkjanna. Allir óttist vanhugsaðar gerðir hins froðufellandi kúreka, nema þeir, sem helzt þyrftu að óttast hann, svo sem ráðamenn Norður-Kóreu, er hafa einmitt notað Íraksmálið til að færa sig upp á skaftið.

Vinna ekki friðinn einir

Punktar

Thomas L. Friedman segir í New York Times, að Bandaríkjamenn hafi einir sér ekki þolinmæði, mannafla og orku til að byggja upp nýtt þjóðfélag í Írak á rústum hins gamla. Bandaríkjamenn þurfi ekki bandamenn til að vinna stríðið, en þeir þurfi bandamenn til að vinna friðinn. Með lítilsvirðingu á bandamönnum sínum hafi Bandaríkin einangrað sig og tapað stöðu forusturíkis hins frjálsa heims.

Newsweek afskrifar Bush

Punktar

Newsweek skefur ekki utan af gagnrýni á George W. Bush Bandaríkjaforseta. Fréttaritið segir hann hafa framleitt ringulreið í alþjóðamálum, klofið vestrænt samstarf, Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið og fengið allan heiminn til að hata Bandaríkin. Með markvissu ofstæki hafi hann á skömmum tíma rústað því fjölþjóðasamfélagi, sem margir menn byggðu upp á löngum tíma. Blaðið endar skammaræðuna með því að segja, að Saddam Hussein hefði aldrei getað skaðað Bandaríkin eins mikið og þráhyggja Bush og Bandaríkjanna í máli Íraks hefur skaðað þau.

Gott á ykkur

Punktar

Lýðræði er svo sem ekki merkilegra en hvert annað þjóðskipulag. Ekki sýnir reynslan, að það knýi fram vilja kjósenda. Sízt af öllu leiðir það til beztu hugsanlegu ríkisstjórnar. Samt er eitt, sem gerir það nytsamlegra en önnur slík kerfi: Það er aðferð til að skipta um valdhafa án borgarastyrjaldar og blóðsúthellinga. Í lýðræðiskerfi verða stjórnarskipti, en ekki kollsteypur eins og í öðrum tegundum þjóðskipulags. Kjósendur ráða svo, hvenær og hveru oft þeir vilja nota tækifærin til að skipta um valdhafa og hvenær þeir vilja áfram draga sinn djöful fremur en að fá sér nýjan. Niðurstaða kosninganna í dag verður því í öllum tilvikum þessi: Gott á ykkur.