Punktar

Lifa á metan og vetni

Punktar

Science Daily segir frá rannsóknum á hverum, sem fundust á hafsbotni á Atlantshafshryggnum fyrir tveimur árum, þar á meðal á 60 metra háum turni, sem spýr heitu lofti með metan og vetni. Þar eru lífverur, sem lifa á þessum efnum og telja sumir það vera frumstig lífs á jörðinni. Framhaldsrannsóknir á hverunum eru nú að hefjast.

77 formæður hrossa

Punktar

Hestakyn nútímans eru ekki komin út af einu kyni á einum stað eins og flest önnur húsdýr. DNA-rannsóknir sýna, að 77 ólíkar hryssur á ýmsum stöðum í heiminum voru formæður hrossa nútímans. Þetta kemur fram í rannsóknum við Cambridge háskóla í Bretlandi. Talið er, að byrjað hafi verið að temja hross fyrir 4000 eða 4500 árum og að þau hafi verið orðin algeng fyrkr 2000 árum í Evrópu, Asíu og Norður-Afríku. Frá þessu segir í BBC.

Hvernig heim viltu?

Punktar

Ramesh Thakur spyr í International Herald Tribune, hvers vegna þurfti að slátra almenningi í Írak, þótt þar hafi ekki reynzt vera nein gereyðingarvopn og engin uppspretta skæruhernaðar á Vesturlöndum. Hann spyr, hvort heimurinn sé reiðubúinn að samþykkja, að Bandaríkin geti ákveðið, hvaða ríkisstjórnum beri að velta úr sessi. Hann spyr, hvort heimurinn sé reiðubúinn að heimila Bandaríkjunum að sundra fjölþjóðastofnunum, þar á meðal Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og Evrópusambandinu, þremur mikilvægustu stofnunum laga og réttar í heiminum. Hann spyr, hvort heimurinn mundi sætta sig við nýtt Rómarveldi, eða taka saman höndum um að verða ekki Írak morgundagsins.

Fullkomin Bandaríki

Punktar

John Gray segir í Guardian, að ráðamenn Bandaríkjanna telji veraldarsöguna hafa endað með Bandaríkjum nútímans, sem séu hið fullkomna ástand mannkyns. Afganginum af heiminum gangi misjafnlega að laga sig að bandarískum nútíma. Skortur á þessari aðlögun sé einkenni á löndum múslima. Með hernaðarlegum afskiptum af miðausturlöndum séu Bandaríkin að trufla þróun þeirra og framkalla róttæka trúarhyggju og klerkastjórnir í þeim heimshluta.

Skilja ekki íslam

Punktar

Jonathan Raban segir frá því í langri og óvenjulegri grein í Guardian, hvernig ráðamenn Bandaríkjanna skilji ekki, að hugtök og orð hafa aðra merkingu í heimi íslams en á vesturlöndum. Þeir skilji ekki, hvernig hernaður þeirra í Írak hafa fyllt hjörtu almennings í miðausturlöndum af linnulausu hatri í garð Bandaríkjanna, sterkara vopni en flugher Bandaríkjanna. Þeir skilji ekki, hvernig tilraunir til að koma á bandarísku stjórnarfari í löndum íslams muni leiða til klerkastjórna að írönskum hætti.

Þræla meira fyrir minna

Punktar

Bandaríkjamenn vinna 1978 tíma árlega, níu vikum lengur en Evrópumenn, sem vinna 1628 tíma árlega. Bandaríkjamenn unnu raunar 199 tímum lengur árið 2000 en þeir gerðu árið 1973. Öll framleiðniaukning Bandaríkjanna á þessum tíma fór í að efla auðmagnið, en láglaunafólk hafði lægri rauntekjur árið 2000, en það hafði haft árið 1973. Venjulegur Norðmaður vinnur 29% minna en Bandaríkjamaður, en hefur þó aðeins 16% lægri tekjur. Evrópumenn hafa fimm-sex vikna sumarfrí, en Bandaríkjamenn aðeins tveggja vikna. Svona ólíkt er gildismatið austan og vestan Atlantshafs. John de Graaf skrifar um þetta í International Herald Tribune.

Samstarf um góð mál

Punktar

Fengur væri að ríkisstjórn, sem næði auðlindum hafsins úr höndum forréttindaaðila með því að fyrna veiðiheimildir þeirra. Fengur væri að ríkisstjórn, sem stöðvaði skelfileg spjöll á víðernum landsins. Fengur væri að ríkisstjórn, sem stöðvaði þýlyndi gagnvart róttækum andstæðingum smáríkja, ráðamönnum Bandaríkjanna. Fengur væri að ríkisstjórn, sem stöðvaði aukna stéttaskiptingu, sem hefur einkennt allt of langt valdaskeið núverandi ríkisstjórnar. Stjórnarandstaða ætti að geta sameinazt um þessi góðu mál. Það er næg ástæða til að bjóða hana velkomna til valda í vor. Það tekst, ef kjósendur verða ekki of meðteknir af uppsprengdum loforðum um skattalækkanir, loforðum þeirra, sem ekki hafa notað tólf ára valdaskeið til að lækka skatta.

Hægri sinnuð hefndarkirkja

Punktar

Giles Fraser skrifar í Guardian um grundvallarágreining í kristinni kirkju um eðli föstudagsins langa milli manna meginstraums kristinnar kirkju á borð við Desmond Tutu, sem prédikar fyrirgefningu og góðvilja, og ofstækismanna hefndar, stríðs og manndrápa, sem einkenna Bandaríkin í upphafi 21. aldar og eru raunar við stjórnvölinn þar í landi. Íslenzk lúterskirkja er nærri sjónarmiðum Desmond Tutu, en íslenzkir ofsatrúarsöfnuðir, sem reka sjónvarpsstöðina Omega, standa nær illum anda amerísku línunnar. Dæmigert fyrir afvegaleiðingu hinna síðarnefndu er að telja ritninguna boða, að Ísrael eigi að stjórna lýðum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Andbandarísk viðhorf

Punktar

Jeffrey E. Garten segir í International Herald Tribune, að Bandaríkin muni tapa utanríkisviðskiptum vegna Íraks, þótt bandarísk fyrirtæki sitji að verkefnum í Írak. Víða um heim séu menn farnir að sniðganga bandarískar vörur og bandaríska þjónustu. Hann telur, að andbandarísk viðhorf í heiminum séu annars eðlis en þau voru áður. Þá einkenndu þau fámenna hópa, en nú séu þau orðin að almannaviðhorfi um allan heim. Áður hafi menn verið andvígir því, sem Bandaríkin gerðu, en nú séu menn andvígir því, sem Bandaríkin séu. Andstaða við Bandaríkin sé að verða hreyfiafl alþjóðastjórnmála.

Sannleikur í Borgarnesi

Punktar

Sjálfsagt er að nota kosningabaráttuna til að minna á ruddaskap forsætisráðherra í garð forseta landsins og biskups. Sjálfsagt er að nota kosningabaráttuna til að minna á tilraunir forsætisráðherra til að tryggja, að þóknanleg gæludýr eignist rétt hlutabréf í réttum fyrirtækjum. Sjálfsagt er að nota kosningabaráttuna til að minna á afskipti forsætisráðherra af ritstjórum Morgunblaðsins til að tryggja auðsveipni blaðsins. Réttmæt er gagnrýni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttir í Borgarnesi á tilraunir forsætisráðherra til að stýra landinu með ógnunum, hótunum og fælingu. Vonandi verður núna bundinn endir á allt of langt valdaskeið einræðisherrans og skjálfandi undirlægja hans.

Ofstækisfullt ráðuneyti

Punktar

Nicholas D. Kristof segir í New York Times, að leppur sá, sem bandaríska hernaðarráðuneytið muni koma sér upp í Írak, muni verða talinn bandarískur leppur og ekki njóta neinnar alþjóðlegrar viðurkenningar. Hann telur, að hið ofstækisfulla bandaríska hernaðarráðuneyti gæti þess vandlega, að enginn sérfræðingur bandaríska utanríkisráðuneytisins í málefnum Miðausturlanda komi nálægt stjórn Íraks. Hann telur ennfremur, að Bandaríkin muni ekki hafa úthald til að tryggja, að lýðræði festi rætur í Írak.

Aðvörunum í engu sinnt

Punktar

Bandaríska hermálaráðuneytið hefur síðan í janúar ítrekað verið varað við hugsanlegum stuldi og skemmdarverkum í þjóðminjasafni Íraka við hernám Bagdað. Brezki forsætisráðherrann hefur fengið slíkar viðvaranir síðan í desember í fyrra. Í báðum tilvikum var lofað að reyna að vernda safnið, ef vargöld yrði í borginni við hertöku hennar. Þrátt fyrir þetta gerðu bandarískir landgönguliðar enga tilraun til að bjarga safninu, heldur horfðu bara á, þegar safnið var eyðilagt af óeirðamönnum, sem leituðu að verðmætum hlutum. Frá þessu segja Douglas Jehl og Elisabeth Becker í New York Times. Þar kemur ekki fram, hvort það var af ásettu ráði eða mistökum, að bandarískir herinn lét eyðileggja eitt verðmætasta þjóðminjasafn í heimi.

Gömlu brýnin bíta Blair

Punktar

Robin Cook, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, sem nýlega sagði af sér sem forseti brezka þingsins, gagnrýndi í New Statesman harðlega Bandaríkjastuðning brezku stjórnarinnar. Hann segir, að sambúð stjórnar Tony Blair við róttæka hægri stjórn í Bandaríkjunum sé stærsta utanríkisvandamál Bretlands. Þessi árás kemur beint í kjölfar þess, að John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagði í Today þættinum í sjónvarpinu, að diplómatískur skaði Breta af völdum Íraksstríðsins sé óbætanlegur. Í greininni segir Cook, að samband Reagan og Thatcher hafi verið eðlilegt, þar sem þau voru á sama væng stjórnmálanna, en sama gildi ekki um Bush og Blair. Hann segir, að Bretland hafi einangrast í Evrópu og sé illa þokkað í þriðja heiminum vegna fylgispektar Blair við Bush.

Seintekinn gróði

Punktar

Íslendingar hafa löngum hallað sér að Bandaríkjunum og Bretlandi. Það er röksemd forsætisráðherra og utanríkisráðherra fyrir stuðningi þeirra við blessað stríðið, það er að segja fjöldamorð nýlenduveldanna á óbreyttum borgurum Íraks. Ráðherrarnir tveir segja, að hefð sé fyrir því, að Ísland taki meira mark á ofangreindum ríkjum, heldur en á Frakklandi og Þýzkalandi. Þessi hefð vegur þyngra á metunum en breytingin á stefnu Bandaríkjastjórnar, sem nú leggur áherzlu á, að hagsmunir smáríkja á borð við Ísland víki fyrir hagsmunum stórvelda. Hætt er við, að seintekinn verði gróði Íslands af stuðningi Davíðs og Halldórs við hin nýju og róttæku valdaöfl í Bandaríkjunum.

Einföld kosningamál

Punktar

Skoðanakönnun sýnir, að kosningamálin eru aðeins tvö, skattar og velferð. Því er eðlilegt, að stjórnmálaflokkarnir yfirbjóði hver annan í skattalækkunarloforðum og mest Sjálfstæðisflokkurinn. Því er eðlilegt, að stjórnmálaflokkunum þyki þessa dagana ákaflega vænt um alla, sem eru minni máttar, og mest stjórnarflokkunum, sem hafa löngum látið þau mál sitja á hakanum. Í hugum fávísra kjósenda jafngildir Sjálfstæðisflokkurinn skattalækkun og Samfylkingin velferð. Þetta eru líka einu flokkarnir, sem sérstaklega bjóða fram forsætisráðherraefni. Öðrum flokkum duga mál á borð við eignarhald á auðlindum sjávar og virkjanir á hálendinu til smáflokkafylgis. Sérmál Framsóknarflokksins er, að formaður flokksins verði áfram utanríkisráðherra, en fáir hafa játast í skoðanakönnunum undir þá hugsjón.