Ferðir

Kaupmannahöfn gisting

Ferðir

Mikið úrval góðra hótela er í miðborg Kaupmannahafnar, þar sem mest hið skoðunarverða er, flest áhugaverðustu veitingahúsin og bjórkrárnar, skemmtana- og menningarlífið. Enginn ætti að vera í vandræðum með að finna hótel sér við hæfi á þessum slóðum gangandi fólks. Eini gallinn er, að svigrúm verðs, frá hinu dýrasta til hins ódýrasta, er þrengra en í flestum öðrum stórborgum, frá DKK 1.500 niður í DKK 680 á sumarvertíðinni.

Að dönskum hætti eru hótelherbergi yfirleitt tandurhrein og snyrtileg. Sími og sjónvarp þykja nokkurn veginn sjálfsögð alls staðar og eigið baðherbergi er fyrir löngu orðið að almennri reglu. Sum hótelin hafa verið innréttuð á listfenginn hátt innan í gömlum húsum og skara að því leyti fram úr öðrum hótelum, hvað þá hinum ópersónulegu keðjuhótelum.

Verðið er frá sumrinu 1987. Á veturna er yfirleitt slegið af því, oft um 20%. Flugleiðir og íslenzkar ferðaskrifstofur hafa þar að auki hagstæðari afsláttarsamninga við sum þessara hótela, einkum á veturna.

Nyhavn 71

Hótelið “okkar” í Kaupmannahföfn er Nyhavn 71, þar sem gott er að sofna í rúmlega tveggja alda gömlu húsi við opinn glugga og öldugjálfur hafnarinnar og vakna svo við eimpípur hraðferjanna, sem koma að morgni frá Málmey. Eða þá við lokaðan glugga og algeran frið.

Hótelið var byggt yzt á sporði Nýhafnar sem vöruhús fyrir salt og krydd, stóð af sér fallstykkjahríð Breta 1807, en dagaði svo uppi sem húsgagnageymsla á ofanverðri þessari öld. 1971 var því svo breytt í hótel við fögnuð borgaryfirvalda, sem veittu því tvenn verðlaun fyrir húsfriðun og borgarfegrun.

Þegar við nálgumst, er ekki auðvelt að sjá, að þetta sé hótel. Að ytra útliti ber það óbreyttan pakkhússvip og er fremur óárennilegt. Meira að segja lúnir gluggahlerarnir eru flestir hinir upprunalegu. Ekki er fyrr en að húsabaki, að við sjáum látlausan hótelinnganginn.

Hið innra hefur burðargrindin úr voldugri furu verið látin halda sér. Hún kemur skýrt fram í stoðum og bitum í hverju einasta herbergi. En inni í þessari gömlu beinagrind hefur verið komið fyrir flestum nútíma þægindum. Að búa á Nyhavn 71 er eins og að hverfa til fortíðarinnar á fyrsta farrými.

Töskur eru bornar fyrir okkur að siðmenntuðum hætti. Og hótelið er svo lítið, aðeins 82 herbergja, að starfsfólkið mundi eftir okkur og númeri okkar og var komið með lykilinn á loft, áður en eftir væri leitað. Nyhavn 71 er persónulegt hótel með góðu atlæti vingjarnlegs starfsfólks. En því miður hefur verðlag hótelsins hækkað hlutfallslega með árunum og vinsældunum.

Við biðjum alltaf um herbergi Nýhafnarmegin utarlega og með glugga, sem nær niður í gólf. Þannig er herbergi nr. 340, nýtízkulegt og þægilegt, en afar lítið, eins og önnur herbergi hótelsins. Þeir, sem vilja meira rými, geta pantað svítu í austurendanum, til dæmis nr. 225, þar sem fólk sekkur í leðursófa og persateppi.

Stóri glugginn og útsýnið víkka herbergið. Einkar notalegt er að sitja í djúpum hægindastól og njóta þess að skoða skip á ferð og flugi um innri höfnina og hafa litla truflun af umferð bíla, sem eiga raunar fá erindi út á þennan hafnarsporð. Úr hægindastólnum er svo aðeins fimm mínútna ganga til Kóngsins Nýjatorgs.

Í anddyrinu er lítill og ákaflega notalegur bar, ekkert líkur þeim, sem sjómenn eru sagðir hafa notazt við í Nýhöfn fyrri tíma. Í gamla daga mæltum við með veitingasal hótelsins, Pakhuskælderen, þótt hótelmatur sé sjaldan góður. Sú hefur líka orðið raunin, að við mælum ekki lengur með snæðingi á þessum stað.

Herbergi nr. 340 kostaði DKK 1.498 fyrir tvo, en tveggja manna herbergi fengust niður í DKK 1.078 og svíta nr. 225 kostaði DKK 1.938, allt að hlaðborðsmorgunverði meðtöldum.

(Nyhavn 71, Nyhavn 71, sími 11 85 85, telex 27558, E3)

Admiral

Frumlegasta hótel borgarinnar er Admiral, innréttað í rúmlega 200 ára kornþurrkunarhúsi við höfnina, aðeins steinsnar frá Amalíuborg og Kóngsins Nýjatorgi. Það er eitt fárra stórhýsa, sem stóð bæði af sér borgarbrunann 1795 og fallstykkjahríð Breta 1807.

Útliti hins stranga nytjahúss dansks kaupskapar hefur verið haldið. Innan dyra kemur hvarvetna í ljós grind hússins, þungar stoðir og bitar úr furu frá Pommern. Ekket stál og engin steypa er í þessu hóteli, en hins vegar er göngunum prýði að þykkum múrsteinsbogaveggnum eftir endilöngu húsinu.

Hótelinu svipar nokkuð til Nyhavn 71, en er mun stærra, 366 herbergja, og ópersónulegra, fullt af ráðstefnu- og ferðamannahópum
Við óskum eftir herbergi ofarlega við austurhliðina með útsýni til hafnarinnar, helzt uppi undir súð, þar sem herbergin eru raunar á tveimur hæðum. Niðri er forstofa, bað og setustofa, en uppi svefnloft. Slíkt fyrirkomulag gefur gott svigrúm, til dæmis handa fjölskyldu eða fyrir gestaboð.

Raunar eru önnur herbergi hótelsins einnig óvenjulega rúmgóð. Flest hafa þau Wiinblads-myndir og gamlar borgarmyndir á veggjum.

Milli hvíts strigans á veggjunum koma brúnir bitar og stoðir hússins greinilega fram. Undinn tréstigi liggur milli hæða. Niðri eru tveir góðir og leðurklæddir hægindastólar og tveggja sæta sófi, sem breyta má í rúm. Baðherbergið er stórt og flísalagt, svo sem venja er í Kaupmannahöfn. Ekkert sjónvarp er í herberginu og má það teljast óvenjulegt.

Tveggja manna og tveggja hæða herbergið nr. 6247 kostaði DKK 980 og venjulega tveggja manna herbergið nr. 2289 kostaði DKK 815.

(Admiral, Toldbodgade 24-28, sími 11 82 82, telex 15941, E3)

Park

Þriðja vildarhótel okkar í miðbænum er hið litla, 66 herbergja Park við Jarmers Plads, þar sem mætast Vester Voldgade og Nørrevoldgade. Það er ódýrara en flest hótelin í þessum kafla, en býður þó gamaldags þægindi á borð við burð á töskum upp á herbergi, svo og nútímatækni á borð við hárþurrku. Þjónusta reyndist okkur notalega dönsk.

Ónæðissamt er í hinum upprunalega hluta hótelsins, sem snýr að umferðinni á Jarmers Plads. Hins vegar er rólegt í álmu, sem nýlega var innréttuð í gömlu bakhúsi. Þar sést bindingsverkið í sumum herbergjum.

Þau eru hvert með sínu sniði. Nr. 102 er stórt og glæsilegt, með sérstökum setukrók, frístandandi skrifborði, marmaraflísuðu baðherbergi og þremur stórum gluggum út að torginu. Nr. 402 er minna og rólegra, en einnig afar vel búið húsgögnum og öðrum þægindum. Nr. 315 er minnst, en rómantískast, með bindingsverki í vegg. Öll voru þau gersamlega óslitin sem ný væru, búin fyrirtaks baðherbergjum.

Síðastnefndu tveggja manna herbergin kostuðu DKK 710, en hið fyrstnefnda DKK 900.
(Park, Jarmers Plads 3, sími 13 30 00, telex 15692, A3)

Plaza

Bezta hótel borgarinnar er sem fyrr Plaza við hlið aðaljárnbrautarstöðvarinnar, þótt Sheraton-keðjan hafi klófest það, þótt Denna hafi ekki líkað að vera þar, þótt veitingasalurinn Baron of Beef hafi glatað fyrri virðingu og þótt það hafi sett dálítið niður við ferðamannahópa. Það er jafndýrt og Angleterre, en nokkru minna, 96 herbergja, og persónulegra, svo að starfsfólk þekkti gesti strax með nafni og herbergisnúmeri.

Þungur viður og þykkt leður eru einkennistákn hótelsins. Allt tal rennur út í hvísl á svo virðulegum stað, þar sem bókasafnsbarinn í miðju húsi er hápunkturinn. Annar eins glæsibragur í notalegum stíl er sjaldséður á hóteli, enda koma menn víða að til að sjá Library Bar á Plaza.

Úr virðulegu anddyri flytur ákaflega glæsileg glerlyfta með daglegu spakmæli okkur upp til herbergis, þar sem bíða okkar notalegar og stórar vistarverur. Herbergi nr. 602, sem við gistum síðast, er nokkuð óvenjulegt, undir súð, búið húsgögnum í gömlum stíl, en herbergi nr. 408 er með hefðbundnara sniði, bæði jafnglæsileg.
Þessi tveggja manna herbergi kostuðu DKK 1.350. Verð slíkra herbergja var á bilinu DKK 1.150-1.550.

(The Plaza, Bernstorffsgade 4, sími 14 92 62, telex 15330, A5)

Palace

Glæsilegustu hótelherbergi borgarinnar eru þau, sem snúa út að Ráðhústorginu — á Palace, þar sem Guðsgjafaþula Halldórs Laxness segir, að Íslandsbersi hafi haldið fræga veizlu sænskum síldarkaupmönnum og ýmsu skrítnu fólki. Hótelið ber einkar virðulegan svip við torgið, ekki sízt vegna voldugs turnsins, sem dregur athygli torgfara að sér.

Lengi var Palace í niðurníðslu, en nú hefur það verið gert glæsilega upp. Í þjónustu jafnast það þó engan veginn á við Plaza og Angleterre, en herbergin eru bæði víðáttumikil og sérstök að vönduðum og ríkmannlegum frágangi.

Úr herbergi nr. 308 er frábært útsýni af litlum svölum beint á Lúðurþeytara Wagners og yfir sjálft torgið. Þegar svalahurðunum er lokað, ríkir alger friður fyrir innan. Virðulegri innréttingar höfum við ekki séð á mörgum hótelum.
Verðið var DKK 1.395, fyrir tvo. Morgunverður var innifalinn.

(Palace, Rådhuspladsen 57, sími 14 40 50, telex 19693, B4)

Angleterre

Fína hótelið í borginni er Angleterre, eitt elzta lúxushótel heims, stofnað fyrir 226 árum. “Hvíta norðurfrúin” hefur æ síðan verið áningarstaður konunga og forseta, virðingar- og snobbfólks, hótelið á bezta stað borgarinnar. Lengi hefur það lifað að nokkru á fornri frægð og gerir sumpart enn, þótt það sé farið að sækjast eftir ferðahópum. Það er fremur lítið, hefur aðeins 139 herbergi.

Angleterre ber sig glæsilega við Kóngsins Nýjatorg, skyggir fannhvítt á Akademíuna og hið Konunglega sem væru þær hallir hesthús hótelsins. Að innan er það ekki eins glæsilegt, því að endurbætur, sem hófust fyrir minnst sjö árum, stóðu enn, þegar þessi útgáfa bókarinnar var gerð.

Burðarmaðurinn ræddi um Halldór Laxness og Vigdísi Finnbogadóttur sem gamla vini meðan hann vísaði til stórs herbergis, vel búnu húsgögnum, sem eru hvorki nýtízkuleg né forngripir. Stíllinn er ekki eins ákveðinn og næmur og á Plaza og Palace, en allur búnaður er í bezta lagi. Eins og önnur herbergi fjórðu hæðar hefur það svalir út að götunni.

Tveggja manna herbergið nr. 427 kostaði DKK 1.350.

(Angleterre, Kongens Nytorv 34, sími 12 00 95, telex 15877, D3)

Opera

Lítið og gott hótel, vel í sveit sett að baki Konunglega leikhússins, er hið 66 herbergja Opera með þægilegum og rúmgóðum bar, sem margir nota fyrir og eftir sýningar. Það hefur virðulegan brag og þægilegt starfsfólk, sem þekkti gesti með nafni.

Herbergi nr. 316 er afar flókið í laginu og snýr raunar í tvær áttir. Fremst er forstofa með skáp, síðan setustofa og hornrétt á hana svefnkrókur með fullflísuðu baðherbergi. Á milli stofanna er gamalt púlt, sem gott var að nota til að skrifa við.

Herbergið kostaði DKK 1.148 fyrir tvo, en hægt var að fá tveggja manna herbergi niður í DKK 898. Morgunverður af hlaðborði var innifalinn.

(Opera, Tordenskjoldsgade 15, sími 12 15 19, telex 15812, D3)

Richmond

Richmond er fremur lítið, 135 herbergja hótel nálægt skrifstofu Flugleiða við Vester Farimagsgade og er kunnast fyrir að hýsa bezta veitingasal borgarinnar, Cocotte. Hótelið er rólegt, en ráðlegt er að panta herbergi, sem snúa frá umferðargötunni.

Herbergi nr. 502, sem snýr því miður að götunni, er fremur rúmgott og í dálítið íhaldssömum Norðurlandastíl, virðulegt að innréttingu og vandað að öllum búnaði. Það kostaði DKK 990 fyrir tvo, en hægt var að fá betri herbergi allt upp í DKK 1.275. Öll verð fela í sér morgunverð af hlaðborði.

(Richmond, Vester Farimagsgade 33, sími 12 33 66, telex 19767, A3)

Neptun

Neptun er lítið, 60 herbergja hótel, sem er vel sett í næsta nágrenni Kóngsins Nýjatorgs, á svipuðum slóðum og hótelin Nyhavn 71 og Admiral. Það státar af litlum hótelgarði að húsabaki og af virðulegum og gömlum húsgögnum í nokkrum stofum inn af móttökunni. Hádegisverðarstaðurinn Sankt Annæ er við hlið hótelsins.

Herbergi nr. 204 er fremur þröngt hornherbergi, sem snýr að kyrrlátum hótelgarðinum. Það er einkar snyrtilegt og vel búið, þar á meðal hárþurrku og buxnapressu. Verðið var DKK 850 fyrir tvo, en hægt var að fá stærri herbergi fyrir DKK 900. Morgunverður af hlaðborði var innifalinn.

(Neptun, Sankt Annæ Plads 18, sími 13 89 00, telex 19554, D/E3)

Ascot

Gamall vinur okkar er hið litla, 58 herbergja Ascot rétt hjá Ráðhústorginu. Það er eitt vingjarnlegasta hótel borgarinnar, friðsælt og heimilislegt, allt fullt af blómskrúðsmyndum eftir Björn Wiinblad, sem er eins konar blómálfur hótelsins.

Herbergi nr. 103 er fremur lítið, en vel búið að öllu leyti. Það kostaði DKK 890 fyrir tvo, en hægt var að fá minni herbergi niður í DKK 690. Við höfum gist á einu slíku, nr. 305 og það var einnig ágætt. Morgunverður var innifalinn.

(Ascot, Studiestræde 57, sími 12 60 00, telex 15730, A4)

Danmark

Rétt að baki ráðhússins, í nýlegu húsi, er mjög lítið hótel, Danmark, með aðeins 49 herbergjum, afar vel í sveit sett og tiltölulega ódýrt. Herbergi nr. 508 er nýlega innréttað og snýr stórum gluggum út að götunni, en er þó einkar friðsælt. Baðherbergið er gott og flísalagt. Verðið var DKK 725 fyrir tvo, að morgunverði inniföldum.

(Danmark, Vester Voldgade 89, sími 11 48 06, B4)

Mayfair

Nú er búið að gera upp gamla missionshótelið Westend í Helgolandsgade og skíra það Mayfair. Herbergin, 126 að tölu, eru komin með nýjasta búnað, þar á meðal hárþurrku og buxnapressu. Verðið var samt ekki nema DKK 720 fyrir tvo, meðtalinn morgunverður af hlaðborði.

(Mayfair, Helgolandsgade 3, sími 31 48 01, telex 27468, A5)

Hebron

Andspænis Mayfair við Helgolandsgade er gamla og góða missionshótelið Hebron, sem mörgum hefur veitt húsaskjól fyrir tiltölulega vægt gjald. Verðið á tveggja manna herbergi var hið lægsta í þessari bók, DKK 680, að meðtöldum morgunverði af hlaðborði.

(Hebron, Helgolandsgade 4, sími 31 69 06, telex 27416, A5)

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn inngangur

Ferðir

LEIÐSÖGURIT

FJÖLVA

JÓNAS KRISTJÁNSSON

ritstjóri

KÓNGSINS

KAUPMANNAHÖFN

Leiðsögurit fyrir

íslenzka ferðamenn

Ljósmyndir:

KRISTÍN HALLDÓRSDÓTTIR

Fjölvaútgáfa

Bókarstefna

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.

Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.

Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Litla heimsborgin

Ferðamenn úr öllum heimshornum hafa borið Kaupmannahöfn þá sögu, að hvergi sé betra að vera gestur en einmitt þar. Hin lífsglaða borg er ein hin vingjarnlegasta í heimi, opinská og alþjóðleg, án þess að hafa glatað dönskum siðum, hefðum og menningu.

Danir hafa tamið sér áhyggjulausa framkomu heimsmanna, stríðnislega gamansemi prakkara og listræna dirfsku handverksmanna. Þeir hafa opnað upp á gátt glugga sína til umheimsins og eru þó engum líkir.

Auðlindir eiga þeir fáar, aðrar en hugvitið, sem bezt kemur fram í heimsfrægum listmunum. Allt verður að gersemi í höndum þeirra, gler, leir og viður, silfur, stál og skinn. Og hvergi er betra að sjá þetta en einmitt í Kaupmannahöfn.

Ekkert er þar stærra eða í sjálfu sér merkilegra en í hvaða annarri heimsborg. Til eru stærri kastalar, söfn og fornminjar, garðar og verzlanir. En slíkir áningastaðir ferðamanna hafa sérstakt, danskt aðdráttarafl í Kaupmannahöfn.

Og svo er það lífið sjálft, sem dregur ferðamenn til borgarinnar, er endurspeglar nútímann, blíðan og stríðan í senn, allt frá vonleysi fíkniefnaneytandans upp í hófsama lífslyst. Í þessari bók munum við einkum staðnæmast við hið síðarnefnda.

Hér flýtur bjór og vín með góðum mat. Hér er samvera og einvera á kaffihúsum og krám, í göngugötum og görðum. Hér er notalegt að vera, því að gestir að utan eru yfirleitt fljótir að finna hinn danska takt.

Almennar upplýsingar

Bankar

Bankar eru opnir 9:30-16 mánudaga-föstudaga, -18 fimmtudaga. Laugardaga og sunnudaga er opið á aðaljárnbrautarstöðinni.

Barnagæzla

Hringdu í (02) 45 90 45 virka daga 7-12 og 15-20, laugardaga 12-19 og sunnudaga 17-19 til að fá barnagæzlu hjá samtökum stúdenta, Minerva.

Copenhagen Card

Copenhagen Card fæst á járnbrautarstöðvum, hótelum og ferðaskrifstofum. Það veitir aðgang að strætisvögnum, ótal söfnum og Tivoli. Eins dags kort kostar DKK 70, þriggja daga DKK 150. Börn greiða hálft gjald.

Ferðir

Upplýsingastofa danska ferðamálaráðsins er við H.C.Andersens Boulevard 22a, sími 11 13 25, opin mánudaga-föstudaga 9-18 á sumrin og 9-17 á veturna, laugardaga 9-12.

Fíkniefni

Ólöglegt er að bera fíkniefni á sér.

Flug

Flugvallarrútan fer frá aðaljárnbrautarstöðinni á 15-20 mín. fresti og er hálftíma á leiðinni til Kastrup. Í síma 58 58 11 eru gefnar upplýsingar um komu- og brottfarartíma flugvéla.

Flugleiðir

Söluskrifstofa Flugleiða er við Vester Farimagsgade 1, sími 12 33 88.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á hálftíma.

Gisting

Kiosk P á aðaljárnbrautarstöðinni er opinn 9-24 alla daga á sumrin, -17 á veturna og útvegar húsnæðislausu ferðafólki gistingu.

Leigubíll

Leigubíla má panta í símum 35 35 35, 35 14 20 og 34 32 32, en venjulega er kallað í þá af gangstéttinni. Ljós logar á þakmerki lausra leigubíla.

Lyfjabúð

Steno Apotek við Vesterbrogade 6c, sími 14 82 66, er opin allan sólarhringinn.

Læknir

Hringdu í 0041 til að kalla í lækni á kvöldin, um nætur og helgar.

Löggæzla

Hringdu í neyðarsímann 000.

Peningar

Plastkort eru almennt notuð í ferðamannaþjónustu.

Póstur

Aðalpósthúsið við Tietgensgade 37 er opið 9-19 mánudaga-föstudaga og 9-13 laugardaga.

Reiðhjól

Reiðhjól eru til leigu í Köbenhavn Cyklebørs & Velonia, Gothersgade 157-159, sími 14 07 17.

Samgöngur

Strætisvagnar og neðanjarðarlestir ganga 5-24:30 mánudaga-laugardaga, 6-24:30 sunnudaga. Nokkrir vagnar ganga til 2:30.

Sendiráð

Sendiráð Íslands er við Dantes Plads 3, opið 9:30-16 mánudaga-föstudaga, símar 15 96 04 og 15 96 75.

Sími

Almenningssímar eru víða. Svæðisnúmer miðborgarinnar er 1. Til Íslands er númerið 009 354. Athugaðu, að mun ódýrara er að hringja úr almenningssímum en frá hótelherbergjum. Notaðu alltaf tvo 25-eyringa fyrst, þótt þú hringir til útlanda, því að fyrstu tvær myntirnar fást ekki til baka, ef númerið er á tali. Láttu síðan krónurnar í, þegar þú ert búinn að fá samband.

Sjúkrabíll

Hringdu í neyðarsímann 000.

Sjúkrahús

Sjúkrahús miðborgarinnar er Kommunehospitalet i Øster Farimagsgade, sími 15 85 00.

Skemmtun

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í mánaðarritinu Copenhagen This Week

Slökkvilið

Hringdu í neyðarsímann 000.

Tannlæknir

Mættu í eigin persónu á Oslo Plads 14 alla daga 20-22, einnig 10-12 laugardaga og sunnudaga.

Vatn

Kranavatn er fullkomlega drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá vori 1987. Þeir, sem síðar nota bókina, ættu að reikna með um 7% verðbólgu á ári í Danmörku.

Verzlun

Verzlanir eru yfirleitt opnar mánudaga-fimmtudaga 9-17:30, föstudaga 9-19/20 og laugardaga 9-12/14. Vörumarkaðurinn á aðaljárnbrautarstöðinni er opinn daglega 8-24. Útlendingar geta oft fengið 22% virðisaukaskattinn endurgreiddan.

Þjórfé

Þjórfé er innifalið í reikningum hótela og veitingahúsa og á gjaldmælum leigubíla, en sumir viðskiptavinir slétta tölurnar upp á við.

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn Íslendingaslóðir

Ferðir

Kóngsins Nýjatorg

Við stöndum á mótum Striks og Kóngsins Nýjatorgs í sporum ótaldra þúsunda Íslendinga, sem hafa búið í Kaupmannahöfn um langan eða skamman tíma, allt frá því er Arnaldur Íslendingur var á ofanverðri tólftu öld í föruneyti Absalons biskups, stofnanda borgarinnar við sundið.

Við munum nokkurn veginn fylgja sömu leið og við lýstum í fyrstu gönguferðinni um gamla bæinn (sjá bls. xx). Í þetta sinn erum við eingöngu á höttunum eftir slóðum Íslendinga, bæði gömlum og nýjum. Af nógu er að taka, því að Kaupmannahöfn var eftir Þingvöll og fyrir Reykjavík hin raunverulega höfuðborg Íslands í fimm aldir.

Hér verður aðeins stiklað á stóru. Þeim, sem vilja fá meira að vita, er bent á bráðskemmtilega og fróðlega bók Björns Th. Björnssonar listfræðings: “Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn”, sem kom út hjá Máli og menningu árið 1961 og var enn fáanleg fyrir stuttu.

Okkur á vinstri hönd er hótelið Angleterre, þar sem Halldór Laxness hefur stundum gert garðinn frægan og þar sem Vigdís Finnbogadóttir hélt 1000 manna veizluna. Þar sat líka löngum um miðja síðustu öld hinn skapstóri sérvitringur “Repp”, mesti Danahatari Íslandssögunnar.

Repp hét raunar Þorleifur Guðmundsson og var úr Hreppunum. Hann var skarpur og verðlaunaður námsmaður, en missti af meistaratign, þegar hann missti stjórn á skapi sínu í ræðustól. Hann samdi ensk-danska orðabók og enskar þýðingar, var í góðum efnum og bjó hér handan við hornið, í Austurgötu, á dýrasta stað borgarinnar. Hann var vinur Jóns Sigurðssonar, tók mikinn þátt í stjórnmálafundum og gaf út hvert blaðið á fætur öðru, Dagen, Krigen og Tiden, mestmegnis með hóli um sig sjálfan.

Hér í nágrenninu eru fleiri og eldri spor Laxness. Handan torgsins er Stóra Kóngsinsgata, þar sem hann bjó hjá Scheuermann á nr. 96 fyrstu mánuði sína í hinum stóru útlöndum og vakti að eigin sögn nokkra undrun fyrir matvendni.

Gothersgade liggur hér frá torginu í öndverða átt við Nýhöfn. Þar á nr. 15 var til skamms tíma og er kannski enn næturklúbburinn Bonaparte, þar sem Þorsteinn Viggóson veitingamaður hélt úti höfðinglegri stammbúlu fyrir íslenzka nátthrafna. Hann seldi síðan staðinn öðrum, en hefur samt stundum haft afskipti af rekstrinum.

Handan torgsins, til hægri séð frá Angleterre, sjáum við tvær hallir. Fyrst er þar Charlottenborg, þar sem Konunglega listaakademían hefur lengi verið til húsa. Þar hafa margir íslenzkir listamenn og arkitektar komið við sögu, allar götur síðan séra Sæmundur Hólm var þar við nám 1776.

Hér lærðu Ásgrímur Pálsson, Einar Jónsson, Jóhannes Kjarval, Muggur, Sigurður málari, Sigurjón Ólafsson, Svavar Guðnason og margir fleiri. Hér drukku til skamms tíma flestir íslenzkir listamenn af brunnum evrópskrar menningar. Charlottenborg er meginþáttur í lista- og húsasögu Íslands.

Þar til hægri er Konunglega leikhúsið, þar sem Anna Borg lék og þar sem stundum eru sett á svið leikrit Jóhanns Sigurjónssonar og Guðmundar Kamban. Íslenzku tengslin eru þó öllu meiri við óperuna í sama húsi, því að hér sungu Einar Kristjánsson, Friðbjörn Björnsson, Magnús Jónsson og Stefán Íslandi.

Við höldum nú af stað frá Angleterre og göngum yfir enda Austurgötu að Østergades Vinhandel. Þar var á síðustu öld veitingahúsið Genelli, sem Íslendingar kölluðu Njál og sóttu stíft.

Einn af hinum kunnari Njálsmönnum var “Frater”, sem raunar hét Magnús Eiríksson, en fékk viðurnefnið af því að kalla viðmælendur sína “bræður”. Hann var vinsæll og ljúfur maður, sem sat hér með nokkrum kynslóðum Hafnarstúdenta. Hann var guðfræðingur að mennt og skrifaði marga ritlinga, þar sem hann lýsti Martensen Sjálandsbiskupi sem persónugerðum antikristi og fógeta andskotans hér á jörð.

Við förum suður torgið að Litlu Kóngsinsgötu, þar sem enn er í kjallara kráin Hvítur. Þar sat Jónas Hallgrímsson löngum einn að drykkju og þaðan er hann sagður hafa komið, þegar hann fótbrotnaði í stiga heima hjá sér og hafði bana af. Og hér hangir uppi mynd Örlygs Sigurðssonar af Jónasi, Sverri Kristjánssyni, Árna Pálssyni og Jóhanni Sigurjónssyni að tímaskökku sumbli.

Hér við hlið Hvíts, á nr. 21, var Vincent, annar samkomustaður Íslendinga á síðustu öld. Frægari er þó Mini, sem Íslendingar kölluðu Mjóna, hér á horninu á móti Hvíti, þar sem nú heitir Stephan á Porta. Þetta var vinsælasti samkomustaður Íslendinga um miðja síðustu öld, svo vinsæll, að sumir þeirra virðast hafa varið þar lunganum úr deginum.

Einna harðastir Mjónamanna voru Gísli Brynjólfsson og Brynjólfur Pétursson. Aðrir þaulsætnir voru m.a. Jón Sigurðsson forseti, Konráð Gíslason, Grímur Thomsen og Benedikt Gröndal. Yfirleitt voru hér þeir, sem komnir voru til embætta og tekna, og virðast hafa lifað hér í hóglífi í mat og drykk.

Hólmsinsgata og Brimarhólmur

Þegar íslenzkir námsmenn voru búnir að spássera á Strikinu og fá sér nokkra bjóra við Kóngsins Nýjatorg, læddust freistingarnar að sumum þeirra. Þeir komu sér suður í lastahverfið milli torgs og síkis, þar sem voru hinar illræmdu götur, Hólmsinsgata og Laxagata. Við höldum í humátt á eftir.

Við göngum Laxagötu út að Hólmsinsgötu, sem nú heitir raunar Brimarhólmur. Við Laxagötu eru hús frá miðri síðustu öld, en við Brimarhólm eru lítil merki um hinn sterka segul, sem á síðustu öld sogaði til sín ótal íslenzka erfiðismenn drykkjuskapar og kynlífs.

Einn þessara erfiðismanna var Ögmundur Sivertsen, sem orti svo, líklega liggjandi í sárasótt á sjúkrahúsi: “Kaupinhafn er slæmur staður, / Hólmsinsgötu þý og þvaður / þér af alhug forðast ber”. Annar gestur barnslegri, Eiríkur frá Brúnum, lýsti “kvennabúrum” götunnar með lotningarfullum ævintýraorðum í ferðasögu sinni.

Stundum kom fyrir, að ölóðir Íslendingar féllu eða fleygðu sér í Hólmsinssíki, beint undan Hólmsinsgötu, þar sem nú er komin breiðgata. Þar fundust lík Högna Einarssonar 1832 og Skafta T. Stefánssonar 1836. Lík Jóhanns Halldórssonar fannst nokkru vestar, undan Gömluströnd.

Við förum yfir Hólmsinssíki og inn Hafnargötu. Okkur á vinstri hönd var um langan aldur fangelsi íslenzkra lífstíðarfanga, Brimarhólmur. Það var við lýði frá miðri 16. öld til 1741, er fangarnir voru fluttir í Stokkhúsið. Um tíu af hundraði fanganna voru Íslendingar og unnu við skipasmíðar eða réru á galeiðum.

Þetta var þrælahald, sem undantekningarlítið dró menn til dauða á skömmum tíma. Árni frá Geitastekk var þó svo heppinn að losna og ná að skrifa ævisögu sína um fjölbreytta reynslu frá Indlandi til Brimarhólms.

Skemmtilegri minningar eru tengdar kirkjunni á hægri hönd, Hólmsinskirkju. Þar voru um tíma varðveittar bækur Árna Magnússonar eftir brunann 1728. Og þar var skírður og fermdur Jón Vestmann, 33 ára, 1644 eða 1645, eftir tæplega tveggja áratuga dvöl í barbaríinu, þar sem hann var m.a. skipherra sjóræningja.

Hér í kirkjunni gekk til spurninga tossi nokkur og pörupiltur, sonur Gottskálks frá Miklabæ Þorvaldssonar, Bertel Thorvaldsen, sem síðar varð heimsfrægur listamaður. Og hér voru prestar þeir Þorgeir Guðmundsson 1831-1839 og Haukur Gíslason 1915-1946.

Í Hafnargötu 19 stendur enn húsið, þar sem Tryggvi Gunnarsson Gránufélagsstjóri og síðar bankastjóri hafði aðsetur á mektardögum sínum í Kaupmannahöfn. Þaðan var stutt að ganga til Kauphallarinnar, en þangað hefur Einar Benediktsson þó trúlega meira vanið komur sínar.

Hallarhólmi

Við göngum götuna yfir Kauphallarbrú og út á Hallarhólma. Við förum bak við Kauphöllina og göngum Hallarhólmagötu í átt til Kristjánsborgar. Þar er á vegi okkar Kansellíið, en þaðan var Íslandsmálum stjórnað á 18. og 19. öld. Atvinnumál og fjármál voru í rentukammerinu í vinstri álmu og dóms-, kirkju- og fræðslumál í kansellíinu í hægri álmu.

Hér hafa ótal Íslendingar unnið og sumir komizt til metorða. Jón Eiríksson var deildarstjóri í rentukammeri frá 1772 til dauðadags og Vigfús Thorarensen varð fulltrúi í kansellíi 1840. Við stofnun Íslandsdeildar 1848 varð Brynjólfur Pétursson forstöðumaður hennar, síðan Oddgeir Stephensen, Jón Hilmar Stephensen og síðastur Jón Sveinbjörnsson, sem varð konungsritari 1919.

Nú verður fyrir okkur Kristjánsborg. Þar var utanríkisráðuneytið, sem varð Grími Thomsen tilefni línanna: “…kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá, / kalinn á hjarta þaðan slapp ég”. Grímur var þá fluttur heim til Bessastaða, eftir að hafa gengið metorðastigann í utanríkisþjónustunni og endað sem virðulegur “legationsråd”.

Hér undir höllinni sjást enn leifar Bláturns, hins fræga fangelsis, sem hýsti hina fínni afbrotamenn á borð við hirðmenn og drottinsvikara. Þar sat Jón Indíafari fanginn um skeið. Og þar datt niður úr turninum um miðja sautjándu öld Guðmundur Andrésson, er þar sat vegna boðunar fleirkvænis. Hann slapp eins og Jón og lifði að semja íslenzk-latneska orðabók.

Þegar við göngum vinstra megin hallar inn í Þjóðþingsport og þaðan til vinstri inn í rósagarð Konunglegu bókhlöðunnar, fækkar ekki gömlum slóðum Íslendinga. Að baki okkur, tengt höllinni, er Leyndarskjalasafnið, sem var í umsjá prófessoranna Árna Magnússonar 1715-1719, Gríms Thorkelín 1791-1829 og Finns Magnússonar 1829-1847.

Vinstra megin er Próvíanthúsið með Landmælingastofnun danska herforingjaráðsins, sem gerði út ótal liðsforingjaefni til vandaðrar kortagerðar af Íslandi. Í fjarlægari enda þess var Árnasafn til húsa 1957-1981 undir forsjá Jóns Helgasonar prófessors. Það er nú flutt út á Amákur.

Fyrir enda garðsins er svo Konunglega bókhlaðan, þar sem Sigfús Blöndal orðabókarhöfundur var safnvörður og Jón Eiríksson forstöðumaður. Þar eru geymd merk bréfasöfn Íslendinga, svo sem Finns Jónssonar, Þorvaldar Thoroddsen og Boga Melsted. Ennfremur eru þar ritgerðir um Ísland frá 18. öld.

Fjórða hliðin að garðinum er Týhúsið, þar sem margir Íslendingar þjónuðu áður fyrr í lífverði konungs. Til mestra metorða komust Magnús Arason verkfræði-lautinant á fyrri hluta 18. aldar og Ketill Jónsson lautinant, sem féll í orrustu 1811 undir tignarheitinu “von Melsted”.

Hér þjónuðu þrír Íslendingar, sem áttu það sameiginlegt að hafa komizt alla leið til Indlands á skipum hans hátignar og að hafa ritað ævisögur sínar. Kunnastur þeirra er Jón Ólafsson Indíafari, en hinir eru Eiríkur Björnsson og Árni Magnússon frá Geitastekk.

Við göngum áfram sömu leið og rakin er í fremri leiðarlýsingu og förum yfir Marmarabrú eftir Nýju Vesturgötu að danska þjóðminjasafninu, sem hefur að geyma fjölda íslenzkra forngripa. Þar eru íslenzkir kaleikar, víravirki, útskurður, drykkjarhorn, mítur, klæði, annar Grundarstóllinn og stóll Ara Jónssonar lögmanns, svo eitthvað sé nefnt.

Í framhaldi af Nýju Vesturgötu er Dantes Plads, þar sem er til húsa sendiráð Íslands.

Ef við förum kringum þjóðminjasafnið og göngum Stormgötu í átt til síkis, sjáum við, að hluti safnsins nær yfir Stormgötu 5, þar sem áður var hús áðurnefnds Jóns Eiríkssonar, deildarstjóra í rentukammeri, meðdómara í hæstarétti og yfirmanns Konunglegu bókhlöðunnar. Jóni varð enn kaldara en Grími konungsmönnum hjá, því að hann hvarf á Löngubrú, saddur valdatafls.

Neðst við Stormgötu, rétt við síkið, var einu sinni kráin Kristín doktor, þar sem Jón Indíafari lenti í barsmíðum og þar sem Halldór Laxness lætur Jón Marteinsson sitja að drykkju með Jóni Hreggviðssyni.

Við göngum síkisbakkann eftir Vindubrúargötu og komum að höllinni, sem Danir reistu pörupilti og tossa þeim, sem áður er getið. Þar sjáum við mikið af listaverkum Bertels Thorvaldsen, en ekkert minnir á Ísland í hinum gestasnauðu og grafardauðu sölum. Við höldum svo úr Thorvaldsensafni yfir Hábrú út af Hallarhólma.

Latínuhverfið

Gömluströnd göngum við til baka eftir síkisbakkanum og stefnum á Frænda við enda götunnar. Við förum að baki hans inn í Snaragötu. Frændi var veðlánastofa, sem Íslendingar skiptu mikið við, þegar þeir voru blankir og biðu eftir peningum að heiman, sem virðist hafa verið nokkru tíðara en nú, enda símatékkar ekki komnir til sögunnar. Stofnun þessi er nú aflögð og húsið er sjálft menntaráðuneyti Danmerkur.

Við höldum áfram fyrri gönguleið eftir Magstræde, Ráðhússtræti, Nýjatorgi, Nýjugötu og Vimmelskafti, þar sem við förum bak við Heilagsandakirkju og finnum þar í skoti milli kirkju og klausturs legstein Gísla Þórðarsonar, er var rektor Hólavallaskóla 1786-1804, einn stórkarlalegasti slarkari Íslandssögunnar.

Síðan förum við Hemmingsensgade framhjá Grábræðratorgi upp á Skinnaragötu, þar sem Konráð Gíslason bjó á nr. 6, eftir að hann flutti af garði Borchs. Við göngum svo Skinnaragötu og Vesturgötu alla leið út á Ráðhústorg nútímans.

Hér vinstra megin, handan Striksins, er hótel Pallas (Palace), sem hefur átt fjölbreytta sögu, síðan Halldór Laxness lét Íslandsbersa halda þar hina frægu veizlu, sem lýst er í Guðsgjafaþulu.

Við snúum á hæl og göngum Vesturvegg að Pétursstræti og leitum þar að veggskildi á húsi nr. 22 vinstra megin götunnar. Í þessu húsi, á 3. hæð til vinstri, með gluggum út að húsagarði, bjó Jónas Hallgrímsson. Hér missti hann fótanna seint um kvöld hinn 15. maí 1845, er hann kom af Hvíti og var að fara upp stigann. Hægri fóturinn brotnaði ofan við ökla, en Jónas dróst til sængur.

Hann sagði ekki til sín, en var mjög sjúkur, þegar komið var til hans að morgni. Var hann þá fluttur í Friðriksspítala, þar sem nú er Listiðnasafnið, og andaðist þar 26. maí. Við getum kannski fengið leyfi til að skreppa inn í Pétursstræti 22 og líta á hinn illræmda stiga, því að húsráðandi í herbergi Jónasar var til skamms tíma vingjarnlegur, ungur maður.

Næst förum við til hliðar til hægri inn í Larsbjörnsstræti, þar sem bjó hægra megin á nr. 23 brautryðjandi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, Baldvin Einarsson, og samdi hér síðari hefti Ármanns á alþingi. Hann fórst hér af brunasárum, sem hann hlaut í svefni í árslok 1832. Á undan honum bjó í húsinu Grímur Jónsson amtmaður.

Við sveigjum til vinstri í Stúdíustræti og komum að Biskupstorgi fyrir framan Frúarkirkju. Í lúterskum sið hafa öll íslenzk biskupsefni, sem fengu vígslu í Kaupmannahöfn, verið vígð í Frúarkirkju og setið að veizlu í Biskupsgarði, sem er hér á horninu andspænis kirkjunni.

Til vinstri er Kaupmannahafnarháskóli, sem var háskóli Íslendinga allt frá miðri 16. öld og þangað til Háskóli Íslands var stofnaður 1911. Þennan skóla sóttu margir kunnustu Íslendingar á síðustu öldum og það var dvöl þeirra þar, sem gerði Kaupmannahöfn að höfuðborg Íslands og mesta menntasetri landsins.

Við göngum Norðurgötu meðfram gömlum byggingum háskólans, þar á meðal stúdentamötuneytinu Kannibalen, sem Íslendingar kölluðu alltaf Klaustur, af því að það var upprunalega stofnað í Ágústínusarklaustri við Heilagsandakirkju 1569, þegar munkarnir höfðu verið reknir þaðan brott.

Árið 1579 fengu Íslendingar forgang að frímáltíðum Klausturs. Hélzt svo, unz mötuneytið var lagt niður 1736 og farið að afhenda stúdentum matarfé í staðinn. Kölluðu Íslendingar það síðan “að fá Klaustur”. Hér var Oddur Einarsson, síðar biskup, “prófastur” eða borðhaldsstjóri.

Við göngum meðfram háskólanum til hægri Kristalsgötu og síðan til hægri Fjólustræti. Háskólabókasafnið er hér á hægri hönd og þar var Árnasafn til húsa við þröngan kost, frá því er það var flutt af lofti Þrenningarkirkju og unz það var flutt í Próvíanthúsið.

Hér sat Jón Helgason prófessor og orti: “Innan við múrvegginn átti ég löngum mitt sæti / utan við kvikaði borgin með gný sinn og læti”.

Við erum aftur komin að Frúarkirkju. Hér að baki hennar er Metropolitan-skólinn, sem áður hét Frúarskóli. Þar lærðu Hallgrímur Pétursson sálmaskáld, Grímur Thorkelín, síðar leyndarskjalavörður, og Sigurður Sigurðsson, síðar landþingsskrifari. Skúli Þ. Thorlacius var rektor skólans 1777-1803.

Hér beygjum við til vinstri inn Stóra Kanúkastræti og hægjum ferðina verulega, því að hér er íslenzk saga við hvert fótmál. Í götunni hefur íslenzka hljómað öldum saman, þegar námsmenn gengu milli garða og skóla.

Á fjarlægara horni Stóra og Litla Kanúkastrætis stóð áður hús Árna Magnússonar prófessors, Það er brann í hinum mikla Kaupmannahafnareldi í október 1728. Með húsinu brann hluti fornbókasafns hans, Árnasafns.

Andspænis húsi Árna er enn Borchs Kollegium, er var einn fínasti stúdentagarður borgarinnar. Þar voru umsjónarmenn Einar Guðmundsson og Skúli Thorlacius. Meðal annarra garðbúa voru Árni Magnússon, Jón Eiríksson, síðar konferensráð, Vilhjálmur Finsen, síðar landfógeti, og Konráð Gíslason, áður en hann flutti í Skinnaragötu.

Við hlið húss Árna var Londemanns hús, heitið eftir þeim Íslendingi, sem mest tignarheiti hefur borið í aðalsmannastíl, næst jarli og hirðstjórum Noregskonunga. Londemann var sonur Hans Londemann, sýslumanns Árnesinga, og Guðríðar Markúsdóttur. Hann varð prófessor, konsistorialráð, biskup og loks barón Rosencrone.

Við hlið Borchs Kollegium komum við næst að húsi Gjedde aðmíráls, þar sem Árni Magnússon var forstöðumaður garðbúa næstur á undan Ludvig Holberg leikritaskáldi. Hér bjuggu m.a. Finnur Jónsson og Hannes Finnsson, síðar biskupar, svo og Bjarni Thorarensen, er hér orti saknaðarljóðið Eldgamla Ísafold.

Garður

Loks komum við vinstra megin að merkasta húsi götunnar, Garði, sem öldum saman hýsti mikinn meirihluta íslenzkra námsmanna í Kaupmannahöfn. Hér fengu þeir forgangsvist samkvæmt konungsúrskurði, alveg eins og þeir höfðu forgangsfæði í Klaustri.

Danir kvörtuðu stundum sáran um, að íslenzkir ríkismannasynir og Íslendingar án nokkurra prófa og hæfnisvottorða voru orðalaust teknir fram yfir Dani, sem ekki komust yfir þröskuldinn í vali úr stórum hópi umsækjenda. Og það er merkilegt rannsóknarefni, að konungur lét þetta kíf jafnan sem vind um eyru þjóta.

Með forgangi Íslendinga að Klaustri og Garði var auðvitað stuðlað á einkar virkan hátt að menntun Íslendinga á erfiðum öldum. Mjög er óvíst, að forfeður okkar hefðu getað tekið íslenzk mál í eigin hendur, ef forréttindin í Kaupmannahöfn hefðu ekki undirbúið jarðveginn og haldið honum við. Þetta gleymdist stundum í Danahatrinu.

Skrár Garðs sýna mikil afföll Íslendinga. Margir þeirra lágu í svalli og spilum meðan hinir dönsku félagar lágu yfir bókum. Ófagrar eru lýsingar á hinni illræmdu þrenningu Ögmundar Sívertsen, Högna Einarssonar og Torfa Eggerz, svo og á Magnúsi og Gunnlaugi Blöndal um miðja síðustu öld, púlsmönnum “hjá Bacchi og Veneri”.

Íslendingar bjuggu mikið út af fyrir sig á sjötta stigagangi á Garði, blönduðu lítt geði við Dani og tróðu frekar illsakir við þá. Klemenz Jónsson, síðar landritari, var þó kosinn prófastur Garðbúa með atkvæðum róttækra Dana. Hannes Hafstein, Skúli Thoroddsen, Indriði Einarsson og Björn Olsen nutu líka álits inn í raðir Dana.

Héðan af Garði kemur endalaus röð forustumanna Íslendinga. Á 17. öld menn eins og Brynjólfur biskup Sveinsson, Vísi-Gísli lögmaður, Árni prófessor Magnússon og Þormóður kvennamaður Torfason. Á 18. öld menn á borð við Skúla fógeta, Eggert Ólafsson og Magnús Stephensen.

Hinum þekktu nöfnum Íslendinga meðal Garðbúa fjölgar á 19. öld. Þá búa þar Jón Sigurðsson, Tómas Sæmundsson, Brynjólfur Pétursson, Konráð Gíslason, Páll Melsteð, Skúli Thoroddsen, Hannes Hafstein, Grímur Thomsen, Steingrímur Thorsteinsson, Gestur Pálsson og Þorsteinn Erlingsson.

Hins vegar hafa mjög fáir forustumenn 20. aldar átt hér viðdvöl. Og vorið 1981 var svo komið, að ekkert íslenzkulegt nafn var lengur að finna í garðverjaskrá portsins. Hér verður því ekki lengur neinn “Rúki” prófastur (Eiríkur Jónsson) til að láta söng og ærsl, kvennafar og svall, fara í taugar sér, svo sem hann gerði á síðasta aldarfjórðungi síðustu aldar.

Við verðum að lokum að slíta okkur frá þessari þungamiðju sögu Íslendinga í Kaupmannahöfn. Framundan, handan Kjötmangarans, er Sívaliturn, þaðan sem gengið var inn á loft Þrenningarkirkju, en þar var Árnasafn lengi. Þar “sat á turni” Jón Grunnvíkingur. Og fyrir utan turn er talið, að 60-70 Íslendingar séu grafnir í kirkjugarði, sem nú er orðinn stétt.

Strikið

Íslendingar virðast hafa meiri sögulega tilfinningu fyrir tungumáli en Danir. Þeir mundu, að mötuneytið hafði einu sinni verið í klaustri. Og þeir mundu, að Købmagergade var einu sinni nefnt eftir slátrurum, en ekki kaupmönnum, og notuðu því yfirleitt hið rétta orð, Kjötmangarinn.

Við göngum hér til hægri Kjötmangarann niður á Strik og það síðan út á Kóngsins Nýjatorg. Við erum hér á Rúnti íslenzkra hafnarstúdenta. Á horni Kjötmangarans og Skinnaragötu voru krárnar Himnaríki (Himmerige) og Helvíti (Café d´Enfer), mikið sóttar af Íslendingum. Síðast er um Himnaríki í frásögur fært, að þar sátu Halldór Laxness og Jón prófessor Helgason og gerðu úttekt á Þórbergi Þórðarsyni.

Ef við tökum hér krók til vinstri út í Gömlumynt og Grænugötu, erum við komin á æskuslóðir Bertels Thorvaldsen, er bjó á ósamlyndu og ömurlegu heimili drykkfellds föður í Grænugötu 7, í einu versta skuggahverfi borgarinnar. Frá Gottskálki föður hefur Bertel þó væntanlega fengið handbragðið, sem síðan þróaðist í átt til heimsfrægðar.

Hér liggur Pílustræti samhliða Kjötmangaranum. Þar er kráin Skarfurinn, sem fyrir nokkrum árum var einn helzti skemmtistaður Íslendinga, og deildu þeir honum með Grænlendingum.

Þegar við komum niður á Strik, skulum við taka eftir húsinu Austurgötu 6, þar sem er Den Københavnske Bank. Þar fæddist Jörundur hundadagakonungur, sonur Urbans úrsmiðs og Önnu Leth, sem hvatti H. C. Andersen til dáða. Skólabróðir Jörundar, Adam Øhlenschläger, getur þess, að þá þegar hafi hann verið duglegur við strákapörin.

Á þessum fínu slóðum bjó líka áðurnefndur Repp. Hér var og fullt af krám og veitingahúsum, sem nú eru horfin, en voru vinsælir áningarstaðir á kvöldgöngum Íslendinga fyrri alda. Á Amákurtorgi 4 var Blesi (Pleisch), þar sem nú er Bing & Grøndahl. Pétur drengur (Pedrin) var í Austurgötu.

Og svo getum við líka gengið fyrir hornið og byrjað nýja hringferð á Njáli, Hvít og Mjóna.

Utan elzta hlutans

Hér hefur aðeins verið lýst Íslendingaslóðum í elzta hluta miðbæjar Kaupmannahafnar. Við höfum ekki farið út í Kristjánshöfn til að skoða hús Íslandskaupmanna við Strandgötu eða minnast Spunahúss og Rasphúss, sem biðu fyrr á öldum sekra manna af Íslandi.

Við höfum ekki heldur farið norður í átt til Klampenborg til að skoða Bernstorffshöll, þar sem Eiríkur á Brúnum sat með konungafólki, Andrésarklaustur, þar sem Nonni (séra Jón Sveinsson) bjó í þrjá áratugi, eða heilsuhælið í Klampenborg, sem Jón Hjaltalín læknir stofnaði 1844.

Á leið okkar höfum við einkum staldrað við menn og atburði fyrri alda. Íslendingar 20. aldar eru ekki eins tengdir gamla miðbænum og fyrri kynslóðir þeirra voru, því að borgin hefur þanizt svo út um allt, að eingin leið er að rekja íslenzk spor 20. aldar í einni leiðarlýsingu.

Jónshús

Eitt hús skulum við þó heimsækja að lokum, því að það er orðið og verður sennilega áfram miðpunktur Íslendinga í Kaupmannahöfn. Það er Jónshús á horni Stokkhúsgötu og Austurveggs og rís þar móti okkur eins og hóftungufar Sleipnis í Ásbyrgi.

Á þriðju hæð hússins bjuggu þau hjónin Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir 1852-1879. Þar sat Jón löngum stundum við stafngluggann og skrifaði. Þar réðust mörg þau ráð, sem mörkuðu spor í sögu Íslands. Og þar áttu margir Íslendingar sitt athvarf í Hafnarferðum.

Carl Sæmundsen gaf Alþingi Íslendinga húsið 1966 og það hefur síðan sýnt því þann sóma að láta innrétta það í þágu Íslendinga í Kaupmannahöfn, svo að nú er það orðinn helzti samkomustaður þeirra.

Á tveimur neðstu gólfunum er hið eiginlega félagsheimili. Í kjallara er snyrtiaðstaða og lítill samkomusalur. Á næstu hæð er veitingasalur og setustofa, þar sem íslenzk blöð liggja frammi.

Veitingasalan er opin mánudaga, miðvikudaga-föstudaga 17-22, laugardaga-sunnudaga 14-20, en lokuð þriðjudaga. Síminn er 14 60 35. Íslendingafélagið og Félag íslenzkra námsanna í Kaupmannahöfn sjá um rekstur félagsheimilisins. Á sumrin er lögð áherzla á að taka á móti gestum og ferðamönnum heiman frá Íslandi.

Á annarri hæð er fræðimannsíbúðin, þar sem íslenzkum vísindamönnum gefst kostur á að búa endurgjaldslaust í þrjá mánuði. Á fjórðu hæð er íbúð íslenzka sendiráðsprestsins, sem jafnframt hefur umsjón með húsinu og minningarsafninu, sem er á þriðju hæð.

Minningarsafnið er opið mánudaga-laugardaga 17-19 og auk þess eftir samkomulagi við prestinn eða veitingamanninn. Í fremsta herberginu, sem var gestaherbergi á tímum Jóns og Ingibjargar, er fjallað um uppruna Jóns, æsku hans og skólaár.

Í stafnherberginu, sem var jafnt setustofa og vinnuherbergi Jóns, má sjá eftirlíkingar af skrifborði og stóli hans, sem varðveitt eru í Þjóðminjasafni Íslands, og aðrir munir eru í stíl þess tíma. Þar er einnig safn bóka eftir Jón og um hann.

Í þriðja herberginu, sem var áður borðstofan, er sýning, sem fjallar um ævi Jóns og störf, svo og heimilishagi þeirra hjóna. Þar sem áður var svefnherbergi hjóna, eldhús og stúlknaherbergi, er nú hýst bókasafn Íslendinga í Kaupmannahöfn. Þar eru einkum íslenzkar bækur til útlána og er safnið opið sunnudaga 16-18.

Vorið 1987 var sr. Ágúst Sigurðsson prestur í Jónshúsi, Bergljót Skúladóttir veitingamaður og Kristín Oddsdóttir bókavörður.

Við ættum öll að koma hér við á leið okkar um Kaupmannahöfn.

Landar á ferð

Einum Íslendingaslóðum megum við ekki gleyma, nútímanum í miðborginni. Á hverjum degi eru tugir Íslendinga staddir í Kaupmannahöfn í fríi, alveg eins og við. Marga kunnuga sjáum við á Strikinu rétt eins og í Bankastræti. Munurinn er bara sá, að á Strikinu eru Íslendingar í fríi, lausir við streitu og gefa sér tíma til að spjalla. Slík samtöl geta dregizt á langinn yfir bjórglasi á næstu krá. Kaupmannahöfn er þannig alveg kjörinn staður fyrir Íslendinga til að hitta Íslendinga.

Góða ferð!

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn skemmtun

Ferðir

Tivoli

Vorið er talið komið til Kaupmannahafnar, þegar hlið Tivoli eru opnuð 1. maí ár hvert. Þá flykkjast Danir og ferðamenn til að skemmta sér í þessum garði, sem tæpast á sinn líka í heiminum að fjölbreytni og hinu sérstaka danska fyrirbæri, sem kallast “hygge”.

Ekkert er líklegra til að dreifa streittu og eyða döpru geði en einmitt Tivoli. Staðurinn er svo magnaður áreynslulausri, danskri glaðværð, að hann ber höfuð og herðar yfir nafna sína og Disneylönd í öðrum löndum. Og hann er enn danskur, þótt ferðamenn setji líka svip á hann.

Frá 1843 hefur þessi merki skemmtigarður verið í hjartastað Kaupmannahafnar, ánægjulegur staður hvíldar og tilbreytingar, aðeins steinsnar frá umferðarþunga miðborgarinnar. Hér göngum við úr raunveruleikanum inn í furðulegan og fallegan ævintýraheim.

Við sjáum ímynd fjarlægra landa í hvolfþökum, minarettum og kínaþökum. Við verðum börn í annað sinn í þessum fáránlega samsetningi ólíklegustu hluta. Við skreppum inn í sjálft ímyndunaraflið.

Tivoli er líka eins konar lýðræði, þar sem háir og lágir, ungir og gamlir skemmta sér hver við annars hlið. Þeir eru allir jafnir, allir kumpánlegir, jafnt sendiherrann sem öskukarlinn.

Tónlistin er mikilvægur þáttur Tivolis. Miðpunktur hennar er konserthöllin, þar sem sinfóníuhljómsveit staðarins leikur. Þar koma líka fram heimsfrægir söngvarar og hljóðfæraleikarar til að gleðja gesti. Og svo leika hljómsveitir á palli á tveimur öðrum stöðum í garðinum.

Páfuglsleikhúsið hefur verið sérgrein Tivolis í heila öld. Þar er leikið án tals eftir feneyskum reglum frá endurreisnartímanum. Við sjáum Harlekin, Kólumbínu, Kassandra og Pjerrot sýna hinn hefðbundna látbragðsleik, sem yfirleitt er ekki hægt að sjá annars staðar.

Í Tivolisveitinni eru 109 drengir, 9-16 ára. Þessi sveit, sem er jafngömul garðinum, kemur fram ýmist marsérandi eða á sviði á laugardögum, sunnudögum og helgidögum, leikandi á alls kyns hljóðfæri. Út um heim er þessi sveit frægasti þáttur Tivolis.

Í vaxmyndasafninu sjáum við Karl Bretaprins og Karl Gústaf Svíakonung í boði hjá Margréti drottningu, Gorbatsjov og Reagan á fundi, Hemingway og Shakespeare í bókasafninu og margs konar persónur úr ævintýrum Grimmsbræðra og H. C. Andersen.

Tivoli hefur margar hliðar. Við getum setið í kyrrð og ró að morgni við lygnan vatnsbakkann. Við getum prófað hin fjölmörgu leiktæki síðdegis. Og að kvöldi getum við iðkað fimleika á diskóteki eða horft á flugeldasýningu.
Tivoli er opnað 10 á morgnana. Þá koma barnapíurnar og skilja börnin eftir á gæzluvellinum. Þá koma líka rosknu eftirlaunakonurnar, sem hafa keypt sér ársmiða að garðinum, til að skoða blómin og hvíla sig á bekkjunum. Í hádeginu koma jafnvel kaupsýslumenn til að gera út um viðskipti undir borðum.

Straumþunginn eykst, þegar líður á daginn og fólk losnar úr vinnu. Barnatækin eru sett í gang upp úr 11:30. Eftir 14:30 eru skemmtitækin stanzlaust í gangi, rússíbani, parísarhjól, speglasalur, draugagöng, spilavélar og allt, sem mönnum hefur dottið í hug að smíða af slíku tagi.

Barnaleikhúsið Valmúinn hefur sýningar 12:30, 13:30 og 14:30 laugardaga og sunnudaga, og 2. júlí-15. október einnig aðra daga, nema þriðjudaga.

Tivolisveitin leikur á útisviðinu laugardaga 15:15 og marsérar um garðinn fimmtudaga 16:45 og laugardaga og sunnudaga 18:30 og 20:30.

Útitónleikar hefjast í Promenade-Pavilionen um 16 og eru með hléum fram til miðnættis. Fjöllistamenn sýna á Plænen 19:15 alla daga nema mánudaga, og einnig 17 laugardaga og sunnudaga. Leiksýningar i Tivoli-Revue eru yfirleitt 19:45 og 21:45.

Fyrsti konsert kvöldsins hjá sinfóníuhljómsveitinni í Konserthöllinni er venjulega 19:30 og hinn síðasti 21. Inn á milli koma þar fram þekktir listamenn úr öllum heimshornum, kannski Ashkenazy, Oscar Peterson, The Mills Brothers eða Victor Borge.

Látbragðsleiksýning er í Páfuglsleikhúsinu virka daga 19:45. Á sama sviði er balletsýning virka daga 22.

Um 19 fara veitingahúsin, sem eru 25 að tölu, að fyllast. Og 20 hefst dansinn á Dansette og jazzinn á Slukefter.

Fjörið magnast í Tivoli á kvöldin, þegar skyggja fer. 110.000 marglitir lampar og ljós í gosbrunnum og skrúði 160.000 blóma setja svip á garðinn. Og þegar 40.000. gestur dagsins er kominn, lýkur hátíðinni með flugeldasýningu 23:45 miðvikudaga og laugardaga, svo og föstudaga eftir 20. júní, og sunnudaga 23:15.

Aðgangur að Tivoli kostaði 6 krónur. 5-12 ára börn greiða hálft gjald. Verulegur hluti skemmtiatriðanna eru ókeypis og önnur við vægu verði. Hins vegar er selt í leiktækin og kostaði það 6 eða 12 krónur. Sérstakur Tur-Pas, sem veitir ótakmarkaðan aðgang, hversu oft sem vill, að öllum helztu 25 leiktækjunum, kostaði 88 krónur.

Ástæðulaust er að skipuleggja nákvæmlega gönguferð um Tivoli. Miklu skemmtilegra er að villast þar um, tapa áttum og láta sig berast með glaðværum straumnum, hvert sem verða vill. Hér verður þó bent á hringferð um garðinn til að ná yfirsýn.

Við göngum inn um aðaldyrnar, sem snúa út að Vesterbrogade. Okkur á hægri hönd er fyrst upplýsingastofa og póstkortasala og síðan barnaleiksviðið Valmuen. Við göngum beint af augum fram hjá Promenade-útihljómpallinum á hægri hönd og útisviðinu Plænen til vinstri.

Andspænis Plænen er veitingastofan Balkonen. Þar er tilvalið að fá sér langdreginn kvöldverð og geta um leið fylgzt með því, sem fram fer á Plænen, látum fjöllistamanna og flugeldasýningu, svo og þrammi tónlistardrengja Tivolisveitarinnar.

Við förum hægra megin við gosbrunnasvæðið og nálgumst leiktækin, þar sem frægastur og vinsælastur er rússíbaninn og nýstárleg Óðins-hraðlestin. Hér er líka parísarhjól og rúmlega 20 önnur leiktæki.

Við göngum milli leiktækja og spilakassa framhjá danshúsinu Dansette og förum bak við Konserthöllina, framhjá Kínverska turninum og speglasalnum. Við göngum rangsælis eftir vatnsbakkanum, þar sem er miðja vega hin vinsæla Færgekro með rómantísku útsýni að kvöldlagi.

Við göngum áfram kringum vatnið, framhjá gæzluvelli litlu barnanna að höll H. C. Andersen, sem er ein nýjasta viðbótin við garðinn. Þar inni er vaxmyndasafnið.

Við höldum svo áfram kringum vatnið gegnum blómagarðinn alla leið að Harmonia-Pavilionen, þar sem við beygjum til hægri og förum framhjá Tivolileikhúsinu að veitingahúsinu Gröften, sem er líklega glaðlegasta matstofa garðsins og sú danskasta.

Að lokum höldum við framhjá Páfuglsleikhúsinu og erum aftur komin að innganginum við Vesterbrogade. Við höfum kynnzt andliti Kaupmannahafnar og erum reiðubúin að kynnast öðrum hliðum hinnar hugnæmu borgar við sundið. En fyrst og fremst erum við reiðubúin að koma aftur í Tivoli, draumagarð barna á öllum aldri, þar á meðal okkar.

Circus Benneweis

Circus Benneweis er mikilvægur þáttur aðdráttarafls Kaupmannahafnar. Sirkushúsið frá 1887, hundrað ára gamalt, er í hjarta borgarinnar, í næsta nágrenni Tivoli. Þar sér um fjörið fimmta kynslóð elztu sirkusfjölskyldu Evrópu, Benneweis fjölskyldan.

Frá 1. apríl til októberloka ár hvert er boðið upp á hálfs þriðja tíma dagskrá á degi hverjum og tvisvar á laugardögum og sunnudögum. Yfir vetrarmánuðina bregður sirkusinn svo undir sig betri fætinum og heimsækir nálæg lönd.

Fasta uppistaðan í sýningum sirkusins eru dýrin, sem Benneweis fjölskyldan hefur þjálfað. Diana Benneweis sýnir hvíta, arabiska gæðinga, sem kunna ýmsar listir. Miller Benneweis sýnir fíla, sem ganga yfir og leggjast á konu hans, Bettinu, án þess að gera henni mein.

Til viðbótar eru svo á vori hverju fengnir nýir fjöllistamenn, svo sem trúðar, línudansarar, loftfimleikafólk, kraftakarlar, töframenn og jonglarar. Þegar við síðast heimsóttum Benneweis, voru gestalistamennirnir allir frá rússneska ríkissirkusnum í Moskvu.

Fyrst skal frægan telja trúð trúðanna, sólskinstrúðinn Oleg Popov. Hann kom jafnan fram milli atriða og lét okkur veltast um af hlátri, svo sem er hann lék sér við sólargeisla og endaði með því að pakka honum saman og stinga niður í körfu.

Annar ótrúlegur listamaður var jonglarinn Evgeni Biljauer, sem hafði fleiri kúlur á lofti en við höfum haft spurnir af annars staðar. Ennfremur kraftakarlinn Valeri Gurjev, sem greip þung fallstykki með hálsinum. Og Schemschur hópurinn, sem sýndi allt öðru vísi fimleika en sirkusgestir eru vanir að sjá.

Margt fleira var að sjá á þessari óvinjafnanlegu kvöldstund hjá Benneweis, konu rokkandi á línu, hund skjögrandi af ölvun, sæljón dansandi á línu og hunda stökkvandi tvöföld heljarstökk. Allt fór þetta fram við örugga kynningu Nelly Jane Benneweis.

Í Circus Benneweis veinuðu allir af hlátri og tóku andköf af skelfingu, börn og gamalmenni -og við sjálf. (Circus Benneweis, Jernbanegade 8, sími 14 59 92, A4)

Dýragarðurinn

Með góðri samvizku eyðum við hálfum degi í dýragarði Kaupmannahafnar og helzt heilum, ef börnin eru með í för. Hann var stofnaður 1859 og er einn af elztu dýragörðum heims. Engin ellimörk eru þó á honum, enda er hann í stöðugri endurnýjun.

Í þessum dýragarði hefur tekizt betur en víðast annars staðar að láta dýrunum líða vel við aðstæður, sem þeim eru ekki náttúrulegar. Þetta er líklega eini dýragarðurinn, þar sem tekizt hefur að fá indverska fíla, hvíta nashyrninga og Congo-páfugla til að eignast afkvæmi.

Þetta er þeim mun athyglisverðara fyrir þá sök, að garðurinn er inni í borginni og hefur takmarkað rými. En ráðamenn og náttúrufræðingar staðarins hafa um langan aldur lagt sérstaka áherzlu á að reyna að láta dýrunum líða vel, þrátt fyrir aðstæður.

Þegar við komum síðast í dýragarðinn, hafði fílskálfurinn Maja mesta aðdráttaraflið fyrir gesti, sem voru furðumargir á köldum, en björtum vordegi. Garðurinn er opinn allt árið, en skemmtilegast er að heimsækja hann, þegar gróðurinn er í blóma.

Garðurinn státar af 500 tegundum dýra, sem sum hver eru sjaldséð í dýragörðum. Má þar nefna bengalska tígrisdýrið, moskusuxann og Congo-páfuglinn. Svo eru þar auðvitað ljón og pardusdýr, úlfaldar og zebrahestar, nashyrningar og flóðhestar, gíraffar og strútar, birnir og antílópur, svo sitthvað vinsælt sé nefnt.

Bezt er að haga göngunni um garðinn eftir fóðrunartíma dýranna, því að þá eru þau líflegust. Séu börnin með, verður að ætla þeim góðan tíma í barnagarðinum, þar sem þau fá að komast í snertingu við dýrin og leika sér meðal þeirra.

(Zoologisk Have, Roskildevej/Söndre Fasanvej, strætisvagnar nr. 28 og 41, í átt frá A5)

Strikið

Mesta fjörið í Kaupmannahöfn er ef til vill á Strikinu, hinum eina og sanna ás Kaupmannahafnar, milli höfuðtorganna Kóngsins Nýjatorgs og Ráðhústorgs. Þessi mannmarga göngugata er ein hin lengsta í heimi af slíku tagi og hefur orðið fyrirmynd margra annarra.

Í straumþunga mannlífsins á Strikinu ægir saman hraðstígum kaupsýslumönnum, virðulegum fyrirstríðsfrúm með hatta, öldruðum hippum með grátt í vöngum, bláhærðum ræflarokkurum og venjulegu fólki á öllum aldri. Og allt virðist þetta eiga vel saman.

Við gengum fram á fjörugan jazz hljómsveitar á horni Brimarhólms, gítarsöng útlendra hippa í dyrum lokaðs banka í Austurgötu, miðadreifingu kjarnorkuvina við Kjötmangarann, mótmælagöngu grunnskólabarna á Hábrú, trúarbragðafræðslu mormóna á Amákurtorgi, söng kennaranema á Vimmelskaftet gegn niðurskurði skólafjár og skopleik félaga þeirra á Nýjatorgi af sama tilefni.

Strikið er í rauninni margar götur, sem liggja misbreiðar í sveigjum milli torganna stóru. Austast er Östergade, síðan kemur Amagertorv, Vimmelskaftet, Nygade, Gammeltorv og vestast Frederiksberggade. Öll leiðin er um stundarfjórðungs rölt, ef uppákomur og verzlun tefja ekki.

Þungamiðja Striksins er Amákurtorg. Þar og við Austurgötu eru vöruhúsin og fínustu búðirnar, enda er aðeins steinsnar til Kóngsins Nýjatorgs, sem er miklu fínna en Ráðhústorgið. Þarna er í búðum yfirleitt ekki boðið upp á ódýrustu hlutina, en hins vegar margt af hinum beztu.

Lítið er um gangstéttarkaffihús á Strikinu. Helzt er sætis von á Gamlatorgi eða Amákurtorgi til að fá sér kaffibolla og líta yfir fjölbreytilegt mannhafið. En látið ekki glepjast inn í pizzeríur og börgera Striksins, heldur leitið inn í hliðargöturnar, þar sem almennilegan mat er að fá.

Sem betur fer er klámið horfið af Strikinu. Aðeins eina einstæðingslega sjoppu sáum við í hliðargötu. Að þessari breytingu er veruleg landhreinsun. Gerir þá minna til, þótt einstaka skyndifæðustaðir komi í staðinn. Að öllu samanlögðu gegnir Strikið hlutverki sínu af engu minna fjöri en áður. Þar er sem fyrr slagæð Kaupmannahafnar.

Kóngsins Nýjatorg

Hvítur (Hviids Vinstue) er elzti, en ekki að sama skapi virðulegasti fulltrúi gamla kráarlífsins við Kóngsins Nýjatorg. Þar er allt við þau ummerki, sem við ímyndum okkur, að hafi verið á síðustu öld, hvert smáherbergið og holan inn af annarri í heilan hring.

Lágt er til lofts og skuggsýnt og gestir þaulsætnir við bjór og tóbaksreyk. En hér er líka hægt að fá gott og ódýrt vín hússins, sem fáir notfæra sér. Upp úr hádeginu var strjált setið af kófdrukknum iðjuleysingjum, en við vinnulok fylltist allt af glaðværu fólki, sem hér mælir sér mót, áður en farið er heim eða út á lífið.

Aðeins innar í Litlu Kóngsinsgötu er smáholan Skinnbrókin (Skindbuksen), þar sem sumir störðu nokkuð stjarfir ofan í ölglasið sitt, þegar leið á kvöldið. Þar er botn virðingarstigans í kráarlífi torgsins.

Efsta þrep þess virðingarstiga er auðvitað langa gangstéttarkaffihúsið á Angleterre hóteli, þar sem fína fólkið virti fyrir sér pupulinn, sem gekk hjá með hendur í vösum. Þar hugsuðu margir, að heimur versnandi færi.

Hér til hliðar við Angleterre er veitingastofan Egoisten, hreinleg og falleg stofa með miðlungs verðlagi og stílar meira á matargesti en öldrykkjumenn. Öllu frægari og um leið ódýrari og ekki síður þægilegur er hinn ítalski Mjóni, sem lengi hefur heitið Stephan á Porta, andspænis Hvíti við Litlu Kóngsinsgötu.

Handan torgsins er svo Brönnum, milli Konunglega leikhússins og Listaakademíunnar, hin fína listamannakrá Kaupmannahafnar með ölstofu úti við dyr og veitingasal hið innra. Þjónustan er léleg og maturinn vondur, en gott er að mæla sér mót á barnum.

Eftir að hafa rölt hringinn, var greinilegt, að segulmagnið kom frá hinu gamla og trausta Hviids Vinstue. Þar stungum við okkur inn á nýjan leik til að ljúka kvöldinu.

Grábræðratorg

Grábræðratorg er griðastaður menntamanna í Latínuhverfi Kaupmannahafnar. Þar kemur unga fólkið saman, laust við umferðarhávaða bílagatna og straumþunga gangandi fólks á Strikinu. Þar eru margar krár og veitingahús með borðum og sólhlífum úti á stétt.

Torgið er heimur út af fyrir sig, ekki sízt þegar þar eru haldnir hljómleikar undir beru lofti. Við sitjum við gosbrunninn, á bekkjum, við eitthvert borðið eða stöndum í hnapp úti á miðju torgi. Hér þekkjast menn og kasta kveðju hver á annan.

Hér eru hávaðasamar holur á borð við bjórkrána Frimands Quarteer á númer 12 og vínkrána Oxe´s Vinkælder á númer 11, þar sem er hver rangalinn inn af öðrum, með skotum og hornum hér og þar. Eða þá tiltölulega friðsamur Sporvejen á númer 17, sem er innréttaður eins og sporvagn.

Hér er líka matstofan Bøf og Ost í kjallaranum á Grábræðratorgi 13. Þar fengum við fremur ódýran mat og sæmilegasta ost í skemmtilegum kjallara, sem einu sinni var hluti af klaustri. Sumt af gripunum, sem fundizt hafa við fornleifagröft á þessum stað, eru til sýnis í skotum í veggjum. Húsið sjálft er frá 1735, en hluti kjallarans er frá sextándu öld.

Gråbrødretorv 14 er snyrtilegt veitingahús við hlið Frimands Quarteer. Þar er verðlagið komið upp í milliverð og kjósa þá fleiri námsmenn að fara fyrir svipað í salatborðið á Peder Oxe, sem er uppi yfir kránum Oxe´s Vinkælder og Bøf og Ost á númer 11 og 13. Þetta var góður matstaður, sem hefur sett niður á síðustu árum.

Í Kaupmannahöfn látum við aldrei hjá líða að skreppa steinsnar frá Strikinu og fá okkur glas af víni eða öli við þetta notalega torg brattra húsa frá 18. öld. Það er góð hvíld frá niði umferðar gangandi og akandi fólks.

Vin & Ølgod

Mikið og fjörugt húllumhæ er jafnan á Vin & Ølgod, ódýrri 400 gesta knæpu, þar sem menn standa á bekkjum og borðum og syngja gamalkunn ljúflingslög á borð við “Í Hlíðarendakoti”. Þar sáum við aðeins einn gest, sem ekki ljómaði af ánægju. En hann var ekkert sérstaklega fýlulegur heldur.

Þarna skemmta sér bæði Danir og ferðamenn með aðstoð hljómsveitar og skemmtistjóra. Staðurinn er of gamaldags fyrir táninga, en þar fyrir utan eru gestir á öllum aldri. Ölið er kneifað ótæpilega úr lítrakrúsum og sumir fá sér smørrebrød með.

Vin & Ølgod minnir dálítið á bjórhallir Bæjaralands. Hér er þó ekki lúðraþytur eða stapp, hí og hopp, heldur mildari tónlist og söngvar, sem allir þekkja eða geta fylgzt með í söngbókum, sem eru við hvers manns disk.

Viljum við beint í fjörið, hafandi borgað lágan aðgangseyri fyrir karlmanninn og 0 krónur fyrir konuna, er ráð að fara í aðalsalinn, setjast þar við langborðin og deila geði við nágrannann, veifa fánum, dansa vals og rúmbu og taka saman höndum og róa.

Viljum við láta fara minna fyrir okkur, getum við pantað borð uppi á English Pub, þar sem útsýni er ágætt yfir gleðskapinn. Einnig má nota hina portúgölsku Bistro, þaðan sem líka er hægt að horfa yfir salinn
Viljum við kneyfa ölið sem fastast, eru langborð niðri í Rådhuskælderen, þar sem menn skemmta sér undir sjö alda gömlum steinbogum og fangahringjum., svona nánast sem í helli væri. Hér er semsagt eitthvað fyrir alla og það í ekta dönskum stíl.

(Vin & Ølgod, Skindergade 45, sími 13 26 25, opið 20-02, lokað sunnudaga, B3)

Önnur skemmtun

Leikhús, ópera og ballet eru háu stigi í Kaupmannahöfn. Þeim, sem vilja líta inn á slíkum stöðum, bendum við á bæklinginn Copenhagen This Week, sem kemur út mánaðarlega, eða dönsku dagblöðin. Í blöðunum er líka sagt frá bíómyndum, sem koma og fara.

Diskótek og næturklúbbar eru hverful fyrirbæri. Ef við vildum hér mæla með einum umfram aðra, væri eins víst, að hann yrði horfinn, þegar lesandinn vildi notfæra sér ráðgjöfina. Slíka staði verður áhugafólk að þefa uppi, þegar það kemur til Kaupmannahafnar. Jazz er sennilegra stöðuglyndari á Montmartre í Nørregade 41 og á De Tre Musketerer á Nikolaj Plads 25.

Skemmtigarður í stíl við Tivoli, en eldri, er Bakken í Klampenborg, sem er úthverfi borgarinnar. Margir Danir taka hann fram yfir Tivoli, enda er rýmið meira. En Tivoli hentar betur ferðamönnum, sem hafa knappan tíma. Hafi menn tímann, er Bakken til reiðu frá 1. apríl ár hvert.

1981, 1989
© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn útrásir

Ferðir

Útrás um Sjálandsbyggðir

Við erum nú orðin svo kunnug Kaupmannahöfn, að við höfum dag aflögu fyrir danska sveitasælu. Við fáum okkur bíl á leigu til að skoða á Norður-Sjálandi hið dæmigerða danska landslag, kastala, söfn og dómkirkju. Við getum auðvitað farið í hópferðir til þessara staða, en frjálslegra er að fara með eigin tímaskyni á eigin spýtur.

Ef við ætlum að skoða allt, sem hér er lýst, á einum degi, verðum við að láta hendur standa framúr ermum. Leiðin er 175 kílómetrar og tekur tæpar fjórar klukkustundir í akstur. Vegna takmarkaðs opnunartíma merkisstaða verða þá ekki nema fimm stundir aflögu til skoðunar.

Þá er um að velja að sleppa einhverju og skoða annað lauslega, sem við höfum á minnstan áhuga, eða taka tvo daga í ferðina. Þá gistum við annaðhvort á Hotel Marienlyst á Nordre Strandvej 2, Helsingjaeyri, eða á Hotel Store Kro á Slotsgade 6, Fredensborg.

Við leggjum af stað 9 að morgni, finnum Østerbrogade og ökum hana til norðurs. Nafn hennar breytist fljótlega í Strandvejen, enda fylgjum við ströndinni úr borginni. Þetta er engin hraðbraut, heldur mjór vegur, sem bugðast um sjávarpláss, sumarhús og sveitasetur. Í góðu veðri sjáum við til Hveðnar (Ven) og Svíþjóðar.

Louisiana

Með rólegum akstri komum við til þorpsins Humlebæk um 10, þegar Louisiana-safnið er opnað. Þetta er gamalt sveitasetur í stórum og glæsilegum garði nyrzt í þorpinu, heilt völundarhús nútímalistar, bæði úti og inni, í gamla húsinu og í nýjum sölum. Þetta er eitt frjálslegasta safn, sem um getur, umvafið fersku sjávarlofti. Þegar við heimsóttum það síðast, var þar mjög stór sýning á verkum Picasso.

ð er meira virði en klukkustundar skyndiheimsóknar, sem lýst var hér að framan í ferðinni um Sjálandsbyggðir. Betra væri að hafa aflögu heilan daga til að skoða safnið, sem er eitt hið notalegasta í heiminum.

Safnið er í mörgum samtengdum sölum og glergöngum, sem mynda stóran hring í fögrum garði við Eyrarsund. Salirnir eru byggðir út frá nítjándu aldar herragarði, sem Alexander Brun lét reisa. Hann var þrígiftur og hétu allar konur hans Louise. Því nefndi hann bústaðinn Louisiana og hefur nafnið flutzt yfir á safnið, sem stofnað var 1958.

Safnið nær yfir innlenda og alþjóðlega list nútímans, það er að segja eftirstríðsáranna. Ýmis söfn í helztu heimsborgunum hafa meira úrval listaverka nútímans, en safngripir Louisina eru vel valdir og búa við skemmtilegra umhverfi en munir í söfnum á borð við Museum of Modern Art í New York.

Í góðu veðri er ánægjulegt að rölta um höggmyndagarðinn innan í safnhringnum og skreppa niður í skógarbrekkuna, er liggur niður að Eyrarsundi og anda að sér sjávarlofti. Hægt að matast undir beru lofti eða fá sér hressingu, því að veitingasalur er á svæðinu. Enginn vandi er að láta heilan dag líða hjá í Louisiana.

Safnið er ekki hvað sízt þekkt fyrir höggmyndir. Venjulega falla slík verk í skugga málverka á söfnum. Hér njóta þær hins vegar forgangs og þess er gætt, að þær hafi nóg rými í garðinum, svo að þær njóti sín vel við eðlilega lýsingu úti í náttúrunni.

Í hryssingsveðri má líka virða fyrir sér verkin innan frá, því að þau eru nálægt glerveggjum safnskálanna. Falla þau þá vel inn í grænan ramma grass og trjáa. Þess vegna er gott veður ekki nauðsynleg forsenda heimsóknar í Louisiana, þótt auðvitað sé það heppilegra.

Þarna eru verk ýmissa helztu höggmyndasmiða heims. Næst aðaldyrunum eru listaverk eftir Jean Arp. Síðan koma höggmyndir Max Ernst, þá Henry Moore, Joan Miró og loks Alexander Calder. Hver þessara listamanna hefur dálítið svæði út af fyrir sig. Einnig eru í safninu höggmyndir eftir Nobuo Sekine og Alberto Giacometti. Þrettán verk hins síðastnefnda eru raunar eitt helzta tromp staðarins.

Hvergi í Danmörku er betra safn nútímalistar. Glyptoteket og Ríkislistasafnið í Kaupmannahöfn skilja að mestu við hana, þegar lýkur tímabili hinna frönsku málara frá 1850-1920. Abstrakt list er til dæmis ekki til sýnis í þessum tveimur merku söfnum. Hennar þarf að leita í Louisiana.

Safnið skiptist í deild fastra og breytilegra sýningargripa. Í föstu deildinni má fyrst nefna Cobra-hópinn, þar á meðal Svavar Guðnason, sem á tvö verk í Louisiana. Ennfremur nokkra abstrakt-frömuði á borð við Vassily Kandinsky, Victor Vasarely, Jean Devasne og Auguste Herbin. Eitt verk er eftir Erró, “Rauði síminn”. Þriðji íslenzki fulltrúinn er Sigurjón Ólafsson.

Af listamönnum sjötta áratugsins má nefna áðurnefndan Giacometti, svo og Jean Dubuffet, Francis Bacon, Yves Klein, Lucio Fontana og Sam Francis. Fulltrúar sjöunda áratugsins eru meðal annarra JeanTinguely og César. Frá sama tíma eru poppararnir Roy Lichtenstein, Robert Rauschenberg og Andy Warhol. Gisnara er um listamenn, sem einkenna áttunda og níunda áratuginn.

Athyglisvert er, að Louisiana er ekki í opinberri eigu og nýtur lítils sem einskis beins stuðnings ríkisins. Safnið er sjálfseignarstofnun, sem nýtur gjafmildi einstaklinga, fyrirtækja og stofnana, svo sem Carlsberg-sjóðsins, sem kostar kaup á einu meginlistaverki á hverju ári.

Louisiana er samspil náttúru, byggingalistar og nútímalistar. Salirnir hafa verið reistir smám saman á þremur áratugum. Þeir eru hver með sínu sniði, sumir lágir og breiðir, aðrir háir og mjóir, en falla samt inn í samræmda heild, þar sem þess er gætt, að byggingar beri listaverk og náttúru ekki ofurliði.

Talsvert er um tónleika, bíósýningar, umræðufundi, leiksýningar og bókmenntaupplestur í safninu, einkum um helgar. Ferðamenn geta fyrirfram kynnt sér, hverjar eru slíkar uppákomur og tímabundnar listsýningar.
Það er ánægjulegt að líta inn í Louisiana, en stórkostlegt að geta gefið sér þar góðan tíma.

Krónborg

Eftir 30 mínútna akstur til viðbótar komum við til Helsingjaeyrar (Helsingör). Við höldum okkur þar við Strandvejen að höfn Svíþjóðarferjanna, því að þaðan er leiðin að Krónborg greinilega merkt. Við erum komin að gömlum hornsteini Danaveldis, þaðan sem skotið var á skip þau, er ekki greiddu Eyrarsundstoll.

Krónborg var reist 1574-85 í hollenzkum endurreisnarstíl, fremur kuldaleg að sjá, úr rauðum tígulsteini og með koparþaki. Inni má skoða einn af stærstu hallarsölum Evrópu, upprunalegar eikarinnréttingar í kirkju, svo og híbýli konungs og drottningar. Einna merkast er þó danska sjóferðasafnið, sem er til húsa í kastalanum. Krónborg er opin 10-17 á sumrin og 11-15 á veturna.

Hér lætur Shakespeare harmleik Hamlets gerast, og á þeim forsendum flykkjast hingað enskumælandi ferðamenn. Við bíðum þó ekki eftir draugagangi, heldur förum í bæinn og finnum rólegt markaðstorgið innan um gömul hús og miðaldagötur. Við fáum okkur hádegissnarl á Gæstgivergården Torvet til að njóta betur hins gamla tíma.

Fredensborg

Við megum ekki slóra of lengi. Við yfirgefum Helsingjaeyri á vegi A3 og beygjum inn á A6 eftir sex kílómetra akstur. Við komum eftir 20 mínútur að nýjum áningarstað, sveitasetri Danadrottningar, Fredensborg. Þessi “höll friðarins” er opin almenningi í júlí, en hinn mikli hallargarður allt árið. Vegvísarnir að höllinni eru merktir “Fredensborg Slot”, því að þorpið sjálft heitir Fredensborg.

Fredensborg var reist 1719-26 á vegum Friðriks IV konungs í ítölskum stíl. Hún var eins konar miðpunktur Evrópu á tímum Kristjáns IX, sem var kallaður tengdafaðir Evrópu. Hér hélt hann sumarveizlur ættingjum sínum og tengdafólki, þar á meðal Alexander III Rússakeisara og Játvarði VII Bretakonungi.

Friðriksborg

Við ökum svo áfram A6 tíu mínútna veg gegnum Gribskov, einn stærsta skóg Danmerkur, til Hillerød. Þar fylgjum við vegvísum til hins volduga og glæsilega kastala, Friðriksborgar, sem Friðrik II konungur lét reisa 1560 í hollenzkum endurreisnarstíl. Sonur hans, Kristján IV, sem fæddist hér, lét breyta höllinni og endurbæta 1602-20.

Friðriksborg er raunar mun skoðunarverðari en Krónborg. Hún er meiriháttar þjóðminjasafn með afar skrautbúinni kapellu, þar sem er hásæti og orgel frá 1610. Aðalsalur kastalans er einnig skartlegur í meira lagi. Hér voru konungar Danmerkur krýndir, meðan sá siður hélzt. Á safninu er ótrúlegur fjöldi málverka og gamalla húsmuna.

Víkingaskipasafnið

Eftir þessa skoðun höldum við okkur enn við A6 og ökum þriggja stundarfjórðunga leið til Hróarskeldu (Roskilde). Við fylgjum þar fyrst vegvísum til miðbæjarins, en höfum við hringtorg augun opin fyrir vegvísi til Víkingaskipasafnsins á hægri hönd.

Safnið var opnað 1969. Þar eru til sýnis fimm skip frá 1000-1050, sem sökkt var í mynni fjarðarins á sínum tíma, sennilega til að hefta för norskra víkinga. 70% viðar skipanna hafa varðveitzt og hafa skipin verið lagfærð af nostursemi.
Hér er líklega að finna eina skipið þeirrar tegundar, sem víkingaaldarmenn notuðu til siglinga til Íslands, Grænlands og Ameríku. Það er knörrinn. Hin skipin eru kaupskip, ferja, fiskibátur og langskip til hernaðar. Safnið er opið á sumrin 9-17 og á veturna 10-16.

Hróarskeldukirkja

Við förum til baka afleggjarann að hringtorginu og höldum inn í miðbæinn til dómkirkjunnar, sem er opin á sumrin 9-17:45 virka daga og 12:30-17:45 sunnudaga og á veturna 10-15:45 virka daga og 12:30-15:45 sunnudaga. Undirstöður hennar eru taldar vera frá tíma Absalons biskups um 1170, en turnspírurnar komu ekki á hana fyrr en 1635.

Í dómkirkjunni eru líkkistur danskra konunga og drottninga frá síðustu 1000 árum, gerðar sumar úr marmara og aðrar úr alabastri. Í kapellu Kristjáns I er súla, þar sem merkt er hæð konunglegra gesta. Kirkjan skemmdist í eldi 1968, en hefur verið lagfærð.

Járnaldarþorpið

Ef við höfum enn tíma og þol, þegar við yfirgefum Hróarskeldu, gæti verið gaman að koma við í Lejre til að skoða járnaldarþorp, sem þar hefur verið endurreist í fornleifarannsóknastöð. En þorpið er því miður aðeins opið til 17, svo að við kunnum að vera orðin of sein fyrir, ef við höfum kosið eins dags ferðina.
Til að finna Lejre förum við A1 til suðurs frá Hróarskeldu og komum brátt að vegvísi til staðarins. Þetta er um fimmtán mínútna leið. Að öðrum kosti förum við A1 í hina áttina og eigum þá ekki nema rúmlega hálftíma ferð á greiðri hraðbraut til Kaupmannahafnar.

Þar ljúkum við þessari snöggu ferð um hina eiginlegu Danmörku utan stórborgarinnar. Við höfum kynnzt landslagi Danmerkur, þorpum hennar og höllum á eins fljótlegan hátt og mögulegt er.

Málmey

Ef við höfum annan dag til umráða, er spennandi að taka flugbát til Málmeyjar í Svíþjóð frá horni Nýhafnar og Hafnargötu. Ferðin tekur 35 mínútur. Handan sundsins er síðan hægt að skoða Málmey og háskóla- og biskupsborgina Lund. Dómkirkjan í Lundi er fegursta dæmi rómanskrar byggingarlistar á Norðurlöndum, byggð 1080-1145.

Drageyri

Svo er líka til í dæminu, að við höfum ekki einu sinni heilan dag til umráða. Þá er heppilegast að fara til Drageyrar (Dragør) úti á Amager. Það er syfjulegt sjávarpláss í nágrenni Kastrup-flugvallar, með gömlum, rómantískum húsum og þröngum göngugötum, stofnað af hollenzkum innflytjendum á fyrri hluta 16. aldar.

Danmerkurhringur

Ef við höfum nægan tíma, til dæmis viku, getum við kannað aðdráttarafl sveitanna að baki borginni, ræturnar, sem stórborgarstilkur Kaupmannahafnar rís upp af. Við getum heimsótt gamla kastala og kirkjur og þorp og sveitir, sem hafa ræktað danska “huggu” um aldir. Ef börn eru með í ferð, er auðvelt að láta leiðina liggja um opna dýragarða og Legoland.

Hér er stungið upp á 900 km akstri og fjórum ferjuleiðum um Danmörku. Það felur í sér rólegar, 130 km dagleiðir með nægum tíma til skoðunar og hvíldar. Með meiri flýti má fara þessa hringleið á færri dögum, sérstaklega ef við veljum og höfnum úr því, sem hér verður boðið á næstu síðum.

Sjáland

Fyrst pöntum við hótel ferðarinnar og leggjum síðan um níuleytið af stað í bílaleigubíl frá gististað okkar í Kaupmannahöfn. Leiðin liggur suður eftir A2/E4 38 km til bæjarins Køge, þar sem við fylgjum vegvísum til bæjarmiðju, unz við komum að aðaltorginu, Torvet. Þar getum við staðnæmzt og ef til vill keypt vistir á torgmarkaðinum.

Á torginu og tveimur strætum, sem liggja að því, Kirkestræde og Vestergade, eru nokkur bindingshús frá 16. öld. Í Kirkestræde má líka líta Sankt Nicolaj kirkju frá 17. öld. Úr turni hennar fylgdist Christian V með sjóorrustu Dana og Svía á Køge-flóa 1677.

Þetta er stutt kynning á því, sem koma skal í þessari ferð, svo að við skellum okkur af stað til Vordingborg á venjulega veginum, ekki hraðbrautinni A2/E4. Eftir um 20 km komum við að síðara skiltinu af tveimur, sem vísa veginn til Haslev til hægri. Við beygjum þar, ef við viljum sjá sveitasetrin Bregentved og Gisselfeld. Að öðrum kosti höldum við áfram og höfum auga með vegvísi til Næstved, 5 km sunnar.

Frá áðurnefndum vegamótum eru 2 km að svifstíls-setrinu Bregentved. Hinn stóri garður þess, með tjörnum og blómabeðum, trjágöngum og víðáttumiklum túnum, er opinn almenningi miðvikudaga, sunnudaga og helgidaga, án aðgangseyris.
Eftir 2 km í viðbót beygjum við til vinstri að endurreisnarhöllinni Gisselfeld, sem var byggð 1547 sem kastali, umkringdur síki. Líka þar er fallegur garður, sem er opinn almenningi.

Á sömu leið komum við brátt að vegvísinum til Næstved. Þegar við höfum farið hjá Holme-Olstrup, beygjum við til hægri að Holmegård gleriðjunni, þar sem dýrasta gler er handblásið eftir hefðbundnum leiðum. Holmegård er ein frægasta gleriðja Danmerkur og sennilega hin bezta, stofnuð 1825. Hún er opin án aðgangseyris 9-13:30 og lengur um helgar. Hér er gaman að tefja tímann, ef við þolum hitann frá 1.450°C heitu gleri.

Við setjum bílinn í gang og höldum sem leið liggur allt til Næstved. Þegar við komum að bænum, förum við nokkur hundruð metra krók til gamla klaustursins Herlufsholm, sem er frá 1560. Þar er merkust 12. aldar kirkjan, sem enn ber 13. aldar svip, opin 11-17 á sumrin, 12-14 á veturna.

Nú er kominn tími til hádegisverðar. Við förum beint inn í bæjarmiðju í Næstved og leggjum bílnum undir hæðinni, þar sem rís Sankt Pederskirke, stærsta kirkja Danmerkur í gotneskum stíl, frá 13. og 14. öld. Við göngum upp á kirkjutorgið og förum beint í hádegismat á hótel Vinhuset, Sankt Peders Kirkeplads, sími (03) 72 08 07. Við höfum lagt 59 km að baki frá Køge.

Eftir mat og langvinnt kaffi röltum við út á hitt kirkjutorgið, Akseltorv, förum um Torvestræde til Sankt Mortenskirke frá 12. öld. Þaðan förum við eftir Riddergade, sem ber endurreisnarsvip, vörðuð bindingshúsum frá 1500. Til baka förum við Købmagergade og Sankt Peders Kirkeplads, framhjá gömlu prestssetri frá 1450 og bæjarsafninu, að bílnum.

Við höfum andað að okkur minningum frá þessum miðaldabæ kaupmennsku og klausturs og leggjum nú í 29 km ferð beint til Vordingborg. Sá bær er fallega í sveit settur, reistur umhverfis 12. aldar kastala, er þjóðarhetjan Valdemar konungur mikli lét reisa sem brottfararstað herferða til Þýzkalands og Póllands.

Leið okkar liggur um Algade beina leið til bæjarmiðju og rústa kastalans, þar sem Valdemar konungur dó 1182. Við sjáum veggi, undirstöður og kjallara, auk Gåsetårnet, sjö hæða turns, sem enn stendur. Hann var bæði virkisturn og svarthol, með 3,5 m þykkum veggjum og 36 metra hæð upp að gullnu gæsinni efst.

Hann er opinn 10-12 og 13-16.

Falstur

Enn leggjum við í hann og í þetta sinn yfir lengstu brú Danmerkur, 3,2 km yfir Storströmmen til eyjarinnar Falster, samtals 31 km leið beint til Nykøbing. Þar förum við eftir skiltum til austurhluta bæjarmiðjunnar og finnum fljótlega horn Brovejen og Jernbanegade. Þar er hótelið Baltic, Jernbanegade 45-47, sími (03) 85 30 66, þar sem við eigum pantað herbergi. Þar látum við taka frá borð fyrir kvöldverð í Czarens hus, Langgade 2, sími (03) 85 28 29.

Ráðlegt er að panta ferjur næsta dags frá hótelinu, svo að við verðum hvergi strandaglópar á leiðinni. Síminn hjá Tårs-Spodsbjerg ferjunni er (03) 93 13 03, hjá Rudkøbing-Marstal ferjunni (09) 53 17 22 og hjá Søby-Fåborg ferjunni (09) 58 14 88.

Eftir sturtu og stutta hvíld göngum við Jernbanegade að Gråbrødrekirken, sem er frá 1532, tengd klaustri. Frá kirkjunni förum við inn göngugötuna Lille Kirkestræde, sem heldur andrúmslofti fyrri tíma. Við beygjum til hægri í Friesgade/Langgade, framhjá elzta borgarahúsinu, á nr. 18, frá 1580, að Czarens hus, sem er frá um það bil 1700.

Pétur Rússakeisari snæddi hér einu sinni 1716 og hið sama ætlum við nú að gera. Húsið er í senn minjasafn og veitingahús. Safnið er lokað á þessum tíma, en verður opnað 10 í fyrramálið, ef við höfum áhuga. En veitingahúsið sjálft er eiginlega safn líka.

Láland

Næsta morgun um níuleytið förum við Brovejen yfir brúna milli eyjanna Falster og Lolland. Annað hvort förum við beint eftir A7 til Sakskøbing og Maribo eða förum krókinn um Nysted til að sjá Fuglsang sveitasetrið og Ålholm kastala. Leiðin frá Nyköbing til Nysted er 16 km og síðan eru 24 km þaðan til Maribo.

Fljótlega komum við að Fuglsang, sem er í blöndu gotnesks stíls og endurreisnarstíls. Þar fáum við okkur morgungöngu í fögrum hallargarði, þar sem aðgangur er ókeypis. Síðan höldum við áfram til Nysted og tökum krók til Ålholm kastala í þann mund, er við komum að bænum.

Hinn stóri kastali frá 12. öld lítur út eins og ræningjavirki úr ævintýrunum. Hann er byggður í ýmsum stílum frá ýmsum tímum. Norðausturturninn er frá 14. öld og vesturveggirnir frá 13. öld. Kastalinn var einu sinni konungsbústaður. Hann er opinn júní-ágúst 11-18. Ef við lögðum nógu tímanlega af stað í morgun, getum við notað tímann 10-11 í Ålholm Automobil Museum í nágrenninu, þar sem sýndir eru 200 gamlir bílar.

Frá Ålholm förum við eftir Saksköbing-veginum til Maribo, bæjar, sem reistur var umhvefis nunnu- og munkaklaustur frá upphafi 15. aldar. Nærri miðtorginu Torvet verður fyrir okkur dómkirkjan í Maribo, áður klausturkirkja, byggð 1413-70. Hún nýtur sín vel við hin ljúfu Maribo vötn.

Eftir 3 km á A7 í átt til Nakskov beygjum við til hægri Bandholm-veg til að taka 5 km krók til Knuthenborg. Það er opinn dýragarður, stærsti sveitaseturs-garður í Skandinavíu. Hann hefur verið svokallaður safari-garður síðan 1970. Tígrisdýr frá Bengal voru helzta aðdráttaraflið, þegar við ókum um garðinn. Kjörið er að fá hádegissnarl í Skovridergård Cafeteria í miðjum garðinum.

Auk tígrisdýranna státar garðurinn af villtum antílópum, gíröffum, zebradýrum, úlföldum, flóðhestum, strútum, öpum og mörgum fleiri dýrum, en fílana vantaði. Þar er líka stór barnagarður, þar sem boðnir eru reiðtúrar. Sýndar eru eftirlíkingar af sjö enskum höllum og kastölum. Einnig eru þar 500 mismunandi tegundir trjáa.

Hér er gott að verja heilu síðdegi, ef börnin eru með. En við verðum að gæta þess að missa ekki af ferjunum tveimur, sem við þurfum að ná, ef við ætlum að komast til Ærøsköbing í kvöld. Í tæka tíð verðum við að fara til baka á A7 til að halda áfram leiðinni frá Maribo til Nakskov, 27 km, og síðan 4 km til viðbótar að ferjuhöfninni í Tårs.

Langaland

Ferjan frá Tårs til Spodsbjerg á Langeland-eyju fer á klukkustundar fresti og á hálftíma fresti á annatímum. Ferðin tekur 45 mínútur. Frá höfninni í Spodsbjerg er aðeins stutt, 8 km leið til hafnarinnar í Rudkøbing, hinum megin á eyjunni. En áður en við yfirgefum Rudkøbing verðum við að gefa okkur tíma til að skoða og fara fram og til baka yfir hina voldugu Langalandsbrú, 1,7 km langa, hina þriðju lengstu í Danmörku. Og við verðum að skoða okkur um í Rudkøbing.

Við göngum frá höfninni upp Brogade að Gåsetorvet, rammað gömlum húsum. Síðan förum við spölkorn lengra, að kirkjunni, sem er að hluta frá um það bil 1100 og hefur endurreisnarturn frá 1621. Þaðan röltum við í fornlegu andrúmslofti um Smedegade, Vinkældergade, Ramsherredsgade, Gammel Sømandsgade, Strandgade, Sidsel Bagersgade, Østergade og síðan til baka Brogade að höfninni.

Ærey

Síðasta ferjan til Marstal á Ærø fer 20:15 og um helgar 21:15. Hin næstsíðasta fer 17:55 og 18:15 um helgar. Siglingin tekur um 60 mínútur. Frá höfninni í Marstal er skammur 5 km akstur til Ærøskøbing. Þar staðnæmumst við nákvæmlega í miðju gamla bæjarins, á bílastæði hótelsins Ærøhus, Vesterbrogade 38, sími (09) 52 10 03. Það er rólegt, gamalt hótel með nýtízkulegum herbergjum í garðhúsum.

Orðið er áliðið, svo að við flýtum okkur í Mumm, Söndergade, sími (09) 52 12 12, þar sem við eigum pantað borð. Eftir kvöldmat röltum við um gömlu strætin, Söndergade, Gyden, Nørregade, Smedegade og þvergöturnar Vestergade og Brogade. En við höfum betri tíma á morgun til að kanna þennan 17. og 18. aldar bæ, sem er betur varðveittur en aðrir slíkir í Danmörku.

Ærøskøbing er raunar hápunktur ferðar okkur inn í rómantíska fortíð. Allur bærinn er eins og safn. Þar eru 36 friðuð hús, en öll í fullri notkun. Um morguninn mætum við nútímabörnum á leið um göngugöturnar til skóla. Og ferðamenn eru ekki of margir, af því að staðurinn er úr alfaraleið.

Virka daga getum við tekið 10:45 ferjuna frá Søby, 16 km vestur frá Ærøskøbing. Alla daga náum við 13:15 ferjunni, sem gefur okkur lengri tíma í andrúmsloftinu í Ærøskøbing, en þá þurfum við líka að hringja í vertinn í Faldsled kro til að segja, að við verðum sein í hádegisverð, um 14:30. Ferjan er 60 mínútur á leiðinni til Fåborg á eyjunni Fyn.

Fjón

Ef við komum með seinni ferjunni, látum við skoðun Fåborg bíða til síðdegis og ökum greiða leið til Faldsled, 10 km lengra eftir veginum til Assens. Þar bíður okkar eina listamáltíðin á allri leiðinni frá Kaupmannahöfn til Árósa. Faldsled kro, sími (09) 68 11 11, í fjarlægari enda þorpsins, er bæði hótel og veitingastaður, einn hinn bezti í landinu. Þar var franskur kokkur og sennilega bezti vínlisti landsins. Þetta er rólyndislegt hús með stráþaki, að hluta til úr bindingsverki. Umhverfið er fagurt við ströndina. Þetta er dæmigerð lúxuskrá.

Þegar við höfum drepið tímann yfir kaffi og borgað háan reikninginn, snúum við til baka til Fåborg. Þar stönzum við á Torvet til að skoða gamla götuhluta umhverfis Vesterport, í Vestergade, Holkegade og Østergade, alla í næsta nágrenni turnsins, sem er leifar af Sankt Nicolai kirke, við hlið bílastæðis okkar.

Frá Fåborg leggjum við í 47 km ferð eftir A8 til Nyborg. Fyrst förum við framhjá klaustri, kirkju og kastala sistersíana-munka í Brahetrolleborg, 1 km handan við þorpið Korinth. 10 km síðar förum við 1 km krók til Egeskov. Það er endurreisnarkastali með síki umhverfis, hinn bezt varðveitti slíki í Evrópu. Þar er einstakur garður með 200 ára gömlum runnum og kryddjurtagarði. Kastalinn var byggður 1524-54 á eikarstaurum, sem voru reknir niður í vatnsbotn. Garðurinn er opinn til 19 á sumrin.

Þegar við komum til Nyborg, ökum við beint gegnum miðbæinn að Nyborg Strand í leit að næturgistingu á hótelinu Hesselet, Nyborg Strand, sími (09) 31 30 29. Það er eitt bezta hótel Danmerkur, þótt það sé ráðstefnuhótel.

Þar eru rúmgóð og óvenjulega vel búin herbergi. Hin dýrari snúa að hafinu, en hin að skóginum. Matargerðarlist er tekin alvarlega á þessum stað, svo að við snæðum kvöldverð á hótelinu. Starfsliðið er sérstaklega skapgott og þægilegt, jafnvel þótt hin japönsku áhrif hafi minnkað með árunum. Við notum tækifærið til að biðja um, að pöntuð sé fyrir okkur ferja frá Árósum til Kalundborg, sem við notum síðar í ferðinni.

Umhverfi Hesselet er afar vel fallið til morgungöngu eða hjólreiða að morgni dags. Hótelið lánar reiðhjól. Síðan snúum við bílnum inn í bæinn til að skoða hann, einkum Nyborg Slot, sem er frá 1170. Sá kastali var löngum áningarstaður konunga og aðalsfólks, nú opinn frá 9 á morgnana, 10 að vetrarlagi.

Óðinsvé

Brátt erum við komin á fulla ferð á A1/E66 skamman, 29 km spöl til Odense. Það er þriðja stærsta borg Danmerkur, ein hin elzta á Norðurlöndum. Óðinsvé hafa verið biskupssetur frá 1020. Frægust er borgin þó fyrir son sinn, ævintýraskáldið H. C. Andersen. Við förum beint í borgarmiðju, þar sem við getum lagt bílnum neðanjarðar, undir torginu, sem er andspænis Sankt Albani Kirke.

Fyrst förum við af torginu framhjá ráðhúsinu og Sankt Knuds Kirke, sem er frá miðri 13. öld, ein hinna mikilvægari kirkna landsins í gotneskum stíl. Þar eru grafir nokkurra danska konunga og drottninga. Kirkjan er stílhrein, sérstaklega að innanverðu. Örstuttu handan kirkjunnar er Munkemøllestræde, þar sem er bernskuheimili H. C. Andersen, opið 10-17 á sumrin og 12-15 á veturna.

Við hörfum til baka að Sankt Albani Kirke og förum inn í Overgade, Bangsboder, Jensensstræde, Ramsherred og Sortebrødretorv, sem mynda gamalt þorp innan í borginni. Í Jensensstræde 39-43 er H. C. Andersen safnið opið 9-19 á sumrin og 10-15 á veturna. Þar eru sýndir persónulegir munir hans, bækur og teikningar.

Andspænis safninu, við Ramsherred 2, er veitingastofan Under Lindetræet, sími (09) 12 92 86, hentug fyrir aðdáendur rithöfundarins og bauð okkur raunar ágætis hádegissnarl. Þeir, sem vilja borða í fornlegu andrúmslofti og gera sér ekki rellu út af matnum, geta snætt í Den Gamle Kro í Overgade 23, sími (09) 12 14 33. Það er bindingshús frá 1683, byggt umhverfis húsagarð, og hefur verið veitingastaður síðan 1771.

Jótland

Síðla dags förum við aftur út á A1 og ökum klukkustund 67 km leið til Kolding á Jótlandi, það er að segja meginlandi Evrópu. Þangað förum við á nýju hengibrúnni yfir Litlabelti. Hún var byggð 1970, spannar 1 km haf og hleypir 42 metra háum skipum undir sig.

Í Kolding stönzum við í bæjarmiðju, við hlið kastalans Koldinghus. Hann er frá 13. öld og hefur að hluta verið uppgerður sem safn, opið -17 á sumrin og -15 á veturna. Notalegt er að rölta “ástarbrautina” meðfram vatninu fyrir framan kastalann. Handan vatnsins er borgargarðurinn, þar sem er hótelið Tre Roser, Byparken, sími (05) 53 21 22. Þar borðum við kvöldverð og tökum á okkur náðir. Hótelið Saxildhus kemur einnig til greina.

Næsta morgun leggjum við enn af stað um níuleytið og förum úr bænum á A10/E3. Fljótlega beygjum við af honum í átt til Billund. Ferðin til Billund er 40 km löng. Við komum að hliðum Legoland, þegar sá ævintýraheimur barna er opnaður kl. 10. Hér sleppum við börnunum lausum fram yfir hádegið og gerum bara hlé til að fá hádegissnarl í Vis-a-Vis, sem er í beinum tengslum við garðinn.

Legoland er eign Lego System, framleiðanda hinna frægu, litlu kubba. Aðalaðdráttaraflið er lítið land, byggt úr 20 milljónum legó-kubba. Þar eru miðaldabæir og þorp, stæling á Amsterdam og öðrum þekktum bæjum í Rínarhéruðum, Noregi, Svíþjóð og Hollandi. Við dáumst að notkunarmöguleikum þessara kubba.

Börnin hafa líka gaman af að reyna ökuhæfni sína í bílskólanum og fá skírteinin sín á eftir. Þarna er líka sérstætt safn með 350 gömlum dúkkum og um 40 brúðuhúsum, brúðuleikhús með sex sýningum á dag, þorp úr villta vestrinu og Indjánabúðir, gullgröftur og smáhestagarður, lest, bílar, bátar og smábarnaleikvellir. Lego-hljómsveitin þrammar laugardaga, sunnudaga og frídaga 13-15.

Frá Billund förum við veginn til Give. Þegar við erum komin gegnum þorpið, beygjum við til hægri í átt til Vejle. Eftir um 25 km frá Legolandi komum við að ljónagarðinum Givskud. Það er eins konar safari-garður, sem hefur ljón að helzta aðdráttaraflinu. Hann minnir á Knuthenborg að því leyti, að gestir geta ekið um hann og þurfa stundum að krækja fyrir dýr, sem liggja á veginum.

Auk ljóna eru í Givskud fílar, villisvín, antilópur, úlfaldar, tapírar, flóðhestar, zebradýr, strútar, lamadýr og margir sjaldgæfir fuglar. Þar er einnig leikvöllur, þar sem börn geta fengið að kynnast dýrum. Givskud er lokað hálfum þriðja tíma fyrir sólarlag á sumrin.

Frá Givskud höldum við áfram þá 20 km, sem eftir eru til Vejle, en stönzum á leiðinni í Jelling. Þar klifrum við upp á haugana beggja vegna kirkjunnar, grafir Gorms konungs og Týru drottningar frá 10. öld. Í kirkjugarðinum skoðum við rúnasteinana tvo. Hinn minni reisti Gormur konungur til minningar um Týru og hinn stærri reisti Haraldur blátönn til minningar um Gorm. Þarna eru líka 50 bautasteinar.

Við ökum rólega um fagurlega sveigt landslagið á leið til Vejle. Þar förum við um bæinn í suðurátt eftir A18/E67 og skimum eftir vegvísinum til Munkebjerg til vinstri í úthverfi bæjarins. Eftir 8 km akstur á hliðarveginum með ströndinni komum við að hótelinu Munkebjerg, sími (05) 82 75 00, þar sem við borðum og gistum.

Þeir, sem hafa nóga peninga, geta pantað svítuna með útsýnisgluggum að skóginum og Vejle-flóa. Munkebjerg er óvenju notalegt hótel, þótt þar séu stöðugt haldnar ráðstefnur. Umhverfis hótelið eru margir ánægjulegir og hressandi göngustígar niður að ströndinni.

Eftir morgungönguna ættum við að leggja í hann ekki síðar en um tíuleytið í 80 km ferð til Árósa. Fyrst förum við frá ströndinni, leitum að vegvísi til Horsens og Árósa, förum á nýju og háu brúnni yfir fjörðinn og fylgjum A10 alla leið til Árósa, næststærstu borgar Danmerkur.

Árósar

Við finnum höfnina í Århus og ökum þaðan suður Spanien og Strandvejen, þar sem við finnum brátt við hafið næsta hótel okkar, Marselis, Strandvejen 25, sími (06) 14 44 11. Þar hendum við inn farangrinum og pöntum borð fyrir hádegissnarl og kvöldverð í veitingahúsum inni í bæ.

Nú dugar ekkert dosk. Við höldum áfram Strandvejen framhjá tjaldstæðinu og fylgjum vegvísunum til Moesgård safns. Það er fornleifa- og þjóðfræðisafn í skóginum og sérhæfir sig í forsögu Danmerkur. Þar er til dæmis hinn heimsfrægi og vel varðveitti Grauballe-maður, sem lítur út eins og honum hafi verið fórnað guðunum fyrir nokkrum mánuðum. Hann er 1600 ára gamall, óhugnanlegri en nokkuð í safni Madame Tussauds.

Á bakaleiðinni förum við framhjá hótelinu og finnum í miðborginni Café Mahler, Vestergade 39, sími (06) 19 06 96, þar sem matur er ekki dýr, miðað við, hversu óvenjulega góður hann er. Við látum okkur dveljast yfir kaffinu, áður en við röltum skamman veg yfir Vesterbrotorv og Vesterbrogade yfir í Den gamle by.

Þessi gamli bær er eins konar Árbær, útisafn 60 gamalla húsa, sem hafa verið flutt hingað og endurreist. Þau eru fullbúin með innréttingum, sem sýna okkur hagkerfi liðins tíma, byggingarlist, lifnaðarhætti, viðskipti og handiðnir. Athyglisverðast er borgarstjórahúsið frá 1597 við aðaltorgið. Mörg húsin eru skemmtileg að innanverðu, til dæmis verkstæði úrsmiðsins, brugghúsið og apótekið, fullt af skrítnum krukkum og lyfjagerðaráhöldum.

Þetta er slökunarmiðstöð Árósa, full af fólki um helgar. Den gamle by er í senn forn draumur og nýtt tivoli, þar sem mikið er um að vera á frídögum. Við hliðina er grasgarður borgarinnar, kjörinn til körfumáltíða í góðu veðri.

Af öðru skoðunarverðu í Árósum má nefna náttúruminjasafnið í háskólagarðinum, þekkt fyrir sýningar á upphafi og þróun lífs á jörðinni. Ennfremur dómkirkjan, stofnuð 1201, helguð Sankt Clemens. Hún var upprunalega rómönsk múrsteinskirkja, sem var síðan lagfærð og stækkuð á 15. öld í gotneskum stíl. Hún er lengsta kirkja Danmerkur.

Þegar við erum búin að fara inn á hótel í sturtu og fataskipti, ökum við enn inn í miðborg, að þessu sinni til hins virðulega matargerðarmusteris nýfranska stílsins, De 4 Årstider, Åbulevarden 47, sími (06) 19 96 96, þar sem við fáum gott að borða og góð vín með matnum.

Næsta morgun förum við snemma á fætur til að ná 8-ferjunni frá höfninni til Kalundborg á Sjálandi. Við getum sleppt morgunverði á hótelinu, af því að við getum snætt hann í þriggja tíma rólegheitum um borð í ferjunni. Ef við eigum bókað, nægir okkur að leggja af stað frá hótelinu 7:30.

Sjáland

Þegar við erum komin í land í Kalundborg, ökum við beint upp hæðina að kirkjunni, þar sem við leggjum bílnum í Adelgade og virðum fyrir okkur gömlu húsin og kirkjuna við torgið. Kirkjan er býzönsk, reist 1170 í mynd fimm turna, sem hafa grískan kross að grunnplani. Þessi kirkja er byggingarlistalega séð einstök í sinni röð í Danmörku.

Á leiðinni úr bænum til Slagelse sýnir vegvísir leiðina til hægri, 4 km til hallarinnar Lerchenborg. Það er hlaðstíls-höll frá 1743-53 í stórum garði 20.000 rósa og fleiri blóma og trjáa. Garðurinn er opinn á sumrin, en lokaður daglega 12-14.

Við höldum aftur út á aðalveginn og ökum áfram 38 km til Slagelse. Þegar þangað er komið, finnum við Korsör-veginn frá bæjarmiðju og skyggnumst um eftir vegvísi til hægri að Trelleborg. Þangað er 5 km krókur að afar undarlegu víkingavirki frá 1000-50.

Trelleborg er síki og aðalvirki, umlukt háum, hringlaga vegg. Á veggnum eru fjögur hlið, sem snúa til höfuðáttanna. Inni í virkinu eru minjar um sextán hús, reist eftir ströngu, flatarmálsfræðilegu mynztri. Fyrir utan hefur verið reist eftirlíking eins þessara húsa.

Ef menn telja víkinga ekki hafa orðið fyrir áhrifum rómverskrar verkfræði og nákvæmni, geta þeir skipt um skoðun hér. Eini munurinn er, að hin rómversku castra voru rétthyrnd, en Trelleborg er hringlaga.

Við snúum til baka til Slagelse og finnum þar A1/E66, sem liggur til Kaupmannahafnar, um bæina Sórey og Ringsted. Fyrsti hlutinn, til Sórey, er 15 km. Við stönzum í borgarmiðju á Torvet, við hlið nunnuklaustursins og förum yfir götuna til að fá okkur síðbúið hádegissnarl í bakaríinu.

Síðan förum við um hliðið inn í stærstu nunnuklausturkirkju Danmerkur. Það er sistersíanskt og stofnað 1160-70 að undirlagi þjóðhetjunnar og erkibiskupsins Absalons, sem er grafinn að kórbaki eins og önnur þjóðhetja, Valdemar Atterdag, og nokkrir aðrir konungar.

Við röltum líka niður að vatninu í fögru umhverfi, sem hentar til gönguferða. Hluti garðsins, nálægt vatninu vinstra megin, er í enskum stíl.

Frá Sórey eru um 16 km sama veg til Ringsted. Þar ökum við til bæjarmiðju, þar sem Benedikts-reglu-kirkjan, helguð Sankt Bendt, leynir sér ekki. Hún er í rómönskum stíl, eitt allra fyrstu múrsteinshúsa Danmerkur. Gotneska ívafinu var bætt við eftir eldsvoða 1241. Í kirkjunni eru yfir 20 konungagrafir.

Nú snúum við bílnum síðustu 60 km til höfuðborgarinnar, Kaupmannahafnar, þar sem við hófum þessa ferð um sveitir, garða, þorp, bæi, kirkjur, söfn, hallir og kastala Danmerkur, um sögu hennar, rómantík hennar, “huggu” hennar. Við erum reiðubúin að fara í aðra slíka ferð. Og við skiljum bókarefnið, Kaupmannahöfn, betur en áður.

Góða ferð!

1981, 1989
© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn veitingar

Ferðir

Mikil breyting hefur orðið í veitingamennsku Kaupmannahafnar, síðan fyrsta útgáfa þessarar bókar var rituð. Þar hefur á síðustu fimm árum orðið hliðstæð bylting nýfranskra áhrifa og varð um svipað leyti á Íslandi. Danir hafa lagað hefð sína að nýjum siðum og bjóða nú betri mat en nokkru sinni fyrr.

Fyrst segjum við frá tveimur stöðum, sem við höfum tekið sérstöku ástfóstri við. Síðan víkur sögunni að hinum matargerðarmusterunum fjórum. Þá er röðin komin að ýmsum öðrum góðum og skemmtilegum matstofum. Loks fjallar lengsti hluti kaflans um hina beztu af einkennis-matsölum Kaupmannahafnar, ódýru hádegisverðarstöðunum.

Els

Eitt notalegasta veitingahús Danmerkur er Els við Store Strandstræde, rétt við hornið á Kongens Nytorv. Húsið og innréttingin eru frá 1853, þar á meðal hinn glæsilegi, næstum austurríski kaffihúsastíll. Til skamms tíma lifði Els á fornri frægð, en fyrir nokkrum árum hélt nýja, létta matreiðslan þar innreið sína og staðurinn skauzt upp á tindinn á nýjan leik.

Einn bezti kostur Els er þó, að gæði innréttinga, matreiðslu og þjónustu endurspeglast ekki í verðlagi. Veitingastofan er mun ódýrari en aðrar í sama gæðaflokki matreiðslu. Raunar er verðlagið í Els undir meðalverði í Kaupmannahöfn.

Skemmtilegust er innréttingin í innri salnum, þar sem sex stórar myndir eru málaðar beint á tréveggina og hafa verið gerðar svo vel upp, að þær eru eins og nýjar. Á borðplötum úr bláum flísum með tréramma í kring eru logandi kerti, einnig í hádegi. Gólfið er teppalagt. Yfir öllu hvílir rólegur og virðulegur bragur, sem magnar síðan matarstemmningu við góða þjónustu og óvenju góðan mat.

Í Els er að góðum sið skipt um matseðil tvisvar á dag. Síðast prófuðum við í forrétt ágætt perluhænsnasalat með hunangs- og appelsínusósu og frábæra, heita fiskirjómasúpu með sveppum og jurtum, í aðalrétt bragðmikið, fyllt langlúruflak með laxafroðu og laxahrognum og góðan turnbauta af Charolais-nauti með jurtakássu og tómötum, og loks í eftirrétt mjög góða ferskjuköku með sólberjamauki og jarðarberjum og enn betri koníakstertu með rjóma og ferskum bláberjum.

Áður höfðum við fengið í sex rétta veizlu reyktan lax með svartsveppum, þykkvalúru í koníakssoði, sítrónu-kraumís með kampavíni, hjartarhryggjarsneið með svartsveppum í madeira, fjallaost með vínberjum og val af eftirréttavagni. Vínlistinn er langur og girnilegur.

Hádegissnarl kostaði DKK 93 á mann, kvöldverðarveizla DKK 261 og sex rétta veizla DKK 445. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.

(Els, Store Strandstræde 3, sími 14 13 41, opið mánudaga-laugardaga 11:30-15 og 17:30-22, sunnudaga 12-15 og 17:30-22, D3)

Remis

Annar óskastaður okkar er hinn nýi veitingakjallari meistarkokksins René Bolvig við Badstuestræde, rétt við Strikið. Þar er kominn til skjalanna einn af allra beztu matreiðslumönnum Dana, sem áður gerði garðinn frægan á Leonore Christine. Hann býður framúrskarandi málsverð og góða þjónustu á lægra verði en gengur og gerist í Kaupmannahöfn.

Að innan er litli veitingasalurinn látlaus, en stranglega stílhreinn og fagur, með gráleitum veggjum, teppi á gólfi og marmarastíl í diskum. Bolvig er sjálfur mikið á ferðinni inni í sal til að færa gestum rétti og ræða við þá. Matseðillinn er stuttur, en býr þó yfir ýmsu óvenjulegu. Vínseðilinn er ekki síður girnilegur.

Okkur var boðið upp á mjög gott humar-lasagne með sveipjurtum og blóðbergi, svo og kræklingakremsúpu í forrétt; í aðalrétt frábærar krónhjartar-lærissneiðar með steinseljusoði og steinseljurót, svo og lax, ofnsoðinn í eigin soði, með graslauk og sítrónusteiktri rauðrófu; og í eftirrétt indælis súkkulaði-smákökur með aprikósu, peru og blóðappelsínu.

Einnig mælum við með reyktum laxi í paprikumauki, innbökuðu kjúklingabrjósti, legnu í sítrónuediki, og steiktri nautamörbráð með gúrku, spínati og rauðvínssoði
Remis er nýjasta og langódýrasta matargerðarmusterið í borginni.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 293 á mann og DDK 303, ef valinn var fjögurra rétta matseðill kvöldsins. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.

(Remis, Badstuestræde 10, sími 32 80 81, opið 12-15 og 18-22 mánudaga-föstudaga, C3/4)

Cocotte

Bezta matargerðarmusteri nýfranska stílsins í Kaupmannahöfn er enn Cocotte á Richmond-hótelinu. Þar ráða ríkjum meistarakokkurinn Jan Pedersen og vínþekkjarinn Niels Monberg og skipta með sér umsjón á kvöldin.

Svipur veitingahússins er nákvæmlega hinn sami og alltaf hefur verið. 40 manna salurinn er víðáttumikill, svo að feiknarlangt er milli borða. Á veggjum eru innrammaðir og áritaðir matseðlar hinna frönsku frumkvöðla nýja stílsins. Innan um nútímaleg húsgögn eru ýmsir forngripir, svo sem skápar með vínflöskum, glösum, matreiðslubókum og kryddstaukum.

Við annan endann sér inn í opið eldhús, þar sem fumlausir kokkar sjást að störfum. Í hinum endanum er lauslega aðskilin fordrykkja- og kaffistofa, þar sem gott er að setjast í hægindastóla fyrir og eftir mat. Um salinn á milli sigla rólegir þjónar eins og tíminn standi í stað, enda er reiknað með, að gestir séu ekki í dagsins önn.

Matseðill dagsins er handskrifaður og stuttur. Helzta tromp hans er sjö rétta Menu Degustation, sem verður að panta daginn áður. Sú veizla er það, sem flestir sækjast eftir, þegar farið er í pílagrímsferð til Cocotte, en að sjálfsögðu er unnt að snæða mun ódýrar, einkum í hádeginu.

Við byrjuðum síðast sjö rétta málsverðinn á frábærum langlúruflökum í þykkvalúrusoði með blaðlauk, fengum næst góðan humargraut, síðan sítrónuleginn lax, þá vermút-kraumís, svo aðalréttinn, sérstaklega gott dádýralæri, rautt og fínt, ennfremur mjög góðan geitaost með grænmeti og ávöxtum og loks disk með nokkrum eftirréttum.

Áður höfðum við fengið samkvæmt matseðli dagsins þykkvalúru með spínati í ljúfu soði, góða nautalund, steikta öðrum megin, borna fram með mjög góðri rjómasósu, og loks þrenns konar eftirrétt, kraumís með perubragði, súkkulaðifroðu og rúllutertu með kastaníuhnetum og hunangi.

Eins og venjulega kynntu hinir frábæru þjónar hvern rétt fyrir sig, þegar hann var borinn á borð. Þeir aðstoðuðu líka af kunnáttusemi við val á víni í samræmi við verðhugmyndir gestanna. Á vínseðlinum kenndi margra grasa, ódýrra og dýrra, en við rákum augun í eðalvínið Chateau Pichon-Lalande frá 1980 á DKK 250.

Að koma í Cocotte er eins og að hitta gamlan vin. Allt var óbreytt og allt var frábært í þessum rólega og notalega útverði menningarinnar á norrænum vettvangi.
Sjö rétta veizlan kostaði DKK 503 á mann. Venjuleg kvöldverðarveizla kostaði DKK 388, sem ekki er meira en á mörgum öðrum virðingarstöðum borgarinnar. Nauðsynlegt er að panta borð, einnig í hádeginu.

(La Cocotte, Vester Farimagsgade 33, sími 14 04 07. opið 12-14 og 17-22, lokað sunnudaga, A3)

Saison

Nú er fljótlegra að heimsækja meistarkokkinn Erwin Lauterbach, sem áður gerði Primeur að matargerðarmusteri Málmeyjar. Hann er fluttur heim til Hafnar og hefur opnað veitingastaðinn Saison á Hotel Österport, andspænis samnefndri járnbrautarstöð.

Sjálfur staðurinn er ekki eins aðlaðandi og margir aðrir, sem fjallað er um í þessari bók. Hann er fyrir neðan anddyri hótelsins, hljóðbær og hár til loftsins. Að öðru leyti er vandað til innréttinga og Hornung-málverk hanga á veggjum. Plöntuvafin burðarsúla í miðjum sal mildar heildarsvipinn verulega.

Þjónusta er sérstaklega góð í Saison, en annasöm, því að oft er mikið um að vera. Samt er þess jafnan gætt, hvernig gestir hafi það hverju sinni, hellt í glösin og notaðir diskar fjarlægðir. Eins og í Cocotte eru þjónar afar fróðir um matinn og vínlistinn er einstaklega vel valinn.

Lauterbach leggur mikið upp úr góðu grænmeti og hefur þá sérstöðu meðal meistara Kaupmannahafnar að bjóða sérstakan matseðil fyrir grænmetisætur. Við heimsóttum staðinn í fylgd slíkra, sem sögðu þá rétti bera af öðrum í borginni.

Við völdum stóra, sjö rétta matseðilinn og fengum fyrst ljómandi góðar sveipjurtir með laxahrognum, síðan ágæta humarsúpu, þá frábæra, ofnsteikta slétthverfu með blóðbergi og mauksoðnum rótarávöxtum, næst rauðvíns-krapís, svo aðalréttinn, mjög góða æðarfuglsbringu með steinselju, og síðast osta dagsins og úrval eftirrétta. Með þessu fundum við frábært rauðvín, Chateau Vignelaure 1980 á DKK 240.

Stóra kvöldverðarveizlan kostaði DKK 530 á mann, venjuleg kvöldverðarveizla DKK 395 og grænmetisveizla DKK 315. Hádegissnarl kostaði DKK 167. Nauðsynlegt er að panta borð.

(Saison, Oslo Plads 5, sími 11 22 66, opið þriðjudaga-föstudaga 12-14:30 og 18-22, laugardaga 18-22, lokað sunnudaga, D1)

Kong Hans

Í hópi matargerðarmustera borgarinnar er dýrasta veitingahús Danmerkur, Kong Hans. Það felur sig í kjallara í næsta nágrenni Kongens Nytorv og lætur lítið yfir sér að utanverðu. Þar setjast menn fyrst á bar til að fá sér fordrykk og fylgjast með störfum í opnu eldhúsi fyrir innan, meðan þeir velja sér af matseðli. Fyrst, þegar við komum í Kong Hans fyrir sjö árum, töluðu þjónarnir frönsku, en nú er tungumálið orðið danska.

Síðan er gestum vísað til lítils og fagurs og rómantísks veizlusalar að baki. Hann einkennist af hvítkölkuðum og rifjuðum kjallarahvelfingum, sérkennilegum listaverkum við veggi, virðulega bakháum stólum og afar höfðinglegum borðbúnaði. Fyrir innan er svo koníaksstofa, þar sem gestir setjast í djúpa stóla og láta færa sér kaffi að máltíð lokinni.

Í síðustu heimsókn okkar virtist þjónustan vera farin að gefa sig. Þótt farið væri að fækka í salnum síðla kvölds, voru gestir önnum kafnir við að veifa og vekja athygli þjónanna á þörfum sínum. Og gestir í koníaksstofu urðu að koma fram til að panta meira kaffi. Slíkt á aldrei að þurfa að gerast á stöðum svimandi verðlags. Vonandi hafa þetta aðeins verið tímabundin frávik frá fyrri þjónustu, sem hafði ætíð verið mjög góð.

Í þetta skipti var hægt að velja milli þriggja, fjögurra, sex og átta rétta matseðla. Við völdum sex rétta seðilinn og fengum mjög góða gæsalifur og kálfabris með súru grænmeti, sérstaklega góð spörfuglsegg með zucchini-gúrku, sveppum, laxahrognum og kavíar, kampavínskraumís, frábæra nautamörbráð með sveppum og rauðvínssósu, fjóra osta góða og nokkra eftirrétti á diski. Matreiðslan var greinilega enn í bezta formi, þótt þjónustunni hefði fatazt flugið.

Þriggja rétta veizlan kostaði DKK 525 á mann, fjögurra rétta DKK 625, sex rétta DKK 710 og átta rétta veizlan hvorki meira né minna en DKK 850, sem hlýtur að nálgast heimsmet. Hið sama má segja um sumar tölurnar á frábærum vínlista, þótt einnig megi finna þar lægri tölur við hæfi. Nauðsynlegt er að panta borð.

(Kong Hans Kælder, Vingårdstræde 6, sími 11 68 68, opið 18-22, lokað sunnudaga, D3)

Etoiles

Með hálfum huga tökum við með síðasta matargerðarmusterið, Hos Jan Hurtigkarl, sem nú heitir Etoiles. Staðurinn reyndist að vísu nákvæmlega eins útlits og bauð upp á sömu góðu þjónustuna og frábæra matreiðsluna og undir gamla nafninu. En Jan Hurtigkarl er orðinn þreyttur, þótt ungur sé, og staðfesti við okkur orðróm um, að hann ætlaði að selja staðinn.

Jan Hurtigkarl er kunnur sjónvarpskokkur, sem fyllir með Jan Pedersen í Cocotte, Erwin Lauterbach í Saison og Réne Bolvig í Remis sveit hinna fjögurra meistarakokka borgarinnar. Hann er einn upphafsmanna nýju, frönsku matargerðarlínunnr í Danmörku, ör maður og orðinn nokkuð starfsmóður.

Etoiles er rétt austan við Kongens Nytorv, á fyrstu hæð íbúðarblokkar við torg á Dronningens Tværgade. Utan að sjá lætur það lítið yfir sér. Inni eru sömu brúnu og bláu litirnir og fyrr og næstum því eins rúmt milli borða og í gamla daga.

Eins og í öðrum veizlusölum borgarinnar er vandaður, fjölbreyttur og vel valinn vínlisti í Etoiles, ólíkur listum annarra staða. Þessi gæði og fjölbreytni stafa af því, að Danir hafa ekki áfengiseinkasölu, heldur pantar hvert veitingahús hvaða vín, sem ráðamenn þess vilja hafa á boðstólum. Í Etoiles fundum við ágætis Saint Joseph á DKK 190.

Sérgrein Jan Hurtigkarls er að bjóða þrjá matseðla, einn matseðil dagsins, annan fiskréttaseðil og hinn þriðja veizluseðil langan. Af fiskréttaseðlinum fengum við fyrst afar góð laxahrogn með fiskikæfu, síðan ljúffenga langlúru og síðan franska osta og eftirrétti hússins. Af langa seðlinum fengum við laxahrognin, góða grænmetissúpu og frábæra humarfroðu með spínati, svo og indælis dádýrasteik, osta og eftirrétti.

Áður höfðum við af hádegisverðarseðli fengið reyktan lax og reyktan kalkún frá Standager. Einnig af seðli dagsins andakjötshlaup, steiktan sjóbirting með rósapaprikusósu og svo franska osta og sæturétti að eigin vali.

Um þennan stað gildir eins og um önnur vildarhús og matarmusteri, sem þegar hafa verið nefnd, að ekki skiptir máli, hvað valið er, því að reikna má með, að til allra rétta sé vandað í eldhúsi. Svo er bara að vona, að Jan hætti við að hætta.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 378 á mann af seðli dagsins, DKK 408 af fiskseðlinum og DKK 508 af langa seðlinum. Nauðsynlegt er að panta borð.

(Les Etoiles, Dronningens Tværgade 43, sími 15 05 54, opið 17:30-21:30, lokað sunnudaga, C2)

Fiskekælderen

Gamall kunningi okkar og bezta fiskréttastofan í röðinni við Stranden og Gammel Strand, andspænis Hallarhólma og Kristjánsborg, er Fiskekælderen undir veitingasalnum Den Gyldne Fortun. Árum saman hefur kjallari þessi boðið nútímalegri og varfærnari eldamennsku á fiski en hinir staðirnir á svæðinu, þar á meðal Fiskehuset og ekki sízt hinn forni Kroghs.

Fiskekælderen er í tæplega 200 ára gömlum kjallara og rúmar ekki mikinn fjölda gesta. Innréttingar eru notalegar, en mjög þröngt er í bekkjunum við tréborðin. Þjónarnir eru þægilegir og snarir í snúningum.

Bezt er þó nákvæmnin í eldhúsinu, þar sem mikil áherzla er lögð á gufuhitun. Því miður er þó notaður frystur fiskur. Það sést strax af matseðlinum, sem er prentaður til margra vikna í senn. Hins vegar er á krítartöflum á veggjum boðinn ferskur fiskur, sem við mælum frekar með.

Þegar við vorum síðast í Fiskekælderen, voru humar og sjóbirtingur á boðstólum dagsins. Humarinn kostaði DKK 88 hver 100 grömm. Hann var grillaður og bragðgóður. Enn betri var þó sjóbirtingurinn, hvítvínsdampaður og borinn fram með laxahrognum og kavíar. Við gátum ekki neitað okkur um gamalkunnan og fílsterkan eftirrétt, fíkjur, eldsteiktar í anis-brennivíni, bornar fram með hjartaaldinhnetuís.

Meðalkvöldverður kostaði DKK 360 á mann.

(Fiskekælderen, Ved Stranden 18, sími 12 20 11, opið mánudaga-laugardaga 11-23, sunnudaga 17:30-23, C4)

Leonore Christine

Í elzta húsi Nýhafnar, þriggja alda gömlu, frá 1681, er litla veitingastofan Leonore Christine með góðu útsýni frá sumum borðum út um þrjá glugga yfir höfnina. Húsið hefur varðveitzt í upprunalegu horfi. Innan dyra er allt með einföldu og látlausu sniði, hvítum veggjum og stóru og mjög svo áberandi pottatré á miðju gólfi.

Staðurinn hefur örlítið dalað, síðan hann komst í tízku í viðskiptalífinu, og er oft fremur hávaðasamur, þegar margir karlar sitja við sama borð. Þjónustan er misjöfn, en oftast góð. Matseðlinn er stuttur og handskrifaður og ber greinileg merki nútímalegrar matreiðslu, sem reyndist okkur vera fínleg og að sumu leyti óvænt. Þetta er bezti matstaður Nýhafnar. Verðlag vínlistans er of hátt.

Í forrétt fengum við hrátt, skafið rádýrskjöt með fáfnisgrasi og pönnusteiktu spörfuglseggi, svo og gott mauk tvenns konar sveppa. Í aðalrétt mjög gott andabrjóst með skalotlauk og rauðvínssoði, svo og jafngóðar dádýralærissneiðar með vetrarkáli í gæsafeiti. Í eftirrétt kandíseraðan hnetuís með sveskju-sabajon, svo og disk með blöndu fimm mjög góðra eftirrétta dagsins.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 383 á mann. Ráðlegt er að panta borð.

(Leonore Christine, Nyhavn 9, sími 13 50 40, opið mánudaga-föstudaga 12-15 og 18-22, laugardaga 18-22, lokað sunnudaga, D3)

Alsace

Eitt fínu veitingahúsanna í Kaupmannahöfn er Alsace við hina skemmtilegu göngugötu Pistolstræde, sem liggur til norðurs frá Strikinu austarlega. Hluti Alsace er eins konar gangstéttarveitingahús, en hinn eiginlegi veitingasalur er í einföldum, hvítum múrsteinskjallara að baki. Þar eru miklir vendir ferskra blóma, grænir sófar með veggjum og flísar á gólfi. Salurinn er tvískiptur og sést úr öðrum hlutanum inn í eldhúsið.

Vínlistinn einkennist að sjálfsögðu af Elsassvínum. Þar mátti þó einnig sjá ágætis Barolo frá 1979 á DKK 176. Boðið er upp á tvo matseðla, auk margs konar sérrétta, þar á meðal súrkáls. Við prófuðum seðlana tvo.

Annar var með tærri svartsveppasúpu í forrétt, góðri rádýrasteik með kantarellu-sveppum í aðalrétt, ágætum Münster-osti og vanilluís með ávöxtum í eftirrétt. Hinn bauð í forrétt indæla gæsalifrarkæfu með ristuðu brauði, í millirétt ostrusúpu, í aðalrétt ágæta akurhænu, smjörsteikta með vínberjum, í eftirrétti grillaðan geitaost og kampavíns-kraumís.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 376 á mann.

(Alsace, Ny Østergade/Pistolstræde, sími 14 57 43, opið 11:30-24, lokað sunnudaga, C3)

Lumskebugten

Norður við Tollbúð, yzt á Esplanaden, er gamalkunnug kaffistofa, Lumskebugten, sem fyrir nokkrum árum gekk í endurnýjun lífdaganna. Þar ríkir nú matreiðsla nútímans og góð þjónusta í látlausri og fagurri umgerð.

Húsið er hvítt, langt og mjótt, með aðalmatsal fremst á horninu og bar og tveimur smástofum þar inn af, með frönskum rúðuhurðum á milli. Allt er þetta bjart og ljóst, gamalt og rúmgott, skreytt gömlum ljósmyndum og plakötum. Á borðum eru glansandi hvítir dúkar og munnþurrkur, svo og lifandi blóm og logandi kerti.

Við prófuðum ágætt, hrátt og skafið nautakjöt, mjög góða skötu, fyllta salati og laxahrognum, gott dádýralæri með hnetusoði, eplum og brómberjum, svo og súkkulaðikremköku með ávaxtamauki og ís.

Þetta var valið af tilboði dagsins á krítartöflu, en að auki eru til lengri matseðlar handskrifaðir, annar hádegisverðar og hinn kvöldverðar. Nær allir réttirnir eru samkvæmt nýjum stíl, en þó mátti sjá þar lafskássu til minningar um fyrri sögu staðarins. Verð á vínlista voru tiltölulega skynsamleg.

Kvöldverðarveizla kostaði DKK 395 á mann og hádegissnarl DKK 207. Lumskebugten er þannig einn hinna dýru matstaða borgarinnar. Ráðlegt er að panta borð.

(Café Lumskebugten, Esplanaden 21, sími 15 60 29, opið 11-24, lokað sunnudaga, E1)

Spinderokken

Við höfum jafnan haldið tryggð við Spinderokken, síðan við fundum hann fyrir tveimur áratugum. Hann lítur alltaf eins út, þótt eigendaskipti hafi verið tíð. Ætíð er jafn notalegt að koma beint af flugvellinum til að fá sér síld, grænt öl og snafs við hlið blómapotta og steindra glugga á götuhlið Spinderokken.

Þetta er friðsæll og værukær staður þungra innréttinga, þar sem tíminn stendur í stað. Það gildir einkum um gamla hlutann, en síður um nýja salinn til hliðar. Í Spinderokken eru gestir ekki að flýta sér, heldur rabba langtímum saman, meira að segja í hádeginu yfir hlaðborðinu, sem farið var að bjóða fyrir DKK 89 eftir síðustu eigendaskipti.

Sumir hlaðborðsréttirnir eru ekki girnilegir, en síldin var góð, sömuleiðis skinka með melónu, hrásalat og ostar.

Með öli kostaði hlaðborðið DKK 107 á mann. Kvöldveizla kostaði DKK 315.

(Spinderokken, Trommesalen 5, sími 22 13 14, opið 11-24, A5)

Bee Cee

Þá er röðin komin að fyrsta hádegisverðarstaðnum, Bee Cee, í kjallara við göngugötuna Pistolstræde út frá Strikinu. Hann er ekki dæmigerður, því að hann er dýrari en venjulegt er, en býður líka sérstaklega góðan mat. Kjallarinn er langur og mjór, í ljósum nútímastíl, með bekkjum meðfram veggjum og stálstólum úti á gólfi, skreyttur abstraktverkum — og státar af mjög góðri þjónustu.

Við fengum gott, grænt salat og mjög góðar laxabollur í mildu remúlaði síðast, er við vorum í Bee Cee. Einnig mælum við með reyktum lax, piparrót og gúrku, svo og andalifrarkæfu með hnetum.

Hádegissnarl kostaði DKK 156 á mann.

(Bee Cee, Østergade 24, sími 15 02 77, opið 11-20, lokað sunnudaga, C3)

Victor

Victor að baki Angleterre hefur í nokkur ár verið tízkustaður ungra og efnaðra menningarvita, nokkuð opinn og kuldalegur, en einkum þó hávær. Hann er mest notaður sem kaffistofa, enda er barinn notalegri en matsalurinn, sem þykir þó hinn sæmilegasti hádegisverðarstaður. Gluggar eru stórir og naktir og speglar eru að barbaki eins og víðar í salnum. Allt er gert til að allir sjái alla, meira að segja utan af götu. Þjónusta er góð.

Hádegissnarl kostaði DKK 124 á mann.

(Café Victor´s, Hovedvagtsvej/Ny Østergade 8, sími 13 36 13, opið 10-02, C3)

Copenhagen Corner

Þótt Copenhagen Corner við Ráðhústorgið sé greinilega einkum gert út á ferðamenn, er þetta vandaður matstaður með tiltölulega hóflegu verðlagi, verðugt framhald af gamla Frascati, sem sumir muna enn eftir. Gróðurhúsið við stéttina er nýtízkuleg útgáfa af gamla gangstéttarkaffihúsinu, sem hér var á sínum tíma.

Hér höfum við meðal annars reynt heitreyktan lax, ferskan krabba, vel rautt andabrjóst í calvados, góðan steinbít í áfengisblandaðri grænmetissósu, heilsteikta nautalund og mjög góðar pönnukökur, fylltar rúsínum og rifsberjum.
Í Copenhagen Corner er hægt að fá ýmis eðalvín í glasatali. Þau eru dregin úr flöskunni með svonefndri Cruover-tækni, sem sjaldséð er utan Frakklands og Bandaríkjanna.

Hádegissnarl kostaði DKK 112 á mann.

(Copenhagen Corner, Rådhuspladsen, sími 91 45 45, opið 11:30-24, B4)

Christiansborg

Christiansborg er aðeins steinsnar frá anddyri þinghúss Dana, handan Týhúsbrúar og fær slæðing þaðan af þeim, sem ekki eru uppteknir á Snapsetinget. Staðurinn er í hreinlegum alþjóðastíl, rúmgóður og þægilegur, með virðulegum ljósmyndum af dönskum forsætisráðherrum yfir barnum. Síðast þegar við vorum þar, sá Íslendingurinn Viðar Birgisson um þjónustu í sal.

Fyrir nokkrum árum var Christiansborg hádegisverðarstaður, sem var einkum frægur fyrir risastórt hlaðborð. Nú hefur það verið lagt niður og staðurinn er einnig opinn á kvöldin, þegar þar er stundaður píanóleikur fyrir gesti. Við þekkjum ekki þá hlið matstofunnar.

Af nýja seðlinum prófuðum við ágætan mat, þykkvalúruflök, annað gufusoðið og hitt pönnusteikt, með kröbbum, rækjum og laxahrognum, svo og reykt dádýralæri með salati og melónurjóma, einnig gott.

Hádegissnarl kostaði DKK 112 á mann.

(Christiansborg, Ny Kongensgade 15, sími 14 55 60, opið mánudaga-föstudaga 11:30-24, laugardaga 17-24, C5)

Ostehjørnet

Niðri í kjallara við Store Kongensgade er ágæt ostabúð og uppi á hæðinni stílhreint veitingahúsið Ostehjörnet, sem hefur osta að sérgrein, þar á meðal franska og fína. Salöt, ostar og kalt kjöt eru til sýnis við diskinn, svo sem títt er í dönskum hádegisverðarstöðum. Munnþurrkur voru því miður úr pappír.

Við höfum einkum hallað okkur að ostabakkanum, sem kostaði DKK 35 á mann. Síðast prófuðum við ostana emmenthaler, camembert, bresse bleu, franskan geitaost og brie, alla hæfilega þroskaða. Starfsliðið hefur vit á osti. Bezt er að fá sér bjór með ostinum, því að vínið er ekki nógu gott.

Meðalverð á hádegissnarli var DKK 108 á mann.

(Ostehjörnet, Store Kongensgade 56, sími 15 85 77, opið mánudaga-föstudaga 11:30-18, laugardaga 11:30-15, D2)

Tivolihallen

Saltfiskhús Kaupmannahafnar er hinn 125 ára gamli kjallari, Tivolihallen, að baki ráðhússins. Þar sitja fastagestir á slitnum bekkjum og rifnum stólum í tveimur þreytulegum og þægilegum stofum og úða í sig stórum skömmtum af saltfiski eða öðrum hefðbundnum húsmóðurmat. Þótt umhverfið sé laslegt, er alltaf jafn skjannahvítt og hreint í dúkum og munnþurrkum úr taui. Engin verðskrá er í Tivolihallen.

Saltfiskinn verður annað hvort að panta fyrirfram eða bíða eftir honum í 25 mínútur. Við biðum og fengum góðan fisk, matreiddan upp á íslenzku, en þó án hamsatólgar. Ennfremur fengum við ágætan, mjúkan lax.

Hádegissnarl kostaði DKK 105 á mann.

(Tivolihallen, Vester Voldgade 91, sími 11 01 60, opið mánudaga-föstudaga 11:30-22, B4)

Nybro

Einn af beztu hádegisverðarstöðunum er hinn notalegi Nybro, næstum andspænis Thorvaldsenssafni, handan síkisins, í einu hinna svonefndu brunahúsa, sem reist voru eftir brunann mikla árið 1728, fyrir rúmlega 250 árum. Nybro er í kjallara og á 1. hæð hússins. Niðri eru grófir veggir og gulir dúkar, en uppi er fínlegra og dúkar bláir. Skemmtilegra er að vera niðri, þar sem tilboð dagsins eru skráð á krítartöflur.

Staðurinn er frægur fyrir frábæra þjónustu vingjarnlegra eigenda, sem bentu okkur meðal annars á Oswald-öl og snafs, sem sjaldfenginn er í veitingahúsum borgarinnar, bragðmilt Bröndums kúmen-ákavíti. Staðurinn er yfirleitt fullur af fastagestum.

Við prófuðum frábæra kræklingasúpu, góða nautamörbráð, hráa og legna, indæl þykkvalúruflök gufusoðin og ágæta andalifur í sveppasósu, allt saman ótrúlega góðan mat.

Hádegissnarl kostaði DKK 99 á mann. Ráðlegt er að panta borð.

(Nybro, Nybrogade 18, sími 15 14 43, opið mánudaga-laugardaga 11-16, C4)

Caféen i Nicolai

Óneitanlega er sérkennilegt að sitja í kirkju og borða. En það er hægt að gera í Nikulásarkirkju, sem er rétt við Strikið. Vítt er til lofts og hátt til veggja í syðra þverskipi kirkjunnar, þar sem veitingastofan er. Rúmgott og bjart er í skipulagslítið innréttuðum salnum, innan við stóra og steinda kirkjuglugga. Stór málverk á veggjum og dökkir bitar í lofti draga nokkuð úr kulda staðarins, en pappírsdúkar og heimalagað sinnep ofan á taudúkum auka hann á móti.

Við prófuðum ágæta fiskisúpu með óvenjulega góðu brauði og hæfilega lítið smjörsteikt þorskhrogn og komumst að raun um, að hér leyndist einn hinna betri matstaða borgarinnar. Skipt er um handskrifaðan matseðil tvisvar á dag, svo sem vera ber. Þar mátti meðal annars sjá girnileg, appelsínulegin steinbítshrogn og danskan geitaost.

Hádegissnarl kostaði DKK 97 á mann og kvöldveizla DKK 366.

(Caféen i Nicolai, Nikolaj Plads, sími 11 63 13, opið þriðjudaga-laugardaga 12-24, C3)

Sankt Annæ

Við hlið Neptun-hótels á Sankt Annæ Plads er lítil hádegisverðarhola, þar sem 32 sáttir mega þröngt sitja, ef þeir komast inn um mjótt anddyrið. Þetta er einkar snyrtileg matstofa, skreytt vagnhjólum og gömlum teikningum af vögnum. Hún er fjölskyldufyrirtæki, sem þekkt er fyrir, að allt er lagað á staðnum. Engan matseðil eða verðlista er að finna. Gestir fara að diskinum, þar sem maturinn er, fá að vita, hvað hann kostar, og benda á það, sem þeir girnast.

Við prófuðum lax með rækjum, svo og egg með rækjum, hvort tveggja góðan mat. Áður höfðum við fengið þar ágæta síld og osta.

Hádegissnarl kostaði DKK 96 á mann. Ráðlegt er að panta borð.

(Sankt Annæ, Sankt Annæ Plads 12, sími 12 54 97, opið mánudaga-föstudaga 11-16, D3)

Cranks Grönne Buffet

Helzti grænmetisréttastaður borgarinnar, Cranks Grönne Buffet, er í einu gömlu húsanna, 250 ára gömlu, milli Pistolstræde og Grönnegade, rétt norðan Striksins. Þar fara kuldalega norrænar og hreinlífislegar viðarinnréttingar vel við notalega timburveggi og litlar gluggarúður átjándu aldarinnar.

Gestir velja sér grænmetisrétti við diskinn og þjóna sér sjálfir til borðs. Matreiðslan er upprunalega frá hliðstæðum veitingastað í London og byggist á svokölluðum “biodynamiskum” hráefnum, sem ræktuð eru á náttúrulegan hátt, en ekki með tilbúnum áburði eða skordýraeitri.

Á boðstólum var fjöldi ágætra rétta, meðal annars linsubaunakæfa, laukterta, lárperustappa, eggaldinfylling, ýmis hrásalöt, ávaxta- og grænmetissafar, ostabollur og trönuberjaterta, allt samkvæmt uppskriftum úr valinkunnri matreiðslubók staðarins.

Hádegissnarl kostaði DKK 95 á mann. Kvöldverðarveizla hefði kostað DKK 185.

(Cranks Grönne Buffet, Grönnegade 12-14, sími 15 16 90, opið mánudaga-laugardaga 11-21, C3)

Esbern Snare

Í einna skemmtilegustu götu gamla bæjarins, Snaregade, er veitingastaðurinn Esbern Snare í kjallara og á fyrstu hæð. Staðurinn hefur hið rólega yfirbragð ellinnar. Viðarinnréttingar eru einfaldar og á ljósum veggjum hanga stór, þokukennd málverk. Á borðum eru fínir dúkar og munnþurrkur.

Um nokkurt skeið hefur Jytte Fich ráðið hér ríkjum og þjónar sjálf til borðs. Hún hefur ræktað hinn nýja matreiðslustíl og gert staðinn vinsælan meðal ungs fólks. Við prófuðum sérstaklega góðan, reyktan ál með eggjahræru, vel skafið, hrátt nautakjöt, svo og bragðmikinn og vel þroskaðan fornost.

Hádegissnarl kostaði DKK 90 á mann. Kvöldverðarveizla hefði kostað DKK 324.

(Esbern Snare, Snaregade 4, opið mánudaga-laugardaga 11:30-22, C4)

Amalie

Rétt við Amalienborg er hin tiltölulega nýlega hádegisverðarstofa Amalie í litlum og notalegum, gömlum og friðuðum kjallara, þar sem lágt er til lofts. Hvítmáluðu veggirnir eru grófir fyrir ofan gulleitt tréverkið, sem nær upp á þá miðja. Þeir eru skreyttir gömlum koparstungum. Á borðum eru blóm, fínir hekludúkar og munnþurrkur úr pappír.

Við fengum ágætan ál reyktan, fyrirtaks þorskhrogn, fullkomnar fiskibollur og hrátt nautakjöt skafið, eitt hið bezta, sem við höfum fengið.

Hádegissnarl kostaði DKK 89 á mann. Ráðlegt er að panta borð.

(Amalie, Amaliegade 11, sími 12 88 10, opið mánudaga-föstudaga 11-16, D/E2)

Kanal-Caféen

Kanal-Caféen er gamall og sögufrægur hádegisverðarstaður í tveimur ellilegum og notalegum stofum rétt við Marmarabrú, afar lítið áberandi að utanverðu. Þar er lágt undir bitaloft, skipslíkön í gluggum, siglingamyndir á veggjum og fastagestir á reyrviðarstólum við dúkuð borð. Andrúmsloftið er gott og þjónustan snör.

Við prófuðum graflax, reyktan lax, lambarúllupylsu, heimalagaða kjötsultu og fornost, allt afar vel heppnað.

Hádegissnarl kostaði DKK 85 á mann, hið næstminnsta í þessari bók.

(Kanal-Caféen, Frederiksholms Kanal 18, sími 11 57 70, opið mánudaga-föstudaga 10:30-24, C4)

Rex

Café Rex heitir öðru nafni Hos fru Lind, lítil og fátækleg hádegisverðarstofa fastagesta, andspænis Skarfinum við Pilestræde. Innréttingar eru gamlar og slitnar, veggir þaktir ótal málverkum og steinprenti af ýmsu tagi og matseðillinn krítaður á töflu. Á veggjum eru fornir skápar og í lofti hanga þurrkuð blóm.
Frú Lind er kunnust fyrir ágæta síldarrétti. Við fengum hins vegar fyrirtaks rækjur í eggjahræru og nokkuð góða kjötsultu.

Hádegissnarl kostaði DKK 85 á mann, hið sama og í Kanal-Caféen. Nauðsynlegt er að panta borð.

(Café Rex, Pilestræde 50, sími 12 71 87, opið mánudaga-laugardaga 12-01, C3)

Bernstorff

Ódýrasti hádegisverðarstaðurinn í þessari bók er Bernstorff, andspænis aðaljárnbrautarstöðinni og við hlið Tivoli, snyrtileg matstofa með tandurhvítum borðdúkum og munnþurrkum úr taui, tívolílömpum yfir skenk og gömlum tívolíminjum á veggjum.

Frægast er hér hlaðborðið, frjálst val rétta af skenknum fyrir DKK 88, líklega eitt hið ódýrasta í bænum. Það leit óvenjulega lystarlega út, en við höfðum aðeins tíma til að fá okkur indælis laxakæfu og frábæran hrálax leginn. Þjónustan var sérstaklega þægileg.

Hádegisverðarsnarl kostaði DKK 83 og hefði kostað DKK107, ef hlaðborðið hefði verið valið.

(Bernstorff, Bernstorffsgade 7, sími 11 06 68, opið mánudaga-föstudaga 11:30-16:30, A/B5)

1981, 1989

© Jónas Kristjánsson

Kaupmannahöfn verzlun

Ferðir

Við lítum í búðir, þegar við komum til Kaupmannahafnar. Ekki til að verzla ódýrt, því að verðlag er þar hærra en víðast annars staðar í heiminum. Við förum í búðir til að skoða og handleika hagnýta listmuni, sem Danir eru frægari fyrir en flestar aðrar þjóðir.

Verzlanir Kaupmannahafnar eru sannkallað ævintýraland fágaðrar smekkvísi og rótgróins handverks. Engin verzlunargata heims jafnast á við Strikið í samþjappaðri fegurð og einfeldni nytjahluta. Á 15 mínútna gönguleið er verzlun við verzlun, fullar ævintýra til að njóta.

Búðaráp er einfaldast að stunda á Strikinu og göngugötunum út frá því. Þar standa þéttast þær verzlanir, er hafa á boðstólum vörur, sem ferðamenn hafa áhuga á að skoða og handleika og kannski kaupa. Þar eru einkennisvörur Dana seldar.

Í framhaldi af Strikinu til beggja enda eru líka vinsælar verzlunargötur. Handan Kóngsins Nýjatorgs er Stóra Kóngsinsgata, þétt skipuð verzlunum, og handan Ráðhústorgs er Vesterbrogade, þar sem enn er búð, sem lengi var kunnasta verzlun Danmerkur, Den Permanente.
Mesta samþjöppun frægðarbúða er við austanvert Strikið, frá Heilagsandakirkju að Kóngsins Nýjatorgi. Við förum í stutta göngu þessa leið, um Amákurtorg og Austurgötu.

Hans Hansen

Á horninu við Heilagsandakirkju, þar sem mætast Amákurtorg og Hemmingsensgade, er bezta silfurbúðin, Hans Hansen, sem við tökum fram yfir keppinautinn og nágrannann Georg Jensen við Austurgötu 40 á Strikinu, af því að frægð hins síðarnefnda hefur stigið honum, ef ekki til höfuðs, þá til verðlagningar. Og Hansen býður líka nútímalegri vörur.

Þarna sáum við mjög fallegt og einfalt silfurarmband á DKK 1300. Sérgrein hússins er annars silfurlagt palisander í rúmlega 50 mismunandi hlutum. Einkenni hönnunar eigandans, Karl Gustav Hansen, er strangt og kantað form, sem líklega verður enn í gildi á 21. öld.

(Hans Hansens Sølv, Amagertorv 16, C3)

Illums Bolighus

Aðeins austar með götunni, sömu megin hennar, er Illums Bolighus, draumabúðin okkar í Kaupmannahöfn, án efa ein bezta og merkilegasta húsbúnaðarverzlun heimsins. Þetta er fjögurra hæða ævintýraheimur, þar sem enginn hlutur er hversdagslegur.

Margir helztu húsmunahönnuðir Dana eigi gripi þarna, mest þó Bjørn Wiinblad, sem er sennilega frægasti og mikilvirkasti nytjalistamaður veraldar. Og sumir gripa hans eru meira að segja ódýrir, þótt það sé auðvitað undantekningin, sem sannar regluna.

Á þessum stað grípur okkur sú tilfinning, að allir okkar húsmunir séu þess eins virði að setja um þá smáauglýsingu í DV og að nauðsynlegt sé að fá svo sem einn skipsgám af hinum listrænu, vönduðu og tæknilegu munum frá Illums Bolighus.

Í einni heimsókn okkar beindist athyglin að einföldum lampaskermum með innfelldum, þurrkuðum jurtum. Þeir voru ódýrir og fallegir í senn. Það eina, sem hindraði okkur í að kaupa einn, var hið venjulega takmarkaða töskupláss ferðafólks.

Schultz verzlunarstjóri fór með okkur um húsið og sagði sögu þess, hvernig miðsalurinn var upphaflega húsagarður með mörgum háum og mjóum húsum í kring og hvernig verzlunin hefur smám saman vaxið utan um portið og húsin.

(Illums Bolighus, Amagertorv 10, C3)

Bing & Grøndahl

Við hlið Illums á Amákurtorgi standa hinir fyrri keppinautar, Bing & Grøndahl og Den Kongelige Porcelainsfabrik, sem nú hafa verið sameinaðir. Þeir eru frægir fyrir jólaplatta og postulínshunda, mæðradagsplatta og máfastell.

Okkur líkar betur við Bing & Grøndahl, enda eru þeir ekki eins gamaldags og nágranninn. Að vísu er postulín þess eðlis, að það hlýtur alltaf að vera gamaldags í nútíma, sem hafnar postulíni fyrir leir og keramik.

Bing & Grøndahl urðu fyrstir fyrir 90 árum til að skreyta postulín undir húðun. Fyrst réðu þeir við bláa litinn, sem síðan hefur orðið einkennislitur þeirra. Frægastur er hann af máfastelli og empire-borðbúnaði.

Síðan náðu þeir tökum á svarta litnum og seldu “fallandi lauf” um allan heim. Þeir urðu fyrstir til að gefa út jólaplatta 1895 og mæðradagsplatta 1969. Mótin af þeim eru jafnan eyðilögð, svo að þeir eru einu hlutirnir, sem ekki er alltaf hægt að panta inn í.

Þarna gefur að líta hundrað mismunandi tegundir borðbúnaðar, svífandi fugla, syndandi fiska, brosandi börn, styttur, lampa, vasa og öskubakka, svo og tólf skemmtilega Kaupmannahafnarplatta. Margt af þessu hefur sérstæða, fíngerða töfra.

(Bing & Grøndahl, Amagertorv 4, C3)

Larsen

Handan við torgið er helzta pípu- og tóbaksbúð Dana, W. O. Larsen, 125 ára gömul, í eign sömu fjölskyldu í fimm ættliði. Til hægri við innganginn er lítið safn um sögu tóbaksreykinga. Þar eru til sýnis alls kyns pípur, allt frá indjánskri friðarpípu yfir í krítar- og postulínspípur.

Búðin sjálf er vinstra megin, löng og mjó. Þar er hægt að kaupa fágætar pípur, fágætt píputóbak og fágætt neftóbak, svo og fínustu vindla heims, Davidoff-vindlana frá Kúbu.

(W. O. Larsen, Amagertorv 9, C3)

Dansk Kunsthåndværk

Rétt hjá Larsen, á horni Amákurtorgs og Højbro Plads, er Dansk Kunsthåndværk, þar sem sextíu handverksmenn selja margs konar nytjalist úr gleri, leir, vefnaði, prjóni, gulli og silfri. Þetta er ein nýjasta stjarnan á skærum listiðnahimni Kaupmannahafnar, kjörinn heimsóknarstaður þeirra, sem héldu, að þeir þekktu borgina út og inn.

(Dansk Kunsthåndværk, Amagertorv 1, C3)

Købmagergade

Hér liggur göngugatan Kjötmangarinn eða Købmagergade til norðurs frá Strikinu. Við götuna eru þrjár kunnar sælkeraverzlanir, næstum í hnapp. Vinstra megin eru hlið við hlið Melhede kjötbúðin og J. Chr. Andersen´s Efterfölgere ostabúðin, á númer 30 og 32. Þar má renna augum yfir tugi tegunda af bjúgum og sennilega yfir hundrað tegundir af ostum, frönskum jafnt sem dönskum. Af hinum dönsku eru kunnastir hinir bláu Danablu og Mycella, hinir linu Havarti og Esrom, hinir þéttu Samso, Danbo, Fynbo og Maribo, og loks hinir hörðu Hingino og Svenbo.

Handan götunnar, á númer 19, er Marstrand bakarí, sem ilmar af glóðvolgum Vínarbrauðum, Napóleonskökum og öllu því góðgæti, sem fær Dani til að gleyma matarkúrum og öðrum góðum áformum.

Pistolstræde

Ef við höldum áfram eftir Strikinu, komum við brátt að sundi, sem heitir Pistolstræde. Það er skemmtilegasta verzlunargata borgarinnar, lítið göngusund, sem liggur frá Strikinu, þar sem það heitir Austurgata 24, næstum andspænis Holmegård. Þar göngum við inn í átjándu og nítjándu öldina, að vísu gerilsneydda og lyktarlausa.

Birger Christensen feldskeri vann um árabil að því með oddi og egg að endurreisa þessa gömlu götu, sem komin var á grafarbakkann. Við það naut hann hæfileika Eriks Møller arkitekts, sem gerði upp gömlu bindingshúsin í götunni.

Við innganginn er vinstra megin verzlunin Bee Cee, sem er eins konar útibú frá Birger Christensen fyrir ungar konur. Hægra megin er svo Saint Laurent, sem er ekta Parísarverzlun með sama háa verðinu og þar.

Þegar við göngum inn sundið, verður fyrst fyrir okkur á hægri hönd hádegisverðarstofan Bee Cee í kjallara, þar sem glaðlegar myndir Jean Dewasne lífga hvíta veggina. Hinum megin, einnig í kjallara, er Court Gallery, alþjóðlegur sýningarsalur, þar sem Sam Kaner er í aldarfjórðung búinn að sýna abstrakt list, allt frá Miro yfir í Cobra-hópinn, sem hér varð frægur.

Við förum framhjá Chanel og More & More vinstra megin og hægra megin framhjá bakdyrum Skandinavisk Glas og Duzaine Hansen, sem snúa aðaldyrum út í Nýju Austurgötu. Skandinavisk Glas selur gler frá öllum Norðurlöndum, þar á meðal Orrefors og Kosta.

Ting & Sager

Síðan beygir Pistolstræde í vinkil. Þar er mikið af blómum, borðum og sólhlífum, sem tilheyra veitingahúsinu l´Alsace. Við blasa fallegustu hús götunnar með gulum tilbrigðum í bindingsverki, reist á átjándu öld.

Þar er Cranks Grönne Buffet í húsi frá 1728, helzta matstofa grænmetissinna í borginni. Í næsta húsi, frá 1750, er tuskubúðin Ting & Sager. Þar er þröngt um alls konar ólíklegustu hluti, eldhúsáhöld, blússur, pils og teppi, allt hið skemmtilegasta. Inn í búðina og matstofuna er gengið úr hinni áttinni, frá Grønnegade.

Þar sem Pistolstræde mætir Ny Østergade er sniðug peysubúð, sem heitir Les Tricots Caroll, svo og Bogbinder Henning Jensen.

Bjørn Wiinblad´s Hus

Hér á vinstri hönd, í Nýju Austurgötu, er Björn Wiinblad´s Hus, sem Birger Christensen hefur gert að blöndu safns og verzlunar, þar sem allir gripir eru eftir hinn mikilvirka hönnuð.
Þetta átjándu aldar hús með gosbrunni í lokuðum innigarði er orðið að álfaheimi Þúsund og einnar nætur. Þar eru heimsfræg verk Wiinblads, svo sem keramikplattar, stór hringborð, skrítnir pósterar, endurprentanir af skissum hans fyrir ballet og leikrit, rúmföt og skartgripir. Handbragð hans er auðþekkjanlegt, öðruvísi en annarra.

Ef við beygjum svo enn til vinstri, komum við að inngangi Ting & Sager og Cranks Grønne Buffet.

Holmegård

Við snúum til baka að Strikinu, annað hvort eftir Pistolstræde eða Ny Østergade. Handan Striksins er glervörubúðin Holmegård, sem meðal annars framleiðir hin sérstaklega fallegu President vínglös, er við höfum mikla ágirnd á, ekki vegna nafnsins, heldur formsins.

Aðalhönnuður Holmegård er Per Lütken, sem einna frægastur er fyrir “skipasettið” af glösum. Annar er Michael Bang, sem hefur hannað Globetrotter glösin. Svo eru auðvitað seld þarna margvísleg önnur glerílát en glös, sem Henning Lundsgård verzlunarstjóri mun án efa útskýra af sérstakri lipurð.

(Holmegård, Østergade 15, C3)

Birger Christensen

Hinum megin götunnar er höfuðverzlun áðurnefnds Birger Christensen, frægasta pelsabúð heims, nútímalegri en nágranninn A.C. Bang við Austurgötu 27, sem einnig er víðkunnur. Fróðir menn segja, að hvergi séu til meiri birgðir og meira úrval pelsa en einmitt hjá Birger Christensen.

Þarna er hver pels sérstakur, fallega og einfaldlega hannaður. Þetta er eitt fárra fyrirtækja í heiminum, sem lætur eingöngu starfsmenn sína hanna og sauma alla sína pelsa. Og þetta er eitt fárra tízkuhúsa, sem koma með nýja línu tvisvar á ári.

Við getum valið um pelsa frá DKK 6000 upp í DKK 200000. Sérgrein hússins er Saga-minkurinn, sem tekizt hefur að rækta í tuttugu litbrigðum. Þeir, sem fá jólavinninginn í happdrættinu, ættu endilega að heimsækja þessa merkilegu búð.

(Birger Christensen, Østergade 38, C3)

Bang & Olufsen

Dönsk hönnun kemur skýrt fram í hljómtækjum Bang & Olufsen, sem hafa aðalverzlun sína hér, nánast á enda Striksins, við Austurgötu 3. Allir þekkja hinn þokkafulla og flata stíl umgerðarinnar um ýmis tæknileg undur, sem við kunnum ekki að nefna.

(Bang & Olufsen, Østergade 3, D3)

Østergades Vinhandel

Allt úir og grúir af vínbúðum í Kaupmannahöfn, enda ríkir þar frjáls vínverzlun, þótt ríkið taki sinn toll eins og hér. Þess vegna er úrvalið hundraðfalt á við það, sem Íslendingar þekkja.

Ein þekktasta vínverzlun borgarinnar er hin krambúðarlega Østergades Vinhandel á enda Striksins, þar sem það mætir Kóngsins Nýjatorgi. Þar er gott að skjótast inn til að kaupa gjöf, þegar gestrisnir Danir hafa boðið okkur heim til sín.

(Østergades Vinhandel, Østergade 1, D3)

Couronne de Lierre

Hina gjöfina, blómin, er líka hægt að kaupa hér við Kóngsins Nýjatorg. Ef við göngum til vinstri meðfram hótelinu Angleterre, komum við handan þess að einni merkustu blómabúð heims, Couronne de Lierre, sem felur sig rækilega í höll Stóra Norræna við torgið.

Þar eru falleg blóm og sum hver sjaldgæf. Tage Andersen er snillingur í að búa til sérkennilega blómvendi. Búðin hans er heimsóknar virði.

(Couronne de Lierre, Kongens Nytorv, D3)

Magasin du Nord

Ef við beygjum í hina áttina frá enda Striksins, komum við fljótt að stærstu stórverzlun Norðurlanda, Magasin du Nord. Verzlunin er heill heimur, sem rétt er að heilsa upp á, þegar tíminn er naumur, því að hluturinn hlýtur að fást þar, þar á meðal vörur flestra þeirra sérverzlana, sem sagt hefur verið frá í þessum kafla.

(Magasin du Nord, Kongens Nytorv 13, D3)

Israels Plads

Engin borg er án útimarkaðar. Kaupmannahafnarbúar hafa sinn miðbæjarmarkað á Israels Plads, rétt utan við Nørreport brautarstöðina. Þetta er svo sem ekki stór markaður á alþjóðlega vísu, en býður ótrúlega fjölbreytt úrval grænmetis, ávaxta og blóma. Verðið er svona helmingur af því, sem það er í búðum, og auðvitað ekki nema þriðjungur af því, sem það er á Íslandi. Þessi staður er lærdómsríkur fyrir Íslendinga, sem lítt þekkja til slíkra markaða (B2).

1981, 1989

Jónas Kristjánsson

London veitingar

Ferðir

Um engar hliðar London getum við talað af meira öryggi en um veitingahúsin. Á því sviði er reynsla okkar lengst og mest. Þess vegna teljum við, að það hljóti að vera vel varðveitt leyndarmál, ef til voru, þegar við sömdum bókina, betri veitingastaðir en hér eru taldir, hver í sínum flokki. En í sumum tilvikum kunna aðrir að vera jafngóðir.

Fyrst segjum við frá matargerðarmusterunum fimm og einu að auki. Á þeim stöðum fæst beztur matur í London, tiltölulega dýr að vísu, en ekki eins dýr og í mörgum öðrum veitingahúsum borgarinnar.

Síðan vendum við okkar kvæði í kross og förum í ferðalag um borgina frá austri til norðurs, til vesturs og til suðurs. Um leið notum við tækifærið til að fara í ferðalag um jörðina, því að engin borg, nema hugsanlega New York, hefur meira úrval fjölbreyttrar matreiðslu frá öllum heimshornum. Við getum því kallað þann kafla: “Umhverfis jörðina á þrjátíu veitingahúsum”.

Þetta eru yfirleitt litlar veitingastofur, mikið sóttar af viðkomandi útlendinganýlendum. Þær veita raunverulega innsýn í matargerð heimamanna og um leið í hluta þjóðlífs þeirra. Þótt ekki væri nema þeirra einna vegna, er London heimsóknar virði og sparar óbeint flugfarseðla út um allan heim.

Hafa verður í huga, að hér eru eingöngu nefndir veitingastaðir í miðborginni, þeim hluta London, sem skiptir ferðamenn máli. Sakni lesendur þekktra nafna meðal matargerðarmusteranna eða þjóðlegu matstofanna, er skýringin yfirleitt sú, að við teljum þau hús ekki standa undir frægð, vera síðri en þau, sem hér eru talin.

Ennfremur þurfa lesendur að muna, að heimamönnum er mörgum kunnugt um kosti þessara matstofa. Því er ætíð ráðlegt að panta borð í síma, líka fyrir hádegisverð, svo að ekki þurfi að hrökklast frá fullu húsi inn á nálægan börger, pizzeríu eða steikhús.

Verðið er alls staðar miðað við, að farið sé “út að borða”, snæddur þriggja rétta kvöldverður fyrir tvo með einni flösku af léttu víni hússins og kaffi.

Víðast má fá mun ódýrara snarl, einkum í hádeginu, þegar margir staðir bjóða seðil dagsins. Sums staðar er því nefnt hér verð á föstum hádegisverðarseðli þriggja rétta, en þá eru ekki meðtalin drykkjarföng.
Aðalverðtalan fyrir hvert veitingahús er hins vegar að öllu inniföldu. Það verður að hafa í huga, þegar menn bera verð hér í kaflanum saman við hamborgarastaði og annað slíkt.

Í lok kaflans er fyrst skrá yfir þau af nefndum húsum, sem eru sérstaklega ódýr. Síðan er fjallað um nokkra af vínbörunum, sem eru kjörnir staðir til að fá sér létt snarl í hádegi eða að kvöldi, án þess að mikil útgjöld þurfi að fylgja.

Ma Cuisine

Bezta og langt frá því dýrasta veitingastofan í London hefur í mörg ár verið Ma Cuisine, sem tekur aðeins 30 manns í sæti. Þetta er látlaus salur með einföldum húsbúnaði og koparpönnum á veggjum. Gestir sitja þétt saman við lítil borð.

Að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara þarf til að fá sæti á kvöldin, en í hádeginu er yfirleitt hægt að komast inn, ef menn panta með nokkurra daga fyrirvara. Ekkert matargerðarmusteri í heimsborginni er svona umsetið áhugafólki um góðar veitingar og þessi hola rétt vestan við South Kensington-neðanjarðarlestarstöðina.

Eigandinn og kokkurinn er Guy Mouilleron, sem kemur frá suðaustanverðu Frakklandi og eldar hér í samræmi við svokallaða nýja línu í franskri matargerðarlist, með réttu bragði hráefna, léttum sósum og nákvæmum eldunartíma. Hann leigði út staðinn um tíma, en er nú farinn að reka hann sjálfur aftur.

Frúin eða dóttirin taka alúðlega á móti gestum með aðstoð þjóna, sem sýna ýmsa kalda forrétti, er ekki sjást á matseðlinum, einkum kæfur af ýmsu tagi. Sjálfur matseðillinn er stuttur og breytist ört.

Síðast fengum við í forrétti tvennt, sem oft sést á matseðlinum, fiskikæfu með þörungum og hörpudiskafroðu með appelsínusósu. Síðan í aðalrétti krabbafyllt kjúklingalæri með humarsósu og nautalundir með grænum pipar. Loks í eftirrétti karamellufroðu (mousse brulée) og kirsuberjakraumís. Með salati, kaffi og flösku af Moulin-a-Vent rauðvíni kostaði þetta sem svarar meðalverði staðarins.

Meðal annarra freistandi forrétta á seðlinum var heitt kjúklingalifrarsalat og lárperufroða. Meðal sjávarréttanna var smjörsoðinn silungur og vermútsoðin sólflúra. Meðal kjötréttanna var rauðvínsönd og lauk- og mintuhúðaðar lambakótilettur. Og meðal eftirréttanna auðvitað franskir ostar, mátulega þroskaðir. Allt eru þetta réttir, sem Guy Mouilleron er kunnur fyrir.

Ekki má svo gleyma úrvali af gömlu og góðu armanjaki með kaffinu fyrir þá, sem ekki hafa of létta pyngju.

Kvöldverður eða hádegisverður fyrir tvo kostaði GBP 55.

(Ma Cuisine, 113 Walton Street, sími 584 7585, lokað laugardaga og sunnudaga, A5)

Mijanou

Annað lítið, 30 sæta veitingahús, sem er í uppáhaldi hjá okkur og mörgum fleiri matargagnrýnendum, er Mijanou í nágrenni Viktoríustöðvar. Það er á tveimur hæðum, annarri fyrir reykingamenn og hinni fyrir reyklausa.

Eldhúsið er á millihæð. Þar ræður ríkjum Sonja Blech, fyrrum latínugráni, en eiginmaðurinn Neville, fyrrum endurskoðandi, stjórnar í borðsal, öfugt við það, sem venja er í franskættuðum veitingahúsum.

Neville Blech er búinn að leggja niður skeggið og nefklemmugleraugun, en tekur enn vel á móti gestum og skýrir í löngu máli innihald og meðferð réttanna í eldhúsinu. Hér er rýmra milli borða en í Ma Cuisine og því notalegra að láta tímann líða við svarta og rauða borðdúka. Eldamennskan er hefðbundnari í Mijanou, eins konar blanda af nýfranskri, sveitafranskri og austrænni.

Við prófuðum síðast í forrétti spínattertu í kotasælu og hörpudiskafroðu í engifersósu með grænum sítrónum, í aðalrétti gratíneraðar lambakótilettur og steinbítsfroðu (mousseline de loup de mer), í eftirrétti kraumísa og franska osta. Alveg eins og á Ma Cuisine var hver einasti réttur nákvæmlega eins góður og við höfðum vonað.

Aðrir kunnir og freistandi réttir á matseðlinum voru heit lynghænulifrarfroða í púrtvíni, viskífasani, nautalundir í gráðaosti, dádýrahryggur í ylliberjasósu og ostaís með plómum. Velja mátti milli hundrað víntegunda, vel valinna og margra tiltölulega ódýrra.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 55. Hádegismatseðill dagsins er mun ódýrari.

(Mijanou, 143 Ebury Street, sími 730 4099, lokað laugardaga og sunnudaga, C5)

Interlude

Þriðja matargerðarmusterið í London er Interlude í Covent Garden hverfinu, á norðurhorninu við framhlið Konunglegu óperunnar. Þessi nákvæma staðarlýsing er nauðsynleg, því að varla getur heitið, að 45 sæta veitingastofan sé auðkennd að utanverðu. Við höfum tvisvar gengið framhjá henni, þótt við hefðum rétt heimilisfang.

Interlude er á sama verði og hin tvö, sem áður er getið. Þar er mun meira lagt í húsbúnað og þjónustan er nákvæmari. Innréttingar eru ekkert líkar öðrum frönskum matstofum. Þær eru nánast norrænar, glæsilega nýtízkulegar og dálítið kuldalegar um leið. Stólarnir eru þægilegir armstólar. Engir dúkar, aðeins mottur, eru á fallegum borðum úr massífum við. Veggir eru appelsínugulir og dálítið farnir að láta á sjá, líklega vegna raka.

Jeremy O´Connor matreiðslumeistari hefur keypt staðinn af stofnandanum, Jean-Louis Taillebaud, og er aðeins búinn að reka hann í eitt ár. Honum hefur tekizt að halda honum í hópi hinna frægustu í borginni. Hann burðast ekki með langan, fastan matseðil, heldur skiptir um daglega.

Síðast fengum við í forrétti ostrutertu með sólselju og geddukæfu með saffransósu, í aðalrétti þykkvalúru og sandhverfu í rjómasósu og sólflúru í kampavínssósu. Við völdum þetta, af því að hér eru sjávarréttar taldir beztir. En á matseðlinum var einnig kálfa-, lamba- og nautakjöt.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 60. Sams konar hádegisverður fyrir tvo hefði kostað GBP 45.

(Interlude, 7 Bow Street, sími 379 6473, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, F2)

Tante Claire

Sunnarlega í Chelsea, næstum því niðri við ána Thames, er tíu ára gamalt veitingahús Claire og Pierre Koffmann, þar sem hann sinnir eldhúsinu og hún matsalnum, sem nýlega var stækkaður, en tekur þó aðeins 38 í sæti.

Húsbúnaður er einfaldur og fínlegur. Frönsku þjónarnir eru miklir fagmenn.
Bezt er að heimsækja Tante Claire í hádeginu, því að þá er á boðstólum fastur matseðill, svo að helmingi ódýrara er að borða þá en á kvöldin, þegar staðurinn er í hópi hinna dýrustu í borginni.

Einkenni matreiðslu Pierre felst í fínlegum bragðmun, fremur en voldugum andstæðum. Matseðillinn er stuttur, en þó fjölskrúðugur og breytist í sífellu eftir markaðsaðstæðum.

Við prófuðum síðast í forrétti hörpufisk í grófu salti og hörpufisk með appelsínusósu, í aðalrétti sandhverfu í sinnepsfræjum og nautahryggsneið með ostrusósu, og loks í eftirrétti hina frábæru frönsku osta frá Philippe Olivier.

Meðal annarra vinsælla rétta á matseðlinum var ferskt sjávarréttasalat, fersk gæsalifur á ristuðum lauk, kryddsteiktur andarungi, kálfabris í engifer eða með grænum sítrónum. Koffmann hætti að framreiða kjúklinga, þegar brezka ríkisstjórnin kom á innflutningsbanni.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 90. Hádegismatseðill dagsins var á GBP 45 fyrir tvo.

(Tante Claire, 68 Royal Hospital Road, sími 352 6045, lokað laugardaga og sunnudaga, sunnan við B5)

Connaught

Fimmta og sjötta matargerðarmusterið í London eru annarrar ættar en hin fjögur, ekki litlar hjónasamvinnuholur, heldur stór hótelveitingahús. Annað er sjálft Connaught-hótel í miðju Mayfair. Við tökum það sem fulltrúa hinna dýru GBP 85 veitingahúsa fram yfir jafngott Gavroche, svo ekki sé minnst á Inigo Jones og loks Mirabelle, þar sem of mikið er gert af mistökum fyrir slíka fjárupphæð.

Hér dugar gestum ekkert minna en hálsbindi, enda er tilkomumikið að sjá þá stika inn ganginn með hirð yfirþjóna allt í kringum sig. Þjónustan er líka svo fullkomin, að helzt líkist huglestri. Falli hnífur í kjöltu, er annar kominn á borðið eftir nokkrar sekúndur.

Aðalsalurinn, þar sem borðað er eftir fastaseðli, er virðulegur og ríkmannlegur sem brezkur karlaklúbbur, klæddur mahóní og krýndur kristalskrónum. Grillsalurinn er minni og síður skemmtilegur. Þar er frjálst val af seðli, en verðið er svipað á báðum stöðunum. Um aðalsalinn hefur verið sagt, að hann sé síðasta vígi hins siðmenntaða heims.

Á Connaught býður hinn heimsfrægi kokkur, Michel Bourdin, margvíslega forrétti, aðalrétti og eftirrétti í aðalsalnum og fer verðið eingöngu eftir því, hvaða aðalréttur er valinn. Eins og í öðrum matarmusterum eru þetta yfirleitt eftirminnilegir réttir.

Síðast fengum við í forrétti reyktan lax í kryddfroðu (surprise ecosse) og lynghænueggjatertu, í aðalrétti steiktan orra og þrenns konar fisk í léttri kryddsósu, í eftirrétti brauð- og smjörbúðing og hindberjafroðu. Innan um dýr vín fundum við Brunello di Montalcino 1980 á GBP 20.

Af öðrum einkennisréttum Bourdin á matseðlinum má nefna laxakúlubjakk, fasana-, orra- og akurhænukæfu, villiandarunga og skógarsnípu með seljurótarmauki.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 85.

(Connaught, Carlos Place, sími 499 7070, opið alla daga, C2)

Dorchester Grill

Grill og Terrace heita veitingasalirnir á hinu matarhótelinu í London. Þeir hafa báðir sama eldhúsið, þar sem hinn heimskunni kokkur og matreiðslubókarhöfundur, Anton Mosimann, ræður ríkjum. Hann eldar bæði upp á nýfrönsku og upp á sérstaka enska villibráðar-útgáfu af nýfranskri matargerð.

Við höfum prófað grillið, sem er afar virðulegur og skrautlegur salur í spönskum stíl. Miklar ljósakrónur eru í lofti og á veggjum og þykkt teppi á gólfi. Borðin eru afar gömul og virðuleg og armstólarnir eru leðurklæddir. Þar er afar góð og margmenn þjónusta, sem minnir í flestu á Connaught, en er ekki eins kyrrlát. Verðið er heldur lægra á Dorchester.

Við prófuðum í forrétti kælda gúrku- og dillsúpu og seljurótar-pönnukökur með villisveppum og stilton-osti; í fiskrétti gufusoðna slétthverfu á kræklingabeði og soðinn silung með blaðlaukssósu; í kjötrétti hvítkálsfyllta perluhænu með villisveppum og kaffifífli og sneidda kálfalifur í fáfnisgras-sósu; og í eftirrétti bakaðar peru- og koníaksbollur og bjórost.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 70 og hádegisverður GBP 45.

(Dorchester, Park Lane, sími 629 8888, opið alla daga, C3)

Langan´s Brasserie

Milli matargerðarmusteranna fimm og hnattferðarinnar um veitingahús í London er nauðsynlegt að geta matstofu, sem er samkomustaður fræga fólksins í London, en býður samt mjög góðan mat og aðeins mildilega dýran. Það er Langan´s Brasserie í eigu hins þekkta vínsvelgs og hávaðamanns, Peter Langan frá Írlandi, hins vinsæla gamanleikara, Michael Caine og hins virta kokks, Richard Shepherd.

Hingað sogast skemmtanalífsfólkið og blaðamennirnir, hinir ríku og hinir blönku, leikararnir og sýningarstúlkurnar, lávarðarnir og heimskonurnar. Fyrir utan dyrnar, rétt norðan við Piccadilly, híma hinir hötuðu “paparazzi” og bíða eftir tækifæri til að skjóta mynd af manni annarrar konu með konu annars manns. Innan dyra er hávaði og fjör, þjónar vaða um fram og aftur, meðan fræga fólkið kallast á milli borða. Þetta er hrífandi sjón, jafnt í hádegi sem á kvöldin.

Þeir, sem hljóma túristalega í símann, eru bókaðir í Feneyjasalinn á efri hæð, sem er íburðarmeiri og notalegri, en ekki eins vinsæll og aðalsalurinn. Því gildir að standa á því fastar en fótunum, að ekki komi til greina annað en borð á sjálfri jarðhæðinni, í stórum sal, sem einkennist af risastórum loftræstispöðum og tilviljanakenndu safni málverka og plakata. Stíllinn er svipaður og í “Casablanca” hjá Ingrid Bergman og Humphrey Bogart.

Kvöldið okkar á Langan´s var Casablanca-stemmningunni haldið uppi af jazzista, sem hamraði gamla slagara á píanó og gerði það vel, þótt gestirnir væru svo uppteknir hver af öðrum, að fáir skenktu honum auga eða klapp.

Þrátt fyrir gífurlega langan matseðil berst Shepherd harðri baráttu í eldhúsinu við að reiða eingöngu fram ágætan mat. Kraftaverki er líkast, að það skuli takast í öllum látunum. Og hið sama er að segja um þjónustuna, sem er hin bezta.

Við prófuðum þar síðast í forrétti lárperusalat með rækjum og hvítlaukssnigla, í aðalrétti nautatungu í madeirasósu og grillaðan nautahryggvöðva, í eftirrétti karamellufroðu (creme brulée) og lagköku (milles feuilles). Með salati, kaffi og flösku af víni hússins nam þetta nokkurn veginn meðalverðlagi hússins.

Aðrir hafa mælt með reyktri ýsu með soðnum eggjum, steiktum gæsum með sagó og laukfyllingu, spínatfroðu með ansjósusósu, svartbúðingi og andakæfu með armanjaki.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 50.

(Langan´s Brasserie, Stratton Street, sími 493 6437, lokað sunnudaga og í hádeginu á laugardögum, D2/3)

Umhverfis jörðina á 30 matstofum

Nú er kominn tími til að hefja ferðina umhverfis jörðina á 30 veitingahúsum í London. Hér ætlum við að lýsa matstofum, sem skara framúr í þjóðlegri matreiðslu af ýmsu tagi. Verðlagið á þessum stöðum er að meðaltali eins og gengur og gerist í heimsborginni. Kvöldveizla fyrir tvo kostaði yfirleitt GBP 20-40 og meðalverðið var um GBP 30. Í mörgum stofanna var hægt að fá snarl, t.d. í hádeginu, fyrir miklu lægra verð.

BANDARÍKIN:

Joe Allen

Við hefjum hnattferðina suðaustast í Covent Garden, rétt við Strand, þar sem Joe Allen er í fáförulli hliðargötu. Erfitt er að finna staðinn, því að skiltið við kjallarainnganginn er með minnsta móti.

Þetta er aðalvirki bandarískrar matargerðarlistar. Andrúmsloftið er fjörugt og skemmtilegt milli tígulsteinsveggjanna. Hér er dálítð af leikurum og blaðamönnum, enda er staðurinn mitt á milli leikhúsa- og dagblaðahverfisins.

Matseðillinn er krítaður á töflu. Við prófuðum spínat- og sveppasalöt, spareribs og svartbaunasúpu, pecan pæ og englafæðutertu og komumst í ágætt skap innan um heimþrársjúka Bandaríkjamenn.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.

(Joe Allen, 13 Exeter Street, sími 836 0651, opið alla daga, F2)

INDLAND:

Last Days of the Raj

Norðarlega í Covent Garden, andspænis New London Theatre og rétt hjá Drury Lane hóteli, er sjö ára gamalt indverskt veitingahús, Last Days of the Raj, rekið af samstarfshópi Indverja. Stofan er snyrtileg og húsbúnaður er vel hannaður.

Við fengum okkur tvo sérrétti og einn bakka af thali, sem er safn smárétta, eins konar sýnishorn af indverskum mat. Annar sérrétturinn var kryddaður kjúklingur á trépinnum (tikka) og hinn pönnusteikt lamb, húðað með eggjahvítu og blöndu af möndlum og rúsínum (korma). Bakkinn hafði að geyma kjúkling, leginn í kryddaðri jógúrt og bakaðan í leirofni (tandoori).

Ennfremur lambakjöt á spjóti (shis kebab), pönnusteikt lambakjöt með jógúrt (rogan josh), blandað grænmetissalat (raita), smjörsteiktan kjúkling með tómati (makhani), hrísgrjón, fyrst olíusteikt og síðan soðin í soði (pulau), svo og flatt brauð (nan), bakað í leirofni.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30.

(Last Days of the Raj, 22 Drury Lane, sími 836 1628, opið alla daga, E/F1)

JAPAN:

Ajimura

Rétt hjá Last Days of the Raj er Ajimura, japanskur matstaður, sem er ódýr og fremur hversdagslegur að húsbúnaði. En hér er framin ein hin bezta japanska matreiðslan í London. Menn geta fengið að sitja við eldhúsbarinn til að fylgjast með framkvæmdinni.

Matseðillinn er greinargóður, en við kusum samt að velja okkur tvo af fjórum matseðlum dagsins, sem krítaðir voru á töflu. Sameiginlegt með þeim var djúpsteikt svínakjöt með eggaldinum, grænmeti, hrísgrjónum og sósu. Annar seðillinn var með rækjum, hráum laxi og tærri fisksúpu í forrétt, en hinn með rækjum, djúpsteiktum fiski, eggjum og grænmeti, svo og sömu súpunni. Með þessu fengum við heitt hrísgrjónavín.

Japanir hafa dálæti á fiski, hráum (sashimi) eða djúpsteiktum (tempura). Kjöt borða þeir gjarna steikt næfurþunnt og pönnusteikt (sukiyaki). Þeir leggja áherzlu á litskrúðuga uppsetningu á diska.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 35.

(Ajimura, 51 Shelton Street, sími 240 0178, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga)

KÍNA (SESÚAN):

New Shushan

Kryddaðasta og sterkasta kínverska matreiðslan er frá Sesúan innhéruðum Kína. Bezta útgáfa hennar er á New Shushan, rétt hjá Leicester Square. Þessi matreiðsla er ekki fyrir byrjendur í snæðingi elds og brennisteins, svo að rétt er að biðja þjóninn að láta kokkinn fara varlega með kryddið.

Við prófuðum kalt, chili-kryddað svínakjöt með hvítlaukssósu, rækjur með sesam-fræjum á ristuðu brauði, risarækjur í chili-sósu, baunir með hakki og pönnusteikt hrísgrjón. Aðrir hafa mælt með te- og kamfórureyktri önd, pönnukökum með sykruðu rauðbaunamauki. Ennfremur Pekingönd og sætsúrum fiski. Matseðillinn er langur, svo að rétt er að gefa sér góðan tíma til að velja.

Fyrir þá, sem hafa góðan maga, er þetta ánægjuleg lífsreynsla, því að maturinn er í senn ilmmikill og bragðríkur. Sesúan-matreiðsla er í tízku í London um þessar mundir.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30.

(Shushan, 36 Cranbourn Street, sími 836 7501, opið alla daga, E2)

KÍNA (CANTON):

Poons

Önnur kínversk matreiðsla, sem hæfir betur venjulegum smekk, er suður-kínverska matreiðslan frá Canton og Hong Kong, sem tíðkast í flestum kínastöðum Vesturlanda. Bezti fulltrúi hennar í London er sennilega hið frjálslega og einfalda Poons, sem er rétt við Leicester Square.

Í gluggunum má sjá vindþurrkaða fugla og skreið. Verkunin, sem Íslendingar ættu að þekkja, er sérgrein staðarins. Sú matreiðsla og önnur á Poons er vönduð og ekta í senn.

Við prófuðum gufusoðinn hörpuskelfisk, Wun Tun súpu, vindþurrkaða önd, risarækjur, djúpsteiktan smokkfisk með grænum pipar og söltuðum svartbaunum, soðin hrísgrjón og hvítvín hússins. Te fengum við eins og við gátum í okkur látið.

Þessi tegund kínverskrar matreiðslu er svo mild og ljúf, að hún ætti ekki að espa neinar magasýrur.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.

(Poons, 4 Leicester Street, sími 437 1528, lokað sunnudaga, E2)

ÍTALÍA:

Manzi´s

Þessi ítalska fiskréttastofa er nánast við hliðina á Poons í Leicester Street. Manzi´s hefur lengi verið með vinsælli áningarstöðum borgarinnar. Þjónarnir eru langreyndir og þjálfaðir og stemmningin er létt og fjörleg á báðum hæðum. Uppi í Cabin Room er þó rólegra en á bistrónni niðri, þar sem gleðin er meiri.

Hér er gullvæg regla að panta sjávarréttina soðna eða grillaða. Hráefnið er nefnilega heldur betra en fyrsta flokks, en kokkarnir hafa tilhneigingu til að misþyrma því, ef beðið er um flókna matreiðslu.

Við fengum okkur í forrétti lárperu og kræklinga í skel, svo og súpu, í aðalrétti grillaða lúðu og soðna þykkvalúru og í eftirrétti jarðarberjatertu og kirsuberjakraumís. Aðrir hafa mælt með fiskisúpu, silungi og skötu í “svartsmjöri”. Erfitt er að finna kjöt á matseðlinum.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 40.

(Manzi´s, 1 Leicester Street, sími 734 0224, lokað í hádegi sunnudaga, E2)

KÍNA (CANTON):

Chuen Cheng Ku

Á þessum slóðum er þétt skipað góðum veitingahúsum, enda er hér Kínahverfið í Soho. Milli Leicester Square og Piccadilly Circus er Chuen Cheng Ku, sem býður fyrir lítið fé beztu hádegissmárétti í kínverskum stíl, sem fáanlegir eru utan Hong Kong. Enda er önnur hver kínversk barnafjölskylda í London í hádegismat hér á sunnudögum.

Smáréttirnir eru kallaðir dim sum. Þeim er ekið um salina í vögnum og gestirnir benda á það, sem þeir vilja. Flestir réttirnir kostuðu um GBP 1.
Þetta er ekki fínlegt veitingahús á vestræna vísu. Það er hávaðasamt og virðist ekta, því að gestirnir eru kínverskir að meirihluta.

Flestir dim sum réttanna eru eldaðir í gufu í sívölum smápottum, sem staflað er hverjum ofan á annan. Ef margir eru saman um borð, er kjörið að panta einn af hverjum smárétti og skipta öllu milli sín. Ókeypis te fylgir í lítravís.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði GBP 15. Kvöldverður fyrir tvo var á GBP 30.
(Chuen Cheng Ku, 17 Wardour Street, sími 437 1398, opið alla daga, E2)

ENGLAND:

Bentley´s

Í þröngu vinkilstræti milli Regent Street og Piccadilly er Bentley´s ostrubar niðri og veitingastofa uppi. Þetta er án efa traustasti ostrubar í borginni, enda á hann sín eigin ostrumið við Colchester. Hvergi í London höfum við fengið betri ostrur en einmitt hér, síðast sex stykkin á GBP 7.

Þar fyrir utan er svo fiskurinn, ferskur og fjölbreyttur, sandhverfur, þykkvalúrur, kolar, ýsur og silungar, og svo auðvitað krabbar, rækjur og humrar. Aðalatriðið er að velja úr línunum, þar sem stendur “grilled”, “poached” eða “meuniere”, en forðast Thermidor, Newburg, Dugléré og Florentine, allt flóknar matreiðsluaðferðir, sem spilla mat.

Við fengum okkur í forrétti sex ostrur og hvítvínssoðinn krækling, í aðalrétti soðinn hörpuskelfisk og bakaðan krabba og í eftirrétti jarðarber.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 55, en meðalverð var GBP 50.

(Bentley´s, 11 Swallow Street, sími 734 4756, lokað sunnudaga, D2)

KÍNA (PEKING)

Gallery Rendezvous

Enn erum við í Soho og komin í fjórða kínverska staðinn í hnattferðinni í London. Sumum kann að finnast það ofrausn, en í rauninni er kínversk matreiðsla svo merkileg og fjölbreytt og svo ólík eftir landshlutum, að ekki duga færri til að kynnast mikilvægustu afbrigðunum.

Í Canton-matreiðslu koma smáréttir í belg og biðu. Peking-matreiðsla er líkari vestrænni á þann hátt, að réttirnir koma einn og einn í einu í fastri röð. Mikil áherzla er lögð á djúpsteiktingu og stökkar skorpur, en minna er um gufusuðuna, sem einkennir Canton.

Gallery Rendezvous er Peking-staður, óvenju vandaður að húsbúnaði og vestrænn að yfirbragði af kínverskum að vera. Salurinn er rólegur og rúmgóður, með tágustólum, kastljósum og steinflísagólfi.

Hér er auðvelt að velja, því að boðnir eru ýmsir, mislangir, fastir matseðlar, sem allir fela í sér hina frægu Peking-önd með stökkri skorpu.

Okkar matseðill var ellefu rétta og kostaði GBP 25 fyrir tvo. Á honum voru m.a. ristaðar rækjur með sesamfræjum, spareribs, vorrúllur, Peking-önd, kjúklingur með heslihnetum, sætsúrt svínakjöt, þunnsneitt nautakjöt með grænum pipar, steiktar baunaspírur, steikt hrísgrjón og karamelluhúðaðir bananar.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.

(Gallery Rendezvous, 53-55 Beak Street, sími 437 4446, opið alla daga, D2)

SINGAPÚR:

Equatorial

Í miðri Soho látum við Equatorial vera eins konar fulltrúa, ekki aðeins fyrir Singapúr, heldur einnig Indónesíu og Malaysíu, sem eiga furðu fáa frambærilega fulltrúa matargerðar í heimsborginni.

Í heild er matreiðsla þessara landa Suðaustur-Asíu mitt á milli indverskrar og kínverskrar, kryddaðri en sú kínverska, en ekki eins krydduð og hin indverska. Einnig eru notuð önnur krydd en annars vegar í Kína og hins vegar í Indlandi. En sérgrein Equatorial er trépinnamaturinn Satay, sem er sennilega hinn bezti í London.

Í þessu vinalega og örsmáa fjölskylduveitingahúsi fengum við fastan málsverð, sem m.a. fól í sér nautakjöt á trépinnum, kjúklingasúpu með maískornum, eggjablönduð hrísgrjón, kjúklinga með vorlauk og engifer, sætsúrt svínakjöt, rækjur og lecches-ávexti. Gott var að fá raka og heita klúta til handþvottar á eftir.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20. Hádegismatseðill dagins var á GBP 10 fyrir tvo.

(Equatorial, 37 Old Compton Street, sími 437 6112, E2)

UNGVERJALAND:

Gay Hussar

Raunar ætti Gay Hussar að vera fremst í veitingahúsakaflanum með matarmusterunum, því að hann er einn af beztu veitingasölum borgarinnar, enda þótt hann sé ekki franskur. Í matargerðarlist hefur Ungverjaland löngum verið þungamiðja gamla Habsborgarveldisins í Mið-Evrópu. Og húsarinn í London hefur lengi verið bezti ungverski matstaðurinn utan heimalandsins.

Hér nyrzt í Soho ræður ríkjum flóttamaðurinn Victor Sassie og tekur á móti stjórnmálamönnum og blaðamönnum í hádegisverð. Hér er talað lon og don um stjórnmál yfir rauðkáli, villisvínahöfðasultu, gúllasi og tókajvíni. En hér fæst ekki lambakjöt, af því að það minnir Ungverja um of á Tyrkjann, hinn forna fjanda og kúgara.

Ungverskan á löngum matseðlinum er ekki beinlínis til þess fallin að auðvelda gestum valið. Flestir kjósa því þriggja rétta hádegisverðarseðilinn, sem ætti að duga ofan í heila sveit húsara.
Í síðasta skiptið af allmörgum heimsóknum völdum við okkur í forrétti kirsuberjasúpu (meggyleves) og villisvínahöfðasultu (disznó sajt), í aðalrétti kjúklingapapriku (paprikás) og kálfapönnukökur, í eftirrétti kirsuberjatertu og sætar pönnukökur (palacsinta), með matnum badascony hvítvín og á eftir dísætt tókajvín, 5 puttenoy.

Kvöldverður eða hádegisverður fyrir tvo kostaði GBP 45. Hádegisverðarseðill dagsins var á GBP 20 fyrir tvo.

(Gay Hussar, 2 Greek Street, sími 437 0973, lokað sunnudaga, E1)

KÓREA:

Arirang

Á svipuðum slóðum nyrst í Soho, raunar alveg við Oxford Street, er Arirang, bezti Kóreustaðurinn í London. Í því landi er matargerðin af eðlilegum ástæðum mitt á milli kínverskrar og japanskrar. Hún er lítt þekkt á Vesturlöndum, en réttirnir eru spennandi og ánægjulegir, ef menn sigla framhjá kim chee, illa lyktandi, gerjuðu káli, sem sagt er skotgrafafæða úr Kóreustríðinu.

Arirang er sérkennilega innréttaður, ekki beinlínis stílhreinn, en notalegur í kjallara. Skartklæddar og alúðlegar þjónustustúlkur ganga um beina með aðstoð Wee gestgjafa. Þægilegast er að panta einhvern hinna margréttuðu, föstu málsverða.

Í eitt skiptið fengum við súpu, spareribs (bul-kal-bee), djúpsteiktan fisk, sætsúran (hong cho), kjúkling (thah thoree tang), djúpsteiktan beinamerg (slobal chun), blandað grænmeti (chop she) og hrísgrjón (pahb). Í annað skipti kjötsúpu, kjötpönnukökur, kryddlegið nautakjöt, sýrðar baunaspírur og hrísgrjón. Ávextir og te fylgdu í bæði skiptin.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30. Seðlar dagsins fyrir tvo voru á GBP 8 í hádeginu og GBP 20 á kvöldin.

(Arirang, 31 Poland Street, sími 437 6633, lokað sunnudaga, D1)

GRIKKLAND:

Anemos

Í heimsreisunni förum við nú norður fyrir Oxford Street til að heimsækja ódýran, grískan stað, Anemos. Það er óformleg, vinsæl og vinaleg taverna, sem getur orðið einkar fjörug á kvöldin, þegar gestir og þjónar klifra á borð og stóla til að syngja og stíga dans.

Þótt furðulegt megi virðast, er hér á boðstólum góður og ekta grískur matur. Við prófuðum þorskhrognakæfu (taramosalata), eggjahrísgrjónasúpu (avgolemono), kjöts- og eggaldina-lagköku (musaka), svo og hunangs-, hnetu- og kanilköku (baklava). Allt eru þetta hefðbundnir og heimsþekktir grískir réttir.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.

(Anemos, 32 Charlotte Street, sími 636 2289, opið alla daga, D1)

NORÐUR-INDLAND:

Gaylord

Við höldum til vesturs og komum senn að óvenju glæsibúnu indversku veitingahúsi, sem sérhæfir sig í mat norðurhéraða landsins. Það er heldur dýrara en venjulegir indverskir matstaðir, enda meira vandað til umhverfis og matargerðar en almennt gerist. Miklar og rauðar skreytingar eru á veggjum og þjónusta er eins og bezt gerist í vestrænum matstofum.

Síðast prófuðum við jógúrthúðaðan kjúkling, bakaðan í leirofni (tandoori), spjótgrillaðan kjúkling (tikka) og lambakjöt og smárétti með. Aðrir hafa bent á karrírétti, kryddað lambakjöt, smjörkökur og ýmsa rétti, pönnusteikta í jógúrt. Eftirréttir eru yfirleitt afar sætir.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30. Fasti matseðillinn fyrir tvo var á GBP 17.

(Gaylord, 79 Mortimer Street, sími 580 3615, opið alla daga, D1)

THAILAND:

Chaopraya

Við erum enn rétt norðan við Oxford Street á heimsreisunni. Í skemmtilegri göngugötu kúrir Chaopraya með nokkrum öðrum veitingahúsum. Sjálfur matsalurinn er í fremur vestrænum kjallara, sem er vinsæll meðal bleikhöfða, þótt hin létta matreiðsla sé ekta thailenzk. Hugljúfar þjónustustúlkur aðstoða við valið og ganga um beina. Verðlag er hóflegt, ef menn standast hin miklu ávaxta-romm-hanastél, sem boðin eru við upphaf máltíðar.

Við völdum einn fastaseðilinn og fengum nautakjöt á spjóti, svínahakk á djúpsteiktu brauði, risastórar rækjur, kjúkling með chili og hnetum, fisk í sætsúrri sósu, karríhúðað nautakjöt, blandað grænmeti, hrísgrjón og te, kókosmjólk og thailenzkan bjór.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 35. Fastur matseðill fyrir tvo var frá GBP 22.

(Chaopraya, 22 St Christopher´s Place, sími 486 0777, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, C1)

TÚNIS:

Sidi Bou Said

Rétt norður af Marble Arch er Sidi Bou Said, lítið og einfalt Túnis-veitingahús, sem einkum er þekkt fyrir kúskús. Það er eldað í tvöföldum potti, grænmeti og kjöt í neðri hluta og semolina-korn í efri hluta, borið fram með sósu. Það er einnig þekkt fyrir tajine, sem er eins konar kjötsúpa með ýmsu út í, einkum lambakjöti. Við fengum okkur einmitt kúskús og tajine. Sætar smákökur eru í eftirrétt, svo og skemmtilega ilmandi kaffi.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.

(Sidi Bou Said, 9 Seymour Place, sími 402 9930, lokað sunnudaga, B1)

LÍBANON:

Maroush

Í nágrenni Sidi Bou Said er bezti fulltrúi arabiskra veitingasala í borginni, Maroush við Edgeware Road, þétt setinn líbönskum útlögum. Við prófuðum hefðbundna arabiska rétti á borð við felafel og shawarma, einnig líbanskt salat og fyllt lambakjöt, svo og sæta eftirrétti.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30.

(Maroush, 21 Edgeware Road, sími 723 0773, opið alla daga, B1/2)

FRAKKLAND:

Le Chef

Frönsk veitingahús eru ekki bara fín og dýr. Eitt bezta dæmið um venjulega, franska bistró í London er le Chef, rétt fyrir norðan Hyde Park. Þetta er óformlegt, vingjarnlegt og heimilislegt hús með réttri stemmningu frá vinstri bakka Signu. Plaköt á veggjum og rúðóttir borðdúkar stuðla að þessari tilfinningu, svo að ekki sé talað um borðin úti á stétt að sumarlagi.

Alan og June King hafa rekið le Chef í tvo áratugi og jafnan haldið uppi góðri matreiðslu í hefðbundnum, jarðtengdum, frönskum stíl. Við prófuðum síðast fiskisúpu og lárperu í salati í forrétti, í aðalrétti kryddaðan lambageira og nautahryggsteik vínkaupmannsins og í eftirrétti osta hússins. Áður höfum við fengið kjúklingalifrarkæfu, Provencal kálfakótilettur og auðvitað ostana, sem jafnan eru góðir.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 35. Hádegismatseðill dagsins var á GBP 28 fyrir tvo.

(le Chef, 41 Connaught Street, sími 262 5945, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, A/B1/2)

MAURITIUS:

Dodo Gourmand

Andspænis le Chef er notalegt veitingahús með þeirri blöndu franskrar, afrískrar og indverskrar matargerðar, er ríkir á Mauritius.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 28.

(Dodo Gourmand, 30 Connaught Street, sími 258 3947, lokað sunnudaga, B1)

AFGANISTAN:

CaravanSerai

CaravanSerai er norður í Marylebone hverfi, ódýr staður, ef menn gæta sín í vali af matseðli, eini frambærilegi fulltrúi Afganistan.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 35.

(CaravanSerai, 50 Paddington Street, sími 935 1208, lokað í hádegi sunnudaga, C1)

BANDARÍKIN:

Hard Rock Cafe

Nú víkur hnattferðinni suður yfir Oxford Street niður í Mayfair, sem er fátækt af veitingahúsum á sómasamlegu verði. Allra syðst í hverfinu er þó bezti hamborgarastaður borgarinnar, Hard Rock Cafe, stór og hávaðasamur í stíl við nafnið og svo ákaflega vinsæll, að stundum eru biðraðir út á götu.

Hér höfum við fengið margt, sem minnir á ekta Ameríku, viðamikil salöt, franskar í gráðostsósu, mjólkurhristinga, tröllslega ísa, djöflafæðutertur, T-beinsteikur með bakaðri kartöflu og svo auðvitað hamborgara.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.

(Hard Rock Cafe, 150 Old Park Lane, sími 629 0382, opið alla daga, C3)

PAKISTAN:

Salloos

Næst víkur sögunni suðvestur í Belgravia. Í öngstræti rétt hjá Hyde Park Corner og aðeins 50 metra frá Berkeley hóteli er Salloos, annar af tveimur beztu pakistönsku veitingastöðum heimsborgarinnar. Þetta er rólegur og snyrtilegur staður, þar sem Salahuddin-hjónin taka vel á móti gestum. Skreytingar eru pakistanskar, en að öðru leyti er Salloos vestrænn að útliti.

Hér er eldað í tandoori-leirofni. Við höfum prófað sérkennilega rétti á borð við hænu í ostafroðu og eins konar kinda-hafragraut. En okkur líkaði þó betur við hefðbundna rétti á borð við kjúkling á tréspjótum (tikka), rækjur í jógúrt (tandoori), kjúkling í jógúrt (korma), salat (raita), hrísgrjón (pilau) og soðið brauð (nan).

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 40.

(Salloos, 62 Kinnerton Street, sími 235 4444, lokað sunnudaga, B3)

ÍTALÍA:

Montpeliano

Nokkru vestar, rétt vestan við Harrods, er einn hinn bezti af mörgum afar frambærilegum ítölskum veitingastöðum í London. Þetta er lítill og hressilegur matstaður með skemmtilegum innréttingum, þar á meðal speglum og óbeinni lýsingu. Stofan er í senn hávaðasöm og virðuleg, en einkum þó vingjarnleg. Hávaðinn stafar ekki af niðursoðinni tónlist, heldur af hrókasamræðum gestanna. Vínlistinn er góður og tiltölulega ódýr.

Hér prófuðum við í forrétti grænt og hvítt hveitipasta (paglina e feno) með kryddaðri tómatsósu og Mozzarella-ost með tómati og lárperu (tricolore), í aðalrétti kálfakjöt og ýmiss konar soðið kjöt (bollito misto), og í eftirrétti eggjarauðvínsfroðu (zabaglione) og pönnukökur með rjóma og hnetum.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 40.

(Montpeliano, 13 Montpelier Street, sími 589 0032, lokað sunnudaga, A/B4)

RÚSSLAND:

Luba´s Bistro

Á svipuðum slóðum á Rússland sinn fulltrúa, Luba´s Bistro, ódýran og einfaldan stað með mörgum fastagestum, einkum útlögum, sem tala framandi tungu.

Hér prófuðum við þekkta og saðsama rússneska rétti, svo sem þykka rauðrófusúpu (borscht) með rjóma, þykkar pönnukökur (blini) með hrognum og sýrðum rjóma, hveitikökur (piroshki) með grænmetisfyllingu, kjúkling með fyllingu (kievskye kotleti), svo og vodka.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.

(Luba´s Bistro, 6 Yeoman´s Row, sími 589 2950, lokað sunnudaga, A4)

PÓLLAND:

Daquise

Við South Kensington brautarstöðina og söfnin miklu er pólski fulltrúinn, Daquise, einfalt veitingahús með ekta pólskum réttum og ekki síður ekta pólskum gestum. Uppi er kuldalegt, en í kjallaranum er heimilislegt og notalegt. Þar eru líka heimamennirnir í andrúmslofti gamallar viðarklæðningar.

Eins og í Luba´s prófuðum við hér rauðrófusúpu, einnig rauðkálssúpu í forrétti, í aðalrétti blóðpylsu með súrkáli og kartöflustöppu og fyllta hvítkálsböggla, litla og kjötmikla, og í eftirrétti miðevrópskar tertur.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.

(Daquise, 20 Thurloe Street, sími 589 6117, opið alla daga, A4/5)

ÍTALÍA:

Pulcinella

Nálægt South Kensington stöðinni eru tveir góðir, ítalskir staðir. Annar er Pulcinella í skartlegum kjallara.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.

(Pulcinella, 30 Old Brompton Road, sími 589 0529, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, A5)

ÍTALÍA:

Il Falconiere

Hinn ítalski staðurinn er il Falconiere. Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.

(il Falconiere, 84 Old Brompton Road, sími 589 2401, A5)

ENGLAND:

English House

Mitt á milli South Kensington stöðvarinnar og Sloane Street er English House, aðlaðandi, indælt, lítið “borgarhús”, eins og Bretar kalla þau. Matstofurnar eru nettar, með ljósakrónum, innrömmuðum blómum og silfurmunum, svo og silfurborðbúnaði, ákaflega þungum. Andrúmsloftið er átjándu aldar og gestirnir eru brezkt yfirstéttarfólk.

Sagnfræðingurinn og sjónvarpskokkurinn Michael Smith stofnaði þennan veitingastað til að bjóða enska hirð- og sveitamatreiðslu frá 18. öld. Hann ætti að vera kunnugur henni, þar sem hann hefur skrifað um hana bækur.
Við ferðuðumst með honum aftur í tímann og prófuðum í forrétti Stilton-ostasúpu með perubitum og hérakæfu með sagó og eplasultu, í aðalrétti dádýr með einiberjum og steikar-, nýrna- og sveppapæ og í eftirrétt karamellufroðu.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 55. Hádegismatseðill dagsins var á GBP 22 fyrir tvo.

(English House, 3 Milner Street, sími 584 3002, opið alla daga, B5)

INDLAND:

Ken Lo´s

Bezta Kínahús borgarinnar er Ken Lo´s Memories of India rétt hjá Viktoríustöð, smekklegur staður og einfaldur, vinsæll hjá fína fólkinu. Eigendurnir, Kenneth og Anne Lo, eru bæði í eldhúsinu, svo og kokkurinn Kam-Po. Á matseðlinum eru sýnishorn af margs konar matreiðslu frá ýmsum héruðum Kína. Ráðlegt er að panta sérstaka rétti með fyrirvara.

Við prófuðum lótusblaðavafinn kjúkling, gufusoðna þykkvalúru, fimm krydda froskalæri, gufusoðinn krækling í skelinni með heitri svartbaunasósu, hvítkálsvafið lambakjöt á teini, svo og hápunktinn, Pekingönd.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 50 og hádegisverðarseðill fyrir tvo var á GBP 25.

(Ken Lo´s Memories of China, 67 Ebury Street, sími 730 7734, lokað sunnudaga, C4/5)

SPÁNN:

Dulcinea

Nú víkur sögunni austur að Viktoríustöð. Í nágrenni hennar hefur Longinos Benavides komið upp eina frambærilega, spánska veitingahúsinu í borginni. Hann er frá Kastilíu og matreiðsla hans er sömu ættar. Mikil áherzla er lögð á fiskrétti. Veitingahúsið er snyrtilegt og þjónustan er afar þægileg.

Við fengum í forrétti kræklinga (mejillones) í rjómasósu og fiskisúpu árstíðarinnar, í aðalrétti skötusel (rape) í kastarholu og kálfakjöt (ternera) í ostasósu og í eftirrétti kraumísa.

Aðrir hafa mælt með kálfakjöti í tarragon, grænum pipar og appelsínusafa, hnetu- og sérrísúpu, svo og pælu. Spánski vínlistinn er langur og felur í sér ýmsar merkilegar flöskur, svo sem Vega Sicilia 1966 á GBP 29, en húsvínið kostaði GBP 5.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 28 og hádegisverðarseðill fyrir tvo var á GBP 16.

(Dulcinea, 29 Ebury Street, sími 730 4094, C4)

PORTÚGAL:

Os Arcos

Einnig við Viktoríustöðina er bezti fulltrúi Portúgals í London, Os Arcos, rómantísk fiskréttastofa í kjallara, hlaðin fjörugu andrúmslofti, þegar bekkurinn er þétt setinn. Það er eins og hér sé eilíft sumar.

Við prófuðum í forrétti saltfisksalat og skelfiskasúpu (sopa de marisco), í aðalrétti grillaða þykkvalúru (pregado) og grillaðar sardínur, í eftirrétti osta og ferska ávexti. Við slepptum hins vegar grilluðum saltfiski (bacalhau assado), sem aðrir hafa mælt með.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 28.

(Os Arcos, 44 Hugh Street, sími 828 1486, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, C5)

FRAKKLAND:

le Caprice

Áður en við ljúkum hnattferðinni, skulum við skreppa inn húsasund að baki Ritz hótels í St James´s hverfi. Þar er le Caprice, franskt veitingahús, sem hefur komizt í tízku á allra síðustu árum. Það er glæsilega innréttað í fúnkisstíl fyrirstríðsáranna, með speglum í súlum og veggjum, blómum á hverju borði og kampavínsfötu við hvert borð.

Caprice er rekið af þekktum veitingamönnum, Chris Corbin og Jeremy King. Staðurinn er fjörugur í viðskipta-hádegisverðum og kvöldverðum eftir leikhús. Þjónusta er góð og gott orð fer af bandaríska sunnudags-hádegisverðinum.

Við prófuðum krabbasúpu, grafinn lax og kálfalifur, kornhænu og spergilsalat, lambalundir með geitaosti og dádýrasteik með sterkri piparsósu.

Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 40.

(le Caprice, Arlington Street, sími 629 2239, lokað í hádegi laugardaga, D3)

ENGLAND:

Tate

Við ljúkum hnattferðinni í ensku veitingahúsi við bakka Thames-ár, syðst í Westminster hverfi. Það er matstofan í kjallara listaverksafnsins Tate Gallery (bls. 59), sem einkum er þekkt fyrir bezta vínlista borgarinnar og þar á ofan á lægra verði en tíðkast annars staðar. Það stafar af því, að safnstjórar eru jafnfærir um að kaupa vín og málverk á réttum tíma, áður en verðið hækkar upp til skýjanna.

Um leið er reynt að endurskapa gamla, enska matargerðarlist. Við prófuðum í forrétti smjörvaðan krabba og lax í potti, hvort tveggja samkvæmt uppskriftum á bakhlið matseðils, í aðalrétti stórsalat Joan, eiginkonu Cromwells ríkisstjóra, einnig samkvæmt uppskrift á bakhlið, svo og steikar-, nýrna- og sveppapæ, hinn enskasta af öllum enskum réttum, og loks í eftirrétti súkkulaðihúðaðar krembollur og krækiberjamarens. Með þessu fengum við Scharzhofberger 1982 á GBP 10 og hálfa af Chateau de Camensac á GBP 8.

Hádegisverður fyrir tvo kostaði GBP 35.

(Tate Gallery Restaurant, Millbank, sími 834 6754, lokað sunnudaga og öll kvöld, E5)

Ódýrar matstofur

Af framangreindum veitingastöðum eru þesir meðal hinna ódýrari í borginni: Anemos, Arirang, Chuen Cheng Ku, Daquise, Equatorial, Gallery Rendezvous, Gaylord, Hard Rock Cafe, Joe Allen, Last Days of the Raj, Luba´s, Maroush, New Shushan, Poons og Sidi Bou Said.

Vínbarir

Vilji ferðalangar í London fá sér létt snarl í hádegi eða að kvöldi í stað þess “að fara út að borða”, er skynsamlegt að heimsækja einn af mörgum vínbörum borgarinnar. Þar sem vínmenn eru næmari fyrir matarbragði en bjórmenn, eru þeir um leið kröfuharðari um matargerðarlist. Þess vegna er vínbarafæða jafn góð og ölstofufæða er vond. Auk þess fást á vínbörum góð vín við vægu verði, sum seld í glasatali.

Hér verður bent á nokkra vínbari, sem skara fram úr, hver í sínum borgarhluta. Ekki má heldur gleyma, að gestir þessara staða eru mun snyrtilegri, menningarlegri og ekki drukknir, gagnstætt því sem vill brenna við á kránum.

Olde Wine Shades

Við byrjum á sögufrægum vínbar frá 1663 í City, milli Monument og Cannon Street brautarstöðvarinnar (bls. 78), Olde Wine Shades. Þetta er eitt fárra húsa, sem stóðst brunann mikla árið 1666. Hið innra eru dimmir viðir og leynigöng úr veitingasal í kjallara.

Í hádeginu fylla húsið bankamenn, sem snæða góðar kæfur og kjötsneiðar með sérstaklega góðum vínum og púrti, sem hvorttveggja fæst bæði glasavís og flöskuvís.

(Olde Wine Shades, 6 Martin Lane, lokað laugardaga og sunnudaga, J2)

Mother Bunch´s

Undir járnbrautarteinunum við Ludgate Circus við enda Fleet Street er Mother Bunch´s, stór, en notalegur vínbar, fjölsetinn blaðamönnum. Viður er í þiljum og gólfi. Skemmtilegir lampar eru á veggjum og sag á gólfi.
Hér fæst gott, kalt borð í hádeginu, ágætt vín og púrt.

(Mother Bunch´s, Old Seacoal Lane, lokað sunnudaga, H1)

El Vino

Gamall og frægur vínbar við Fleet Street er el Vino, þéttskipaður lögfræðingum og blaðamönnum. Fremst er þungur bar frá Viktoríutíma, þar sem karlmenn mega einir vera og þá með hálsbindi. Konur verða að sitja í leðurstólum í bakherberginu eða í veitingasalnum niðri.

Samlokurnar eru góðar og vínin eru góð og fjölbreytt, einkum púrtið.

(el Vino, 47 Fleet Street, lokað laugardagskvöld og sunnudaga, G1)

Cork & Bottle

Á mjög góðum stað á mótum Soho og Covent Garden-hverfa, með leikhús og bíó á báðar hendur, er Cork & Bottle, einn bezti vínbar borgarinnar. Þar ráða ríkjum nýsjálenzku hjónin Jean og Don Hewitson. Inngangurinn er lítt áberandi og gengið er þröngan hringstiga niður í kjallara. Samt er ætíð þröng á þingi, gestir glaðir og þjónusta snögg.

Hér fást vel matreiddir sjávarréttir, salöt, kæfur, ostar, réttir dagsins og búðingar. Af um 120 ágætum vínum eru 20 seld í glasatali. Næstum helmingur er á innan við GBP 7 flaskan.

(Cork & Bottle, 44 Cranbourn Street, E2)

Shampers

Vel í sveit sett rétt austan við Regent Street er Shampers, sem býður nokkurn veginn sama vínlista og Cork & Bottle, en úrvalið er meira. Á jarðhæð er bar og niðri er veitingasalur með heitum réttum.
Kaldir réttir eru góðir, salöt, ostar og pylsur.

(Shampers, 4 Kingly Street, lokað sunnudaga og laugardagskvöld, D2)

Downs

Syðst í Mayfair er hinn glæsilegi vínbar Downs, þar sem veitt er þjónusta til borðs. Viðskiptavinir í hádeginu eru ungt fólk úr fyrirtækjunum í kring. Á kvöldin kemur fólk hingað út að snæða við frátekin borð.
Hér fást heitir réttir, svo sem steikur og karrí, svo og glæsileg salöt og góðir ostar. Á vínlistanum eru yfir hundrað tegundir, þar af 25 í glasavís.

(Downs, 5 Down Street, sími 493 9660, C3)

Loose Box

Frá Brompton Road er unnt að fara bakdyramegin inn á Loose Box. Aðalbarinn er á jarðhæðinni og veitingastofa er uppi. Á barnum eru reiðtygi til skrauts. Þjónustan er vingjarnleg og persónuleg.

Gott er að borða hér salöt, kalt kjöt, osta, pæ, buff og búðinga. Um fimmtíu víntegundir fást, þar af um 15 í glasatali.

(Loose Box, 7 Cheval Place, A/B4)

Bill Bentley´s

Í fallegu húsi frá Georgstíma í verzlunargötunni Beauchamp Place út frá Brompton Road er Bill Bentley´s með vínbar á jarðhæðinni, ostrubar í kjallara og veitingasal á efri hæð.

Sjávarréttir eru hér góðir, svo og enskir ostar. Vín og púrt er mjög gott og fæst sumt í glasavís.

(Bill Bentley´s, 31 Beauchamp Place, lokað sunnudaga, B4)

Charco´s

Í hjarta Chelsea, rétt við King´s Road, er Charco´s, rólegur og indæll staður góðrar matreiðslu. Hér fást lystileg salöt og nokkrir heitir réttir. Úrval léttra vína er töluvert og þá ekki síður púrtvína.

(Charco´s, 1 Bray Place, lokað sunnudaga, B1)

Ebury

Við Viktoríustöð er hinn gamalgróni Ebury, einn af beztu vínbörum borgarinnar, þétt setinn kaupsýslumönnum í hádeginu. Hér fást góð salöt, grillréttir, enskir búðingar, ostar, svo og réttir dagsins. Vínin eru um fimmtíu, þar af um tíu í glasatali.

(Ebury, 139 Ebury Street, C1)

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson

London verzlun

Ferðir

Liðin er sú tíð, er London var ein hagstæðasta verzlunarborg Evrópu. En hún er enn ein hin skemmtilegasta. Einkum eru það sérverzlanirnar, sem gera garðinn frægan, sumar frá fyrri öld eða öldum. Ef við tökum forngripaverzlanirnar sem dæmi, þá eru á því sviði ótölulega margir flokkar sérverzlana í ákveðnum tímabilum ákveðinna tegunda og ákveðinna landa.

Leiðsögnin um verzlanir í London verður í höfuðdráttum í formi gönguferðar um St James´s hverfi og austurhluta Mayfair hverfis. Í leiðinni verður bent á ýmsar sögufrægar verzlanir, þótt fleira megi skoða en þær einar.

Ef sumum lesendum finnst karlmönnum gert hærra undir höfði en konum, er það til afsökunar, að karlmannabúðir í London eru sumar gamlar og rótgrónar, en kvennabúðir hins vegar nýlegar og innfluttar frá París eða Róm.

Óþarfi er að leiðbeina lesendum sérstaklega til vöruhúsanna miklu við Oxford Street og Regent Street, þar sem menn reyna að finna hið fáa, sem ekki fæst heima á Íslandi. Hins vegar er gaman að glugga í frægar og dýrar búðir, ekki beinlínis til að verzla, heldur til að skoða þær eins og aðra merkisstaði borgarinnar. Og kaupsýslan í London er ekki síður merkileg en gamlar kirkjur, söfn og myndastyttur.

1. gönguferð:

Við hefjum gönguferðina við St James´s höll, á horni Pall Mall og St James´s Street (D3).

Hardy

Pall Mall megin við hornið, á nr. 61, er Hardy, ein frægasta sportveiðiverzlun heims. Þar fást dýrustu veiðihjól í heimi, auðvitað sérsmíðuð fyrir verzlunina eins og annað, er þar fæst, svo sem stengur úr trefjagleri og kolefnisþráðum.

Nálægt hinum enda Pall Mall, rétt við Haymarket, er hin fræga sportveiðibúðin, Farlow, á nr. 56, sem hefur það fram yfir að vera konungleg hirðverzlun á þessu sviði.

Berry Brothers

Handan hornsins, á St James´s Street nr. 3, er Berry Brothers & Rudd, elzta vínbúð í London, frá átjándu öld. Innréttingar eru forgamlar og gólfinu hallar til allra átta.
Fræg er vogin, sem mælir þyngd þekktra viðskiptavina. Tvennt annað er merkilegt við verzlunina, að vínið er allt á lager í kjallaranum og að það er ódýrara en í flestum vínbúðum borgarinnar. Síðast kostaði Chateau Langloa-Barton 1971 ekki nema GBP 15 og Kiedricher Sandgrub 1976 ekki nema GBP 9.

James Lock

Nánast við hliðina, á nr. 6, er hattabúðin James Lock, frá 1765. Þar er frammi forgamalt áhald, sem minnir á gamla ritvél, notað til að máta höfuðlag og -stærð viðskiptavina. Eftir mælingu er hæfilegur hattur hitaður og síðan mótaður í form, sem fellur að viðskiptavininum. Á þessum stað var hannaður fyrsti harðkúluhattur í heimi. En nútildags eru einnig seldir sixpensarar. Í búðinni er fágætt safn gamalla höfuðfata.

John Lobb

Nokkrum skrefum ofar við St James´s Street, á nr. 9, er John Lobb, sem hefur áratugum saman skóað brezku konungsfjölskylduna. Í búðarholunni er indæl leðurlykt og skóarar eru sýnilegir við vinnuna. Gert er trémót af fótum viðskiptavina og síðan eru skórnir auðvitað handunnir. Það kostar minnst GBP 150 á parið og tekur sex mánuði. En skórnir eiga líka að endast í áratug með réttu viðhaldi.

Christie´s

Hér beygjum við til hægri inn King Street. Þar á nr. 8 er annað af tveimur heimsþekktum uppboðsfyrirtækjum í London, Christie´s. Á mánudögum eru yfirleitt seldir leirmunir og postulín, á þriðjudögum teikningar, mynt, gler og forngripir, á miðvikudögum skartgripir, bækur og vopn, á fimmtudögum húsmunir og vín og á föstudögum málverk. Uppboðin byrja yfirleitt kl. 11. Munirnir eru oftast til sýnis í tvo daga á undan.

Turnbull & Asser

Við snúum til baka og förum til hægri Bury Street upp að Jermyn Street, sem er aðalgata karlabúða í borginni. Þar á horninu er vinstra megin Turnbull & Asser á nr. 71 og hægra megin Hilditch & Key, báðar skyrtubúðir, hin síðarnefnda einnig fyrir konur. Turnbull & Asser selur bæði tilbúnar og sérskornar skyrtur, sem þá þarf að bíða eftir í sex vikur. Búðin tollir vel í tízkunni, þótt hún sé síðan 1885. Bæði þjónusta og verð er uppi í skýjunum.

Floris

Við göngum austur Jermyn Street og komum fljótlega að Floris á nr. 89, hægra megin götunnar. Það er meira en 250 ára gömul ilmvatnabúð frá 1730. Allir hafa efni á að kaupa hér baðsalt til að nota tækifærið til að svipast um í einni frægustu ilmvatnabúð heims. Mundu, að Chanel og aðrir frá París eru bara nýgræðingar frá 19. og 20. öld. Þetta er notaleg og auðvitað sérstaklega ilmþrungin verzlun.

Paxton & Whitfield

Aðeins fjær og sömu megin götunnar, á nr. 93, er Paxton & Whitfield, frægasta og skemmtilegasta ostabúð borgarinnar, starfrækt frá lokum átjándu aldar. Hér fást beztu brezku ostarnir, bæði stilton og cheddar, auk 300 annarra tegunda úr öllum heimshornum. Þeir selja ostinn bæði í stórum skömmtum og litlum sneiðum. Viðskiptavinir eru hvattir til að smakka. Ef þeir eiga ekki umbeðinn ost, útvega þeir hann innan tíu daga.

Hatchards

Við förum nú yfir götuna og göngum stuttan spöl til baka, unz við komum að sundinu Princess Arcade, sem liggur út á Piccadilly. Þetta er eitt af mörgum göngusundum smáverzlana í borginni. Úti á Piccadilly beygjum við til vinstri og komum strax, á nr. 187, að Hatchards, elztu bókabúð borgarinnar, á þessum stað frá 1767. Hér eru yfir 350 þúsund bókatitlar á fjórum hæðum. Andrúmsloftið er einkar notalegt fyrir bókaorma, sem hafa nógan tíma.

Fortnum & Mason

Við höldum áfram nokkur skref suðvestur Piccadilly og staðnæmumst við Fortnum & Mason á nr. 181. Það er hin hefðbundna sælkerabúð borgarinnar og matvöruverzlun drottningarinnar. Sérgrein staðarins er alls konar niðurlagður og -soðinn matur í krukkum og dósum, þar á meðal ótal sultur. Í rauninni stenzt verzlunin engan samjöfnuð við Harrods, en er heimsóknar virði, af því að andrúmsloftið er óviðjafnanlegt í þessari verzlun frá átjándu öld, þar sem afgreiðslumenn klæðast enn kjólfötum. Á efri hæð er annar varningur en matur.

Burlington Arcade

Áfram liggur leiðin eftir Piccadilly. Við lítum aðeins inn í Piccadilly Arcade, fallegt verzlanasund, sem liggur eins og Princess Arcade yfir til Jermyn Street. Síðan förum við yfir Piccadilly, þar sem nokkurn veginn andspænis er Burlington Arcade, fegursta og frægasta búðasund borgarinnar, frá 1815-19. Hugsaðu þér bara, ef Laugavegurinn liti svona út. Hér er mikill fjöldi þekktra smáverzlana í einstaklega notalegu og furðanlega rólegu umhverfi. Ekki dugir okkur minna en að ganga sundið fram og til baka.

Charbonnel et Walker

Komin úr Burlington Arcade göngum við enn nokkur skref suðvestur Piccadilly. Þar komum við að Old Bond Street og beygjum til hægri. Hérna megin götunnar á nr. 7 er diskó-klúbburinn Embassy (bls. 55). Aðeins lengra hinum megin, á nr. 28, er ein þekktasta konfektbúðin í borginni, Charbonnel et Walker, þar sem viðskiptavinir geta látið setja fangamark sitt á konfektmolana. Við verzlunina er enn eitt búðasundið, Royal Arcade.

Truefitt & Hill

Næstum því andspænis, handan götunnar, á nr. 23, er frægasti hárskeri borgarinnar, Truefitt & Hill. Meðal viðskiptavina er hertoginn af Edinborg og prinsinn af Wales, auk hálfrar lávarðadeildarinnar. Um leið er þetta elzti hárskerinn. Hér fæst góð klipping á verði, sem er eins og gerist og gengur.

Asprey

Nú skiptir gatan um nafn og heitir hér eftir New Bond Street. Hinum megin hennar komum við brátt, á nr. 167, að Asprey, einum þekktasta gullsmið borgarinnar, með mörgum vænum gluggum út að götu. Og auðvitað er hann konunglegur hirðgullsmiður.

Holland & Holland

Áfram höldum við norður New Bond Street og tökum smákrók inn í Bruton Street, þar sem byssusmiðirnir Holland & Holland eru á nr. 33. Þar getum við, eins og hertoginn af Edinborg, fengið afar dýrar veiðibyssur með hálfs fjórða árs afgreiðslufresti. Um leið getum við litið yfir götuna og virt fyrir okkur, hversu mjög hin gamla krá Coach & Horses stingur í stúf við sviplaus nútímahúsin.

Wildenstein

Aftur förum við til New Bond Street og göngum hana áfram til norðurs. Hérna megin götunnar, rétt við hornið, á nr. 147, er einn allra frægasti fornmálverkasali heimsins, Wildenstein, sem veltir frægum nöfnum fyrir háar summur. Andspænis, á nr. 26, er Tessiers, ein elzta og þekktasta verzlun fornra gull- og silfurmuna.
Áhugafólki um forngripi skal bent á, að heila bók af þessari stærð mætti skrifa um einar sér hinar frægu forngripasölur í London.

Sotheby´s

Hér aðeins ofar, hægra megin götunnar, á nr. 35, er Sotheby´s, annar af tveimur heimsfrægum uppboðshöldurum borgarinnar. Þessi er raunar eldri og stærri, heldur yfir 500 uppboð á ári og hélt uppboð á geirfuglinum og Flateyjarbók. Munirnir eru til sýnis í eina viku fyrir uppboð og sýningarskrár eru til mánuði fyrir þau. Mánudaga eru boðnar upp bækur, smávörur og gler, þriðjudaga bækur og postulín, miðvikudaga málverk, fimmtudaga silfur og skartgripir, föstudaga húsgögn og listmunir.

Smythson

Nú fer að fækka hinum gamalgrónu bezku verzlunum við götuna og að fjölga hinum alþjóðlegu, sem eru útibú frá París og Róm. Við erum senn komin að Grosvenor Street, þvergötu til vinstri, þar sem hundrað metrar eru að skrifstofu Flugleiða á nr. 73. Ef við hins vegar höldum New Bond Street áfram til norðurs, komum við strax að pappírsvörubúðinni Smythson hægra megin götunnar, á nr. 54. Þessi verzlun drottningarinnar sérhæfir sig í furðulegu og hugmyndaríku bréfsefni og jólakortum. Þar má finna marga skemmtilega gjafavöru.

Molton Brown

Við beygjum næst til vinstri vestur Brook Street og síðan til hægri norður South Molton Street, fjörlega göngugötu með smáverzlunum og útikaffihúsum. Á nr. 58, hægra megin götunnar, verður fyrir okkur hárgreiðslustofan Molton Brown, ein mesta tízkustofa borgarinnar, innréttuð í aldamótastíl.

Higgins

Aðeins lengra, sömu megin, á nr. 42, er Higgins, ein fremsta kaffibúðin í borginni, geislandi af kopar og angandi af baunum frá öllum heimshornum, þar á meðal frá eigin ökrum í hlíðum Kilimanjaro. Hér fást yfirleitt um 30 tegundir í andrúmslofti fyrri tíma. Gaman er að skoða vogirnar miklu.

Prestat

Nokkurn veginn við hliðina, á nr. 40, er kunnasta konfektgerð borgarinnar, Prestat. Þar á staðnum er konfekt handunnið og selt ferskt yfir fornlegan diskinn. Upprunalega var búðin í París, en flutti hingað upp úr aldamótum. Án efa er þetta borgarinnar bezta konfekt, einkum “truffles”-kúlur og kirsuberjabrandí.

Marks & Spencer

Nú erum við komin út að Oxford Street og gætum sagt amen eftir efninu, því að allur þorri skemmtilegu búðanna er að baki, en alvara stóru vöruhúsanna tekur við. Hinir áhugasömustu geta þó fylgt okkur seinni hluta búðarápsins og munað að skoða fleira en hér er skýrt frá.
Fyrst förum við vestur Oxford Street sunnanvert, unz við komum að fjarlægari enda stórhýsis Selfridges, sem er handan götunnar. Þar förum við yfir götuna og inn í Marks & Spencer, á nr. 458. Þetta er höfuðverzlun keðjunnar, eitt bezta vöruhúsið vegna góðs samhengis vandaðrar vöru og lágs verðs. Hér eru sagðir gripnir 30 þjófar að meðaltali á dag.

Selfridges

Við göngum nú nyrðri gangstétt Oxford Street til baka. Fyrst lítum við inn í Selfridges, hið risastóra og trausta vöruhús, sem oft reynist hafa betra úrval á boðstólum en hið fræga Harrods. En það er dagsverk að skoða verzlunina, svo að við verðum eiginlega að gera okkur sérstaka ferð til þess.

Top Shop

Meðan við röltum austur að Oxford Circus, lítum við í gluggana. Á horninu hinum megin Oxford Circus norðanverðs, er Top Shop í kjallara vöruhúss Peter Robinson. Þar er eitt stærsta tízkugólf Evrópu. Fjölmörg kunn tízkuhús hafa þar skot út af fyrir sig. Hér er gott að máta nýjustu tízkuna, sem fæst á viðráðanlegu verði.

Liberty

Nú höldum við suður austurhlið Regent Street og höldum áfram að líta í glugga. Brátt komum við að Liberty, frábæru vöruhúsi í dýrari verðflokki en þau, sem við sáum við Oxford Street. Liberty er á nr. 210 við Regent Street, en snýr fallegu bindingsverki út að Great Marlborough Street. Sá hluti er smíðaður úr viðum tveggja síðustu tréherskipa flotans árið 1924. Hér inni fást afar fræg, áprentuð baðmullarefni og austurlandateppi, fínt silki og húsbúnaður. Allt er til frá forngripum til hátízku.

Galt

Bak við Liberty, á horni Great Marlborough Street og Carnaby Street, er Galt, sérhæfð verzlun í uppeldisleikföngum, sem mörg eru beinlínis framleidd fyrir búðina. Tré er mikið notað í aðlaðandi leikföngin. Þetta er kjörin gjafabúð foreldra, sem vilja vanda til leikfanga barna sinna.

Hamley´s

Við látum Carnaby Street og túristana þar eiga sig, því tími þeirrar götu er löngu liðinn, sællar minningar. Þess í stað hverfum við til baka til Regent Street og beygjum þar til suðurs framhjá Liberty að Hamley´s á nr. 200. Það er hrikalegasta leikfangaverzlun heims.

Huntsman

Hér förum við beint yfir Regent Street og inn Conduit Street og beygjum svo til vinstri í Savile Row, aðsetur flestra frægustu klæðskera Bretaveldis. Hátindurinn er Huntsman á nr. 11, klæðskeri konunga og lávarða. Um 1800 var búðinni breytt úr hanzkabúð í reiðfatabúð, sem síðan þróaðist yfir í almennan klæðaskurð. Sérgrein Huntsman er þó enn sportklæðnaður. Þarna er saumað hvað sem er á karla og konur, meira að segja úr denim. En við megum búast við tólf vikna afgreiðslufresti og GBP 400 lágmarksgreiðslu fyrir föt, sem eiga að endast í aldarfjórðung, ef línurnar eru passaðar.

Slater & Cooke, Bisney & Jones

Við enda Savile Row beygjum við til vinstri Vigo Street, förum yfir Regent Street og beint inn í Brewer Street. Þar á nr. 67 er kjötbúðin með þessu langa nafni. Hún er frá 1860 og er enn ein fallegasta kjötverzlun borgarinnar. Sérhver kjöttegund er út af fyrir sig og uppstillingar eru einkar hvetjandi fyrir bragðlaukana. Því er gott að ljúka hér búðarápinu í Soho og bregða okkur inn í eitthvert veitingahúsið í nágrenninu (Bls. 32-33) (D2).

Foyle

Nokkrar verzlanir í viðbót eru skoðunar virði, þótt þær hafi ekki rúmast á undangenginni gönguferð okkar um St James´s og austanvert Mayfair hverfi. Ein er Foyle, 119-125 Charing Cross Road, stærsta bókabúð í London, með fjórar milljónir binda. Hún hefur reynzt okkur öruggari en margar sérhæfðu bókabúðirnar. Bezt er að spyrja strax til vegar á jarðhæðinni, svo að síður sé hætta á að ráfa í villu á efri hæðum. (E1)

Í hliðargötum Charing Cross Road austanverðs eru margar góðar fornbókaverzlanir, þar sem dveljast má löngum stundum.

Purdey

Í South Audley Street í Mayfair, á nr. 57, er byssusali drottningarinnar, Purdey. Þar er rétti staðurinn til að kaupa skotvopn til refaveiða, ef við höfum GBP 30.000 aflögu og megum vera að því að bíða í tvö ár. Ef við förum á hausinn af þessu, er hægt að selja byssuna aftur með gróða, því að eftirspurnin er svo mikil. Hver byssa er gerð eftir málum kaupandans og aðeins eru smíðaðar um hundrað á ári. (C2)

Whittard

Hin hefðbundna teverzlun heimsborgarinnar er Whittard við 11 Fulham Road í nágrenni South Kensington stöðvar. Þar fást rúmlega fimmtíu tegundir af te, fyrir utan ýmsar blöndur og fjölmörg jurtaseyði. Hér er siðmenningin varðveitt eftir innreið tes í pokum. (A5)

General Trading

Við Sloane Street nr. 144 er bezta gjafavörubúð borgarinnar, General Trading. Þessi verzlun sérhæfir sig í vörum, sem hægt er að gefa þeim, er eiga allt fyrir. (B5)

Harrods

Hér er rúsínan í pylsuendanum, hin sögufræga Harrods við Brompton Road. Ekki samt vegna þess, að allt fáist þar, jafnvel lifandi fílar, svo sem logið er að ykkur í öðrum leiðsögubókum, er éta upp hver eftir annarri. Úrvalið hér er minna en í Selfridges. Og þrisvar í röð höfum við orðið að snúa okkur annað, af því að varan fékkst ekki í Harrods.

En það sem er stórkostlegt hér, er matardeildin á jarðhæðinni. Hún er miklu betri en Fortnum & Mason og slagar upp í beztu sælkerabúðir Parísar. Ekki skaðar, að kjötdeildin lítur út eins og dómkirkja. Þar er m.a. hægt að fá margar tegundir af ekta kavíar og ferska gæsalifur til að hafa eitthvað með kampavíninu í morgunmatinn! (B4)

Önnur verzlun

Í nágrenni Harrods er gott verzlanahverfi (B4) við Brompton Road, Knightsbridge, nyrðri enda Sloane Street og Beauchamp Place, sem er skemmtileg hliðargata frá Brompton Road. Annað gott verzlanahverfi er við King´s Road (B5), frá Sloane Square til suðvesturs, en það hefur ekki lengur sama stíl og á sjöunda áratugnum, þegar King´s Road var bezta tízkuverzlanagata borgarinnar. Hverfið, sem nú er helzt á uppleið, er Covent Garden (F2), af því að endurreisn markaðarins hefur dælt nýju blóði í alla verzlun hverfisins í kring. Þar leitum við að spennandi búðum.

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson

New York gisting

Ferðir

Hótel á Manhattan eru ákaflega dýr, einkum af því að fasteignir eru þar stjarnfræðilega dýrar. Leitun er að góðum hótelum, sem hafa á leigu herbergi fyrir tvo á minna en USD 100, að sköttum meðtöldum, en við höfum þó með leit komizt niður í USD 72 fyrir sómasamlegt herbergi. Mörg hótelanna bjóða ódýrari helgargistingu.

Athugið, að í þessari bók sýna öll verð heildarkostnað, að inniföldum söluskatti, borgarskatti og gistigjaldi, samtals 13,25% plús USD 2, en flugfélög og ferðaskrifstofur gefa yfirleitt upp verð án þessara gjalda.

Við miðum aðeins við herbergi með baði, sjónvarpi og loftkælingu. Við tölum líka eingöngu um hótel á miðju og sunnanverðu Manhattan, því að aðeins þar er hinn margumtalaði nafli alheimsins.

Þetta eru allt saman stór hótel, með 100 herbergi eða miklu fleiri. Hin notalegu smáhótel með fullkomnum búnaði og baði á lágu verði, sem víðast hvar er hægt að finna í Evrópu, eru ekki til í New York.

Hins vegar er allt yfirleitt í lagi á herbergjunum og einkum þó í baðherbergjum, því að pípulagnir eru yfirleitt ágætar og hin hreinu handklæði eru tiltölulega víðáttumikil.

Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynzt okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, flest frá USD 138 upp í USD 166 á verðlagi vetrarins 1986-1987, en nokkur ódýrari eða dýrari. Öll verð eru að öllum sköttum meðtöldum, en morgunverði frátöldum, enda er venjulega lítið varið í bandarískan hótelmorgunverð.

Öll eru þau því miður nema eitt í miðbæ hótela, verzlana og leikhúsa á Manhattan. Við reyndum að finna nothæf hótel nær niðurbænum á Manhattan, í Greenwich Village, East Village, Soho, Tribeca, Little Italy, Loiasada, Chinatown og Financial District, en fundum ekki nema eitt, rétt við Wall Street.

Gorham

“Okkar hótel” í New York er miðbæjarhótelið Gorham. Það er sérstaklega skemmtilega sett að baki Museum of Modern Art, með leikhús-, spillingar- og tónlistarhverfið á aðra hönd og verzlunarhverfið á hina. Þaðan er auðveldlega og snögglega gangfært til allra forvitnilegra staða í miðbænum. Carnegie Hall og City Center Theater eru næstu nágrannar og skammt er til Times Square og Lincoln Center.

Móttakan er ekki mikil um sig, enda er hótelið blessunarlega lítið, 116 herbergja. Þar á ofan er starfsfólkið þægilegt og var ekki lengi að koma okkur upp á herbergi. Vistarverur eru allar stórar, vel búnar að þægindum og tækni, þar á meðal eldunarkróki og fataherbergi.

Herbergi nr. 1504 snýr út að götunni, afar rúmgott, notalegt og þægilegt, með tveimur tvíbreiðum rúmum og vönduðum innréttingum. Það er alls ekki hávaðasamt, þótt það snúi út að götunni, enda á 15. hæð. Annars er 55. gata fremur róleg.

Verðið var USD 110, að sköttum meðtöldum eins og annars staðar í þessum kafla.

(Gorham, 136 West 55th Street, milli 6th og 7th Avenue, sími 245 1800, F2)

Wellington

Annað uppáhaldshótel í New York er Wellington, eitt hinna allra ódýrustu í þessari bók og vel þegið, þegar pyngjan er létt. Það er vel í sveit sett í miðbænum, einkum fyrir áhugafólk um leikhús, því að það er aðeins steinsnar frá Broadway, á mótum 7th Avenue og 55th Street. Það er raunar aðeins nokkra tugi metra frá áðurnefndu hóteli, Gorham.

Starfsfólkið er þægilegt og öllum húsakynnum er vel við haldið, þótt hótelið sé gamalt, raunar notalega gamalt. Herbergin eru fremur lítil, en hreinleg og með öllum hlutum í lagi, þar á meðal baði og sturtu, sjónvarpi og loftkælingu.

Herbergi nr. 1935 er ekki stórt, en sómasamlega búið að öllu leyti, með tiltölulega einföldum og algerlega óþreyttum innréttingum.

Verðið var USD 91. Flugleiðafarþegar fá sérstakt verð, sem gerir hótelið einkar girnilegt, USD 72. Eitt núll fyrir Flugleiðir, — raunar tilboð, sem ekki er hægt að hafna.

(Wellington, 7th Avenue og 55th Street, sími 247 3900, F2)

Wyndham

Þriðja vildarhótel okkar er Wyndham, á nákvæmlega sömu slóðum, þó örlitlu nær verzluninni og örlitlu fjær leikhúsunum, án þess þó að slíkar fjarlægðir skipti máli á þessum óskastað, steinsnar frá Central Park.

Það hefur virðulegan móttökusal og ágæta þjónustu, utan þess að ekki er boðin herbergisþjónusta. Þekktir leikarar og söngvarar hafa þar samastað og eru ánægðir með að vera heima hjá John og Suzanne Mados.

Herbergi nr. 205 var sérstaklega heimilislegt í bandarískum dúr, hlaðið veggfóðri og gluggatjöldum, auðvitað með eldunarkróki, fataherbergi og óvenju vistlegu anddyri.

Tveggja manna herbergi kostaði USD 126.

(Wyndham, 42 West 58 Street, milli 5th og 6th Avenue, sími 753 3500, F3)

Algonquin

Algonquin er að ýmsu leyti sérstætt hótel. Í fyrsta lagi er það sunnarlega í miðbænum, mitt á milli Grand Central Station og Times Square og því hentugt þeim, sem eiga erindi á þeim slóðum eða stunda leikhúsin. Fyrir leikhúsfólk er það bezt setta hótelið í þessari bók.

Þá er Algonquin mesta menntahótelið. Það er hefðbundinn áningarstaður rithöfunda og bókaútgefenda, kvikmyndamanna og leikhúsfólks. Hótelið dregur dám af gestum sínum, skór eru burstaðir og ekki gerð krafa til brottfarartíma fyrr en kl.15.

Eikarklætt anddyri, bar og veitingasalur eru sögufrægir funda- og samningastaðir um handrit, en maturinn þar er sagður einn hinn versti í bænum.

Herbergin á Algonquin eru misjöfn að stærð, en yfirleitt sómasamlega búin og með öllu vel virku í baðherbergjum. Herbergi nr. 500 er fremur lítið eins manns herbergi, en þægilega búið hæfilega gamaldags húsgögnum.

Tveggja manna herbergi, mun stærri og notalegri, kostuðu USD 138 og 147.

(Algonquin, 59 West 44th Street, milli 5th og 6th Avenue, sími 840 6800, E3)

Vista

Annað hótel með sérstöðu er Vista í World Trade Center. Sérstaða þess felst í að vera í niðurbænum, í Financial District, steinsnar frá Wall Street. Það er kjörin vistarvera þeirra, sem eiga erindi í banka- og fjármálaheiminn. Einnig liggur það betur en önnur hótel við lista- og menningarhverfunum Tribeca, SoHo og jafnvel evrópska hverfinu Greenwich Village, svo og Chinatown og Little Italy.

Vista er afar nýtízkulegt hótel með beztu eiginleika Hilton-keðjunnar. Þar hefur greiðslukortakerfið náð fullkomnun. Kortið er stimplað inn við komu, reikningurinn kemur undir herbergishurðina um nóttina. Þú kvittar fyrir og hendir honum í lyklagatið niðri í anddyri. Engin biðröð, ekkert vesen. Þetta kerfi sáum við fyrst á Vista.

Ýmsir fleiri kostir eru við Vista. Það hefur skokkbraut, sundlaug og líkamsræktarstöð. Einnig er þar ágætt veitingahús, American Harvest. Þá er innangengt í aðra turna í World Trade Center, þar með í útsýnið úr veitingasölum Windows on the World.

Herbergi nr. 1240 er afar bjart, nýtízkulegt og vel búið húsgögnum og baðtækjum, með góðu útsýni yfir World Trade Center Plaza og til skýjakljúfa niðurbæjarins, fallegra í sólarupprás og sólarlagi. Önnur herbergi hafa útsýni yfir Battery Park City og Hudson-fljót.

Verðið var mjög hátt, USD 245, virka daga, en þolanlegra, USD 158, um helgar, þegar Wall Street er lokað, en listsýningarsalirnir í Soho á fullu.

(Vista, 3 World Trade Center og West Street, sími 938 9100, telex 668 840, A4)

Intercontinental

Bezta hótelið í New York er hið gamla og afar evrópska Barclay, sem nú heitir Intercontinental. Það er austarlega í miðbænum, vel í sveit sett gagnvart Sameinuðu þjóðunum og verzlunum, en nokkru lengra frá leikhúshverfinu, sem er vestast í miðbænum.

Anddyrið er hið glæsilegasta, sem völ er á í bænum, prýtt stóru fuglabúri í miðjunni. Allur húsbúnaður þar niðri sem uppi á herbergjum er í gömlum stíl. Þjónusta er hin bezta á öllum sviðum og þekkir engin vandamál. Til dæmis er útvegun leikhúsmiða fullkomin.

Herbergi nr. 537 er sérstaklega hlýlega og glæsilega búið húsgögnum, svo og fullkominni tækni í baðherbergi, sérstaklega sturtutækni, svo og mörgum stórum handklæðum. Herbergið er hljóðlátt, þótt það snúi gluggum til tveggja umferðargatna. New York Times kom sjálfkrafa undir hurðina um nóttina.

Tveggja manna herbergi kostaði USD 262 og er hið næstdýrasta í þessari bók.

(Intercontinental, 111 East 48th Street og Lexington Avenue, sími 755 5900, telex 710 581 6535, E3/4)

Pierre

Fínasta, en ekki bezta hótelið í New York, er Pierre, sem er austan við suðurenda Central Park. Þar gista kóngar og forsetar, enda eru á hverju strái þjónar, sem snúast mest hver í kringum annan. Niðri eru mikil salarkynni í samræmdum, fornum stíl, en ekki í sama mæli notalegum. Hverri lyftu stjórnar sérstakur lyftuvörður, sem reynir með erfiðismunum að hitta á rétta hæð og tekst oft.

Sérkenni Pierre er, að það er rólegt. Aldrei virðist neitt um að vera. Við og við sigla smoking-herrar og síðkjóladömur yfir þykk og græn teppin út í lengdar límúsínur með einkabílstjórum. Farangur sést aldrei í anddyrinu, enda væri hann ekki í samræmi við stíl staðarins. Sennilega þarf fólk að hafa erft auð sinn til að njóta sín til fulls á Pierre.

Herbergi nr. 829 er ekki stórt, en einkar notalegt og stílhreint. Baðherbergið er klætt marmara og búið baðsloppum, mörgum stórum handklæðum, hárþurrku, réttri baðvog og ýmsum vessum í flöskum.

Verðið var USD 277, hið hæsta í þessari bók. Herbergi, sem sneri út að Central Park, hefði kostað USD 398 eða 512!

(Pierre, 5th Avenue og 61st Street, sími 838 8000, telex 127 426, G3)

Dorset

Eitt fínu hótelanna á Manhattan hefur þann kost að vera lítið. Það er Dorset, sem er beint að baki Museum of Modern Art í miðjum miðbænum. Það er gamaldags og evrópskt, en fallega uppgert, rólegt og hljóðlátt hótel fyrir fasta viðskiptavini.

Þjónusta er örugg, snögg og vingjarnleg. New York Times liggur við herbergisdyr að morgni. Herbergin eru afar mismunandi að lögun og stærð, svo að myndin, sem fylgir með, kann að vera villandi.

Herbergi nr. 822 er afar hljóðlátt, þótt það snúi út að 44. götu, enda er hún fremur róleg. Það er mjög notalega búið gamaldags húsbúnaði, sem hafði nýlega verið endurnýjaður, þar á meðal tveimur breiðum rúmum. Því fylgdi eldunarkrókur og vandað baðherbergi, svo og feiknarlegt skápapláss frá þeim tíma, er fólk ferðaðist um með koffort, en ekki axlatöskur.

Verðið nam USD 206. Hvorki Visa né Eurocard eru tekin gild.

(Dorset, 30 West 54th Street, milli 5th og 6th Avenue, sími 247 7300, F3)

St. Moritz

Útsýnið, sem menn hafa ekki efni á að kaupa á Pierre, geta þeir fengið fyrir lægra verð á St. Moritz, sem er við suðurenda Central Park, afar vel í sveit sett. Þetta er gamalt hótel og sumpart dálítið þreytulegt, en eigi að síður óaðfinnanlega snyrtilegt og með góðum pípulögnum.

St. Moritz er raunar einna evrópskast þessara hótela, mikið sótt af kaupsýslumönnum austan um haf. Oft er þröng á þingi í virðulegu anddyrinu, ekki sízt vegna hinnar frægu og ofskreyttu veitingastofu hótelsins, Rumplemeyer´s, sem býður börnum ís og tertur, svo og súkkulaði með þeyttum rjóma í austurrískum stíl.

Eins manns herbergið nr. 2007 er lítið, en vandlega búið og nýlega endurnýjað. Það hefur útsýni yfir í Central Park.

Stærra, tveggja manna herbergi í svipuðum gæðaflokki og með svipuðu útsýni kostaði USD 155. Með enn betra útsýni kostuðu slík herbergi USD 170.

(St. Moritz, 50 Central Park South og 6th Avenue, sími 755 5800, telex 668 840, F3)

Warwick

Warwick státar af stórum og vel búnum herbergjum, sem sum hafa gott útsýni til skýjakljúfa 6th Avenue. Hótelið er við rólega götu á nokkurn veginn sama stað og Dorset og Gorham. Sjálft hótelið er rólegt og virðist lítið, þótt herbergin séu 500. Þau eru meðal hinna beztu í bænum. Þjónusta er einnig góð, svo sem raunar er algengt á Manhattan-hótelum.

Herbergi 2511 er stórt og notalegt eins og önnur herbergi hótelsins, með tveimur breiðum rúmum, vel við haldið og vel búið í baðherbergi.

Verðið var USD 166.

(Warwick, 65 West 54th Street og 6th Avenue, sími 247 2700, telex 147 179, F3)

Elysée

Elysée er vel sett milli Park og Madison Avenues í miðju verzlunarhverfi miðbæjarins. Það er þægilega lítið á Manhattan-mælikvarða, hefur aðeins 100 herbergi, sem eru mismunandi að stærð og lögun. Eitt sérkenna hótelsins er, að hvert herbergi hefur sitt sérstaka nafn. Í stíl við það er þjónustan persónuleg og þægileg.

Herbergi nr. 505, “The Buttery”, hefur sérkennilega langt anddyri með eldunarkrók, góðu baðherbergi og skápaplássi. Sjálft herbergið er rúmgott og vel búið, meðal annars tveimur breiðum rúmum. Það hafði nýlega verið endurnýjað eins og önnur herbergi hótelsins.

Verðið var USD 161.

(Elysée, 60 East 54th Street, milli Park og Madison Avenues, sími 753 1066, telex 220 373, F3)

Bedford

Bedford er einkar notalegt hótel, dálítið afskekktara í miðbænum en önnur hótel í þessari bók. Það er í hverfinu Murray Hill, sem er virðulegt og rólegt íbúðahverfi suðaustantil í miðbænum. Hótelið er rétt sunnan við Grand Central Station, mitt á milli Sameinuðu þjóðanna og Empire State Building. Það er í næsta nágrenni við íslenzka sendiráðið.

Um helmingur herbergjanna er tvískiptur, með svefnaðstöðu sér og setustofu sér. Þau hafa öll eldunaraðstöðu. Hótelið hentar sérstaklega vel barnafjölskyldum, enda býður það sérstök fjölskyldukjör.

Herbergi nr. 1202 er raunar heil íbúð með borðkrók í setustofu, eldhúsi og afar vel þegnu straubretti með góðu járni, allt of sjaldgæfum hlutum á hótelherbergjum. Ekki aðeins er aðstaðan góð, heldur er búnaður allur hinn smekklegasti.

Verðið nam USD 151, að sköttum meðtöldum eins og annars staðar í þessum kafla.

(Bedford, 118 East 40th Street, milli Park og Lexington Avenues, sími 697 4800, D3)

Middletowne

Afar notalegt og lítið hótel, sem hin óvenjulega sjálfsánægða Leona Helmsley hefur nýlega keypt, er Middletowne, nágranni Intercontinental við 48th Street. Áhrif frúarinnar koma vel fram í þykkum ábreiðum og gluggatjöldum með blómaflúri, svo og stórum handklæðum í baðherbergjum. Eini gallinn er að þurfa alls staðar að berja augum myndir af frúnni. En þetta er rólegt hótel á góðum stað fyrir þá, sem vilja líta í búðir.

Þjónustan var afar vingjarnleg og ræðin, en að sama skapi seinvirk. Töskuberum staðarins er hver dagur sem ár og svo framvegis. Það virðist einmitt vera einkenni Helmsley-hótela, að starfsfólki er kennt að halda gestum uppi á skemmtilegu snakki, fremur en að þjónusta þá.

Herbergið, sem við gistum, er afar stórt, með tveimur tvíbreiðum rúmum, eldunaraðstöðu og stórum fataskápum. Allt er áberandi nýlegt og hreinlegt.

Verðið var USD 150.

(Middletowne, 148 East 48th Street, nálægt Lexington Avenue, sími 755 3000, E4)

Windsor

Annað Helmsley-hótel, sem okkur líkaði við, er Windsor. Einkennin eru hin sömu og á Middletowne, blómflúr í þykkum ábreiðum og gluggatjöldum, stór handklæði á baði og að öðru leyti góður baðbúnaður, vingjarnlegur kjaftagangur og seinvirkni í starfsliði og myndir af frú Helmsley, sem telur sig nafla alheimsins og má að okkar mati alls ekki fara til sálfræðings.

Hótelið er afar rólegt, þótt það sé vel í sveit sett rétt við Central Park og lúxusverzlanir í 57th Street, svo og nálægt Broadway-leikhúsunum. Það er greinilega nýendurnýjað frá kjallara upp á þak, því að málningarlyktin var ekki alveg horfin.

Herbergi nr. 704 er hið þægilegasta herbergi með öllum jákvæðum hliðum Helmsley-hótela og þar að auki búið tveimur tvíbreiðum rúmum. Líklega er það í jákvæðum stíl frúarinnar, að baðvogin sýndi kerfisbundið, að allir væru 53 kíló.
Verðið nam USD 138.

(Windsor, 100 West 58th Street og 6th Avenue, sími 265 2100, F2)

Summit

Summit er það hótel, sem flestir Íslendingar þekkja. Það hefur lengst af verið Loftleiða- og Flugleiðahótelið í New York. Flugáhafnirnar gista þar.

Sjálft hótelið er ekki skemmtilegt. Það er nýtízkulegt, ópersónulegt, plastlegt og afar órólegt. Anddyrið er eins og á þægilegri járnbrautarstöð með farangri í haugum og flugáhöfnum að bíða. Starfsliðið er samt notalegt og reynir að gera sitt bezta í önnum sínum. Svo mikið er álagið, að stundum er biðröð í lyfturnar.

Aðalatriðið er að fá herbergi með stakri tölu. Þau snúa að húsabaki. Herbergin með jöfnu tölurnar snúa hins vegar að 51st Street, þar sem athafnasamt slökkvilið hefur aðsetur með tilheyrandi ofsahljómum að næturlagi. Hin herbergin geta að vísu verið ónæðissöm, þegar fylliraftarnir dragnast ofsakátir inn langa hótelgangana.

Summit skortir einn meginkost Manhattan-hótela, að þau eru í turnum með mörgum hæðum og fáum herbergjum á hverri hæð, svo að ónæði er lítið innan frá að næturlagi. Á Summit eru gangar langir og hæðir fáar, með þeim mun meiri umferð á hverri hæð.
Allt var í góðu lagi á herbergi nr. 1231.

Verðið var USD 166.

(Summit, 51st Street og Lexington Avenue, sími 752 7000, telex 147 181, F4)

Pickwick Arms

Eftir langa leit fundum við eitt hótel enn, sem var vel innan við 100 dollarana, þótt það væri frambærilegt. Það er Pickwick Arms, austarlega í miðbænum, nálægt Sameinuðu þjóðunum. Mestu máli skiptir þó, að það er einn af næstu nágrönnum matargerðarmusterins Lutéce og hefur hinn litla, en notalega Greenacre Park andspænis sér.

Anddyrið lítur sæmilega virðulega út, en herbergin eru í minnsta lagi. Þau eru þó hrein og hafa baðútbúnað í sæmilegu lagi, svo og loftræstingu, sem er nauðsyn í Manhattan.

Herbergi nr. 1110 er nákvæmlega mátulega stórt til að koma fyrir tveimur breiðum rúmum og gangvegi í kring, svo og sjónvarpi, skrifborði og stólum. Baðherbergið er afar lítið, en gerir sitt gagn, þótt ekki hafi sturtan verið öflug.

Verðið nam USD 72, að öllum sköttum inniföldum, svo og flugvallarakstri.

(Pickwick Arms, 230 East 51st Street, milli 2nd og 3rd Avenue, sími 355 0300, F4)

Systol

Eitt hótel þarf að nefna, þótt það falli ekki í Manhattan-ramma þessarar bókar. Það er Systol, í nágrenni Kennedy-flugvallar, rekið af Íslendingum fyrir Íslendinga, einkum notað af þeim, sem lenda á Kennedy að kvöldlagi til að halda eitthvað áfram morguninn eftir.

En Systol hefur líka gildi fyrir þá, sem ætla inn á Manhattan, en vilja taka stökkið í áföngum, komast fyrsta kvöldið í eldhúskrók á íslenzku heimili og hafa síðan góðan tíma til að skella sér í Manhattan-æðið daginn eftir. Auk þess gefa Systa og Óli góð ráð, til dæmis um alla þá hagkvæmu verzlun, sem Íslendingar hafa áhuga á.

Systol er í stóru einbýlishúsi í rólegu hverfi, þar sem Cuomo ríkisstjóri býr. Herbergin eru fá, svo að færri komast að en vilja, nema þeir panti með nægum fyrirvara. Innifalið í verði umfram flest önnur hótel, sem hér hafa verið nefnd, er akstur frá flugvelli og til hans, svo og morgunverður.

Húsið er loftkælt og herbergin eru rúmgóð, skreytt listaverkum kunnra Íslendinga. Þau eru ekki með sérbaði, en slík aðstaða er úti um allt hús. Allt er afar hreinlegt og notalegt hjá þeim.

Verðið var USD 75 fyrir tvo.

(Systol, 199-10 Romeo Court, Holliswood, NY 11423, sími (718) 468 6220, ekki telex)

1988

© Jónas Kristjánsson

New York hverfi

Ferðir

Manhattan skiptist í aðgreind hverfi, sem hvert hefur sinn svip og sitt hlutverk í borgarlífinu. Sum bera einkenni landnema frá ákveðnum löndum og önnur bera einkenni ákveðinna þátta atvinnulífsins. Sum eru glæsileg og önnur hrörleg. Einkenni þeirra hverfa, sem hér verður fjallað um, er að þau eru ofan á í lífinu eða á hraðri uppleið.

Downtown

Bankahverfið, sem ýmist er kallað Financial District eða Downtown, er syðsti oddi Manhattan, þar sem borgin var stofnuð af hollenzkum landnemum, sem kölluðu hana Nýju Amsterdam. Nafnið Wall Street stafar af, að þar var í öndverðu veggurinn, sem Hollendingar reistu borginni til varnar gegn Indjánum.

Nú er Downtown samfelld hrúga turna úr stáli og gleri, stærsta bankamiðstöð í heimi. Til skamms tíma var hverfið steindautt um helgar. En nú hefur verið komið upp vinsælli ferðamannaþjónustu við gömlu fiskihöfnina í South Street Seaport, komið upp stóru hóteli og nothæfum veitingahúsum í World Trade Center og verið að reisa lúxusíbúðir norðan við Battery Park, svo að fólk er nú orðið á ferli í Downtown um helgar.

Mjög lítið er af gömlum mannvirkjum í hverfinu, en þau, sem enn standa, verða helzta augnayndi okkar á einni gönguferðinni, sem lýst er aftar í þessari bók. Þau eru skólabókardæmi um, að gömul og hrörleg hús eru vinalegri og fallegri en glæsibyggingar nútímans. Eyðileggjendur Kvosarinnar í Reykjavík ættu að reyna að skilja þetta.

Skýjakljúfahverfið á þessum stað er að því leyti skemmtilegra en miðbæjarhverfið, að gatnakerfið er ekki eins og rúðustrikað blað, heldur fylgir gömlu reiðvegunum. Samt er auðvelt að rata, ef fólk tekur mið af skýjakljúfunum.

Chinatown

Norðan við bankahverfið taka við tvö hverfi. Austan megin er Chinatown, sem áður var talið markast af götunum Bowery, Mulberry, Worth og Canal Streets, en hefur síðar flætt inn í nálægar götur. Hjarta þess er í Mott og Pell Streets.

Hverfið ber kínverskan svip. Auglýsingaskilti eru á kínversku og símaklefarnir eru með kínverskum pagóðu-turnum. Á götuhornum eru seld sjö blöð á kínversku.

Helzta aðdráttarafl hverfisins eru 150 kínversku veitingahúsin, sem eru meðal hinna ódýrustu í borginni og bjóða sum hver upp á mjög góðan mat. Frá veitingahúsunum og matvöruverzlununum leggur notalega austrænan ilm um göturnar. Mest er um að vera í hverfinu á sunnudögum, þegar Kínverjar úr öðrum hverfum koma til að verzla og borða.

Chinatown er fátækt hverfi. Í kjöllurunum spila Kínverjar fjárhættuspil og uppi á hæðunum þræla þeir í fataiðnaði. Glæpaflokkar kreista verndarfé af eigendum verzlana og veitingahúsa. En ferðamenn verða ekki varir við þessa skuggahlið.

TriBeCa

Vestan megin er hverfið TriBeCa. Nafnið er stytting á Triangle Below Canal Street, en hverfið myndar einmitt þríhyrning eða trapizu milli Canal Street, West Broadway, Barclay Street og Hudson-ár. Stundum er hverfið kallað SoSo, sem þýðir South of SoHo, enda er það eins konar framlenging af SoHo til suðurs.

Áður var þetta hverfi vandaðra og skrautlegra, nokkurra hæða vöruskemma og léttiðnaðarhúsa úr steypujárni, sem komið var í niðurníðslu. Þegar húsaleiga fór að rjúka upp úr öllu valdi í SoHo, uppgötvuðu listamennirnir stóru salina í TriBeCa og fluttu vinnustofur sínar suður fyrir Canal Street.

Nú hafa þeir endurlífgað hverfið svo gersamlega, að húsaleigan er farin að stíga ört og hrekja þá til annarra hverfa. Barir, veitingahús, diskó og tízkuverzlanir hafa sprottið eins og gorkúlur.

SoHo

Norðan við Canal Street taka við þrjú kunn hverfi. Þeirra vestast er SoHo, fullu nafni South of Houston Street. Það markast af Canal Street, 6th Avenue, Houston Street og Broadway.

Það er enn eindregnara dæmi en TriBeCa um hverfi vandaðra og skrautlegra steypujárnshúsa fyrir léttan iðnað, sem átti að rífa fyrir aldarfjórðungi, en var í þess stað blessunarlega breytt í hverfi listvinnustofa, sýningarsala, léttvínsbara og veitingahúsa. Þar búa þekktir listamenn, sem hafa efni á að borga háa húsaleigu.

Mest er um að vera í sýningarsölunum á laugardögum. Að öðru leyti er fjörugast í hverfinu á sunnudögum, en þá eru salirnir yfirleitt lokaðir.

Sýningarsalirnir eru einkennistákn SoHo. Þar gerist tízkan í myndlist. Öll París er hreinasta sveitaþorp í samanburði við SoHo á því sviði. Í myndlist er SoHo nafli alheimsins.

Little Italy

Við hliðina á SoHo og beint norðan við Chinatown er Little Italy, hverfi innflytjenda frá Sikiley og Napólí. Það nær frá Canal Street norður til Houston Street og frá Lafayette Street austur til Bowery. Þungamiðjan er Mulberry Street, sem liggur eftir hverfinu endilöngu. Á síðustu árum hafa Kínverjar gert innrás í hverfið og hrakið Ítalina á undanhald.

Á sunnudögum koma Ítalir úr úthverfunum til að kaupa pasta og salami og fá sér ítalskan mat í veitingahúsi. Þá flytja kaupmennirnir vörur sínar út á gangstétt og veitingamennirnir borð og stóla, svo að hverfið minnir á Ítalíu. Ilmurinn af expresso-kaffinu vefur sig um þröngar göturnar.

Mest er um að vera á tveimur vikulöngum hátíðum, hátíð St Antonio í júní og St Gennaro í september. Þá breytist Little Italy í hálfgert tívolí.

Loiasada

Loiasada heitir fullu nafni Lower East Side. Það er við hlið Little Italy, austan við Bowery og nær milli Canal og Houston Streets, allt til East River.

Um aldamótin var þetta stærsta nýlenda gyðinga í heiminum og eitt mesta fátæktarbæli borgarinnar, þéttbýlla en Kalkútta. Þar hafa vaxið úr grasi margir andans menn og kaupsýslumenn. Gyðingarnir eru flestir fluttir á brott og hafa skilið eftir niðurníddar synagógur. Í staðinn hafa komið svertingjar, Kínverjar og einkum þó Puertoricanar, svo að þetta er enn fátæktarhverfi.

Gyðingar stunda enn kaupsýslu í Orchard Street eða koma þangað á sunnudögum til að verzla ódýrt og fá sér að borða rétttrúnaðarfæði. Það eru ekki neinar hátízkuvörur, sem þar eru seldar, en verðið er oft ótrúlega lágt.

Orchard Street er eins og austurlenzkur bazar. Þar er prúttað fullum hálsi og með miklu handapati. Vasa- og veskjaþjófar leika þar lausum hala. Að öðru leyti er óhætt að fara um hverfið, ef fólk hættir sér ekki austur fyrir Essex Street.

Greenwich Village

Fyrir norðan SoHo, handan við Houston Street, tekur við Greenwich Village, gamalkunnugt háskóla- og menningarhverfi umhverfis Washington Square. Það nær frá Houston Street norður til 14th Street og frá Broadway vestur til Hudson River.

Greenwich Village er alveg sér á parti í borginni, hverfi gamalla og lágreistra íbúðarhúsa við undnar götur, sem erfitt er að rata um, rétt eins og í London. Hér er borgarháskólinn, miðstöð nýtízkulegrar leiklistar og jazzmiðja heimsins. Greenwich Village er notalegasta hverfi borgarinnar.

Bóhemar Bandaríkjanna byrjuðu að flytjast til hverfisins á fjórða áratug aldarinnar og í stríðum straumum eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar Greenwich Village varð að eins konar Vinstri bakka Signu. Síðar komu hommarnir og bítlakynslóðin. Hommarnir halda sig vestast í hverfinu, vestan við 7th Avenue og niður að Hudson River.

Ræflarokkið fór til East Village og framúrstefnu-myndlistin til SoHo, svo að Greenwich Village hefur staðnað sem virðulegt hverfi miðaldra bítla eða skallapoppara og þykir raunar mjög fínt nú til dags. Þorpsbúarnir eru félagslega meðvitaðir og standa vel saman, þegar á reynir.

Washington Square er sunnudagsstofa þorpsbúa, eins konar St Germain des Prés. Þar kaupa þeir fíkniefni, tefla skák, renna sér á hjólabrettum, hlusta á farand-tónlistarmenn og ræða um, hvernig verjast megi geðbiluðum skipulagsyfirvöldum, sem vilja láta rífa allt gamalt og gott.

East Village

East Village er við hlið Greenwich Village, handan við Broadway, stundum kallað NoHo eða North of Houston Street. Það nær frá Houston Street norður til 14th Street og frá Broadway til East River, gamalt hverfi landnema frá Úkraínu og Póllandi, sem nú er orðin miðstöð ræflarokks í Bandaríkjunum.

Síðan húsaleiga fór að hækka í TriBeCa hafa margir myndlistarmenn flúið til East Village, þar sem verðlag er lægra. En nú eru menn farnir að átta sig á, að hafa má peninga upp úr þessu fátæktarhverfi, svo að húsaleiga er byrjuð að rísa og sýningarsalir að skjóta rótum.

Ræflarokkið er mest á Astor Place og St Mark´s Place. Þar ber fólk marglitt hár, leðurföt og stálkeðjur. Og þangað fara ferðamenn til að stara úr sér augun.

Theater District

Við hlaupum yfir hverfin Chelsea, Garment District og Murray Hill, sem ná frá 14th Street norður að 42nd Street, því að þau eru ekki áhugaverð fyrir ferðamenn.

En við 42nd Street byrjar miðbærinn Midtown. Vesturhluti hans er Theater District, stundum kallað Broadway. Það nær norður að 59th Street og Central Park. Suðurhluti þess nær austur að 6th Avenue, en norðurhlutinn að 7th Avenue. Vesturmörkin eru við 8th Avenue. Ás hverfisins er Broadway og þungamiðja ássins er Times Square.

Við fyrstu sýn er þetta fremur leiðinlegt hverfi neonljósa og klámstofnana, gleðikvenna og fíkniefnasala, sóðalegra kaffihúsa og lélegra veitingastofa. En dýrðin leynist rétt að baki, því að hér eru 42 leikhús á litlu svæði —mesta samþjöppun leikhúsa í heiminum — auk fjölmargra kvikmyndahúsa. Þetta hefur í heila öld verið miðstöð bandarískrar leiklistar.

Midtown

Austan við Theater District tekur við hið eiginlega Midtown, miðbær skýjakljúfa, glæsilegra verzlana, lúxushótela og frægra veitingahúsa. Það nær frá 42nd Street norður að 59th Street og austur að East River, þar sem eru aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

Hér er alltaf verið að rífa og byggja. Þar, sem í fyrra var fimm hæða borgarhús, er nú risinn áttatíu hæða skýjakjúfur, og keppir við hina í sérkennilegu útliti. Hér er saga skýjakljúfanna skráð, allt frá Chrysler, yfir Rockefeller, Seagram og Lever til Citicorp, Trump og AT&T.

Hér glitrar allt í auði og velsæld á dýrustu fermetrum jarðarinnar. Hér er hraðinn meiri á fólki en annars staðar í borginni. Og hér er allt dýrara og fínna en annars staðar. Þetta er sá staður, sem kemst næst því að vera nafli alheims.

Þetta er svæðið, sem flestir ferðamenn kynnast bezt, því að hér eru nærri öll hótel borgarinnar. Það er einstaklega auðvelt yfirferðar, bæði vegna þess að það er allt á háveginn og vegna hins skipulega gatnakerfis. Avenues liggja suður-norður, númeraðar frá suðri. Streets liggja austur-vestur, númeraðar í báðar áttir frá 5th Avenue og hlaupa á hundrað við hverja númeraða Avenue.

Flestar gönguleiðirnar, sem lýst er í næsta kafla þessara bókar, liggja um þetta hverfi.

Upper East Side

Norðan við 59th Street og austan við Central Park er hverfi, sem allt frá aldamótum hefur verið fína íbúðahverfið í New York, Upper East Side. Það er fremur stílhreint hverfi borgarhalla og íbúðahótela. Alls staðar eru borðalagðir húsverðir í anddyri og langar, svartar límúsínur við gangstéttarbrún. Alls staðar eru fínir barir, fín veitingahús og fínir næturklúbbar.

Um leið er þetta listasafnahverfi borgarinnar, státar af Metropolitan Museum, Guggenheim, Frick, Cooper-Hewitt og Whitney. Þetta er líka sendiráðshverfið og hverfi margs konar virðulegra stofnana og sjóða. Við árbakkann er borgarstjórabústaðurinn Gracie Mansion. Sá hluti hverfisins heitir Yorkville og var á sínum tíma hverfi þýzkra innflytjenda.

Upper West Side

Andspænis Upper West Side, handan við Central Park, er Upper West Side, sem er eins konar ódýrari og raunar fallegri útgáfa af fyrra hverfinu. Munurinn á hverfunum er sagður vera USD 500 í húsaleigu. Upper West Side nær skemur til norðurs. Við 90th Street tekur við skuggahverfi.

Upper West Side státar af menningarmiðstöðinni Lincoln Center og tízkugötunni Columbus Avenue. Út frá þeim hafa sprottið veitingahús og barir. Að meðaltali eru íbúarnir mun yngri en hinir handan Central Park. Hér sjást til dæmis börn að leik. Kvöldlífið er fjörugt, einkum á Columbus Avenue.

Lengra til norðurs verður ekki farið í þessari bók. Harlem er ekki eftirsóknarverður staður, nema þá fyrir meðvitaða félagsráðgjafa. Að vísu þýðir þetta, að sleppt er svæði Columbia háskóla og The Cloisters í Washington-hæðum, sem hvort tveggja er forvitnilegt, en hefði lengt bókina úr hófi. Borgarhverfi utan Manhattan komu að sjálfsögðu ekki til álita.

1988

© Jónas Kristjánsson

New York inngangur

Ferðir

LEIÐSÖGURIT

FJÖLVA

JÓNAS KRISTJÁNSSON

ritstjóri

NEW YORK

nafli alheimsins

Leiðsögurit fyrir

íslenzka ferðamenn

Bókarstefna

Við höfum lesið mikinn fjölda leiðsögubóka fyrir ferðamenn og okkur fundizt þær að ýmsu leyti takmarkaðar.
Við höfum lesið bækurnar, sem ekki taka tillit til, að mikill hluti ferðamanna ver nokkrum hluta tímans á hóteli og í veitingahúsum og hefur þess á milli töluverðan áhuga á að skemmta sér og líta í búðarglugga, en er ekki allan sólarhringinn að skoða söfn og merka staði. Við viljum taka tillit til þessa og reyna að semja raunsæja bók.

Við höfum líka lesið bækurnar, sem leggja dóm á hótel, veitingahús, verzlanir og skemmtistaði, en eru þá fremur að þjónusta þessar stofnanir en lesendur. Við teljum svo eindregið, að upplýsingar af því tagi eigi að vera óháðar, að við prófuðum allar þessar stofnanir og komum hvarvetna fram sem venjulegir gestir, greiðandi almennt og afsláttarlaust verð og gáfum okkur ekki fram fyrr en að reikningum greiddum. Á þann hátt teljum við mestar líkur á, að reynsla lesenda muni koma heim og saman við þá reynslu, sem hér er lýst.

Þá höfum við skoðað bæklinga hótela, veitingahúsa og ferðamálaráða og fundizt myndirnar falsaðar. Innanhúss eru þær stúdíoteknar og sýna ekki raunveruleikann, hvað þá þegar þær eru teknar í hótelsvítu, en viðskiptavinurinn fær venjulegt herbergi. Utanhúss er beðið dögum saman eftir réttri birtu og réttu birtuhorni og myndirnar sýna ekki þungskýjaðan raunveruleika ferðamannsins.
Við höfnuðum öllum gjafamyndum af slíku tagi, tókum okkar eigin og teljum þær gefa raunhæfari mynd en glansmyndir áróðursbæklinga.

Jónas Kristjánsson og Kristín Halldórsdóttir

Fjörug og mannleg

New York er fjörug borg, allt að því vingjarnleg borg og líklega jafnvel mannleg borg. Hún er staðurinn, þar sem ókunnugir eru fyrirvaralaust teknir tali, ekki aðeins við barinn, heldur hvar sem er. Þeir eru viðurkenndir sem fólk, enda er þriðjungur borgaranna fæddur í útlöndum og því eins konar ókunnugir sjálfir.

New York er ekki Bandaríkin og ekki heldur Evrópa, heldur suðupottur beggja og þriðja heimsins að auki. Sumir borgarhlutar minna á bazar í Kairo eða Kalkútta. Alls staðar er mannhaf, alls staðar er verið að verzla og nú orðið ekki sízt á gangstéttum úti.

Sé einhver staður nafli alheimsins, þá er það miðborg New York, sem fjallað er um í þessari bók, — Manhattan. Sú eyja er miðstöð myndlistar, önnur af tveimur miðstöðvum leiklistar, fremsta miðstöð tónlistar og bókmennta. Hún er mesta safnaborg heims.

Manhattan er staðurinn, sem hefur allt. Ef eitthvað er til einhvers staðar í heiminum, er það líka til á Manhattan. Þar eru útibú frá öllum frægu verzlunum Evrópu. Þar eru 10.000 veitingahús frá nærri öllum löndum heims. Þar eru gefin út blöð og reknar útvarpsstöðvar á 50 tungumálum.

Daglega er eitthvað merkilegt að gerast í New York, Corazon Aquino að taka við verðlaunum á Pierre, Johnny Cash að árita bækur á 5th Avenue, Sarah Vaughan með afmælistónleika á Blue Note í Greenwich, Norðmenn að sigla víkingaskipi inn á South Street Seaport og Kristján Jóhannsson að syngja í La Boheme í ríkisleikhúsinu.

Manhattan hefur gengið í endurnýjun lífdaganna. Mörg hverfi, sem áður voru í niðurníðslu, hafa verið hresst við á síðustu árum, víðast að frumkvæði framúrstefnu-listamanna. Veitingahús, verzlanir og velmegun hafa fylgt eftir.

Fólk annað hvort elskar eða hatar New York. Hún er mjúk og hörð í senn, en fyrst og fremst er hún hröð og æst, jafnvel tryllt. Hún er kjörinn áningarstaður þeirra, sem líður vel, þar sem hlutirnir gerast, þar sem naflinn sjálfur er. Hún er andartakið sjálft.

Almennar upplýsingar

Bankar

Flestir bankar eru opnir 9-15 mánudaga-föstudaga. Aðeins sumir þeirra skipta erlendum gjaldeyri.

Barnagæzla

Hringdu í Baby Sitters Guild, 60 East 42nd Street, síma 682 0227.

Ferðir

Skrifstofa ferðamálaráðsins, Visitors Information Center, er að 2 Columbus Circle, opin 9-18 mánudaga-föstudaga og 10-18 laugardaga-sunnudaga, sími 397 8222.

Fíkniefni

Ólöglegt er að bera fíkniefni á sér og getur varðað sektum.

Flug

Flugvallarrútan til Kennedy flugvallar fer á 20-30 mínútna fresti frá East Side Airlines Terminal, 1st Avenue og 37th Street. Ferðin getur tekið rúman klukkutíma. Segðu vagnstjóranum, hvaða flugfélagi þú ferð með, svo að hann stanzi við réttan stað á vellinum.

Flugleiðir

Söluskrifstofa Flugleiða er í Channel Gardens, göngugötu milli 5th Avenue og Rockefeller Plaza, 610b 5th Avenue, sími 757 8585 og (800) 223 5500.

Framköllun

Víða í miðbænum er unnt að fá framkallað og kóperað á hálftíma.

Gisting

Engin stofnun útvegar vegalausum ferðamönnum gistingu, en ferðamálaráðið við 2 Columbus Circle hefur skrá yfir öll hótel borgarinnar.

Göngur

Gangandi fólk þarf að gæta vel að sér í umferðinni, því að bílstjórar aka margir afar hratt og frjálslega, sumir á rauðu ljósi. Auðvelt er að rata um mestan hluta borgarinnar.

Götunúmer

Streets eru númeruð vestur og austur frá 5th Avenue. Þau hlaupa á einu hundraði við hverja númeraða Avenue, sem þau mæta. Jafnar tölur eru að sunnanverðu, oddatölur að norðanverðu. Í heimilisföngum er gjarna gefið bæði upp Avenue og Street.

Hjálp

Ferðamenn geta fengið aðstoð, jafnvel vasapeninga í nauðum, hjá Traveller´s Aid Society, 204 East 39th Street, sími 679 0200

Hótel

Athugið, að “queen size bed” er minna hjónarúm en Íslendingar eru vanir. Pantaðu herbergi með annað hvort “king size bed” eða “twin beds”. Á efri hæðum hótela er minna ónæði af umferðarhávaða en á neðri hæðum.

Leigubíll

Leigubíla má panta í símum 741 2000 og 741 1800, en venjulega er kallað í þá af gangstéttinni. Ljós logar á þakmerki lausra leigubíla. Vertu alltaf viss um, hvert þú ætlar, því að margir bílstjórar vita miklu minna um borgina en þú. Notaðu aðeins gulu leigubílana með skjaldarmerkinu.

Lyfjabúð

Kaufman, Lexington Avenue við 50th Street, er opin allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, sími 755 2266.

Læknir

Hringdu í 879 1000 eða í 328 1000.

Löggæzla

Hringdu í 911 eða í 374 5000.

Peningar

Bandarískir gjaldmiðillinn er dollar, $ eða USD, sem skiptist í 100 cent. 5 centa myntin er kölluð nickel, 10 centa dime og 25 centa quarter. Gott er að hafa á sér töluvert af eins dollars seðlum. Krítarkort eru mikið notuð.

Póstur

Frímerki fást í frímerkjavélum og yfirleitt í hótelmóttökum. Bláir póstkassar eru víða. Aðalpósthúsið á 8th Avenue og 33rd Street er opið allan sólarhringinn.

Rafmagn

Athugaðu að rafmagnið er 110-120 volta, svo að straumbreytir er nauðsynlegur, ef þú hefur meðferðis raftæki á borð við rakvél.

Salerni

Salerni eru í veitingahúsum, söfnum og stórverzlunum. Víða þarf að borga 10 cent eða þjórfé. Notaðu alls ekki salerni neðanjarðarlestastöðva.

Samgöngur

Strætisvagnarnir eru mun hreinlegri og þægilegri en neðanjarðarlestirnar, sem aftur á móti eru fljótari í förum og ganga allan sólarhringinn. Fargjaldið er hið sama. Leigubílar eru tiltölulega ódýrir. Annatíminn er 8-9 og 17-18.

Sendiráð

Sendiráð Íslands er við 370 Lexington Avenue og 41st Street, sími 686 4100.

Sími

Almenningssímar eru víða, til dæmis í anddyri hótela og veitingahúsa, svo og á götuhornum. Símtalaverð er breytilegt, til dæmis lægra um kvöld og helgar. Öll New York er á símasvæði 212. Til Íslands er númerið 0 11 354.

Sjúkrabíll

Hringdu í síma 911.

Sjúkrahús

Góð sjúkrahús í miðbænum eru NY University Medical Center, 1st Avenue og 30th Street, sími 340 1999, og Roosevelt Hospital, 9th Avenue og 58th Street, sími 554 7000.

Skemmtun

Upplýsingar um skemmtana- og menningarlífið fást í vikuritunum New York og The Village Voice, svo og í dagblöðunum.

Slökkvilið

Hringdu í síma 911.

Tannlæknir

Hringdu í síma 679 3966 fyrir kl. 20 og í 679 4172 eftir kl. 20.

Vatn

Kranavatn er drykkjarhæft, en margir nota vatn af flöskum til öryggis.

Verðlag

Verðlag hér í bókinni er frá 1987. Verðbólga er lítil í Bandaríkjunum. Reiknaðu þó með 5% á ári til öryggis.

Verzlun

Stórverzlanir og tízkuverzlanir eru yfirleitt opnar 9/10-18 og oft til 20/21 fimmtudaga. Sumar eru opnar laugardaga og jafnvel eftir hádegi á sunnudögum.

Þjórfé

Þjónusta er ekki innifalin í reikningum veitingahúsa. Venjulegt þjórfé er 15-20%. Sumir einfalda sér útreikninginn með því að tvöfalda upphæð 8% söluskattsins, sem reikningurinn sýnir. Burðarmenn fá 50 cent fyrir hverja tösku, minnst USD 1, herbergisþjónusta USD 1, salernisverðir 50 cent, herbergisþernur USD 3-5 á viku, leiðsögumenn, leigubílstjórar, rakarar og hárgreiðslufólk 15%.

Öryggi

Forðaztu Central Park eftir myrkur, neðanjarðarlestir að næturlagi og alla fáförula staði yfirleitt. Vertu þar sem fólkið er og nálægt brún gangstéttar. Haltu fast í handtösku. Hafðu peninga í fremri buxnavösum. Notaðu plastkort sem mest. Hafðu skilríki ekki á sama stað og peningana. Skildu ekki eftir verðmæti í hótelherbergjum. Vertu ekki áberandi fínt klæddur. Gakktu öruggum skrefum eins og þú vitir, hvert þú ert að fara. Segðu nauðgurum, að þú sért með eyðni eða sárasótt. Ekki lenda í slagsmálum.

1988

© Jónas Kristjánsson

London göngur

Ferðir

Eftir fyrstu gönguferðina um búðir St James´s og Mayfair hverfa, er kominn tími til að segja frá tíu almennum skoðunarferðum um aðra markverða staði miðborgarinnar. Við förum frá austri til vesturs, byrjum austast í City og færum okkur síðan til Covent Garden og Soho, enn til St James´s og Mayfair og loks til Westminster.

Vegna stærðar borgarinnar og smæðar bókarinnar verður ekki lýst ferðum um önnur hverfi nálægt miðju og engum ferðum um úthverfin.

Við sleppum öllu fyrir sunnan á, þótt þar á bakkanum sé Þjóðleikhúsið. Við sleppum menntahverfinu Bloomsbury, þótt þar sé háskólinn og British Museum, sem áður hefur verið lýst. Við sleppum Marylebone, enda höfum við þegar lýst söfnunum þar.

Við sleppum jafnvel hverfunum sunnan garða, “vinstri bakkanum”, sem sumir kalla svo. Frá South Kensington höfum við þegar lýst söfnunum, frá Knightsbridge höfum við þegar lýst Harrods og verzlanahverfinu þar í kring, og frá Belgravia og Chelsea höfum við þegar lýst verzlanagötum og veitingahúsum, sem máli skipta.

Til hagræðingar hafa flestar gönguferðir okkar upphaf og endi við stöðvar neðanjarðarlestarinnar.

2. gönguferð:

London Wall

Þegar við komum upp úr Tower Hill neðanjarðarstöðinni (K2), skulum við fyrst virða fyrir okkur Tower of London, því að héðan er eitt bezta útsýnið til hans. Síðan förum við göng undir götuna að Tower. Á leiðinni eru leifar af London Wall, múrnum, sem Rómverjar létu reisa utan um borgina, þegar Boadicea Keltadrottning hafði rænt hana árið 61. Þá var Londinium, eins og Rómverjar kölluðu hana, ung borg, aðeins tveggja áratuga gömul.

Leifar rómverska múrsins sjást víðar umhverfis City og eru aðallega frá 2. öld. Sumar götur í City sýna enn í nöfnum sínum, hvar hlið voru á virkisveggnum: Ludgate, Newgate, Aldersgate, Moorgate, Bishopsgate og Aldgate. Múrinn var ekki fluttur til, þótt borgin stækkaði, heldur aukinn og endurbættur á sama stað á miðöldum. Mestallt núverandi City, nema Fleet Street svæðið, er innan þess ramma, sem gamli múrinn markaði.

Tower

Við höldum áfram meðfram síkinu, sem var þurrkað á síðustu öld og gert að grasvelli, og nálgumst innganginn í Tower of London, eitt helzta einkennistákn borgarinnar. Miðkastalinn, sem gnæfir hæst, er Hvítiturn, White Tower, elzti hluti kastalans, reistur af Vilhjálmi sigursæla (bastarði) árið 1077 og árin þar á eftir, í fyrstu fremur til viðvörunar borgarbúum en til ytri varna. Hann er einn elzti kastali slíkrar stærðar í Vestur-Evrópu, ágætt dæmi um ferköntuð turnvirki Normanna.

Þá voru Rómverjar horfnir á braut fyrir meira en sex öldum og litlar sögur höfðu farið af London á engilsaxneskum tíma. Borgin byrjaði fyrst að dafna sem miðstöð kaupsýslu eftir valdatöku Normanna.

Ríkharður ljónshjarta byrjaði á virkisveggjum umhverfis Hvítaturn seint á 12. öld. Undir lok 13. aldar var Tower í stórum dráttum búinn að fá á sig þá mynd, sem hann ber enn í dag.

Löngum var Tower konungssetur, allt fram á 17. öld, vopnageymsla og fjárhirzla. Enn eru krýningardjásnin geymd þar og höfð til sýnis. Þar er m.a. stærsti demantur heims, 530 karata Star of Africa úr Cullinan-steininum, og hinn sögufrægi, 109 carata Kohinoor-demantur. Fjársjóðanna og Tower í heild er gætt af hinum frægu Beefeaters í einkennisbúningi frá túdorskum tíma á 16. öld.

Í Tower voru hafðir í haldi frægir fjandmenn ríkisins, svo sem Anne Boleyn, María Stúart og síðastur manna Rudolf Hess á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Frá Middle Tower förum við yfir fyrrverandi síkið inn um hliðið á Byward Tower og erum þá komin inn á milli innri og ytri virkisveggja. Við förum framhjá Bell Tower, sem Jóhann landlausi reisti snemma á 13. öld, okkur á vinstri hönd, og göngum að Traitors Gate á hægri hönd. Þar í gegn var fyrrum hægt að flytja fanga á bátum inn í kastalann.

Hér fyrir innan er Bloody Tower, þar sem Ríkharður III er sagður hafa látið myrða ungu prinsana. Um turninn förum við inn í miðgarðinn, þar sem við sjáum brátt biðröðina að krýningardjásnunum. Hún hreyfist hratt, svo að ekkert er að óttast. En ráðlegt er að vera komin sem fyrst eftir kl. 9:30, þegar Tower er opnaður, til að forðast manngrúann.

Yfir miðgarðinum gnæfir Hvítiturn með 4-5 metra þykkum veggjum og turnum á hornum. Innan dyra er merkilegt vopnasafn á neðri hæðunum, en uppi á hinni þriðju er Kapella heilags Jóhannesar frá 1080, enn nokkurn veginn í upprunalegu horfi, eitt fegursta dæmið um snemm-normanska byggingarlist í Englandi.

Tower Bridge

Úr Tower förum við fram á bakka árinnar, þaðan sem hægt er að fá sér bátsferð inn til Westminster. Frá ánni er einmitt eitt bezta sjónarhornið að White Tower. En við beinum sjónum okkar að öðru einkennistákni borgarinnar, Tower Bridge.

Þetta er neðsta brúin yfir Thames, reist 1886-94 í gotneskri stælingu frá Viktoríutíma. Hún er vindubrú, sem getur furðu snöggt hleypt skipum í gegn. Af henni er ágætt útsýni yfir ána og herskipið Belfast, sem liggur við festar ofan við brúna og er til sýnis.

St Katharine´s Dock

Ef við göngum árbakkann undir brúna, komumst við framhjá Tower hóteli að St Katharine´s Dock, friðsælli lystisnekkjuhöfn. Hún var gerð árin 1827-28 og var þá ein aðalhöfnin í London, enda sú, sem næst var City.

Nú hefur verið safnað þar nokkrum gömlum skipum, þar á meðal Discovery, sem Scott fór á í suðurpólsferðina. Í gömlu vöruhúsi hefur verið innréttuð Dickens Tavern, þar sem gott er að sötra bjór að skoðunarferð lokinni, áður en skotizt er einstigi norðan hafnar upp til Tower Hill, þar sem þessi gönguferð hófst.

3. gönguferð:

City

Þegar við komum upp úr Bank neðanjarðarstöðinni (J/I2), erum við á frægu horni, þar sem mætast sjö af höfuðstrætunum í City. Hér getum við litið inn eftir Þráðnálarstræti, Threadneedle Street. Þar er Englandsbanki á vinstri hönd, Konunglega kauphöllin á hægri og Verðbréfamarkaðurinn í bakgrunni.

Þetta er hjarta bankahverfisins í þungamiðju kaupsýsluhverfisins, City.
Þráðnálarstræti minnir á markaðinn, sem hér var í gamla daga, eins og aðrar nálægar götur minna líka á: Cornhill, Poultry, Cheapside, Eastcheap og Bread Street. En fátt annað minnir hér á gamla tíma. Eftir eyðingu í seinni heimsstyrjöldinni var þessi hluti borgarinnar endurreistur í andstyggilegum bankastíl undanfarinna áratuga.

Og þó. Við skulum ganga um 100 metra eftir Cornhill og skjótast inn í annað eða þriðja sundið, sem liggur yfir til Lombard Street. Þarna finnum við völundarhús göngusunda, sem minna á gamla tíma. Þar eru til dæmis notalegir nágrannar, kráin George & Vulture og vínbarinn Jamaica Wine House. Hinn fyrri er sex alda gamall og hinn síðari er þriggja alda.

Ef við höldum áfram göngusundin milli Cornhill og Lombard Street og förum yfir Gracechurch Street, komum við að Leadenhall markaði, sem hefur verið rekinn frá rómverskum tíma. Þar er nú selt í smásölu kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir og ostur. Aðaláherzlan er á villibráð. Þar kaupa menn lynghænur og orra fyrir stórhátíðir.

Frá markaðnum förum við Gracechurch Street niður að Monument, sem er minnisvarði um brunann mikla árið 1666, þegar nánast allt City brann til kaldra kola. Einu sinni var útsýni frá toppi varðans, en það hafa háhýsi eftirstríðsáranna að mestu eyðilagt.

Næst liggur leiðin vestur yfir King William Street, inn Arthur Street og þaðan um göngusund vestur að Cannon Street neðanjarðarstöðinni (J2). Rétt við Arthur Street verður á vegi okkar vínbarinn Olde Wine Shades (bls. 44) í húsi, sem er frá 1663, þremur árum fyrir brunann mikla.

Á þessari hringleið um hjarta City hefðum við getað skoðað nokkrar af kirkjum þeim, sem arkitektinn Christopher Wren byggði árin eftir brunann. Sérstakir aðdáendur hans geta samtals fundið í City 29 kirkjur af teikniborði hans, en við látum okkur nægja eina, þá sem sagt verður frá í næstu gönguferð.

4. gönguferð:

St Paul´s

Frá St Paul´s neðanjarðarstöðinni (H1) fyrir aftan dómkirkjuna í City getum við gengið umhverfis höfuðkirkju hins borgaralega Bretlands til að komast inn í hana að framanverðu.

Christopher Wren reisti St Paul´s Cathedral á árunum eftir brunann mikla 1666. Þar höfðu áður staðið a.m.k. tvær kirkjur, hin fyrsta reist árið 604. Talið er, að miðaldakirkjan hafi verið enn stærri en kirkja Wrens, sem er þó ein af allra stærstu dómkirkjum heims.

St Paul´s hefur grunnlögun enskrar, gotneskrar kirkju, krosskirkja með mjög langan kór, en útfærð í endurreisnarstíl með rómönskum bogagöngum. Reiptog varð milli Wren, sem aðhylltist hlaðstíl, og byggingarnefndar, er taldi þá stílgerð kaþólska, og neyddi hann til að sveigja kirkjuna til fægistíls mótmælendatrúarmanna. Yfir miðmótum hennar gnæfir 30 metra breitt hvolf, æði hlaðrænt að formi, eins konar eftirmynd Péturskirkju í Róm. Auk þess fékk Wren því framgengt, að vesturturnarnir tveir voru í hlaðstíl.

Við göngum aðalskipið inn á miðmótin undir hvolfinu, björtu og víðu. Því er haldið uppi af átta öflugum hringbogum. Utan við hvolfið, sem við sjáum neðan frá, er múrhleðsla, er heldur uppi luktaranum efst, og svo blýkápan, sem sést að utanverðu eins og luktarinn.

Á mótum aðalskips og syðra þverskips er hringstigi upp á svalir, hinar hljóðbæru Whispering Gallery, með útsýni niður í kirkjuna, og Stone Gallery, með útsýni yfir borgina. Hinir loftdjörfu geta haldið áfram upp í Golden Gallery við grunn luktarans ofan á hvolfinu og fengið þaðan stórbrotið útsýni í góðu skyggni.

Kraftaverki er líkast, að St Paul´s skyldi standast loftárásir síðari heimsstyrjaldarinnar, þegar allt hverfið í kring brann til grunna og kirkjan ein stóð upp úr eldhafinu.

5. gönguferð:

Gray´s Inn

Gönguferðina um hulin port og yfirskyggða garða lögmannastéttar borgarinnar hefjum við hjá Chancery Lane neðanjarðarstöðinni (G1). Frá götunni High Holborn göngum við eitt af þremur sundum, nr. 21 eða Fulwood Place eða Warwick Court, inn í völundarhús sunda, porta, stílhreinna húsa og fagurra garða, indæla vin í skjóli fyrir skarkala borgarinnar.

Hér eru skrifstofur lögfræðinganna í Gray´s Inn, einu af fjórum lögmannafélögum borgarinnar, Inns of Court, stofnað á 14. öld. Elztu húsin eru frá 17. öld, en garðarnir nokkru yngri, teiknaðir af Sir Francis Bacon. Gray´s Inn er opið almenningi 8-19.

Staple Inn

Við förum eitt sundið aftur út á High Holborn. Andspænis, nokkru austar við götuna, sjáum við Staple inn, tvö timburhús, fjögurra alda gömul, frá 1586-96. Þessi framhlið er eina dæmið í borginni um, hvernig fínu göturnar litu út á dögum Elísabeter I. Taktu eftir bindingsverki bita og gafla og alls konar útskotum. Í miðjunni veita bogagöng aðgang að portunum að baki.

Lincoln´s Inn

Rétt vestar mætir Chancery Lane aðalgötunni High Holborn. Þar beygjum við til vinstri suður meðfram austurhlið Lincoln´s Inn. Við förum framhjá Stone Buildings Gate, því að við ætlum inn um Gatehouse með upprunalegum eikarhliðum frá 1518, hátt í fimm alda gömlum.

Hliðhúsið úr tígulsteini er með ferningslaga hornturnum, opið 8-19. Að baki er Old Square með gömlum húsum frá Túdor-tíma, öll úr rauðum tígulsteini, endurgerð 1609. The Old Hall er frá 1490. Kapellan við norðurhlið torgsins er frá 1619-23.

Við förum áfram til vesturs inn í sjálfa garðana, aðlaðandi og friðsæla, umlukta gamalli og gróinni byggingarlist frá því áður en góður smekkur komst úr tízku. Úr görðunum göngum við til suðurs um New Square og hlið frá 1697 út í Carey Street, þar sem við erum að baki hallar Borgardóms í London.

Temple

Kringum Borgardóm, Royal Courts of Justice, göngum við að austanverðu niður á Fleet Street, þar sem blasir við okkur portið inn í Middle Temple, enn eitt lögmannaþorpið á gönguferð okkar. Hliðhúsið úr rauðum tígulsteini frá 1684 er eftir hinn margumrædda Wren. Þar að baki eru ótal göngusund, port og torg, ekki eins græn og gróin og í hinum Inns of Court, sem við erum búin að fara um.

Sérstaklega er gaman að Middle Temple Hall frá 1562-70, einkum þakbitunum og eikarskilrúmunum. Salurinn er lokaður 12-15. Sagt er, að Shakespeare hafi sjálfur leikið hér í Jónsmessunæturdraumi 1602.

Til austurs liggur mjótt sund að Inner Temple, hins síðasta af lögfræðingafélögunum á göngu okkar. Þar er merkust Musteriskirkjan, hringlaga að hætti Kirkju hinnar heilögu grafar í Jerúsalem. Hún var reist 1160-85 og er eitt elzta gotneska mannvirki Bretlandseyja, opin 9:30-16.

Kirkjan var miðja mikils klausturs, sem regla Musterisriddara kom á fót um 1160. Reglan var leyst upp á 14. öld og þá eignuðust lögmenn húsakynnin og eiga enn.

Við göngum um Inner Temple Gateway gegnum hliðhús úr bindingsverki frá 1610 og endurreist 1906 í gamla Túdor-stílnum.

Fleet Street

Hér erum við í Fleet Street, vestasta hluta City, hinni miklu götu fjölmiðlunar fyrri áratuga. Nú eru margir fjölmiðlarnir fluttir. Rétt við Middle Temple Gateway er Temple Bar, er drottningin má ekki aka hjá, nema með sérstöku leyfi borgarstjórans í City, sem er kosinn af gildum handverks- og kaupsýslumanna.

Ef við göngum Fleet street til austurs, framhjá Inner Temple Gateway, verður fljótt á vegi okkar el Vino (bls. 45), vel þeginn vínbar eftir langa göngu um hulin port og yfirskyggða garða.

Frá norðurhlið götunnar liggja fjölmörg smásund, meðal annars til dr. Johnson´s House frá um 1700. Sömu megin götunnar er Cheshire Cheese (bls. 50), gömul krá frá 1667. Hér taka við blaðhúsin og fréttastofurnar niður að Ludgate Circus, þar sem St Paul´s blasir við á hæðinni fyrir ofan.

Hér undir brautarteinunum er vínbarinn Mother Bunch´s (bls. 45). Ef við göngum vestur New Bridge Street að Blackfriars neðanjarðarstöðinni, er andspænis stöðinni kráin Black Friar (bls. 50) (H2).

6. gönguferð:

Covent Garden

Skemmtilegsta hverfið í London er leikhúsahverfið Covent Garden. Við förum létt með að skoða það, þar sem við sitjum að mestu um kyrrt á sjálfum markaðnum (F2), svo sem lýst var fyrr hér í bókinni (bls. 47).

Austur frá markaðnum liggur Russell Street, þar sem mannþröngin á vínbörunum nær út á götu. Örlitlu austar við götuna er Konunglega leikhúsið. Við fyrstu þvergötu til norðurs er Konunglega óperan og Blómahöllin, sérkennilegt dæmi um byggingarlist undir áhrifum frá Crystal Palace, úr járni og gleri.

Auk King Street norðan markaðar, Henriette Street sunnan markaðar og Russel Street austan markaðar, er skemmtilegast að ganga Tavistock Street, sem liggur sunnan við Henrietta Street, og New Row í framhaldi af King Street. Í þessum götum er kaffihúsalífið og göturápið skemmtilegast í borginni.

Syðst í hverfinu er leikhúsgatan Strand, sem liggur milli Fleet Street og Trafalgar Square. Vestast er önnur leikhúsgata, St Martin´s Lane, milli Trafalgar Square og Long Acre. Norðarlega í hverfinu er Neal´s Yard og Neal Street með heilsufæði- og handíðabúðum.

Segja má, að Covent Garden sé hverfi hins náttúrulega skemmtanalífs, meðan Soho var um tíma hverfi hins ónátturulega, þótt veitingahúsin góðu hafi jafnan haldið þar velli og hverfið sé aftur á uppleið. Sem betur fer er Covent Garden í uppgangi um þessar mundir. Skemmtilegar smáverzlanir, kaffihús og vínbarir eru sífellt að bætast við.

Trafalgar Square

Við endum óskipulega göngu um Covent Garden með því að ganga suðvestur Strand, framhjá Charing Cross brautarstöðinni að Trafalgar Square (E2), hinnar eiginlegu miðju borgarinnar. Þar við mynni götunnar Whitehall er riddarastytta af Karli I, þaðan sem allar fjarlægðir og vegalengdir á Bretlandi eru reiknaðar.

Á miðju torgi gnæfir Nelson flotaforingi á 52 metra hárri granítsúlu, umkringdur fjórum ljónum og þúsundum lifandi dúfna, sem eru mikið eftirlæti barna, er heimsækja borgina. Ofan við torgið er lág og lítilfjörleg framhlið National Gallery (bls. 58).

Til hliðar er hin fagra kirkja, St-Martin-in-the-Fields, reist 1722-26 í léttum, gnæfrænum stíl, sem minnir á rómverskt musteri með óviðkomandi turni og spíru. Að innan er hún með víðari og bjartari kirkjum. Hún er nú orðin að félagsmálamiðstöð og skjóli utangarðsfólks.

7. gönguferð:

Soho

Frá Trafalgar Square (E2) er stutt að ganga vestan við National Gallery framhjá Royal Trafalgar (bls. 9) og Pastoria (bls. 20) hótelum upp að Leicester Square, þungamiðju bíóhverfisins í Soho. Þar er rólegur garður með þægilegum bekkjum til að hvíla lúin bein.

Rétt fyrir vestan torgið er Piccadilly Circus, forljótt torg með æpandi ljósaskiltum. Á því miðju er eitt af einkennistáknum borgarinnar, styttan af Eros, alþjóðlegur mótsstaður ungmenna á faraldsfæti, margra gersamlega út úr heiminum.

Frá Piccadilly Circus göngum við til baka rúmlega hálfa leið til Leicester Square og beygjum til norðurs Wardour Street, sem liggur þvert um kínverska hverfið. Þar er Chuen Cheng Ku, kjörinn hádegisverðarstaður (bls. 33).

Við förum yfir Shaftesbury Avenue, eina af miklu leikhúsgötunum, göngum nokkur skref til vesturs og síðan norður Rupert Street og í framhaldi af því Berwick Street. Í þeim tveimur götum er ágætur og skemmtilegur útimarkaður grænmetis, ávaxta og blóma. Hann hefur verið hér síðan 1778.

Frá norðurenda markaðsins þræðum við hliðargötur um friðsælan Soho Square til Charing Cross Road, þar sem Foyle (bls. 72) og hinar bókabúðirnar eru. Skemmtilegust er hliðargatan Cecil Court til austurs, þar sem eru mætar fornbókaverzlanir.

Ef við göngum suður allan Charing Cross Road, endum við á upphafspunktinum, Trafalgar Square. Nálægt leiðarlokum er gott að hvíla sig á kránni Salisbury (bls. 51). En hafa má til marks um hnignun Soho að meira að segja á þessari fögru krá er búið að setja upp eitt leiktæki.

Kynlífsiðnaðurinn og skríllinn hertóku smám saman Soho, nema veitingahúsin, og hröktu ánægjuna yfir í Covent Garden. Meira að segja krárnar 60-70, sem margar eru frá fyrri hluta 18. aldar, urðu flestar hverjar ekki nema svipur hjá fyrri sjón. Þetta er nú byrjað að lagast aftur.

8. gönguferð:

Pall Mall

Aðalgatan í St James´s hverfinu er Pall Mall, þar sem við hófum gönguferð nr. 1 um skemmtilegustu búðir miðborgarinnar. Í þetta sinn ætlum við hins vegar að kynnast öðrum þáttum andrúmsloftsins í St James´s, hverfi hinna fínu karlaklúbba.

Við förum enn frá Trafalgar Square (E2), í þetta sinn til suðvesturs eftir Pall Mall. Hérna megin við horn Regent Street er fyrsti klúbburinn sunnan götunnar, Institute of Directors. Síðan koma Travellers Club á nr. 106 og Reform á nr. 104, þaðan sem Phileas Fogg átti að hafa farið kringum jörðina á áttatíu dögum. Stóra höllin er Royal Automobile Club. Síðan kemur Oxford & Cambridge Club á nr. 71. Norðan götunnar er Army & Navy andspænis RAC.

St James´s Palace

Við enda götunnar komum við að St James´s Palace, hinni raunverulegu konungshöll Bretaveldis, þar sem drottningin tekur á móti erlendum sendiherrum. Þaðan kemur nafnið, að vera við hirð St James´s. Buckingham Palace er bara konungsbústaður, ekki konungshöll.

Í þessari lágreistu og sérkennilegu höll frá Túdor-tíma, reistri árið 1532, bjuggu konungar Bretlands frá 1698, þegar Whitehall-höll brann, til 1837, er Buckingham-höll tók við. Frá svölunum á hliðhúsinu úr rauðum tígulsteini með áttstrendum turnum tilkynnir kallari valdatöku nýrra konunga.

Í St James´s Palace búa nú ýmsir hirðmenn. Áfast höllinni til vesturs er Clarence House, heimili drottningarmóður. Til hliðar og aftan við St James´s Palace eru tvær hallir, Marlborough House til austurs og Lancaster House til vesturs.

St James´s Street

Klúbbarnir eru áfram í röðum við St James´s Street, sem liggur til norðvesturs frá höllinni. Við hlið Berry Brothers vínbúðarinnar (bls. 64) er mjótt sund inn í Pickering Place. Handan götunnar, aðeins ofar, er Carlton, mesti íhaldsklúbburinn. Nokkrum skrefum ofar er mjó gata, sem liggur að hótelunum Dukes og Stafford (bls. 14). Enn ofar, hvor sínum megin götunnar, eru klúbbarnir Brook´s á nr. 61 og Boodle´s á nr. 28. Loks uppi undir Piccadilly gatnamótum er klúbburinn White´s.

Við eigum bara eftir að rölta meðfram Ritz-hóteli við Piccadilly vestur að Green Park neðanjarðarstöðinni (D3) til að ljúka stuttri gönguferð um fínasta, brezkasta og rólegasta hverfi miðborgarinnar.

9. gönguferð:

Mayfair

Við erum þegar búin að skoða austurhluta Mayfair í fyrstu gönguferðinni, milli frægustu verzlana miðborgarinnar, svo að í þetta sinn getum við látið nægja vesturhliðina og suðurhornið. Þetta er hverfi auðs og glæsibrags með þremur virðulegum gróðurtorgum, Grosvenor Square, Berkeley Square og Hanover Square, sem við sleppum í þessari gönguferð.

Frá Green Park stöðinni (D3) við enda 8. gönguferðar göngum við Piccadilly til suðvesturs yfir Half Moon Street og beygjum næstu smágötu. Þar komum við fljótt að Shepherd Market, þar sem svokölluð Mayfair-hátíð var haldin allt frá 17. öld. Þar er nú 19. aldar smáþorp götusunda með hvítum smáhúsum, gömlum verzlunum og veitingastofum, svo og útikaffihúsum, enn ein af mörgum vinjum í nútímaborginni.

Síðan förum við til vesturs út að Park Lane, sem afmarkar Mayfair og Hyde Park. Þar göngum við framhjá frægum lúxushótelum: Hilton, Dorchester og Grosvenor House, alla leið norður til Marble Arch, sem upphaflega var hlið Buckingham-hallar, en síðan flutt vegna þrengsla. Hér skemmtu menn sér í gamla daga við að horfa á opinberar hengingar, teygingar og sundurlimanir.

Hyde Park

Frá Marble Arch förum við undir götuna yfir í Speakers´ Corner í horni Hyde Park. Hér var árið 1872 komið á málfrelsi, þar sem menn gátu flutt ræður um hvaðeina, án þess að vera stungið inn. Um langt skeið töluðu hér einkum trúarofstækismenn og aðrir sérvitringar, en síðustu árin hefur aftur fjölgað alvöruræðum, einkum flóttamanna frá löndum, þar sem málfrelsi er heft. Mest er um að vera á sunnudögum.

Hyde Park er stærsta opna svæðið í London, ef vesturhlutinn, Kensington Gardens, er talinn með. Þetta eru 158 hektarar graslendis, voldugra trjáa, ljúfra blómabeða og vatnsins Serpentine, sem búið var til árið 1730.

Hér er gott að slaka á í sveitasælu, hanga á útikaffihúsi eða fara í bátsferð. Í andstæðu við svonefnda franska garða, sem eru formfastir og þrautskipulagðir, er Hyde Park enskur garður, óformlegur og losaralegur, með frjálsum gróðri.

Upprunalega girti Hinrik 8. garðinn og gerði að veiðilendu sinni. En fyrir hálfri fjórðu öld var hann gerður að almenningsgarði.

Í suðausturhorni garðsins, milli beljandi umferðaræða, eru litlir gróðurreitir milli Hyde Park og Green Park. Þar standa m.a. Wellington sigurboginn og Aspey House, sem einu sinni hafði hið fína heimilisfang: London nr. 1. Þar bjó Wellington hershöfðingi, er sigraði Napóleon við Waterloo. Milli eyjanna og frá þeim liggja göng undir umferðaræðarnar á alla vegu. Við ljúkum hér þessari gönguferð, í næsta nágrenni Hyde Park Corner neðanjarðarstöðvarinnar (C3).

10. gönguferð:

Horse Guards

Við komum okkur fyrir á suðurhorninu, þar sem skrúðgöngugatan The Mall mætir torginu með minnisvarða Viktoríu drottningar fyrir framan Buckingham Palace (D3). Klukkan er 10:45 á virkum degi, — og virkum degi með jafnri tölu mánaðardags, ef vetur er. Hér er bezt að vera til að fylgjast með öllu, miklu frekar en í manngrúanum við hallargirðinguna.

Við notum tímann til að líta í kringum okkur. Til norðvesturs er Green Park. The Mall er til norðausturs. St James´s Park er til austurs. Og Buckingham Palace er að baki minnismerkisins til vesturs. Þar blaktir drottningarfáninn við hún, þegar hún er heima. The Mall er hin hefðbundna skrúð- og sigurgönguleið frá Trafalgar Square til Buckingham Palace, vörðuð glæsilegum trjám og görðum á báða bóga.

Rétt fyrir 11 koma Horse Guards um torgið norðanvert frá Knightsbridge yfir á The Mall. Horse Guards er konunglega riddaraliðssveitin í glæsilegum búningum. Hún ríður hér daglega framhjá á leið sinni að Horse Guards Parade torginu við hinn enda St James´s Park.

Buckingham Palace

Eftir þessa skrautsýningu virðum við fyrir okkur Buckingham Palace, sem er 19. og 20. aldar stæling á fyrri tíma stíl og hefur verið konungsheimili, síðan Viktoría drottning flutti þangað 1837. Höllin er klædd Portland-steini og er í stíl við minnismerkið og The Mall.

Við höllina eru varðmannaskipti 11:30 alla daga á sumrin og annan hvern dag á veturna. Nokkru fyrir þann tíma koma viðtakandi varðmenn frá Wellington Barracks við Birdcage Walk og við færum okkur til suðurs á stéttinni til að sjá þá betur. Þeir ganga á formlegan hátt, en þó ekki með gæsagangi, undir hljómmiklum mörsum.

St James´s Park

Að skrautsýningunni lokinni getum við beðið eftir, að fráfarandi riddaraliðsmenn og hallarverðir komi sömu leiðir til baka, er hinir viðtakandi fóru. Ella getum við gengið um St James´s Park, sem Hinrik 8. lét gera árið 1536. Í austurenda vatnsins í garðinum er Duck Island, þar sem pelikanar, svanir, endur og aðrir fuglar eiga hreiður sín. Frá brúnni yfir vatnið (E3) er ágætt útsýni, bæði til vesturs að Buckingham Palace og austur að Whitehall, þar sem við verðum í elleftu og síðustu gönguferðinni.

11. gönguferð:

Whitehall

Í þetta sinn förum við sem oftar frá borgarmiðju á Trafalgar Square (E2), en nú til suðurs eftir Whitehall, stjórnarráðsgötu borgarinnar. Nafn götunnar er orðið svo frægt, að það hefur færzt yfir á embættismannakerfi Bretaveldis. Upphaflega hét gatan eftir fornri konungshöll, Whitehall. Sú höll var fyrst erkibiskupsins af Jórvík, en Hinrik 8. tók hana af Wolsey kardínála árið 1530 og gerði að sinni eigin. Hún var konungshöll til 1698, er hún brann og St James´s Palace tók við.

Banqueting House

Merkasta hús götunnar er Banqueting House, handan Horseguards Avenue, sem er andspænis Horse Guards. Hús þetta er hið eina, sem eftir er af Whitehall, reist 1619-22 af hinum fræga arkitekt Inigo Jones. Það er eitt fegursta hús borgarinnar, í palladískum endurreisnarstíl, allt teiknað í nákvæmu mælirænu hlutfallaformi, breiddin helmingur lengdarinnar.

Framhliðin er gnæfræn og virðist tveggja hæða, með jónískum veggsúlum að neðan og rómverskum að ofan. Að innan er húsið hins vegar aðeins einn salur, með risastórum hlaðstíls-málverkum eftir Rubens.

Banqueting House var móttökusalur hinnar fornu hallar og um leið miðpunktur hennar. Nú er húsið orðið ósköp einmana innan um voldugar stjórnarráðsbyggingar síðari tíma.

Við höldum áfram suður Whitehall, framhjá lokaðri götu, Downing Street, götu forsætisráðherra og fjármálaráðherra ríkisins. Aðeins sunnar, á miðri Whitehall, er Cenotaph, minnisvarði um fallna brezka hermenn í heimsstyrjöldinni fyrri. Við komum senn að Parliament Square, þar sem voldug myndastytta af Churchill trónir á horninu næst okkur.

Westminster

Hér erum við komin í hjarta Westminster, hins gamla konungsbæjar, sem löngum var andstæða kaupmannabæjarins City. Konungarnir vildu vera í hæfilegri fjarlægð frá uppreisnargjörnum og illa útreiknanlegum rumpulýð borgarinnar. En London nútímans hefur einmitt orðið til við samruna City og Westminster í eina stórborg. Nú er Westminster hverfi stjórnmálamanna og embættismanna, arftaka konungsvaldsins.

Á Parliament Square eru styttur fleiri kunnra stjórnmálamanna en Churchill eins. Þar er t.d. Disraeli, Palmerston og meira að segja Abraham Lincoln.
Við blasir Westminster Palace, venjulega kölluð Houses of Parliament, enda byggð sem þinghús Bretaveldis, ákaflega víðáttumikil, reist 1840-65 í nýgotneskum stíl.

Westminster Hall

Hér var fyrst reist konungshöll um árið 1000, hin fyrsta í London. Fremst við torgið eru leifar konungshallarinnar, Westminster Hall, upphaflega reist af syni Vilhjálms bastarðs, Vilhjálmi Rufus, árin 1097-99.

Westminster Hall er merkasta hús veraldlegs eðlis frá gotneskum tíma í Englandi. Á sínum tíma var þetta stærsti salur Evrópu. Árin 1397-99 fékk hann þá mynd, sem hann hefur enn í dag. Frægastar eru bálkasperrurnar í þaki, ensk uppfinning, sem gerði kleift að brúa víðara haf með timburþaki en áður hafði þekkzt. Undir þessum bitum voru á miðöldum haldnar konunglegar veizlur, en síðan sat þar ríkisréttur með mörgum frægum réttarhöldum. Þar var Karl I dæmdur til dauða.

Westminster Palace

Þinghúsið mikla er sambyggt hinu gamla Westminster Hall og stendur á bak við það frá götunni séð. Næst og vinstra megin við Westminster Hall er grannur og frægur Clock Tower með klukkunni Big Ben. Hinum megin, við suðurenda hallarinnar, er hinn breiðari og stærri Victoria Tower.

Því miður er ekki auðvelt að njóta hallarinnar sem heildar úr þessari átt nú um stundir, því að fram fer viðamikil hreinsun á henni. Kaflinn frá Westminster Hall að Victoria Tower hefur þegar verið hreinsaður og sýnir vel hina mildu og ljósu liti, sem höllin bar í upphafi, gullinn og ljósbrúnan kalkstein.

Bezta útsýnið til hallarinnar er af brúnum yfir Thames, Westminster og Lambeth Bridge, og af bakkanum handan árinnar. Frá þeim stöðum séð rennur höllin saman í skipulega heild, þar sem formfasta hliðin, sem snýr að ánni, er mest áberandi.

Handan við Abingdon Street, götuna framan við höllina, er Jewel Tower, annað miðaldaminni, fyrrum fjárhirzla konungs.

Westminster Abbey

Sömu megin götunnar snýr Westminster Abbey afturhluta að Westminster Palace. Þetta er krýningar-, giftingar- og greftrunarkirkja brezkra konunga og minningarstaður um þjóðhetjur ríkisins. Meðan St Paul´s er höfuðkirkja borgarinnar, er Westminster Abbey höfuðkirkja ríkisins.

Að stofni er kirkjan hluti Benediktínaklausturs. Smíðin hófst árið 960 og var síðan haldið áfram eftir 1055, upphaflega í normönskum stíl, en eftir 1220 meira í gotneskum stíl. Hún er franskrar ættar, hærri og mjórri en enskar kirkjur. Aðalskipið er 31 metri á hæð, hið hæsta í Englandi.

Vesturturnarnir eru yngstir, í gotneskri stælingu frá upphafi 18. aldar.
Kirkjan hefur verið hreinsuð að utan, svo að mildir litir hleðslusteinsins koma vel í ljós. Þar sem við stöndum að kirkjubaki sjáum við vel turna og svifsteigur frá tíma Hinriks 7.

Við göngum svo meðfram kirkjunni að norðanverðu, þaðan sem hún er fegurst að sjá. Þar er mest áberandi stór rósagluggi með stílfögrum svifsteigum í kring. Áður en við förum inn í kirkjuna, bregðum við okkur inn í friðsælan Dean´s Yard til að sjá kirkjuna að sunnanverðu.

Inn í kirkjuna förum við að vestanverðu, þar sem útsýnið er stórfenglegt inn eftir aðalskipinu. Andspænis innganginum er minnismerki um Winston Churchill og að baki þess leiði óþekkta hermannsins.

Bæði þverskipin eru hlaðin minnismerkjum. Innar í kirkjuna komumst við um hlið í norðurskipi. Eftir að hafa skoðað nyrðra þverskipið förum við ferilganginn til kapellu Hinriks 7. í ríkulega skreyttum, gotneskum stíl í austurenda kirkjunnar. Þar eru yfir 100 styttur.

Frá kapellunni förum við á brú til baka yfir að helgidómi Játvarðs I. Þar er krýningarhásætið frá 1300, þar sem nær allir enskir konungar frá Vilhjálmi bastarði hafa verið krýndir. Undir hásætinu er Scone-steinninn, krýningarsteinn skozkra konunga allt frá 9. öld, þar á meðal hins sögufræga Macbeths.

Héðan liggur leiðin yfir í syðra þverskipið, þar sem eru minnisvarðar margra fremstu rithöfunda á enskri tungu. Þar eru líka dyr til klausturs, sem gengið er um til að komast í Chapter House, sammiðja, átthyrndan sal, sem reistur var árið 1250 og notaður á miðöldum fyrir fundi enska þingsins.

Útrásir

Miðborgin í London er nægur heimur út af fyrir sig í augum ferðamanns, sem er þar aðeins eina eða tvær vikur. Ef meiri tími er til umráða, getur verið gaman að skreppa úr miðborginni, til dæmis með bát eða bílaleigubíl.

Greenwich

Niður með ánni er Greenwich, ekki aðeins frægt fyrir breiddargráðuna núll. Þar er líka skógi vaxinn garður umhverfis stjörnuskoðunarstöðina, brezka siglingasafnið, opið 10-17, sunnudaga 14-17, svo og hið hraðskreiða seglskip Cutty Sark, þar fyrir utan. Bátsferðin til Greenwich tekur 45 mínútur.

Kew

Upp með ánni eru Kew-garðar eða bótanísku garðarnir, opnir 10-16/17. Þeir eru fagrir, meira en 120 hektarar að flatarmáli og hafa að geyma yfir 25.000 mismunandi plöntutegundir. Bátsferðin til Kew tekur 75 mínútur.

Hampton Court

Enn ofar er hin fagra Hampton Court, höll Wolsey kardínála, er Hinrik 8. tók eignarnámi, ásamt ógrynni málverka og minjagripa, sem nú eru til sýnis, svo og einhverjum fegurstu görðum í heimi.

Windsor

Rétt handan við Heathrow-flugvöll er smábærinn Windsor með Windsor-kastala, sveitasetri drottningar. Hann er opinn mánudaga-laugardaga 10:30-17 og sunnudaga 13:30-17.

Windsor er elzti og stærsti íbúðarkastali í heimi, upphaflega reistur af Vilhjálmi bastarði sem hringlaga virki, en síðan öldum saman aukinn og stækkaður. Frægust er Georgskirkja, eitt bezta dæmið um enska byggingarlist 15. aldar. Í kastalanum eru nokkur söfn til sýnis, svo sem brúðusafn Maríu drottningar og hinar konunglegu vistarverur, þegar drottningin er ekki að nota þær.

Ef börn eru með í förinni, er rétt að tengja heimsóknina við ferð í Windsor Safari Park, sem er opinn villidýragarður í Windsor Great Park. Þar er hægt að skoða, sumpart út um lokaða bílglugga, ljón, tígrisdýr, fíla, zebradýr, nashyrninga, úlfalda, gíraffa, apa og dádýr, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Þar má einnig sjá hnísur og höfrunga leika listir sínar.

Í bakaleiðinni er sniðugt að koma við í tívolí-skemmtigarðinum Thorpe Park í Staines, rétt fyrir sunnan Heathrow-flugvöll.

Góða ferð!

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson

New York skemmtun

Ferðir

Caffe Reggio

Markverð kaffihús á Manhattan eru eiginlega aðeins tvö. Annað þeirra er Caffe Reggio rétt hjá Washington Square, samkomustaður menningarvita í Greenwich Village. Það er einn ekki mjög margra staða, sem hafa borð úti á gangstétt eins og á meginlandi Evrópu, enda er hverfið með evrópsku yfirbragði.

Á Caffe Reggio er unnt að fá ekta expresso, cappuccino, Vínarrjómakaffi, súkkulaði og sjö tegundir tes. Margir fara þangað í kaffi eftir kvöldverð í nágrenninu eða til að sýna sig og sjá aðra. Kaffibollinn kostaði USD 1.

(Caffe Reggio, 119 Mac Dougal Street milli West 3rd og Minetta Lane, sími 475 9557, B2)

Gianni´s

Hitt gangstéttarkaffihúsið er nálægt suðurodda Manhattan. Það er Gianni´s milli South Street Seaport og Fulton Fish Market. Þar er gott að horfa á ferðamennina, sem streyma í South Street Seaport, og bankamennina, er streyma úr Wall Street. Á Gianni´s er líka hægt að borða, en það er ekki ráðlagt í þessari bók.

(Gianni´s, South Street Seaport, 15 Fulton Street, sími 608 7300, B4)

City Lights Bar

Barir, fremur en kaffihús, eru samkomustaðir New Yorkara. Tveir þeirra eru einkum kunnir og skemmtilegir vegna þess, að þeir eru uppi í turnum. Annar er City Lights Bar í nyrðri turni World Trade Center.

Þar er þægilegt og gott að gefa sér langan tíma til að sötra úr glasi og virða fyrir sér frábært útsýnið yfir bankaturnana í Financial District til Brooklyn handan East River. Af barnum er gengið í þrjú fræg veitingahús, sem getið er framar í þessari bók.

(City Lights Bar, 1 World Trade Center, 107. hæð, sími 938 1111, A2)

Top of the Sixes

Hinn turnbarinn er í verzlunarhverfi miðbæjarins með útsýni yfir 5th Avenue og turnana austan hennar. Það er Top of the Sixes, þar sem gott er að hvíla lúin bein í verzlunarferðum og njóta útsýnisins fyrir verð eins drykkjar. En minna er varið í matinn í veitingasalnum til hliðar.

(Top of the Sixes, 666 5th Avenue við 53rd Street, sími 757 6662, lokað sunnudaga, F3)

Soho Kitchen

Margir eru barirnir í listamannahverfinu SoHo og einkennast sumir af áherzlu á létt vín umfram sterka drykki, enda virðast listamenn vera meiri smekkmenn á borðvín en flestar aðrar stéttir.

Einna kunnastur er Soho Kitchen and Bar, þar sem boðin eru hvorki meira né minna en 110 borðvín í glasatali, bæði í 5 únzu glösum og 2,5 únzu vínsmakkglösum og er það mesta úrval borgarinnar. Þar má finna margt gullið, bæði bandarískt og evrópskt. Mikill afsláttur er veittur þeim, sem vilja smakka á mörgum tegundum innan sama vínflokks, til dæmis átta tegundir kalifornískra chardonnay-vína. Þá eru pizzurnar ágætar og kosta USD 7-8.

Gestir sitja á barstólum hringinn í kringum feiknarlangan bar og við borð á upphækkuðum pöllum beggja vegna barsins.

(Soho Kitchen & Bar, 103 Greene Street milli Prince og Spring Streets, sími 226 9103, opið fram á nótt, B2)

Wine Bar

Annar ljómandi góður vínbar í næsta nágrenni í Soho heitir einfaldlega Wine Bar, vel í sveit settur við hliðina á listaverkasal Leo Castelli og andspænis galleríi Mary Boone.

Veitingasalurinn er afar notalegur, innréttaður í gömlu pakkhúsi, þétt skipaður stólum umhverfis lítil borð. Plaköt skreyta nakta múrsteinsveggi. Þarna er kjörið að hvílast milli heimsókna í listaverkasali eða spjalla yfir kertaljósum að kvöldi. Vínlistinn er ógnarlangur og hefur meðal annars að geyma borðvín í glasatali. Einnig fæst ágætur ostur til að hafa með víninu.

(Wine Bar, 422 West Broadway nálægt Prince Street, sími 431 4790, opið fram á nótt, B2)

Fanelli´s

Þriðji Soho-barinn er ekki vínbar, heldur pöbb í öldnum, brezkum stíl, einn hinn allra skemmtilegasti í borginni. Það er Fanelli´s, nágranni hinna tveggja. Þetta er hundgamall bar, sumir segja frá því fyrir þrælastríð. Fyrrum var hann áningarstaður verkamanna, en nú hafa listamennirnir tekið þar völdin að mestu. Oft er þar þröng á þingi.

(Fanelli´s, 94 Prince Street við Mercer Street, sími 226 9412, lokað laugardaga og sunnudaga, B2)

Chumley´s

Í hinu góðkunna Greenwich Village er fátt um bari, sem eru eitthvað öðruvísi en aðrir og því í frásögur færandi. Við fundum aðeins einn, en á móti kemur, að hann er skemmtilegasti bar borgarinnar. Menn verða að vita nákvæmlega heimilisfang hans, því að hann er ómerktur að utan til þess að fæla frá viðskiptavini. Hann er hverfiskrá og hálfgerð einkakrá hinna menningarlegu og bókmenntasinnuðu íbúa Greenwich Village.

Fyrst er gengið upp hálfan stiga og síðan aftur niður hálfan stiga og þá blasir við dimm kráin, þar sem tölugir gestir sitja þröngt við lítil borð úr massífum við, djúpt rist fangamörkum og öðru krafsi. Kápur frægra bóka eftir fastagesti staðarins prýða veggina.

(Chumley´s, 86 Bedford Street nálægt Commerce Street, sími 243 9729, A2)

P. J. Clarke´s

Frægasti bar miðbæjarins er P. J. Clarke´s í gömlu, tveggja hæða húsi, sem kúrir á götuhorni undir einum skýjakljúfa borgarinnar. Eigandi barsins, Daniel Lavezzo, neitaði að selja húsið, þegar allar lóðir reitsins voru seldar undir skýjakljúfinn. Honum eru sífellt boðnar hærri fjárhæðir, en hann lítur ekki við þeim.

Innan dyra er langur bar og fáeinir kollar á stóru gólfi fyrir framan. Fyrir innan eru nokkur borð. Allar innréttingar eru úr við og orðnar þreytulegar af aldri, sem og speglarnir. Á annatímum er margföld röð gesta við barinn og drekka þeir flestir bjór. P. J. Clarke´s er mikið notaður til að hittast á þeim tíma, sem Bandaríkjamenn kalla hamingju-klukkutímann eftir vinnulok og fyrir heimferð. Þá er staðurinn troðfullur út að dyrum.

(P. J. Clarke´s, 915 3rd Avenue/55th Street, sími 355 8857, opið til 04, F4)

Maxwell´s Plum

Í miðbænum eru nokkrir barir, sem eru notaðir af fólki, er leitar að stundarfélaga af hinu kyninu, eins og konar tilhleypingarstofnanir, kallaðar “singles bars”. Kunnastur þeirra er Maxwell´s Plum í Upper East Side.

Í rauninni er Maxwell´s Plum veitingahús, ofhlaðið smekklitlu skrauti pjáturlofts, steindra glerlampa og glugga, koparhandriða og — veggdiska. En það er barinn í miðjunni, sem skiptir máli. Þar stendur fólk í margfaldri röð og gefur hvert öðru auga á feimnislausan hátt. Fáir eru svo innibyrgðir, að þeir séu ekki komnir í hrókasamræður við ókunnuga eftir nokkrar mínútur.
Þetta er miklu einfaldara, fljótvirkara og ódýrara en á íslenzkum skemmtistöðum og kostar minna fyllerí.

(Maxwell´s Plum, 1181 1st Avenue við 64th Street, sími 628 2100, G4)

Rúelles

Við nýju tízkugötuna Columbus Avenue í Upper West Side er bar, sem hefur orðið feiknarlega vinsæll meðal hverfisbúa. Það er Rúelles, sem raunar er veitingahús eins og Maxwell´s Plum, en mun fallegar innréttað, til dæmis með virðulegum stiga upp á svalir á annarri hæð.

Á neðra gólfi er í miðjunni bar, sem er svipuð tilhleypingastöð og á Maxwell´s Plum, en raunar enn fjörlegri, því að allir virðast tala í einu eða réttar sagt kallast á. Fólk hefur líka gaman af að koma á Rúelles, þótt það sé ekki í hugleiðingum. Forvitnir geta pantað borð uppi á svölunum til að hafa sér til skemmtunar útsýni yfir vígvöllinn.

(Rúelles, 321 Columbus Avenue við 75th Street, sími 799 5100, H1)

Michael´s Pub

Merkasti þáttur næturlífsins á Manhattan er jazzinn. Borgin tók fyrir löngu af New Orleans við hlutverki höfuðborgar jazzins í heiminum, enda er hvergi að finna fjölmennari áheyrendaskara en einmitt í þessari borg.

Erlendir ferðamenn, sem búa á miðbæjarhótelunum eiga í færri hús að venda en áður, því að búið er að rífa húsið, sem Eddie Condon´s og Jimmy Ryan´s voru í. Eftir stendur aðeins einn merkur jazzklúbbur í miðbænum, Michael´s Pub, nýlegur af nálinni og leggur áherzlu á hefðbundinn jazz.

Áheyrendur eru flestir á miðjum aldri eða ferðafólk, einkum á mánudagskvöldum, þegar Woody Allen leikur í ragtime hljómsveit.
Lágmarkskaup á veitingum voru USD 10.

(Michael´s Pub, 211 East 55th Street, milli 7th Avenue og Broadway, sími 758 2272, F2)

Blue Note

Blue Note í Greenwich Village hefur tekið völdin sem fremsta jazzbúla borgarinnar. Þar leika allir jazzistar, sem máli skipta í heiminum. Síðast þegar við vorum þar, var Herbie Mann að hætta, Sarah Vaughan að taka við, Oscar Peterson væntanlegur í næstu viku og síðan Modern Jazz Quartet.

Hin 62 ára Sarah Vaughan leyfði okkur og sir Geoffrey Howe frá Bretlandi að hlýða á feiknarlegt raddsvið sitt á fimm ára afmæliskvöldi staðarins. Stemningin var stórfengleg og gestirnir sátu því sem næst í fangi hvers annars. Mest var þó gaman, þegar blöðrurnar sprungu og lífverðirnir héldu, að verið væri að drepa brezka utanríkisráðherrann, sem lét sér hvergi bregða.
Aðgangseyrir er breytilegur, var USD 25 þetta kvöld.

(Blue Note, 131 West 3rd Street við 6th Avenue, sími 475 8592, B2)

Village Vanguard

Í meira en hálfa öld hefur litla, þrönga, hrörlega og reykjarmettaða kjallaraholan Village Vanguard norðarlega í Greenwich Village verið í fremstu röð jazzklúbba. Margir kunnir jazzistar hófu feril sinn í þessari dæmigert óræstilegu jazzholu, sem líkt hefur verið eftir um heim allan. Mest er leikinn hefðbundinn jazz. Á mánudögum gengur berserksgang sautján manna lúðrasveit Mel Lewis með söngkonunni René Manning. Okkur fannst mest til koma, að hljómsveitin og mikilfengleg söngkonan skyldu rúmast í kjallaraholunni.

Aðgangseyrir var USD 10, lágmarksveitingar USD 5. Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Village Vanguard, 178 7th Avenue South við 11th Street, sími 255 4037, A1)

Sweet Basil

Nútímajazz er einna bezt leikinn á Sweet Basil í Greenwich Village. Þetta er óvenju snyrtilegur staður af slíkum að vera, með múrsteinsveggjum og viðarþiljum, skreyttum málverkum af höfðingjum jazzins. En staðurinn er lítill eins og vera ber, þétt setinn áheyrendum. Eddie Chamblee Quartet var fyrri daginn og trompetistinn Doc Cheatham hinn síðari, er við litum inn.

(Sweet Basil, 88 7th Avenue South við Bleecker og Grove Streets, sími 242 1785, A2)

Folk City

Þjóðlagasöngur hefur löngum átt sínar höfuðstöðvar í Folk City, nágranna jazzklúbbanna í Greenwich Village. Þar var Bob Dylan uppgötvaður og þar söng Joan Baez fyrst í New York. Innréttingarnar eru orðnar þreytulegar.

Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Folk City, 130 West 3rd Street við 6th Avenue, sími 254 8449, B2)

Lone Star Cafe

Kúrekatónlistarstaður Manhattan númer eitt er Lone Star Cafe norðarlega í Greenwich Village. Þar er stunduð sveitatónlist frá Texas við hávaðasamar kringumstæður, mikla bjórdrykkju og chili-át. Bezt er að koma sér fyrir á svölunum á efri hæðinni til að hafa útsýni yfir lætin. Tvær hljómsveitir eru á hverju kvöldi.

(Lone Star Cafe, 61 5th Avenue við 13th Street, sími 242 1664, B1)

City Limits

Annar texanskur sveitastaður með hoppi og híi gervikúreka með Stetson-hatta er City Limits á sömu slóðum í Greenwich Village. Þar er nóg danspláss til að stappa niður fótunum, svo að veggirnir skjálfi.

Krítarkort eru ekki tekin gild.

(City Limits, 125 7th Avenue South við 10th Street, sími 243 2242, A1)

S.O.B.

S.O.B. þýðir ekki Son of a bitch, heldur Sounds of Brazil. Það er helzti dansstaðurinn með tónlist frá Suður-Ameríku, Mið-Ameríkueyjum og Afríku, hávaðasamur og fjörlegur staður, einkum um helgar. Þar sem S.O.B. er við suðurhlið Houston Street, telst staðurinn fremur til Soho en Greenwich Village.

(S.O.B., 204 Varick Street við West Houston Street, sími 243 4940, A2)

Ritz

Rokkið í New York er á Ritz í East Village, rúmgóðum dansstað í art decco stíl, þar sem helztu rokkarar Bandaríkjanna og Bretlands leika fyrir dansi, auk þess sem aðrar hljómsveitir eru sýndar á stórum sjónvarpsskjám. Ritz byrjar að lifna um miðnættið. Gestir eru mestmegnis ungt fólk undir þrítugu.

Krítarkort eru ekki tekin gild.

(Ritz, 119 East 11th Street við 4th Avenue, sími 228 8888, C1)

C. B. G. B. & OMFUG

Nokkru sunnar í East Village er höfuðstöð ræflarokksins á Manhattan, staðurinn með skrítna nafninu C. B. G. B. & OMFUG. Þetta er raunar fæðingarheimili ræflarokksins eða pönksins, gamalt bílaverkstæði, er hefur verið breytt í langan og dimman bar, sem er skreyttur neonljósum.

Venjulegt fólk getur haft gaman af að koma hingað eins og í dýragarð til að virða fyrir sér blá hárspjót, keðjur, hundahálsbönd og svart leður á ungu fólki, sem líður um í leiðslu undir grenjandi hávaðanum og sprautar sig í stigunum.
Krítarkort eru ekki tekin gild.

(C. B. G. G. & OMFUG, 315 Bowery við Bleecker Street, sími 982 4052, C2)

Adam´s Apple

Erfitt er að mæla með ákveðnum næturklúbbum á Manhattan, því að þeir koma og fara eins og fiðrildi. Studio 54 og Xenon héldu lengi út í miðbænum, en eru nú báðir búnir að vera. Eitt helzta diskóið, þegar við vorum síðast í New York, var Adam´s Apple í Upper East Side. Þar eru mikil þrengsli og feiknarlegur hávaði, bar niðri og dansgólf uppi. Strákar og stelpur eru á fullu við að reyna að húkka einhvern fyrir morguninn.

(Adam´s Apple, 1117 1st Avenue við 61st Street, sími 371 8650, G4)

Chippendale

Andspænis Adam´s Apple er annar næturklúbbur, sem er sérkennilegur að því leyti, að hann er einkum ætlaður konum. Saumaklúbbarnir fara þangað í hópferðir til að horfa á hálfnakta go-go stráka frá heilsuræktarstöðvum og troða með miklu flissi dollaraseðlum niður í pungbindin þeirra. Mest er þetta fyndið, en gífurlega vinsælt.

(Chippendale, 1110 1st Avenue milli 61st og 62nd Str. sími 935 6060, G4)

Palladium og Stringfellows

Veturinn 1986-1987 var franskættaði næturklúbburinn Regine´s farinn að dala og hinn mjög svo fíni og lokaði Club A búinn að vera. Tízkustaðirnir voru Palladium og hinn brezkættaði Stringfellows. En miðað við skamma meðalævi slíkra klúbba þorum við ekki að lofa, að þeir verði enn á fullu, þegar þessi bók verður notuð.

Lincoln Center

Alvörutónlistin á Manhattan er stunduð í Lincoln Center syðst í Upper West Side, þar sem nokkrar nýlegar og nýtízkulegar hallir umlykja gosbrunnatorg. Lincoln Center var reist árin 1962-1968 sem eins konar menningarlegt Akrópólis eða Kapítólum í New York til dýrðar tónlistarguðinum, hannað af ýmsum þekktustu arkitektum Bandaríkjanna í virðulegum hásúlnastíl.

Gengið er upp tröppur frá Columbus Avenue inn á torgið. Þar er á vinstri hönd New York State Theater, á hægri hönd Avery Fisher Hall og beint framundan Metropolitan Opera House. Vivian Beaumont Theater og Alice Tully Hall eru að baki Avery Fisher Hall.
Til að vita, hvað er um að vera í Lincoln Center og öðru tónlistarlífi borgarinnar, er bezt að skoða skrárnar í vikuritinu New York.

Metropolitan Opera

Óperuhús Metropolitan Opera Company er þungamiðja Lincoln Center og snýr tíu hæða súlum og fimm rómönskum glerbogum að torginu. Inn um gluggana má sjá tvær litskrúðugar lágmyndir eftir Marc Chagall, teppalagt anddyri og virðulegar tröppur.

Met eins og það er kallað tekur 3.788 manns í sæti. Talið er eitt helzta hástigið á ferli óperusöngvara að koma hér fram. Óperutíminn er frá miðjum september til apríl. Hinn hluta ársins hafa aðrir höllina til umráða, einkum balletflokkar á borð við American Ballet Theater og Royal Ballet.

Þegar við vorum síðast í New York bauð Met upp á Valkyrjurnar eftir Wagner, Aida eftir Verdi, Manon Lescaut eftir Puccini og Madama Butterfly eftir sama höfund.

(Metropolitan Opera, West Side, Lincoln Center, símar 362 6000 og 799 3100, G1)

New York State Theater

Hitt óperuhúsið við torgið, New York State Theater, er heimili New York City Ballet og New York City Opera. Ballettinn ræður ríkjum nóvember-febrúar og apríl-júlí, en óperan júlí-nóvember. Við framhlið hússins eru fjögur pör sjö hæða súlna og inni í anddyrinu eru fjórar hæðir til gyllta loftsins, allar með svölum. Höllin tekur 2.279 manns í sæti.

Þegar við vorum síðast í New York var Kristján Jóhannsson að koma þar fram í fyrsta sinn við mikinn orðstír gagnrýnenda. Það var í hlutverki Rodolfo í La Bohéme eftir Puccini. Önnur verk á skránni voru Madama Butterfly eftir sama höfund, Brúðkaup Figaros eftir Mozart, Perluveiðimennirnir og Carmen eftir Bizet, Norma eftir Bellini, Faust eftir Gounot og heimsfrumsýning á Líf og ævi Malmcolm X eftir Davis.

(New York State Theater, 150 West 65th Street við Columbus Avenue, sími 870 5570, G1)

Avery Fisher Hall

44 súlur umlykja sinfóníuhöllina Avery Fisher Hall, sem hefur verið margendurbyggð að innanverðu til að ná réttum hljómburði, er tókst loks árið 1976 eftir tíu ára strit. Höllin tekur 2.742 manns í sæti. Hún er heimili New York Philharmonic, sem hefur vertíð september-maí. Í júlí-ágúst eru haldnir ódýrir Mozart-konsertar og í september kvikmyndahátið borgarinnar.

Leonard Bernstein, Arturo Toscanini og Leopold Stokowski hafa verið hljómsveitarstjórar NY Philharmonic, en nú stjórnar þar Zubin Mehta. Þegar við vorum þar síðast, var á dagskrá frumflutningur á konsert eftir Husa og flutningur á annarri sinfóníu Schuberts og öðrum píanókonsert Liszts. Mehta stjórnaði og einleikari á píanó var Andre Vatts.

(Avery Fisher Hall, Broadway við 66th Street, sími 874 2424, G1)

Alice Tully Hall

Gengið er frá Broadway inn í Alice Tully Hall, aðalstöðvar kammertónlistar í New York, heimili Chamber Music Society of Lincoln Center, sem notar salinn, er tekur 1.096 í sæti, október-maí. Í september er hann notaður fyrir kvikmyndahátið borgarinnar. Á sumrin er Alice Tully Hall notað af gestkomandi listamönnum.

(Alice Tully Hall, 1941 Broadway við 66th Street, sími 362 1911, G1)

Carnegie Hall

Áður en Lincoln Center kom til sögunnar var Carnegie Hall helzta tónlistarhöll borgarinnar, vel í sveit sett í miðbænum, rétt sunnan við Central Park. Þar leika heimsfrægar sinfóníuhljómsveitir og jafnfrægir einleikarar, ekki aðeins sígilda tónlist, heldur einnig jazz. Tóngæðin eru nánast fullkomin í 2.784 manna salnum.

Þegar Lincoln Center komst í gagnið, stóð til að rífa Carnegie Hall. Ekki varð af því og nú hefur húsið verið endurnýjað að frumkvæði hóps borgarbúa undir forustu fiðluleikarans Isaac Stern. Því verki var einmitt að ljúka, þegar við vorum síðast í New York.

(Carnegie Hall, 154 West 57th Street við 7th Avenue, sími 247 7459, F2)

Broadway

Leikhúshverfið á Manhattan er kennt við Broadway, sem sker hverfið sundur að austanverðu. Á þessu svæði í kringum Times Square eru 42 leikhús. Þetta er mesta leikhússvæði heims, næst á undan Covent Garden svæðinu í London. Í heila öld hefur það verið þungamiðja bandarískrar leiklistar. Þar eru beztu leikararnir, leikstjórarnir og gagnrýnendurnir. Og þar eru flestir áhorfendurnir.

Á síðari árum hefur Broadway vikið fyrir Covent Garden með þeim hætti, að sífellt er meira um, að verk, sem fyrst slá í gegn í London, séu síðan flutt yfir hafið til New York. Einnig er áberandi, hvernig dýrir söngleikir hafa orðið sífellt fyrirferðarmeiri á Broadway. Miðaverð er orðið þar mjög hátt, oft um USD 45. En vinnubrögð eru alltaf jafnvönduð á leiksviðinu, jafnvel í gamanleik á borð við Blúndur og blásýru, sem við sáum þar síðast.

Til að komast að raun um, hvað er á dagskrá í leikhúsunum 42, er bezt að skoða skrána í vikuritinu New York. Á miðju Father Duffy Square, sem er norðurendi Times Square, er TKTS, þar sem hægt er að fá leikhúsmiða fyrir hálfvirði á sýningardegi. Þar eru oft langar biðraðir. Nánari upplýsingar fást í síma 354 5800. Auk þess eru púrtnerar hótela lagnir við að útvega miða að hverju sem er.

Off Broadway

Nútímaleiklist er meira stunduð í því, sem kallað er Off Broadway, um 200 leikhúsum úti um allan bæ, flestum þó í Greenwich Village. Þar eða í London eru frumflutt verk, sem síðar eru tekin upp á Broadway. Þessi þróun hefur nú staðið í tæpa fjóra áratugi. Við sáum síðast söngleikinn Angry Housewives í Minetta Lane leikhúsinu, frábæra sýningu aðeins átta leikara.
Í vikuritunum New York og Village Voice má sjá, hvað helzt er á boðstólum í Off Broadway. Annars er sú leiklist orðin svo sígild, að farið er að tala um Off Off Broadway sem staðinn, þar sem hlutirnir gerist.

Listsýningasalir

Í engri grein menningar eru yfirburðir Manhattan meiri en í myndlist. París hefur fyrir löngu orðið að víkja úr forustuhlutverkinu. Það er á Manhattan, sem allir myndlistamenn heimsins vilja sýna, enda eru þar peningarnir, sem borga listaverkin. Þar slá í gegn óþekktir listamenn og selja verk sín fyrir stjarnfræðilegar upphæðir. Hefðbundnu salirnir eru flestir við 57th Street, en nútímalistin blómstrar í sýningarsölunum í SoHo og nú orðið einnig í TriBeCa. West Broadway og Wooster Street eru aðalgötur þessarar greinar.

Leo Castelli

Frægasti sýningarsalur nútímalistar, einkum tjástefnu og popps, í heiminum er Leo Castelli við West Broadway í SoHo og hefur verið svo í aldarfjórðung. Castelli hefur á þessum tíma kynnt listamenn, sem hafa síðan orðið viðurkenndir meistarar nútímans, svo sem hinn nýlátna Andy Warhol, Roy Lichtenstein, Frank Stella, Jasper Johns og Robert Rauschenberg. Flestir þeirra halda tryggð við Castelli.

Þegar við litum síðast við hjá Castelli var þar sýning, sem hét The Law and Order Show, en einnig voru þar verk eftir Rauschenberg.

(Leo Castelli Gallery, 420 West Broadway milli Prince og Spring Streets, sími 431 5160, lokað sunnudaga, B2)

Mary Boone/Michael Werner

Andspænis Castelli við West Broadway er annar salur, Mary Boone/ Michael Werner Gallery, sem hefur átt vaxandi gengi að fagna á þessum níunda áratug aldarinnar. Mary Boone er raunar lærisveinn Castellis. Hún er mikil samkvæmiskerling og hefur komið á framfæri umtöluðum og umdeildum listamönnum á borð við Rainer Fettig, David Salle og Julian Schnabel.

Þegar við heimsóttum Boone síðast, var þar sýning á punktaverkum eftir Niele Toroni.

(Mary Boone/Michael Werner Gallery, 417 West Broadway milli Prince og Spring Streets, sími 966 2114, lokað sunnudaga, B2)

Paula Cooper

Þriðji sýningarsalurinn, sem hefur ráðið miklu um þróun nútímalistar á síðustu árum, er salur Paula Cooper við gallería-götuna Wooster Street. Hún er kunn af því að taka mikla áhættu og hefur kynnt listamenn á borð við Robert Mangold og Jonathan Borofsky.

(Paula Cooper Gallery, 155 Wooster Street milli West Houston og Prince Streets, sími 674 0766, lokað sunnudaga, B2)

Dia Art

Dia Art er listastofnun, sem rekur fjóra sýningarsali í SoHo, í nágrenni við þá þrjá, sem að ofan er getið. Hinir tveir kunnustu þeirra eru New York Earth Room, 141 Wooster Street (B2) og The Broken Kilometer, 393 West Broadway (B3), hvorir tveggja með síma 473 8072, lokaðir sunnudaga. Þeir eru mjög óvenjulegir, vægast sagt.

PACE

Einn kunnasti hinna hefðbundnu sýningarsala við 57th Street í miðbænum og um leið einn hinn kunnasti í heimi er PACE, óvenjustórt fyrirtæki með sali á tveimur hæðum. Þar er meðal annars höndlað með Pablo Picasso, Jean Arp, Ad Reinhardt, Isamu Noguchi og Mark Rothko.

(PACE Gallery, 32 East 57th Street milli Madison og Park Avenues, 2. og 3. hæð, sími 421 3292, lokað sunnudaga, F3)

Sidney Janis

Um langan aldur hefur öldungurinn Sidney Janis verið einn áhrifamestu listkaupmanna borgarinnar. Hann hélt á sínum tíma sýningar, sem gerðu de Kooning, Pollock, Rothko, Duchamp og Leger fræga í Bandaríkjunum. Um hans hendur hafa farið mörg þau verk, sem eru í heiðursrými bandarískra listasafna. Hann kom dada-stefnunni á framfæri á sínum tíma.

(Sidney Janis Gallery, 110 West 57th Street milli 6th og 7th Avenues, 6. hæð, sími 586 0110, F2)

Blum/Helman

Blum/Helman er ekki gamalt fyrirtæki í hettunni, en það hefur náð árangri í að sýna verk þeirra núlifandi listamanna, sem hafa orðið frægir á síðustu árum í sýningarsölum suður í SoHo. Einnig er reynt að koma á framfæri óþekktum listamönnum.

(Blum/Helman, 20 West 57th Street milli 5th og 6th Avenues, 2. hæð, sími 245 2888, lokað sunnudaga, F3)

Robert Miller

Við bætum Robert Miller við, þótt hann sé ekki við 57th Street, heldur rétt við hornið á 5th Avenue, af því að hann hefur einn glæsilegasta sýningarsal borgarinnar, nýlegan af nálinni, þar sem bæði er sýnt gamalt og nýtt, alltaf jafn áhugavert.

(Robert Miller Gallery, 724 5th Avenue milli 57th og 56th Streets, sími 246 1625, lokað sunnudaga og mánudaga, F3)

Söfnin

New York er ásamt London önnur af tveimur mestu safnaborgum heimsins. Í myndlist er hún tvímælalaust mesta safnaborg heimsins, þótt til séu frægari nöfn í Evrópu: Louvre, Uffizi og Prado. En hvað jafnast á við Museum of Modern Art í list 20. aldar? Ekki neitt.

Museum of Modern Art

Að ganga í gegnum Museum of Modern Art er eins og að fletta kynningarbók um listaverk 20. aldar. Við könnumst við málverkin af myndum úr bókum. MoMA, eins og safnið er kallað, hefur einmitt á veggjum sínum frægustu einkennisverk heimsmeistarnna í myndlist.
Samt er MoMA ekki nema rúmlega hálfrar aldar gamalt safn. Það var nýlega stækkað um helming, svo að stoltarverk þess njóta sín betur en áður. Tímabilið, sem safnið spannar bezt, er 1880-1960, það er að segja blæstílinn og tjástílinn, auk hliðargreina á borð við kúbisma.

Í MoMA eru svo mörg heimsfræg verk, að þau verða ekki talin hér. Aðeins má minnast á Dansinn eftir Matisse, Ungfrúrnar frá Avignon eftir Picasso, Broadway Boogie Woogie eftir Mondrian, Christina´s World eftir Wyeth og One eftir Pollock.

Ekki má heldur gleyma, að loftkælt safnið er hin notalegasta vin fyrir þá, sem koma sveittir úr mannhafi verzlunarhverfisins í kring. Yndislegastur er höggmyndagarðurinn að baki, bezti staður borgarinnar til að hvíla lúin bein.

(Museum of Modern Art, 11 West 53rd Street milli 5th og 6th Avenues, sími 708 9500, lokað miðvikudaga, ókeypis þriðjudaga, F3)

Guggenheim Museum

Hitt fræga safn listaverka 20. aldar er líklega ekki síður kunnugt vegna hönnunar arkitektsins Frank Lloyd Wright. Hann teiknaði snigil eða spíral. Við förum upp í lyftu og göngum svo niður snigilinn. Á leiðinni lítum við inn í hliðarsali á 6., 4. og 2. hæð, sem fjalla hver um sig um ákveðið stef. Í sniglinum sjálfum eru tímabundnar sýningar. Þegar við vorum þar síðast, var verið að setja upp verk, aðallega ljósmyndir af gerningum eftir Richard Long. Mest er um Kandinsky, Mondrian, Klee, Braque og Picasso og aðra slíka, en Calder er ef til vill einna skemmtilegastur. Athugið, að safnið er ekki á bókarkortinu, því að það er norðarlega við austurhlið Central Park.

(Guggenheim Museum, 1071 5th Avenue, milli 88th og 89th Streets, sími 860 1300, lokað mánudaga, ókeypis eftir kl. 17 þriðjudaga, við H3)

Metropolitan Museum of Art

Eitt af allra stærstu söfnum heims er Metropolitan Museum of Art í austurhlið Central Park. Það á rúmlega þrjár milljónir sýningargripa. Nauðsynlegt er að skoða það eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi. Þeir, sem ætla að skoða það allt, eiga á hættu að ruglast í ríminu á rölti um endalausa röð sýningarsala.

Venjulega er boðið upp á gagnmerkar sýningar tímabundnar. Þegar við vorum þar síðast, var verið að loka sýningu um upphaf nútímalistar í Sovétríkjunum og opna sýningu á fornum listmunum Landsins helga.

Metropolitan er listasafn, nytjalistasafn og fornminjasafn. Einna athyglisverðasti hlutinn er egypzka fornminjadeildin, þar sem meðal annars hefur verið endurreist musterið í Dendur. En líklega er vikuverk að skoða allt.

(The Metropolitan Museum of Art, 5th Avenue við 82nd Street, sími 879 5500, lokað mánudaga, aðgangseyrir að eigin vali, H3)

Frick Collection

Við 5th Avenue, þar sem hún liggur meðfram Central Park, eru fleiri kunn söfn en Guggenheim og Metropolitan. Frick Collection er mjög vinsælt safn, því að það er í heimilislegum stíl. Þar hanga listaverk eldri tíma fyrir ofan virðuleg húsgögn í gömlu höfðingjasetri.

(Frick Collection, 1 East 70th Street við 5th Avenue, sími 288 0700, lokað mánudaga og sunnudagsmorgna, H3)

Cooper-Hewitt Museum

Rétt hjá Guggenheim-safninu er nytjalistasafnið Cooper-Hewitt, meðal annars með teikningum eftir Rembrandt og Dürer

(Cooper-Hewitt Museum, 2 East 91st Street við 5th Avenue, sími 860 6898, lokað sunnudagsmorgna, ókeypis eftir kl.17 þriðjudaga, við H3)

Whitney Museum

Helzta safn bandarískrar listar er á svipuðum slóðum, þótt það sé ekki við 5th Avenue sjálfa. Það er Whitney Museum of American Art, mikið listaverk út fyrir sig, hannað af Marcel Breuer og Hamilton Smith og minnir dálítið á miðaldakastala, þótt það sé í rauninni nýtízkulegt.

Skemmtilegastur er höggmyndagarðurinn að húsabaki. Þar og í glersal kjallarans eru samtals um 50 verk eftir Alexander Calder. Safnið hefur löngum verið umdeilt, því að stjórnendur þess hafa oft tekið mikla áhættu í kaupum á listaverkum. Það er eitt hið athyglisverðasta í borginni.

(Whitney Museum of American Art, Madison Avenue við 75th Street, sími 249 7575, lokað sunnudagsmorgna, ókeypis þriðjudaga, H3)

American Mus. of Natural History

Náttúrugripasafn borgarinnar er hinum megin við Central Park, í austurhlið Upper West Side. Það er afar stórt um sig og er ein allsherjar ruslakista hinna fróðlegustu hluta, allt yfir í 30 metra langt líkan af hval. Safngripirnir eru rúmlega 34 milljónir talsins.

(American Museum of Natural History, Central Park West við 79th Street, sími 873 4225, ókeypis eftir kl. 17 föstudaga og laugardaga, H1/2)

1988

© Jónas Kristjánsson

London gisting

Ferðir

Í hverjum áningarstað er gisting frumþörf ferðamannsins. Ef við búum ekki hjá vinum, eru hótelin hið fyrsta, sem við þurfum á að halda í ókunnri borg. Við byrjum því leiðsögnina um London á hótelunum.

Ensk hótel eru yfirleitt hreinleg og hafa allan búnað í lagi. Sjálfsagt þykir orðið, að baðherbergi fylgi hverju herbergi. Hér verður aðeins vikið að gistingu, þar sem rykugur ferðamaður getur þvegið sér í eigin baði.
Við setjum einnig það skilyrði, að sjónvarpstæki sé í herberginu, því að fjögurra rása brezka sjónvarpið er gott. Í öllum tilvikum, nema tveim, setjum við líka það skilyrði, að sími sé í herberginu.

Ennfremur viljum við, að þreyttir ferðamenn hafi um nætur sæmilegan svefnfrið í herbergjum sínum. Síðast en ekki sízt finnst okkur nauðsynlegt, að hótelið sé í miðborginni, svo að ekki þurfi að verja miklum tíma í hótelferðir.

Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynzt okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, allt frá GBP 25 fyrir tvo með morgunverði, upp í GBP 220 fyrir tvo án morgunverðar. Öll prófuðum við vorið 1987 til öryggis, því að allt er í heiminum hverfult.

Við prófuðum líka önnur hótel, sem við getum ekki mælt með, af því að okkur fannst þau ekki standast samkeppni við hin, hvert í sínum gæðaflokki.

Royal Trafalgar

Hótelið “okkar” í London er Royal Trafalgar, einkum af því að það er nákvæmlega í hjarta borgarinnar, milli torganna Trafalgar og Leicester. Hér mætast leikhús- , bíó- og veitingahverfin Covent Garden í austri og Soho í norðri, svo og verzlanahverfin St. James´s og Mayfair í vestri og loks stjórnmálahverfið Westminster í suðri.

Héðan er gott að skreppa stytztar leiðir til allra átta, til skoðunar eða í búðir á daginn og í leikhús, bíó eða veitingastofur á kvöldin. Öll borgin liggur að fótum okkar. Ekkert mál er að skreppa hingað oft á dag til að hvíla lúin bein í rólegri hliðargötu, þangað sem hávaði umferðarinnar nær lítt.

Hótelið hefur 108 herbergi á nokkrum hæðum í nýlegu húsi við hlið Þjóðlistasafnsins. Anddyri, móttaka og setustofa eru afar viðkunnanleg, svo og ölstofa í hefðbundnum stíl. Starfsliðið er alúðlegt, svo sem hæfir litlu hóteli. Það veitir þjónustu allan sólarhringinn og man nöfn ýmissa íslenzkra vildargesta.

Herbergi nr. 409 snýr út að safninu. Það er snyrtilega búið samræmdum húsbúnaði, sem var örlítið byrjaður að þreytast, þykku teppi og aðlaðandi veggfóðri. Þetta hlýlega herbergi er þögul vin í skarkala heimsborgarinnar. Baðherbergið er fullnægjandi, en ekki flísalagt að fullu og hafði helzt til kraftlitla sturtu.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 85 án morgunverðar.

(Royal Trafalgar, Whitcomb Street, sími 930 4477, telex 298564, E2)

Drury Lane

Annað uppáhaldshótel okkar er Drury Lane, í norðurenda Covent Garden hverfis. Það liggur jafn vel og Royal Trafalgar við leikhúsum og veitingastofum, en heldur lakar við verzlunum. Það er glæsilegra og dýrara, en veitir Flugleiðafarþegum sérstök vildarkjör.

Þetta er nýtízkulegt háhýsi í götuþröngum hluta Covent Garden, aðeins hundrað metra frá höllinni, þar sem söngleikurinn Cats hefur verið sýndur. Það er innréttað hátt og lágt af sérstökum myndarbrag og er vel við haldið.

Setustofan með reyrhúsgögnum í anddyri er óvenju notaleg af hótelstofu að vera. Aðlaðandi gróður og grænir litir einkenna hana. Vingjarnlegt starfslið er til reiðu 24 stundir á dag.

Herbergi nr. 618 er dæmigerður fulltrúi hinna 130 herbergja hótelsins. Þar er sami reyrinn og grænleiti blærinn og í setustofunni. Allur búnaður í herbergi og á baði var í fullkomnu lagi, raunar eins og ónotaður væri. Og vandaðri verða herbergin ekki á dýrustu hótelum. Lítið heyrist af stórborgarhávaða, en útsýni er líka lítið. Hægt er að panta herbergi með góðu útsýni til City.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 84.

(Drury Lane, 10 Drury Lane, sími 836 6666, telex 8811359, E1)

Ladbroke Park Lane

Þriðja óskahótelið okkar er hið litla 71 herbergis Ladbroke Park Lane, sem kúrir yfirlætislaust en virðulega í húsasundi að baki Hilton-turnsins í suðurhorni Mayfair-hverfis. Það er vel í sveit sett til verzlunar, en heldur síður til skemmtanalífs í samanburði við fyrri hótelin tvö. Gamla vinin Shepherd Market er rétt á bak við hótelið.

Marmaragólf og þægilegir hægindastólar í anddyri gefa strax tóninn, ásamt alúðlegu starfsliði, sem veitir herbergisþjónustu allan sólarhringinn. Auðvelt er að fá leigubíl með því að ganga 200 metra að anddyri Hiltons.

Innréttingar á fremur litlu herbergi nr. 202 eru nýlegar og einkar heimilislegar, þótt ekki sé smíðin úr massífri furu beinlínis vönduð á íslenzkan mælikvarða. Fullflísað baðherbergi með marmaragólfi var einkar vel búið, nema hvað handklæðin voru ekki af nægilegri Ameríkustærð og reykglerið í speglinum var ekki nógu gott. Lítil truflun er af strjálli umferð um götusundið, sem liggur að hótelinu.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 120 að meginlands-morgunverði inniföldum.

(Ladbroke Park Lane, Stanhope Row, sími 493 7222, telex 291855, C3)

Berkeley

Bezta hótel heimsborgarinnar og hugsanlega Vesturlanda er Berkeley, þótt það sé tæpast eins dýrt og Dorchester og Claridges. Það er eina fína hótelið í borginni, sem er nýlega reist, árið 1972, raunar eitt síðasta lúxushótel Evrópu.

Strax á marmaragólfi anddyrisins fundum við, að þetta er annar heimur en úti fyrir. Það líkist raunar tæpast hóteli, því að mjúkmálir ungherrar í einkennisbúningi bankastjóra buðu okkur til sætis við forngripa-skrifborð, meðan gengið var frá formsatriðum.

Hér er síðasta vígi brezka aðalsins. Engir olíufurstar voru sjáanlegir og mjög fáir Bandaríkjamenn. Allir gestir gengu um í klæðskerasaumuðu og töluðu Oxford-ensku. Frábærlega háttprúðir starfsmenn mundu hafa lyft annarri augabrúninni, ef þeir hefðu séð bindislausan kraga eða myndavél á maga.

Anddyri og myndarleg setustofa eru klædd viðarþiljum og bera gulbrúna, stílhreina litatóna, svo og kristalskrónur í lofti. Barinn er á tveimur hæðum. Veitingasalirnir tveir eru í hópi sárafárra hótelsala í London, sem bjóða frambærilegan mat. Og uppi á þaki er snotur innisundlaug með gufubaði.

Herbergi nr. 329 hefur útsýni yfir í Hyde Park. Það er afar gott, stílhreint, stórt og notalegt. Þarna ríkir kyrrð, þótt þung umferð á Knightsbridge sé beint fyrir neðan. Baðherbergið er stórt, hlaðið flísum og marmara og gnægð stórhandklæða.

Berkeley er fremur lítið hótel, 152 herbergja. Það er nyrzt í Belgravia hverfi, þar sem það mætir hverfunum Knightsbridge og Mayfair, vel í sveit sett til innkaupa í fínum og dýrum búðum.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 220 án morgunverðar og er hið dýrasta í borginni.

(Berkeley, Wilton Place, sími 235 6000, telex 919252, B3)

Connaught

Virðulegasta hótel borgarinnar og sennilega hið næstbezta á eftir Berkeley er Connaught. Svo fínt er það, að meðmæli þarf til að komast inn, eins og raunar á Claridges. Munurinn er, að þar sjást Bandaríkjamennirnir í skræpufötum með myndavélar, en hér eru þeir í siðmenntuðum búningi.

Lúxusinn er yfirlætislaus, hæglátur og dálítið stirðlegur, en fullkomlega virkur. Aldrað og kurteist starfslið kann starf sitt út í fingurgómana. De Gaulle bjó hér á stríðsárunum, enda er dvölin hér eins og að vera gestur á vel reknum herragarði.

Setustofan skartar viktoríönskum gyllingum og gifsflúri yfir fornlegum húsbúnaði, sem ekki myndar samræmda heild. Notalegastur er barinn með eikarinnréttingu og veiðiminjagripum. Auk lyftanna liggur fallega massífur eikarstigi upp til herbergisganganna, sem njóta ferskra blómaskreytinga.

Herbergi nr. 223 er stórt og innréttað í gulum litum. Allur húsbúnaður er gamall og smekklegur. Speglar eru úti um allt. Baðherbergið er ekki nýtízkulegt, en fullkomlega búið tækjum og hlaðið risastórum handklæðum.

Með því að þrýsta á hnapp, fékkst þvegið og pressað af manni á skammri stund, svo ekki sé talað um hámark brezks unaðar, að fá í morgunmat í rúmið Kedgeree, bezta plokkfisk heimsins.

Ekki spillir fyrir Connaught, að það státar af einu af allra beztu veitingahúsum borgarinnar. Er þess sérstaklega getið í viðeigandi kafla þessarar bókar (bls. 28).

Hið litla, 90 herbergja hótel, er nokkurn veginn í miðju Mayfair, hverfi virðulegra verzlana, dýrra íbúða og lokaðra spilavíta. Og það tekur ekki einu sinni gild amerísk krítarkort.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 117 án morgunverðar, sem er gjafverð á svona virðulegu hóteli. Plokkfiskurinn kostaði GBP 4,50 á mann að auki.

(Connaught, Carlos Place, sími 499 7070, án telex, C2)

Stafford

Berkeley og Connaught eru betri en Dorchester og Claridges, sem eru betri en Ritz og Savoy. En bezta herbergið höfum við fengið á Stafford, sem er dálítið lægra í verði en fyrrgreind frægðarhótel, önnur en Connaught.

Herbergi nr. 605 er stórt og ríkulega búið húsgögnum, þar á meðal verðmætum forngripum. Þægilegt veggfóður fer notalega saman við innanstokksmuni. Skápar og töskupláss eru úr augsýn til trufla ekki þá stemmningu, að betra sé að liggja hér í leti en fara að gera eitthvað úti í bæ. Jafnvel baðherbergið er svo aðlaðandi, að það kallar á langdvalir.

Stafford er við enda mjórrar blindgötu í fína klúbbahverfinu St James´s. Þar er alger friður, aðeins steinsnar frá ys og þys St James´s Street og Piccadilly. Í sömu götu er jafn friðsælt og lítið Dukes-hótel, sem er heldur síðra, af því að herbergin þar eru minni.

Stafford rúmar 60 herbergi á sex hæðum ofan við jarðhæðina, sem hefur þægilega setustofu og notalegan bar, er opnast út í steinlagt blómaport. Hótelið er svo lítið, að það minnir á sveitasetur, þar sem þjónusta er á hverju strái.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 133 án morgunverðar.

(Stafford, St James´s Place, sími 493 0111, telex 28602, D3)

May Fair

Þeir, sem búa á May Fair, þurfa ekki nauðsynlega að fara úr húsi til að hafa ofan af fyrir sér, því að leikhús, bíó og næturklúbbur eru undir sama þaki. Enda er hótelið vinsælt meðal leikara og skemmtikrafta, sem stundum sitja hér á viktoríönskum barnum innan um fjólublátt pluss og skemmtilegar stungur frá þriðja tug aldarinnar. Anddyrið rúmar þægilega setustofu, marmarasúlur, áhrifamikinn krómhringstiga og glæsta kristalskrónu í lofti.

Eins manns herbergið nr. 664 á þessu 391 herbergis hóteli er notalegt og hlýlegt. Dökkur harðviður er í snyrtilegu samræmi við flauelsklæddan hægindastól í Regency-stíl, myndastyttulampa og tvo kringlótta snyrtispegla. Þessu fylgir fullkomlega búið og flísalagt baðherbergi.

May Fair er í sunnanverðu Mayfair hverfi, tæplega 200 metra frá Piccadilly og í aðeins 100 metra fjarlægð frá Langan´s Brasserie (bls. 28), þar sem fræga fólkið snæðir.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 150 án morgunverðar, hefur hækkað mjög að undanförnu.

(May Fair, Stratton Street, sími 629 7777, telex 262526, D2)

Selfridge

Í næsta verðflokki fyrir neðan koma helzt fjögur hótel til greina. Eitt er Selfridge, sem er aftan samnefndrar stórverzlunar við Oxford Street, svo að kaupaglaðir þurfa ekki að fara úr húsi í heimsborginni. Hótelið veitir velþegna hvíld eftir amstur búðaferða.

Ofan við skemmtilegt anddyrið eru almennir salir, svo sem sérdeilis notaleg setustofa með leðurstólum, sedrusvið og marmara, ennfremur bar með steypujárnsarni og loftbitum, sem minnir á fyrri tíma. Herbergin eru 298 talsins.

Hávaðinn frá Oxford Street heyrist ekki inn í herbergi nr. 509. Það er smekklega búið húsgögnum í hefðbundnum stíl, þar sem öllu er haganlega fyrir komið. Baðherbergið er nýtízkulegt og flísalagt í hólf og gólf.
Tveggja manna herbergi kostaði GBP 125 án morgunverðar.

(Selfridge, Orchard Street, sími 408 2080, telex 22361, C1)

Holiday Inn

Annað meðmælahótelið í þessum verðflokki er eitt Holiday Inn hótelanna, 217 herbergja turn, rétt að baki stórverzlunar Harrods í Knightsbridge. Það er mun betra en önnur hótel sömu keðju í London og eitt af sjaldgæfum dæmum um, að hótel alþjóðlegra hringja hafi hagstætt hlutfall verðs og gæða.

Þetta er eitt sárafárra hótela í miðborginni, sem býður upp á sundlaug. Hún er bæði undir þaki og beru lofti, eftir veðri hverju sinni. Með húsbúnaði og regnskógaplöntum er búið til suðurhafseyja-andrúmsloft við laugina og í veitingasalnum yfir henni.

Herbergi nr. 705 er rúmgott og bjart, með góðu útsýni. Húsbúnaður er hinn vandaðasti, svo og búnaður í baðherbergi, sem er þó í þrengsta lagi. Hér er kælibar, mun þægilegra fyrirbæri en misjafnlega hraðvirk herbergisþjónusta hinna dýrari hótela. Þetta eru Evrópumenn að byrja að læra af bandarísku hótelkeðjunum.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 135 án morgunverðar.

(Holiday Inn, Sloane Street, sími 235 4377, telex 919 111, B4)

Goring

Milli Buckingham Palace og Viktoríustöðvar er enn eitt lúxushótelið, en mun ódýrara en þau, sem nefnd voru fyrr í þessum kafla. Það er Goring, lítið og rólegt 100 herbergja hótel, sem státar af að hafa verið fyrst í heimi til að taka upp bað og miðstöðvarofn í hverju herbergi. Allt er hér tandurhreint og öllu vel við haldið.

Hótelið ber gamaldags virðuleikabrag, sem endurspeglast í kurteisu og þægilegu starfsliði. Rúmgóðar setustofur snúa út að friðsælum bakgarði. Rétt er að panta herbergi, sem snýr að garðinum, því að þar er kyrrð meiri en að framanverðu.

Herbergi nr. 116 er stórt og gott, með vönduðum húsbúnaði og stóru baðherbergi. Við héldum fyrst, að handlaugina vantaði, unz við tókum eftir, að hún sneri öfugt, inn í herbergið, og var þar í eins konar skáp. Stílhreinir pastellitir mynduðu gott samræmi í herberginu, a.m.k. meðan handlaugarskápurinn var lokaður.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 105 án morgunverðar.

(Goring, 15 Beeston Place, sími 834 8211, telex 919166, C4)

Rembrandt

Við ljúkum ferðinni milli dýru lúxushótelanna á Rembrandt, 190 herbergja viktoríönsku hóteli, andspænis Victoria & Albert Museum og vísindasöfnunum í South Kensington, svo og aðeins 500 metra frá Harrods og öðrum búðum Knightsbridge hverfis.

Hótelið hefur verið endurnýjað og ljómar á nýjan leik. Rúmgóðir salirnir niðri eru í hefðbundnum stíl, en stóru gestaherbergin hafa fengið á sig nútímasvip. Ráðlegt er að panta herbergi að aftanverðu, því að umferð á aðalgötu er þung að framanverðu.

Herbergi nr. 531 er rúmgott, stílhreint og notalegt, með stóru, fullflísuðu og snyrtilegu baðherbergi.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 110 án morgunverðar.

(Rembrandt, 11 Thurloe Place, sími 589 8100, telex 295828, A4)

Durrants

Beint að baki safnsins Wallace Collection, um 500 metrum norðan við Oxford Street, er Durrants í gömlu og fallegu húsi í Regency stíl. Það er hlaðið eikarþiljum, forngripum og gömlum málverkum, — lítur út eins og brezkur karlaklúbbur, svo sem maður ímyndar sér, að hann eigi að vera.

Hótelið er lítið, 104 herbergja, og býður hinar beztu móttökur. Það liggur vel við stórverzlunum Oxford Street, en síður við skemmtanalífi Soho og Covent Garden.

Herbergi nr. 311 er fremur lítið, en vel búið í nútímalegum stíl og hefur gott baðherbergi. Það er í hinum gamla hluta hótelsins. Herbergin í yngri hlutanum eru einfaldari og lakari.

Tveggja manna herbergi með baði kostaði GBP 95, að brezkum morgunverði inniföldum.

(Durrants, 26 George Street, sími 935 8131, telex 894919, C1)

Clifton-Ford

Örlitlu austar, einnig rétt norðan við Oxford Street, jafn vel sett og Durrants gagnvart verzlunum og heldur betur gagnvart kvöldlífinu, er Clifton-Ford, ágætt nútímahótel. Það býður farþegum Flugleiða sérstök vildarkjör, sem eiginlega er alls ekki hægt að hafna.

Þetta er 228 herbergja millistærðarhótel með rúmgóðu anddyri og aðlaðandi skjaldarmerkjabar. Eins og Durrants er það friðsælt, þótt það sé nálægt verzlunargötunum. Starfsliðið er einkar vingjarnlegt og hjálpsamt.

Herbergi nr. 525 er rúmgott og þægilega útbúið, með snyrtilega flísalögðu baðherbergi. Þetta er einkar viðkunnanlegur dvalarstaður ferðalanga í London, nútímalegt og stílhreint herbergi.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 125 að meginlandsmorgunverði inniföldum og aðeins GBP 90 fyrir Flugleiðafarþega, sem hljóta að setja hótelið á toppinn í samanburði verðs og gæða.

(Clifton-Ford, 47 Welbeck Street, sími 486 6600, telex 22569, C1)

Royal Angus

Næstum því við hliðina á óskahóteli okkar, Royal Trafalgar, sem getið var fremst í hótelkaflanum, eru tvö hótel, sem unnt er að mæla með. Það stafar einkum af, að þau deila hinni frábæru staðsetningu í þungamiðju þess, sem London hefur upp á að bjóða.

Annað er Royal Angus, rétt við Leicester Square. Það er virðulegt, lítið, 92 herbergja hótel, með aðlaðandi anddyri. Herbergin eru einföld og notaleg, búin síma og sjónvarpi, eins og önnur hótel, sem hér er getið, og sómasamlegu, en ekki aðlaðandi baðherbergi.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 80 án morgunverðar.

(Royal Angus, 39 Coventry Street, sími 930 4033, án telex, E2)

Pastoria

Hitt hótelið, einnig næstum því við Leicester Square, er Pastoria, enn minna og einfaldara, aðeins 54 herbergja. Þar er friðsælt, af því að bílaumferð í kring er lítil sem engin.

Herbergin eru lítil og einföld, en hafa þó sjónvarp og síma. Baðherbergin eru fullnægjandi, en ekki skemmtileg. Verðið er eitt hið lægsta, sem hægt er að hugsa sér á frambærilegu hóteli í sjálfu hjarta London.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 80, að meginlands-morgunverði inniföldum.

(Pastoria, St Martin´s Street, sími 930 8641, telex 25538, E2)

Lamb´s

Ef fólk vill dveljast viku eða lengri tíma í London og elda meira eða minna sjálft ofan í sig, er kjörið að taka á leigu svonefnt “service flat”, sem býður lítið eldhús til viðbótar við svefnherbergi og bað.

Einna skemmtilegustu smáíbúðirnar af því tagi eru Lamb´s við rólegt gróðurtorg í næsta nágrenni Rembrandt-hótels og Victoria & Albert Museum. Það er afar fallegt hús frá Viktoríutíma, enda svo verndað af húsfriðunarreglum, að þar má ekki setja upp skilti með nafni hótelsins.

Í anddyrinu og víða í herbergjum er Lúðvíks 15. húsbúnaður. Allt er í gömlum stíl, en ákaflega vel við haldið. Eldhús og baðherbergi hafa fullnægjandi búnað. Lyfta og gufubað eru á staðnum. Herbergisþjónusta er alla daga vikunnar.

Tveggja manna, eins herbergis smáíbúð kostaði GBP 40 á dag, að meginlands-morgunverði inniföldum, en lágmarks leigutími er ein vika.

(Lamb´s, 21 Egerton Gardens, sími 589 6297, telex 24224, A4)

64 Buckingham Gate

Annað skemmtilegt smáíbúðahótel, en gerólíkt hinu, er 64 Buckingham Gate í tignarlegum turni mitt á milli hallanna Buckingham og Westminster. Þar er allt sem nýtízkulegast, en frábærast er þó útsýnið yfir heimsborgina úr heljarstórum gluggum.

Niðri er mjög aðlaðandi anddyri með blómaskrúði. Snögg lyfta flutti okkur á svipstundu upp í dýrðina, þar sem meira að segja mátti finna uppþvottavélar og þurrkara í eldhúsum. Rétt er að geta þess við pöntun, í hvaða átt eða til hvaða staða maður vill hafa útsýni. Glæsilegastar og dýrastar eru fimm herbergja toppíbúðirnar með þriggja átta útsýni.

Tveggja manna, eins herbergis smáíbúð kostaði GBP 31 á dag án morgunverðar, en lágmarks leigutími er ein vika.

(64 Buckingham Gate, 64 Buckingham Gate, sími 222 6677, telex 8954926, D4)

Grosvenor

Brezku járnbrautirnar reka sæmileg og tiltölulega ódýr hótel á járnbrautarstöðvunum Victoria og Charing Cross, bæði virðuleg að utanverðu og nægilega nútímaleg inni í herbergjunum.

Hótelið á Viktoríustöð er Grosvenor, 356 herbergja kastali frá viktoríönskum tíma. Salirnir niðri eru mikilúðlegir eins og hótelið sjálft, með hvelfingum, gifsflúri, skrautlegum súlum og glæstum stiga.

Herbergi nr. 608 er tæpast nógu stórt, enda undir súð. Það hefur voldugt blómamynztur í ábreiðum og veggfóðri. Öll þægindi í herbergi og á baði eru í góðu lagi.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 67 án morgunverðar.

(Grosvenor, 101 Buckingham Palace Road, sími 834 9494, telex 916006, C/D4)

Charing Cross

Hitt járnbrautarhótelið er Charing Cross, nokkru dýrara og þægilegra, en þó einkum mun betur í sveit sett, næstum því við Trafalgar Square. Í sölunum niðri ríkir sama viktoríanska skartið og á Grosvenor, en herbergin uppi eru í mildum nútímastíl. Í hliðarbyggingu eru lélegri herbergi.

Herbergi nr. 348 er sæmilega stórt, vel búið og með fremur stóru baðherbergi og góðu skáparými. En það er fremur kuldalegt, a.m.k. fyrir þá, sem hyggja á nokkurra daga dvöl. Herbergisþjónusta hefur verið lögð niður.
Tveggja manna herbergi kostaði GBP 67 án morgunverðar.

(Charing Cross, Strand, sími 839 7282, telex 261101, E/F2)

Y

Nútímakastalinn Y kom okkur þægilega á óvart. Þetta KFUM-hótel var opnað 1976 og hefur að geyma meira en 600 herbergi, auk glæsilegrar sundlaugar og margra annarra íþróttakosta. Andrúmsloftið niðri er eins og í æskulýðsklúbbi, enda hæfir hótelið fremur ungu fólki en rosknu. Það er aðeins um 100 metrum norðan við Oxford Street, andspænis Soho og Covent Garden hverfum.

Herbergin hafa sömu þægindi og hótelin, sem getið hefur verið hér að framan, nema síma og herbergisþjónustu. Þau reyndust vera nútímaleg og afar hreinleg. Þetta er mjög frambærileg gisting fyrir lítið fé.

Tveggja manna herbergi kostaði GBP 65 án morgunverðar og aðeins GBP 47 fyrir Flugleiðafarþega.

(Y, 112 Great Russell Street, sími 637 1333, telex 261101, E1)

Willett House

Í hjarta Chelsea á rólegum stað í rúmlega 100 metra fjarlægð frá Sloane Square er lítið, 17 herbergja hótel í viktoríönsku húsi, þar sem Nunez-hjónin ráða ríkjum, afar vingjarnlegt fólk. Sum herbergin eru með baðherbergi og öll með sjónvarpi, en ekki síma. Þau eru sæmilega innréttuð og mjög hreinleg.

Tveggja manna herbergi með baði kostaði GBP 50, að enskum morgunverði inniföldum.

(Willett House, 32 Sloane Gardens, sími 730 0634, án telex, B5)

Culford House

Annað vingjarnlegt, 21 herbergis smáhótel í nágrenninu, einnig aðeins rúmlega 100 metra frá Sloane Square, er Culford House, í næstu hliðargötu við tízkubrautina King´s Road. Það er líka í húsi frá viktoríönskum tíma, en húsbúnaður í herbergjum er nýtízkulegur. Herbergin eru rúmgóð og sum með baðherbergi. Öll eru þau með sjónvarpi og síma. Lítil umferð er um götuna fyrir framan.

Tveggja manna herbergi með baði kostaði GBP 25, að morgunverði inniföldum, eða jafnvel minna, “ef um semst” og hótelið er ekki fullt.

(Culford House, 9 Culford Gardens, sími 581 3255, án telex, B5)

Merryfield

Við erum nú komin niður i GBP 25 botninn á framboði miðborgarinnar á snyrtilegum smáhótelum, sem bjóða einkabaðherbergi og sjónvarp. Við megum þó til með að bæta einu við, þótt það hafi ekki sjónvarp í herbergjunum, en það má fá lánað.

Þetta er átta herbergja hótelið Merryfield í tíu mínútna göngufjarlægð norður frá Marble Arch, vesturenda Oxford Street. Þar ræður ríkjum hin indæla frú O´Brien, sem lætur sér annt um gesti sína. Herbergin eru lítil, en notaleg. Og baðherbergin, sem líka eru lítil, eru í fullkomnu lagi.

Þetta er sérlega hreinlegt hótel. Og munið að panta tímanlega.
Tveggja manna herbergi með baði kostaði GBP 25 með morgunverði.

(Merryfield, 42 York Street, sími 935 8326, án telex, B1)

1983 og 1988

© Jónas Kristjánsson