Um engar hliðar London getum við talað af meira öryggi en um veitingahúsin. Á því sviði er reynsla okkar lengst og mest. Þess vegna teljum við, að það hljóti að vera vel varðveitt leyndarmál, ef til voru, þegar við sömdum bókina, betri veitingastaðir en hér eru taldir, hver í sínum flokki. En í sumum tilvikum kunna aðrir að vera jafngóðir.
Fyrst segjum við frá matargerðarmusterunum fimm og einu að auki. Á þeim stöðum fæst beztur matur í London, tiltölulega dýr að vísu, en ekki eins dýr og í mörgum öðrum veitingahúsum borgarinnar.
Síðan vendum við okkar kvæði í kross og förum í ferðalag um borgina frá austri til norðurs, til vesturs og til suðurs. Um leið notum við tækifærið til að fara í ferðalag um jörðina, því að engin borg, nema hugsanlega New York, hefur meira úrval fjölbreyttrar matreiðslu frá öllum heimshornum. Við getum því kallað þann kafla: “Umhverfis jörðina á þrjátíu veitingahúsum”.
Þetta eru yfirleitt litlar veitingastofur, mikið sóttar af viðkomandi útlendinganýlendum. Þær veita raunverulega innsýn í matargerð heimamanna og um leið í hluta þjóðlífs þeirra. Þótt ekki væri nema þeirra einna vegna, er London heimsóknar virði og sparar óbeint flugfarseðla út um allan heim.
Hafa verður í huga, að hér eru eingöngu nefndir veitingastaðir í miðborginni, þeim hluta London, sem skiptir ferðamenn máli. Sakni lesendur þekktra nafna meðal matargerðarmusteranna eða þjóðlegu matstofanna, er skýringin yfirleitt sú, að við teljum þau hús ekki standa undir frægð, vera síðri en þau, sem hér eru talin.
Ennfremur þurfa lesendur að muna, að heimamönnum er mörgum kunnugt um kosti þessara matstofa. Því er ætíð ráðlegt að panta borð í síma, líka fyrir hádegisverð, svo að ekki þurfi að hrökklast frá fullu húsi inn á nálægan börger, pizzeríu eða steikhús.
Verðið er alls staðar miðað við, að farið sé “út að borða”, snæddur þriggja rétta kvöldverður fyrir tvo með einni flösku af léttu víni hússins og kaffi.
Víðast má fá mun ódýrara snarl, einkum í hádeginu, þegar margir staðir bjóða seðil dagsins. Sums staðar er því nefnt hér verð á föstum hádegisverðarseðli þriggja rétta, en þá eru ekki meðtalin drykkjarföng.
Aðalverðtalan fyrir hvert veitingahús er hins vegar að öllu inniföldu. Það verður að hafa í huga, þegar menn bera verð hér í kaflanum saman við hamborgarastaði og annað slíkt.
Í lok kaflans er fyrst skrá yfir þau af nefndum húsum, sem eru sérstaklega ódýr. Síðan er fjallað um nokkra af vínbörunum, sem eru kjörnir staðir til að fá sér létt snarl í hádegi eða að kvöldi, án þess að mikil útgjöld þurfi að fylgja.
Ma Cuisine
Bezta og langt frá því dýrasta veitingastofan í London hefur í mörg ár verið Ma Cuisine, sem tekur aðeins 30 manns í sæti. Þetta er látlaus salur með einföldum húsbúnaði og koparpönnum á veggjum. Gestir sitja þétt saman við lítil borð.
Að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara þarf til að fá sæti á kvöldin, en í hádeginu er yfirleitt hægt að komast inn, ef menn panta með nokkurra daga fyrirvara. Ekkert matargerðarmusteri í heimsborginni er svona umsetið áhugafólki um góðar veitingar og þessi hola rétt vestan við South Kensington-neðanjarðarlestarstöðina.
Eigandinn og kokkurinn er Guy Mouilleron, sem kemur frá suðaustanverðu Frakklandi og eldar hér í samræmi við svokallaða nýja línu í franskri matargerðarlist, með réttu bragði hráefna, léttum sósum og nákvæmum eldunartíma. Hann leigði út staðinn um tíma, en er nú farinn að reka hann sjálfur aftur.
Frúin eða dóttirin taka alúðlega á móti gestum með aðstoð þjóna, sem sýna ýmsa kalda forrétti, er ekki sjást á matseðlinum, einkum kæfur af ýmsu tagi. Sjálfur matseðillinn er stuttur og breytist ört.
Síðast fengum við í forrétti tvennt, sem oft sést á matseðlinum, fiskikæfu með þörungum og hörpudiskafroðu með appelsínusósu. Síðan í aðalrétti krabbafyllt kjúklingalæri með humarsósu og nautalundir með grænum pipar. Loks í eftirrétti karamellufroðu (mousse brulée) og kirsuberjakraumís. Með salati, kaffi og flösku af Moulin-a-Vent rauðvíni kostaði þetta sem svarar meðalverði staðarins.
Meðal annarra freistandi forrétta á seðlinum var heitt kjúklingalifrarsalat og lárperufroða. Meðal sjávarréttanna var smjörsoðinn silungur og vermútsoðin sólflúra. Meðal kjötréttanna var rauðvínsönd og lauk- og mintuhúðaðar lambakótilettur. Og meðal eftirréttanna auðvitað franskir ostar, mátulega þroskaðir. Allt eru þetta réttir, sem Guy Mouilleron er kunnur fyrir.
Ekki má svo gleyma úrvali af gömlu og góðu armanjaki með kaffinu fyrir þá, sem ekki hafa of létta pyngju.
Kvöldverður eða hádegisverður fyrir tvo kostaði GBP 55.
(Ma Cuisine, 113 Walton Street, sími 584 7585, lokað laugardaga og sunnudaga, A5)
Mijanou
Annað lítið, 30 sæta veitingahús, sem er í uppáhaldi hjá okkur og mörgum fleiri matargagnrýnendum, er Mijanou í nágrenni Viktoríustöðvar. Það er á tveimur hæðum, annarri fyrir reykingamenn og hinni fyrir reyklausa.
Eldhúsið er á millihæð. Þar ræður ríkjum Sonja Blech, fyrrum latínugráni, en eiginmaðurinn Neville, fyrrum endurskoðandi, stjórnar í borðsal, öfugt við það, sem venja er í franskættuðum veitingahúsum.
Neville Blech er búinn að leggja niður skeggið og nefklemmugleraugun, en tekur enn vel á móti gestum og skýrir í löngu máli innihald og meðferð réttanna í eldhúsinu. Hér er rýmra milli borða en í Ma Cuisine og því notalegra að láta tímann líða við svarta og rauða borðdúka. Eldamennskan er hefðbundnari í Mijanou, eins konar blanda af nýfranskri, sveitafranskri og austrænni.
Við prófuðum síðast í forrétti spínattertu í kotasælu og hörpudiskafroðu í engifersósu með grænum sítrónum, í aðalrétti gratíneraðar lambakótilettur og steinbítsfroðu (mousseline de loup de mer), í eftirrétti kraumísa og franska osta. Alveg eins og á Ma Cuisine var hver einasti réttur nákvæmlega eins góður og við höfðum vonað.
Aðrir kunnir og freistandi réttir á matseðlinum voru heit lynghænulifrarfroða í púrtvíni, viskífasani, nautalundir í gráðaosti, dádýrahryggur í ylliberjasósu og ostaís með plómum. Velja mátti milli hundrað víntegunda, vel valinna og margra tiltölulega ódýrra.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 55. Hádegismatseðill dagsins er mun ódýrari.
(Mijanou, 143 Ebury Street, sími 730 4099, lokað laugardaga og sunnudaga, C5)
Interlude
Þriðja matargerðarmusterið í London er Interlude í Covent Garden hverfinu, á norðurhorninu við framhlið Konunglegu óperunnar. Þessi nákvæma staðarlýsing er nauðsynleg, því að varla getur heitið, að 45 sæta veitingastofan sé auðkennd að utanverðu. Við höfum tvisvar gengið framhjá henni, þótt við hefðum rétt heimilisfang.
Interlude er á sama verði og hin tvö, sem áður er getið. Þar er mun meira lagt í húsbúnað og þjónustan er nákvæmari. Innréttingar eru ekkert líkar öðrum frönskum matstofum. Þær eru nánast norrænar, glæsilega nýtízkulegar og dálítið kuldalegar um leið. Stólarnir eru þægilegir armstólar. Engir dúkar, aðeins mottur, eru á fallegum borðum úr massífum við. Veggir eru appelsínugulir og dálítið farnir að láta á sjá, líklega vegna raka.
Jeremy O´Connor matreiðslumeistari hefur keypt staðinn af stofnandanum, Jean-Louis Taillebaud, og er aðeins búinn að reka hann í eitt ár. Honum hefur tekizt að halda honum í hópi hinna frægustu í borginni. Hann burðast ekki með langan, fastan matseðil, heldur skiptir um daglega.
Síðast fengum við í forrétti ostrutertu með sólselju og geddukæfu með saffransósu, í aðalrétti þykkvalúru og sandhverfu í rjómasósu og sólflúru í kampavínssósu. Við völdum þetta, af því að hér eru sjávarréttar taldir beztir. En á matseðlinum var einnig kálfa-, lamba- og nautakjöt.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 60. Sams konar hádegisverður fyrir tvo hefði kostað GBP 45.
(Interlude, 7 Bow Street, sími 379 6473, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, F2)
Tante Claire
Sunnarlega í Chelsea, næstum því niðri við ána Thames, er tíu ára gamalt veitingahús Claire og Pierre Koffmann, þar sem hann sinnir eldhúsinu og hún matsalnum, sem nýlega var stækkaður, en tekur þó aðeins 38 í sæti.
Húsbúnaður er einfaldur og fínlegur. Frönsku þjónarnir eru miklir fagmenn.
Bezt er að heimsækja Tante Claire í hádeginu, því að þá er á boðstólum fastur matseðill, svo að helmingi ódýrara er að borða þá en á kvöldin, þegar staðurinn er í hópi hinna dýrustu í borginni.
Einkenni matreiðslu Pierre felst í fínlegum bragðmun, fremur en voldugum andstæðum. Matseðillinn er stuttur, en þó fjölskrúðugur og breytist í sífellu eftir markaðsaðstæðum.
Við prófuðum síðast í forrétti hörpufisk í grófu salti og hörpufisk með appelsínusósu, í aðalrétti sandhverfu í sinnepsfræjum og nautahryggsneið með ostrusósu, og loks í eftirrétti hina frábæru frönsku osta frá Philippe Olivier.
Meðal annarra vinsælla rétta á matseðlinum var ferskt sjávarréttasalat, fersk gæsalifur á ristuðum lauk, kryddsteiktur andarungi, kálfabris í engifer eða með grænum sítrónum. Koffmann hætti að framreiða kjúklinga, þegar brezka ríkisstjórnin kom á innflutningsbanni.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 90. Hádegismatseðill dagsins var á GBP 45 fyrir tvo.
(Tante Claire, 68 Royal Hospital Road, sími 352 6045, lokað laugardaga og sunnudaga, sunnan við B5)
Connaught
Fimmta og sjötta matargerðarmusterið í London eru annarrar ættar en hin fjögur, ekki litlar hjónasamvinnuholur, heldur stór hótelveitingahús. Annað er sjálft Connaught-hótel í miðju Mayfair. Við tökum það sem fulltrúa hinna dýru GBP 85 veitingahúsa fram yfir jafngott Gavroche, svo ekki sé minnst á Inigo Jones og loks Mirabelle, þar sem of mikið er gert af mistökum fyrir slíka fjárupphæð.
Hér dugar gestum ekkert minna en hálsbindi, enda er tilkomumikið að sjá þá stika inn ganginn með hirð yfirþjóna allt í kringum sig. Þjónustan er líka svo fullkomin, að helzt líkist huglestri. Falli hnífur í kjöltu, er annar kominn á borðið eftir nokkrar sekúndur.
Aðalsalurinn, þar sem borðað er eftir fastaseðli, er virðulegur og ríkmannlegur sem brezkur karlaklúbbur, klæddur mahóní og krýndur kristalskrónum. Grillsalurinn er minni og síður skemmtilegur. Þar er frjálst val af seðli, en verðið er svipað á báðum stöðunum. Um aðalsalinn hefur verið sagt, að hann sé síðasta vígi hins siðmenntaða heims.
Á Connaught býður hinn heimsfrægi kokkur, Michel Bourdin, margvíslega forrétti, aðalrétti og eftirrétti í aðalsalnum og fer verðið eingöngu eftir því, hvaða aðalréttur er valinn. Eins og í öðrum matarmusterum eru þetta yfirleitt eftirminnilegir réttir.
Síðast fengum við í forrétti reyktan lax í kryddfroðu (surprise ecosse) og lynghænueggjatertu, í aðalrétti steiktan orra og þrenns konar fisk í léttri kryddsósu, í eftirrétti brauð- og smjörbúðing og hindberjafroðu. Innan um dýr vín fundum við Brunello di Montalcino 1980 á GBP 20.
Af öðrum einkennisréttum Bourdin á matseðlinum má nefna laxakúlubjakk, fasana-, orra- og akurhænukæfu, villiandarunga og skógarsnípu með seljurótarmauki.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 85.
(Connaught, Carlos Place, sími 499 7070, opið alla daga, C2)
Dorchester Grill
Grill og Terrace heita veitingasalirnir á hinu matarhótelinu í London. Þeir hafa báðir sama eldhúsið, þar sem hinn heimskunni kokkur og matreiðslubókarhöfundur, Anton Mosimann, ræður ríkjum. Hann eldar bæði upp á nýfrönsku og upp á sérstaka enska villibráðar-útgáfu af nýfranskri matargerð.
Við höfum prófað grillið, sem er afar virðulegur og skrautlegur salur í spönskum stíl. Miklar ljósakrónur eru í lofti og á veggjum og þykkt teppi á gólfi. Borðin eru afar gömul og virðuleg og armstólarnir eru leðurklæddir. Þar er afar góð og margmenn þjónusta, sem minnir í flestu á Connaught, en er ekki eins kyrrlát. Verðið er heldur lægra á Dorchester.
Við prófuðum í forrétti kælda gúrku- og dillsúpu og seljurótar-pönnukökur með villisveppum og stilton-osti; í fiskrétti gufusoðna slétthverfu á kræklingabeði og soðinn silung með blaðlaukssósu; í kjötrétti hvítkálsfyllta perluhænu með villisveppum og kaffifífli og sneidda kálfalifur í fáfnisgras-sósu; og í eftirrétti bakaðar peru- og koníaksbollur og bjórost.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 70 og hádegisverður GBP 45.
(Dorchester, Park Lane, sími 629 8888, opið alla daga, C3)
Langan´s Brasserie
Milli matargerðarmusteranna fimm og hnattferðarinnar um veitingahús í London er nauðsynlegt að geta matstofu, sem er samkomustaður fræga fólksins í London, en býður samt mjög góðan mat og aðeins mildilega dýran. Það er Langan´s Brasserie í eigu hins þekkta vínsvelgs og hávaðamanns, Peter Langan frá Írlandi, hins vinsæla gamanleikara, Michael Caine og hins virta kokks, Richard Shepherd.
Hingað sogast skemmtanalífsfólkið og blaðamennirnir, hinir ríku og hinir blönku, leikararnir og sýningarstúlkurnar, lávarðarnir og heimskonurnar. Fyrir utan dyrnar, rétt norðan við Piccadilly, híma hinir hötuðu “paparazzi” og bíða eftir tækifæri til að skjóta mynd af manni annarrar konu með konu annars manns. Innan dyra er hávaði og fjör, þjónar vaða um fram og aftur, meðan fræga fólkið kallast á milli borða. Þetta er hrífandi sjón, jafnt í hádegi sem á kvöldin.
Þeir, sem hljóma túristalega í símann, eru bókaðir í Feneyjasalinn á efri hæð, sem er íburðarmeiri og notalegri, en ekki eins vinsæll og aðalsalurinn. Því gildir að standa á því fastar en fótunum, að ekki komi til greina annað en borð á sjálfri jarðhæðinni, í stórum sal, sem einkennist af risastórum loftræstispöðum og tilviljanakenndu safni málverka og plakata. Stíllinn er svipaður og í “Casablanca” hjá Ingrid Bergman og Humphrey Bogart.
Kvöldið okkar á Langan´s var Casablanca-stemmningunni haldið uppi af jazzista, sem hamraði gamla slagara á píanó og gerði það vel, þótt gestirnir væru svo uppteknir hver af öðrum, að fáir skenktu honum auga eða klapp.
Þrátt fyrir gífurlega langan matseðil berst Shepherd harðri baráttu í eldhúsinu við að reiða eingöngu fram ágætan mat. Kraftaverki er líkast, að það skuli takast í öllum látunum. Og hið sama er að segja um þjónustuna, sem er hin bezta.
Við prófuðum þar síðast í forrétti lárperusalat með rækjum og hvítlaukssnigla, í aðalrétti nautatungu í madeirasósu og grillaðan nautahryggvöðva, í eftirrétti karamellufroðu (creme brulée) og lagköku (milles feuilles). Með salati, kaffi og flösku af víni hússins nam þetta nokkurn veginn meðalverðlagi hússins.
Aðrir hafa mælt með reyktri ýsu með soðnum eggjum, steiktum gæsum með sagó og laukfyllingu, spínatfroðu með ansjósusósu, svartbúðingi og andakæfu með armanjaki.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 50.
(Langan´s Brasserie, Stratton Street, sími 493 6437, lokað sunnudaga og í hádeginu á laugardögum, D2/3)
Umhverfis jörðina á 30 matstofum
Nú er kominn tími til að hefja ferðina umhverfis jörðina á 30 veitingahúsum í London. Hér ætlum við að lýsa matstofum, sem skara framúr í þjóðlegri matreiðslu af ýmsu tagi. Verðlagið á þessum stöðum er að meðaltali eins og gengur og gerist í heimsborginni. Kvöldveizla fyrir tvo kostaði yfirleitt GBP 20-40 og meðalverðið var um GBP 30. Í mörgum stofanna var hægt að fá snarl, t.d. í hádeginu, fyrir miklu lægra verð.
BANDARÍKIN:
Joe Allen
Við hefjum hnattferðina suðaustast í Covent Garden, rétt við Strand, þar sem Joe Allen er í fáförulli hliðargötu. Erfitt er að finna staðinn, því að skiltið við kjallarainnganginn er með minnsta móti.
Þetta er aðalvirki bandarískrar matargerðarlistar. Andrúmsloftið er fjörugt og skemmtilegt milli tígulsteinsveggjanna. Hér er dálítð af leikurum og blaðamönnum, enda er staðurinn mitt á milli leikhúsa- og dagblaðahverfisins.
Matseðillinn er krítaður á töflu. Við prófuðum spínat- og sveppasalöt, spareribs og svartbaunasúpu, pecan pæ og englafæðutertu og komumst í ágætt skap innan um heimþrársjúka Bandaríkjamenn.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.
(Joe Allen, 13 Exeter Street, sími 836 0651, opið alla daga, F2)
INDLAND:
Last Days of the Raj
Norðarlega í Covent Garden, andspænis New London Theatre og rétt hjá Drury Lane hóteli, er sjö ára gamalt indverskt veitingahús, Last Days of the Raj, rekið af samstarfshópi Indverja. Stofan er snyrtileg og húsbúnaður er vel hannaður.
Við fengum okkur tvo sérrétti og einn bakka af thali, sem er safn smárétta, eins konar sýnishorn af indverskum mat. Annar sérrétturinn var kryddaður kjúklingur á trépinnum (tikka) og hinn pönnusteikt lamb, húðað með eggjahvítu og blöndu af möndlum og rúsínum (korma). Bakkinn hafði að geyma kjúkling, leginn í kryddaðri jógúrt og bakaðan í leirofni (tandoori).
Ennfremur lambakjöt á spjóti (shis kebab), pönnusteikt lambakjöt með jógúrt (rogan josh), blandað grænmetissalat (raita), smjörsteiktan kjúkling með tómati (makhani), hrísgrjón, fyrst olíusteikt og síðan soðin í soði (pulau), svo og flatt brauð (nan), bakað í leirofni.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30.
(Last Days of the Raj, 22 Drury Lane, sími 836 1628, opið alla daga, E/F1)
JAPAN:
Ajimura
Rétt hjá Last Days of the Raj er Ajimura, japanskur matstaður, sem er ódýr og fremur hversdagslegur að húsbúnaði. En hér er framin ein hin bezta japanska matreiðslan í London. Menn geta fengið að sitja við eldhúsbarinn til að fylgjast með framkvæmdinni.
Matseðillinn er greinargóður, en við kusum samt að velja okkur tvo af fjórum matseðlum dagsins, sem krítaðir voru á töflu. Sameiginlegt með þeim var djúpsteikt svínakjöt með eggaldinum, grænmeti, hrísgrjónum og sósu. Annar seðillinn var með rækjum, hráum laxi og tærri fisksúpu í forrétt, en hinn með rækjum, djúpsteiktum fiski, eggjum og grænmeti, svo og sömu súpunni. Með þessu fengum við heitt hrísgrjónavín.
Japanir hafa dálæti á fiski, hráum (sashimi) eða djúpsteiktum (tempura). Kjöt borða þeir gjarna steikt næfurþunnt og pönnusteikt (sukiyaki). Þeir leggja áherzlu á litskrúðuga uppsetningu á diska.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 35.
(Ajimura, 51 Shelton Street, sími 240 0178, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga)
KÍNA (SESÚAN):
New Shushan
Kryddaðasta og sterkasta kínverska matreiðslan er frá Sesúan innhéruðum Kína. Bezta útgáfa hennar er á New Shushan, rétt hjá Leicester Square. Þessi matreiðsla er ekki fyrir byrjendur í snæðingi elds og brennisteins, svo að rétt er að biðja þjóninn að láta kokkinn fara varlega með kryddið.
Við prófuðum kalt, chili-kryddað svínakjöt með hvítlaukssósu, rækjur með sesam-fræjum á ristuðu brauði, risarækjur í chili-sósu, baunir með hakki og pönnusteikt hrísgrjón. Aðrir hafa mælt með te- og kamfórureyktri önd, pönnukökum með sykruðu rauðbaunamauki. Ennfremur Pekingönd og sætsúrum fiski. Matseðillinn er langur, svo að rétt er að gefa sér góðan tíma til að velja.
Fyrir þá, sem hafa góðan maga, er þetta ánægjuleg lífsreynsla, því að maturinn er í senn ilmmikill og bragðríkur. Sesúan-matreiðsla er í tízku í London um þessar mundir.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30.
(Shushan, 36 Cranbourn Street, sími 836 7501, opið alla daga, E2)
KÍNA (CANTON):
Poons
Önnur kínversk matreiðsla, sem hæfir betur venjulegum smekk, er suður-kínverska matreiðslan frá Canton og Hong Kong, sem tíðkast í flestum kínastöðum Vesturlanda. Bezti fulltrúi hennar í London er sennilega hið frjálslega og einfalda Poons, sem er rétt við Leicester Square.
Í gluggunum má sjá vindþurrkaða fugla og skreið. Verkunin, sem Íslendingar ættu að þekkja, er sérgrein staðarins. Sú matreiðsla og önnur á Poons er vönduð og ekta í senn.
Við prófuðum gufusoðinn hörpuskelfisk, Wun Tun súpu, vindþurrkaða önd, risarækjur, djúpsteiktan smokkfisk með grænum pipar og söltuðum svartbaunum, soðin hrísgrjón og hvítvín hússins. Te fengum við eins og við gátum í okkur látið.
Þessi tegund kínverskrar matreiðslu er svo mild og ljúf, að hún ætti ekki að espa neinar magasýrur.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.
(Poons, 4 Leicester Street, sími 437 1528, lokað sunnudaga, E2)
ÍTALÍA:
Manzi´s
Þessi ítalska fiskréttastofa er nánast við hliðina á Poons í Leicester Street. Manzi´s hefur lengi verið með vinsælli áningarstöðum borgarinnar. Þjónarnir eru langreyndir og þjálfaðir og stemmningin er létt og fjörleg á báðum hæðum. Uppi í Cabin Room er þó rólegra en á bistrónni niðri, þar sem gleðin er meiri.
Hér er gullvæg regla að panta sjávarréttina soðna eða grillaða. Hráefnið er nefnilega heldur betra en fyrsta flokks, en kokkarnir hafa tilhneigingu til að misþyrma því, ef beðið er um flókna matreiðslu.
Við fengum okkur í forrétti lárperu og kræklinga í skel, svo og súpu, í aðalrétti grillaða lúðu og soðna þykkvalúru og í eftirrétti jarðarberjatertu og kirsuberjakraumís. Aðrir hafa mælt með fiskisúpu, silungi og skötu í “svartsmjöri”. Erfitt er að finna kjöt á matseðlinum.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 40.
(Manzi´s, 1 Leicester Street, sími 734 0224, lokað í hádegi sunnudaga, E2)
KÍNA (CANTON):
Chuen Cheng Ku
Á þessum slóðum er þétt skipað góðum veitingahúsum, enda er hér Kínahverfið í Soho. Milli Leicester Square og Piccadilly Circus er Chuen Cheng Ku, sem býður fyrir lítið fé beztu hádegissmárétti í kínverskum stíl, sem fáanlegir eru utan Hong Kong. Enda er önnur hver kínversk barnafjölskylda í London í hádegismat hér á sunnudögum.
Smáréttirnir eru kallaðir dim sum. Þeim er ekið um salina í vögnum og gestirnir benda á það, sem þeir vilja. Flestir réttirnir kostuðu um GBP 1.
Þetta er ekki fínlegt veitingahús á vestræna vísu. Það er hávaðasamt og virðist ekta, því að gestirnir eru kínverskir að meirihluta.
Flestir dim sum réttanna eru eldaðir í gufu í sívölum smápottum, sem staflað er hverjum ofan á annan. Ef margir eru saman um borð, er kjörið að panta einn af hverjum smárétti og skipta öllu milli sín. Ókeypis te fylgir í lítravís.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði GBP 15. Kvöldverður fyrir tvo var á GBP 30.
(Chuen Cheng Ku, 17 Wardour Street, sími 437 1398, opið alla daga, E2)
ENGLAND:
Bentley´s
Í þröngu vinkilstræti milli Regent Street og Piccadilly er Bentley´s ostrubar niðri og veitingastofa uppi. Þetta er án efa traustasti ostrubar í borginni, enda á hann sín eigin ostrumið við Colchester. Hvergi í London höfum við fengið betri ostrur en einmitt hér, síðast sex stykkin á GBP 7.
Þar fyrir utan er svo fiskurinn, ferskur og fjölbreyttur, sandhverfur, þykkvalúrur, kolar, ýsur og silungar, og svo auðvitað krabbar, rækjur og humrar. Aðalatriðið er að velja úr línunum, þar sem stendur “grilled”, “poached” eða “meuniere”, en forðast Thermidor, Newburg, Dugléré og Florentine, allt flóknar matreiðsluaðferðir, sem spilla mat.
Við fengum okkur í forrétti sex ostrur og hvítvínssoðinn krækling, í aðalrétti soðinn hörpuskelfisk og bakaðan krabba og í eftirrétti jarðarber.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 55, en meðalverð var GBP 50.
(Bentley´s, 11 Swallow Street, sími 734 4756, lokað sunnudaga, D2)
KÍNA (PEKING)
Gallery Rendezvous
Enn erum við í Soho og komin í fjórða kínverska staðinn í hnattferðinni í London. Sumum kann að finnast það ofrausn, en í rauninni er kínversk matreiðsla svo merkileg og fjölbreytt og svo ólík eftir landshlutum, að ekki duga færri til að kynnast mikilvægustu afbrigðunum.
Í Canton-matreiðslu koma smáréttir í belg og biðu. Peking-matreiðsla er líkari vestrænni á þann hátt, að réttirnir koma einn og einn í einu í fastri röð. Mikil áherzla er lögð á djúpsteiktingu og stökkar skorpur, en minna er um gufusuðuna, sem einkennir Canton.
Gallery Rendezvous er Peking-staður, óvenju vandaður að húsbúnaði og vestrænn að yfirbragði af kínverskum að vera. Salurinn er rólegur og rúmgóður, með tágustólum, kastljósum og steinflísagólfi.
Hér er auðvelt að velja, því að boðnir eru ýmsir, mislangir, fastir matseðlar, sem allir fela í sér hina frægu Peking-önd með stökkri skorpu.
Okkar matseðill var ellefu rétta og kostaði GBP 25 fyrir tvo. Á honum voru m.a. ristaðar rækjur með sesamfræjum, spareribs, vorrúllur, Peking-önd, kjúklingur með heslihnetum, sætsúrt svínakjöt, þunnsneitt nautakjöt með grænum pipar, steiktar baunaspírur, steikt hrísgrjón og karamelluhúðaðir bananar.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.
(Gallery Rendezvous, 53-55 Beak Street, sími 437 4446, opið alla daga, D2)
SINGAPÚR:
Equatorial
Í miðri Soho látum við Equatorial vera eins konar fulltrúa, ekki aðeins fyrir Singapúr, heldur einnig Indónesíu og Malaysíu, sem eiga furðu fáa frambærilega fulltrúa matargerðar í heimsborginni.
Í heild er matreiðsla þessara landa Suðaustur-Asíu mitt á milli indverskrar og kínverskrar, kryddaðri en sú kínverska, en ekki eins krydduð og hin indverska. Einnig eru notuð önnur krydd en annars vegar í Kína og hins vegar í Indlandi. En sérgrein Equatorial er trépinnamaturinn Satay, sem er sennilega hinn bezti í London.
Í þessu vinalega og örsmáa fjölskylduveitingahúsi fengum við fastan málsverð, sem m.a. fól í sér nautakjöt á trépinnum, kjúklingasúpu með maískornum, eggjablönduð hrísgrjón, kjúklinga með vorlauk og engifer, sætsúrt svínakjöt, rækjur og lecches-ávexti. Gott var að fá raka og heita klúta til handþvottar á eftir.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20. Hádegismatseðill dagins var á GBP 10 fyrir tvo.
(Equatorial, 37 Old Compton Street, sími 437 6112, E2)
UNGVERJALAND:
Gay Hussar
Raunar ætti Gay Hussar að vera fremst í veitingahúsakaflanum með matarmusterunum, því að hann er einn af beztu veitingasölum borgarinnar, enda þótt hann sé ekki franskur. Í matargerðarlist hefur Ungverjaland löngum verið þungamiðja gamla Habsborgarveldisins í Mið-Evrópu. Og húsarinn í London hefur lengi verið bezti ungverski matstaðurinn utan heimalandsins.
Hér nyrzt í Soho ræður ríkjum flóttamaðurinn Victor Sassie og tekur á móti stjórnmálamönnum og blaðamönnum í hádegisverð. Hér er talað lon og don um stjórnmál yfir rauðkáli, villisvínahöfðasultu, gúllasi og tókajvíni. En hér fæst ekki lambakjöt, af því að það minnir Ungverja um of á Tyrkjann, hinn forna fjanda og kúgara.
Ungverskan á löngum matseðlinum er ekki beinlínis til þess fallin að auðvelda gestum valið. Flestir kjósa því þriggja rétta hádegisverðarseðilinn, sem ætti að duga ofan í heila sveit húsara.
Í síðasta skiptið af allmörgum heimsóknum völdum við okkur í forrétti kirsuberjasúpu (meggyleves) og villisvínahöfðasultu (disznó sajt), í aðalrétti kjúklingapapriku (paprikás) og kálfapönnukökur, í eftirrétti kirsuberjatertu og sætar pönnukökur (palacsinta), með matnum badascony hvítvín og á eftir dísætt tókajvín, 5 puttenoy.
Kvöldverður eða hádegisverður fyrir tvo kostaði GBP 45. Hádegisverðarseðill dagsins var á GBP 20 fyrir tvo.
(Gay Hussar, 2 Greek Street, sími 437 0973, lokað sunnudaga, E1)
KÓREA:
Arirang
Á svipuðum slóðum nyrst í Soho, raunar alveg við Oxford Street, er Arirang, bezti Kóreustaðurinn í London. Í því landi er matargerðin af eðlilegum ástæðum mitt á milli kínverskrar og japanskrar. Hún er lítt þekkt á Vesturlöndum, en réttirnir eru spennandi og ánægjulegir, ef menn sigla framhjá kim chee, illa lyktandi, gerjuðu káli, sem sagt er skotgrafafæða úr Kóreustríðinu.
Arirang er sérkennilega innréttaður, ekki beinlínis stílhreinn, en notalegur í kjallara. Skartklæddar og alúðlegar þjónustustúlkur ganga um beina með aðstoð Wee gestgjafa. Þægilegast er að panta einhvern hinna margréttuðu, föstu málsverða.
Í eitt skiptið fengum við súpu, spareribs (bul-kal-bee), djúpsteiktan fisk, sætsúran (hong cho), kjúkling (thah thoree tang), djúpsteiktan beinamerg (slobal chun), blandað grænmeti (chop she) og hrísgrjón (pahb). Í annað skipti kjötsúpu, kjötpönnukökur, kryddlegið nautakjöt, sýrðar baunaspírur og hrísgrjón. Ávextir og te fylgdu í bæði skiptin.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30. Seðlar dagsins fyrir tvo voru á GBP 8 í hádeginu og GBP 20 á kvöldin.
(Arirang, 31 Poland Street, sími 437 6633, lokað sunnudaga, D1)
GRIKKLAND:
Anemos
Í heimsreisunni förum við nú norður fyrir Oxford Street til að heimsækja ódýran, grískan stað, Anemos. Það er óformleg, vinsæl og vinaleg taverna, sem getur orðið einkar fjörug á kvöldin, þegar gestir og þjónar klifra á borð og stóla til að syngja og stíga dans.
Þótt furðulegt megi virðast, er hér á boðstólum góður og ekta grískur matur. Við prófuðum þorskhrognakæfu (taramosalata), eggjahrísgrjónasúpu (avgolemono), kjöts- og eggaldina-lagköku (musaka), svo og hunangs-, hnetu- og kanilköku (baklava). Allt eru þetta hefðbundnir og heimsþekktir grískir réttir.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.
(Anemos, 32 Charlotte Street, sími 636 2289, opið alla daga, D1)
NORÐUR-INDLAND:
Gaylord
Við höldum til vesturs og komum senn að óvenju glæsibúnu indversku veitingahúsi, sem sérhæfir sig í mat norðurhéraða landsins. Það er heldur dýrara en venjulegir indverskir matstaðir, enda meira vandað til umhverfis og matargerðar en almennt gerist. Miklar og rauðar skreytingar eru á veggjum og þjónusta er eins og bezt gerist í vestrænum matstofum.
Síðast prófuðum við jógúrthúðaðan kjúkling, bakaðan í leirofni (tandoori), spjótgrillaðan kjúkling (tikka) og lambakjöt og smárétti með. Aðrir hafa bent á karrírétti, kryddað lambakjöt, smjörkökur og ýmsa rétti, pönnusteikta í jógúrt. Eftirréttir eru yfirleitt afar sætir.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30. Fasti matseðillinn fyrir tvo var á GBP 17.
(Gaylord, 79 Mortimer Street, sími 580 3615, opið alla daga, D1)
THAILAND:
Chaopraya
Við erum enn rétt norðan við Oxford Street á heimsreisunni. Í skemmtilegri göngugötu kúrir Chaopraya með nokkrum öðrum veitingahúsum. Sjálfur matsalurinn er í fremur vestrænum kjallara, sem er vinsæll meðal bleikhöfða, þótt hin létta matreiðsla sé ekta thailenzk. Hugljúfar þjónustustúlkur aðstoða við valið og ganga um beina. Verðlag er hóflegt, ef menn standast hin miklu ávaxta-romm-hanastél, sem boðin eru við upphaf máltíðar.
Við völdum einn fastaseðilinn og fengum nautakjöt á spjóti, svínahakk á djúpsteiktu brauði, risastórar rækjur, kjúkling með chili og hnetum, fisk í sætsúrri sósu, karríhúðað nautakjöt, blandað grænmeti, hrísgrjón og te, kókosmjólk og thailenzkan bjór.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 35. Fastur matseðill fyrir tvo var frá GBP 22.
(Chaopraya, 22 St Christopher´s Place, sími 486 0777, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, C1)
TÚNIS:
Sidi Bou Said
Rétt norður af Marble Arch er Sidi Bou Said, lítið og einfalt Túnis-veitingahús, sem einkum er þekkt fyrir kúskús. Það er eldað í tvöföldum potti, grænmeti og kjöt í neðri hluta og semolina-korn í efri hluta, borið fram með sósu. Það er einnig þekkt fyrir tajine, sem er eins konar kjötsúpa með ýmsu út í, einkum lambakjöti. Við fengum okkur einmitt kúskús og tajine. Sætar smákökur eru í eftirrétt, svo og skemmtilega ilmandi kaffi.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.
(Sidi Bou Said, 9 Seymour Place, sími 402 9930, lokað sunnudaga, B1)
LÍBANON:
Maroush
Í nágrenni Sidi Bou Said er bezti fulltrúi arabiskra veitingasala í borginni, Maroush við Edgeware Road, þétt setinn líbönskum útlögum. Við prófuðum hefðbundna arabiska rétti á borð við felafel og shawarma, einnig líbanskt salat og fyllt lambakjöt, svo og sæta eftirrétti.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 30.
(Maroush, 21 Edgeware Road, sími 723 0773, opið alla daga, B1/2)
FRAKKLAND:
Le Chef
Frönsk veitingahús eru ekki bara fín og dýr. Eitt bezta dæmið um venjulega, franska bistró í London er le Chef, rétt fyrir norðan Hyde Park. Þetta er óformlegt, vingjarnlegt og heimilislegt hús með réttri stemmningu frá vinstri bakka Signu. Plaköt á veggjum og rúðóttir borðdúkar stuðla að þessari tilfinningu, svo að ekki sé talað um borðin úti á stétt að sumarlagi.
Alan og June King hafa rekið le Chef í tvo áratugi og jafnan haldið uppi góðri matreiðslu í hefðbundnum, jarðtengdum, frönskum stíl. Við prófuðum síðast fiskisúpu og lárperu í salati í forrétti, í aðalrétti kryddaðan lambageira og nautahryggsteik vínkaupmannsins og í eftirrétti osta hússins. Áður höfum við fengið kjúklingalifrarkæfu, Provencal kálfakótilettur og auðvitað ostana, sem jafnan eru góðir.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 35. Hádegismatseðill dagsins var á GBP 28 fyrir tvo.
(le Chef, 41 Connaught Street, sími 262 5945, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, A/B1/2)
MAURITIUS:
Dodo Gourmand
Andspænis le Chef er notalegt veitingahús með þeirri blöndu franskrar, afrískrar og indverskrar matargerðar, er ríkir á Mauritius.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 28.
(Dodo Gourmand, 30 Connaught Street, sími 258 3947, lokað sunnudaga, B1)
AFGANISTAN:
CaravanSerai
CaravanSerai er norður í Marylebone hverfi, ódýr staður, ef menn gæta sín í vali af matseðli, eini frambærilegi fulltrúi Afganistan.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 35.
(CaravanSerai, 50 Paddington Street, sími 935 1208, lokað í hádegi sunnudaga, C1)
BANDARÍKIN:
Hard Rock Cafe
Nú víkur hnattferðinni suður yfir Oxford Street niður í Mayfair, sem er fátækt af veitingahúsum á sómasamlegu verði. Allra syðst í hverfinu er þó bezti hamborgarastaður borgarinnar, Hard Rock Cafe, stór og hávaðasamur í stíl við nafnið og svo ákaflega vinsæll, að stundum eru biðraðir út á götu.
Hér höfum við fengið margt, sem minnir á ekta Ameríku, viðamikil salöt, franskar í gráðostsósu, mjólkurhristinga, tröllslega ísa, djöflafæðutertur, T-beinsteikur með bakaðri kartöflu og svo auðvitað hamborgara.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.
(Hard Rock Cafe, 150 Old Park Lane, sími 629 0382, opið alla daga, C3)
PAKISTAN:
Salloos
Næst víkur sögunni suðvestur í Belgravia. Í öngstræti rétt hjá Hyde Park Corner og aðeins 50 metra frá Berkeley hóteli er Salloos, annar af tveimur beztu pakistönsku veitingastöðum heimsborgarinnar. Þetta er rólegur og snyrtilegur staður, þar sem Salahuddin-hjónin taka vel á móti gestum. Skreytingar eru pakistanskar, en að öðru leyti er Salloos vestrænn að útliti.
Hér er eldað í tandoori-leirofni. Við höfum prófað sérkennilega rétti á borð við hænu í ostafroðu og eins konar kinda-hafragraut. En okkur líkaði þó betur við hefðbundna rétti á borð við kjúkling á tréspjótum (tikka), rækjur í jógúrt (tandoori), kjúkling í jógúrt (korma), salat (raita), hrísgrjón (pilau) og soðið brauð (nan).
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 40.
(Salloos, 62 Kinnerton Street, sími 235 4444, lokað sunnudaga, B3)
ÍTALÍA:
Montpeliano
Nokkru vestar, rétt vestan við Harrods, er einn hinn bezti af mörgum afar frambærilegum ítölskum veitingastöðum í London. Þetta er lítill og hressilegur matstaður með skemmtilegum innréttingum, þar á meðal speglum og óbeinni lýsingu. Stofan er í senn hávaðasöm og virðuleg, en einkum þó vingjarnleg. Hávaðinn stafar ekki af niðursoðinni tónlist, heldur af hrókasamræðum gestanna. Vínlistinn er góður og tiltölulega ódýr.
Hér prófuðum við í forrétti grænt og hvítt hveitipasta (paglina e feno) með kryddaðri tómatsósu og Mozzarella-ost með tómati og lárperu (tricolore), í aðalrétti kálfakjöt og ýmiss konar soðið kjöt (bollito misto), og í eftirrétti eggjarauðvínsfroðu (zabaglione) og pönnukökur með rjóma og hnetum.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 40.
(Montpeliano, 13 Montpelier Street, sími 589 0032, lokað sunnudaga, A/B4)
RÚSSLAND:
Luba´s Bistro
Á svipuðum slóðum á Rússland sinn fulltrúa, Luba´s Bistro, ódýran og einfaldan stað með mörgum fastagestum, einkum útlögum, sem tala framandi tungu.
Hér prófuðum við þekkta og saðsama rússneska rétti, svo sem þykka rauðrófusúpu (borscht) með rjóma, þykkar pönnukökur (blini) með hrognum og sýrðum rjóma, hveitikökur (piroshki) með grænmetisfyllingu, kjúkling með fyllingu (kievskye kotleti), svo og vodka.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.
(Luba´s Bistro, 6 Yeoman´s Row, sími 589 2950, lokað sunnudaga, A4)
PÓLLAND:
Daquise
Við South Kensington brautarstöðina og söfnin miklu er pólski fulltrúinn, Daquise, einfalt veitingahús með ekta pólskum réttum og ekki síður ekta pólskum gestum. Uppi er kuldalegt, en í kjallaranum er heimilislegt og notalegt. Þar eru líka heimamennirnir í andrúmslofti gamallar viðarklæðningar.
Eins og í Luba´s prófuðum við hér rauðrófusúpu, einnig rauðkálssúpu í forrétti, í aðalrétti blóðpylsu með súrkáli og kartöflustöppu og fyllta hvítkálsböggla, litla og kjötmikla, og í eftirrétti miðevrópskar tertur.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 20.
(Daquise, 20 Thurloe Street, sími 589 6117, opið alla daga, A4/5)
ÍTALÍA:
Pulcinella
Nálægt South Kensington stöðinni eru tveir góðir, ítalskir staðir. Annar er Pulcinella í skartlegum kjallara.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.
(Pulcinella, 30 Old Brompton Road, sími 589 0529, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, A5)
ÍTALÍA:
Il Falconiere
Hinn ítalski staðurinn er il Falconiere. Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 25.
(il Falconiere, 84 Old Brompton Road, sími 589 2401, A5)
ENGLAND:
English House
Mitt á milli South Kensington stöðvarinnar og Sloane Street er English House, aðlaðandi, indælt, lítið “borgarhús”, eins og Bretar kalla þau. Matstofurnar eru nettar, með ljósakrónum, innrömmuðum blómum og silfurmunum, svo og silfurborðbúnaði, ákaflega þungum. Andrúmsloftið er átjándu aldar og gestirnir eru brezkt yfirstéttarfólk.
Sagnfræðingurinn og sjónvarpskokkurinn Michael Smith stofnaði þennan veitingastað til að bjóða enska hirð- og sveitamatreiðslu frá 18. öld. Hann ætti að vera kunnugur henni, þar sem hann hefur skrifað um hana bækur.
Við ferðuðumst með honum aftur í tímann og prófuðum í forrétti Stilton-ostasúpu með perubitum og hérakæfu með sagó og eplasultu, í aðalrétti dádýr með einiberjum og steikar-, nýrna- og sveppapæ og í eftirrétt karamellufroðu.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 55. Hádegismatseðill dagsins var á GBP 22 fyrir tvo.
(English House, 3 Milner Street, sími 584 3002, opið alla daga, B5)
INDLAND:
Ken Lo´s
Bezta Kínahús borgarinnar er Ken Lo´s Memories of India rétt hjá Viktoríustöð, smekklegur staður og einfaldur, vinsæll hjá fína fólkinu. Eigendurnir, Kenneth og Anne Lo, eru bæði í eldhúsinu, svo og kokkurinn Kam-Po. Á matseðlinum eru sýnishorn af margs konar matreiðslu frá ýmsum héruðum Kína. Ráðlegt er að panta sérstaka rétti með fyrirvara.
Við prófuðum lótusblaðavafinn kjúkling, gufusoðna þykkvalúru, fimm krydda froskalæri, gufusoðinn krækling í skelinni með heitri svartbaunasósu, hvítkálsvafið lambakjöt á teini, svo og hápunktinn, Pekingönd.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 50 og hádegisverðarseðill fyrir tvo var á GBP 25.
(Ken Lo´s Memories of China, 67 Ebury Street, sími 730 7734, lokað sunnudaga, C4/5)
SPÁNN:
Dulcinea
Nú víkur sögunni austur að Viktoríustöð. Í nágrenni hennar hefur Longinos Benavides komið upp eina frambærilega, spánska veitingahúsinu í borginni. Hann er frá Kastilíu og matreiðsla hans er sömu ættar. Mikil áherzla er lögð á fiskrétti. Veitingahúsið er snyrtilegt og þjónustan er afar þægileg.
Við fengum í forrétti kræklinga (mejillones) í rjómasósu og fiskisúpu árstíðarinnar, í aðalrétti skötusel (rape) í kastarholu og kálfakjöt (ternera) í ostasósu og í eftirrétti kraumísa.
Aðrir hafa mælt með kálfakjöti í tarragon, grænum pipar og appelsínusafa, hnetu- og sérrísúpu, svo og pælu. Spánski vínlistinn er langur og felur í sér ýmsar merkilegar flöskur, svo sem Vega Sicilia 1966 á GBP 29, en húsvínið kostaði GBP 5.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 28 og hádegisverðarseðill fyrir tvo var á GBP 16.
(Dulcinea, 29 Ebury Street, sími 730 4094, C4)
PORTÚGAL:
Os Arcos
Einnig við Viktoríustöðina er bezti fulltrúi Portúgals í London, Os Arcos, rómantísk fiskréttastofa í kjallara, hlaðin fjörugu andrúmslofti, þegar bekkurinn er þétt setinn. Það er eins og hér sé eilíft sumar.
Við prófuðum í forrétti saltfisksalat og skelfiskasúpu (sopa de marisco), í aðalrétti grillaða þykkvalúru (pregado) og grillaðar sardínur, í eftirrétti osta og ferska ávexti. Við slepptum hins vegar grilluðum saltfiski (bacalhau assado), sem aðrir hafa mælt með.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 28.
(Os Arcos, 44 Hugh Street, sími 828 1486, lokað sunnudaga og í hádegi laugardaga, C5)
FRAKKLAND:
le Caprice
Áður en við ljúkum hnattferðinni, skulum við skreppa inn húsasund að baki Ritz hótels í St James´s hverfi. Þar er le Caprice, franskt veitingahús, sem hefur komizt í tízku á allra síðustu árum. Það er glæsilega innréttað í fúnkisstíl fyrirstríðsáranna, með speglum í súlum og veggjum, blómum á hverju borði og kampavínsfötu við hvert borð.
Caprice er rekið af þekktum veitingamönnum, Chris Corbin og Jeremy King. Staðurinn er fjörugur í viðskipta-hádegisverðum og kvöldverðum eftir leikhús. Þjónusta er góð og gott orð fer af bandaríska sunnudags-hádegisverðinum.
Við prófuðum krabbasúpu, grafinn lax og kálfalifur, kornhænu og spergilsalat, lambalundir með geitaosti og dádýrasteik með sterkri piparsósu.
Kvöldverður fyrir tvo kostaði GBP 40.
(le Caprice, Arlington Street, sími 629 2239, lokað í hádegi laugardaga, D3)
ENGLAND:
Tate
Við ljúkum hnattferðinni í ensku veitingahúsi við bakka Thames-ár, syðst í Westminster hverfi. Það er matstofan í kjallara listaverksafnsins Tate Gallery (bls. 59), sem einkum er þekkt fyrir bezta vínlista borgarinnar og þar á ofan á lægra verði en tíðkast annars staðar. Það stafar af því, að safnstjórar eru jafnfærir um að kaupa vín og málverk á réttum tíma, áður en verðið hækkar upp til skýjanna.
Um leið er reynt að endurskapa gamla, enska matargerðarlist. Við prófuðum í forrétti smjörvaðan krabba og lax í potti, hvort tveggja samkvæmt uppskriftum á bakhlið matseðils, í aðalrétti stórsalat Joan, eiginkonu Cromwells ríkisstjóra, einnig samkvæmt uppskrift á bakhlið, svo og steikar-, nýrna- og sveppapæ, hinn enskasta af öllum enskum réttum, og loks í eftirrétti súkkulaðihúðaðar krembollur og krækiberjamarens. Með þessu fengum við Scharzhofberger 1982 á GBP 10 og hálfa af Chateau de Camensac á GBP 8.
Hádegisverður fyrir tvo kostaði GBP 35.
(Tate Gallery Restaurant, Millbank, sími 834 6754, lokað sunnudaga og öll kvöld, E5)
Ódýrar matstofur
Af framangreindum veitingastöðum eru þesir meðal hinna ódýrari í borginni: Anemos, Arirang, Chuen Cheng Ku, Daquise, Equatorial, Gallery Rendezvous, Gaylord, Hard Rock Cafe, Joe Allen, Last Days of the Raj, Luba´s, Maroush, New Shushan, Poons og Sidi Bou Said.
Vínbarir
Vilji ferðalangar í London fá sér létt snarl í hádegi eða að kvöldi í stað þess “að fara út að borða”, er skynsamlegt að heimsækja einn af mörgum vínbörum borgarinnar. Þar sem vínmenn eru næmari fyrir matarbragði en bjórmenn, eru þeir um leið kröfuharðari um matargerðarlist. Þess vegna er vínbarafæða jafn góð og ölstofufæða er vond. Auk þess fást á vínbörum góð vín við vægu verði, sum seld í glasatali.
Hér verður bent á nokkra vínbari, sem skara fram úr, hver í sínum borgarhluta. Ekki má heldur gleyma, að gestir þessara staða eru mun snyrtilegri, menningarlegri og ekki drukknir, gagnstætt því sem vill brenna við á kránum.
Olde Wine Shades
Við byrjum á sögufrægum vínbar frá 1663 í City, milli Monument og Cannon Street brautarstöðvarinnar (bls. 78), Olde Wine Shades. Þetta er eitt fárra húsa, sem stóðst brunann mikla árið 1666. Hið innra eru dimmir viðir og leynigöng úr veitingasal í kjallara.
Í hádeginu fylla húsið bankamenn, sem snæða góðar kæfur og kjötsneiðar með sérstaklega góðum vínum og púrti, sem hvorttveggja fæst bæði glasavís og flöskuvís.
(Olde Wine Shades, 6 Martin Lane, lokað laugardaga og sunnudaga, J2)
Mother Bunch´s
Undir járnbrautarteinunum við Ludgate Circus við enda Fleet Street er Mother Bunch´s, stór, en notalegur vínbar, fjölsetinn blaðamönnum. Viður er í þiljum og gólfi. Skemmtilegir lampar eru á veggjum og sag á gólfi.
Hér fæst gott, kalt borð í hádeginu, ágætt vín og púrt.
(Mother Bunch´s, Old Seacoal Lane, lokað sunnudaga, H1)
El Vino
Gamall og frægur vínbar við Fleet Street er el Vino, þéttskipaður lögfræðingum og blaðamönnum. Fremst er þungur bar frá Viktoríutíma, þar sem karlmenn mega einir vera og þá með hálsbindi. Konur verða að sitja í leðurstólum í bakherberginu eða í veitingasalnum niðri.
Samlokurnar eru góðar og vínin eru góð og fjölbreytt, einkum púrtið.
(el Vino, 47 Fleet Street, lokað laugardagskvöld og sunnudaga, G1)
Cork & Bottle
Á mjög góðum stað á mótum Soho og Covent Garden-hverfa, með leikhús og bíó á báðar hendur, er Cork & Bottle, einn bezti vínbar borgarinnar. Þar ráða ríkjum nýsjálenzku hjónin Jean og Don Hewitson. Inngangurinn er lítt áberandi og gengið er þröngan hringstiga niður í kjallara. Samt er ætíð þröng á þingi, gestir glaðir og þjónusta snögg.
Hér fást vel matreiddir sjávarréttir, salöt, kæfur, ostar, réttir dagsins og búðingar. Af um 120 ágætum vínum eru 20 seld í glasatali. Næstum helmingur er á innan við GBP 7 flaskan.
(Cork & Bottle, 44 Cranbourn Street, E2)
Shampers
Vel í sveit sett rétt austan við Regent Street er Shampers, sem býður nokkurn veginn sama vínlista og Cork & Bottle, en úrvalið er meira. Á jarðhæð er bar og niðri er veitingasalur með heitum réttum.
Kaldir réttir eru góðir, salöt, ostar og pylsur.
(Shampers, 4 Kingly Street, lokað sunnudaga og laugardagskvöld, D2)
Downs
Syðst í Mayfair er hinn glæsilegi vínbar Downs, þar sem veitt er þjónusta til borðs. Viðskiptavinir í hádeginu eru ungt fólk úr fyrirtækjunum í kring. Á kvöldin kemur fólk hingað út að snæða við frátekin borð.
Hér fást heitir réttir, svo sem steikur og karrí, svo og glæsileg salöt og góðir ostar. Á vínlistanum eru yfir hundrað tegundir, þar af 25 í glasavís.
(Downs, 5 Down Street, sími 493 9660, C3)
Loose Box
Frá Brompton Road er unnt að fara bakdyramegin inn á Loose Box. Aðalbarinn er á jarðhæðinni og veitingastofa er uppi. Á barnum eru reiðtygi til skrauts. Þjónustan er vingjarnleg og persónuleg.
Gott er að borða hér salöt, kalt kjöt, osta, pæ, buff og búðinga. Um fimmtíu víntegundir fást, þar af um 15 í glasatali.
(Loose Box, 7 Cheval Place, A/B4)
Bill Bentley´s
Í fallegu húsi frá Georgstíma í verzlunargötunni Beauchamp Place út frá Brompton Road er Bill Bentley´s með vínbar á jarðhæðinni, ostrubar í kjallara og veitingasal á efri hæð.
Sjávarréttir eru hér góðir, svo og enskir ostar. Vín og púrt er mjög gott og fæst sumt í glasavís.
(Bill Bentley´s, 31 Beauchamp Place, lokað sunnudaga, B4)
Charco´s
Í hjarta Chelsea, rétt við King´s Road, er Charco´s, rólegur og indæll staður góðrar matreiðslu. Hér fást lystileg salöt og nokkrir heitir réttir. Úrval léttra vína er töluvert og þá ekki síður púrtvína.
(Charco´s, 1 Bray Place, lokað sunnudaga, B1)
Ebury
Við Viktoríustöð er hinn gamalgróni Ebury, einn af beztu vínbörum borgarinnar, þétt setinn kaupsýslumönnum í hádeginu. Hér fást góð salöt, grillréttir, enskir búðingar, ostar, svo og réttir dagsins. Vínin eru um fimmtíu, þar af um tíu í glasatali.
(Ebury, 139 Ebury Street, C1)
1983 og 1988
© Jónas Kristjánsson