New York göngur

Ferðir

Skoðunarferðir

1. ferð:

Circle Line

Fyrsta og skemmtilegasta skoðunarferðin í New York er jafnframt hin þægilegasta. Við förum út að 83. bryggju við vesturenda 43rd Street og tökum okkur far með bátnum, sem siglir umhverfis Manhattan. Þar komum við okkur fyrir í þægilegu útsýnissæti og sötrum uppáhaldsdrykkinn á meðan við sjáum borgina líða hjá. Þetta er allra bezta aðferðin til að átta sig á afstöðu einstakra skýjakljúfa og borgarhverfa án þess að þurfa að rekast um í mannþröng og borgarhita.

Bezt er að koma sér fyrir á bakborða, því að báturinn fer rangsælis umhverfis Manhattan. Ennfremur er skynsamlegt að velja sér gott skyggni til fararinnar, helzt að morgni dags, því að stórborgum fylgir oft mistur, sem spillir skyggninu. Ferðin tekur þrjár stundir.

(Circle Line, Pier 83 við 43th Street og Hudson River, sími 563 3200, við E1)

2. ferð:

Island Helicopter

Nýstárlegri og fljótvirkari aðferð til að átta sig á hlutföllum Manhattan er að fara í þyrluflug. Farið er frá mótum 34th Street og East River. Unnt er að velja mismunandi löng flug, allt frá sjö mínútum og USD 30. Hálftíma flug yfir eyjuna þvera og endilanga og suður að frelsisstyttunni kostaði USD 84. Um þessa ferð gildir eins og um hina fyrri, að gott skyggni skiptir mestu máli. Okkur er ekki kunnugt um, að slys hafi orðið í langri sögu þessa þyrluflugs.

(Island Helicopter, Heliport, 34th Street og East River, sími 895 5372, D5)

3. ferð:

World Trade Center

Við hefjum fyrstu gönguferðina við World Trade Center. Í suðurturninum, WTC nr. 2, tökum við örskjóta lyftuna upp á 107. hæð og virðum fyrir okkur nálægt útsýni yfir bankaturnana í Downtown og fjarlægara útsýni suður til frelsisstyttu og Verrazano-brúar og norður til skýjakljúfanna í Midtown. Frá 107. hæð er farið í rennistiga upp á sjálft turnþakið, 110 hæð. Svipað útsýni er að hafa úr veitingasölunum á 107. hæð í WTC nr. 1.

Byggingu turnanna var lokið árið 1974 og voru þeir þá um skeið hinir hæstu í heimi, átta hæðum hærri en Empire State. Þeir eru frekar einfaldir að útliti og skekkja raunar heildarmyndina af skýjakljúfaþyrpingu bankahverfisins. En þeir sjást alls staðar að og eru auðþekkjanlegir.

Byggingarnar í World Trade Center mynda hring umhverfis stórt torg. Undir torginu er stórt verzlunarsvæði, sem tengir húsin saman. Þar eru um 60 verzlanir, auk veitingahúsa, banka og annarrar þjónustu. Þar á meðal er útibú frá TKTS, stofnuninni, sem selur leikhúsmiða á hálfvirði á sýningardegi. Á torginu sjálfu eru frægar styttur eftir Koenig, Rosati og Nagare.

Battery Park City

Vestan við World Trade Center, þar sem áður voru bryggjur, hefur verið búið til nokkurra ferkílómetra land út í Hudson River. Þar er verið að reisa Battery Park City, stórborg íbúða með görðum í kring. Þessu hverfi er ætlað að veita mannlífi í syðsta hluta Manhattan, bankahverfið, sem hingað til hefur verið dautt um kvöld og helgar.

St. Paul´s Chapel

Úr WTC nr. 2 göngum við út á Liberty Street, skoðum bronzstyttuna af bankamanninum og rauða teninginn á rönd eftir Isamu Noguchi fyrir framan Marine Midland bankann. Síðan beygjum við til vinstri og göngum norður Broadway.

Þar verður fljótlega fyrir okkur á vinstri hönd elzta kirkja borgarinnar, St Paul´s Chapel, reist 1764-1766 í georgíanskum stíl, sennilega fegursta kirkja borgarinnar að innan jafnt sem utan.

Woolworth

Nágranni heilags Páls er Woolworth-turninn í gotneskum stíl að utanverðu og innanverðu. Hann var reistur 1913 og var hæsta hús í heimi, þar til Chrysler-turninn var reistur 1930. Gaman er að líta inn í anddyrið og skoða listaverkin í veggjum og lofti.

City Hall

Í garðinum andspænis Woolworth er ráðhús borgarinnar, City Hall, raunar minnsta ráðhús í Bandaríkjunum, í eins konar frönskum endurreisnar- eða hallarstíl. Þegar það var reist, þótti það svo langt út úr bænum, að norðurhliðin var ekki klædd marmara, þar sem ekki var búizt við, að neinn sæi það úr þeirri átt.

Garðurinn fyrir framan er ekki stór en einkar friðsæll. Þar er brunnur eftir Delacorte. Við hann fara fram ýmsar opinberar athafnir borgarinnar, hér áður fyrr hengingar.

Trinity Church

Við höldum til baka suður Broadway. Þar sem gatan mætir Wall Street, er Trinity Church á hægri hönd í friðsælum, grasi grónum kirkjugarði og snýr stefni að mynni Wall Street. Þessi gotneska kirkja var reist 1846 úr rauðum sandsteini, en er nú orðin kolsvört og ætti skilið að fá þvott.

Trinity Church er eins og dvergur innan um skýjakljúfana, en dregur þó að sér athygli, ekki aðeins sem verndarengill Wall Street, heldur einnig vegna áberandi langrar spíru á kröftugum turni. Við göngum inn í mjótt Wall Street og horfum til baka í átt til kirkjunnar.

Wall Street

Við erum í miðju bankagljúfri heimsins. Ef við erum hér í hádeginu, er varla hægt að komast leiðar sinnar í mannmergðinni. Hér var áður veggurinn, sem Hollendingar reistu til varnar gegn Indjánum. Gatan er enn dálítið undin eins og veggurinn var. Hér eru bankar á alla vegu, svo og kauphöllin á hægri hönd.

New York Stock Exchange

Kauphöllin í New York var reist 1903 í rómverskum musterisstíl. En það er ekki útlitið, sem skiptir okkur máli, heldur innihaldið. Úr hliðargötunni Broad Street er inngangur á nr. 20. Þar getum við fengið að fara inn og upp á svalir til að virða fyrir okkur atganginn á kauphallargólfinu.

Sérfræðingur í kauphallarviðskiptum reynir að skýra fyrir okkur, hvernig kauphöllin starfar. Við erum litlu nær, en horfum í leiðslu á vitfirringsleg köll og handapat 3000 braskara á 900 fermetra pappírs-ruslahaug kauphallargólfsins. Þeir horfa á risastóra talnaskjái á veggjunum og lemja lyklaborðin á tölvunum. Þær eru á 16 viðskiptaeyjum á gólfinu, 60 á hverri eyju, samtals 960.

Öll viðskipti eru samstundis sýnd á veggjunum, ekki bara hér, heldur um gervihnött í London og Tokyo, þar sem svipaður atgangur á sér stað. Raunar eru svona kauphallir, í smærri stíl, í öllum stórborgum hins vestræna heims, — nema Reykjavík.

Chase Manhattan

Þegar við komum aftur út undir bert loft, göngum við til baka Broad Street, yfir Wall Street og áfram inn Nassau Street. Eftir 50 metra göngu komum við að torginu fyrir framan Chase Manhattan bankann. Þar er frægt listaverk eftir Dubuffet, fjögur tré í svörtu og hvítu. Ennfremur kjallaragarður úr steini og vatni eftir Isamu Noguchi.

Bowling Green

Við snúum til baka Nassau Street og Wall Street að Trinity Church. Þar beygjum við til vinstri suður Broadway að Bowling Green. Það er lítill garður, umlukinn járngirðingu frá 1771, elzti opinberi garður borgarinnar.

Að baki garðinum er United States Custom House, tollbúðin í borginni, reist 1907 í Beaux Arts stíl.

Battery Park

Hér komum við á hægri hönd að Battery Park, syðsta oddi borgarinnar. Garðurinn heitir eins og batteríið í Reykjavík eftir gömlu fallbyssustæði, sem var borginni til varnar á dögum frelsisstríðsins. Garðurinn er hið notalegasta gönguferðasvæði. Í hádeginu er hann fullur af bankafólki að snæða upp úr pappírspokum.

Ellis Island

Frá Battery Park ganga ferjur yfir árnar Hudson River og East River. Meðal annars gengur ferja til Ellis Island, sem er vestarlega í Hudson River. Þar var áður innflytjendamiðstöð Bandaríkjanna. Allir þeir, sem flúðu sult og styrjaldir í Evrópu fóru þar í gegn til að fá heimild til að setjast að í sæluríki Bandaríkjanna.

Stöðin var lögð niður 1954 og er í niðurníðslu. Mikil hreyfing er í gangi við að safna USD 50 milljónum til að endurreisa hana sem safn og er viðgerðin raunar þegar hafin. Boðið er upp á leiðsögn fyrir ferðamenn.

Statue of Liberty

Meiri umferð er á ferjuleiðinni til Liberty Island, þar sem trónir frelsisstyttan, nýviðgerð og ljómandi. Hana hannaði franski listamaðurinn Bartholdi. Frakkar borguðu hana með samskotafé og gáfu Bandaríkjunum til minningar um sigurinn í frelsisstríðinu, sem Frakkar háðu með Bandaríkjamönnum gegn Bretum. Æ síðan hefur styttan verið tákn Bandaríkjanna og frelsis, kærkomið augnayndi öllum þeim, sem voru á leiðinni í innflytjendastöðina á Ellis Island.

Styttan er um 120 metra há og vegur 225 tonn. Erfitt er að ganga upp stigana, svo að bezt er að treysta á lyftuna fyrri helming leiðarinnar. Alls eru 22 hæðir upp í kórónu frelsisgyðjunnar. Þetta er pílagrímsför, sem allir sannir Bandaríkjamenn fara einu sinni á ævinni eins og Múhameðstrúarmenn til Mekka.

Frá Battery Park sigla ferjur líka til Staten Island. Þær sigla framhjá frelsisstyttunni. Þar sem farið kostar aðeins fáa tugi centa, bjóða þær ferjur upp á ódýrustu skoðunarferðina í borginni, með frábæru útsýni til bankahalla niðurbæjarins.

Fraunces Tavern

Úr garðinum göngum við rétt inn í Water Street og beygjum strax til vinstri í Broad Street. Á næsta horni, þar sem mætast Broad Street og Pearl Street, er lágreist húsalengja í gömlum stíl, kennd við veitingahúsið Fraunces Tavern, sem þar er á horninu.

Þetta tígulsteinshús frá 1719 er frægast fyrir, að þar kvaddi George Washington liðsforingja sína í lok frelsisstríðsins. Útlitið er upprunalegt, en innihald hússins er frá 1927. Maturinn á kránni er ekki góður, líklega frá 1927. Í húsinu er einnig safn.

Water Street

Við höldum til baka og snúum til vinstri inn Water Street, sem áður var hafnargata borgarinnar. Þar verður strax á vegi okkar á hægri hönd steingarðurinn Jeannette Park, sem verið er að umskíra í Garð hermanna úr Vietnam-stríðinu. Þetta er fremur ljótur garður, en þar er þétt setið í hádeginu.

Skýjakljúfarnir eru í röðum við Water Street, hver með sínu yfirbragði, sumir hverjir með viðleitni til mannlegs umhverfis á jarðhæð.

Schermerhorn Row

Við komum brátt að Schermerhorn Row, þar sem byrjar ferðamannasvæðið í South Street Seaport. Þessi húsalengja er hluti hinna upprunalegu vöruhúsa við höfnina, reist í georgískum stíl með síðari framhliðum jarðhæða úr steypujárni. Þar eru nú þekktar verzlanir og veitingahús. Skemmtilegust er járnvöruverzlunin Brookstone, sem er andspænis gangstéttarkaffihúsinu Gianni´s.

Fulton Market

Næst komum við að miklu húsi hins fræga fiskmarkaðar Fulton Market. Sjálfur heildsölu-fiskmarkaðurinn er í fullu fjöri eldsnemma — fyrir klukkan sex — á morgnana, þegar fáir ferðamenn eru á fótum, en við sólarupprás eru opnaðar í markaðsbyggingunni smábúðir, þar sem hægt er að kaupa margvíslegt góðgæti.

Smábúðirnar og veitingasalirnir eru á þremur hæðum. Þar eru sérverzlanir osta, fiskjar, kaffis, brauða, sultu, svo að dæmi séu nefnd, og matstaðir af ótal tagi, þar sem hægt er að fá smárétti margra þjóða.

South Street Seaport

Úti á bryggjunni við Fulton markaðinn hefur verið komið fyrir sjóminjasafni undir beru lofti. Það er eitt bezta dæmið um, hvernig hægt er að taka gömul hús og mannvirki, fríska þau upp og búa til aðdráttarafl fyrir ferðamenn. South Street Seaport er orðin einn helzti áfangastaður ferðamanna í New York.

Í höfninni eru sögufræg skip frá upphafi aldarinnar, svo sem teflutninga-seglskipið Peking og riggarinn Ambrose, svo og fljótandi viti. Í sjálfu nítjándu aldar bryggjuhúsinu á bryggju nr. 17 hefur verið komið fyrir fjölmörgum smáverzlunum, sem freista ferðamanna. Þar fæst allt frá tízkufötum yfir í hvalveiðibúnað. Þar eru líka veitingasalir og þaðan er ágætt útsýni yfir East River til Brooklyn-brúar og Brooklyn.

Allt er þetta úthald eins konar Disneyland, miðað við að létta pyngju ferðamanna og ekki verður betur séð en, að fórnardýrin séu hæstánægð.

Brooklyn Bridge

Eftir skoðunina er gaman að rölta 50 metra eftir Front Street í átt að Brooklyn-brúnni. Við þvergötuna Peck Slip er blekkimálverk á vegg, eftirlíking af Brooklyn-brúnni.

Að baki rís sjálf hengibrúin við himin. Hún er ein fegursta brú borgarinnar, reist 1883 og var þá talin verkfræðilegt afrek, fyrsta stálvírahengibrú heimsins og þá lengsta brú veraldar, spannar 486 metra haf. Af gangbraut brúarinnar er frábært útsýni.
Héðan er stuttur spölur að upphafspunkti fjórðu ferðar, sem liggur um gömul þjóðahverfi.

4. ferð:

Mott Street

Gönguferðina um Chinatown hefjum við á Chatam Square á Bowery. Það er suðurendinn á Skid Row, rónabæli borgarinnar. Skid Row er heiti neðsta hluta Bowery, frá Chatam Square norður til 4th Street. Rónarnir eru meinlausir, en sums staðar þarf að sæta lagi við að klofa yfir þá.

Við ætlum ekki að skoða Bowery, heldur förum til vesturs frá Chatam Square inn í Mott Street, ás kínverska hverfisins. Þar mætir okkur krydduð matarlykt úr verzlunum og veitingahúsum, hafsjór óskiljanlegra auglýsingaskilta á kínversku og símaklefar með kínversku pagóðu-þaki.

Við förum rólega, lítum inn í tvær þvergötur til hægri, Pell og Bayard Streets, og njótum þess að vera um stundarsakir í allt annarri heimsálfu, þar sem meira að segja blöðin sjö í söluturnunum eru á kínversku. Við höfum valið sunnudag til gönguferðarinnar, því að þá koma Kínverjar úr öðrum hverfum og þá er mest um að vera í Mott Street.

Við fáum okkur að lokum hádegismat á einhverju hinna betri veitingahúsa, Hee Sung Feung, Say Eng Look, Hwa Yuan Szechuan, Canton eða Phoenix Garden. Hinna þriggja fyrstu er getið framar í þessari bók.

Mulberry Street

Við Canal Street beygjum við eina húsablokk til vinstri og höldum svo áfram til norðurs eftir Mulberry Street, ás ítalska hverfisins. Eins og í Chinatown er mest um að vera í Little Italy á sunnudögum, þegar Ítalir koma úr úthverfunum til að verzla og borða.

Mulberry Street er löng og mjó gata, sem gæti hafa verið flutt í heilu lagi frá Palermo eða Napoli. Þar eru smábúðir, sem selja spaghetti, makkaroni og ótal aðrar tegundir af pasta. Þar situr fólk úti á gangstétt og sötrar rauðvín meðan það bíður rólegt eftir því að klukkan verði nógu margt til að hægt sé að fara að borða. Við sláumst í þann hópinn.

Þegar við komum norður að Houston Street, beygjum við til hægri eftir þeirri götu. Ef við vorum ekki búin að snæða í Chinatown og ef ekki er sunnudagur, fáum við okkur hádegisverð í Ballato, bezta ítalska matstaðnum.

Houston Street er borið fram “háston” á newyorsku. Það er mikil skransölugata gangstéttarkaupmanna, full af lífi og fjöri. Eftir að hafa litið á varninginn, yfirgefum við hávaðann og göngum austur götuna, allt að Orchard Street.

Orchard Street

Orchard Street er markaðsgata gyðingahverfisins Loiasada eða Lower East Side, eins konar austrænn bazar eða souk. Einnig þar er mest um að vera á sunnudögum. Þar er hægt að prútta um verð og rétt og skylt að halda fast um veskið. Þar má sjá rétttrúaða kaupmenn með langa lokka framan við eyrun, kollhúfu og alskegg. Þangað fara borgarbúar til ódýrrra innkaupa.

Við göngum Orchard Street frá Houston Street til Delancey Street, þar sem þessari skoðunarferð má ljúka. Ef klukkan er orðin fjögur, getum við skotizt inn á Sammy´s Rumanian Jewish Restaurant og fengið okkur saðsaman mat að gyðinglegum hætti.

5. ferð:

Washington Square

Við getum líka fengið okkur leigubíl eða rölt í stundarfjórðung inn í hjarta Greenwich Village, að Washington Square, þar sem næsta ferð hefst. Það gerum við, af því að Washington Square er skemmtilegast á sunnudegi, en að öðru leyti kann að vera betra að fara þessa 5. ferð á laugardegi eða öðrum virkum degi, þegar listsýningarsalirnir eru opnir.

Washington Square er stærsti garðurinn á sunnanverðu Manhattan. Hann er sunnudagsstofa þorpsbúa í Greenwich Village. Þar getum við sezt niður til að tefla skák, hlýtt á farandhljómsveitir, horft á hjólabrettis-akróbata og neitað okkur um að kaupa duft. Lífið í garðinum er skemmtilegast að áliðnum degi og að kvöldi.

Fyrir nokkrum árum var Washington Square óþolandi vegna háværra útvarpstækja. Eftir innreið vasatækja með heyrnartólum hefur lífið færzt aftur í skaplegt horf í garðinum. Nú má aftur fá frið til að tapa nokkrum dollurum í fimm mínútna skák.

Að baki garðinum norðanverðum eru tvö skemmtileg húsasund, þar sem áður voru hesthús hefðarfólksins, sem bjó við garðinn, en núna íbúðir menntamanna, er hafa þar fullkomið næði rétt við skarkala torgsins. Þetta eru Washington Mews og MacDougal Alley og þar ríkir andrúmsloft afskekktra þorpsgatna.

Jazzland

Úr MacDougal Alley förum við til hægri MacDougal Street, síðan til vinstri West 8th Street og aftur til vinstri Christopher Street. Þar lítum við inn í West 4th Street, áður en við beygjum enn til vinstri í Bleecker Street.

Á þessu svæði er fullt af leikhúsum og jazzklúbbum, matvöruverzlunum og handverkstæðum, forngripabúðum og sérvizkuverzlunum, kaffistofum og veitingahúsum, þótt hverfið sé fyrst og fremst íbúðarhverfi. Göturnar eru krókóttar og villugjarnar. Þær minna frekar á London en New York, enda eru húsin ekki háreist. Þetta er Jazzland eða Off-Broadway, bezt þekkt undir nafninu Greenwich Village.

Hér ríkir ekki hraðinn og streitan, sem við sjáum í bankahverfinu og miðbænum. Þetta er notalegasti hluti borgarinnar, sums staðar rólegur, annars staðar fjörlegur. Hérna megin eða austan við Christopher Street er hinn hefðbundni hluti Greenwich Village, en hommahverfið handan eða vestan við götuna.

Þegar við komum í Bleecker Street, færist fjör í leikinn. Í þeirri götu og í þvergötunum MacDougal og Sullivan Street er verzlunarmiðstöð hverfisins með fögrum ávaxta- og blómabreiðum úti á gangstétt.

Á svæðinu, sem við höfum rölt um, eru jazzholurnar Blue Note, Village Vanguard og Sweet Basil, þjóðlagakrárnar Folk City og City Limits, matgæðingabúðin Balducci´s, veitingahúsin Sabor og Texarkana, gangstéttarkaffihúsið Reggio og barinn Chumleys. Allra þessara staða er getið framar í þessari bók.

West Broadway

Úr Bleecker Street beygjum við til hægri suður La Guardia Place, yfir West Houston Street og áfram suður West Broadway. Á West Houston Street, sem við könnumst við frá fjórðu ferð, gefum við okkur tíma til að fylgjast með gangstéttarverzluninni.

West Broadway er myndlistargata New York. Þar eru margir af þekktustu listsýningarsölum borgarinnar, svo sem Leo Castelli, Mary Boone og Dia Art. Við göngum suður að Broome Street, beygjum þar til vinstri og svo aftur til vinstri norður Wooster Street, alla leið aftur til West Houston Street. Þar beygjum við til vinstri og svo aftur til vinstri suður Greene Street, alla leið suður að Canal Street.

Á leiðinni lítum við inn í listsýningasali, sem eru þéttastir við West Broadway og Wooster Street. Við lítum líka inn í vínbarina Wine Bar og Soho Kitchen og bjórkrána Fanelli´s, frábæra áningarstaði á rólegu rölti okkar um listahverfið SoHo.

Greene Street

Í Greene Street, einkum syðst, sjáum við falleg dæmi um byggingarlist vöruhúsanna, sem einkenna þetta hverfi. Framhlið húsanna prýða gjarna tveggja hæða hásúlur. Þessar framhliðar eru yfirleitt úr steypujárni, sem hefur verið látið renna í mót eftir margvíslegu hugmyndaflugi, er fékk að leika lausbeizlað á síðari hluta nítjándu aldar. Þá var frelsi járnsteypunnar notað til að verksmiðjuframleiða stælingar alls kyns stíla fyrri tíma, einkum endurreisnar og nýgnæfu. Síðar hafa bætzt við brunastigar. 50 slík hús hafa verið varðveitt við Greene Street.

Í þessum húsum var áður fataiðnaður, annar léttaiðnaður og vörugeymslur, en nú búa þar vel stæðir listamenn og þeir, sem vilja búa í listamannahverfi.

Syðst í götunni Mercer Street, sem liggur samsíða Greene Street, er Museum of Holography, þar sem leikið er með leysigeislum á þrívídd á afar sannfærandi hátt. Þetta er sérstætt safn, en farið að gerast þreytulegt.

White Street

Úr suðurenda Greene Street beygjum við til hægri eftir Canal Street og síðan til vinstri suður West Broadway. Við yfirgefum listamannahverfið SoHo og förum gegnum listamannahverfið TriBeCa. Við tökum eftir, hvaða vöruhús eru orðin að vinnustofum, því þar hanga plöntur í gluggum.

Í þvergötunni White Street, sem liggur til vinstri frá West Broadway, sjáum við einna beztu dæmin um steypujárnshús hverfisins, sem eru hliðstæð slíkum húsum í SoHo.

Við endum þessa göngu í kvöldverði í veitingahúsinu Odeon við West Broadway. Þar má sjá margan furðufuglinn úr hópi þorpsbúa TriBeCa.

6. ferð:

Times Square

Við hefjum sjöttu ferð á Times Square, miðpunkti leikhús-, bíó- og klámhverfis borgarinnar. Við lítum yfir auglýsingaskiltin og hina löngu biðröð við leikhúsmiðasöluna TKTS við Father Duffy Square.

Síðan göngum við norður eftir Broadway, sem er ás þessa hverfis. Á vinstri hönd er Marriott-hótelið, sem reynir að mynda virðuleika í annars glannalegu hverfinu. Á daginn er þetta svæði fremur hráslagalegt, en eftir sólarlag verður það að neonljósa-draumaheimi.

Í hliðargötunum eru leikhúsin hlið við hlið, samtals 42 að tölu, flest milli 7th og 8th Avenues. Hins vegar er lítið um sómasamleg veitingahús. Ágætar pylsur fást hjá Nathan´s Famous og grísk mússaka á Pantheon. Aðeins norðar er betra fæði í nokkrum veitingahúsum, sem getið er framar í þessari bók, Café des Sports, Siam Inn, Tastings I og ekki sízt í Russian Tea Room.

Columbus Circle

Við göngum framhjá hinu fræga Carnegie Hall og förum út á Columbus Circle, þar sem ferðamálaráð borgarinnar býr í marokkönskum turni andspænis suðvesturhorni Central Park.

Við höldum áfram eftir Broadway, framhjá Lincoln Center, þar sem við stöldrum við áður en við tökum stefnuna eftir Columbus Avenue. Frá Carnegie Hall og Lincoln Center er sagt framar í þessari bók, í menningarkaflanum.

Columbus Avenue

Ein nýjasta tízkugata borgarinnar er Columbus Avenue, sem hefur blómstrað, síðan Lincoln Center var opnað. Þar hafa skotið rótum tízkuverzlanir, barir og veitingahús. Gangstéttarverzlun stendur og þar með blóma og útimarkaður er vestan götunnar, milli 76th og 77th Streets. Þar blasir við American Museum of Natural History. Við göngum meðfram því út í Central Park.

Central Park

Central Park er lunga borgarinnar, orðið til fyrir baráttu skáldsins W. C. Bryant, hannað af Olmsted og Vaux árið 1856 og var 15 ár í uppbyggingu. Garðurinn er risastór, 840 ekrur milli 5th og 8th Avenues, 59th og 110th Streets. Vötn og hæðir voru gerðar með handafli og plantað 100.000 trjám.

Helzta einkenni hans er, að umferð akandi og gangandi fólks er skilin í sundur. Hægt er ganga um garðinn þveran og endilangan án þess að fara yfir bílagötu, enda er bílaumferðin að mestu leyti neðanjarðar. Gönguleiðirnar liggja í sveigjum um allan garðinn, yfir brýr og boga, 46 talsins, með síbreytilegu útsýni.

Central Park skiptist í stórum dráttum í tvennt um vatnsþróna í miðjum garði. Norðurhlutinn er minna skipulagður og skiptist í tiltölulega stór svæði. Suðurhlutinn er skipulagðari, smágerðari og raunar fjölbreyttari, með smávötnum, skógarlundum og klettahæðum.

Skemmtilegast er að fara um garðinn á sunnudögum, þegar Manhattan-búar nota hann fyrir stofu. Sumir eru þar með garðveizlu í farangrinum, aðrir skokka eða hjóla. Hópar eru í blaki eða hornabolta. Nokkrir keppa á hjólabrettum og aðrir róa um á bátum. Og svo eru þeir, sem lesa bækur eða sofa hreinlega með dagblaðið yfir andlitinu.

Ekki er ráðlegt að fara um Central Park í myrkri og ekki heldur fáförular slóðir hans að degi til. Haldið ykkur í kallfæri við mannþröngina.

Belvedere Castle

Við göngum beint frá 77th Street inn í garðinn og komum að The Lake, þar sem við beygjum til vinstri. Þar verður fyrir okkur Balcony Bridge, sem liggur yfir norðurenda vatnsins. Þaðan er ágætt útsýni yfir vatnið, skógarhæðirnar, Ramble, að baki þess og skýjakljúfana aftast.

Við höldum áfram til norðurs að Belvedere Castle, sem stendur einna hæst í garðinum. Það er lítil kastalabygging í Disneyland-stíl með ágætu útsýni til norðurs yfir hornaboltavöllinn stóra, þar sem fjöldi leikja er háður samtímis, og til suðurs yfir skógarhæðirnar.

Við austurhlið garðsins sjáum við Metropolitan Museum of Art og hérna megin við það einsteinung frá Egyptalandi, kallaðan Nál Kleópötru. Við getum tekið krók að nálinni, framhjá bókalesendum og sofandi fólki, eða bara farið umhverfis litla vatnið hér fyrir neðan, Belvedere Lake. Í nágrenni nálarirnar eru oft útitónleikar sinfóníuhljómsveita.

The Ramble

Fyrir sunnan vatnið tekur við villtasti hluti garðsins, The Ramble. Það eru skógi vaxnar hæðir og klettaásar með mjögsveigðum gangstígum til allra átta, svo og nokkrum síkisbrúm. Þetta er vinsælt svæði ástarlífs. Úr Ramble förum við suður yfir The Lake á Bow Bridge, steypujárnsbrú, sem býður gott útsýni til beggja handa.

Handan brúarinnar förum við til vinstri og komumst að stalli, sem formlega séð er miðja garðsins. Á stallinum er Bethesda-brunnurinn með styttu af englum vatnsins. Þar í kring eru oft sveitir hjólaskautara. Og þar er líka hljómsveitarpallur, sem oft er notaður um helgar.

The Mall

Hér getum við tekið krók til austurs að tjörninni Conservatory Pond. Þar er stytta af H. C. Andersen, ásamt með ljóta andarunganum, og önnur af Lísu í Undralandi, ásamt með brjálaða hattaranum, báðar vinsæl klifurtæki barna.

Við snúum til baka að Bethesda-brunni og förum þaðan til suðurs eftir beinu götunni, sem heitir The Mall. Hún liggur framhjá hljómsveitarpalli, þar sem oft er eitthvað um að vera. Síðan förum við framhjá The Dairy, sem er upplýsingamiðstöð svæðisins.

Frá upplýsingamiðstöðinni förum við til vinstri að dýragarðinum, Zoo, sem er í austurhlið garðsins. Það er gamall dýragarður, mikið sóttur og nokkuð þreytulegur, enda handhægur ferðamönnum. Hann stenzt engan samanburð við aðaldýragarð borgarinnar í Bronx. Norðan við hann er sérstakur dýragarður fyrir börn, Children´s Zoo.

Avenue of the Americas

Úr dýragarðinum förum til suðvesturs að skautavellinum og vestan megin hans út úr garðinum og inn í 6th Avenue, sem formlega heitir Avenue of the Americas, en er sjaldnast kölluð því nafni. Hér í þessari bók hefur orðið 6th Avenue jafnan verið notað.

Við 6th Avenue eru nokkrir frægir skýjakjúfar hægra megin götunnar, þegar komið er framhjá Hilton-hótelinu. Þeir ná ekki alveg út að götu og hafa fyrir framan lítil torg með gosbrunnum og listaverkum. Þetta eru byggingar Equitable Life, Time & Life, Exxon og McGraw Hill.

Mikið hefur verið lagt í þessa turna og í að reyna að fegra umhverfi þeirra. Samt eru þeir taldir dæmi um gerilsneydda byggingarlist. Gosbrunnatorgin draga ekki að sér fólk til að gæða þau lífi. Betur hefur tekizt til við síðari tíma skýjakjúfa, sem reistir hafa verið austan við 5th Avenue, svo og fyrri skýjakjúfa, einkum í Rockefeller Center.

Við endum einmitt þessa göngu aftan við Rockefeller Center.

7. ferð:

Empire State

Auðvelt er að rata í sjöundu ferð, því að hún leiðir okkur eftir 5th Avenue endilangri. Við hefjum ferðina syðst, í Empire State Building, að morgni dags, þegar skyggni er líklegt til að vera hagstæðast.

Einu sinni var þetta hæsta hús í heimi og síðast, þegar við vissum, enn hið þriðja hæsta. Turninn hefur oft verið notaður sem tákn borgarinnar, enda er hann stórfenglegt og virðulegt dæmi um byggingarlist skýjakljúfanna.

Tvær lyftur flytja okkur upp á 86. hæð, þar sem er opið útsýnissvæði, og hin þriðja upp á 102. hæð, með lokuðu útsýnissvæði, sérstaklega skemmtilegu að kvöldlagi. Áður en aðgangseyrir er greiddur er skynsamlegt að líta á töfluna, þar sem sagt er frá skyggni líðandi stundar. Við beztu aðstæður að degi til má sjá yfir 70 kílómetra í allar áttir.

Í anddyrinu er sýning á vegum Guinnes Book of World Records.

New York Public Library

Þegar við komum út úr Empire State, getum við tekið leigubíl eða rölt norður frá 34th Street til 40th Street, en þar er borgarbókasafnið í nýgnæfustíl með kórintusúlum, tveimur frægum ljónum og miklu tröppuverki, þar sem fólk situr í hópum, horfir á ysinn og þysinn í kring og reykir vöru, sem það hefur keypt í Bryant Park að safnbaki. Hér og þar við tröppurnar eru fluttar ræður eins og á Speakers´ Corner í London.

Inni eru geymd 5,5 milljónir eintaka af bókum. Þetta er næststærsta bókasafn Bandaríkjanna á eftir Library of Congress í Washington. Lestrarsalir eru margir, en áhrifamestur er aðalsalurinn á þriðju hæð. Á jarðhæðinni eru oft merkar sýningar.

Bryant Park

Að baki NY Public Library er Bryant Park, löngum ein helzta miðstöð fíkniefnasölu í borginni. Á síðustu árum hefur verið reynt að endurreisa hann með hádegis-konsertum, fornbókavögnum og skyndibitastöðum. Árangurinn er sá, að nú orðið notar margt skrifstofufólk í nágrenninu garðinn sem hádegisverðarstað og virðir ekki höndlarana viðlits. Við hliðina, sem snýr að 42nd Street, er hægt að taka fimm mínútna skák eða spila backgammon (kotru).

Diamond Row

Við höldum áfram norður 5th Street. Við beygjum til vinstri inn í 47th Street. Kaflinn milli 5th Avenue og 6th er kallaður Diamond Row, af því að þar eru gimsteinsalar í röðum. 80% allrar heildsölu skartgripa í Bandaríkjunum fara fram á þessum hundrað metrum.

Heildsalan fer fram í bakhúsum og á efri hæðum, en smásalan við götuna. Sumir kaupmennirnir eru með gimsteinana í vösunum og gera út um viðskiptin úti á gangstétt. Þau eru handsöluð án þess að peningar sjáist fara á milli.

Channel Gardens

Við förum áfram 5th Avenue framhjá mörgum söluskrifstofum flugfélaga og vaxandi fjölda frægra tízkubúða.
Milli 49th og 50th Streets, andspænis tízkuverzluninni Saks, förum við til vinstri inn í Channel Gardens, þar sem söluskrifstofa Flugleiða er á vinstri hönd. Channel Gardens er notaleg gróðrar- og lækjarbunuvin í stál- og glerfrumskógi miðborgarinnar, kjörinn staður til að mæla sér mót. Þetta er eins konar Austurvöllur borgarinnar, því að þar er sett upp jólatré borgarinnar.

Rockefeller Center

Framundan er Rockefeller Plaza á lægra gólfi, þar sem skautað er að vetrarlagi og drukkið kaffi á sumrin. Yfir torginu vakir gullhúðuð bronzstytta af Prómeþeifi.

Þetta er miðja Rockefeller Center, sem aftur á móti er af mörgum talin vera miðja New York. Turnarnir við torgið voru reistir í Art Decco stíl árin fyrir síðari heimsstyrjöldina. Þeir eru tengdir saman neðanjarðar um Rockefeller Plaza. Þar niðri eru verzlanir og veitingahús á fjörlegu neðanjarðarsvæði.

Tignarlegastur turnanna í Rockefeller Center er RCA-höllin, sem gnæfir í 70 hæðir yfir torginu. Þar uppi er ágætt útsýni frá þaksvölunum. Að baki RCA-hallarinnar er Radio City Music Hall, stærsta tónlistarhöll heims, með sætum fyrir 6.000 manns.

St. Patrick´s Cathedral

Við göngum til baka Channel Gardens og snúum til norðurs eftir 5th Avenue. Andspænis er tízkuverzlunin Saks. Hérna megin götunnar er International Building með hinni frægu styttu af Atlasi eftir Lawrie fyrir framan.

Handan götunnar er höfuðkirkja kaþólikka í borginni, St Patrick´s Cathedral, reist 1879. Hún var langt uppi í sveit, þegar hún var reist, en er nú eins og dvergur á milli skýjakljúfanna. Samt er hún ellefta stærsta kirkja í heimi. Í höfuðdráttum er hún í gotneskum stíl, þótt svifsteigurnar vanti.

Endalausum skrúðgöngum írskra landnema lýkur við kirkjuna á degi heilags Patreks. Þá er allt á hvolfi í bænum og allar krár fullar af þyrstu fólki.

Paley Park

Við göngum til hægri inn í 53rd Street. Þar er á vinstri hönd auð lóð, sem hefur verið gerð að yndislegum, litlum garði, Paley Park. Þar drekkja fossaföllin umferðarhávaðanum og þar er hægt að fá sér eina með öllu og kók. Paley Park er skólabókardæmi um, hversu vel er hægt að nýta lítið svæði. En við förum til baka út á 5th Avenue.

Við 53rd Street, handan 5th Avenue, er Museum of Modern Art, höfuðsafn borgarinnar, sem frá er sagt framar í þessari bók.

5th Avenue

Við erum komin í þungamiðju hins fína verzlunarhverfis Manhattan. Hér við 5th Avenue rekur hver tízkubúðin aðra, Cartier, Botticelli, Lapidus og Gucci.

Einmana bókabúð er þó vinstra megin, milli 52nd of 53rd Streets. Það er Dalton. Síðast, þegar við vorum þar, var Johnny Cash að árita nýju bókina sína um Pál postula. Uppi yfir búðinni gnæfir turn, sem hefur heimilisfangið 5th Avenue 666. Þar uppi er ágætur útsýnisbar, sem heitir Top of the Sixes.

Síðan halda tízkubúðirnar áfram. Við sjáum nöfnin Elizabeth Arden, Godiva og náum hámarki í Tiffany og Bergdorf Goodman á horninu, þar sem 5th Avenue mætir 57th Street.

Trump Tower

Við hliðina á Tiffany hefur nýlega verið reistur sérkennilegur turn með skemmtilega gróðursælu stallaflúri á neðstu hæðum. Það er skýjakljúfurinn Trump Tower með sex hæða meginsal dýrra tízkuverzlana neðst og gífurlega dýrum lúxusíbúðum þar fyrir ofan, sjá mynd á bls. 5.

57th Street

57th Street er álíka fín verzlunargata og 5th Avenue. Þar eru kunnar tízkuverzlanir í röðum, þar á meðal áðurnefndar Bergdorf Goodman og Henri Bendel, svo og gjafavörubúðin Tiffany. En gatan er jafnfræg sem gata listmunasala. Tízkuverzlanirnar eru á jarðhæð húsanna, en listaverkasalirnir á efri hæðum.

Í næsta nágrenni horns 57th Street og 5th Avenue eru ýmis þekkt hótel og veitingahús, sem sumra hverra er getið framar í þessari bók.

Grand Army Plaza

Milli 58th og 59th Street er Grand Army Plaza, virðulegt torg með dýrum verzlunum og hótelum á alla vegu, svo og boðflennu General Motors hússins. Á miðju torginu er Pulitzer minningarbrunnurinn. Hér bíða hestvagnarnir eftir viðskiptavinum, sem vilja — eins og í Hollywood-bíómyndunum — fá sér ökutúr um Central Park.

Museum Mile

Norðan við Grand Army Plaza tekur við Museum Mile. Það er sá hluti 5th Avenue, sem liggur meðfram Central Park. Þar eru söfnin í röðum, fyrst Frick Collection, síðan Metropolitan Museum, Guggenheim og Cooper-Hewitt. Aðeins innar er svo Whitney við Madison Avenue. Frá öllum þessum söfnum er sagt framar í bókinni.

8. ferð:

United Nations

Við hefjum þessa síðustu gönguferð bókarinnar á horni 1st Avenue og 43rd Street, við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna á bakka East River. Aðalstöðvarnar eru einna glæsilegastar séðar frá þessu sjónarhorni.

Þær voru reistar 1947-1953, hannaðar af nefnd heimskunnra arkitekta á borð við Le Corbusier, Oscar Niemeyer og Sven Markelius. Ytra útlit er talið að mestu leyti verk Corbusiers. Skýjaklúfurinn er hinn fyrsti í borginni, sem er alglerjaður að utanverðu. Í honum eru skrifstofur Sameinuðu þjóðanna.

Sérkennilega, lága húsið fyrir framan, þar sem fánaborgin er, hefur að geyma fundarsal Allsherjarþingsins. Að baki þess eru lágreist hús með ýmsum öðrum fundarsölum. Flesta merkustu salina má sjá, þegar fundir standa ekki yfir. Gengið er inn að norðanverðu, frá 45th Street.

Andspænis aðalstöðvunum, milli 43rd og 44th Streets, er einn af fegurstu skýjakljúfum borgarinnar, UN Plaza hótelið, með veitingasalnum Ambassador Grill í kjallaranum.

Chrysler Building

Við göngum 42nd Street frá aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Senn verður fyrir okkur á hægri hönd hinn gamli skýjaklúfur frá 1930, Chrysler Building. Hann var hannaður í art decco stíl og undir áhrifum frá bílahönnun þess tíma, þar á meðal turninn, sem minnir á vatnskassa úr módel 1929.

Um skeið, þótti þetta ljótur skýjakljúfur, en á síðustu árum hefur fólk á ný farið að meta hann sem einn hinn fegursta í borginni. Þetta var um skamman tíma hæsta hús í heimi. Ljósaskreytingin í turninum var endurnýjuð fyrir nokkrum árum.

Grand Central Terminal

Örlitlu lengra eftir götunni, einnig vinstra megin hennar, komum við að framhlið Grand Central Terminal, aðaljárnbrautarstöðvar borgarinnar. Þetta feiknarflykki frá árunum 1903-1913 rúmar brautarteina, vegi og göngupalla á mörgum hæðum. Hálf milljón manna fer um stöðina á hverjum virkum degi.

Framhliðin er í Beaux Art stíl og ber um fjögurra metra breiða klukku. Inni er mikið, 10 hæða anddyri, þar sem 38 metrar eru upp í hvelfingu, lengra en í Notre Dame í París. Hvelfingin er skreytt stjörnumerkjum.
Niðri í kjallara er Oyster Bar, eitt allra skemmtilegasta veitingahús borgarinnar.

Pan Am Building

Við förum úr járnbrautarstöðinni til norðurs gegnum Pan Am Building, sem ekki er lengur eign samnefnds flugfélags. Efst í skýjakljúfnum er bar, og þaðan gott útsýni suður til niðurbæjarins og austur til aðalstöðva Sameinuðu þjóðanna.
Þegar við förum úr Pan Am Building að norðanverðu og göngum út á Park Avenue, lítum við til baka. Við sjáum hvernig sveigður skýjakljúfurinn situr klofvega á brautinni. Hann var hannaður 1963 af hinum frægu arkitektum Walter Gropius, Pietro Belluschi og Emery Roth, þótti lengi fremur ljótur, en hefur nú öðlazt virðulegri sess í sögu byggingarlistar.

Park Avenue

Við göngum norður eftir Park Avenue, einu langbraut Manhattans, sem hefur gróðureyju í miðjunni endilangri, og tökum eftir, hvernig komið hefur verið fyrir risastórum glerhýsum og innigörðum á neðstu hæðum skýjaklúfanna austan megin götunnar.

St. Bartholomew´s Church

Síðan förum við framhjá hótelunum Intercontinental og Waldorf Astoria og komum að kirkju sömu megin götunnar. Kirkjan er afar skrautleg, í býzönskum stíl, rauðleit á litinn, frá 1919. Við hana er lítill garður, sem stingur í stúf við kuldalega skýjakljúfana í kring. Það gerir raunar einnig kirkjan sjálf.

Dagar kirkjunnar kunna að vera taldir, því að söfnuðurinn er fremur blankur og fær í sífellu girnilegri tilboð í lóðina frá æstum athafnamönnum, sem vilja reisa þar enn einn skýjakljúfinn.

Villard Houses

Ef við förum til vinstri inn 51st Street, komum við á næsta horni, við Madison Avenue, að Villard Houses. Það eru þrjú hús frá 1884, hönnuð á þann hátt, að þau líta sameiginlega út eins og ítölsk endurreisnarhöll að utanverðu. Að innan eru þau með skreytingum í svifstíl eða rókokkó.

Þessum byggingarsögulega merku húsum í miðri skýjakljúfaþyrpingunni var bjargað með þeim hætti, að hóteleigandinn Helmsley gerði þau að anddyri, börum og veitingasölum hótelhallar, sem hann reisti að baki.

Lever House

Eftir að hafa virt fyrir okkur Madison Avenue, förum við til baka út á Park Avenue og höldum hana áfram til norðurs. Brátt komum við á vinstri hönd að Lever House, sem er auðþekkjanlegt vegna dimmbláa litarins á glerveggjunum.
Lever House var reist 1952 eftir hönnun Skidmore, Owings og Merrill í hreinræktuðum módernisma að hætti Bauhaus. Skýjaklúfurinn er sérstakur að því leyti, að hann nýtir loftrýmið ekki út í yztu æsar og leyfir sólarljósinu að streyma niður í kringum sig.

Lever House nýtur svo mikils álits í sögu byggingarlistar, að það fellur undir húsfriðunarreglur borgarinnar. Húsinu má ekki breyta að neinu leyti.

Citycorp Center

Við förum 54th Street til austurs frá Park Avenue til Lexington Avenue. Þar á horninu blasir við okkur einn hinna yngri skýjakljúfa borgarinnar, Citycorp Center, frá 1977, teiknaður af Hugh Stubbins, afar sérkennilegur útlits bæði neðst og efst.

Skýjakljúfurinn þekkist langt að vegna bratta skúrhallans, sem er á toppi hans. Upphaflega áttu þar að vera lúxusíbúðir, sem ekki voru leyfðar, og síðan sólarorkustöð, sem ekki reyndist framkvæmanleg. En hallinn þykir vera turninum til fegurðarauka.

Niðri hvílir turninn á voldugum, níu hæða súlum, sem standa ekki undir hornunum, heldur miðjum hliðunum. Fyrir bragðið næst rými á horninu við gatnamótin fyrir kirkjuna St Peter´s, sem kúrir hér undir, í skemmtilegri þversögn við himinháan turn hins veraldlega valds.

Undir Citycorp Center er kjallaragarður. Þaðan er gengt inn í óvenju skemmtilega og líflega verzlunar- og veitingamiðstöð, sem er allt í kringum garðinn. Garðurinn heitir The Market og er þægilegur hvíldarstaður.

AT&T

Við snúum á hæli sömu leið út á Park Avenue og höldum enn áfram göngu okkar til norðurs. Á vinstri hönd verður fyrir okkur einn allra nýjustu skýjakljúfa borgarinnar, AT&T, frá 1984. Hann er teiknaður af Philip Johnson og John Burgee, auðþekkjanlegur af Chippendale-stólbaksstíl toppsins. Um leið er hann einn umdeildasti turn borgarinnar.

AT&T er eitt helzta dæmið um fráhvarf nútímans frá modernisma. Hliðar skýjaklúfsins eru virðulega klæddar rauðleitum marmara, en ekki áli, gleri eða stáli. Í heild minnir turninn á ímyndaða ævintýrahöll, sem andinn í lampa Aladíns hefur flutt hingað fyrir misskilning.

Skýjakljúfur þessi stendur á risaháum súlum yfir eins konar almenningsgarði, þar sem franskir garðstólar og kaffiborð eru á víð og dreif. Að því leyti minnir AT&T á Citicorp Center.

Madison Avenue

Þegar við komum á hornið, þar sem Park Avenue mætir verzlanagötunni 57th Street, eigum við kost á þremur leiðum. Hin fyrsta liggur til vinstri eina húsaröð eftir 57th Street og síðan til hægri inn í Madison Avenue.

Sú gata gengur næst 5th Avenue og 57th Street sem hin þriðja af fínustu verzlanagötum borgarinnar. Allt frá 57th Street norður að 72nd Street er óslitin röð verzlana og listsýningarsala.

Madison Avenue er að öðru leyti þekktust sem miðstöð auglýsinga- og áróðursfyrirtækja í borginni.

Greenacre Park

Við eigum þess líka kost að ljúka ferðinni á annan hátt. Þá beygjum við til hægri eftir 57th Street og göngum suður 3rd Avenue. Þegar við komum að 51st Street, beygjum við til vinstri.

Þar vinstra megin götunnar er garðurinn Greenacre Park, örlítill að flatarmáli eins og áðurnefndur Paley Park. Þar getum við hvílst á stólum við lítil borð innan um tré og með notalegan foss að bakgrunni. Rennandi vatnið drekkir umferðarhávaðanum í kring.

Roosevelt Island

Loks eigum við þess kost að ganga 57th Street alla leið vestur að 2nd Avenue og beygja þar til vinstri. Við 60th Street komum við að endastöð Roosevelt Island Tramway, opnaður 1976.

Gaman er að skreppa með skartlitum loftvíravögnum yfir vesturkvísl East River og njóta útsýnisins. Athugið að hafa með ykkur farseðil neðanjarðarlestakerfisins, því að miðar eru ekki seldir á þessari stöð.

Ferðin út í Roosevelt Island, sem er eyja í miðri East River, tekur aðeins fjórar mínútur. Þar í eyjunni hefur verið skipulagt nýtízku íbúðahverfi án bílaumferðar. Af bökkum eyjarinnar er gott útsýni til miðbæjarins.

Þar með lýkur göngu okkar um Manhattan, nafla alheimsins.

Góða ferð!

1988

© Jónas Kristjánsson