Manhattan skiptist í aðgreind hverfi, sem hvert hefur sinn svip og sitt hlutverk í borgarlífinu. Sum bera einkenni landnema frá ákveðnum löndum og önnur bera einkenni ákveðinna þátta atvinnulífsins. Sum eru glæsileg og önnur hrörleg. Einkenni þeirra hverfa, sem hér verður fjallað um, er að þau eru ofan á í lífinu eða á hraðri uppleið.
Downtown
Bankahverfið, sem ýmist er kallað Financial District eða Downtown, er syðsti oddi Manhattan, þar sem borgin var stofnuð af hollenzkum landnemum, sem kölluðu hana Nýju Amsterdam. Nafnið Wall Street stafar af, að þar var í öndverðu veggurinn, sem Hollendingar reistu borginni til varnar gegn Indjánum.
Nú er Downtown samfelld hrúga turna úr stáli og gleri, stærsta bankamiðstöð í heimi. Til skamms tíma var hverfið steindautt um helgar. En nú hefur verið komið upp vinsælli ferðamannaþjónustu við gömlu fiskihöfnina í South Street Seaport, komið upp stóru hóteli og nothæfum veitingahúsum í World Trade Center og verið að reisa lúxusíbúðir norðan við Battery Park, svo að fólk er nú orðið á ferli í Downtown um helgar.
Mjög lítið er af gömlum mannvirkjum í hverfinu, en þau, sem enn standa, verða helzta augnayndi okkar á einni gönguferðinni, sem lýst er aftar í þessari bók. Þau eru skólabókardæmi um, að gömul og hrörleg hús eru vinalegri og fallegri en glæsibyggingar nútímans. Eyðileggjendur Kvosarinnar í Reykjavík ættu að reyna að skilja þetta.
Skýjakljúfahverfið á þessum stað er að því leyti skemmtilegra en miðbæjarhverfið, að gatnakerfið er ekki eins og rúðustrikað blað, heldur fylgir gömlu reiðvegunum. Samt er auðvelt að rata, ef fólk tekur mið af skýjakljúfunum.
Chinatown
Norðan við bankahverfið taka við tvö hverfi. Austan megin er Chinatown, sem áður var talið markast af götunum Bowery, Mulberry, Worth og Canal Streets, en hefur síðar flætt inn í nálægar götur. Hjarta þess er í Mott og Pell Streets.
Hverfið ber kínverskan svip. Auglýsingaskilti eru á kínversku og símaklefarnir eru með kínverskum pagóðu-turnum. Á götuhornum eru seld sjö blöð á kínversku.
Helzta aðdráttarafl hverfisins eru 150 kínversku veitingahúsin, sem eru meðal hinna ódýrustu í borginni og bjóða sum hver upp á mjög góðan mat. Frá veitingahúsunum og matvöruverzlununum leggur notalega austrænan ilm um göturnar. Mest er um að vera í hverfinu á sunnudögum, þegar Kínverjar úr öðrum hverfum koma til að verzla og borða.
Chinatown er fátækt hverfi. Í kjöllurunum spila Kínverjar fjárhættuspil og uppi á hæðunum þræla þeir í fataiðnaði. Glæpaflokkar kreista verndarfé af eigendum verzlana og veitingahúsa. En ferðamenn verða ekki varir við þessa skuggahlið.
TriBeCa
Vestan megin er hverfið TriBeCa. Nafnið er stytting á Triangle Below Canal Street, en hverfið myndar einmitt þríhyrning eða trapizu milli Canal Street, West Broadway, Barclay Street og Hudson-ár. Stundum er hverfið kallað SoSo, sem þýðir South of SoHo, enda er það eins konar framlenging af SoHo til suðurs.
Áður var þetta hverfi vandaðra og skrautlegra, nokkurra hæða vöruskemma og léttiðnaðarhúsa úr steypujárni, sem komið var í niðurníðslu. Þegar húsaleiga fór að rjúka upp úr öllu valdi í SoHo, uppgötvuðu listamennirnir stóru salina í TriBeCa og fluttu vinnustofur sínar suður fyrir Canal Street.
Nú hafa þeir endurlífgað hverfið svo gersamlega, að húsaleigan er farin að stíga ört og hrekja þá til annarra hverfa. Barir, veitingahús, diskó og tízkuverzlanir hafa sprottið eins og gorkúlur.
SoHo
Norðan við Canal Street taka við þrjú kunn hverfi. Þeirra vestast er SoHo, fullu nafni South of Houston Street. Það markast af Canal Street, 6th Avenue, Houston Street og Broadway.
Það er enn eindregnara dæmi en TriBeCa um hverfi vandaðra og skrautlegra steypujárnshúsa fyrir léttan iðnað, sem átti að rífa fyrir aldarfjórðungi, en var í þess stað blessunarlega breytt í hverfi listvinnustofa, sýningarsala, léttvínsbara og veitingahúsa. Þar búa þekktir listamenn, sem hafa efni á að borga háa húsaleigu.
Mest er um að vera í sýningarsölunum á laugardögum. Að öðru leyti er fjörugast í hverfinu á sunnudögum, en þá eru salirnir yfirleitt lokaðir.
Sýningarsalirnir eru einkennistákn SoHo. Þar gerist tízkan í myndlist. Öll París er hreinasta sveitaþorp í samanburði við SoHo á því sviði. Í myndlist er SoHo nafli alheimsins.
Little Italy
Við hliðina á SoHo og beint norðan við Chinatown er Little Italy, hverfi innflytjenda frá Sikiley og Napólí. Það nær frá Canal Street norður til Houston Street og frá Lafayette Street austur til Bowery. Þungamiðjan er Mulberry Street, sem liggur eftir hverfinu endilöngu. Á síðustu árum hafa Kínverjar gert innrás í hverfið og hrakið Ítalina á undanhald.
Á sunnudögum koma Ítalir úr úthverfunum til að kaupa pasta og salami og fá sér ítalskan mat í veitingahúsi. Þá flytja kaupmennirnir vörur sínar út á gangstétt og veitingamennirnir borð og stóla, svo að hverfið minnir á Ítalíu. Ilmurinn af expresso-kaffinu vefur sig um þröngar göturnar.
Mest er um að vera á tveimur vikulöngum hátíðum, hátíð St Antonio í júní og St Gennaro í september. Þá breytist Little Italy í hálfgert tívolí.
Loiasada
Loiasada heitir fullu nafni Lower East Side. Það er við hlið Little Italy, austan við Bowery og nær milli Canal og Houston Streets, allt til East River.
Um aldamótin var þetta stærsta nýlenda gyðinga í heiminum og eitt mesta fátæktarbæli borgarinnar, þéttbýlla en Kalkútta. Þar hafa vaxið úr grasi margir andans menn og kaupsýslumenn. Gyðingarnir eru flestir fluttir á brott og hafa skilið eftir niðurníddar synagógur. Í staðinn hafa komið svertingjar, Kínverjar og einkum þó Puertoricanar, svo að þetta er enn fátæktarhverfi.
Gyðingar stunda enn kaupsýslu í Orchard Street eða koma þangað á sunnudögum til að verzla ódýrt og fá sér að borða rétttrúnaðarfæði. Það eru ekki neinar hátízkuvörur, sem þar eru seldar, en verðið er oft ótrúlega lágt.
Orchard Street er eins og austurlenzkur bazar. Þar er prúttað fullum hálsi og með miklu handapati. Vasa- og veskjaþjófar leika þar lausum hala. Að öðru leyti er óhætt að fara um hverfið, ef fólk hættir sér ekki austur fyrir Essex Street.
Greenwich Village
Fyrir norðan SoHo, handan við Houston Street, tekur við Greenwich Village, gamalkunnugt háskóla- og menningarhverfi umhverfis Washington Square. Það nær frá Houston Street norður til 14th Street og frá Broadway vestur til Hudson River.
Greenwich Village er alveg sér á parti í borginni, hverfi gamalla og lágreistra íbúðarhúsa við undnar götur, sem erfitt er að rata um, rétt eins og í London. Hér er borgarháskólinn, miðstöð nýtízkulegrar leiklistar og jazzmiðja heimsins. Greenwich Village er notalegasta hverfi borgarinnar.
Bóhemar Bandaríkjanna byrjuðu að flytjast til hverfisins á fjórða áratug aldarinnar og í stríðum straumum eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar Greenwich Village varð að eins konar Vinstri bakka Signu. Síðar komu hommarnir og bítlakynslóðin. Hommarnir halda sig vestast í hverfinu, vestan við 7th Avenue og niður að Hudson River.
Ræflarokkið fór til East Village og framúrstefnu-myndlistin til SoHo, svo að Greenwich Village hefur staðnað sem virðulegt hverfi miðaldra bítla eða skallapoppara og þykir raunar mjög fínt nú til dags. Þorpsbúarnir eru félagslega meðvitaðir og standa vel saman, þegar á reynir.
Washington Square er sunnudagsstofa þorpsbúa, eins konar St Germain des Prés. Þar kaupa þeir fíkniefni, tefla skák, renna sér á hjólabrettum, hlusta á farand-tónlistarmenn og ræða um, hvernig verjast megi geðbiluðum skipulagsyfirvöldum, sem vilja láta rífa allt gamalt og gott.
East Village
East Village er við hlið Greenwich Village, handan við Broadway, stundum kallað NoHo eða North of Houston Street. Það nær frá Houston Street norður til 14th Street og frá Broadway til East River, gamalt hverfi landnema frá Úkraínu og Póllandi, sem nú er orðin miðstöð ræflarokks í Bandaríkjunum.
Síðan húsaleiga fór að hækka í TriBeCa hafa margir myndlistarmenn flúið til East Village, þar sem verðlag er lægra. En nú eru menn farnir að átta sig á, að hafa má peninga upp úr þessu fátæktarhverfi, svo að húsaleiga er byrjuð að rísa og sýningarsalir að skjóta rótum.
Ræflarokkið er mest á Astor Place og St Mark´s Place. Þar ber fólk marglitt hár, leðurföt og stálkeðjur. Og þangað fara ferðamenn til að stara úr sér augun.
Theater District
Við hlaupum yfir hverfin Chelsea, Garment District og Murray Hill, sem ná frá 14th Street norður að 42nd Street, því að þau eru ekki áhugaverð fyrir ferðamenn.
En við 42nd Street byrjar miðbærinn Midtown. Vesturhluti hans er Theater District, stundum kallað Broadway. Það nær norður að 59th Street og Central Park. Suðurhluti þess nær austur að 6th Avenue, en norðurhlutinn að 7th Avenue. Vesturmörkin eru við 8th Avenue. Ás hverfisins er Broadway og þungamiðja ássins er Times Square.
Við fyrstu sýn er þetta fremur leiðinlegt hverfi neonljósa og klámstofnana, gleðikvenna og fíkniefnasala, sóðalegra kaffihúsa og lélegra veitingastofa. En dýrðin leynist rétt að baki, því að hér eru 42 leikhús á litlu svæði —mesta samþjöppun leikhúsa í heiminum — auk fjölmargra kvikmyndahúsa. Þetta hefur í heila öld verið miðstöð bandarískrar leiklistar.
Midtown
Austan við Theater District tekur við hið eiginlega Midtown, miðbær skýjakljúfa, glæsilegra verzlana, lúxushótela og frægra veitingahúsa. Það nær frá 42nd Street norður að 59th Street og austur að East River, þar sem eru aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna.
Hér er alltaf verið að rífa og byggja. Þar, sem í fyrra var fimm hæða borgarhús, er nú risinn áttatíu hæða skýjakjúfur, og keppir við hina í sérkennilegu útliti. Hér er saga skýjakljúfanna skráð, allt frá Chrysler, yfir Rockefeller, Seagram og Lever til Citicorp, Trump og AT&T.
Hér glitrar allt í auði og velsæld á dýrustu fermetrum jarðarinnar. Hér er hraðinn meiri á fólki en annars staðar í borginni. Og hér er allt dýrara og fínna en annars staðar. Þetta er sá staður, sem kemst næst því að vera nafli alheims.
Þetta er svæðið, sem flestir ferðamenn kynnast bezt, því að hér eru nærri öll hótel borgarinnar. Það er einstaklega auðvelt yfirferðar, bæði vegna þess að það er allt á háveginn og vegna hins skipulega gatnakerfis. Avenues liggja suður-norður, númeraðar frá suðri. Streets liggja austur-vestur, númeraðar í báðar áttir frá 5th Avenue og hlaupa á hundrað við hverja númeraða Avenue.
Flestar gönguleiðirnar, sem lýst er í næsta kafla þessara bókar, liggja um þetta hverfi.
Upper East Side
Norðan við 59th Street og austan við Central Park er hverfi, sem allt frá aldamótum hefur verið fína íbúðahverfið í New York, Upper East Side. Það er fremur stílhreint hverfi borgarhalla og íbúðahótela. Alls staðar eru borðalagðir húsverðir í anddyri og langar, svartar límúsínur við gangstéttarbrún. Alls staðar eru fínir barir, fín veitingahús og fínir næturklúbbar.
Um leið er þetta listasafnahverfi borgarinnar, státar af Metropolitan Museum, Guggenheim, Frick, Cooper-Hewitt og Whitney. Þetta er líka sendiráðshverfið og hverfi margs konar virðulegra stofnana og sjóða. Við árbakkann er borgarstjórabústaðurinn Gracie Mansion. Sá hluti hverfisins heitir Yorkville og var á sínum tíma hverfi þýzkra innflytjenda.
Upper West Side
Andspænis Upper West Side, handan við Central Park, er Upper West Side, sem er eins konar ódýrari og raunar fallegri útgáfa af fyrra hverfinu. Munurinn á hverfunum er sagður vera USD 500 í húsaleigu. Upper West Side nær skemur til norðurs. Við 90th Street tekur við skuggahverfi.
Upper West Side státar af menningarmiðstöðinni Lincoln Center og tízkugötunni Columbus Avenue. Út frá þeim hafa sprottið veitingahús og barir. Að meðaltali eru íbúarnir mun yngri en hinir handan Central Park. Hér sjást til dæmis börn að leik. Kvöldlífið er fjörugt, einkum á Columbus Avenue.
Lengra til norðurs verður ekki farið í þessari bók. Harlem er ekki eftirsóknarverður staður, nema þá fyrir meðvitaða félagsráðgjafa. Að vísu þýðir þetta, að sleppt er svæði Columbia háskóla og The Cloisters í Washington-hæðum, sem hvort tveggja er forvitnilegt, en hefði lengt bókina úr hófi. Borgarhverfi utan Manhattan komu að sjálfsögðu ekki til álita.
1988
© Jónas Kristjánsson