Caffe Reggio
Markverð kaffihús á Manhattan eru eiginlega aðeins tvö. Annað þeirra er Caffe Reggio rétt hjá Washington Square, samkomustaður menningarvita í Greenwich Village. Það er einn ekki mjög margra staða, sem hafa borð úti á gangstétt eins og á meginlandi Evrópu, enda er hverfið með evrópsku yfirbragði.
Á Caffe Reggio er unnt að fá ekta expresso, cappuccino, Vínarrjómakaffi, súkkulaði og sjö tegundir tes. Margir fara þangað í kaffi eftir kvöldverð í nágrenninu eða til að sýna sig og sjá aðra. Kaffibollinn kostaði USD 1.
(Caffe Reggio, 119 Mac Dougal Street milli West 3rd og Minetta Lane, sími 475 9557, B2)
Gianni´s
Hitt gangstéttarkaffihúsið er nálægt suðurodda Manhattan. Það er Gianni´s milli South Street Seaport og Fulton Fish Market. Þar er gott að horfa á ferðamennina, sem streyma í South Street Seaport, og bankamennina, er streyma úr Wall Street. Á Gianni´s er líka hægt að borða, en það er ekki ráðlagt í þessari bók.
(Gianni´s, South Street Seaport, 15 Fulton Street, sími 608 7300, B4)
City Lights Bar
Barir, fremur en kaffihús, eru samkomustaðir New Yorkara. Tveir þeirra eru einkum kunnir og skemmtilegir vegna þess, að þeir eru uppi í turnum. Annar er City Lights Bar í nyrðri turni World Trade Center.
Þar er þægilegt og gott að gefa sér langan tíma til að sötra úr glasi og virða fyrir sér frábært útsýnið yfir bankaturnana í Financial District til Brooklyn handan East River. Af barnum er gengið í þrjú fræg veitingahús, sem getið er framar í þessari bók.
(City Lights Bar, 1 World Trade Center, 107. hæð, sími 938 1111, A2)
Top of the Sixes
Hinn turnbarinn er í verzlunarhverfi miðbæjarins með útsýni yfir 5th Avenue og turnana austan hennar. Það er Top of the Sixes, þar sem gott er að hvíla lúin bein í verzlunarferðum og njóta útsýnisins fyrir verð eins drykkjar. En minna er varið í matinn í veitingasalnum til hliðar.
(Top of the Sixes, 666 5th Avenue við 53rd Street, sími 757 6662, lokað sunnudaga, F3)
Soho Kitchen
Margir eru barirnir í listamannahverfinu SoHo og einkennast sumir af áherzlu á létt vín umfram sterka drykki, enda virðast listamenn vera meiri smekkmenn á borðvín en flestar aðrar stéttir.
Einna kunnastur er Soho Kitchen and Bar, þar sem boðin eru hvorki meira né minna en 110 borðvín í glasatali, bæði í 5 únzu glösum og 2,5 únzu vínsmakkglösum og er það mesta úrval borgarinnar. Þar má finna margt gullið, bæði bandarískt og evrópskt. Mikill afsláttur er veittur þeim, sem vilja smakka á mörgum tegundum innan sama vínflokks, til dæmis átta tegundir kalifornískra chardonnay-vína. Þá eru pizzurnar ágætar og kosta USD 7-8.
Gestir sitja á barstólum hringinn í kringum feiknarlangan bar og við borð á upphækkuðum pöllum beggja vegna barsins.
(Soho Kitchen & Bar, 103 Greene Street milli Prince og Spring Streets, sími 226 9103, opið fram á nótt, B2)
Wine Bar
Annar ljómandi góður vínbar í næsta nágrenni í Soho heitir einfaldlega Wine Bar, vel í sveit settur við hliðina á listaverkasal Leo Castelli og andspænis galleríi Mary Boone.
Veitingasalurinn er afar notalegur, innréttaður í gömlu pakkhúsi, þétt skipaður stólum umhverfis lítil borð. Plaköt skreyta nakta múrsteinsveggi. Þarna er kjörið að hvílast milli heimsókna í listaverkasali eða spjalla yfir kertaljósum að kvöldi. Vínlistinn er ógnarlangur og hefur meðal annars að geyma borðvín í glasatali. Einnig fæst ágætur ostur til að hafa með víninu.
(Wine Bar, 422 West Broadway nálægt Prince Street, sími 431 4790, opið fram á nótt, B2)
Fanelli´s
Þriðji Soho-barinn er ekki vínbar, heldur pöbb í öldnum, brezkum stíl, einn hinn allra skemmtilegasti í borginni. Það er Fanelli´s, nágranni hinna tveggja. Þetta er hundgamall bar, sumir segja frá því fyrir þrælastríð. Fyrrum var hann áningarstaður verkamanna, en nú hafa listamennirnir tekið þar völdin að mestu. Oft er þar þröng á þingi.
(Fanelli´s, 94 Prince Street við Mercer Street, sími 226 9412, lokað laugardaga og sunnudaga, B2)
Chumley´s
Í hinu góðkunna Greenwich Village er fátt um bari, sem eru eitthvað öðruvísi en aðrir og því í frásögur færandi. Við fundum aðeins einn, en á móti kemur, að hann er skemmtilegasti bar borgarinnar. Menn verða að vita nákvæmlega heimilisfang hans, því að hann er ómerktur að utan til þess að fæla frá viðskiptavini. Hann er hverfiskrá og hálfgerð einkakrá hinna menningarlegu og bókmenntasinnuðu íbúa Greenwich Village.
Fyrst er gengið upp hálfan stiga og síðan aftur niður hálfan stiga og þá blasir við dimm kráin, þar sem tölugir gestir sitja þröngt við lítil borð úr massífum við, djúpt rist fangamörkum og öðru krafsi. Kápur frægra bóka eftir fastagesti staðarins prýða veggina.
(Chumley´s, 86 Bedford Street nálægt Commerce Street, sími 243 9729, A2)
P. J. Clarke´s
Frægasti bar miðbæjarins er P. J. Clarke´s í gömlu, tveggja hæða húsi, sem kúrir á götuhorni undir einum skýjakljúfa borgarinnar. Eigandi barsins, Daniel Lavezzo, neitaði að selja húsið, þegar allar lóðir reitsins voru seldar undir skýjakljúfinn. Honum eru sífellt boðnar hærri fjárhæðir, en hann lítur ekki við þeim.
Innan dyra er langur bar og fáeinir kollar á stóru gólfi fyrir framan. Fyrir innan eru nokkur borð. Allar innréttingar eru úr við og orðnar þreytulegar af aldri, sem og speglarnir. Á annatímum er margföld röð gesta við barinn og drekka þeir flestir bjór. P. J. Clarke´s er mikið notaður til að hittast á þeim tíma, sem Bandaríkjamenn kalla hamingju-klukkutímann eftir vinnulok og fyrir heimferð. Þá er staðurinn troðfullur út að dyrum.
(P. J. Clarke´s, 915 3rd Avenue/55th Street, sími 355 8857, opið til 04, F4)
Maxwell´s Plum
Í miðbænum eru nokkrir barir, sem eru notaðir af fólki, er leitar að stundarfélaga af hinu kyninu, eins og konar tilhleypingarstofnanir, kallaðar “singles bars”. Kunnastur þeirra er Maxwell´s Plum í Upper East Side.
Í rauninni er Maxwell´s Plum veitingahús, ofhlaðið smekklitlu skrauti pjáturlofts, steindra glerlampa og glugga, koparhandriða og — veggdiska. En það er barinn í miðjunni, sem skiptir máli. Þar stendur fólk í margfaldri röð og gefur hvert öðru auga á feimnislausan hátt. Fáir eru svo innibyrgðir, að þeir séu ekki komnir í hrókasamræður við ókunnuga eftir nokkrar mínútur.
Þetta er miklu einfaldara, fljótvirkara og ódýrara en á íslenzkum skemmtistöðum og kostar minna fyllerí.
(Maxwell´s Plum, 1181 1st Avenue við 64th Street, sími 628 2100, G4)
Rúelles
Við nýju tízkugötuna Columbus Avenue í Upper West Side er bar, sem hefur orðið feiknarlega vinsæll meðal hverfisbúa. Það er Rúelles, sem raunar er veitingahús eins og Maxwell´s Plum, en mun fallegar innréttað, til dæmis með virðulegum stiga upp á svalir á annarri hæð.
Á neðra gólfi er í miðjunni bar, sem er svipuð tilhleypingastöð og á Maxwell´s Plum, en raunar enn fjörlegri, því að allir virðast tala í einu eða réttar sagt kallast á. Fólk hefur líka gaman af að koma á Rúelles, þótt það sé ekki í hugleiðingum. Forvitnir geta pantað borð uppi á svölunum til að hafa sér til skemmtunar útsýni yfir vígvöllinn.
(Rúelles, 321 Columbus Avenue við 75th Street, sími 799 5100, H1)
Michael´s Pub
Merkasti þáttur næturlífsins á Manhattan er jazzinn. Borgin tók fyrir löngu af New Orleans við hlutverki höfuðborgar jazzins í heiminum, enda er hvergi að finna fjölmennari áheyrendaskara en einmitt í þessari borg.
Erlendir ferðamenn, sem búa á miðbæjarhótelunum eiga í færri hús að venda en áður, því að búið er að rífa húsið, sem Eddie Condon´s og Jimmy Ryan´s voru í. Eftir stendur aðeins einn merkur jazzklúbbur í miðbænum, Michael´s Pub, nýlegur af nálinni og leggur áherzlu á hefðbundinn jazz.
Áheyrendur eru flestir á miðjum aldri eða ferðafólk, einkum á mánudagskvöldum, þegar Woody Allen leikur í ragtime hljómsveit.
Lágmarkskaup á veitingum voru USD 10.
(Michael´s Pub, 211 East 55th Street, milli 7th Avenue og Broadway, sími 758 2272, F2)
Blue Note
Blue Note í Greenwich Village hefur tekið völdin sem fremsta jazzbúla borgarinnar. Þar leika allir jazzistar, sem máli skipta í heiminum. Síðast þegar við vorum þar, var Herbie Mann að hætta, Sarah Vaughan að taka við, Oscar Peterson væntanlegur í næstu viku og síðan Modern Jazz Quartet.
Hin 62 ára Sarah Vaughan leyfði okkur og sir Geoffrey Howe frá Bretlandi að hlýða á feiknarlegt raddsvið sitt á fimm ára afmæliskvöldi staðarins. Stemningin var stórfengleg og gestirnir sátu því sem næst í fangi hvers annars. Mest var þó gaman, þegar blöðrurnar sprungu og lífverðirnir héldu, að verið væri að drepa brezka utanríkisráðherrann, sem lét sér hvergi bregða.
Aðgangseyrir er breytilegur, var USD 25 þetta kvöld.
(Blue Note, 131 West 3rd Street við 6th Avenue, sími 475 8592, B2)
Village Vanguard
Í meira en hálfa öld hefur litla, þrönga, hrörlega og reykjarmettaða kjallaraholan Village Vanguard norðarlega í Greenwich Village verið í fremstu röð jazzklúbba. Margir kunnir jazzistar hófu feril sinn í þessari dæmigert óræstilegu jazzholu, sem líkt hefur verið eftir um heim allan. Mest er leikinn hefðbundinn jazz. Á mánudögum gengur berserksgang sautján manna lúðrasveit Mel Lewis með söngkonunni René Manning. Okkur fannst mest til koma, að hljómsveitin og mikilfengleg söngkonan skyldu rúmast í kjallaraholunni.
Aðgangseyrir var USD 10, lágmarksveitingar USD 5. Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Village Vanguard, 178 7th Avenue South við 11th Street, sími 255 4037, A1)
Sweet Basil
Nútímajazz er einna bezt leikinn á Sweet Basil í Greenwich Village. Þetta er óvenju snyrtilegur staður af slíkum að vera, með múrsteinsveggjum og viðarþiljum, skreyttum málverkum af höfðingjum jazzins. En staðurinn er lítill eins og vera ber, þétt setinn áheyrendum. Eddie Chamblee Quartet var fyrri daginn og trompetistinn Doc Cheatham hinn síðari, er við litum inn.
(Sweet Basil, 88 7th Avenue South við Bleecker og Grove Streets, sími 242 1785, A2)
Folk City
Þjóðlagasöngur hefur löngum átt sínar höfuðstöðvar í Folk City, nágranna jazzklúbbanna í Greenwich Village. Þar var Bob Dylan uppgötvaður og þar söng Joan Baez fyrst í New York. Innréttingarnar eru orðnar þreytulegar.
Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Folk City, 130 West 3rd Street við 6th Avenue, sími 254 8449, B2)
Lone Star Cafe
Kúrekatónlistarstaður Manhattan númer eitt er Lone Star Cafe norðarlega í Greenwich Village. Þar er stunduð sveitatónlist frá Texas við hávaðasamar kringumstæður, mikla bjórdrykkju og chili-át. Bezt er að koma sér fyrir á svölunum á efri hæðinni til að hafa útsýni yfir lætin. Tvær hljómsveitir eru á hverju kvöldi.
(Lone Star Cafe, 61 5th Avenue við 13th Street, sími 242 1664, B1)
City Limits
Annar texanskur sveitastaður með hoppi og híi gervikúreka með Stetson-hatta er City Limits á sömu slóðum í Greenwich Village. Þar er nóg danspláss til að stappa niður fótunum, svo að veggirnir skjálfi.
Krítarkort eru ekki tekin gild.
(City Limits, 125 7th Avenue South við 10th Street, sími 243 2242, A1)
S.O.B.
S.O.B. þýðir ekki Son of a bitch, heldur Sounds of Brazil. Það er helzti dansstaðurinn með tónlist frá Suður-Ameríku, Mið-Ameríkueyjum og Afríku, hávaðasamur og fjörlegur staður, einkum um helgar. Þar sem S.O.B. er við suðurhlið Houston Street, telst staðurinn fremur til Soho en Greenwich Village.
(S.O.B., 204 Varick Street við West Houston Street, sími 243 4940, A2)
Ritz
Rokkið í New York er á Ritz í East Village, rúmgóðum dansstað í art decco stíl, þar sem helztu rokkarar Bandaríkjanna og Bretlands leika fyrir dansi, auk þess sem aðrar hljómsveitir eru sýndar á stórum sjónvarpsskjám. Ritz byrjar að lifna um miðnættið. Gestir eru mestmegnis ungt fólk undir þrítugu.
Krítarkort eru ekki tekin gild.
(Ritz, 119 East 11th Street við 4th Avenue, sími 228 8888, C1)
C. B. G. B. & OMFUG
Nokkru sunnar í East Village er höfuðstöð ræflarokksins á Manhattan, staðurinn með skrítna nafninu C. B. G. B. & OMFUG. Þetta er raunar fæðingarheimili ræflarokksins eða pönksins, gamalt bílaverkstæði, er hefur verið breytt í langan og dimman bar, sem er skreyttur neonljósum.
Venjulegt fólk getur haft gaman af að koma hingað eins og í dýragarð til að virða fyrir sér blá hárspjót, keðjur, hundahálsbönd og svart leður á ungu fólki, sem líður um í leiðslu undir grenjandi hávaðanum og sprautar sig í stigunum.
Krítarkort eru ekki tekin gild.
(C. B. G. G. & OMFUG, 315 Bowery við Bleecker Street, sími 982 4052, C2)
Adam´s Apple
Erfitt er að mæla með ákveðnum næturklúbbum á Manhattan, því að þeir koma og fara eins og fiðrildi. Studio 54 og Xenon héldu lengi út í miðbænum, en eru nú báðir búnir að vera. Eitt helzta diskóið, þegar við vorum síðast í New York, var Adam´s Apple í Upper East Side. Þar eru mikil þrengsli og feiknarlegur hávaði, bar niðri og dansgólf uppi. Strákar og stelpur eru á fullu við að reyna að húkka einhvern fyrir morguninn.
(Adam´s Apple, 1117 1st Avenue við 61st Street, sími 371 8650, G4)
Chippendale
Andspænis Adam´s Apple er annar næturklúbbur, sem er sérkennilegur að því leyti, að hann er einkum ætlaður konum. Saumaklúbbarnir fara þangað í hópferðir til að horfa á hálfnakta go-go stráka frá heilsuræktarstöðvum og troða með miklu flissi dollaraseðlum niður í pungbindin þeirra. Mest er þetta fyndið, en gífurlega vinsælt.
(Chippendale, 1110 1st Avenue milli 61st og 62nd Str. sími 935 6060, G4)
Palladium og Stringfellows
Veturinn 1986-1987 var franskættaði næturklúbburinn Regine´s farinn að dala og hinn mjög svo fíni og lokaði Club A búinn að vera. Tízkustaðirnir voru Palladium og hinn brezkættaði Stringfellows. En miðað við skamma meðalævi slíkra klúbba þorum við ekki að lofa, að þeir verði enn á fullu, þegar þessi bók verður notuð.
Lincoln Center
Alvörutónlistin á Manhattan er stunduð í Lincoln Center syðst í Upper West Side, þar sem nokkrar nýlegar og nýtízkulegar hallir umlykja gosbrunnatorg. Lincoln Center var reist árin 1962-1968 sem eins konar menningarlegt Akrópólis eða Kapítólum í New York til dýrðar tónlistarguðinum, hannað af ýmsum þekktustu arkitektum Bandaríkjanna í virðulegum hásúlnastíl.
Gengið er upp tröppur frá Columbus Avenue inn á torgið. Þar er á vinstri hönd New York State Theater, á hægri hönd Avery Fisher Hall og beint framundan Metropolitan Opera House. Vivian Beaumont Theater og Alice Tully Hall eru að baki Avery Fisher Hall.
Til að vita, hvað er um að vera í Lincoln Center og öðru tónlistarlífi borgarinnar, er bezt að skoða skrárnar í vikuritinu New York.
Metropolitan Opera
Óperuhús Metropolitan Opera Company er þungamiðja Lincoln Center og snýr tíu hæða súlum og fimm rómönskum glerbogum að torginu. Inn um gluggana má sjá tvær litskrúðugar lágmyndir eftir Marc Chagall, teppalagt anddyri og virðulegar tröppur.
Met eins og það er kallað tekur 3.788 manns í sæti. Talið er eitt helzta hástigið á ferli óperusöngvara að koma hér fram. Óperutíminn er frá miðjum september til apríl. Hinn hluta ársins hafa aðrir höllina til umráða, einkum balletflokkar á borð við American Ballet Theater og Royal Ballet.
Þegar við vorum síðast í New York bauð Met upp á Valkyrjurnar eftir Wagner, Aida eftir Verdi, Manon Lescaut eftir Puccini og Madama Butterfly eftir sama höfund.
(Metropolitan Opera, West Side, Lincoln Center, símar 362 6000 og 799 3100, G1)
New York State Theater
Hitt óperuhúsið við torgið, New York State Theater, er heimili New York City Ballet og New York City Opera. Ballettinn ræður ríkjum nóvember-febrúar og apríl-júlí, en óperan júlí-nóvember. Við framhlið hússins eru fjögur pör sjö hæða súlna og inni í anddyrinu eru fjórar hæðir til gyllta loftsins, allar með svölum. Höllin tekur 2.279 manns í sæti.
Þegar við vorum síðast í New York var Kristján Jóhannsson að koma þar fram í fyrsta sinn við mikinn orðstír gagnrýnenda. Það var í hlutverki Rodolfo í La Bohéme eftir Puccini. Önnur verk á skránni voru Madama Butterfly eftir sama höfund, Brúðkaup Figaros eftir Mozart, Perluveiðimennirnir og Carmen eftir Bizet, Norma eftir Bellini, Faust eftir Gounot og heimsfrumsýning á Líf og ævi Malmcolm X eftir Davis.
(New York State Theater, 150 West 65th Street við Columbus Avenue, sími 870 5570, G1)
Avery Fisher Hall
44 súlur umlykja sinfóníuhöllina Avery Fisher Hall, sem hefur verið margendurbyggð að innanverðu til að ná réttum hljómburði, er tókst loks árið 1976 eftir tíu ára strit. Höllin tekur 2.742 manns í sæti. Hún er heimili New York Philharmonic, sem hefur vertíð september-maí. Í júlí-ágúst eru haldnir ódýrir Mozart-konsertar og í september kvikmyndahátið borgarinnar.
Leonard Bernstein, Arturo Toscanini og Leopold Stokowski hafa verið hljómsveitarstjórar NY Philharmonic, en nú stjórnar þar Zubin Mehta. Þegar við vorum þar síðast, var á dagskrá frumflutningur á konsert eftir Husa og flutningur á annarri sinfóníu Schuberts og öðrum píanókonsert Liszts. Mehta stjórnaði og einleikari á píanó var Andre Vatts.
(Avery Fisher Hall, Broadway við 66th Street, sími 874 2424, G1)
Alice Tully Hall
Gengið er frá Broadway inn í Alice Tully Hall, aðalstöðvar kammertónlistar í New York, heimili Chamber Music Society of Lincoln Center, sem notar salinn, er tekur 1.096 í sæti, október-maí. Í september er hann notaður fyrir kvikmyndahátið borgarinnar. Á sumrin er Alice Tully Hall notað af gestkomandi listamönnum.
(Alice Tully Hall, 1941 Broadway við 66th Street, sími 362 1911, G1)
Carnegie Hall
Áður en Lincoln Center kom til sögunnar var Carnegie Hall helzta tónlistarhöll borgarinnar, vel í sveit sett í miðbænum, rétt sunnan við Central Park. Þar leika heimsfrægar sinfóníuhljómsveitir og jafnfrægir einleikarar, ekki aðeins sígilda tónlist, heldur einnig jazz. Tóngæðin eru nánast fullkomin í 2.784 manna salnum.
Þegar Lincoln Center komst í gagnið, stóð til að rífa Carnegie Hall. Ekki varð af því og nú hefur húsið verið endurnýjað að frumkvæði hóps borgarbúa undir forustu fiðluleikarans Isaac Stern. Því verki var einmitt að ljúka, þegar við vorum síðast í New York.
(Carnegie Hall, 154 West 57th Street við 7th Avenue, sími 247 7459, F2)
Broadway
Leikhúshverfið á Manhattan er kennt við Broadway, sem sker hverfið sundur að austanverðu. Á þessu svæði í kringum Times Square eru 42 leikhús. Þetta er mesta leikhússvæði heims, næst á undan Covent Garden svæðinu í London. Í heila öld hefur það verið þungamiðja bandarískrar leiklistar. Þar eru beztu leikararnir, leikstjórarnir og gagnrýnendurnir. Og þar eru flestir áhorfendurnir.
Á síðari árum hefur Broadway vikið fyrir Covent Garden með þeim hætti, að sífellt er meira um, að verk, sem fyrst slá í gegn í London, séu síðan flutt yfir hafið til New York. Einnig er áberandi, hvernig dýrir söngleikir hafa orðið sífellt fyrirferðarmeiri á Broadway. Miðaverð er orðið þar mjög hátt, oft um USD 45. En vinnubrögð eru alltaf jafnvönduð á leiksviðinu, jafnvel í gamanleik á borð við Blúndur og blásýru, sem við sáum þar síðast.
Til að komast að raun um, hvað er á dagskrá í leikhúsunum 42, er bezt að skoða skrána í vikuritinu New York. Á miðju Father Duffy Square, sem er norðurendi Times Square, er TKTS, þar sem hægt er að fá leikhúsmiða fyrir hálfvirði á sýningardegi. Þar eru oft langar biðraðir. Nánari upplýsingar fást í síma 354 5800. Auk þess eru púrtnerar hótela lagnir við að útvega miða að hverju sem er.
Off Broadway
Nútímaleiklist er meira stunduð í því, sem kallað er Off Broadway, um 200 leikhúsum úti um allan bæ, flestum þó í Greenwich Village. Þar eða í London eru frumflutt verk, sem síðar eru tekin upp á Broadway. Þessi þróun hefur nú staðið í tæpa fjóra áratugi. Við sáum síðast söngleikinn Angry Housewives í Minetta Lane leikhúsinu, frábæra sýningu aðeins átta leikara.
Í vikuritunum New York og Village Voice má sjá, hvað helzt er á boðstólum í Off Broadway. Annars er sú leiklist orðin svo sígild, að farið er að tala um Off Off Broadway sem staðinn, þar sem hlutirnir gerist.
Listsýningasalir
Í engri grein menningar eru yfirburðir Manhattan meiri en í myndlist. París hefur fyrir löngu orðið að víkja úr forustuhlutverkinu. Það er á Manhattan, sem allir myndlistamenn heimsins vilja sýna, enda eru þar peningarnir, sem borga listaverkin. Þar slá í gegn óþekktir listamenn og selja verk sín fyrir stjarnfræðilegar upphæðir. Hefðbundnu salirnir eru flestir við 57th Street, en nútímalistin blómstrar í sýningarsölunum í SoHo og nú orðið einnig í TriBeCa. West Broadway og Wooster Street eru aðalgötur þessarar greinar.
Leo Castelli
Frægasti sýningarsalur nútímalistar, einkum tjástefnu og popps, í heiminum er Leo Castelli við West Broadway í SoHo og hefur verið svo í aldarfjórðung. Castelli hefur á þessum tíma kynnt listamenn, sem hafa síðan orðið viðurkenndir meistarar nútímans, svo sem hinn nýlátna Andy Warhol, Roy Lichtenstein, Frank Stella, Jasper Johns og Robert Rauschenberg. Flestir þeirra halda tryggð við Castelli.
Þegar við litum síðast við hjá Castelli var þar sýning, sem hét The Law and Order Show, en einnig voru þar verk eftir Rauschenberg.
(Leo Castelli Gallery, 420 West Broadway milli Prince og Spring Streets, sími 431 5160, lokað sunnudaga, B2)
Mary Boone/Michael Werner
Andspænis Castelli við West Broadway er annar salur, Mary Boone/ Michael Werner Gallery, sem hefur átt vaxandi gengi að fagna á þessum níunda áratug aldarinnar. Mary Boone er raunar lærisveinn Castellis. Hún er mikil samkvæmiskerling og hefur komið á framfæri umtöluðum og umdeildum listamönnum á borð við Rainer Fettig, David Salle og Julian Schnabel.
Þegar við heimsóttum Boone síðast, var þar sýning á punktaverkum eftir Niele Toroni.
(Mary Boone/Michael Werner Gallery, 417 West Broadway milli Prince og Spring Streets, sími 966 2114, lokað sunnudaga, B2)
Paula Cooper
Þriðji sýningarsalurinn, sem hefur ráðið miklu um þróun nútímalistar á síðustu árum, er salur Paula Cooper við gallería-götuna Wooster Street. Hún er kunn af því að taka mikla áhættu og hefur kynnt listamenn á borð við Robert Mangold og Jonathan Borofsky.
(Paula Cooper Gallery, 155 Wooster Street milli West Houston og Prince Streets, sími 674 0766, lokað sunnudaga, B2)
Dia Art
Dia Art er listastofnun, sem rekur fjóra sýningarsali í SoHo, í nágrenni við þá þrjá, sem að ofan er getið. Hinir tveir kunnustu þeirra eru New York Earth Room, 141 Wooster Street (B2) og The Broken Kilometer, 393 West Broadway (B3), hvorir tveggja með síma 473 8072, lokaðir sunnudaga. Þeir eru mjög óvenjulegir, vægast sagt.
PACE
Einn kunnasti hinna hefðbundnu sýningarsala við 57th Street í miðbænum og um leið einn hinn kunnasti í heimi er PACE, óvenjustórt fyrirtæki með sali á tveimur hæðum. Þar er meðal annars höndlað með Pablo Picasso, Jean Arp, Ad Reinhardt, Isamu Noguchi og Mark Rothko.
(PACE Gallery, 32 East 57th Street milli Madison og Park Avenues, 2. og 3. hæð, sími 421 3292, lokað sunnudaga, F3)
Sidney Janis
Um langan aldur hefur öldungurinn Sidney Janis verið einn áhrifamestu listkaupmanna borgarinnar. Hann hélt á sínum tíma sýningar, sem gerðu de Kooning, Pollock, Rothko, Duchamp og Leger fræga í Bandaríkjunum. Um hans hendur hafa farið mörg þau verk, sem eru í heiðursrými bandarískra listasafna. Hann kom dada-stefnunni á framfæri á sínum tíma.
(Sidney Janis Gallery, 110 West 57th Street milli 6th og 7th Avenues, 6. hæð, sími 586 0110, F2)
Blum/Helman
Blum/Helman er ekki gamalt fyrirtæki í hettunni, en það hefur náð árangri í að sýna verk þeirra núlifandi listamanna, sem hafa orðið frægir á síðustu árum í sýningarsölum suður í SoHo. Einnig er reynt að koma á framfæri óþekktum listamönnum.
(Blum/Helman, 20 West 57th Street milli 5th og 6th Avenues, 2. hæð, sími 245 2888, lokað sunnudaga, F3)
Robert Miller
Við bætum Robert Miller við, þótt hann sé ekki við 57th Street, heldur rétt við hornið á 5th Avenue, af því að hann hefur einn glæsilegasta sýningarsal borgarinnar, nýlegan af nálinni, þar sem bæði er sýnt gamalt og nýtt, alltaf jafn áhugavert.
(Robert Miller Gallery, 724 5th Avenue milli 57th og 56th Streets, sími 246 1625, lokað sunnudaga og mánudaga, F3)
Söfnin
New York er ásamt London önnur af tveimur mestu safnaborgum heimsins. Í myndlist er hún tvímælalaust mesta safnaborg heimsins, þótt til séu frægari nöfn í Evrópu: Louvre, Uffizi og Prado. En hvað jafnast á við Museum of Modern Art í list 20. aldar? Ekki neitt.
Museum of Modern Art
Að ganga í gegnum Museum of Modern Art er eins og að fletta kynningarbók um listaverk 20. aldar. Við könnumst við málverkin af myndum úr bókum. MoMA, eins og safnið er kallað, hefur einmitt á veggjum sínum frægustu einkennisverk heimsmeistarnna í myndlist.
Samt er MoMA ekki nema rúmlega hálfrar aldar gamalt safn. Það var nýlega stækkað um helming, svo að stoltarverk þess njóta sín betur en áður. Tímabilið, sem safnið spannar bezt, er 1880-1960, það er að segja blæstílinn og tjástílinn, auk hliðargreina á borð við kúbisma.
Í MoMA eru svo mörg heimsfræg verk, að þau verða ekki talin hér. Aðeins má minnast á Dansinn eftir Matisse, Ungfrúrnar frá Avignon eftir Picasso, Broadway Boogie Woogie eftir Mondrian, Christina´s World eftir Wyeth og One eftir Pollock.
Ekki má heldur gleyma, að loftkælt safnið er hin notalegasta vin fyrir þá, sem koma sveittir úr mannhafi verzlunarhverfisins í kring. Yndislegastur er höggmyndagarðurinn að baki, bezti staður borgarinnar til að hvíla lúin bein.
(Museum of Modern Art, 11 West 53rd Street milli 5th og 6th Avenues, sími 708 9500, lokað miðvikudaga, ókeypis þriðjudaga, F3)
Guggenheim Museum
Hitt fræga safn listaverka 20. aldar er líklega ekki síður kunnugt vegna hönnunar arkitektsins Frank Lloyd Wright. Hann teiknaði snigil eða spíral. Við förum upp í lyftu og göngum svo niður snigilinn. Á leiðinni lítum við inn í hliðarsali á 6., 4. og 2. hæð, sem fjalla hver um sig um ákveðið stef. Í sniglinum sjálfum eru tímabundnar sýningar. Þegar við vorum þar síðast, var verið að setja upp verk, aðallega ljósmyndir af gerningum eftir Richard Long. Mest er um Kandinsky, Mondrian, Klee, Braque og Picasso og aðra slíka, en Calder er ef til vill einna skemmtilegastur. Athugið, að safnið er ekki á bókarkortinu, því að það er norðarlega við austurhlið Central Park.
(Guggenheim Museum, 1071 5th Avenue, milli 88th og 89th Streets, sími 860 1300, lokað mánudaga, ókeypis eftir kl. 17 þriðjudaga, við H3)
Metropolitan Museum of Art
Eitt af allra stærstu söfnum heims er Metropolitan Museum of Art í austurhlið Central Park. Það á rúmlega þrjár milljónir sýningargripa. Nauðsynlegt er að skoða það eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi. Þeir, sem ætla að skoða það allt, eiga á hættu að ruglast í ríminu á rölti um endalausa röð sýningarsala.
Venjulega er boðið upp á gagnmerkar sýningar tímabundnar. Þegar við vorum þar síðast, var verið að loka sýningu um upphaf nútímalistar í Sovétríkjunum og opna sýningu á fornum listmunum Landsins helga.
Metropolitan er listasafn, nytjalistasafn og fornminjasafn. Einna athyglisverðasti hlutinn er egypzka fornminjadeildin, þar sem meðal annars hefur verið endurreist musterið í Dendur. En líklega er vikuverk að skoða allt.
(The Metropolitan Museum of Art, 5th Avenue við 82nd Street, sími 879 5500, lokað mánudaga, aðgangseyrir að eigin vali, H3)
Frick Collection
Við 5th Avenue, þar sem hún liggur meðfram Central Park, eru fleiri kunn söfn en Guggenheim og Metropolitan. Frick Collection er mjög vinsælt safn, því að það er í heimilislegum stíl. Þar hanga listaverk eldri tíma fyrir ofan virðuleg húsgögn í gömlu höfðingjasetri.
(Frick Collection, 1 East 70th Street við 5th Avenue, sími 288 0700, lokað mánudaga og sunnudagsmorgna, H3)
Cooper-Hewitt Museum
Rétt hjá Guggenheim-safninu er nytjalistasafnið Cooper-Hewitt, meðal annars með teikningum eftir Rembrandt og Dürer
(Cooper-Hewitt Museum, 2 East 91st Street við 5th Avenue, sími 860 6898, lokað sunnudagsmorgna, ókeypis eftir kl.17 þriðjudaga, við H3)
Whitney Museum
Helzta safn bandarískrar listar er á svipuðum slóðum, þótt það sé ekki við 5th Avenue sjálfa. Það er Whitney Museum of American Art, mikið listaverk út fyrir sig, hannað af Marcel Breuer og Hamilton Smith og minnir dálítið á miðaldakastala, þótt það sé í rauninni nýtízkulegt.
Skemmtilegastur er höggmyndagarðurinn að húsabaki. Þar og í glersal kjallarans eru samtals um 50 verk eftir Alexander Calder. Safnið hefur löngum verið umdeilt, því að stjórnendur þess hafa oft tekið mikla áhættu í kaupum á listaverkum. Það er eitt hið athyglisverðasta í borginni.
(Whitney Museum of American Art, Madison Avenue við 75th Street, sími 249 7575, lokað sunnudagsmorgna, ókeypis þriðjudaga, H3)
American Mus. of Natural History
Náttúrugripasafn borgarinnar er hinum megin við Central Park, í austurhlið Upper West Side. Það er afar stórt um sig og er ein allsherjar ruslakista hinna fróðlegustu hluta, allt yfir í 30 metra langt líkan af hval. Safngripirnir eru rúmlega 34 milljónir talsins.
(American Museum of Natural History, Central Park West við 79th Street, sími 873 4225, ókeypis eftir kl. 17 föstudaga og laugardaga, H1/2)
1988
© Jónas Kristjánsson