Hótel á Manhattan eru ákaflega dýr, einkum af því að fasteignir eru þar stjarnfræðilega dýrar. Leitun er að góðum hótelum, sem hafa á leigu herbergi fyrir tvo á minna en USD 100, að sköttum meðtöldum, en við höfum þó með leit komizt niður í USD 72 fyrir sómasamlegt herbergi. Mörg hótelanna bjóða ódýrari helgargistingu.
Athugið, að í þessari bók sýna öll verð heildarkostnað, að inniföldum söluskatti, borgarskatti og gistigjaldi, samtals 13,25% plús USD 2, en flugfélög og ferðaskrifstofur gefa yfirleitt upp verð án þessara gjalda.
Við miðum aðeins við herbergi með baði, sjónvarpi og loftkælingu. Við tölum líka eingöngu um hótel á miðju og sunnanverðu Manhattan, því að aðeins þar er hinn margumtalaði nafli alheimsins.
Þetta eru allt saman stór hótel, með 100 herbergi eða miklu fleiri. Hin notalegu smáhótel með fullkomnum búnaði og baði á lágu verði, sem víðast hvar er hægt að finna í Evrópu, eru ekki til í New York.
Hins vegar er allt yfirleitt í lagi á herbergjunum og einkum þó í baðherbergjum, því að pípulagnir eru yfirleitt ágætar og hin hreinu handklæði eru tiltölulega víðáttumikil.
Hér verður sagt frá nokkrum völdum hótelum, sem hafa reynzt okkur vel á undanförnum árum. Þau eru í ýmsum verðflokkum, flest frá USD 138 upp í USD 166 á verðlagi vetrarins 1986-1987, en nokkur ódýrari eða dýrari. Öll verð eru að öllum sköttum meðtöldum, en morgunverði frátöldum, enda er venjulega lítið varið í bandarískan hótelmorgunverð.
Öll eru þau því miður nema eitt í miðbæ hótela, verzlana og leikhúsa á Manhattan. Við reyndum að finna nothæf hótel nær niðurbænum á Manhattan, í Greenwich Village, East Village, Soho, Tribeca, Little Italy, Loiasada, Chinatown og Financial District, en fundum ekki nema eitt, rétt við Wall Street.
Gorham
“Okkar hótel” í New York er miðbæjarhótelið Gorham. Það er sérstaklega skemmtilega sett að baki Museum of Modern Art, með leikhús-, spillingar- og tónlistarhverfið á aðra hönd og verzlunarhverfið á hina. Þaðan er auðveldlega og snögglega gangfært til allra forvitnilegra staða í miðbænum. Carnegie Hall og City Center Theater eru næstu nágrannar og skammt er til Times Square og Lincoln Center.
Móttakan er ekki mikil um sig, enda er hótelið blessunarlega lítið, 116 herbergja. Þar á ofan er starfsfólkið þægilegt og var ekki lengi að koma okkur upp á herbergi. Vistarverur eru allar stórar, vel búnar að þægindum og tækni, þar á meðal eldunarkróki og fataherbergi.
Herbergi nr. 1504 snýr út að götunni, afar rúmgott, notalegt og þægilegt, með tveimur tvíbreiðum rúmum og vönduðum innréttingum. Það er alls ekki hávaðasamt, þótt það snúi út að götunni, enda á 15. hæð. Annars er 55. gata fremur róleg.
Verðið var USD 110, að sköttum meðtöldum eins og annars staðar í þessum kafla.
(Gorham, 136 West 55th Street, milli 6th og 7th Avenue, sími 245 1800, F2)
Wellington
Annað uppáhaldshótel í New York er Wellington, eitt hinna allra ódýrustu í þessari bók og vel þegið, þegar pyngjan er létt. Það er vel í sveit sett í miðbænum, einkum fyrir áhugafólk um leikhús, því að það er aðeins steinsnar frá Broadway, á mótum 7th Avenue og 55th Street. Það er raunar aðeins nokkra tugi metra frá áðurnefndu hóteli, Gorham.
Starfsfólkið er þægilegt og öllum húsakynnum er vel við haldið, þótt hótelið sé gamalt, raunar notalega gamalt. Herbergin eru fremur lítil, en hreinleg og með öllum hlutum í lagi, þar á meðal baði og sturtu, sjónvarpi og loftkælingu.
Herbergi nr. 1935 er ekki stórt, en sómasamlega búið að öllu leyti, með tiltölulega einföldum og algerlega óþreyttum innréttingum.
Verðið var USD 91. Flugleiðafarþegar fá sérstakt verð, sem gerir hótelið einkar girnilegt, USD 72. Eitt núll fyrir Flugleiðir, — raunar tilboð, sem ekki er hægt að hafna.
(Wellington, 7th Avenue og 55th Street, sími 247 3900, F2)
Wyndham
Þriðja vildarhótel okkar er Wyndham, á nákvæmlega sömu slóðum, þó örlitlu nær verzluninni og örlitlu fjær leikhúsunum, án þess þó að slíkar fjarlægðir skipti máli á þessum óskastað, steinsnar frá Central Park.
Það hefur virðulegan móttökusal og ágæta þjónustu, utan þess að ekki er boðin herbergisþjónusta. Þekktir leikarar og söngvarar hafa þar samastað og eru ánægðir með að vera heima hjá John og Suzanne Mados.
Herbergi nr. 205 var sérstaklega heimilislegt í bandarískum dúr, hlaðið veggfóðri og gluggatjöldum, auðvitað með eldunarkróki, fataherbergi og óvenju vistlegu anddyri.
Tveggja manna herbergi kostaði USD 126.
(Wyndham, 42 West 58 Street, milli 5th og 6th Avenue, sími 753 3500, F3)
Algonquin
Algonquin er að ýmsu leyti sérstætt hótel. Í fyrsta lagi er það sunnarlega í miðbænum, mitt á milli Grand Central Station og Times Square og því hentugt þeim, sem eiga erindi á þeim slóðum eða stunda leikhúsin. Fyrir leikhúsfólk er það bezt setta hótelið í þessari bók.
Þá er Algonquin mesta menntahótelið. Það er hefðbundinn áningarstaður rithöfunda og bókaútgefenda, kvikmyndamanna og leikhúsfólks. Hótelið dregur dám af gestum sínum, skór eru burstaðir og ekki gerð krafa til brottfarartíma fyrr en kl.15.
Eikarklætt anddyri, bar og veitingasalur eru sögufrægir funda- og samningastaðir um handrit, en maturinn þar er sagður einn hinn versti í bænum.
Herbergin á Algonquin eru misjöfn að stærð, en yfirleitt sómasamlega búin og með öllu vel virku í baðherbergjum. Herbergi nr. 500 er fremur lítið eins manns herbergi, en þægilega búið hæfilega gamaldags húsgögnum.
Tveggja manna herbergi, mun stærri og notalegri, kostuðu USD 138 og 147.
(Algonquin, 59 West 44th Street, milli 5th og 6th Avenue, sími 840 6800, E3)
Vista
Annað hótel með sérstöðu er Vista í World Trade Center. Sérstaða þess felst í að vera í niðurbænum, í Financial District, steinsnar frá Wall Street. Það er kjörin vistarvera þeirra, sem eiga erindi í banka- og fjármálaheiminn. Einnig liggur það betur en önnur hótel við lista- og menningarhverfunum Tribeca, SoHo og jafnvel evrópska hverfinu Greenwich Village, svo og Chinatown og Little Italy.
Vista er afar nýtízkulegt hótel með beztu eiginleika Hilton-keðjunnar. Þar hefur greiðslukortakerfið náð fullkomnun. Kortið er stimplað inn við komu, reikningurinn kemur undir herbergishurðina um nóttina. Þú kvittar fyrir og hendir honum í lyklagatið niðri í anddyri. Engin biðröð, ekkert vesen. Þetta kerfi sáum við fyrst á Vista.
Ýmsir fleiri kostir eru við Vista. Það hefur skokkbraut, sundlaug og líkamsræktarstöð. Einnig er þar ágætt veitingahús, American Harvest. Þá er innangengt í aðra turna í World Trade Center, þar með í útsýnið úr veitingasölum Windows on the World.
Herbergi nr. 1240 er afar bjart, nýtízkulegt og vel búið húsgögnum og baðtækjum, með góðu útsýni yfir World Trade Center Plaza og til skýjakljúfa niðurbæjarins, fallegra í sólarupprás og sólarlagi. Önnur herbergi hafa útsýni yfir Battery Park City og Hudson-fljót.
Verðið var mjög hátt, USD 245, virka daga, en þolanlegra, USD 158, um helgar, þegar Wall Street er lokað, en listsýningarsalirnir í Soho á fullu.
(Vista, 3 World Trade Center og West Street, sími 938 9100, telex 668 840, A4)
Intercontinental
Bezta hótelið í New York er hið gamla og afar evrópska Barclay, sem nú heitir Intercontinental. Það er austarlega í miðbænum, vel í sveit sett gagnvart Sameinuðu þjóðunum og verzlunum, en nokkru lengra frá leikhúshverfinu, sem er vestast í miðbænum.
Anddyrið er hið glæsilegasta, sem völ er á í bænum, prýtt stóru fuglabúri í miðjunni. Allur húsbúnaður þar niðri sem uppi á herbergjum er í gömlum stíl. Þjónusta er hin bezta á öllum sviðum og þekkir engin vandamál. Til dæmis er útvegun leikhúsmiða fullkomin.
Herbergi nr. 537 er sérstaklega hlýlega og glæsilega búið húsgögnum, svo og fullkominni tækni í baðherbergi, sérstaklega sturtutækni, svo og mörgum stórum handklæðum. Herbergið er hljóðlátt, þótt það snúi gluggum til tveggja umferðargatna. New York Times kom sjálfkrafa undir hurðina um nóttina.
Tveggja manna herbergi kostaði USD 262 og er hið næstdýrasta í þessari bók.
(Intercontinental, 111 East 48th Street og Lexington Avenue, sími 755 5900, telex 710 581 6535, E3/4)
Pierre
Fínasta, en ekki bezta hótelið í New York, er Pierre, sem er austan við suðurenda Central Park. Þar gista kóngar og forsetar, enda eru á hverju strái þjónar, sem snúast mest hver í kringum annan. Niðri eru mikil salarkynni í samræmdum, fornum stíl, en ekki í sama mæli notalegum. Hverri lyftu stjórnar sérstakur lyftuvörður, sem reynir með erfiðismunum að hitta á rétta hæð og tekst oft.
Sérkenni Pierre er, að það er rólegt. Aldrei virðist neitt um að vera. Við og við sigla smoking-herrar og síðkjóladömur yfir þykk og græn teppin út í lengdar límúsínur með einkabílstjórum. Farangur sést aldrei í anddyrinu, enda væri hann ekki í samræmi við stíl staðarins. Sennilega þarf fólk að hafa erft auð sinn til að njóta sín til fulls á Pierre.
Herbergi nr. 829 er ekki stórt, en einkar notalegt og stílhreint. Baðherbergið er klætt marmara og búið baðsloppum, mörgum stórum handklæðum, hárþurrku, réttri baðvog og ýmsum vessum í flöskum.
Verðið var USD 277, hið hæsta í þessari bók. Herbergi, sem sneri út að Central Park, hefði kostað USD 398 eða 512!
(Pierre, 5th Avenue og 61st Street, sími 838 8000, telex 127 426, G3)
Dorset
Eitt fínu hótelanna á Manhattan hefur þann kost að vera lítið. Það er Dorset, sem er beint að baki Museum of Modern Art í miðjum miðbænum. Það er gamaldags og evrópskt, en fallega uppgert, rólegt og hljóðlátt hótel fyrir fasta viðskiptavini.
Þjónusta er örugg, snögg og vingjarnleg. New York Times liggur við herbergisdyr að morgni. Herbergin eru afar mismunandi að lögun og stærð, svo að myndin, sem fylgir með, kann að vera villandi.
Herbergi nr. 822 er afar hljóðlátt, þótt það snúi út að 44. götu, enda er hún fremur róleg. Það er mjög notalega búið gamaldags húsbúnaði, sem hafði nýlega verið endurnýjaður, þar á meðal tveimur breiðum rúmum. Því fylgdi eldunarkrókur og vandað baðherbergi, svo og feiknarlegt skápapláss frá þeim tíma, er fólk ferðaðist um með koffort, en ekki axlatöskur.
Verðið nam USD 206. Hvorki Visa né Eurocard eru tekin gild.
(Dorset, 30 West 54th Street, milli 5th og 6th Avenue, sími 247 7300, F3)
St. Moritz
Útsýnið, sem menn hafa ekki efni á að kaupa á Pierre, geta þeir fengið fyrir lægra verð á St. Moritz, sem er við suðurenda Central Park, afar vel í sveit sett. Þetta er gamalt hótel og sumpart dálítið þreytulegt, en eigi að síður óaðfinnanlega snyrtilegt og með góðum pípulögnum.
St. Moritz er raunar einna evrópskast þessara hótela, mikið sótt af kaupsýslumönnum austan um haf. Oft er þröng á þingi í virðulegu anddyrinu, ekki sízt vegna hinnar frægu og ofskreyttu veitingastofu hótelsins, Rumplemeyer´s, sem býður börnum ís og tertur, svo og súkkulaði með þeyttum rjóma í austurrískum stíl.
Eins manns herbergið nr. 2007 er lítið, en vandlega búið og nýlega endurnýjað. Það hefur útsýni yfir í Central Park.
Stærra, tveggja manna herbergi í svipuðum gæðaflokki og með svipuðu útsýni kostaði USD 155. Með enn betra útsýni kostuðu slík herbergi USD 170.
(St. Moritz, 50 Central Park South og 6th Avenue, sími 755 5800, telex 668 840, F3)
Warwick
Warwick státar af stórum og vel búnum herbergjum, sem sum hafa gott útsýni til skýjakljúfa 6th Avenue. Hótelið er við rólega götu á nokkurn veginn sama stað og Dorset og Gorham. Sjálft hótelið er rólegt og virðist lítið, þótt herbergin séu 500. Þau eru meðal hinna beztu í bænum. Þjónusta er einnig góð, svo sem raunar er algengt á Manhattan-hótelum.
Herbergi 2511 er stórt og notalegt eins og önnur herbergi hótelsins, með tveimur breiðum rúmum, vel við haldið og vel búið í baðherbergi.
Verðið var USD 166.
(Warwick, 65 West 54th Street og 6th Avenue, sími 247 2700, telex 147 179, F3)
Elysée
Elysée er vel sett milli Park og Madison Avenues í miðju verzlunarhverfi miðbæjarins. Það er þægilega lítið á Manhattan-mælikvarða, hefur aðeins 100 herbergi, sem eru mismunandi að stærð og lögun. Eitt sérkenna hótelsins er, að hvert herbergi hefur sitt sérstaka nafn. Í stíl við það er þjónustan persónuleg og þægileg.
Herbergi nr. 505, “The Buttery”, hefur sérkennilega langt anddyri með eldunarkrók, góðu baðherbergi og skápaplássi. Sjálft herbergið er rúmgott og vel búið, meðal annars tveimur breiðum rúmum. Það hafði nýlega verið endurnýjað eins og önnur herbergi hótelsins.
Verðið var USD 161.
(Elysée, 60 East 54th Street, milli Park og Madison Avenues, sími 753 1066, telex 220 373, F3)
Bedford
Bedford er einkar notalegt hótel, dálítið afskekktara í miðbænum en önnur hótel í þessari bók. Það er í hverfinu Murray Hill, sem er virðulegt og rólegt íbúðahverfi suðaustantil í miðbænum. Hótelið er rétt sunnan við Grand Central Station, mitt á milli Sameinuðu þjóðanna og Empire State Building. Það er í næsta nágrenni við íslenzka sendiráðið.
Um helmingur herbergjanna er tvískiptur, með svefnaðstöðu sér og setustofu sér. Þau hafa öll eldunaraðstöðu. Hótelið hentar sérstaklega vel barnafjölskyldum, enda býður það sérstök fjölskyldukjör.
Herbergi nr. 1202 er raunar heil íbúð með borðkrók í setustofu, eldhúsi og afar vel þegnu straubretti með góðu járni, allt of sjaldgæfum hlutum á hótelherbergjum. Ekki aðeins er aðstaðan góð, heldur er búnaður allur hinn smekklegasti.
Verðið nam USD 151, að sköttum meðtöldum eins og annars staðar í þessum kafla.
(Bedford, 118 East 40th Street, milli Park og Lexington Avenues, sími 697 4800, D3)
Middletowne
Afar notalegt og lítið hótel, sem hin óvenjulega sjálfsánægða Leona Helmsley hefur nýlega keypt, er Middletowne, nágranni Intercontinental við 48th Street. Áhrif frúarinnar koma vel fram í þykkum ábreiðum og gluggatjöldum með blómaflúri, svo og stórum handklæðum í baðherbergjum. Eini gallinn er að þurfa alls staðar að berja augum myndir af frúnni. En þetta er rólegt hótel á góðum stað fyrir þá, sem vilja líta í búðir.
Þjónustan var afar vingjarnleg og ræðin, en að sama skapi seinvirk. Töskuberum staðarins er hver dagur sem ár og svo framvegis. Það virðist einmitt vera einkenni Helmsley-hótela, að starfsfólki er kennt að halda gestum uppi á skemmtilegu snakki, fremur en að þjónusta þá.
Herbergið, sem við gistum, er afar stórt, með tveimur tvíbreiðum rúmum, eldunaraðstöðu og stórum fataskápum. Allt er áberandi nýlegt og hreinlegt.
Verðið var USD 150.
(Middletowne, 148 East 48th Street, nálægt Lexington Avenue, sími 755 3000, E4)
Windsor
Annað Helmsley-hótel, sem okkur líkaði við, er Windsor. Einkennin eru hin sömu og á Middletowne, blómflúr í þykkum ábreiðum og gluggatjöldum, stór handklæði á baði og að öðru leyti góður baðbúnaður, vingjarnlegur kjaftagangur og seinvirkni í starfsliði og myndir af frú Helmsley, sem telur sig nafla alheimsins og má að okkar mati alls ekki fara til sálfræðings.
Hótelið er afar rólegt, þótt það sé vel í sveit sett rétt við Central Park og lúxusverzlanir í 57th Street, svo og nálægt Broadway-leikhúsunum. Það er greinilega nýendurnýjað frá kjallara upp á þak, því að málningarlyktin var ekki alveg horfin.
Herbergi nr. 704 er hið þægilegasta herbergi með öllum jákvæðum hliðum Helmsley-hótela og þar að auki búið tveimur tvíbreiðum rúmum. Líklega er það í jákvæðum stíl frúarinnar, að baðvogin sýndi kerfisbundið, að allir væru 53 kíló.
Verðið nam USD 138.
(Windsor, 100 West 58th Street og 6th Avenue, sími 265 2100, F2)
Summit
Summit er það hótel, sem flestir Íslendingar þekkja. Það hefur lengst af verið Loftleiða- og Flugleiðahótelið í New York. Flugáhafnirnar gista þar.
Sjálft hótelið er ekki skemmtilegt. Það er nýtízkulegt, ópersónulegt, plastlegt og afar órólegt. Anddyrið er eins og á þægilegri járnbrautarstöð með farangri í haugum og flugáhöfnum að bíða. Starfsliðið er samt notalegt og reynir að gera sitt bezta í önnum sínum. Svo mikið er álagið, að stundum er biðröð í lyfturnar.
Aðalatriðið er að fá herbergi með stakri tölu. Þau snúa að húsabaki. Herbergin með jöfnu tölurnar snúa hins vegar að 51st Street, þar sem athafnasamt slökkvilið hefur aðsetur með tilheyrandi ofsahljómum að næturlagi. Hin herbergin geta að vísu verið ónæðissöm, þegar fylliraftarnir dragnast ofsakátir inn langa hótelgangana.
Summit skortir einn meginkost Manhattan-hótela, að þau eru í turnum með mörgum hæðum og fáum herbergjum á hverri hæð, svo að ónæði er lítið innan frá að næturlagi. Á Summit eru gangar langir og hæðir fáar, með þeim mun meiri umferð á hverri hæð.
Allt var í góðu lagi á herbergi nr. 1231.
Verðið var USD 166.
(Summit, 51st Street og Lexington Avenue, sími 752 7000, telex 147 181, F4)
Pickwick Arms
Eftir langa leit fundum við eitt hótel enn, sem var vel innan við 100 dollarana, þótt það væri frambærilegt. Það er Pickwick Arms, austarlega í miðbænum, nálægt Sameinuðu þjóðunum. Mestu máli skiptir þó, að það er einn af næstu nágrönnum matargerðarmusterins Lutéce og hefur hinn litla, en notalega Greenacre Park andspænis sér.
Anddyrið lítur sæmilega virðulega út, en herbergin eru í minnsta lagi. Þau eru þó hrein og hafa baðútbúnað í sæmilegu lagi, svo og loftræstingu, sem er nauðsyn í Manhattan.
Herbergi nr. 1110 er nákvæmlega mátulega stórt til að koma fyrir tveimur breiðum rúmum og gangvegi í kring, svo og sjónvarpi, skrifborði og stólum. Baðherbergið er afar lítið, en gerir sitt gagn, þótt ekki hafi sturtan verið öflug.
Verðið nam USD 72, að öllum sköttum inniföldum, svo og flugvallarakstri.
(Pickwick Arms, 230 East 51st Street, milli 2nd og 3rd Avenue, sími 355 0300, F4)
Systol
Eitt hótel þarf að nefna, þótt það falli ekki í Manhattan-ramma þessarar bókar. Það er Systol, í nágrenni Kennedy-flugvallar, rekið af Íslendingum fyrir Íslendinga, einkum notað af þeim, sem lenda á Kennedy að kvöldlagi til að halda eitthvað áfram morguninn eftir.
En Systol hefur líka gildi fyrir þá, sem ætla inn á Manhattan, en vilja taka stökkið í áföngum, komast fyrsta kvöldið í eldhúskrók á íslenzku heimili og hafa síðan góðan tíma til að skella sér í Manhattan-æðið daginn eftir. Auk þess gefa Systa og Óli góð ráð, til dæmis um alla þá hagkvæmu verzlun, sem Íslendingar hafa áhuga á.
Systol er í stóru einbýlishúsi í rólegu hverfi, þar sem Cuomo ríkisstjóri býr. Herbergin eru fá, svo að færri komast að en vilja, nema þeir panti með nægum fyrirvara. Innifalið í verði umfram flest önnur hótel, sem hér hafa verið nefnd, er akstur frá flugvelli og til hans, svo og morgunverður.
Húsið er loftkælt og herbergin eru rúmgóð, skreytt listaverkum kunnra Íslendinga. Þau eru ekki með sérbaði, en slík aðstaða er úti um allt hús. Allt er afar hreinlegt og notalegt hjá þeim.
Verðið var USD 75 fyrir tvo.
(Systol, 199-10 Romeo Court, Holliswood, NY 11423, sími (718) 468 6220, ekki telex)
1988
© Jónas Kristjánsson