Author Archive

Kjósendur og þinglið í takt

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn verður áfram skipaður sama frjálshyggjuliðinu og því, sem setti þjóðina á hausinn. Í prófkjörum flokksins fengu þingmenn Flokksins traustsyfirlýsingu. Meira að segja Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson. Kjósendur Flokksins hafa ekkert lært og engu gleymt. Þeir trúa sínu liði sem aldrei fyrr. Fjórðungur þjóðarinnar telur í alvörunni, að tæknivilla í einum doðranti Evrópusambandsins hafi valdið hruninu. Ásta Möller reyndi að biðjast afsökunar og var felld í prófkjörinu. Flokkurinn verður ekki stjórntækur næstu árin. Kjósendur hans og þinglið ganga í takt.

Margar nafnlausar heimildir

Fjölmiðlun

Helzti stjórnmála-berserkur samtímans segir í Mogga, að framsóknarmenn sjái eftir stuðningi við ríkisstjórnina. Agnes Bragadóttir hefur það eftir mörgum framsóknarmönnum, öllum nafnlausum. Enginn er nafngreindur í grein hennar. Sú aðferð hefur alltaf verið umdeild. Washington Post hefur ákveðið, að nota ekki slíkar heimildir, en gefur sér tíma til að koma því í verk. Þegar stjórnmála-berserkur slær um sig með nafnlausum heimildum, verða lesendur annað hvort að treysta eða ekki. Greinina hefði Agnes getað skrifað upp úr sjálfri sér án þess að tala við nokkurn framsókmarmann.

Eini kratinn í flokknum

Punktar

Hræddur er ég um, að fylgismenn Samfylkingarinnar í prófkjörum séu sáttir við flokkinn. Þeir þakka fall fyrri ríkisstjórnar og fagna aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar. Meira þurfa þeir ekki. Mér sýnist væntanlegur þingflokkur Samfylkingarinnar eins geta hallað sér til hægri sem til vinstri. Ekkert hefur breyzt í hugarfari þingflokksins. Hann er áfram hallur undir stefnu Blair og Brown, fylgjandi frjálshyggju og ástfanginn af auðmönnum. Kannski hefur einhver kratísk kúvending átt sér stað í hugarheimi sumra, en þess sjást engin ytri merki. Enn virðist Jóhanna vera eini kratinn í flokknum.

Ínn og Saga á lægra plani

Fjölmiðlun

Dögg Pálsdóttir segist hafa greitt Ínn 74.700 krónur fyrir að taka við sig sjónvarpsviðtal og Sögu 53.535 krónur í sama skyni. Þetta er skrítið mál, því að fjölmiðlar gera jafnan skýran mun á svokölluðu ritstjórnarefni og auglýsingum. Ingvi Hrafn Jónsson segir þetta ekki hafa verið viðtal, heldur útsendingartíma. Ég skil ekki þá röksemd. Er líka sannfærður um, að notendur Ínn gera ekki slíkan greinarmun. Eins og Saga er Ínn í skítabissniss, sem aldrei hefur tíðkazt hér. Þótt sumt megi ljótt segja um fjölmiðlana, hafa þeir ekki selt aðgang að ritstjórnarefni. Ínn og Saga eru á lægra plani.

Frjálshyggja og fasismi

Punktar

Blair-isminn varð til við valdatöku Tony Blair og Gordon Brown í Bretlandi 1997. Hann fól í sér fráhvarf frá hefðbundnum kratisma að norrænum hætti. Frjálshyggja var tekin upp í peningamálum og velferð var skorin niður með sparnaði í ríkisrekstri. Ást á auðmönnum einkenndi Blair, sem sjálfur var sjónhverfingamaður. Saman við þetta blandaðist skerðing mannréttinda af öryggisástæðum. Ég hef lýst Blair-ismanum sem frjálshyggju með ívafi af fasisma. Líktist stefnu Davíðs og Geirs og Ingibjargar. Helztu Blair-istar Íslands eru nú ungkratarnir Björgvin Sigurðsson og Ágúst Ólafur Ágústsson.

Capacent Gallup bullar

Punktar

Hafa má það til marks um skort á vísindum í skoðanakönnunum Capacent Gallup, að þeir skipta 120 manna úrtaki á flokka. Það eru þeir, sem spurðir voru um fylgi við flokka á Norðurlandi vestra. Frjálslyndi flokkurinn fær þar 2,5% fylgi, sem þýðir þrír kjósendur í úrtakinu. Ég held, að enginn könnuður nema Gallup mundi leyfa sér slíkt rugl. Samfylkingin fær í könnuninni 6,7%, sem þýðir átta atkvæði í úrtakinu. Ekki er nóg að birta slíkt með fyrirvara, það á alls ekki að birta það. Capacent Gallup kemur óorði á skoðanakannanir.

Tvöfalt gengi étur evrur

Punktar

Gengi íslenzku krónunnar hefur erlendis verið 220 krónur á evruna, jafnvel 260 krónur. Innanlands er gengið skráð á 146 krónur á evruna. Þetta misræmi er alltof mikið. Seðlabankinn heldur uppi óraunhæfu gengi með skömmtun og höftum. Ekki er von, að gjaldeyrir skili sér í bankann. Af þessari ástæðu er stríður straumur gjaldeyris úr bankanum. Þetta endar með skelfingu. Ég hélt, að norskur seðlabankastjóri mundi stöðva ruglið, en hann hefur ekki gert það enn. Betra er að viðurkenna staðreyndir og taka skellinn strax, en vænta þá betri tíma með blóm í haga. Með tvöföldu gengi kemur batinn aldrei.

Leiguhúsnæði lífeyrissjóða

Punktar

Góð er hugmynd nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar um, að lífeyrissjóðir megi reka leiguhúsnæði. Þeir hafa samið um það frumvarp á Alþingi. Auðvitað verða sjóðirnir sjálfir að vilja það og þeir þurfa að hafa af því ávöxtun. Þetta gæti orðið til að framkalla leigumarkað hér á landi eins og í öðrum löndum. Hér hefur ríkt sjálfseignarstefna með hörmulegum afleiðingum fyrir marga í kreppunni. Sumir hafa ekki áhuga á að skuldbinda sig í ævilangt þrælahald fyrir húsnæði. Leiguhúsnæði sjóðanna getur líka hleypt í lífi í fasteignamarkað og gert verðlag stöðugra. Hugmyndina þarf að skoða vel.

Joly vill bara útlendinga

Punktar

Eftir Evu Joly að dæma gerði fyrri ríkisstjórn flest vitlaust í aðgerðum til að elta sökudólga hrunsins. Enda vildi Geir ekki finna neina sökudólga. Geir bjó til alþingisnefnd með formann, sem ekki er líklegur til stórræða. Geir fékk sérstakan bankasaksóknara, sem ekki tekur hendur úr vösum. Við þurfum að skipta út þessu drasli. Nýja stjórnin gerði vel, þegar hún fékk Evu Joly til skrafs og ráðagerða. Hún vill, að við ráðum útlendinga, og hefur bent á nokkra. Ríkisstjórnin á að taka þessu og setja hlutlausa menn á alla toppa, sem máli skipta. Ekki já-og-jamm elsku-bræður klúbbamenn úr embættageiranum.

Hafberg sveik mig

Veitingar

Fiskbúðin Hafberg er staðin að hæsta fiskverði á Reykjavíkursvæðinu, hærra en hjá búðum Fiskisögu. Þetta eru mér mikil vonbrigði. Hafberg var ódýr, þegar ég fór að kaupa fisk þar fyrir ári. Eftir síðustu áramót fór mér að finnast verðið þar hækka grunsamlega. Og nú hefur Alþýðusambandið staðfest, að Hafberg sé sokkin í græðgi. Það er skelfilegt, þetta er eins og að vera sagt upp ástarsambandi. Nú þarf ég að leita mér að nýrri fiskbúð, í Hafberg kem ég ekki aftur að sinni. Sendið mér tölvupóst á jonas@hestur.is. Með meðmælum um aðra fiskbúð á svæðinu. Spánnýjan fisk á sanngjörnu verði, takk.

Rófan dillar hundinum

Punktar

Svo mikil tök hafa stuðningsmenn Ísraels á bandarískri pólitík, að þeir hindruðu val nýs öryggisfulltrúa Barack Obama. Charles Freeman dró sig í hlé eftir skipulegan lygaáróður stuðningsmanna Ísraels. Þeir sögðu hann vera hatursmann Ísraels, hann hafði verið sendiherra í Sádi-Arabíu. Með innreið Barack Obama og Hilary Clinton í Hvíta húsið er minni von en áður um frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þau hafa í hótunum við Palestínumenn og neita að tala við þá, sem hafa fengið mest fylgi í kosningum. Ísraelska rófan dillar bandaríska hundinum hraðar. Þetta er vanheilagt bandalag gegn heimsfriðinum.

Enginn nennir að hrópa

Punktar

Allur vindur er úr búsáhaldabyltingunni. Enginn mótmælir lengur, fer ekki einu sinni með bænarskrá til forsætis. Enginn mótmælti þingi Viðskiptaráðs í gær. Þar hefði verið upplagt að berja bumbur og hrópa “vanhæft viðskiptaráð” og “þið eruð fífl”. Ráðið hefur árum saman rekið áróður fyrir því rugli, sem hér varð að opinberri peningastefnu. Enginn mun nenna að berja bumbur og hrópa “vanhæfur Flokkur” og “þið eruð fífl” við landsfund Flokksins. Hann kom okkur í klandrið. Nýja stjórnin losaði okkur við Davíð, Geir og Jónas Fr. og setti upp leikrit um stjórnlagaþing. Það nægði búsáhaldabyltingunni.

Fjórflokkurinn með undirtökin

Punktar

Fjórflokkurinn hefur aftur náð tökum á þjóðinni. Búsáhaldabyltingin hefur misst þau, er fylgislaus í könnunum. Svo fylgislaus, að úr því verður ekki bætt. Aðeins fjórir flokkar fá þingmenn, það er gamli fjórflokkurinn. Helzta orsök þessa er ný ríkisstjórn, sem hefur framkvæmt ýmsar helztu kröfur búsáhaldabyltingarinnar. Stjórnin er að reyna að ná fram öðrum kröfum, svo sem óröðuðum listum, stjórnlagaþingi og stjórnarskrá. Kjósendur eru sáttir og styðja fjórflokkinn, einkum Vinstri grænna og Samfylkinguna. Þeir tveir flokkar eru feitir í könnunum. Þeir hafa náð fylgi búsáhaldabyltingarinnar.

Vilhjálmur er sjálfkjörinn

Punktar

Vilhjálmur Bjarnason háskólakennari sótti um forstjóra Fjármálaeftirlitsins ásamt átján öðrum. Við þekkjum Vilhjálm úr sjónvarpinu. Hann hefur barizt fyrir okkur öll. Hann er sjálfkjörinn í embættið.

Búðin við bryggjuna

Veitingar

Ég þakka frábærar viðtökur við neyðarópi mínu í morgun. Flestir bentu á fiskbúðina Freyju við Bakkabraut 1 í Kópavogi, götu utan símaskrár, en við bryggjuna þar. Ég þarf endilega að benda á aðrar fiskbúðir, sem fengu atkvæði. Gildir ekki sem skoðanakönnun, en er fullgild atkvæðagreiðsla. Freyja fékk 54 atkvæði, Hafrún í Skipholti 18 atkvæði, Fiskikóngurinn á Sogavegi 16 atkvæði, Fiskbúðin í Trönuhrauni í Hafnarfirði 7 atkvæði og Fiskbúðin við Freyjugötu 6 atkvæði. Ég fór í Freyjugötu í dag, það var í leiðinni, fer í Kópavog eftir helgina. Kærar þakkir, lesendur.