Author Archive

Enginn er til í dansinn

Punktar

Samfylkingin hefur engan til að dansa við um Evrópu. Hún getur ekki sett neinum flokki stólinn fyrir dyrnar. Hún getur ekki sagt: Án Evrópu ekkert samstarf. Sjálfstæðisflokkurinn var eina vonin og hann hrökk aftur í sinn gamla gír andstöðu við Evrópusambandið. Dagur B. Eggertsson talar digurbarkalega á landsþingi, en engin innistæða er fyrir því. Samfylkingin getur ekki þröngvað Evrópu upp á einangrunarsinnaða þjóð. Fyrst þarf hún að sannfæra þjóðina um, að vit sé í Evrópu. Slíkt getur tekið mörg ár og líklega áratugi.

Terroristarnar eru Íslendingar

Punktar

Íslenzkir yfirmenn í bönkum og eigendur banka ryksuguðu allt fé, sem þeir fundu víðs vegar um heim. Þeir komu fénu í erlend skattaskjól í þágu eigenda bankanna. Þeir eru allir terroristar. Þeir stunduðu hryðjuverk sín einkum í útlöndum, til dæmis með IceSave. Gagnvart erlendu fólki komu þeir fram sem terroristar. Íslendingar hafa ekkert gert til að koma lögum yfir þá. Ísland er því griðland terrorista í bankaheiminum. Við erum því meðreiðarsveinar terroristanna. Fyndið er, að sumir mótmæla, að Íslendingar séu stimplaðir terroristar. Við ættum fyrst að koma terroristunum okkar í járn.

Kolkrabbinn og fátæklingarnir

Punktar

Kolkrabbinn er kominn aftur í fremstu röð. Bjarni Benediktsson gaf sér tíma frá okri á benzíni til að taka yfir flokk þjóðareigenda. Kolkrabbinn lifði alltaf á okri í fáokun, okri á benzíni, tryggingum, flugi. Hann var samt nálægt þjóðinni, lífsstíll hans var ekki fjarlægur fólki. Þess vegna eru menn nánast fegnir, að þotuliðið sé farið og kolkrabbinn kominn aftur. Að vísu eru völdin minni en áður. Þau byggðust á að nota atkvæði fátæklinga til að hlaða undir hina ríku. Nú sýnir könnun, að í fyrsta skipti í sögunni hafa fátæklingar yfirgefið Sjálfstæðisflokkinn. Líklega koma þeir aldrei aftur.

Víðasti og merkasti fundurinn

Punktar

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er stærri og víðari og merkari en fundir annarra flokka. Hann er Kanaríferð, helgimessa, félagsmiðstöð, hluti af lífi þínu. Hann er raunar stærsti atburður lífs þíns á tveggja ára fresti. Ef þú færð ekki miða á landsfund, ferðu samt suður, hangir inni á hótelherbergi, ferð aftur heim og segir frá landsfundinum. Fólk er stolt af landsfundinum sínum. Enda er hann ekki fundur í hefðbundnum skilningi. Hann er líka íþróttafélag, karlaklúbbur, greifadæmi. Valdatæki kolkrabba og kvótagreifa, málfundur frjálshyggjunnar, skríll gegn umhverfisvernd í ræðustól.

Össur bullar að venju

Punktar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir gott, að Anders Fogh-Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, verði framkvæmdastjóri Nató. Sá hefur gengið lengst leiðtoga Evrópu í stuðningi við heimsvaldastefnu Bandaríkjanna í Írak og Afganistan. Með hann á toppnum mun Atlantshafsbandalagið áfram vera í skítverkum fyrir Bandaríkin í þriðja heiminum. Aðild þess að stríðinu gegn Afganistan er því til vansæmdar. Anders Fogh-Rasmussen verður bandalaginu áfram til vansæmdar. Það var stofnað til að verja Evrópu gegn Sovétríkjunum, en er nú komið í rugl í fjarlægum hreppum. Össur er bara að bulla að venju.

Ólag fyrir aðild

Punktar

“Nú er lag”, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á landsfundi flokksins í gær. Hún var að tala um stemmninguna í Evrópusambandinu. Hún var greinilega ekki að tala um stemmninguna á Íslandi. Hér er yfirgnæfandi meirihluti andvígur aðild. Tveir af þremur stóru flokkunum hafa hlustað á kjósendur sína á landsfundum. Flokkarnir hafa við það hert andstöðu sína, þótt þeir fallizt á, að þjóðin fái sjálf að tala. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur næmara eyra fyrir tali manna á göngum Evrópusambandsins en fyrir tali manna hér heima. Um sambandið má segja, að akkúrat núna sé ólag fyrir því.

Kolkrabbinn og kvótinn

Punktar

Lengi hafa Davíð Oddsson og Geir Haarde átt Sjálfstæðisflokkinn. Þeir voru hafnir yfir grunneiningar flokksins, óumdeildir flokksgreifar. Nú berjast einingarnar um arfinn. Kolkrabbinn teflir fram ungum manni með gullskeið í munni. Kolkrabbinn vill styrkja tökin eftir sprungnar bólur fjárglæframanna. Hann á enn peninga, enda í gömlum viðskiptum fáokunar, svo sem benzínsölu. Gegn kolkrabbanum er teflt fram fulltrúa kvótagreifanna, sem jafnan hafa verið áhrifamiklir hér í flokki. Á milli fylkinganna flýtur höfuðlaus her smáðra frjálshyggjumanna, sem á bóluskeiðinu kvörtuðu yfir “fé án hirðis”.

Flest loforðin efnd

Punktar

Borgarahreyfingin telur, að Samfylkingin og vinstri grænir svíki frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórnlagaþing og persónukjör. Hún telur, að stjórnin hefði átt að fylgja því fastar eftir. Hefði átt að hafna lögfræðiáliti skrifstofu Alþingis um, að tvo þriðju hluta atkvæða þyrfti. Mér finnst hins vegar flokkarnir hafa fylgt málinu fram á yztu nöf í tímahraki. Mér finnst líklegt, að málin verði samþykkt, þegar nýtt þing kemur saman með tilskildum meirihluta. Ríkisstjórnin hefur staðið við flest loforð, sem hún gaf. Tími uppgjörs við fortíðina er hafinn og tími endurreisnar er jafnframt hafinn.

Eva Joly eltir peningana

Punktar

Flott er að ráða Evu Joly sem ráðgjafa sérstaka saksóknarans í bankahruninu. Hún á að sjá um erlenda þætti rannsóknarinnar. Hún á að rekja slóð peninga, finna erlend gögn og vinna úr þeim. Þetta tryggir ekki bara efnisleg gæði rannsóknarinnar. Þetta segir erlendum aðilum, að Ísland sé í alvöru að elta uppi glæpamennina. Ekki bara í þykjustunni eins og upphaflega vera átti, þegar vanhæfa ríkisstjórnin setti málið í gang. Það skiptir máli, að við sýnumst ekki halda hlífiskildi yfir glæpamönnum. Núverandi ríkisstjórn ætlar greinilega að halda svo fast á málum, að öllu réttlæti verði fullnægt.

Davíð hinn krossfesti

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn hyllti Davíð Oddsson á landsfundinum og situr uppi með biturt gamalmenni. Davíð skaut föstum skotum í allar áttir og gerði grín að efnahagsmálabók flokksins. Allt var það í hefðbundnum stíl Davíðs, dylgjur og smjörklípur í hverri málsgrein. Samt hyllti flokkurinn Davíð, verði honum að því. Með þessari málsmeðferð reyrir flokkurinn sig við öll mistökin á valdaskeiði Davíðs og Geirs. Ekki er von, að flokkurinn geti tekið þátt í daglegu lífi á Íslandi, þegar hann hyllir mann, sem segist vera ígildi hins krossfesta Jesús Krists. Fyrr má nú rota en dauðrota.

Röng lýsing Ingibjargar

Punktar

Afsökunarbeiðni Ingibjargar Sólrúnar á landsfundi Samfylkingarinnar var sú þynnsta, sem ég hef séð á öldinni. Sagðist hafa látið Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans vaða uppi allt of lengi. Þetta er ekki rétt hjá henni. Vanhæfa ríkisstjórnin rak sameiginlega stefnu beggja flokkanna. Með Ingibjörgu Sólrúnu komust Blair-istar til valda í flokknum. Þeir dáðust að Tony Blair og vildu líkja eftir stefnu hans. Þeir vinguðust við auðmenn og tóku algera og fortakslausa trú á frjálshyggju í peningamálum. Bankahrunið í haust er ekkert sérmál Sjálfstæðisflokksins. Vanhæf Samfylking á nákvæmlega sömu sök.

Andvígur stýrivöxtum og niðurskurði

Punktar

Joseph Stiglitz nóbelshagfræðingur telur atvinnuleysi ársins verða 30-50 milljón manns meira en árið 2007. Og að 200 milljón manns færist undir mörk fátæktar á þessu ári. Hann segir flest auðríki hafa tekið upp verndarstefnu, sem minnkar útflutningsverzlun. Hvetur til stóraukins fjármálaeftirlits, einkum alþjóðlegs eftirlits. Hvetur til stóraukins samkeppniseftirlits, einnig á alþjóðlegum vettvangi. Segir ófært, að fátæk ríki greiði stóran hluta tekna sinna í vexti til auðríkja. Hann segir háa stýrivexti og sparnað í ríkisrekstri gera bara illt vera. Lesið grein hans í Guardian í morgun.

Óseljanlegar eignir skattlagðar

Punktar

Ef vinstri grænir ná fram 2% eignaskatti, verða þeir að miða við, að eignir eru óseljanlegar. Þær verða óseljanlegar næstu árin. Menn geta ekki selt eignir til að borga skattinn. Gamalt fólk, sem á einbýlishús eða raðhús og sumarbústað, lendir í eignaskatti, sem verður hærri en minnkandi lífeyrir þess frá sjóðunum. Hætt er við, að skatturinn verði miðaður við ímyndaða upphæð, til dæmis fasteignamat. Hið rétta væri að miða hann við raunverulegt fasteignaverð líðandi stundar, sem er brot af ímynduðu fasteignamatsverði. 2% eignaskattur tíðkast raunar hvergi á Norðurlöndum, felur í sér eignarnám.

Andsnúið andrúmsloft

Punktar

Samfylkingin nær ekki fram aðild að Evrópusambandinu í náinni framtíð. Sjálfstæðisflokkurinn er jafn tregur og vinstri grænir. Geir Haarde vill tvöfalda atkvæðagreiðslu, fyrst umsókn, síðan um aðild. Samfylkingin getur því ekki boðið upp stjórnarsamstarf á grundvelli umsóknar um aðild. Hún verður að sætta sig við, að allt litrófið í pólitíkinni er andsnúið. Því verður niðurstaðan sú, að hún heldur áfram samstarfi við vinstri græna. Evrópusinnar verða að sætta sig við að hafa enn ekki selt þjóðinni hugmynd sína um aðild. Þjóðin samþykkir viðræður með semingi, en kolfellir aðild.

Stétt með stétt um helgina

Punktar

Fínustu bjánar landsins eru núna komnir saman á Landsfundi Flokksins. Þar heyra þeir vel þegnar kenningar um, að hrunið sé ekki leiðtogum þeirra og stefnu þeirra að kenna. Þar klappa þeir fyrir kúlufólki, sem skiptar efstu sæti á listum. Og mest fyrir nýjum formanni, sem er með silfurskeiðar úr munni og eyrum. Þar koma fátæklingar saman og fá að vera með yfirstéttinni um helgina, stétt með stétt. Þar er ákveðið, að hér eftir sem hingað til muni Flokkurinn nota atkvæði fábjánanna til að hlaða undir yfirstéttina: Leifar kolkrabbans, kvótagreifana, kúlufólkið, gæludýrin, Stétt með stétt.