Author Archive

Veruleikafirrt Ísland í dag

Punktar

Stöð 2 birti í gærkvöldi lofgerð um Björgólf Thor Björgólfsson í Íslandi í dag. Það er veruleikafirrtasta blaðamennska, sem ég hef séð í marga mánuði. Ljóst er orðið, að geislabaugurinn er horfinn af honum. Gjaldþrot ýmissa fyrirtækja hans munu valda börnum okkar og barnabörnum miklu tjóni. Frægast af því er IceSave. Af stað eru farnar rannsóknir, sem sýna sérkennileg eignatengsl og flutninga á fé til skattaparadísa. Ekki er rétti tíminn núna til að birta lofgerð um Björgólf Thor sex mánuðum eftir bankahrunið. Álit hans er gersamlega hrunið og rís örugglega ekki aftur næstu misseri.

Haftalög og viðurlög

Punktar

Meðan hér eru gjaldeyrishöft þurfa þau að virka. Það hafa þau alls ekki gert hingað til. Nú er búið að herða lögin, svo að þau virka kannski hér eftir. Mestu máli skiptir að beita viðurlögum. Annars taka menn ekkert mark á lögunum og halda áfram að fara kringum þau. Meira máli skiptir þó að afnema lögin sem allra fyrst. Út í hött er að hafa hér krónugengi, sem ekki er talið marktækt erlendis. Einhvern tíma verðum við að taka skellinn af gengislækkun. Betra er, að það gerist fyrr en síðar. Þangað til þurfum við þó að hafa haftalög, sem virka. Það gerist bara með því að beita viðurlögum.

Hávær kennitöluflakkari

Punktar

Nýlega las ég blaðaviðtal við einn frægasta kennitöluflakkara landsins. Hann rak prentsmiðju, sem fór ítrekað á hausinn. Með tilheyrandi harmleikjum meðal viðskiptavina. Alltaf reis hann aftur upp með sömu prentsmiðjuna og hóf sama leikinn að nýju. Allt á kostnað viðskiptavinanna. Nú er hann að missa húsið sitt. Hann rís upp á afturfæturna. Í viðtalinu heimtar hann opinberar aðgerðir til að bjarga húsinu sínu. Ef hann er orðinn helzta átrúnaðargoð Borgarahreyfingarinnar í kosningabaráttunni, er bezt að færa sig yfir á hina gangstéttina.

Draumur um gamlingjaskatt

Punktar

Vinstri grænir eru komnir á hálan ís í draumum um skatta á auðfólk. Að svo miklu leyti, sem skattarnir eru dregnir af tekjum auðfólks, eru þeir í lagi. Þannig er hátekjuskattur nothæfur og enn betri er þó hækkun skatts á eigna- og fjármagnstekjur. Hann þarf að samræma launatekjuskatti. Vafasamari eru hugmyndir vinstri grænna um eignaskatt. Hann leggst meira eða minna á eignir, sem vegna hrunsins eru verðlausar. Eigendur verðlausra eigna geta ekki einu sinni losað sig við þær. Margir þeirra eru gamlingjar, sem ekki geta borgað eignaskattinn. Það eru eignatekjurnar, sem á að miða við.

Óþarft að berja búsáhöld

Punktar

Búsáhaldabyltingin er búin. Hún heldur ekki lengur fundi og slær ekki lengur búsáhöld. Ný ríkisstjórn hefur leitt til lykta flest af stefnumálum hennar. Við losnuðum við vanhæfa ríkisstjórn, vanhæfan seðlabankastjóra og vanhæfan forstjóra fjármálaeftirlits. Við sáum samstöðu fjögurra flokka á þingi um persónukjör og stjórnlagaþing. Sú samstaða verður að lögum eftir kosningar, þegar vald Flokksins hefur minnkað. Nýja ríkisstjórnin hefur lagt fram ýmis þingmál, sem stuðla að velferð fólks í kreppu. Sum hafa verið samþykkt og önnur eru á lokastigi í afgreiðslu. Því þarf ekki lengur að berja búsáhöld.

Rykið á mælaborðinu

Punktar

Samson þeirra Björgólfsfeðga var sérkennilegt fyrirtæki, sem nú er komið á hausinn. Átti til dæmis Moggann. Bókhald þess reyndist vera lítið og lélegt, næsti bær við rykið á mælaborði bíls Bensa á Vallá. Samt hefur komið í ljós flutningur á 580 milljónum króna til grínfélagsins Global Invest á Tortola. Skiptastjórinn er í vandræðum, endurskoðandinn svarar engum spurningum. Eignir félagsins eru verðlausir hlutir í öðrum fyrirtækjum Björgólfsfeðga. Þær eru partur af sjónhverfingavél, sem átti að gera þeim kleift að ná í fé án þess að borga neitt. Gjaldþrot Samsons eins nemur 90 milljörðum króna.

Bent á bankastjórana

Punktar

Samkvæmt Kaarlo Jännäri bankasérfræðingi voru lög um fjármál nokkurn veginn í lagi hér á landi. Í úttekt hans á peningamálum landsins segir, að vandinn hafi fremur falizt í skorti á aðhaldsverkfærum hjá fjármálaeftirliti. Mesta ábyrgð á hruninu beri stjórnendur bankanna. Samkvæmt því á að vera hægt að sækja þá til saka fyrir lögleysu. Næstmesta ábyrgð beri slæm stefna hinnar vanhæfu ríkisstjórnar Geirs Haarde. Eins og flestir aðrir ráðgjafar mælir Jännäri með evru og aðild að Evrópusambandinu. Skýrsla hans var unnin að tillögu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, svo að taka verður henni með varúð.

Samfélagið skrimtir enn

Punktar

Hálft ár er liðið frá hruninu, þar af fjórir mánuðir undir vanhæfri stjórn. Mesta furða er, að enn skuli samfélagið skrimta. Bankar eru opnir, plast er enn gildur gjaldmiðill. Sárafáar fjölskyldur eru formlega komnar á hausinn. Gjaldþrot fyrirtækja eru sárafá fyrir utan byggingaðinað. Sá atvinnuvegur hefur löngum verið sveiflukenndur. Meðalfyrirtækið er einn meistari með nokkrum samstarfsmönnum, sem koma og fara. Á yfirborðinu er hér allt með felldu. Við vitum, að margt er skrítið, en sum okkar höfum áður lifað við tvöfalt gengi. Undir niðri krauma vandræðin, en kaffi er enn á Segafredo.

Fé og landstjóri Óvinarins

Punktar

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn vill koma okkur í Evrópusambandið. Hann vill, að við einkavæðum auðlindir ríkisins til að létta á skuldum okkar. Hann vildi á sínum tíma, að Chile seldi vatnsréttindi landsins. Það leiddi til hörmunga, sem ekki eru enn yfirstignar. Við skulum gera okkur grein fyrir, að þessi illræmdi sjóður er engin góðgerðastofnun. Hann er stofnaður til að liðka fyrir hnattvæðingu. Hann styður einkavæðingu frá vatni yfir í heilsugæzlu. Í rauninni er hann Óvinurinn sjálfur, þótt hann komi til landsins með fullar hendur fjár. Hann er líka með varhugaverðan landstjóra í farteskinu.

Fáránleg forgangsröð

Punktar

Við höfum góða yfirsýn yfir tjónið, sem varð, þegar innlend verðmæti voru ryksuguð til að borga villtar fjárfestingar erlendis. Við vitum, að sjóðir fólksins, lífeyrissjóðirnir, töpuðu tugum milljarða. Við vitum, að ríkið hefur enga burði til að bæta tjón eigenda fjármagns. Þess vegna skiljum við enn síður en áður, hvers vegna vanhæfa ríkisstjórnin dró að landi sjóð níu í Glitni. Hvers vegna hún dró að landi peningamarkaðssjóðina. Við skiljum ekki heldur, hvers vegna fjármálaráðuneytið dregur núna tvo banka að landi. Allt þetta er fáránlegt í ríki, sem þarf að hafa fé til að gæta hagsmuna alþýðu.

Frjálshyggnir í hægindastólum

Punktar

Kíkið í vagninn, sem Jóhanna Sigurðardóttir dregur. Þar raða sér í beztu hægindastólana drengir á borð við Árna, Björgvin og Dag. Ætla að láta Jóhönnu draga sig áfram í pólitíkinni. Biðjast ekki afsökunar á Blair-isma sínum, frjálshyggunni. Samfylkingin hefur ekki beðizt afsökunar á Blair-isma sínum. Ingibjörg Sólrún skreytti létt, er hún kenndi Sjálfstæðisflokknum um allt svínaríið. Í rauninni var Samfylkingin ekki minni frjálshyggjuflokkur. Í stað þess að gera upp fortíðina hafa drengirnir komið sér þægilega fyrir í vagninum. Reikna með, að heilög Jóhanna dragi þá í land í kosningunum.

Undarlegur félagsskapur

Punktar

Hver vill vera í félagi, þar sem endurskoðendur neita árum saman að undirrita ársreikninga? Hver vill vera í félagi, þar sem kjörnir fulltrúar eru næsta valdalausir, mega ekki einu sinni semja frumvörp? Hver vill vera í félagi, þar sem embættismenn einir mega semja lagafrumvörp? Hver vill vera í félagi, þar sem embættismenn flytjast yfir í þrýstihópa að starfi loknu? Hver vill vera í félagi, þar sem leikreglur lýðræðis eru í miklum mínus? Hver vill vera í félagi, sem kjósendur hafa nánast engan áhuga á? Þið hafið vafalaust komizt að raun um, að ég er að tala um Evrópusambandið.

Berjið í borð landstjórans

Punktar

Mér finnst tvöfalt gengi á krónunni ekki geta gengið lengur. Eitt gengi hér innanlands og annað úti í Evrópu. Mér finnst ekki geta gengið lengur, að erlendur gjaldeyrir komi ekki í Seðlabankann, þrátt fyrir mikinn útflutning. Mér finnast dauðrotunarvextir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins ekki geta gengið lengur. Þeir eru ættaðir frá sértrúarsöfnuði, sem ræður sjóðnum, en á sér ekki hagfræðilegar forsendur. Enn einu sinni er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn að setja samfélag á hausinn með umdeildum lækningum. Ríkisstjórnin þarf að berja í borð landstjórans, fá höftin afnumin og stýrivextina stórlækkaða.

Útlendingahatur stofnunar

Punktar

Ragna Árnadóttir tekur betur á málum innflytjenda en Björn Bjarnason forveri gerði. Þegar mótmælendur komu í garð hennar, opnaði hún gluggann og talaði við þá. Bauð þeim að koma í ráðuneytið, sem þeir gerðu. Þeir sögðu henni það, sem ég hef löngum sagt. Útlendingastofnun er sjúk stofnun, hefur ætið haft forstjóra, sem hata útlendinga eins og pestina. Ég vil leggja hana niður. Þar eru tugir lögfræðinga, sem gera ekki neitt. Útlendingastofnun verður ekki læknuð, hún verður bara afsköffuð. Ófært er að útlendingum sé sinnt af stofnun, sem stjórnast af sjúku hatri á vegalausum útlendingum.

Hætti við stökkið af brúninni

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er frosinn. Hann flýtti landsfundi ekki bara til að fá sér nýjan formann. Tækifærið átti að nota til að taka upp nýja Evrópustefnu. Sérstök nefnd átti að kortleggja þetta ferli og leggja fyrir landsfundinn. Forustumenn í flokknum fóru að tala vel um Evrópu í janúar. Skemmst er frá því að segja, að þetta tókst ekki. Nefndin treysti sér ekki til að mæla með Evrópu við flokkinn. Flokksmenn voru almennt taldir neikvæðir. Forustumenn hættu rétt fyrir landsfund að tala hlýlega um Evrópu. Niðurstaðan var, að landsfundurinn ítrekaði forna andstöðu Sjálfstæðisflokksins við sambandið.