Author Archive

Eigin gæfu smiður

Greinar

Enn má draga í efa, að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé í samræmi við stjórnarskrá Íslands, þótt fjórir hæfir lögmenn hafi í álitsgerð fyrir utanríkisráðuneytið komizt að raun um, að svo sé. Tveir aðrir hæfir lögmenn hafa komizt að allt annarri niðurstöðu.

Álitsgerðin nýja styrkir þá skoðun, að óhætt sé að láta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið fara hefðbundna lagaleið á Alþingi, þar sem einfaldur meirihluti ræður, fremur en stjórnarskrárleið, þar sem þarf aukinn meirihluta, sem ekki er víst að ríkisstjórnin nái.

Ríkisstjórnin telur álit fjórmenninganna nógu skýrt til að gera sér kleift að halda óbreyttri stefnu og fá samninginn staðfestan með einföldum meirihluta á komandi sumarþingi, þótt komið hafi í ljós, að álitið hefur ekki eytt efasemdum í röðum áhrifamikilla stjórnarsinna.

Skiljanlegt er, að ríkisstjórnin vilji í lengstu lög forðast að þurfa að afla nægilegs meirihluta á Alþingi, til að hægt sé að afgreiða málið sem stjórnarskráratriði. Menn vilja ekki taka óþarfa áhættu, ef þeir geta túlkað mál á þægilegri veg, sem liggur að öruggri niðurstöðu.

Með einfaldri lausn taka menn á sig varanlegar efasemdir og varanlegt ósætti í þjóðfélaginu. Andstæðingar samningsins munu áfram halda því fram, að hann sé stjórnarskrárbrot og þess vegna ógildur. Ódýr niðurstaða í málinu getur því reynzt ófullnægjandi lausn.

Bent hefur verið á, að eðlilegt sé, að þjóðin fái sjálf að velja niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin vill ekki heyra á það minnzt, af því að hún veit ekki fyrirfram um niðurstöðuna. Hún hafnar öllum leiðum, þar sem hún hefur ekki vald á niðurstöðunni.

Rétt er, að þjóðin hefur ekki sett sig mikið inn í samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og margir rugla honum saman við Evrópusamfélagið. En af kjallaragreinum í dagblöðum má þó ráða, að fjöldi manna hefur reynt að setja sig af sæmilegu viti inn í málið.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er einmitt það, sem Íslendinga vantar til að knýja sig til að skoða málið betur og gera sér grein fyrir innihaldi þess, án þess að því sé ruglað saman við önnur og viðameiri mál. Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur pólitískt uppeldis- og meðvitundargildi.

Danir fóru þessa leið í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá Evrópusamfélagsins. Viðurkennt er, að í tilefni þessa settu Danir sig mun betur inn í Maastricht-stjórnarskrána en nokkur önnur þjóð í Evrópusamfélaginu. Þeir urðu að taka málið alvarlega.

Danir felldu nýja stjórnarskrá Evrópusamfélagsins að athuguðu máli. Eins gæti farið hér á landi, að Íslendingar felldu samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að athuguðu máli. Um það er ekkert hægt að segja fyrirfram. Það er venjuleg áhætta, sem fylgir lýðræði.

Ef samningurinn félli í þjóðaratkvæðagreiðslu, er líklegt, að það stafaði af, að þjóðin hefði annað verðmætamat en þeir, sem ýtt hafa málinu áfram. Það gæti einfaldlega stafað af, að þjóðin hefði betri sýn yfir, hvað sé heppilegast fyrir sig. Það væri þá góð niðurstaða.

Ef samningurinn stæðist hins vegar þessa prófraun, er þjóðin betur en ella í stakk búin til að takast á við ögrunina, sem felst í nánara sambandi við Vestur- Evrópu. Það væri líka góð niðurstaða, af því að þjóðin hefur í því tilviki einnig verið sinnar gæfu smiður.

Meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu stórmáli einkennist af, að hún er í eðli sínu veik og getur ekki hugsað sér að missa tök á málinu í hendur þjóðarinnar allrar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hugsjónir í hrærigraut

Greinar

Með aðstoð barna gróðursetur forseti Íslands tré á ferðum sínum um landið. Þessi athöfn er orðin táknræn fyrir forsetaembættið, eins konar helgisiður. Hún kemur þeirri hugmynd á framfæri við börn og fullorðna, að skógrækt flytji þjóðina inn í framtíðina.

Þessi skilaboð renna inn í safn misvísandi upplýsinga um stöðu og stefnu okkar í skógrækt, landgræðslu og náttúruvernd. Á sama tíma er hópur landgræðslufólks önnum kafinn við að rífa lúpínu í þjóðgarði Skaftafells. Og Mývetningar slá skjaldborg um beit á eyðisandi.

Fyrir allmörgum áratugum sáu menn Ísland fyrir sér sem landbúnaðarland með rennisléttum túnum upp í miðjar hlíðar. Grafnir voru skurðir út og suður til að eyðileggja mýrar, sem menn sakna nú. Farið er tala um, að moka þurfi niður í þessa skurði til að vernda land.

Landþurrkun er ekki lengur talin göfug, heldur bein árás á lífríki landsins, meira að segja án nokkurs efnahagslegs tilgangs, því að þjóðin þarf ekki á öllum sínum túnum að halda. Verðmætamatið breytist svo snöggt, að menn vita ekki, hvaðan á sig stendur veðrið.

Til skamms tíma fögnuðu menn lúpínu sem harðgerðri jurt, er legði undir sig sanda og mela, breytti yfirborði þeirra í jarðveg og léti síðan öðrum jurtum eftir landið. Í þessu skyni hefur lúpínu verið plantað víða á skógræktarsvæðum, svo sem í Skaftafelli.

Nú er kominn upp sá flötur, að þetta sé ekki svona einfalt. Lúpínan eigi það til að ráðast á annan gróður og kaffæra hann. Ennfremur gefi hún stundum ekki eftir fyrir gróðri, sem eigi að einkenna staðinn. Allt í einu er í náttúruverndarskyni farið að rífa lúpínu.

Til skamms tíma notaði skógræktin verndarsvæði sín miskunnarlaust sem skjólgarða fyrir barrtré. Nú er komið í ljós, að margir telja eðlilegt að rífa þessi barrtré svo að náttúrulegir birkirunnar svæðisins geti betur notið sín. Áratuga skógrækt er afskrifuð sem skaðleg.

Landgræðsla hefur áratugum saman haft það verkefni að breyta svörtu í grænt. Uppblástursland er girt og friðað, sáð í það fræjum og áburði. Nú vilja sumir fara að vernda sandinn fyrir landgræðslunni, meðal annars vegna þess, að ferðamenn vilji heldur sjá sand!

Menn vita ekki lengur, við hvað eigi að miða í umhverfismálum landsins. Á að rækta það eða á að varðveita það í einhverju fyrra ástandi og þá í hvaða? Á að miða við síðustu aldamót eða upphaf landnámsaldar, þegar land allt var viði vaxið milli fjalls og fjöru?

Nefndir, ráð og bændur í Mývatnssveit standa í moldroki að rekstri sauðfjár á eyðisanda gegn eindregnum andmælum Landgræðslu ríkisins, sem lengi hefur tekið bændur silkihönzkum. Nú segir hún þennan afrétt ekki þola neina beit, hvorki nú né í náinni framtíð.

Hinir mývetnsku landeyðingarmenn eru staffírugir og hóta andmælendum sínum meiðyrðamálum. Þeir eru í rauninni að verja afar skammsýna stundarhagsmuni, því að almennt ætti að vera í langtímaþágu bænda, að gróður fari vaxandi í úthögum þeirra og afréttum.

Meðan mývetnskir landeyðingarmenn berjast um með rollur sínar í moldrokinu, er eyðisandurinn kominn að jaðri Dimmuborga og hótar að kaffæra náttúruundrið. Hvar er sá vandi í röð á óskalista þeirra, sem settir eru til að hugsa fyrir okkur um mál af þessu tagi?

Þjóðin þarf að ákveða, hvað skuli snúa upp og hvað niður í skógrækt, landgræðslu, landvernd og náttúruvernd, svo að hugur fylgi máli í opinberum helgisiðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi gengi dagblaða

Greinar

Lestur dagblaða eykst, þrátt fyrir aukið framboð dægrastyttingar í fjölmiðlaformi. Um nokkurt skeið hafa fjölmiðlakannanir sýnt aukinn lestur DV og Morgunblaðsins. Nú síðast hefur Gallup skráð marktæka aukningu á tímabilinu frá marz til júní á þessu ári.

Ef miðað er við vikulegan lestur, hefur hann aukizt úr 72% í 77% hjá DV á þessu þriggja mánaða tímabili og úr 73% í 75% hjá Morgunblaðinu. Hliðstæð aukning kemur fram í daglegum lestri og í lestri yfir lengri tímabil, svo sem heilan mánuð, þrjá mánuði og heilt ár.

Þessar tölur sýna, að stóru dagblöðin tvö ná miklu betur til þjóðarinnar en þekkist hjá allra stærstu dagblöðum í öðrum fullvalda ríkjum. Eflaust ræður fækkun lítilla dagblaða og samdráttur í útgerð þeirra einhverju um bætta stöðu stóru blaðanna tveggja hér á landi.

Jafnvægi í lestri blaðanna batnar í sífellu. DV er nú komið yfir í mælingu Gallups á árlegum, mánaðarlegum og vikulegum lestri, en Morgunblaðið er enn hærra í daglegum lestri. Munur þessara mælinga byggist á, að lesendahópur DV er breytilegri en Morgunblaðsins.

Fréttirnar eru það, sem mest er lesið í dagblöðunum, enda eru þær veigamesti þáttur efnis þeirra. Á hverjum degi les helmingur þjóðarinnar eitthvað í fréttum Morgunblaðsins og einnig helmingur þjóðarinnar eitthvað í fréttum DV. Þetta eru mest notuðu fréttamiðlarnir.

Fréttirnar eru líka það, sem mest er notað í ljósvakamiðlunum. Um 39% sjá að jafnaði eitthvað úr fréttum ríkissjónvarpsins, 30% úr fréttum Stöðvar 2, 35% úr hádegisfréttum útvarps og 24% úr kvöldfréttum þess. Þetta sýnir minni útbreiðslu en frétta dagblaðanna.

Innan ljósvakaheimsins hefur vegur útvarps farið vaxandi að undanförnu, en sjónvarpsins dalað, einkum vegna minni notkunar á ríkissjónvarpinu. Allt stefnir þetta að traustu jafnvægi í samkeppni tveggja dagblaða, tveggja sjónvarpsrása og þriggja-fjögurra útvarpsrása.

Fyrir nokkrum árum var spáð, að meira eða minna svarthvít dagblöð mundu falla í skugga litskrúðugra ljósvakamiðla, samfara mikilli útbreiðslu í notkun myndbanda og umtalsverðri grósku í stofnun nýrra útvarpsstöðva. Hið þveröfuga hefur í rauninni gerzt.

Fólk veit um ótvíræða kosti prentaðra dagblaða. Lesendur geta gripið þau, þegar þeim sýnist, og eru ekki háðir skeiðklukku ljósvakamiðlanna. Lesendur geta lesið blöðin afturábak eða áfram eða á hvern þann hátt, sem þeim sýnist, og eru ekki háðir fastri dagskrá.

Ekki skiptir minna máli, að lesendur geta staðnæmzt við það efni eða þá auglýsingu í dagblaði, sem höfðar til þeirra, og gefið sér góðan tíma til rækilegs lestrar. Þeir eru ekki háðir hraðanum, sem þeytir efni og auglýsingum inn og út af sjónvarpsskjá og útvarpshátalara.

Lesendur dagblaða hafa miklu meira valfrelsi í notkun þessara fjölmiðla en áhorfendur sjónvarps og hlustendur útvarps hafa í notkun sinna fjölmiðla. Þessi mikli munur skiptir ekki minna máli nú á dögum en hann gerði, þegar ljósvakamiðlar ruddu sér til rúms.

Velgengni stóru blaðanna má ennfremur rekja að nokkru til þess, að þau hafa mætt nýjum tímum með margvíslegum breytingum á efnisvali og efnismeðferð. Ef menn fletta DV eða Morgunblaðinu frá því fyrir tíu árum, velkjast þeir ekki í vafa um breytingarnar.

Dagblöðin hagnast á þessu, en mest þó lesendur þeirra, sem fá nú miklu betri og aðgengilegri dagblöð en þeir fengu áður fyrir sama raungildi peninganna.

Jónas Kristjánsson

DV

Yndislega ókleift

Greinar

Yfirstétt Íslands hefur komizt að þeirri þægilegu niðurstöðu, að ekki sé hægt að koma í veg fyrir, að hún taki hækkuð laun í samræmi við úrskurð Kjaradóms. Einungis sé hægt að reyna að koma með nýjum lögum í veg fyrir, að slíkir atburðir endurtaki sig.

Þessu fagna yfirstéttarmenn með sjálfum sér um leið og þeir segjast harma niðurstöðuna. Úrskurður Kjaradóms verður látinn gilda, en næsta þing mun ef til vill setja skorður við, að stéttaskipting geti aukizt enn frekar fyrir atbeina yfirstéttarmanna í Kjaradómi.

Yfirstéttin hefur sterk rök fyrir málstað sínum. Hún getur ekki sett bráðabirgðalög, af því að ekki má lengur fara eins frjálslega með það vopn og áður tíðkaðist. Og hún getur ekki tekið nýfengið kaup af mönnum, af því að þeir geta kært slíkt til mannréttindadómstóls.

Þingmenn stjórnarflokkanna eru um þessar mundir að sannfæra sjálfa sig á fundum sínum um, að almenningur sé æstur út af máli þessu af því að hann skilji ekki eðli þess. Smám saman muni menn átta sig á, að úrskurður Kjaradóms hafi verið efnislega réttur.

Þetta er stöðluð útskýring á andstöðu fólks við ýmis mál, svo sem Evrópusamfélagið og Evrópska efnahagssvæðið. Ef fólk er andvígt slíkum fyrirbærum, er það túlkað sem vanþekking. Hið sama er nú að gerast í svörun yfirstéttarinnar við andúð almennings á dóminum.

Yfirstéttin er smám saman að losna úr sambandi við þjóðina og kjör hennar. Forseti Alþingis sagðist í viðtali við DV ekki hafa efni á að afþakka tvöföldun launa sinna. Yfirstéttin reiknar þarfir sínar með öðrum og stærri mælikvarða en almenningur neyðist til að gera.

Yfirstéttin telur sig þurfa að nota alla þá peninga, sem hún nær höndum yfir, þótt almenningur verði að sæta áföllum út af versnandi þjóðarhag. Yfirstéttin veit, að fólk getur svo sem ekkert gert í þessu, nema að bölsótast í skamman tíma, meðan málið er að fjara út.

Yfirstéttin var búin að bæta hag sinn vel, áður en Kjaradómur bætti um betur. Hún bætti kjör sín á fjórum árum, 1986-1990, úr 5,5-földum almenningslaunum í 7,2-föld almenningslaun. Hún þarf ekki lengur að deila kjörum með þjóðinni og er á hraðferð upp í peningaskýin.

Ef peningagjáin milli yfirstéttar og almennings hefði ekki breikkað svona á þessum fjórum árum, gæti lægri tekjuhelmingur þjóðarinnar haft 18% hærri tekjur í dag en hann hefur í raun. Á erfiðum tíma hafa tekjur verið fluttar frá hinum lægra settu til hinna hærra settu.

Ráðherrar hafa forustu í gegndarlausri græðgi, sem lýsir sér í ferðahvetjandi dagpeninga- og greiðslukerfi í utanferðum þeirra; í fjölbreyttri misnotkun ríkisfjár í flokksþágu og einkaþágu; og í sérstakri skattameðferð hlunninda framhjá lögum og reglum, sem gilda um aðra.

Brenglað siðferði síast út frá toppnum til yfirstéttarinnar í heild, svo sem til fyrirmanna í ráðuneytum, alþingismanna, bankastjóra, stjórnarmanna í opinberum sjóðum og gjaldþrotsfyrirtækjum, ráðgjafa af ýmsu tagi og sérfræðinga í stofnunum á borð við Kjaradóm.

Jafnframt tekur yfirstéttin ekki á sig neina ábyrgð af gegndarlausri brennslu verðmæta í sjóðum og bönkum, sem þeir stjórna; í stórfyrirtækjum, sem þeir reka á kostnað hins opinbera; og í heilum atvinnuvegum, sem að þeirra frumkvæði eru kostaðir af almannafé.

Stundarvanda út af nýföllnum kjaradómi mun yfirstéttin leysa á hefðbundinn hátt með því að fresta honum, unz þjóðin hefur snúið sér að öðrum áhugaefnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðaratkvæðagreiðsla

Greinar

Forráðamenn þjóða eiga ekki að aka hraðar en umbjóðendur þeirra í átt til stjórnmálasamstarfs við aðrar þjóðir og til afsals á hluta fullveldis. Þess vegna er skynsamlegt að efna á þessu ári til þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu.

Skoðanakannanir benda til, að hér á landi sé ekki mikill stuðningur við aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Ef hinum spurðu er sérstaklega bent á, að þetta fyrirbæri sé annað en Evrópusamfélagið, næst um helmings stuðningur við efnahagssvæðið, annars minni.

Þjóðaratkvæðagreiðsla um Evrópska efnahagssvæðið mun auka þekkingu manna á þessum fyrirbærum. Fleiri munu átta sig á, að efnahagssvæðið er fyrst og fremst svæði frjálsra viðskipta, en Evrópusamfélagið stefnir að sameiningu Evrópu í eins konar yfirríki.

Málið er að vísu ekki svona einfalt. Evrópska efnahagssvæðið er ekki bara frjáls markaður, heldur felur einnig í sér þvingun til samstarfs um lög og reglugerðir, svo og framsal á málamyndakvóta til karfaveiða. Slík atriði kunna að fela í sér stjórnarskrárbrot.

Einnig skiptir máli, að umdeildir eru nokkrir þættir hins frjálsa markaðar, einkum aukið atvinnufrelsi útlendinga og aukið frelsi þeirra til kaupa á fyrirtækjum, mannvirkjum og landi, svo sem jörðum. Margir eru ekki sáttir við frjálsan markað á þessum sviðum.

Ef hægt verður í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu að koma af stað aukinni umræðu um þessi mál, sumpart vitrænni umræðu, getur það leitt til þess, að menn greini skarpar milli Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusamfélagsins og sætti sig betur við hið fyrra.

Við sjáum, að það var óheillaráð að draga Tékka og Slóvaka inn í sameiginlegt ríki. Enn ógæfulegra var að draga margar Balkanþjóðir inn í eina Júgóslavíu. Í slíkum málum ber forráðamönnum skylda til að leita ráða hjá umbjóðendum sínum, það er kjósendum í landinu.

Danir fóru rétta leið, þegar þeir efndu til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja Maastricht-stjórnarskrá fyrir Evrópusamfélagið, sem gengur lengra en hin fyrri Rómar-stjórnarskrá þess. Þeir tryggðu, að ekki yrði gengið lengra en almenningur í landinu gat sætt sig við.

Niðurstaðan var ekki aðeins sú, að Danir höfnuðu frekari samruna. Einnig kom í ljós, að upp risu öfl í öðrum ríkjum Evrópusamfélagsins, svo sem í Bretlandi og Þýzkalandi, og lýstu efasemdum um, að fyrirhugaður samruni Evrópu væri í þágu einstakra þjóða álfunnar.

Sameining Evrópu er mál fámennrar yfirstéttar ráðherra og mandarína, sem hafa verið að efla skrifræði í Bruxelles, undir forustu miðstýringarsinnans Jacques Delors. Efagjarn almenningur er meira eða minna ókunnugur þessu bralli hinnar evrópsku yfirstéttar.

Við eigum að forðast slík vandamál. Landsfeður eiga hvorki að semja um hugsanleg stjórnarskrárbrot, það er framsal fullveldis til útlendra stofnana, né semja um markaðsfrelsi, er margir túlka sem framsal fullveldis, nema leita ráða almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mikilvægt er, að trúnaður haldist og að ráðamenn fái skýrt umboð til að undirrita samkomulag um evrópskt efnahagssvæði. Það gerist með nýrri umræðu, þar sem meirihluti kjósenda sannfærist um, að efnahagssvæðið sé okkur gagnlegt og sé annað en Evrópusamfélagið.

Íslendingum mun reynast bezt að taka strax hina lýðræðislegu áhættu með því að afgreiða í þjóðaratkvæðagreiðslu þetta jaðarmál stjórnarskrárinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir geta “óskað eftir”

Greinar

Þegar utanríkisráðherra og aðstoðarmaður hans héldu blaðamannafund til að monta sig af, að til greina kæmi fyrr eða síðar að stofna fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli, gættu þeir þess að gleyma því, að þeir hafa nýlega beinlínis lagt steina í götu þess.

Um síðustu áramót samdi utanríkisráðuneytið við Flugleiðir um framhald á einokun þess gæludýrs á afgreiðslu vöruflugs á Keflavíkurflugvelli. Talsmaður Flugleiða var að vonum ánægður og sagði, að nýi samningurinn væri á svipuðum nótum og fyrri samningur.

Sjálfur samningurinn var þá leyniplagg, en aðstoðarmaður utanríkisráðherra var nógu forhertur til að kvarta yfir, að leiðarahöfundar kynntu sér ekki efni hans, áður en þeir gagnrýndu hann. Í vor höfðu nokkrir þingmenn svo fram, að plaggið var gert opinbert.

Þá kom í ljós, að maður ráðherrans hafði í skjóli leyndarinnar farið rangt með efni einokunarsamningsins. Ráðuneytið gat ekki einhliða sagt honum upp, heldur gat það beðið um endurskoðun, ef fríiðnaðarsvæði yrði stofnað, en Flugleiðir gátu hafnað endurskoðun.

Orðrétt segir: “Utanríkisráðuneytið getur óskað eftir, að samningsákvæði um afgreiðslu fragtvéla verði tekið til endurskoðunar, hvenær sem er á samningstímanum, ef ætla má, að umtalsverðar breytingar verði á fragtflutningum til og frá Keflavíkurflugvelli að mati ráðuneytisins, m.a. í tengslum við iðnaðarsvæði.”

Þegar einokunin var framlengd, sagði DV í leiðurum, að afnám þessarar einokunar á afgreiðslu vöruflugs væri forsenda þess, að unnt væri að byggja upp útflutning á verðmætum fiskafurðum í flugi og að unnt væri að byggja upp fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli.

Lögmál viðskipta og efnahagslíf eru ekki þannig vaxin, að fyrst sé byggður upp útflutningur á verðmætum fiskafurðum og skipulagt fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli, heldur verður fyrst að skapa forsendurnar með því að leggja niður afgreiðslueinokunina.

Utanríkisráðherra og aðstoðarmaður hans geta því ekki montað sig af að hafa undirbúið jarðveginn fyrir fríiðnaðarsvæði á Keflavíkurflugvelli. Þeir hafa þvert á móti lagt svo stóra steina í götu þess svæðis, að ekki verður hægt að vinna af alvöru í málinu í fjögur ár.

Þetta gerðu þeir félagar einmitt á þeim tíma, er þjóðin var að sigla í efnahagslega kreppu af völdum ofveiði á þorski. Þetta gerðu þeir, þegar brýnt var orðið að auka hlutfall á útflutningi ferskra og nýstárlegra sjávarafurða á háu verði til fjarlægra landa, svo sem Japans.

Vegna einokunarsamningsins getum við ekki heldur nýtt okkur legu landsins og aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu. Við getum engan veginn freistað japanskra og bandarískra fyrirtækja til að koma hér upp vinnslu- og dreifingarmiðstöðvum fyrir Evrópumarkað.

Einokunarsaga vöruafgreiðslu Keflavíkurflugvallar er samfelld harmsaga. Gæludýr ríkisins hefur misnotað aðstöðuna til að hrekja á brott hvert vöruflutningafélagið á fætur öðru: Flying Tigers, Pan American og Federal Express. Samt var einokunin framlengd í vetur.

Utanríkisráðuneytið hefur ekki aðeins lagt þessa þungu steina í veg eðlilegrar atvinnuþróunar í landinu til að geðjast gæludýri ríkisins, heldur hefur það látið undir höfuð leggjast að undirbúa frumvörp að ramma að rekstrarumhverfi fyrirtækja á fríiðnaðarsvæði.

Utanríkisráðherra og aðstoðarmaðurinn hafa montað sig af máli, sem er þeim í rauninni til vansæmdar.

Jónas Kristjánsson

DV

Nenna enn að rífast

Greinar

Svo virðist sem margir telji skipta máli að vera í Alþýðuflokknum og taka virkan þátt í störfum hans. Mikil átök um málefni einkenndu flokksþing hans um síðustu helgi, en helztu forustumenn hinna ólíku sjónarmiða síðan kosnir til óbreyttra trúnaðarstarfa.

Svo mikill var ágreiningurinn, að um tíma þurfti að stöðva þinghald meðan samningafundir stóðu yfir í hliðarsölum, og í annan tíma stóð til að loka þinginu í einn dag fyrir fjölmiðlum. Allt fór þó á þann veg, að menn greiddu hver öðrum atkvæði í rússneskri kosningu.

Málefnaágreiningurinn þarf ekki að skaða flokkinn neitt. Jafnvel er hugsanlegt, að hann dragi athygli að flokknum sem hugmyndafræðilegum skurðpunkti í stjórnmálasögu síðustu ára, þar sem tekist er á um mikilvæg atriði á borð við umfang velferðarkerfisins.

Að vísu verður að vara við að meta málefni of mikils. Stjórnmál snúast miklu fremur um menn og völd, þar sem málefnum er teflt fram og aftur. Að loknum flokksþingum setjast menn í ráðherrastóla, fara að reikna dagpeninga sína og finna vinum sínum stöður.

Samt er ljóst, að burðarlið Alþýðuflokksins hefur metið málefni nógu mikils til að nenna að rífast um þau á flokksþingi. Það er merki þess, að menn reikni með, að þeim verði ekki stungið undir stól milli málþinga, þótt ótal dæmi séu einmitt um þau örlög málefna.

Í stórum dráttum tók Alþýðuflokkurinn mælanlega sveigju í átt frá velferðarstefnu til hagfræðihyggju. Hann sætti sig við atlögu ríkisstjórnarinnar að miklum kostnaði í heilbrigðis- og menntamálum og fól henni, með fyrirvörum þó, að halda áfram á sömu braut.

Hagfræðihyggja flokksins er enn mjög óskýr. Engin marktæk niðurstaða fékkst í sjávarútvegsmálum. Í þess stað var endurtekin gömul hómilía um, að banna þurfi útflutning á ferskum og dýrum fiski til að efla atvinnubótavinnu við framleiðslu á ódýrri og frystri fangafæðu.

Ekki komu fram nein merki þess, að Alþýðuflokkurinn hyggist taka á tuttugu milljarða árlegum kostnaði við hefðbundinn landbúnað. Hann neitar sér og þjóðinni um sparnað til að vega á móti tólf milljarða þorsktjóni og átta milljarða fjárþörf til velferðar.

Ekki þarf að hrósa Alþýðuflokknum fyrir þau málefni, sem urðu ofan á eða biðu lægri hlut á flokksþinginu. Hér er aðeins verið að hrósa honum fyrir að rífast yfirleitt um málefni á tímabili stjórnmálasögunnar, sem einkennist fremur af öðru, baráttu um menn og völd.

Jónarnir voru sigurvegarar þingsins. Þeir notuðu fréttir af milljarða niðurskurði þorskveiða til að auðkenna tillögur Jóhönnu um milljarða aukningu velferðar sem tímaskekkju. Í hnotskurn má lýsa þinginu á þann hátt, að þar hafi Jónar lamið Jóhönnu með þorski.

En Jóhanna Sigurðardóttir mun áfram verða í stjórnarandstöðu í ríkisstjórninni. Hún mun halda áfram að verja sín málefni með klóm og kjafti og vera afskiptalaus um önnur mál. Hennar stíll mun áfram vera annar en hinna ráðherranna, án flottra bíla og stöðutákna.

Að öðru leyti hafa ráðherrar Alþýðuflokksins fengið heimild flokksþingsins til að halda áfram stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún mun mæta áföllum með því að ganga í evrópskt efnahagssvæði og með því að auka enn bilið milli ríkra og fátækra, en ekki skera upp efnahagslífið.

Merkilegast er, að rúmlega hundrað manns skuli telja mikilvægt að verja rúmlega heilli helgi til að takast siðmenningarlega á með nokkrum tilþrifum um málefni.

Jónas Kristjánsson

DV

Þvert nei

Greinar

Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra hefur tekið ábyrga afstöðu gagnvart tillögum um mikla minnkun þorskafla. Í sjómannadagsræðunni sagði hann afdráttarlaust, að ekki kæmi til greina annað en að gefa þorskstofninum tækifæri til að byggja sig upp að nýju.

Ráðherrann tók sérstaklega fram, að ekki væri nóg að miða við óbreytt ástand, heldur yrði að haga aflamagni þannig, að þorskurinn ykist í sjónum. Með þessu var hann að segja, að ekki yrði veittur neinn afsláttur frá sjónarmiðum fræðimanna um samdrátt aflans.

Búast má við, að niðurstaða Hafrannsóknastofnunarinnar og hins erlenda sérfræðings, sem ráðinn hefur verið til að meta hana, verði í sömu átt og ráðgjafanefndar Alþjóða hafrannsóknaráðsins, sem lagði til, að þorskafli yrði skorinn niður um 40% á næsta veiðiári.

Freistandi hefði verið fyrir sjávarútvegsráðherra að fara að fordæmi margra fyrirrennara sinna, sem voru veikir fyrir hagsmunum andartaksins. Meðal þeirra er flokksbróðir ráðherrans, Matthías Bjarnason, sem nú hefur lagt til, að þorskaflinn verði ekki minnkaður.

Aðrir frægir sjávarútvegsráðherrar voru Lúðvík Jósepsson og Steingrímur Hermannsson, sem stuðluðu eindregið að óhæfilegri fjölgun fiskiskipa, með þeim afleiðingum, að saman fór hnignun fiskistofna og arðminni veiði með versnandi afkomu sjómanna og útvegsmanna.

Það var ekki fyrr en með Halldóri Ásgrímssyni að sjávarútvegsráðherra fór að standa gegn skammtímasjónarmiðum þrýstihópa. Halldór náði þó ekki fullum árangri, því að hann var mjög gefinn fyrir niðurstöður, sem hægt væri að þræla öllum til að sætta sig við.

Sáttastefna Halldórs leiddi til, að flest ár var leyft að veiða nokkru meira magn en fiskifræðingar höfðu lagt til. Af því súpum við seyðið núna. Ástandið er orðið þannig, að við þurfum og höfum sjávarútvegsráðherra, sem getur sagt þvert nei við undanbrögðum þrýstihópa.

Núverandi sjávarútvegsráðherra er eindregið studdur helztu talsmönnum sjávarútvegsins. Þeir sjá fyrir, að þungbærar tillögur fiskifræðinga séu eina leiðin til að gera þorskveiðar arðbærar að nýju, þegar tímar líða fram. Þeir vilja taka á sig tímabundna erfiðleika.

Þessi skynsamlegu sjónarmið hafa verið ráðandi í umræðunni, sem farið hefur fram, síðan fréttir bárust af tillögunni um 40% niðurskurð. Helzt eru það Matthías Bjarnason og nokkrir þekktir skipstjórnarmenn, sem telja lítið eða ekkert mark á slíkum tillögum takandi.

Í málflutningi sumra andstæðinga niðurskurðar er fjallað um fiskifræðinga sem eins konar þrýstihóp eða hagsmunagæzlumenn, er setji fram ýtrustu tillögur um aflasamdrátt í þeirri fullvissu, að endanlegar niðurstöður verði 30% hærri en upphaflegar tillögur þeirra.

Þvert á móti liggja fiskifræðingar undir miklum þrýstingi um að vera sem bjartsýnastir, þegar þeir leggja fram tillögur sínar. Þannig var ástandið fyrir áratug, þegar þáverandi stjórnendur Hafrannsóknastofnunarinnar þjónuðu óskhyggju Steingríms Hermannssonar.

Við gerum ráð fyrir, að nú séu fiskifræðingar hvorki óskhyggjuþjónar né þrýstihópur, heldur vísindamenn, sem segi það, er þeir vita réttast hverju sinni. Þess vegna er skynsamlegt og ábyrgt, að sagt verði þvert nei við kröfum um útvötnun á tillögum fiskifræðinga.

Ef við höfum nú loksins fengið sjávarútvegsráðherra, sem getur sett hnefann í borðið, er það bezta leiðin til að flýta því, að aftur komi betri tíð með blóm í haga.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópusamruni er martröð

Greinar

Bandaríkin eru engin Júgóslavía, en eiga samt að geta sýnt okkur og Evrópumönnum, að sambandsríki þjóða eða annarra misjafnra hópa er misheppnuð aðferð við að raða fólki í fullveldiseiningar og að miðstýrð Evrópa er ekki framtíðardraumur, heldur martröð.

Kynþáttaóeirðirnar í Los Angeles eru ekki fyrsta vandamálið af þessu tagi í Bandaríkjunum og verða ekki hið síðasta. Tilraunin með bræðslupott þjóðanna hefur mistekizt. Þjóðir Bandaríkjanna lifa meira eða minna út af fyrir sig og hata hver aðra í vaxandi mæli.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum treysta sér ekki til að reyna að rjúfa vítahringinn, sem lýsir sér meðal annars í að svertingjar og aðrar undirþjóðir safnast saman í miðlæg örbirgðarhverfi og Evrópuættað fólk í ríkmannleg úthverfi, sem sum hver eru læst fyrir óviðkomandi.

Júgóslavía er róttækara dæmi um hrun hugmyndarinnar um sambandsríki þjóða. Þar var mörgum þjóðum þrýst gegn vilja þeirra inn í eitt ríki. Þegar miðstjórnarvaldið hrundi, kom í ljós, að undir kraumaði hatur, sem var orðið að krabbameini í samskiptum þessara þjóða.

Íbúar Vestur-Evrópu ættu líka að geta litið sér nær. Víðs vegar er ljóst, að staðbundnir minnihlutahópar sætta sig ekki við yfirráð ríkisheildar og valda margvíslegum sambúðarerfiðleikum, sem ekki leysast á annan hátt en með meiri eða minni sjálfstjórn þeirra.

Baskar og Katalónar hafa fengið aukna sjálfstjórn og heimta meiri. Korsíkumenn eru komnir af stað með svipuð sjónarmið. Belgía er klofin í herðar niður og býr meira að segja við tvöfalt kerfi stjórnmálaflokka. Bretar virðast ekki sjá leið úr vandræðum Norður-Írlands.

Í ljósi alls þessa er undarlegt, að yfirstéttir Vestur- Evrópu skuli vera að reyna að búa til sambandsríki úr Evrópusamfélaginu í Bruxelles án þess að leita eftir formlegum stuðningi almennings við slíkar ákvarðanir og án hefðbundins þingræðis í Evrópusamfélaginu.

Evrópusamfélagið lýtur ekki vestrænum lýðræðishefðum, meðal annars vegna þess, að kjósendur eru ekki spurðir um afsal fullveldis og að þingið hefur nánast engin völd, en ráðherrar og embættismenn í Bruxelles ráða öllu í stíl kínverskra mandarína á fyrri öldum.

Danir hafa borið gæfu til að segja yfirstétt Vestur- Evrópu, að þessi sambræðsla Evrópu muni ekki takast. Þeir felldu Maastricht-samkomulagið, sem hefði sáð til vandamála, er síðar mundu fá útrás á einhvern hátt, sem við höfum séð við Kyrrahafið og á Balkanskaga.

Sem betur fer hafa stjórnmálamenn og -skýrendur rangt fyrir sér, þegar þeir segja, að Evrópusamfélagið muni skilja Dani eftir. Þvert á móti munu Danir ráða ferðinni, því að það væri stjórnarskrárbrot í Evrópusamfélaginu að brjóta neitunarvald Rómarsáttmálans.

Mandarínarnir í Bruxelles munu ekki komast upp með að stofna sambandsríki Maastricht-samkomulags fram hjá samfélagi Rómarsáttmála. Þeir munu reyna það, en hafa misst tök á þróun mála. Galdur þeirra hefur brugðizt, og fólk er að byrja að sjá gegnum þá.

Bezt væri fyrir Evrópu, ef yfirstétt hennar lærði lexíuna hjá Dönum og beindi orku sinni að brýnni atriðum en pólitískum samruna. Mikið starf er enn óunnið við að draga úr viðskiptahindrunum og leggja niður risavaxið landbúnaðarskrímsli Evrópusamfélagsins.

Í Júgóslavíu og Bandaríkjunum og Norður-Írlandi má sjá litróf þess, sem gerist, ef menn halda sér ekki við hugtakið þjóð sem heppilega fullveldiseiningu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sandur er höfðinu verstur

Greinar

Að þessu sinni hafa helztu fyrirmenn stjórnmála og þrýstihópa tekið ábyrgari afstöðu til hugmynda um 40% niðurskurð þorskveiða á næsta fiskveiðiári en þjóðin sjálf hefur gert. Flestir ráðamenn á þessum sviðum gera ráð fyrir, að farið verði eftir ábendingum fræðimanna.

Þjóðin er hins vegar skipt í afstöðu sinni. Samkvæmt skoðanakönnun DV vill þriðjungur hennar og helmingur þeirra, sem á annað borð taka afstöðu, stinga höfðinu í sandinn og láta sem ekkert sé. Afstaðan er í stíl við annað fyrirhyggjuleysi og göslarahátt Íslendinga.

“Þetta er tóm vitleysa, það er nóg af fiski í sjónum,” segja menn bara, alveg eins og bændur í Mývatnssveit segja nóg af fæðu á fjöllum, þegar þeir reka sauðfé sitt í í sandbyl í júníbyrjun á rofabörð og sandöldur Austurafréttar, gegn þrábeiðni forstjóra Landgræðslunnar.

Áhugaleysið á hruni þorskstofnsins er stutt kenningum nokkurra skipstjórnarmanna um, að togararallið gefi ekki rétta mynd, af því að togarar hafi hrakið þorskinn á grunnslóð. Einnig kenningum eins fræðimanns um, að grisja þurfi smáfisk í sjó eins og í vötnum.

Kenningar af þessu tagi eru fárra manna sérvizka í heimi fræðimanna á þessu sviði og geta varla orðið undirstaða velferðar heillar þjóðar. Þar á ofan er áhættusamara að fara eftir kenningum, sem geta leitt til ofveiði, en kenningum, sem geta leitt til vanveiði.

Í öðru tilvikinu, þegar rangt hefur reynzt að taka mark á tillögu um 40% niðurskurð, er hægt að skipta um skoðun. Í hinu tilvikinu, þegar rangt hefur reynzt að taka ekki mark á henni, er ekki hægt að skipta um skoðun. Þorskurinn verður þá einfaldlega horfinn.

Þegar Hafrannsóknastofnunin hefur skilað sinni tillögu og erlendur sérfræðingur sjávarútvegsráðherra er búinn að meta hana, munum við standa andspænis niðurskurði, sem verður nálægt þeim 40%, sem ráðgjafarnefnd Alþjóða hafrannsóknaráðsins mælti með.

Sem betur fer ætla fyrirmenn þrýstihópa sjávarútvegs að fylgja niðurstöðunni. Forustumenn útgerðarmanna hafa raunar alla sögu kvótakerfisins verið harðari á því en stjórnvöld landsins, að við yrðum að fara eftir fræðunum, því að við hefðum ekkert betra en þau.

Enginn landsfaðir hefur að þessu sinni sett fram þjóðhættuleg viðhorf á borð við þau, sem Steingrímur Hermannsson setti fram á sínum tíma, þegar hanns sagðist gera greinarmun á því, sem þorskurinn þolir og þjóðin þolir. Það er nefnilega enginn munur á þessu tvennu.

Það, sem er gott fyrir þorskinn, er gott fyrir þjóðina. Þótt þungbært sé að tapa 12-14 milljarða tekjum á ári í nokkur ár, er það skárra en að éta útsæðið og sitja uppi sem næsta þorsklaus þjóð. Ef við hlífum útsæðinu, getum við vonazt eftir betri tíð undir aldamót.

Fyrirmönnum þjóðarinnar hefur svo sem verið bent á, hvar spara megi þessa 12-14 milljarða, án þess að herða sultarólina um of. Það má gera með því að minnka verndun landbúnaðar, sem nemur árlega 12 milljörðum í innflutningsbanni og 8 milljörðum á ríkisfjárlögum.

En þjóðinn vill ekki spara þessa 20 milljarða og verður því að herða sultarólina. Um annað er ekki að ræða. Skera verður kvóta skipa eftir einhverju kerfi, sem þrýstihópar semja um. Síðan verður víðtækt atvinnuleysi, fjöldagjaldþrot og hrun ýmissa sveitarfélaga.

Allt er þetta vont og snöggtum verra en uppgjörið við landbúnaðinn, en mun skárra en að fara að ráði þriðjungs þjóðarinnar og stinga höfðinu í sandinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Nálin er svo holl

Greinar

“Nálin er svo holl fyrir sauðféð”, hugsa mývetnskir landeyðingarmenn og ráku fé sitt á fjall í síðustu viku, þrátt fyrir eindregin og ákveðin tilmæli Landgræðslu ríkisins um að gera það ekki. Þessi upprekstur er í stíl við fyrri yfirgang þessara landeyðingarmanna.

Árum saman hafa landeyðingarmenn Mývatnssveitar hunzað tilmæli Landgræðslunnar um að reka ekki á fjall í byrjun júní, heilum mánuði á undan öðrum sauðfjáreigendum í landinu. Þeir siga kindum sínum á melgresið, sem Landgræðslan hefur reynt að rækta.

Undanfarin ár hefur Landgræðslan varið miklum peningum af almannafé til að vernda gróður og auka hann í heimalöndum þessara landsins mestu landeyðingarmanna. Með þessu hefur verið reynt að auðvelda þeim að halda fé sínu í heimalöndum að sumarlagi.

Á Suðurlandi er samstarf bænda og Landgræðslunnar orðið svo gott, að nú liggur fyrir að friða algerlega alla afrétti svæðisins. Þegar hefur verið samið um þetta í mörgum hreppum. Afleiðingin er sú, að þessir afréttir eru ekki lengur taldir í eyðingarhættu.

Þeim fáu bændum, sem enn nota afrétti sunnanlands, dettur ekki í hug að reka á fjall í byrjun júní eins og mývetnskir landeyðingarmenn gera. Sunnlendingar skilja, að þeir verða að leggja eitthvað af mörkum á móti stuðningi Landgræðslunnar við verndun haga.

Vorbeit landeyðingarmanna Mývatnssveitar leiðir til þess, að melgresið fær ekki tækifæri til að sá sér eins og til er ætlazt. Starf Landgræðslunnar á þessum slóðum er að mestu unnið fyrir gýg, enda er afrétturinn eitt mesta landeyðingarsvæði landsins um þessar mundir.

Að upprekstri landeyðingarmanna Mývatnssveitar standa ráðunautur Búnaðarfélagsins, gróðurverndarnefnd Suður-Þingeyjarsýslu, landbúnaðarnefnd og hreppsnefnd Skútustaðahrepps. Þessir aðilar eru sammála um, að unnt sé að reka 5000-6000 fjár á sandinn.

Um þetta sagði Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri í viðtali við DV í síðustu viku: “Í raun og veru eru þessi mellönd ekki beitarhæf, hvorki núna, 4. júní eða 4. júlí eða yfirhöfuð. Afrétturinn er mjög illa farinn og landið mjög þurrt eftir þurrkana í vetur og vor.”

Í sama viðtali viðurkenndi landgræðslustjóri, að heimilt væri að stöðva yfirgang landeyðingarmanna með valdboði, en betra væri að fara að mönnum með góðu. Samt sýnir reynslan því miður, að endurtekin linkind Landgræðslunnar hefur espað þá til óhæfunnar.

Árum saman hefur Landgræðslan kvartað og kveinað út af framferði landeyðingarmanna Mývatnssveitar, en haft hendur í vösum um leið. Samt ber henni að leita lögregluverndar og síðan að höfða mál gegn landeyðingarmönnum, sem hafa að engu kvart hennar og kvein.

Aðeins í sumum tilvikum gildir sú formúla, að betra sé að fara með góðu að vandræðamönnum, svo að þeir bæti ráð sitt. Í öðrum tilvikum líta slíkir á tilraunir af því tagi sem veikleikamerki óvinarins og óbeina hvatningu um að láta þær sem vind um eyru þjóta.

Landgræðslan hefur árum saman gengið of langt í undanlátssemi gagnvart landeyðingarmönnum Mývatnssveitar. Og nú má forstjóri hennar ekki neita að beita leyfilegum stöðvunargerðum, þegar hann segir austurafrétt Mývetninga ekki vera beitarhæfan.

Í Mývatnssveit eru landeyðingarmenn að gefa skít í alla þjóðina og tilraunir hennar til að verjast vaxandi landeyðingu á einu viðkvæmasta svæði landsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Mandarínar töpuðu

Greinar

Danskir kjósendur höfnuðu á lýðræðislegan hátt að færa meira vald frá lýðræðisríki sínu í Danmörku yfir til hins ólýðræðislega Evrópusamfélags í Bruxelles. Þetta er mikill ósigur fyrir mandarínana í samfélaginu, því að vitað er, að Bretar eru sama sinnis og Danir.

Bretar og Danir eiga ekki heima í hinu miðstýrða og ólýðræðislega samfélagi, sem reynt er að þróa í Bruxelles. Þeirra hefðir eru aðrar. Hið sama má raunar segja um Þjóðverja, sem síðustu áratugi hafa þróað svipað lýðræði og er í engilsaxneskum og norrænum löndum.

Þótt Evrópusamfélagið sé efnahagslega öflugt, er það afturför frá vestrænni lýðræðisþróun. Í stað þingræðis aðildarríkjanna er að koma embættis- og ráðherraræði samfélagsins. Þessa þróun vildu mandarínar samfélagsins efla með þeirri skipan, sem Danir felldu.

Þing samfélagsins er næstum alveg valdalaus stofnun, sem má ekki skipa valdamenn og setja af, getur ekki haft frumkvæði að málum og má ekki fjalla um öll verk embættismanna og ráðherra. Engin teikn eru á lofti um, að þingið fái hefðbundið lýðræðishlutverk.

Samkvæmt Maastricht-samkomulagi mandarína Evrópu stóð til að bæta ofan á þetta sameiginlegri Evrópumynt, sameiginlegri utanríkisstefnu og sameiginlegri varnastefnu. Þetta felldu Danir með miklum sóma og tala fyrir munn grasrótar Norðvestur-Evrópu.

Evrópusamfélagið er franskt fyrirbæri með mikilli miðstýringu af hálfu embættismanna og ráðherra. Beinagrind þess er í andstöðu við lýðræðishefðir engilsaxneskra og norrænna ríkja. Þar á ofan hefur það reynzt ofbeldishneigt í samskiptum við umheiminn.

Evrópusamfélagið hefur reynzt okkur harðdrægt í viðræðum um sjávarútveg og fiskvinnslu. Það hefur líka reynzt öðrum harðdrægt, svo sem Bandaríkjamönnum og Japönum. Það stendur til dæmis þversum fyrir samkomulagi um aukið viðskiptafrelsi í heiminum.

Harka evrópskra mandarína er ekki í þágu evrópskra neytenda eða skattgreiðenda, heldur er hún á kostnað þeirra. Vöruverði og sköttum er haldið uppi í Evrópu til að þjóna hagsmunum landbúnaðar, ýmissa stórfyrirtækja og voldugra þrýstihópa, sem óttast samkeppni.

Dæmigert fyrir frekjuna í mandarínum Evrópusamfélagsins er, að þeir hafa nú uppi hótanir í garð Dana um, að þeir verði skildir eftir. Er þó ljóst, að stjórnarskrá samfélagsins, Rómarsáttmálanum, verður ekki breytt án þess, að öll aðildarríkin samþykki það.

Ef mandarínar Evrópusamfélagsins vilja sameiginlega mynt, sameiginlega utanríkisstefnu og sameiginlega varnarstefnu framhjá Rómarsáttmálanum, verða þeir að stofna nýtt bandalag um það. Hótanir þeirra í garð Dana eru því að mestu leyti máttlaus reiðilestur.

Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusamfélagsins, er helzti hugmyndafræðingur og baráttumaður miðstýringarstefnu Maastricht-samkomulagsins. Eðlilegt er, að eftir þennan ósigur verði hann dæmdur af verkum sínum og látinn víkja við næsta tækifæri.

Evrópska efnahagssvæðið, sem nýlega var samið um, felur í sér helztu kosti Evrópusamfélagsins og fáa galla þess. Það felur í sér markaðshyggju í stað miðstýringar. Það magnar gróða þjóðanna af frjálsari verzlun, en fjötrar þær ekki í pólitískt valdabrölt mandarína.

Sigur Dana í þjóðaratkvæðagreiðslu þeirra er um leið sigur markaðshyggju Evrópska efnhagssvæðisins og ósigur miðstýringar mandarína Evrópusamfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir láta þig borga

Greinar

Fjórum helztu fyrirmönnum þrýstihópa sjávarútvegsins og tveimur fréttamönnum tókst að halda uppi langdreginni sjónvarpsumræðu um tólf milljarða hrun þorskveiða án þess að minnast á tuttugu milljarða, sem árlega eru brenndir á báli hefðbundins landbúnaðar.

Sjónvarpsumræðan endurspeglaði ítarlega umfjöllun fjölmiðla, þar sem bæði spyrjendur og spurðir gæta bannhelginnar, sem hvílir á hefðbundnum landbúnaði. Menn sjá fyrir sér ýmsar smáleiðir til að milda þorskhrunið, en neita að líta á augljósu, stóru leiðina.

Flestir virðast telja skást að reyna að kjafta sig út úr vandanum. Þeir segja, að þrýstihóparnir verði að ræða málin hver við annan. Þannig vilja þeir ná niðurstöðu í þjóðarsátt um, að allur landslýður dreifi á sig tólf milljarða þorsktjóni í umsömdum hlutföllum.

Athyglisvert er, að verkalýðsrekendur fyrirmannahóps sjávarútvegs eru reiðubúnir að sætta sig við kjaraskerðingu og atvinnumissi síns fólks, svo og hrun nokkurra kauptúna og kaupstaða, svo framarlega sem haft sé samráð við verkalýðsrekendur um aðferðafræðina.

Verkalýðsrekendur geta þess ekki í einu orði, að á hverju ári er höfð af almenningi nákvæmlega sama upphæð og árlegt þorsktjón er talið munu nema. Það kostar almenning tólf milljarða króna á hverju ári að hafa ekki frjálsan aðgang að innfluttri búvöru.

Í stað þess að leggja til, að tekin verði erlend lán til gjaldeyrisöflunar í slíka lífskjaravernd í skamman tíma virðast fyrirmenn sjávarútvegs reiðubúnir að leggja til, að tekin verði mun hærri erlend lán til að ná minni árangri í ýmiss konar vörnum, sem eru fremur óljósar.Athyglisvert er, að fyrirmenn atvinnurekenda heimta niðurskurð ríkisbúskapar af þessu tilefni, en minnast ekki á, að ofan á tólf milljarðana, sem hafðir eru af neytendum, eru árlega hafðir átta milljarðar af skattgreiðendum til brennslu í hefðbundnum landbúnaði.

Í stað þess að segja, að nú sé ástandið í þjóðfélaginu orðið svo alvarlegt, að rjúfa verði bannhelgi hefðbundins landbúnaðar, eru fyrirmenn þrýstihópa sjávarútvegs að gæla við ýmsar sjónhverfingar, svo sem að breyta opnu atvinnuleysi í dulbúið atvinnuleysi.

Ítrekaðar eru þessa daga kröfur þrýstihópanna um, að stemmt verði stigu við arðbærustu þáttum sjávarútvegsins, það er að segja sjófrystingu og ferskfiskútflutningi, og fiskinum í staðinn skilað í fiskvinnslustöðvar í landi, þar sem alls engin verðmætisaukning fer fram.

Þjóðin getur í rauninni, ef hún kærir sig um, horfzt í augu við enn stærri vanda en tímabundna skerðingu á þorskkvóta. Þetta stærra vandamál felst í, að mestur hinn hefðbundni landbúnaður og töluvert af fiskvinnslu í landi er dulbúið atvinnuleysi en ekki arðbær iðja.

Þjóðin hefur hins vegar ákveðið að horfast ekki í augu við vanda dulbúins atvinnuleysis. Þess vegna hefur hún ekki ráð á að mæta tímabundnum erfiðleikum í þorskveiðum af hæfilegri ró. Þess vegna mun hún láta þrýstihópa sjávarútvegs leggja byrðar sér á herðar.

Allt stafar þetta af, að fyrirmenn þjóðarinnar og fyrirmenn þrýstihópa sjávarútvegs eru ekki menn til að flytja þjóðinni hinar óvinsælu fréttir, að meiri fjármunum er á hverju ári kastað á glæ og brennt á báli dulbúins atvinnuleysis en sem nemur aðvífandi þorskhruni.

Í samræmi við þetta mun þjóðin nú uppskera, að fyrirmönnum þrýstihópa sjávarútvegs mun takast að velta tólf milljarða þorsktjóni yfir á herðar almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Alþjóðleg samstaða

Greinar

Hjöðnun kalda stríðsins er farin að hafa róttæk áhrif í alþjóðamálum. Hún hefur nú gert öryggisráði Sameinuðu þjóðanna kleift að setja viðskipta- og samgöngubann á Serbíu og Svartfjallaland á sama hátt og hún gerði ráðinu kleift að setja hliðstætt bann á Írak.

Leiðtogar Serba misreiknuðu leiðtoga Rússa og töldu þá mundu beita neitunarvaldi gegn banninu á þeim forsendum, að báðar þjóðirnar hefðu grísk-orþódoxa trú. Svipuð mistök gerðu leiðtogar Íraka, þegar þeir töldu arabaríkin mundu vernda sig vegna íslamstrúar þeirra.

Með þessum tveimur aðgerðum á tveimur árum hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mótað þá stefnu, að samfélag þjóðanna muni sjá til þess, að það borgi sig ekki fyrir eina þjóð að ráðast á aðra þjóð til að skapa sér aukið svigrúm í stíl Hitlers, Husseins og Milosevics.

Viðskipta- og samgöngubann mun ekki duga til að brjóta útþenslu Serbíu á bak aftur. Líklegt er, að það leiði næsta sjálfvirkt til hernaðarlegrar íhlutunar, til dæmis á þann hátt, að evrópskir flug- og sjóherir taki völd í lofti og á sjó á átakasvæðinu og í nágrenni þess.

Íraks- og Serbíubönnin sýna, að harðstjórar heimsins geta ekki lengur hlaupið í faðm Sovétríkjanna, ef Vesturlönd amast við þeim. Á tíma Íraksbannsins hafði Sovétstjórn Gorbatsjovs þegar tekið heimspólitíska afstöðu með Vesturlöndum í stað fyrri sjálfvirkrar andstöðu.

Leiðtogar flestra arabaríkja töldu heppilegt að sýna hinu nýja bandalagi vesturs og austurs annaðhvort hlutleysi eða beinan stuðning. Þau njóta nú óbeinnar uppskeru þess, þar sem vestrið og austrið hafa sameinazt til varnar íslamskri þjóð á Balkanskaga.

Sovétríkin eru ekki lengur til. Arftaki þeirra er Rússland, sem stendur enn nær Vesturlöndum. Í stórum dráttum má segja, að vestrið og austrið hafi sameinazt um að styðja mannréttinda- og þjóðréttindaákvæði stofnskrár og sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þetta er stærra mál en fram kemur í viðskipta- og samgöngubanni gegn mestu vandræðastjórnvöldum heims. Allir litlu harðstjórarnir í þriðja heiminum óttast einnig um sinn hag, hvort sem þeir heita Daniel arap Moi í Kenýu eða Robert Mugabe í Zimbabwe.Almenningur og stjórnarandstæðingar í þriðja heiminum sæta minni ofsóknum en áður af hálfu stjórnvalda. Mannréttindi, sem víðast hvar hafa verið fótum troðin áratugum saman, eru nú að skjóta rótum í fjölmörgum löndum. Þetta stafar af hruni kalda stríðsins.

Harðstjórar þriðja heimsins geta ekki lengur sníkt sér fé og vernd með því að tefla heimsveldunum saman. Þeir fá ekki lengur peninga nema þeir fari meira eða minna eftir stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta er grundvallarbreyting í heiminum.

Vonandi leiðir viðskipta- og samgöngubannið á Serbíu fljótlega til næsta skrefs, hernaðarlegrar íhlutunar Vestur- og Austur-Evrópu í lofti og á sjó, svo að Slobodan Milosevic Serbíuforseti, kommúnistaflokkur hans og sambandsher Júgóslavíu hrökklist frá völdum.

Til þess að svo megi verða, þarf hið nýja bandalag austurs og vesturs að vera undir það búið að færa bannið yfir á önnur lönd, sem munu reyna að brjóta það. Þar eru fremst í flokki Grikkland og Rúmenía, sem hafa hingað til leikið tveimur skjöldum í málinu.

Ef Milosevic-gengið hrökklast frá, hefur samfélagi þjóðanna tekizt það, sem ekki tókst í Írak. Það verður alvarleg áminning öðrum harðstjórum í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Pétursregla alþjóðamála

Greinar

Vanhæfni æðstu stjórnmála- og embættismanna og stórforstjóra er ekki séríslenzkt fyrirbæri. Veraldarsagan og stjórnmálasaga 20. aldar er full af dæmum um gildi Pétursreglunnar: Menn hækka í tign, unz þeir staðnæmast í stöðu, sem þeir eru óhæfir um að gegna.

Cyrus Vance, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Carrington lávarður, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, teljast vera reyndir menn. Sameinuðu þjóðirnar fengu hinn fyrrnefnda og Evrópubandalagið hinn síðarnefnda til að semja við herskáa Serbíustjórn.

Slobodan Milosevic, forseti Serbíu, laug þessa tvo heiðursmenn fulla, á sama hátt og Adolf Hitler laug forsætisráðherra Bretlands, Neville Chamberlain, fullan á sínum tíma. Vance og Carrington virtust ekki kunna að umgangast ofbeldishneigða samningamenn.

Ferli Milosevics átti að verða mönnum ljóst fyrir nokkrum árum, þegar hann tók öll völd í Kosovo, sem 90% er byggt Albönum. Hitlerismi Milosevics og annarra ráðamanna Serbíu og sambandshers Júgóslavíu átti að fá staðfestingu fyrir rúmu ári í Slóveníu.

Meðan Vance og Carrington ímynduðu sér, að þeir væru í hefðbundnum samningum, varð blóðbað í Króatíu og síðan í Bosníu. Getuleysi slíkra manna framlengdi útþenslu Serbíu og stuðlaði að síendurteknum vopnahlésbrotum og voðaverkum hálftrylltra Serba.

Bandaríkin eru full af stjórnmála- og embættismönnum af þessu tagi. Fræg er svokölluð hagkvæmnisstefna í utanríkismálum, sem rekin var af skammsýnu fólki á borð við Henry Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra, og Jean Kirkpatrick, sérfræðing í Rómönsku Ameríku.

Hagkvæmnisstefnan fólst í að gleyma mannréttindum og styðja harðstjóra í útlöndum. Þegar harðstjórunum var svo velt úr sessi, voru Bandaríkin búin að stimpla sig í augum almennings í þessum löndum. Þannig var það á Spáni, í Grikklandi og í Suður-Ameríku.

Þrátt fyrir augljósa óhagkvæmni hagkvæmnisstefnunnar eru þau Kissinger og Kirkpatrick enn talin vera eins konar vitringar í utanríkismálum. Þau rita lærðar greinar í tímarit og veita stjórnvöldum ráð á borð við þau, sem Vance og Carrington hafa gert í Serbíumálinu.

Frægasti rugludallur nútímasögunnar er Ronald Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseti, sem skildi ekki tengsli skattalækkana og aukinna ríkisútgjalda, einkum til hernaðar. Hann bjó til hroðalegan greiðsluhalla, sem verður Bandaríkjunum áratugum saman til vandræða.

Í nokkur ár hafa Bandaríkjamenn búið við lélegan forseta, sem hefur talið þeim trú um, að hann hafi að minnsta kosti vit á utanríkismálum, þótt hann sé illa að sér heima fyrir. Samt er ferill George Bush samfelld slóð mistaka í samskiptum við erlendar þjóðir.Eitt síðasta dæmið er, að Bush skildi alls ekki, hvað var að gerast í Serbíu og nágrannalöndum hennar. Til skamms tíma studdi hann tilraunir Milosevics til að halda saman Stór-Serbíu. Hann studdi líka Gorbatsjov Sovétforseta gegn lýðræðisöflum í Sovétríkjunum.

Bush var síðastur leiðtoga til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Hann vann að uppgangi Saddams Husseins í Írak, alveg fram undir Persaflóastríð, og gaf ógnarstjórn hans svo grið á síðustu klukkustundum stríðsins. Hann styður enn kínverska kommúnista, sem reyna að koma illu af stað víða um heim.

Heimurinn var og er enn fullur af stórforstjórum, stjórnmála- og embættismönnum, sem samkvæmt Pétursreglunni eru ófærir um að gegna hlutverkum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV