Pétursregla alþjóðamála

Greinar

Vanhæfni æðstu stjórnmála- og embættismanna og stórforstjóra er ekki séríslenzkt fyrirbæri. Veraldarsagan og stjórnmálasaga 20. aldar er full af dæmum um gildi Pétursreglunnar: Menn hækka í tign, unz þeir staðnæmast í stöðu, sem þeir eru óhæfir um að gegna.

Cyrus Vance, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Carrington lávarður, fyrrum utanríkisráðherra Bretlands, teljast vera reyndir menn. Sameinuðu þjóðirnar fengu hinn fyrrnefnda og Evrópubandalagið hinn síðarnefnda til að semja við herskáa Serbíustjórn.

Slobodan Milosevic, forseti Serbíu, laug þessa tvo heiðursmenn fulla, á sama hátt og Adolf Hitler laug forsætisráðherra Bretlands, Neville Chamberlain, fullan á sínum tíma. Vance og Carrington virtust ekki kunna að umgangast ofbeldishneigða samningamenn.

Ferli Milosevics átti að verða mönnum ljóst fyrir nokkrum árum, þegar hann tók öll völd í Kosovo, sem 90% er byggt Albönum. Hitlerismi Milosevics og annarra ráðamanna Serbíu og sambandshers Júgóslavíu átti að fá staðfestingu fyrir rúmu ári í Slóveníu.

Meðan Vance og Carrington ímynduðu sér, að þeir væru í hefðbundnum samningum, varð blóðbað í Króatíu og síðan í Bosníu. Getuleysi slíkra manna framlengdi útþenslu Serbíu og stuðlaði að síendurteknum vopnahlésbrotum og voðaverkum hálftrylltra Serba.

Bandaríkin eru full af stjórnmála- og embættismönnum af þessu tagi. Fræg er svokölluð hagkvæmnisstefna í utanríkismálum, sem rekin var af skammsýnu fólki á borð við Henry Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra, og Jean Kirkpatrick, sérfræðing í Rómönsku Ameríku.

Hagkvæmnisstefnan fólst í að gleyma mannréttindum og styðja harðstjóra í útlöndum. Þegar harðstjórunum var svo velt úr sessi, voru Bandaríkin búin að stimpla sig í augum almennings í þessum löndum. Þannig var það á Spáni, í Grikklandi og í Suður-Ameríku.

Þrátt fyrir augljósa óhagkvæmni hagkvæmnisstefnunnar eru þau Kissinger og Kirkpatrick enn talin vera eins konar vitringar í utanríkismálum. Þau rita lærðar greinar í tímarit og veita stjórnvöldum ráð á borð við þau, sem Vance og Carrington hafa gert í Serbíumálinu.

Frægasti rugludallur nútímasögunnar er Ronald Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseti, sem skildi ekki tengsli skattalækkana og aukinna ríkisútgjalda, einkum til hernaðar. Hann bjó til hroðalegan greiðsluhalla, sem verður Bandaríkjunum áratugum saman til vandræða.

Í nokkur ár hafa Bandaríkjamenn búið við lélegan forseta, sem hefur talið þeim trú um, að hann hafi að minnsta kosti vit á utanríkismálum, þótt hann sé illa að sér heima fyrir. Samt er ferill George Bush samfelld slóð mistaka í samskiptum við erlendar þjóðir.Eitt síðasta dæmið er, að Bush skildi alls ekki, hvað var að gerast í Serbíu og nágrannalöndum hennar. Til skamms tíma studdi hann tilraunir Milosevics til að halda saman Stór-Serbíu. Hann studdi líka Gorbatsjov Sovétforseta gegn lýðræðisöflum í Sovétríkjunum.

Bush var síðastur leiðtoga til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Hann vann að uppgangi Saddams Husseins í Írak, alveg fram undir Persaflóastríð, og gaf ógnarstjórn hans svo grið á síðustu klukkustundum stríðsins. Hann styður enn kínverska kommúnista, sem reyna að koma illu af stað víða um heim.

Heimurinn var og er enn fullur af stórforstjórum, stjórnmála- og embættismönnum, sem samkvæmt Pétursreglunni eru ófærir um að gegna hlutverkum sínum.

Jónas Kristjánsson

DV