Eigin gæfu smiður

Greinar

Enn má draga í efa, að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé í samræmi við stjórnarskrá Íslands, þótt fjórir hæfir lögmenn hafi í álitsgerð fyrir utanríkisráðuneytið komizt að raun um, að svo sé. Tveir aðrir hæfir lögmenn hafa komizt að allt annarri niðurstöðu.

Álitsgerðin nýja styrkir þá skoðun, að óhætt sé að láta samninginn um Evrópska efnahagssvæðið fara hefðbundna lagaleið á Alþingi, þar sem einfaldur meirihluti ræður, fremur en stjórnarskrárleið, þar sem þarf aukinn meirihluta, sem ekki er víst að ríkisstjórnin nái.

Ríkisstjórnin telur álit fjórmenninganna nógu skýrt til að gera sér kleift að halda óbreyttri stefnu og fá samninginn staðfestan með einföldum meirihluta á komandi sumarþingi, þótt komið hafi í ljós, að álitið hefur ekki eytt efasemdum í röðum áhrifamikilla stjórnarsinna.

Skiljanlegt er, að ríkisstjórnin vilji í lengstu lög forðast að þurfa að afla nægilegs meirihluta á Alþingi, til að hægt sé að afgreiða málið sem stjórnarskráratriði. Menn vilja ekki taka óþarfa áhættu, ef þeir geta túlkað mál á þægilegri veg, sem liggur að öruggri niðurstöðu.

Með einfaldri lausn taka menn á sig varanlegar efasemdir og varanlegt ósætti í þjóðfélaginu. Andstæðingar samningsins munu áfram halda því fram, að hann sé stjórnarskrárbrot og þess vegna ógildur. Ódýr niðurstaða í málinu getur því reynzt ófullnægjandi lausn.

Bent hefur verið á, að eðlilegt sé, að þjóðin fái sjálf að velja niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin vill ekki heyra á það minnzt, af því að hún veit ekki fyrirfram um niðurstöðuna. Hún hafnar öllum leiðum, þar sem hún hefur ekki vald á niðurstöðunni.

Rétt er, að þjóðin hefur ekki sett sig mikið inn í samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og margir rugla honum saman við Evrópusamfélagið. En af kjallaragreinum í dagblöðum má þó ráða, að fjöldi manna hefur reynt að setja sig af sæmilegu viti inn í málið.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er einmitt það, sem Íslendinga vantar til að knýja sig til að skoða málið betur og gera sér grein fyrir innihaldi þess, án þess að því sé ruglað saman við önnur og viðameiri mál. Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur pólitískt uppeldis- og meðvitundargildi.

Danir fóru þessa leið í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá Evrópusamfélagsins. Viðurkennt er, að í tilefni þessa settu Danir sig mun betur inn í Maastricht-stjórnarskrána en nokkur önnur þjóð í Evrópusamfélaginu. Þeir urðu að taka málið alvarlega.

Danir felldu nýja stjórnarskrá Evrópusamfélagsins að athuguðu máli. Eins gæti farið hér á landi, að Íslendingar felldu samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að athuguðu máli. Um það er ekkert hægt að segja fyrirfram. Það er venjuleg áhætta, sem fylgir lýðræði.

Ef samningurinn félli í þjóðaratkvæðagreiðslu, er líklegt, að það stafaði af, að þjóðin hefði annað verðmætamat en þeir, sem ýtt hafa málinu áfram. Það gæti einfaldlega stafað af, að þjóðin hefði betri sýn yfir, hvað sé heppilegast fyrir sig. Það væri þá góð niðurstaða.

Ef samningurinn stæðist hins vegar þessa prófraun, er þjóðin betur en ella í stakk búin til að takast á við ögrunina, sem felst í nánara sambandi við Vestur- Evrópu. Það væri líka góð niðurstaða, af því að þjóðin hefur í því tilviki einnig verið sinnar gæfu smiður.

Meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu stórmáli einkennist af, að hún er í eðli sínu veik og getur ekki hugsað sér að missa tök á málinu í hendur þjóðarinnar allrar.

Jónas Kristjánsson

DV