Alþjóðleg samstaða

Greinar

Hjöðnun kalda stríðsins er farin að hafa róttæk áhrif í alþjóðamálum. Hún hefur nú gert öryggisráði Sameinuðu þjóðanna kleift að setja viðskipta- og samgöngubann á Serbíu og Svartfjallaland á sama hátt og hún gerði ráðinu kleift að setja hliðstætt bann á Írak.

Leiðtogar Serba misreiknuðu leiðtoga Rússa og töldu þá mundu beita neitunarvaldi gegn banninu á þeim forsendum, að báðar þjóðirnar hefðu grísk-orþódoxa trú. Svipuð mistök gerðu leiðtogar Íraka, þegar þeir töldu arabaríkin mundu vernda sig vegna íslamstrúar þeirra.

Með þessum tveimur aðgerðum á tveimur árum hefur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mótað þá stefnu, að samfélag þjóðanna muni sjá til þess, að það borgi sig ekki fyrir eina þjóð að ráðast á aðra þjóð til að skapa sér aukið svigrúm í stíl Hitlers, Husseins og Milosevics.

Viðskipta- og samgöngubann mun ekki duga til að brjóta útþenslu Serbíu á bak aftur. Líklegt er, að það leiði næsta sjálfvirkt til hernaðarlegrar íhlutunar, til dæmis á þann hátt, að evrópskir flug- og sjóherir taki völd í lofti og á sjó á átakasvæðinu og í nágrenni þess.

Íraks- og Serbíubönnin sýna, að harðstjórar heimsins geta ekki lengur hlaupið í faðm Sovétríkjanna, ef Vesturlönd amast við þeim. Á tíma Íraksbannsins hafði Sovétstjórn Gorbatsjovs þegar tekið heimspólitíska afstöðu með Vesturlöndum í stað fyrri sjálfvirkrar andstöðu.

Leiðtogar flestra arabaríkja töldu heppilegt að sýna hinu nýja bandalagi vesturs og austurs annaðhvort hlutleysi eða beinan stuðning. Þau njóta nú óbeinnar uppskeru þess, þar sem vestrið og austrið hafa sameinazt til varnar íslamskri þjóð á Balkanskaga.

Sovétríkin eru ekki lengur til. Arftaki þeirra er Rússland, sem stendur enn nær Vesturlöndum. Í stórum dráttum má segja, að vestrið og austrið hafi sameinazt um að styðja mannréttinda- og þjóðréttindaákvæði stofnskrár og sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Þetta er stærra mál en fram kemur í viðskipta- og samgöngubanni gegn mestu vandræðastjórnvöldum heims. Allir litlu harðstjórarnir í þriðja heiminum óttast einnig um sinn hag, hvort sem þeir heita Daniel arap Moi í Kenýu eða Robert Mugabe í Zimbabwe.Almenningur og stjórnarandstæðingar í þriðja heiminum sæta minni ofsóknum en áður af hálfu stjórnvalda. Mannréttindi, sem víðast hvar hafa verið fótum troðin áratugum saman, eru nú að skjóta rótum í fjölmörgum löndum. Þetta stafar af hruni kalda stríðsins.

Harðstjórar þriðja heimsins geta ekki lengur sníkt sér fé og vernd með því að tefla heimsveldunum saman. Þeir fá ekki lengur peninga nema þeir fari meira eða minna eftir stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta er grundvallarbreyting í heiminum.

Vonandi leiðir viðskipta- og samgöngubannið á Serbíu fljótlega til næsta skrefs, hernaðarlegrar íhlutunar Vestur- og Austur-Evrópu í lofti og á sjó, svo að Slobodan Milosevic Serbíuforseti, kommúnistaflokkur hans og sambandsher Júgóslavíu hrökklist frá völdum.

Til þess að svo megi verða, þarf hið nýja bandalag austurs og vesturs að vera undir það búið að færa bannið yfir á önnur lönd, sem munu reyna að brjóta það. Þar eru fremst í flokki Grikkland og Rúmenía, sem hafa hingað til leikið tveimur skjöldum í málinu.

Ef Milosevic-gengið hrökklast frá, hefur samfélagi þjóðanna tekizt það, sem ekki tókst í Írak. Það verður alvarleg áminning öðrum harðstjórum í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV