Þeir láta þig borga

Greinar

Fjórum helztu fyrirmönnum þrýstihópa sjávarútvegsins og tveimur fréttamönnum tókst að halda uppi langdreginni sjónvarpsumræðu um tólf milljarða hrun þorskveiða án þess að minnast á tuttugu milljarða, sem árlega eru brenndir á báli hefðbundins landbúnaðar.

Sjónvarpsumræðan endurspeglaði ítarlega umfjöllun fjölmiðla, þar sem bæði spyrjendur og spurðir gæta bannhelginnar, sem hvílir á hefðbundnum landbúnaði. Menn sjá fyrir sér ýmsar smáleiðir til að milda þorskhrunið, en neita að líta á augljósu, stóru leiðina.

Flestir virðast telja skást að reyna að kjafta sig út úr vandanum. Þeir segja, að þrýstihóparnir verði að ræða málin hver við annan. Þannig vilja þeir ná niðurstöðu í þjóðarsátt um, að allur landslýður dreifi á sig tólf milljarða þorsktjóni í umsömdum hlutföllum.

Athyglisvert er, að verkalýðsrekendur fyrirmannahóps sjávarútvegs eru reiðubúnir að sætta sig við kjaraskerðingu og atvinnumissi síns fólks, svo og hrun nokkurra kauptúna og kaupstaða, svo framarlega sem haft sé samráð við verkalýðsrekendur um aðferðafræðina.

Verkalýðsrekendur geta þess ekki í einu orði, að á hverju ári er höfð af almenningi nákvæmlega sama upphæð og árlegt þorsktjón er talið munu nema. Það kostar almenning tólf milljarða króna á hverju ári að hafa ekki frjálsan aðgang að innfluttri búvöru.

Í stað þess að leggja til, að tekin verði erlend lán til gjaldeyrisöflunar í slíka lífskjaravernd í skamman tíma virðast fyrirmenn sjávarútvegs reiðubúnir að leggja til, að tekin verði mun hærri erlend lán til að ná minni árangri í ýmiss konar vörnum, sem eru fremur óljósar.Athyglisvert er, að fyrirmenn atvinnurekenda heimta niðurskurð ríkisbúskapar af þessu tilefni, en minnast ekki á, að ofan á tólf milljarðana, sem hafðir eru af neytendum, eru árlega hafðir átta milljarðar af skattgreiðendum til brennslu í hefðbundnum landbúnaði.

Í stað þess að segja, að nú sé ástandið í þjóðfélaginu orðið svo alvarlegt, að rjúfa verði bannhelgi hefðbundins landbúnaðar, eru fyrirmenn þrýstihópa sjávarútvegs að gæla við ýmsar sjónhverfingar, svo sem að breyta opnu atvinnuleysi í dulbúið atvinnuleysi.

Ítrekaðar eru þessa daga kröfur þrýstihópanna um, að stemmt verði stigu við arðbærustu þáttum sjávarútvegsins, það er að segja sjófrystingu og ferskfiskútflutningi, og fiskinum í staðinn skilað í fiskvinnslustöðvar í landi, þar sem alls engin verðmætisaukning fer fram.

Þjóðin getur í rauninni, ef hún kærir sig um, horfzt í augu við enn stærri vanda en tímabundna skerðingu á þorskkvóta. Þetta stærra vandamál felst í, að mestur hinn hefðbundni landbúnaður og töluvert af fiskvinnslu í landi er dulbúið atvinnuleysi en ekki arðbær iðja.

Þjóðin hefur hins vegar ákveðið að horfast ekki í augu við vanda dulbúins atvinnuleysis. Þess vegna hefur hún ekki ráð á að mæta tímabundnum erfiðleikum í þorskveiðum af hæfilegri ró. Þess vegna mun hún láta þrýstihópa sjávarútvegs leggja byrðar sér á herðar.

Allt stafar þetta af, að fyrirmenn þjóðarinnar og fyrirmenn þrýstihópa sjávarútvegs eru ekki menn til að flytja þjóðinni hinar óvinsælu fréttir, að meiri fjármunum er á hverju ári kastað á glæ og brennt á báli dulbúins atvinnuleysis en sem nemur aðvífandi þorskhruni.

Í samræmi við þetta mun þjóðin nú uppskera, að fyrirmönnum þrýstihópa sjávarútvegs mun takast að velta tólf milljarða þorsktjóni yfir á herðar almennings.

Jónas Kristjánsson

DV