Stuldur ofviða kerfi

Punktar

Einn stuldur hefur fundizt hjá Kaupþingi, ekki vegna ágætis skilanefndar, heldur vegna ábendingar utan úr bæ. Hann nemur hundrað milljörðum króna, stjarnfræðilegri upphæð. Stjórnendur í bankanum afhentu vildarmönnum sínum samtals þessa upphæð rétt fyrir hrunið. Peningunum var komið til útlanda, einkum Lúxemborgar, svo að ríkið næði ekki í þá. Ekkert hefur enn verið gert að gagni í málinu, enginn verið handtekinn og enginn kærður. Enda er stærð málsins líklega ofviða íslenzku lögreglu- og dómskerfi. Þar eru menn vanari að setja róna í fangelsi fyrir að stela vörum að upphæð fimm þúsund krónur.

Spakmæli annarra og mín

Punktar

Ég les, að frægir menn eigi sér einkunnarorð, sem þeir fari eftir og geri feril þeirra glæstan. Júlíus Cesar sagði “iacta alea est” og tign hans var í höfn. “Við mótmælum allir”, sagði Jón Sigurðsson. Ronald Reagan sagði: “Ég hefði gaman af að sjá, hvernig boðorðin tíu mundu líta út eftir þinglega meðferð”. Ég gæti hugsað mér þetta spakmæli: “Allur matur, sem étinn er standandi framan við ísskápinn, einkum að næturlagi, vigtar helmingi minna í kaloríum en sé hans neytt sitjandi til borðs á venjulegum matmálstíma.”

Tvær pottþéttar aðferðir

Punktar

Fann pottþétta aðferð við að minnka um tvö kíló á viku langtímum saman. Alls um tólf kíló á hálfum öðrum mánuði. Með því að borða gras fjórum sinnum á dag, fisk einu sinni á dag, einu sinni á diskinn, ekkert milli mála. Fæ hins vegar engin verðlaun fyrir pottþétta aðferð við þyngjast aftur um tvö kíló á einni jólaviku. Þrautreynd aðferð fjöldans. Lá í gærmorgun með brjóstsviða, sem ég vissi ekki, hvort stafaði af hangikjöti eða piparkökum. Nema hvort tveggja sé. Mannaði mig til að skríða á fætur og príla upp Esju í ræktinni. Fann hvernig lífið seytlaðist inn aftur. Má ekki bara banna jólin?

Einmana, gamall og geðvondur

Veitingar

Ketchup tómatsósa hefur ekki verið keypt í minni innkaupatíð á þessu ágæta góðborgaraheimili. Oftast er þó til slík sósa í kæliskápnum. Börnin eða barnabörnin hafa lag á að smygla slíku inn í húsið. Sérstaklega fyrir stórhátíðir, þegar þau þurfa að þola fyrsta flokks matreiðslu. Ég var búinn að kaupa í Melabúðinni hangikjöt af veturgömlu frá Kópaskeri. Með slíku er aðeins haft einfalt meðlæti, rjómuð kartöflustappa og grænar baunir ekki úr dós. Birtist þá ekki tómatsósa á borðinu, lin plastflaska, sem fretað er úr á kjötsneiðarnar. Það er von, að ég sé talinn einmana, gamall og geðvondur.

Nazismi Ísraels

Punktar

Síðast var ég í Ísrael árið 1996. Sannfærðist þá um, að örlögin hefðu leikið grátt ríki og þjóð. Fyrri fórnardýr nazista höfðu breytzt í kvalara að hætti nazista. Hlustaði á hádegisverðarræðu Ehud Olmert, borgarstjóra Jerúsalems. Þá hugsaði ég: “Margir eru skrítnir hér í Ísrael, en þessi er sá versti.” Síðan varð Olmert forsætisráðherra og æði Ísraelsríkis versnaði enn. Vinnur hryðjuverk sín í skjóli Bandaríkjanna. Fær áreiðanlega frítt spil hjá Barack Obama. Fjöldamorð í loftárásum dagsins minna á endalausa stríðsglæpi Ísraels og brot á fjölþjóðasamningum. Eru nazismi ríkis og því miður þjóðar einnig.

Kreppuhagfræði mín

Punktar

Í aðvífandi kreppu er gott að eiga gjaldeyri. Evrur eru fínar, traustari en dollarar. Engir pappírar eru neins virði, sízt hlutabréf og skuldabréf fjármálastofnana og útrásarfyrirtækja. Húsnæði er verðlaust að sinni, en hlýtur að hækka, þótt það nái ekki fyrri hæðum. Land er verðmætara, enda í eðli sínu takmarkað, en menn verða að liggja á því að sinni. Gulli líkast er rauðvín frá frægustu búgörðum heims, einkum í Bordeaux og Búrgund, naumt skammtað til auðmanna. Tamdir góðhestar til útflutnings eru evrum líkastir, svo og hvers kyns fiskur ætur. Þetta er kreppuhagfræði mín í lok árs 2008.

Barnahandbók um fótbolta

Punktar

Orðinn leiður á reyfaraöldinni. Nenni ekki að lesa fleiri metsölubækur um rannsóknalöggur eða -blaðamenn. Né þýðingar á mest seldu reyfurum annarra tungumála. Sú metbókahefð er komin á leiðarenda. Í staðinn las ég gamlan Simenon, er kafar betur ofan í sálarlíf jaðarfólks. Og gamla leiðsögubók um Jerúsalem og nálæg lönd, rifjaði upp heimsóknir þangað. Merkasta bókin, sem ég fletti, var Dýrin, rosalega skrautlegt flettirit um dýraríkið. Hún var hins vegar of þung til að taka í rúmið, svo að ég las hana ekki. Stalst svo um nóttina til að lesa barnahandbók númer eitt um alfræði fótboltans.

Vond apólógía forsetans

Punktar

Versta jólabókin í ár er sú, sem Guðjón Friðriksson skrifaði um Ólaf Ragnar Grímsson. Eftir góðar bækur um Einar Benediktsson og fleiri er þunnt að skrifa nafn sitt undir sjálfsævisögu annars. Bókin átti að vera lofgerð um forustu forsetans í útrásinni. Við hrun hennar var bókin snarlega stytt um sextíu síður, myndir útrásarvíkinga minnkaðar, skipt um kápu. Fyrir bragðið missti bókin marks, varð að lélegri apólógíu fyrir pólitíkus, sem hefur fátt að kenna. Bókin hefði átt að fjalla um, hvernig æstur flokkspólitíkus varð á einni nóttu að útrásar-forstjóra. Og hvernig Davíð Oddsson varð antíkristur.

Óvenjulegt jólasjónarhorn

Punktar

Mamúd Amadinejad Íransforseti flutti brezku þjóðinni jólaávarp í boði rásar fjögur. Óskaði Bretum til hamingju með Jesúm Krist og hvatti þá til að fara að kenningum hans. Það væri vilji þjóða heimsins. Andstaða við orð spámanna á borð við Jesúm væri orsök vandræða heimsins núna. Auðvitað fór erindið í taugar Moggans og valdamanna. Kölluðu hann morðóðan ofsatrúarmann, sem vildi Ísraelsríki illt. Amadinejad fetar hjá rás fjögur í fótspor Brigitte Bardot, Jamie Oliver og fleira frægðarfólks. Ávörp þeirra áttu að gefa óvenjulegt sjónarhorn á jólin og jólaboðskapinn. Ekki veitir okkur af fjölbreytni.

Heimsveldin í Adenflóa

Punktar

Í fyrsta skipti í rúmar fimm aldir hafa kínversk herskip verið send til fjarlægra hafa. Þau eru komin í Aden-flóa, þar sem þau verja kínversk skip fyrir sjóræningjum frá Sómalíu. Þar eru fyrir herskip frá Bandaríkjunum, Indlandi, Rússlandi, Íran og Evrópusambandinu. Sá listi segir okkur nokkuð um, hverjir telji sig vera heimsveldi akkúrat núna. Sjóræningjarnir eru harðskeyttir, hafa ráðist á 110 skip á árinu og tekið 42 þeirra. Sameinaðar gerðir sex heimsvelda ættu að duga til að fást við eitt minnsta ríki múslima í heiminum. Nú þegar hafa þýzkt og indverskt herskip hleypt af skoti.

Franskt í eldhúsinu

Veitingar

Skýr er munur franskrar og japanskrar matreiðslu annars vegar og annarra hefða hins vegar. Frönsk og japönsk matreiðsla leggja áherzlu á hráefnið og bragðgæði þess. Önnur matreiðsla leggur áherzlu á krydd og kryddsósur. Hráefnið er þar hlutlaus grunnur. Þess vegna kunna þjóðir Suðaustur-Asíu ekki að elda ferskan flatfisk íslenzkan. Hann er of laus í sér fyrir þeirra hefðir, kallar á snögga eldun. Kattamatur, sagði slíkur kokkur. Íslenzk gæðamatreiðsla er þáttur af franskri matreiðslu. Hráefnið fær að njóta sín. Við erum heppin að fylgja hefðum hráefnis fremur en sósu- og grýtuhefðum.

Spádómar rættust öfugt

Punktar

Vesturlönd fara halloka í heiminum fyrstu ár þessarar aldar. Síðasta öld var bandaríska öldin, en síðan hafa völd og áhrif Bandaríkjanna þorrið. Sjálft þjóðskipulagið, sem Bandaríkin gáfu heiminum, hnattvæddur markaðsbúskapur, riðar til falls. Stríð Bandaríkjanna tapast eitt af öðru, allt frá Víetnam, yfir til Íraks og Afganistans. Rússar rífa meiri kjaft en nokkru sinni fyrr og Kínverjar ráða gengi dollarsins. Þvert á skoðanir spámannsins Francis Fukuyama hefur veraldarsagan ekki komizt á vestrænan leiðarenda. Allt það, sem okkur var áður kennt, hefur snúizt í upp í andstæðu sína. Líka Ísland.

Fornar þjóðir dóu út

Punktar

Víða í sögunni eru þjóðir, sem kusu að deyja. Þannig voru Grænlendingar, sem kusu að halda evrópskum háttum. Kunnu ekki að lifa í samræmi við landgæði, dóu úr kulda og vosbúð og sulti. Þannig voru íbúar Páskaeyjar, sem reistu höggmyndir og hjuggu allan skóg, settu þjóðarhag á hausinn. Þannig duttu Mayar úr veraldarsögunni eftir að hafa byggt fræga píramída í Mið-Ameríku. Kannski verða örlög Íslendinga hin sömu, að verða sagnfræðileg þjóð. Fræg fyrir Íslendingasögur, en óhæf til að lifa í heimi ímyndaðra peninga. Margar þjóðir hafa valið sér vitlausa leiðtoga, en fáar eins skyni skroppna og við.

Spámenn fyrr og nú

Punktar

Kelvin lávarður, forseti konunglega brezka vísindafélagsins, sagði 1883, að röntgenmyndir væru svindl. William Preece, póstmeistari Breta, sagði 1878, að Bretar þyrftu ekki síma, þeir hefðu næga sendisveina. Darryl Zanuck bíómyndagreifi sagði 1946, að sjónvarp væri leiðinlegt og vonlaust. Ken Olsen, forstjóri DEC, sagði 1977, að fólk þyrfti ekki tölvur heima hjá sér. Bill Gates, forstjóri Microsoft, sagði 1981, að tölvur þyrftu aðeins 640 KB minni. Howard Aiken hjá IBM sagði 1985, að tvær tölvur mundu nægja heiminum. Alan Sugar, forstjóri Amstrad, sagði 2005, að iPodinn yrði dauður fyrir jól.

Jósef í litlum metum

Punktar

Breki afastrákur: Ég verð Jósef í jólaleikritinu í skólanum. Amma: Er það ekki gaman? Breki: Ég hefði heldur viljað vera vitringur. (Skömmu síðar) Amma: Sæll Jósef. Breki: Ert þú þá kannski guð.