Einn stuldur hefur fundizt hjá Kaupþingi, ekki vegna ágætis skilanefndar, heldur vegna ábendingar utan úr bæ. Hann nemur hundrað milljörðum króna, stjarnfræðilegri upphæð. Stjórnendur í bankanum afhentu vildarmönnum sínum samtals þessa upphæð rétt fyrir hrunið. Peningunum var komið til útlanda, einkum Lúxemborgar, svo að ríkið næði ekki í þá. Ekkert hefur enn verið gert að gagni í málinu, enginn verið handtekinn og enginn kærður. Enda er stærð málsins líklega ofviða íslenzku lögreglu- og dómskerfi. Þar eru menn vanari að setja róna í fangelsi fyrir að stela vörum að upphæð fimm þúsund krónur.
