Vægur áhugi á breytingum

Punktar

Stórmál líðandi stundar verða sum hver smærri í sniðum eftir mánuð, þegar kemur að kosningum. Þá kemur í ljós, að svonefndir hagsmunir heimilanna eru tilfinningamál minnihlutahóps. Vægi hagsmuna heimilanna verður í hófi. Og þá kemur í ljós, að stjórnarskráin er ekki efst á áhugalista meirihluta þeirra, sem í sjálfu sér styðja nýja stjórnarskrá. Vægi stjórnarskrárinnar verður líka í hófi. Sama er að segja um áhuga fólks á upplýsingafrelsi og gegnsæi. Hann brýst ekki út í kosningunum. Af þessum ástæðum mun stór hluti kjósenda áfram halla sér að hefðbundnum bófaflokkum, þótt þeir eigi það sízt skilið.

Lagatækni í hundahaldi

Punktar

Sumir hundaeigendur telja hund sinn svo ljúfan, að um hann gildi ekki reglur um hundahald. Því má hvarvetna sjá lausa hunda á ferð. Í einstaka tilviki er hætta á ferðum, svo sem sýnir dæmi Fréttablaðsins í dag frá Reykjanesbæ. Þar hafði hundur ítrekað verið laus og kvartað yfir honum, hafði bitið mann. Í þessu tilviki þorðu kennarar við leikskólann Gimli ekki að setja börnin út vegna hundsins. Hann beit illa hundafangara, sem kom á staðinn. Hundinum var auðvitað lógað hið snarasta. Dæmi um íslenzka frekju er, að hundeigandinn fékk sér lagatækni í málið. Af því að hann hafði ekki notið andmælaréttar.

Bankakerfið er ónýtt

Punktar

Bankakerfi Vesturlanda er ónýtt alla leið frá Kýpur til Íslands. Meginvandi þess er, að græðgin fékk að leika lausum hala í bönkunum. Þekkjum það úr hruninu. Taumlaus auðhyggja án raunverulegs ríkiseftirlits virkar ekki. Forsenda Hannesar Hólmsteins fyrir íslenzka ævintýrinu reyndist firra. En það skrítna er, að firran ríkir hér enn. Íslenzku bankarnir eru enn ofvaxnir og raka þó saman fé. Erfitt er að reka grunnstoðir velferðar, því bankarnir þrífa tugi milljarða árlega úr veltu þjóðarinar. Þetta gengur ekki lengur. Ríkið þarf að grípa í taumana, setja bönkum skorður og afnema bankaleynd.

Skiptum út 100%

Punktar

Framboðslistar nýju flokkanna eru óðum að birtast og gefa mér von um góðan árangur þeirra í kosningunum. Mér líst almennt vel á tvo efstu frambjóðendur hvers lista í hverju kjördæmi. Hjá Lýðræðisvaktinni, Pírötum og Dögun. Hin framboðin virðast flest vera eins manns framboð eins og Samstaða Lilju Mós. Mér sýnist, að minnsta kosti þessi þrjú framboð séu með frambjóðendur, sem ég treysti margfalt betur en bófum og bjánum fjórflokksins og fimmta hjóli hans, varahjólinu Bjartri framtíð. Kjósið það af þessum þremur framboðum, er samræmist bezt hugmyndum ykkur. Aðalatriðið er að skipta út á Alþingi 100%.

Þeir gargi út apríl

Punktar

Flott væri að hafa alþingi í skrípó fram undir kosningar. Gargandi bófar eru til þess fallnir að hrista upp í kjósendum, sem hingað til hafa yppt öxlum. Málþófið er til þess fallið að sannfæra fólk um, að enginn þingmaður megi ná endurkjöri. Verði stjórnarskráin til umræðu, man fólk á kosningadegi eftir þvermóðskunni á þingi. Að kröfu kvótagreifa og annarra, sem bezt mega sín, eru bófaflokkarnir tveir andvígir auknu lýðræði. Óbeit á stjórnarskránni nær einnig inn í raðir stjórnarsinna. Því lengur, sem alþingi bullar, því meiri líkur á, að fólk átti sig á þjónustu alþingismanna við þrönga sérhagsmuni.

Að tala eða að gera

Punktar

Þingmenn Framsóknar berjast á þingi gegn nýrri stjórnarskrá, einkum ákvæði, sem segir þjóðina eiga þjóðarauðlindir. Varaformaður Framsóknar segir þetta sósíalisma. Endurspeglar þá staðreynd, að Framsókn er og verður varðhundur kvótagreifa. Halldór Ásgrímsson vomir þarna enn að tjaldabaki. Sama dag og varaformaðurinn tjáir óbeit sína á auðlindaákvæðinu dreifir flokkurinn sínum kosningaáróðri. Þar lofar hann þjóðareign auðlinda á næsta kjörtímabili. Þetta getur Framsókn gert, því að margir kjósendur spyrja bara, hvað flokkar segja og lofa. En skoða ekki, hvað þeir gera. Þannig komast bófar til valda.

Losum okkur við fjórflokkinn

Punktar

Kosningarnar í vor snúast um að losna við fjórflokkinn, sem kom okkur á kaldan klaka. Snúast hins vegar ekki um, að fávitar flýi stóra bófaflokkinn til að kjósa hinn bófaflokkinn. Snúast um að færa okkur stjórnarskrá með gegnsæi og þjóðareign auðlinda að leiðarljósi. Snúast hins vegar ekki um að velja, hvaða hórur megi fara uppí hjá stóra bófaflokknum. Snúast um að gera landið þess virði að lifa hér. Snúast um að hafa þjóðaratkvæði um stórmál, sem valda deilum, svo sem stjórnarskrá og Evrópuaðild. Annað hvort grípa kjósendur tækifæri nýrra framboða eða dæma sig til ævilangrar fangavistar.

Misþyrming á móðurmálinu

Punktar

Sífellt rek ég mig á misþyrmingar lagatækna og dómara á móðurmálinu. Nýjasti frasinn er markaðsmisnotkun, sem er bara þjófnaður. Áður heyrðust umboðssvik og innherjasvik og þar áður skattasniðganga. Markmiðið er að forðast tal um þjófnað karla með hálsbindi. Hæstiréttur bjó um daginn til mun á skoðun og rannsókn. Síðan kom í ljós, að skoðunin var rannsókn, þrátt fyrir orðhengil dómstólsins. Fyrir nokkrum árum fann lagatæknir upp orðið einkalífeyrissjóð yfir þjófnað bankastjóra. Slíkar misþyrmingar á móðurmálinu þarf að reka ofan í kengúrudómara og lagatækna. Með kærum til alvörudómstóla í Evrópu.

Horfinn spuni um Árna Pál

Punktar

Spuninn er horfinn um reddingu Árna Páls á leifum stjórnarskrár. Séð er, að hann fær engar leifar. Stuðningsmenn hans á fésbók eru þagnaðir. Það segir sína sögu. Ég hef talið, að hann hafi fyrst og fremst verið að reyna að geðjast Sjálfstæðisflokknum. Aðrir telja, að hann sé bara svona vitlaus. Frá sjónarhóli stjórnarskrár var útspil hans arfavitlaust. Enda var það ekki í samráði við þingflokkinn og ekki í samráði við samstarfsaðila á þingi. Þetta var einleikur út í loftið. Sjálfstæðisflokkurinn gerir ekki svona díla. Hann hyggst drottna eftir kosningar án þess að leita ráða hjá Árna Páli Árnasyni.

Steingrímur umskiptingur

Punktar

Steingrímur J. Sigfússon hefur ekkert gert í stóriðjusköttum, þrátt fyrir ábendingar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þvert á móti undirbýr hann meira af fyrri undirlægjuhætti að hætti Davíðs. Hyggst láta skattborgara punga út milljörðum til að greiða niður stóriðju í kjördæmi sínu á Húsavík. Lofar að borga lóðir, vegi og innviði fyrir frekjuhundana. Nákvæmlega eins og hann sveik loforð um fyrningu kvótans. Samdi í þess stað frumvarp um afhendingu þjóðarauðlindar í tuttugu ár til Samherja og félaga. Við höfum ýmis dæmi um pólitíska bófa, en Steingrímur er sá, sem verst hefur svikið sína huldumey.

Hamfarir svínvirka

Punktar

Framsókn fer hamförum í loforðum. Varaformaðurinn segir ákvæði um auðlindir í uppkasti stjórnarskrár vera lið í “að koma á sósíalistísku hagkerfi”. Á sama tíma sendir flokkurinn fólki kosningabækling með loforði um að “tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum”. Þingmenn flokksins berjast af hörku gegn sameign þjóðarinnar á auðlindum. Flokkurinn lofar samt að tryggja sameignina á næsta kjörtímabili. Frægt er, að Framsókn hefur einnig að venju slegið öll met í öðrum loforðum. Lofar, að afskrifa skuldir fólks um 240 milljarða, sem ríkið á hvergi. Þetta svínvirkar á fávitana. sem flykkjast til Framsóknar.

Veltan og verðmætið

Punktar

Pólitíkusar eru sannfærðir um bezta kosningamálið. Skýra fylgi Framsóknar sem afleiðingu af bezt heppnuðu sjónhverfingunni. Samt er Flokkurinn með sömu sjónhverfingu, bara varlegar orðaða. Kosningamál vinsælu flokkanna felst í að láta skuldir hverfa og framleiða peninga með sjónhverfingum. Í lýsingu snákaolíu-sölumanna flokkanna gerist þetta þannig: Horfnar skuldir leiða til aukinnar veltu, sem skapar gróða í peningum. Nýir seðlar birtast bara eins og riddaralið með lúðrablæstri í bíó. Kjósendur taka þessu eins fagnandi og þeir taka Nígeríubréfum, Ponzi-braski og keðjubréfa-faraldri.

Níutíu milljarða tjón á ári

Punktar

Skattgreiðendur borga níutíu milljarða á hverju ári í vexti. Refsingin fyrir óstjórn Sjálfstæðisflokksins og meðreiðarflokka hans. Kostar okkur á hverju ári meira en heilt hátæknisjúkrahús. Það er dýrt spaug að skulda þúsund milljarða vegna gjaldþrots Seðlabankans og stofnun nýrra viðskiptabanka. Drjúgur viðskiptajöfnuður fer langt með að borga þetta, en samt vantar upp á. Stórar afborganir falla á næstu árum, svo að nauðsynlegt verður að lengja í sumum skuldunum. Skattar þurfa áfram að vera háir næstu árin. Ekkert fé verður aflögu í að borga kosningaloforð um afslátt af “skuldum heimilanna”.

Auglýst eftir sannreynslu

Fjölmiðlun

Sannreynslu er lítið beitt í blaðamennsku hér á landi og í minnkandi mæli. Skýrast kemur þetta fram í viðtölum við stjórnmálamenn og hagsmunaaðila. Þeir fá að tjá sig og flytja þvætting, án þess að blaðamenn bendi á augljósa annmarka í málflutningi. Blaðamenn þurfa að kunna heimavinnuna sína, þegar þeir lenda í klóm þjálfaðra lygara. Að öðrum kosti verða þeir að leita til fróðra manna. Sem geta bent þeim á, hvar og hvernig á að spyrja til botns. Í bandarískum blaðamannaskólum er sannreynsla ein fyrsta starfsreglan. Hér virðist hún hins vegar hafa lent ofan garðs og neðan hjá ungum blaðamönnum.

Þingmenn óttast stjórnarskrá

Punktar

Þessar eru nokkrar helztu ástæður þess, að Alþingi telur sig verða að salta frumvarp um stjórnarskrá: Þingmenn óttast, að vald færist frá þingmönnum til þjóðar. Þingmenn óttast aukið gegnsæi í þjóðfélaginu, vilja áfram sitja að sínu leyndó. Þingmenn óttast, að þjóðin endurheimti þjóðarauðlindir, vilja áfram gauka þeim að fjárhaldsmönnum kosningaslagsins, kvótagreifunum. Því þurfti að gera umba Sjálfstæðisflokksins að formanni Samfylkingarinnar. Og fela honum síðan að slátra stjórnarskránni. Að reyna að breyta þjóðarsátt í sátt við Flokkinn, sem auðvitað mun aldrei takast. Málið er fast, bingó.