10. Miðbær eystri – Piazza del Quirinale

Borgarrölt
Palazzo Quirinale, Roma

Palazzo Quirinale

Piazza del Quirinale

Frá brunninum förum við suður eftir Via San Vincenzo og síðan til vinstri eftir Via della Dataria og svo tröppurnar upp á Piazza del Quirinale, eitt fallegasta torg Rómar, í vesturbrún Quirinale-hæðar.

Á miðju torgi eru styttur af Castori og Polluxi við annan af einsteinungnum, sem upphaflega stóð við innganginn að grafhýsi Augustusar. Frá torginu er gott útsýni yfir miðbæinn. Umhverfis það eru hallir og ber þar mest á hlaðstílshöllinni Palazzo del Quirinale frá 1573, fyrrverandi páfahöll og núverandi aðsetri forseta Ítalíu. Maderno hannaði aðalinngang hallarinnar.

Næstu skref

9. Miðbær eystri – Fontana Trevi

Borgarrölt

Fontana Trevi, Roma

Fontana Trevi

Frá Piazza Barberini förum við niður verzlanagötuna Via del Tritone, beygjum til vinstri eftir Via della Stamperia og göngum á hljóðið frá Trevi-brunni, sameinaðan vatnsnið og ferðamannanið. Við brunninn stendur fólk og kastar peningum yfir öxlina á sér í brunninn til að tryggja endurkomu sína til Rómar. En Anita Ekberg er orðin ellimóð og filmstjörnur eru hættar að baða sig í brunninum, enda er löggan vel á verði.

Fontana Trevi er dæmi um ofhlæði lokaskeiðs hlaðstíls. Nicolà Salvi hannaði brunninn 1762. Hann er úr skjannahvítum marmara og sýnir sjávarguðinn Neptúnus með tveimur sjávargoðum og reiðskjótum þeirra. Yfir brunninum er hvít marmarahliðin á Palazzo Poli og myndar bakgrunn við hæfi brunnsins.

Næstu skref

8. Miðbær eystri – Via Veneto

Borgarrölt

Via Veneto, Roma

Via Veneto

Frá Porta Pinciana förum við að öðrum kosti niður eftir Via Vittorio Veneto, hina hefðbundnu hótelgötu borgarinnar og tízkugötu hennar á blómaskeiði ítalskra kvikmynda. En hún er tæpast lengur miðstöð Rómartízkunnar. Þetta er breið gata, sem skartar trjám og þekktum kaffihúsum, svo sem Café de Paris á 90 og Doney á 145. Umhverfis hana er Ludovisi-hverfið, sem þekkt er að auðlegð. Gatan liggur í sveigum niður á Piazza Barberini.

Fontana Tritone, Roma

Fontana Tritone

Nokkur góð matsöluhús eru í götunum vinstra megin við Via Veneto, svo sem Girarrosto Toscano á Via Campania 29, Andrea á Via Sardegna 28c og Cesarina á Via Piemonte 129.

Palazzo Barberini

Á Piazza Barberini er brunnur eftir Bernini, Fontana Tritone, frá 1642, og sýnir fjóra höfrunga bera hörpuskel, er á situr sjávargoð, sem blæs í kuðung.

Við torgið er Palazzo Barberini, hönnuð af hinum tveimur stóru nöfnum hlaðstíls, Bernini og Borromini, reist 1629-1633. Framhliðin er eftir Bernini og ýmsar skreytingar eftir Borromini.

Í höllinni er safn listaverka, Galleria Nazionale d’Arte Antica, á 1. hæð frá 13.-16. öld og á 2. hæð frá 17.-18. öld.

Næstu skref

7. Miðbær eystri – Trinità dei Monti

Borgarrölt
Trinità dei Monti & Scalinata de Spagna, Roma

Trinità dei Monti til vinstri & Scalinata de Spagna

Trinità dei Monti

Við förum upp tröppurnar að kirkjunni Trinità dei Monti. Að ofanverðu er gott útsýni yfir miðbæinn og alla leið til Péturskirkju. Enn betra útsýni er úr veitingasal Hassler-hótels, sem er hér við hlið kirkjunnar og getið er í gistingarkafla bókarinnar. Á torginu ofan við tröppurnar er rómverskur einsteinungur, sem er stæling á egypzkum.

Smíði Trinità dei Monti hófst 1502 og lauk 1585. Framhliðin er í hlaðstíl eftir Carlo Maderno, þann hinn sama og hannaði framhlið Péturskirkju. Í kirkjunni eru listaverk eftir Volterra.

Við getum tekið krók norður frá kirkjunni eftir Viale Trinità dei Monti að Villa Medici frá 1564, þar sem oft eru listsýningar og franskar menningarvikur.

Casino Borghese

Að öðrum kosti förum við til suðurs eftir Via Sistina að Via Crispi, þar sem við beygjum til vinstri upp brekkuna og höldum beint áfram eftir Via Porta Pinciana að samnefndu hliði á borgarmúrnum.

Við getum tekið á okkur krók gegnum Porta Pinciana inn í Borghese-garða og þar til hægri eftir Viale Museo Borghese að samnefndu höggmynda- og málverkasafni, sem er í Casino Borghese. Þetta er 800 metra leið, sem borgar sig, ef við erum á ferð nógu snemma dags.

Í safninu eru verk eftir Bernini, Canova, Caravaggio, Dürer, Pinturicchio, Rafael, Rubens, Titian og marga fleiri þekkta listamenn fyrri alda.

Næstu skref

6. Miðbær eystri – Piazza di Spagna

Borgarrölt
Scalinata di Spagna, Roma

Scalinata di Spagna

Piazza di Spagna

Spánartorg er langt og mjótt. Á miðju þess, undir Spánartröppum, er brunnurinn Fontana della Barcaccia, hannaður af Bernini eldri 1627-1629. Við brunninn er þungamiðja ferðamannalífs í Róm og hefur svo verið öldum saman.

Spánartröppur heita raunar Scalinata della Trinità dei Monti. Þær voru reistar 1723-1726 í hlaðstíl og eru mesti ferðamannasegullinn í Róm. Áður fyrr stóðu fyrirsætur listamanna á steinhandriðum, síðan urðu tröppurnar vettvangur blómasala, en nú selja Afríkumenn þar ódýra skartgripi og leðurvörur. Á vorin glóa tröppurnar af glóðarrósum.

Næstu skref

5. Miðbær eystri – Via dei Condotti

Borgarrölt
Caffé Greco, café, Roma

Caffè Greco

Via dei Condotti

Við förum úr safninu kringum San Rocco, undir göngin inn á Piazza Augusto Imperatore, þar sem inngangurinn sést í grafhýsi Augustusar, sem áður er getið. Við höldum áfram eftir Largo degli Schiavoni inn Via Tomacelli, þar sem við beygjum til vinstri, förum yfir Via del Corso beint inn Via dei Condotti.

Þessi gata er burðarás göngugatnahverfis hlaðstílshúsa neðan við Spánartröppur. Þetta hverfi hefur tekið við af svæðinu umhverfis Via Veneto sem fína hverfið í miðbænum. Á þessum slóðum eru flestar fínustu tízkubúðir Rómar, þar á meðal margar við Via dei Condotti.

Nálægt enda götunnar við Piazza di Spagna er Caffè Greco, rúmlega tveggja alda gamalt kaffihús, sennilega frægasta kaffihús heims. Þar stóðu H. C. Andersen, Berlioz, Browning, Goethe, Tennyson, Thackeray og Wagner frammi við diskinn. Nú sitja ferðamenn fyrir innan, í mjóum veitingasal.

Næstu skref

4. Miðbær eystri – Ara Pacis

Borgarrölt

Ara Pacis, Roma

Ara Pacis

Ármegin við grafhýsið er ferhyrnd bygging með glerveggjum. Innan í því er altarið Ara Pacis Augustae, sem upphaflega var reist árið 9 f.Kr. til heiðurs hinum rómverska friði, sem Augustus hafði komið á. Altarið stóð upphaflega við Via Flamina.

Altarið, sem hér er, var sett saman úr brotum upprunalega altarisins, sem varðveitt voru í ýmsum söfnum; úr eftirlíkingum af slíkum brotum úr því; og svo hreinum eftirlíkingum. Það var opnað almenningi 1970.

Skreytingar þess og lágmyndir marka hástig rómverskrar höggmyndalistar. Að utanverðu eru á neðri hlutanum laufa- og svanaskreytingar. Á efri hluta hliðanna eru lágmyndir af Augustusi, ættingjum hans og fleira fólki í skrúðgöngu. Við innganginn að sunnanverðu eru lágmyndir, sem sýna stofnun Rómar; og að norðanverðu sýna þær veldi borgarinnar.

Næstu skref

3. Miðbær eystri – Mausoleo di Augosto

Borgarrölt

Masoleo di Augusto, Roma

Mausoleo di Augosto

Via del Corso liggur þráðbein gegnum miðbæinn, þar sem Via Flamina var í fornöld. Þetta er helzta verzlunar- og bankagata Rómar, svo og skrúðgöngugata, liggur milli Piazza del Popolo og Piazza Venezia, 1500 metra leið. Við göngum hana til Via Pontefici, þar sem við göngum til hægri framhjá Mausoleo di Augosto.

Hringlaga grafhýsi Augustusar keisara var reist 28-23 f.Kr og varð þá einn af mestu helgistöðum Rómar. Þar var Augustus grafinn og nokkrir helztu ættingjar hans. Það var hringlaga bygging með jarðvegshaug ofan á og voldugu líkneski af keisaranum efst, líkt og grafhýsi Hadrianusar, sem áður var fjallað um.

Á 12. öld var því breytt í virki. Páfinn Gregorius IX lét eyðileggja það og ræna úr því kalksteininum á fyrri hluta 13. aldar. Löngu seinna var grafhýsið notað sem nautaatshringur og síðar leikhús, en rústirnar hafa nú verið friðaðar.

Næstu skref

2. Miðbær eystri – Piazza del Popolo

Borgarrölt
Porta del Popolo & Santa Maria del Popolo, Roma

Porta del Popolo & Santa Maria del Popolo hægra megin

Piazza del Popolo

Frá safninu förum við yfir götuna, upp tröppurnar í Borghese-garða og síðan beint áfram að Viale Washington, er við göngum alla leið að Porta del Popolo, þar sem við förum í gegn. Þetta er alls um 800 metra leið.

Porta del Popolo er frá 1562-1565 og stendur þar, sem Porta Flamina var áður, í borgarmúr Aureliusar.

Piazza Popolo, Roma

Piazza del Popolo, Santa Maria dei Miracoli og Santa Maria di Montesanto

Vinstra megin við borgarhliðið er Santa Maria del Popolo, frá 1472-1477, ein fyrsta kirkja Rómar í endurreisnarstíl. Í kirkjunni er mikið af listaverkum, til dæmis eftir Pinturicchio, Caravaggio og Rafael.

Piazza del Popolo er hannað af Giuseppe Valadier og lagt 1816-1824. Á torginu miðju er egypzkur einsteinungur frá Heliopolis, sem áður var í Circus Maximus. Torgið markar tilraun til borgarskipulags, sem fólst í að hafa samhæfðar byggingar umhverfis víðáttutorg.

Ofan við torgið er útsýnisstaðurinn Pincio í vesturhlið Borghese-garða.

Á mótum torgs og Via del Corso eru tvær systurkirkjur, Santa Maria dei Miracoli og Santa Maria di Montesanto, hannaðar af Carlo Rainaldi og reistar 1662-1679.

Pincio, Roma

Pincio

Við torgið eru tvö þekkt kaffihús hvort andspænis öðru, Rosati á 5a og Canova á 16. Þar hittast uppar og menningarvitar borgarinnar.

Næstu skref

Íslandsmet í kennitöluflakki

Punktar

Eitt athafnaskáldið hefur skipt 29 sinnum um kennitölu á sjö árum. Tugmilljarða skuldaslóð slíks höfðingja spillir auðvitað öllu kringum hann. Þyngsta ábyrgð bera bankar og sjóðir, sem sjósetja svona vitleysing 29 sinnum. Fleiri komast á verðlaunapall. Tveir hafa skipt 22svar um kennitölu hvor á þeim tíma, líka með hjálp banka. Aðferðin er ætíð eins, búið er hreinsað af eignum og skilið eftir með skuldir. Tjónið af völdum flakkaranna nemur þjóðfélagið hærri fjárhæðum en samanlagðar skuldir þess. Yfir hundrað milljarðar brenna árlega, sumt hverfur til Tortola. Dýrt er að hafa stjórnvöld, sem stöðva ekki glórulausa siðblindu.

Háskóli í biblíusögum

Punktar

Þegar guðfræðiprófessor pönkast á útvarpinu út af biblíulestri, vekur það upp furðu mína á guðfræðideild háskólans. Það er raunar ekki guðfræðideild, heldur súpergaggó í biblíusögum. Þar eru verðandi klerkum kenndar biblíusögur. Sumar hverjar eru heldur ókræsilegar, einkum úr gamla testamentinu. Skil ekki, hvaða erindi gamla testamentið á í samfélag, sem er komið meira en tvær aldir fram yfir byltingu veraldlegra sjónarmiða í Frakklandi og Bandaríkjunum. Í guðfræði ætti að kenna um ýmis trúarbrögð. Taka til dæmis Bókina um veginn fram yfir gamla testamentið. Varla er verkefni háskóla að kenna og túlka biblíusögur.

15. Miðbær vestri – Piazza Colonna

Borgarrölt

Piazza ColonnaColonna, Roma

Frá Piazza Sant’Ignazio förum við eftir Via Bergamaschi að Piazza Colonna, sem er á fjölförnum stað á mótum tveggja verzlunargatna, Via del Corso og Via del Tritone.

Súlan á torginu var reist 176-193 til heiðurs Aureliusi keisara og sýnir spíralmyndir úr stríði hans við þjóðflokka á bökkum Dónár. Þessi súla minnir á súlu Trajanusar, en er ekki eins vel gerð. Höggmyndin ofan á súlunni var áður af keisaranum, en er nú af Páli postula.

Að baki súlunni er Palazzo Wedekind með 16 fornaldarsúlum í jónískum stíl. Norðan við torgið er Palazzo Chigi frá 1562-1630, hannað af Giacomo della Porta og síðan Carlo Maderna. Andspænis súlunni, handan Via del Corso, er verzlanahöllin Galeria Colonna með mörgum smábúðum undir einu þaki

Palazzo di Montecitorio, Roma

Camera dei Deputati

Við förum meðfram Palazzo Wedekind inn á torgið Piazza di Montecitorio. Þar er höllin Palazzo di Montecitorio, hönnuð af Bernini og síðan Carlo Fontana, reist 1650-1694. Þar er neðri deild ítalska þjóðþingsins til húsa, Camera dei Deputati. Aðalinngangurinn er ekki frá þessu torgi, heldur frá torginu norðan við höllina, Piazza di Palamento.

Við Piazza Colonna og Piazza di Montecitorio og í nágrenni þeirra eru byggingar stjórnmálaflokka og fjölmiðla. Við Via Uffici del Vicario, sem liggur út frá Piazza di Montecitorio, á nr. 36, er veitingahúsið Piccola Roma.

Þá er bara eftir austurhluti miðbæjarins.

Næstu skref

14. Miðbær vestri – Borsa

Borgarrölt

Borsa, Roma

Borsa

Við beygjum til vinstri eftir Via del Corso, framhjá kirkjunni San Marcello, byggð á 16. og 17. öld. Íhvolf hlaðstíls-framhliðin frá 1683 er eftir Carlo Fontana.

Við beygjum aftur til hægri eftir Via di Caravita og förum að Piazza Sant’Ignazio. Þar er kristmunkakirkjan Sant’Ignazio frá 1626. Í miðlofti hennar eru freskur eftir Andrea Pozzo.

Frá torginu förum við eftir Via dei Burrò meðfram kauphöllinni Borsa inn á torgið Piazza di Pietra, þar sem við sjáum súlnarið Borsa. Hér stóð áður Hadrianusarhof í fornöld, reist á vegum Antoniusar Piusar keisara árið 145 og eru súlurnar úr því.

Næstu skref

13. Miðbær vestri – Santa Maria sopra Minerva

Borgarrölt

Santa Maria sopra Minerva, Roma

Santa Maria sopra Minerva

Við göngum vinstra megin við Pantheon að Piazza della Minerva, þar sem er egypzkur einsteinungur frá 6. öld f.Kr. á fílsbaki. Bernini átti hugmyndina að þessari uppsetningu.

Við torgið er Santa Maria sopra Minerva, eina gotneska kirkjan í Róm, frá 1280. Ferhyrnd og einföld framhliðin var endursmíðuð í endurreisnarstíl á 17. öld með óbreyttum dyraumbúnaði frá 15. öld. Framan á kirkjunni hægra megin eru sex skildir, sem sýna hæð nokkurra flóða í borginni fyrr á öldum. Mikil listaverk eru innan í kirkjunni, þar á meðal höggmynd í kórnum af Kristi eftir Michelangelo.

Palazzo Doria

Facchino, Roma

Facchino

Við förum meðfram kirkjunni hægra megin eftir Via di Santa Caterina da Siena og í beinu framhaldi af henni eftir götunum Via Piè di Marmo, Piazza del Collegio Romano og Via Lata að hinni beinu aðalgötu Via del Corso, sem skilur sundur gamla og nýja miðbæinn.

Frá suðvesturhorni Piazza del Collegio Romano er gengið inn í málverka- og höggmyndasafnið í Palazzo Doria Pamphili, höll frá 1435. Þar má sjá sum af frægustu verkum Caravaggios, svo sem flóttann til Egyptalands; Donna Olimpia eftir Algardi; brjóstmynd af Innocentiusi X eftir Velasquez; og verk eftir Titian, Rafael, Correggio og Carracci-frændur.

Við Via Lata, nálægt horninu við Corso, er þekktur brunnur, Facchino, upp við vegg Banco di Roma. Þetta er höggmynd af drykkfelldum vatnsbera.

Næstu skref

12. Miðbær vestri – Pantheon

Borgarrölt

Pantheon, Roma 2

Pantheon

Síðan höldum við til vinstri eftir Via Sant’Eustachio og til hægri eftir Salita di Crescenzi inn á Piazza della Rotonda.

Hér erum við komin að bezt varðveittu fornbyggingu Rómar, hofið Pantheon, með frægu hringhvolfi frá 119-128, reistu á vegum Hadrianusar keisara á rústum fyrra hofs, sem Marcus Agrippa lét reisa 27 f.Kr. Það hefur staðið af sér allar hremmingar í nærri nítján aldir.

Upphaflega voru utan á hringhvolfinu bronzflögur, Pantheon, Romasem Constantinus keisari lét ræna 356 og flytja til Miklagarðs. Ennfremur voru í anddyrinu bronzplötur, sem páfinn Urban VIII af Barberini-ætt lét ræna 1624 til að steypa hásætishiminn Péturskirkju. Þá sagði hinn frægi Pasquino: Quod non fecerunt Barbari, fecerunt Barberini (Það sem barbarar gerðu ekki, það gerðu Barberinar) Að öðru leyti varðveittist hofið, vegna þess að því var breytt í kristna kirkju.

Framhlið Pantheons er eins og hefðbundið grískt hof með miklu, tvöföldu súlnaporti undir gaflaðsþríhyrningi. Súlurnar sextán eru einsteinungar úr graníti. Inn í sjálfa hringkirkjuna er gengið um voldugar bronsdyr, sem eru upprunalegar.

Hringkirkjan er 43,30 metrar í þvermál og jafnmargir metrar á hæð. Hvolfið, sem er breiðara en hvolf Péturskirkju, var einstætt verkfræðiafrek á sínum tíma, fegursti minnisvarði þeirrar tækni Rómverja að leiða burðarþol um hvolf niður í veggi og súlur. Efst uppi er tveggja metra, hringlaga op, sem hleypir inn ljósstaf sólar.

Neðst skiptast á súlnarið framan við kapellur, sem eru til skiptis hálfhringlaga og kantaðar; og veggfletir með helgiskrínum, þar sem skiptast á bogadregin gaflöð og þríhyrnd. Þessi form úr Pantheon voru síðan stæld endalaust, einkum á tíma endurreisnarstíls.

Útliti hæðarinnar ofan súlnanna var breytt á 18. öld. Yfir þriðju kapellunni hægra megin hefur þessu aftur verið breytt í upprunalegt horf til samanburðar.

Í kirkjunni eru steinkistur tveggja Ítalíukonunga og nokkurra listamanna, þar á meðal Rafaels.

Við götuna Via della Rosetta, á nr. 8-9, er veitingahúsið Rosetta.

Næstu skref