3. Miðbær eystri – Mausoleo di Augosto

Borgarrölt

Masoleo di Augusto, Roma

Mausoleo di Augosto

Via del Corso liggur þráðbein gegnum miðbæinn, þar sem Via Flamina var í fornöld. Þetta er helzta verzlunar- og bankagata Rómar, svo og skrúðgöngugata, liggur milli Piazza del Popolo og Piazza Venezia, 1500 metra leið. Við göngum hana til Via Pontefici, þar sem við göngum til hægri framhjá Mausoleo di Augosto.

Hringlaga grafhýsi Augustusar keisara var reist 28-23 f.Kr og varð þá einn af mestu helgistöðum Rómar. Þar var Augustus grafinn og nokkrir helztu ættingjar hans. Það var hringlaga bygging með jarðvegshaug ofan á og voldugu líkneski af keisaranum efst, líkt og grafhýsi Hadrianusar, sem áður var fjallað um.

Á 12. öld var því breytt í virki. Páfinn Gregorius IX lét eyðileggja það og ræna úr því kalksteininum á fyrri hluta 13. aldar. Löngu seinna var grafhýsið notað sem nautaatshringur og síðar leikhús, en rústirnar hafa nú verið friðaðar.

Næstu skref