Sé enga neyðarbraut

Punktar

Gott er að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, hindri hann áform um byggingar á svæðinu. Hins vegar vil ég ekki, að Reykjavíkur-hatarar beiti ríkisvaldinu gegn rétti sveitarfélaga til skipulagsmála. Frumvarp Höskuldar Þórhallssonar um það efni tel ég fráleitt rugl. Verr er mér þó við siðleysið, sem einkennir baráttu „flugvallarvina“. Umrædd braut hefur aldrei verið, er ekki og verður aldrei nein „neyðarbraut“. Hún er bara ónýt og ónotuð braut. Ljótt er að ljúga fögru orði upp á það, sem ekkert er. Alveg eins mætti kalla Framsókn góðgerðasamtök. Þótt ég hafni byggð í Vatnsmýri hafna ég enn frekar siðleysi „flugvallarvina“.

Hangir allt á höftunum

Punktar

Már seðlabankastjóri er enn að veltast fyrir mér. Ég þarf að skrifa um annað, en sé hann samt hvað eftir annað fyrir mér í síðasta sjónvarpsviðtali. Ég verð bara hissari og hissastur. Þarna stendur heimsins aumasti seðlabankastjóri og talar með rembu Ólafs Ragnars Grímssonar um, að Ísland sé bezt í heimi, öfundað af umheiminum. Maðurinn er galinn. Í veruleikanum hangir allt hagkerfi Íslands á höftunum og telst aumasta ríki vesturlanda. Hér eru innviðir þjóðfélagsins að bresta, sjúkrahús og skólar. Hér getur láglaunafólk ekki lifað af launum sínum. Einstæðir, aldraðir og öryrkjar éta það sem úti frýs. Og Már rífur bara kjaft

Botninn er fundinn

Punktar

Skoðanakannanir sýna hægfara hnignun á fylgi ríkisstjórnarinnar. Sveiflur milli flokka felast í að fólk rambi milli lítt vinsælla stjórnarflokka, stundum með viðkomu í Bjartri framtíð. Er Sjálfstæðis fer niður, fer Framsókn upp og öfugt. Segir mér, að þessir tveir flokkar hafi fundið botninn í sameiginlegu fylgi upp á 35%. Sem gæti farið upp í 40% með smávægilegu rölti úr Bjartri framtíð. Þegar fylgisbotn bófaflokka fer ekki niður fyrir 35%, má vera ljóst, að erfitt verður að mynda stjórn án aðildar bófanna. Ekki bætir úr skák, að hvorki Samfylkingin né Vinstri grænir megna að draga til sín neitt fylgi. Flýðu því, ef þú getur.

Takk fyrir fésbókina

Punktar

Fésbók er frábær viðbót við blogg. Þar eru umsvifalaust teknar fyrir firrur og lygar, falsanir og hræsni pólitíkusa. Firrunum er slátrað lið fyrir lið. Væri ekki blogg og fésbók, hefðum við bara Sprengisanda á hefðbundnum fjölmiðlum. Drottningar kæmu bara í röðum með sínar firrur og lygar, falsanir og hræsni, án þess að þáttarstjórnandi æmti. Sem betur fer er hliðvarðar-hlutverki fjölmiðla lokið. Að vísu fylgist varla nema þriðjungur þjóðarinnar með hliðvörzlu bloggs og fésbókar. Samt stærri hluti en áður fylgdist með fréttum og fréttaskýringum fjölmiðla. Vonandi megnar ný samskiptatækni að hrista upp í sofandi kjósendum.

Juncker er stórbófi

Punktar

Þá er helzti fjárglæframaður Evrópu orðinn forstjóri Evrópusambandsins, ekki er það gott. Jean-Claude Juncker var forsætisráðherra Luxemborgar og innsti koppur í búri skattasvindls, sem hafði hundruð milljarða af öðrum Evrópuríkjum. Hann á að segja af sér umsvifalaust, en gerir það líklega ekki, því hann er siðblindur pólitíkus og bófi. Fyrirrennarinn José Manuel Barroso var afleitur, en hafði þó ekki glæpi af tagi Junckers á bakinu. Á sama tíma er Evrópusambandið að semja við Bandaríkin um, að helztu glæpafyrirtæki heims fái réttarstöðu þjóðríkja í ágreiningi við Evrópu. Með hverri viku færist Evrópa lengra í myrkur auðbófa.

Legalismi rústar réttlæti

Punktar

Þorvaldur Gylfason telur, að pólitíkusar hafi slæm áhrif á gerð stjórnarskrár. Þeir séu nefnilega flestir oftast með sérhagsmuni fremur en almannahagsmuni í huga. Reynslan sýnir, að það er rétt. En önnur stétt á ekki heldur að koma að gerð stjórnarskrár. Það eru lagatæknar, allra sízt þeir, sem hanga í legalisma. Stjórnarskrá er sáttmáli þjóðar um þjóðfélag, sem hún vill hafa. Þar á meðal um réttlæti og þjóðareign, sem prófessorar að hætti Njálu skilja ekki. Dómarar eiga að skilja lög út frá stjórnarskrá og vilja löggjafans. Hafna undarlegum orðskýringum, hafna legalisma að hætti Njálu. Legalismi rústar öllu réttlæti.

Siðmenningin er trúlaus

Punktar

Trú hætti að vera þáttur í vestrænni siðmenningu fyrir rúmlega tveimur öldum. Menningin var orðin trúlaus um alla Evrópu, jafnvel í Tyrklandi. Heimspekingar höfðu áður sýnt fram á, að siðmenning þarf ekki að tengjast trú eða musterum. Arfurinn frá Grikklandi sýndi, að trú er ekki nauðsynlegur þáttur siðmenningar.  Formlega urðu tvö ríki veraldleg í lok átjándu aldar, Bandaríkin og Frakkland. Trú varð að einkamáli, hætti að vera málefni ríkisvaldsins. Ísland er afskekkt á jaðri siðmenningar og hér tala klerkar enn um trú sem hornstein góðra siða. Þjóðkirkjan er frosin og biskup verður sér ítrekað til skammar fyrir fáfræði.

Vankaður seðlabankastjóri

Punktar

Seðlabankastjóri segir að útlendingar dauðöfundi Íslendinga. Ég held hann sé á einhverjum miður heppilegum lyfjum. Hann segir ferlið í himnastandi, hagvöxtur mikill, ef fólk heimti aðeins 3% hækkun. Vill, að almenningur hafni fordæmi Más Guðmundssonar, sem lengi barðist fyrir stórhækkuðum eigin launum. Útlendingar vorkenna Íslendingum, hvað sem Már segir. Hagvöxtur er aukin viðskiptavelta, sem kemur örfáum greifum að gagni. Almenningur sér ekkert af þessum svokallaða hagvexti, alls ekkert, enga evru, ekki einu sinni krónu. Hann er mest misnotaða hugtak í gjaldþrota hagfræði, sem byggist á, að setja trúarrugl upp í excel.

Könnun og ekki könnun

Punktar

Könnun Fréttablaðsins um vilja fólks um næsta forseta var hefðbundin könnun, þar sem reynt var að líkja eftir samfélaginu. Þannig eru marktækar kannanir og alls ekki öðruvísi. Atkvæðagreiðsla meðal notenda útvarps Sögu er engin tilraun til nálgunar samfélagsins í heild. Er bara spurning í sjálfvöldum hópi, eins og spurning í litlum stjórnmálaflokki, til dæmis Framsókn. Því er ekki ástæða til að örvænta, þótt svörin hjá Sögu sýni mikið fylgi við Ólaf Ragnar Grímsson. Hann er forsetaefni fólksins, sem notar útvarp Sögu. Það er ekki stærri hópur en stuðningsmenn flokks Pírata, er mundi gefa allt aðra útkomu. Sem betur fer

Þegar Ögmundur stjórnaði

Punktar

Þegar landhelgisstjórinn og ríkislögreglustjórinn svitna í sjónvarpinu á efri vör, minnist ég Ögmundar Jónassonar sem innanríkisráðherra. Hann vissi vel af þessum rugludöllum og vopnasmyglurum í ráðherratíð sinni og amaðist ekki við þeim. Varði jafnvel Harald Johannessen og endurréð hann, þegar tími hans rann út. Það er nefnilega ekki nóg að hafa heiðarlega ráðherra, ef þeir taka ítrekað rangan pól í hæðina. Eða hugsa svo reikult, að þeir geta bara aldrei komizt að niðurstöðu. Ögmundur er dæmi um, hvernig hægt er að klúðra mikilvægu embætti á brýnum tíma í Íslandssögunni. Fleiri hafa verið óhæfir en núverandi ráðherrar.

Sökudólgarnir: Skúringakerlingar

Punktar

Ríkisstjórnin hefur fundið, hvað var að í kerfinu. Hvers vegna var svo erfitt að fá kassann til að stemma um áramót. Þetta voru margir áður búnir að fatta í sínum fyrirtækjum. Í öllum tilvikum eru hrun og kreppur skúringakerlingum að kenna. Þær soga til sín þúsundkalla, sem betur ættu heima hjá fjölþjóðlegum fyrirtækjum, sem kunna að halda niðri launum. Í hverju fyrirtækinu á fætur öðru losa framsýnir stjórnendur sig við helvítis kerlingarnar. Og nú hafa Sigmundur og Bjarni fengið sömu hugljómun. Ráku átján skúringakerlingar úr ráðuneytunum. Því má búast við betri tíð með blóm í haga hjá hallalausum ríkissjóði næstu ár.

Georg spillir samskiptum

Punktar

Georg Láruson segir talsmann norska hersins misminna, að Landhelgisgæzlan hafi óskað leyndar um samninginn um hríðskotabyssur. Forstjóri gæzlunnar hafði áður sagt talsmanninn fara rangt með önnur atriði. Meint misminni talsmannsins er skriflegt í svari norska hersins við fyrirspurn fjölmiðla um leynd. Hann segir líka, að samningurinn sé ekki leyndarmál, þótt Georg forstjóri segi hann vera Nató-leyndarmál. Gaman verður, er hinn staffírugi forstjóri sníkir næst vopn. Viðbrögð norska hersins verða töluvert kuldalegri eftir allt sem Georg hefur opinberlega borið upp á hann. Það kostar glás að flýja úr einni lygi í aðra.

Lygamælir dugar ekki

Punktar

Glöggur maður gaukaði að mér hugmynd í dag um, að fréttastofur festi lygamæli á pólitíkusa í viðtali. Vísir lygamælisins væri sýndur í einu horni á skjánum meðan þeir ryðja úr sér firrum og fölsunum. Ég efast um, að lygamælir dugi, þegar einbeittir siðblindingjar eru á skjánum. Vísir mælisins mundi ekki bifast hið minnsta, þótt Sigmundur Davíð segði álit sitt á öllum atriðum mótmælanna. Hann hefur fyrir löngu ákveðið að lifa í sínum eigin sýndarveruleika. Býr í gluggalausum helli umvafinn hrifningu meðreiðar-örvita. Hví skyldi hrokafulla drottningin í Undralandi viðurkenna veruleika þúsunda góðborgara á Austurvelli?

Ekki lögformleg leið

Punktar

Í vor gerði ég lista yfir Newspeak valdhafanna, sem snúa öllu á haus. Hafa gert lygina að leiðtoga lífs síns. Síðan komu fleiri nýyrði í sarpinn. Dásamlegust eru orðin um vopnasmygl forstjóra landhelgisgæzlunnar. Það heitir á Newspeak: „Ekki flutt inn með lögformlegum leiðum“. Annað skemmtilegt nýyrði er frá SDG í gær: „Ég hef efnt öll loforð“. En hér er listinn:
„Tafarlaust“ þýðir: kannski einhvern tíma.
„Bein útlending“ þýðir: niðursoðin útsending.
„Ekki einkavæðing“ þýðir: einkavinavæðing.
„Ómöguleiki“ þýðir: óþægindi.
„Óframfylgjanleiki“ þýðir: pirringur.
„Heiðarleiki“ þýðir: svikið kosningaloforð
„Varnagli“ þýðir: svikið kosningaloforð.
„Vanda þarf umræðuna“ þýðir: haltu kjafti.
„Vangaveltur“ þýða fjárlög,
„Kosningaloforð“ þýða vangaveltur.
„Strax“ þýðir: aldrei.
„Auðvelt“ þýðir: óframkvæmanlegt.
„Þjóðarsátt“ þýðir: gerræði ráðherra.
„Friðlýsing“ þýðir: fjölgun virkjanakosta.
„Hagræðing“ þýðir: niðurskurður.
„Samstaða“ þýðir: hlýðni.
„Verður varin“ þýðir: lögð niður.
„Óhefðbundinn“ þýðir: lyginn Frosti.
„Hugsar upphátt“ þýðir: lygin Vigdís.
„Tékki í pósti“ þýðir: nefndir & engar efndir.
„300 milljarðar“ þýðir: reiknivél
„Reiknivél“ þýðir: stærsta upplýsingaverkefni sögunnar
„Vondir vogunarsjóðir borga“ þýðir: þú borgar
„Sýnum pínu mannúð og mildi“ þýðir: spörkum í hælisleitendur
„Það er skylda okkar“ þýðir: við komumst upp með það
„Nú er það svo“ þýðir: ég vildi að það væri svo
„Samkvæmt alþjóðaskuldbindingum“ þýðir: gerræði mitt
„Róttæk rökhyggja“ þýðir: stjórnlaust bull
„Hagsmunaaðilar“ þýðir: almenningur
„Heimsmet“ þýðir: vanefnt kosningaloforð
„Forsendubrestur“ þýðir: ég borga ekki
„Almenn aðgerð“ þýðir: sértæk aðgerð fyrir ríka
„Starfsgetumat“ þýðir: lækkun örorkubóta
„Var í doktorsnámi“ þýðir: náði ekki prófum
„Skipulagshagfræðingur“ þýðir: SDG viðskiptafræðingur
„Rekstrarhagfræðingur“ þýðir: Frosti viðskiptafræðingur
„Ánægð með mótmæli“ þýðir: ekki verður tekið mark á þeim.
„Spilahöll“ þýðir: spilavíti
„Atvinnulífsfélagsfræði“ þýðir: pylsusala í Skagafirði
„Skuldaleiðrétting“ þýðir: millifærsla
„Heimilin í landinu“ þýðir: heimili tekjuhárra
„Samtök atvinnulífsins“ þýðir: félag pilsfaldakapítalista
„Framsókn“ þýðir: flokkur afturkarla
„Hagvöxtur“ þýðir: meira brask
„Sjávarútvegurinn“ þýðir: kvótagreifar
„Launaleiðrétting“ þýðir: launahækkun
„Hagsmunaverðir svartnættisins“ þýðir: þeir sem gagnrýna SDG
„Skattalækkun“ þýðir: lækkun skatta hinna ríkustu
„Einföldun skattakerfisins“ þýðir: lækkun hæsta þrepsins
„Málfrelsi í hættu“ þýðir: lygar forsætisráðherra eru gagnrýndar
„Í þjóðarþágu“ þýðir: í þágu kvótagreifa og vinnslustöðva
„Evran er á síðasta snúningi“ þýðir: hækkandi gengi evrunnar
„Eitraður matur frá Evrópu“ þýðir: ódýrari og hollari matur
„Stenzt vart gæðakröfur háskólans“ þýðir: Vigdís stenzt vart gæðakröfur
„Staðreyndirnar hafa breytzt“ þýðir: ég þurfti að ljúga
„Fyrir fólk sem þarf að lita hárið sjálft“ þýðir: óþörf aðgerð
„Hrægammar“ þýðir: skattgreiðendur og séreignarsparendur
„Fara á svig við sannleikann“ þýðir: ljúga
„Skattaundanskot“ þýðir: skattsvik
„Réttlæti“ þýðir: ríkir fá sama skuldaafslátt og fátækir
„Leiðrétting“ þýðir: íslenzka krónan virkar ekki
„Hagsmunir Íslendinga“ þýðir: hagsmunir kvótagreifa og vinnslustöðva
„Þú hefur ekki kynnt þér málið“ þýðir: ég hef ekki skárri rök
„Svo því sé haldið til haga“ þýðir: nú ætla ég að ljúga
„Upplýsingar um stöðu mála“ þýðir: rógur um hælisleitanda
„Stækkun friðlands“ þýðir: virkjun í friðlandi
„Afhendingaröryggi til almennings“ þýðir: risaturnar vegna álvera
„Ekki loforð um þjóðaratkvæði“ þýðir loforð um þjóðaratkvæði
„Ekki meiðandi leki“ þýðir: rógur um hælisleitanda
„Samantekt“ þýðir: minnisblað
„Ekki boðsferð“ þýðir: boðsferð
„Orð þín dæma sig sjálf“ þýðir: ég gefst upp
„Hið fornkveðna“ þýðir: hugdetta mín
„Fer eftir lögum“ þýðir: brýtur verklagsreglur
„Ég vísa þessu til föðurhúsanna“ þýðir: ég hef engin rök
„Ég vona að sátt verði um það“ þýðir: ég rek það ofan í kok á þér
„Bara formsatriði“ þýðir: landslög
„Auðgunarbrot“ þýðir: rán, þjófnaður
„Ég hef efnt öll loforð“ þýðir: ég hef ekki efnt eitt einasta loforð
„Við þurfum að hagræða á öllum sviðum“ þýðir: við hagræðum sannleikanum
„Ekki flutt inn með lögformlegum leiðum“ þýðir: smyglað

Heimskt andlit hrokans

Punktar

Karl Garðarsson er allt í einu orðinn andlit hroka og heimsku stjórnvalda. Út um þúfur fór misheppnuð tilraun hans til að hlæja að mótmælendum. Hún sýndi firrtan þingmann, sem fattar ekki, hvers vegna fjöldi fólks varð ofsareiður. Sýndi innanbúðarmann í gluggalausum turni, þar sem heimskir þingmenn dansa af hrifningu kringum siðblindan forsætisráðherra. Er sagðist strax ná peningum af svokölluðum hrægömmum, en tekur löngu síðar skiptimynt af skattgreiðendum. Er stýrir ríkisstjórn, sem eingöngu hugsar um hagsmuni hinna ríkustu. Og sem gefur með hroka og dólgshætti skít í alþýðu manna. Vankaður Karl varð andlit hrokans.