Sökudólgur stöðnunar

Punktar

Alþjóða efnahags- og framfarastofnunin hefur fundið orsök stöðnunar efnahags á Vesturlöndum. Sökudólgurinn er brauðmolakenningin, sem fylgt hefur verið í kjölfar Reagan og Thatcher. Hún hefur aukið bilið milli ríkra og fátækra, mest í Bandaríkjunum og næstmest í Bretlandi. Í Bandaríkjunum vinnur fólk sig ekki lengur upp stigann, heldur lokast inni á lægsta þrepinu. Hinum fátæku fjölgar. Til viðbótar gamlingjum, öryrkjum og einstæðum er nú komið láglaunafólk, sem ekki á fyrir nauðsynjum. Það dregur úr veltu og eykur spennu í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þar er vopnaðri löggu sigað á fátæklinga. Við erum síðbúin á sömu ógæfubraut.

Brúkuðu flatskjáirnir

Punktar

Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður hefur fundið upp íslenzka sérútgáfu hinnar úthrópuðu brauðmolakenningar. Lægri vörugjöld á tækjum séu góð fyrir fátæka. Þeir geti nefnilega keypt brúkaða flatskjái hinna ríkustu, er þeir síðarnefndu fá sér nýja og stærri. Þannig muni ríkidæmið sáldrast niður til fátækra. Það mun að vísu ekki standast frekar en upprunalega brauðmolakenningin. Alþjóða efnahags- og framfarastofnunin segir þá kenningu hafa valdið miklum skaða. Brauðmolakenningin er sögð hafa leitt til stöðnunar. Brauðmolarnir sáldrist ekki til fátækra, heldur aukist stéttaskipting og reiði fátækra magnist.

Stríðið gegn þjóðinni

Punktar

Seðlabankastjóri er í öngum sínum yfir nýjum útreikningum Hagstofunnar. Þeir sýna engan hagvöxt á þessu ári, þvert ofan í spár Seðlabankans. Hagstofustjóri svarar með því að segja reikningsaðferðir þær sömu og áður. Raunar er hagvöxtur ónothæf forsenda, þar sem hann mælir ekki hagvöxt, heldur viðskiptaveltu. Fólk heldur einfaldlega að sér höndum í jólaösinni. Eigi það pening, eyðir það ekki. Reiknar með frekari ofsóknum SDG og BB. Þeir hafa hækkað lyfjakostnað, hrakið heilsuveilt fólk til dýrari einkabransa, hækkað matarskatt, dregið úr velferð. Hækka allt, sem leggst þungt á fátæka. Fólk svarar með að eyða ekki að óþörfu.

Prinsessur dáleiða dómara

Punktar

Tvær prinsessur dáleiddu evrópskan dómstól, önnur óvart. Díana dó 1997 og Evrópuþingið samþykkti 1998 ályktun um verndun fólks gegn ónæði fjölmiðla. Áður var bara vernd gegn ofsóknum valdasjúks ríkisvalds. Stjórnlagadómstóll Þýzkalands hafnaði breytingu Evrópuþingsins í Karólínudómi 1999. Prinsessa númer tvö, Karólína af Mónakó, hafði kært birtingu mynda af sér á veitingahúsi. Síðan úrskurðaði Evrópudómstóllinn henni í hag 2004. Þýzka ríkið greiddi henni skaðabætur, en rukkaði ekki hina ákærðu fjölmiðla. Allt er því eins og áður var. Lítið mark er tekið á úrskurði Evrópudómstólsins. Talinn vera feilskot.

Einn þáttur af mörgum

Punktar

Ásatrú er mikilvægur þáttur í siðfræði Íslendinga. Þjóðartrú á fyrstu öldunum arfleiddi komandi kynslóðir að siðfræði Hávamála. Landslög fram eftir öldum voru mótuð af germanskri hefð og enn höldum við jól. Á síðustu öldum kom Rómarréttur til sögunnar og gaf okkur siði þeirra laga, sem við nú búum við. Grískir siðir móta okkur líka. Grikkir tóku við kristni og þróuðu hana áfram, samanber Pál postula. Síðan komu endurreisn og franska byltingin, sem fluttu okkur grísk-rómverska hefð. Rangt er hjá þjóðkirkjumönnum að íslenzk siðmennt sé kristin. Kristni er einn þáttur af mörgum í þjóðinni. Einn af mörgum.

Enginn hagvöxtur

Punktar

Svokallaður hagvöxtur er enginn á þessu ári, þrátt fyrir spár ríkisstjórnar og seðlabanka. Nú binda þau vonir við, að þetta lagist með innkaupaæði jólanna. Sú fróma ósk sýnir í hnotskurn, hversu vitlaus mælikvarði er svonefndur hagvöxtur. Hann sýnir raunar engan hagvöxt heldur aukningu á viðskiptaveltu. Hin úrelta hagfræði, sem hér er rekin, þrýstir upp eyðslu, því hún sýnir falskan hagvöxt. Auðvitað eiga allir að spara, sem sparað geta. Framtíðin er í algerri óvissu. Kjarasamningar eru lausir og verkalýðsrekendur hemja ekki reiði félagsmanna. Snjóhengjan vofir yfir okkur og krónan er á heimsins dýrustu bráðaþjónustu.

Texti er ein heild

Punktar

Sýkna Reynis Traustasonar og Jóns Trausta Reynissonar í Hæstarétti færir dóma aftur í fyrra horf. Liðið er það tímabil, að lagatæknar gátu hengt sig í stök orð í meiðyrðamálum. Meta verður ritað efni „sem eina heild“. Lagatæknar mega ekki festa sig í textaskýringum einstakra orða eins og þau hafi sjálfstætt gildi. Tungumál er ekki stök orð, heldur fljótandi heild með inntaki, sem næst ekki með orðhenglum lagatækna Njálu. Í Vestur-Evrópu var aldrei innleiddur sá orðhengilsháttur, sem íslenzkir dómarar hafa beitt. Loksins nú má búast við að meiðyrðadómar í Hæstarétti fylgi vestrænum skilningi á texta „sem einni heild“.

Enn gefnar auðlindir

Punktar

Nú eru góð ráð dýr. Eftirlitsstofnun EFTA grunar, að stjórnvöld séu að láta skattgreiðendur niðurgreiða orku til kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Slíkt stríðir gegn reglum fríverzlunarsvæðisins gegn óhóflegum fyrirgreiðslum. Eftirlitsstofnunin efar, að orkuverðið dekki kostnað við Þeistareykjavirkjun. Þar veldur miklu fimm milljarða fyrirgreiðsla skattgreiðenda við tengivirki og orkuflutning. Þessi afstaða sýnir, að enn er í fullu gildi sú séríslenzka stefna, að stóriðja skuli fá niðurgreidda orku. Þannig leggi hún ekki neitt af mörkum í eðlilega auðlindarentu. Enn er þjóðin látin gefa auðlindir sínar.

Veruleikaflóttinn

Punktar

Enn er forsætis á flótta frá veruleikanum. Mætir nánast aldrei til alþingis, jafnvel ekki þegar aðalmál ríkisstjórnarinnar er rætt. Getur ekki heldur skýrt skulda-niðurfellinguna og svarar engum spurningum þingmanna um hana. Þannig er öll hans pólitík. Hann er meira eða minna í felum, en skýst fram endrum og eins til að boða stærri heimsmet en nokkru sinni fyrr. Þá sjaldan sem hann sést, hreytir hann ókvæðisorðum í þingmenn og hefur sig jafnóðum á burt. Hegðun hans er einsdæmi í sögu íslenzkra forsætisráðherra. Hann mun áfram lifa í Undralandi sínu unz fávísir kjósendur sjá gegnum hans og segja honum, að nú sé komið nóg.

Heilbrigði í afgangi

Punktar

Ísland er vel innan við þau 10% landsframleiðslu, sem heilsuþjónusta kostar í nágrannalöndunum. Hlutfallið hefur lækkað á stuttum ferli ríkisstjórnar, sem vill laska ríkisrekna þjónustu. Lækkunin stafar ekki af fátækt ríkisins, því að ríkisstjórnin hefur kastað tugum milljarða í auðgreifa. Lækkun stafar af, að heilbrigðismál eru ekki forgangi, þau eru í afgangi. Smádæmi um forgangsröðun stjórnarinnar er, að forsætis er kominn með sjö aðstoðarmenn og getur samt ekki svarað spurningum fjölmiðla. Ríkið er rekið af heimskum bófum, það er einföld staðreynd. Óhugsandi er, að nokkur önnur stjórn mundi drepa fólk á biðlistum.

Svona gerir maður ekki

Punktar

Um náttúrupassann gildir spakmæli Davíðs Oddssonar: Svona gerir maður ekki. Það fer þvert ofan í kjósendur, að þeir eigi að borga sérstakan passa til að skoða landið. Það eitt gerir hann að einstæðri heimsku ráðherrans. Fólk hafnar honum þó ekki af nízku. Almennt vilja menn hækkun gistináttagjalds, sem kostar ekkert nýtt vesen. Margt annað fáránlegt er við þennan passa. Ragnheiður Elín hlustar alls ekki, ekki á hagsmunaaðila og ekki á almenning. Hirðir ekki um landslög, sem forskrifa frjálst aðgengi fólks. Einnig kostar passinn stórfé í eftirliti, sem ekki þarf, þegar gjaldinu er bætt ofan á gistináttagjald. Einstæð fávísi.

Ofstæki Landsnets

Punktar

Sumir trúa á þennan eða hinn guðinn. Sjaldgæft er, að fólk trúi á dauða hluti. Svo er þó um forstjóra Landsnets, sem hafa tekið trú á úreltan flutning raforku um loftlínur. Neita að kynna sér verðlækkanir á 220 KV jarðstrengjum erlendis. Í Danmörku hefur verðið á skömmum tíma hrunið úr 87 milljónum á kílómetra í 36 milljónir á kílómetra. Er orðið sambærilegt við verð á loftlínum. Þar á ofan standast jarðstrengir ofsaveður á Sprengisandi og almenn sátt ríkir um þá. En ofsatrúað Landsnet reynir að koma illu af stað. Þjösna gegnum alþingi lögum og ályktun um raflínur, sem gera ráð fyrir loftlínum og hamla gegn jarðstrengjum.

Fólk farið að deyja

Punktar

Það dimmir yfir heilsu landsmanna. Sérfræðilæknar vilja ekki koma heim til að starfa á Landspítalanum. Sérfræðingar þar eru ýmist að komast á aldur eða að flýja til útlanda. Læknanemar neita að fara í afleysingar á Landspítalanum. Heimilislæknar vilja ekki koma heim á heilsugæzlustöðvarnar. Þar er líka sams konar flótti og á Landspítalanum, ýmist vegna aldurs eða betri starfa erlendis. Allt er þetta vegna þess að ríkisstjórnin undir forustu Kristjáns Þórs ráðherra heilsusmála gefur skít í heilsu fólks. Hatur hennar á ríkisrekstri gengur út í slíkar öfgar, að kalla má hana geðbilun. Fólk er farið að deyja á biðlistunum.

Óhæf stofnun

Punktar

Námsmatsstofnun hefur ítrekað gert mistök í meðferð samræmdra prófa. Ýmist eru spurningar heimskulegar eða rétt svör reynast röng og öfugt eða að einkunnir eru vitlaust reiknaðar. Stofnunin veldur engan veginn hlutverki sínu. Hún getur því einu svarað, að verkferlar verði endurskoðaðir. Það er bara newspeak fyrir aðra yfirlýsingu: Látið okkur í friði. Fráleitt er að reka stofnun, sem ræður örlögum nemenda á grundvelli handarbakavinnu. Við höfum fengið nóg af fréttum af auðnuleysi Námsmatsstofnunar. Þar þarf greinilega að hreinsa út. Á tímum aðhalds í ríkisrekstri er brýnt að svona vitleysingar fái ekki að vaða uppi.

OECD vill U-beygju

Punktar

Hagstefna Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD gengur þvert á stefnu okkar ríkisstjórnar. OECD féll í gær frá fyrri brauðmola-hagspeki um, að ríkidæmi sáldaðist niður til almennings. Nú vill OECD hækka skatta á fyrirtæki og auð. Vill í staðinn efla innviði þjóðfélaga, þar á meðal velferð. Þessi nýja stefna markar dauða Reagan- og Thatcher-stefnunnar, sem lengi tröllreið vesturlöndum. Bandaríkin gengu þá lengst í að frysta stéttaskiptingu og læsa láglaunafólk í fátæktarbúri. Sú stefna var að gera vesturlönd gjaldþrota. Nú hefur jafnvel OECE séð ljósið og hvetur vesturlönd til að taka U-beygju ekki seinna en strax.