Frá vori í vetur

Punktar

Herforingjar Egyptalands er harðskeyttari hjá Sisi en áður hjá Mubarak. Þeir ofsækja alla, sem stóðu að arabíska vorinu fyrir réttum fjórum árum. Fangelsa lýðræðissinna og strangtrúaða og dæma í drákonskar refsingar fyrir mótmæli. Bandaríkin horfa á þetta með velþóknun, því að þau taka harðstjórn herforingja ævinlega fram yfir lýðræði. Þannig valda þau andstöðu við útbreiðslu lýðræðis í heiminum. Framleiða þúsundir ofstækismanna í heimi múslima á degi hverjum. Aldrei í veraldarsögunni hefur heimsveldi haft jafn fáránlega utanríkisstefnu og stríðsóð Bandaríkin hafa rekið síðustu áratugina. Sjá grein í GUARDIAN.

Fyrirmyndar páfi

Punktar

Nýi páfinn er farinn að hreinsa til í Vatíkaninu, enda gamall útkastari á næturklúbbi. Franciscus flutti þrumandi ræðu um spillingu undirmanna sinna og hafði frumkvæði að friðarferli Kúbu og Bandaríkjanna. Hefur samt tíma til að sinna umhverfinu. Viðurkennir hlýnun jarðar og varar við henni. Er því kominn í andstöðu við bandaríska kardínála og pólitíkusa, sem afneita slíkum breytingum. Enda valda orð páfa óróa meðal þeirra, sem segja umhverfisvernd í mótsögn við biblíuna. Franciscus páfi er Argentínumaður. Í hópi suðuramerískra preláta, sem vilja, að kirkjan falli frá fylgispekt við auðbófa og fari að hugsa um fátæka.

„Sænska aðferðin“ Eyglóar

Punktar

Eygló Harðardóttir talar ekki íslenzku, heldur newspeak. Með handafli tekur hún hundruð manna af atvinnuleysisskrá og bendir svo á tölurnar, sem sýna fækkun á skrá og segir bætur óþarfar. Sker niður framlög til endurhæfingar atvinnulausra og segist beita „sænsku aðferðinni“ við að efla endurhæfingu. Þetta er auðvitað stjórnlaust bull frá A til Ö. Skárri var hún áður, þegar hún talaði um, hversu fallega hugsandi hún væri sjálf og hefði jafnvel skipað nefnd. Hún gerði aldrei handtak í embætti fyrr en nú, þegar hún leggst á þá, sem minnst mega sín. Við liggur, að illskárra væri að hafa Vigdísi Hauksdóttur sem framsóknarráðherra.

Dýrð Seltjarnarness

Punktar

Hafin er kosningabarátta fyrir bæjarstjórnarkosningar 2018. Sjálfstæðisfélag Seltjarnarnes sendi mér í lúguna í dag áróðursrit á kostnað bæjarsjóðs. Því er dreift um gervallt landið, því miklu skiptir, að allir viti um geðveikt flott Seltjarnarnes. Þar ríkir ferleg hamingja á öllum sviðum, enda hefur allur vandi mannlegra samskipta verið leystur. Þar syngja allir „Seltjarnarnesið er fagurt og frítt“. Þar rignir ekki einu sinni og þar hreyfir ekki vind. Okkur þessum fáu af Nesinu, sem erum á leið til Himnaríkis, mun vafalaust finnast oss þar í kot vísað, hafandi áður notið langvinnrar dýrðar Kim Il Sung og nú síðast náðar Kim Jong Il.

Olíuverð áfram hrunið

Punktar

Á hálfu ári hefur olía fallið um helming í verði á Brent mælikvarða, úr 115 dollurum á tunnu í 61 dollar. Ekkert bendir til, að hún hækki senn í verði. Ali al-Naimi, olíuráðherra Sádi-Arabíu, SEGIR, að framleiðsla verði ekki dregin saman, þótt verð fari niður í 20 dollara. Núverandi verð mundi koma skýrt fram í olíuverði á Íslandi, nema fyrir samráð olíufélaga um okurverð. Hins vegar er þetta slæmt fyrir olíuríki eins og Rússland. Rússar munu til dæmis eiga erfitt með að borga fyrir innflutning á íslenzkum fiski. Mun koma niður á makrílverði. En ríkisstjórnin á að knýja samráðs-einokunina til að stórlækka olíu og benzín.

Höfundar á bannlista

Punktar

Bækur Isabel Allende eru bannaðar í skólum Arizona samkvæmt lögum um bann við byltingaráróðri. Rit fleiri höfunda eru í banni, þar á meðal Fárviðrið eftir Shakespeare og Borgaraleg óhlýðni eftir Thoreau. Yfirvöldin taka enga sénsa á, að lýðurinn rísi upp í krafti orðsins. Víðar eru fornaldarófreskjur vestra, í Michigan var menntaskólakennari rekinn fyrir að sýna nemendum bók með Rómeó og Júlíu eftir Shakespeare. Ófreskjur valdsins hafa fyrir að finna, hvar hættur steðja að auðræðinu. Þróunarvísindi sæta vaxandi andstöðu og ófreskjurnar vilja setja sköpunartrú á stall í staðinn. En hér höfum við bara bæjarstjórann í Eyjum.

Flestir kaupa skattagögn

Punktar

Flest ríki Evrópusambandsins keyptu lista yfir handhafa þýfis í skattaskjóli. Og Luxemborg gafst fyrir sitt leyti upp á aðild að svindlinu. Margir milljarðar evra eru að skila sér í sköttum og sektum. Eitt land er þó utan þessara aðgerða. Það er Ísland, sem á þó tilkall til fjár, sem nokkur hundruð Íslendingar hafa falið. Skattrannsóknastjóri og fjármálaráðherra hafa hent þessum bolta milli sín mánuðum saman, án þess að gögnin hafi verið keypt. Það stafar auðvitað af sérstöðu Íslands sem spilltasta ríkis Vestur-Evrópu. Við erum kúguð af ofbeldi pólitískra bófaflokka, er beinlínis lifa á hlutdeild í skattasvindli greifanna.

Ekki lengur ein þjóð

Punktar

Límið er að mestu horfið úr íslenzku samfélagi. Við erum ekki lengur ein þjóð í einu landi. Núna eru bara ýmsir minnihlutar, sem hatast. Kvótagreifar sölsuðu undir sig arð þjóðarinnar og storka stórum minnihluta hennar. Umbar greifanna á þingi hyggjast lögfesta ránið á þessu ári. Að baki eru flokkasauðir, annar stór minnihluti, sem lætur hvað sem er yfir sig ganga. Jafnvel niðurrif heilsugæzlu og lækninga. Ríkisstjórnin gengur fram af þvílíku offorsi, að engar líkur eru á þjóðarsáttum. Fólk ælir bara, þegar það sér Gylfa Arnbjörnsson, umba greifanna í hjörð verkalýðsrekenda. Það mun kosta óratíma að líma samfélagið að nýju, ef einhverntíma.

300.000 krónur í vasann

Punktar

Þökkum læknum Landspítalans fyrir að sýna fram á gjaldþrot brauðmolastefnunnar. Þeir sýna í verki fram á, að þeir fara annað, þegar bófaflokkar ríkisstjórnar ætla að skammta þeim úr hnefa. Menntun lækna er nógu eftirsótt erlendis. Þess vegna geta þeir tekið forustuna af frosinni verkalýðshreyfingu. Hún þolir, að dagvinna láglaunafólks nægi ekki til framfærslu. Þjóðin á að sparka henni með bófaflokkunum, taka sér auðlindarentu af útgerð og stóriðju. Hún á að taka sér hálfa milljón á mánuði í lágmarkslaun fyrir skatta. Þrjúhundruð þúsund á mánuði í vasann ætti að halda fólki frá biðröðum í matargjöfum. Spörkum blóðsugunum.

Að vera með Orkum

Punktar

Biskup kvartaði ekki yfir fúnum og lekum Landspítala, heldur fátækum kirkjum. Við því var að búast eins og fölsunum á eign kirkjunnar á menningunni. Kristni er hluti okkar, en hún er ekki þjóðarsagan. Hér er ásatrú og Mammonstrú. Fólk skilur líka, að ekki þarf himnesk verðlaun til að haga sér vel. Siðir verðlauna sig sjálfir. En hún gekk lengra, vildi láta leiða aðkomulýð í kirkju. Þjóðrembd hugsun í stíl Flokksins í Kína, sem þvingar kristna til að nema þjóðrembu. Var að fiska í gruggugu eins og Framsókn. Mér varð illt. Þakka þó, að hún fríaði mig kirkjulausan af að vera Sannur Íslendingur. Vil sízt vera þar með Orkum.

Úreltar fyrirmyndir

Punktar

Aflið, sem „sannir Íslendingar“ hata er stærsta efnahags- og viðskiptaveldi heimsins, eins stórt og Bandaríkin og Kína til samans. Það er Evrópusambandið, sem kvelur Breta og Íslendinga með alls konar reglugerðum, til dæmis um bætta nýtingu á orku. Sannir Bretar og Íslendingar vilja ekki láta segja sér fyrir verkum. Evrópusambandsríkin verja miklu minna fé til heilsumála en Bandaríkin og ná samt þeim árangri að hafa beztu heilsukerfi í heimi. Bandaríkin eru þar í 37. sæti. En við höfum ríkisstjórn, er fylgir brezk-bandarískri brauðmolastefnu um að hossa hinum ríkustu. Ísland hefur úreltar fyrirmyndir í efnahagsmálum.

Fátækra-bissniss

Punktar

Þegar Íslendinga og Rússa skorti valútu á kaldastríðsárunum, stunduðu ríkin vöruskipti undir ríkisvæng. Við seldum þangað fisk og fengum olíu í staðinn og stundum ónýta bíla. Þetta þótti mikið hallæri. Nú skortir aftur valútu á báðum stöðum og aftur er farið að tala um vöruskipti. Rússar borga ekki lengur fyrir fiskinn, sem þeim er sendur. Pútínistar Sjálfstæðisflokksins vilja auðvitað að ríkið hjálpi fisksölum á kostnað skattgreiðenda. Sá flokkur hefur löngum verið duglegur að sukka með annarra manna peninga. Úr því að Rússar vilja ekki borga fyrir fisk, er kannski í staðinn hægt að svíða úr þeim svartolíu og ónýta bíla.

Harmsaga gjaldmiðla

Punktar

Fyrir áratug var gildi brezka pundsins ein og hálf evra. Í bankakreppunni árin 2007-2008 féll pundið niður í eina evru og fjórðung. Það gengi hefur síðan haldizt, en nú eru spár um, að pundið falli enn frekar. Dollarinn hefur þennan áratug haldið jöfnu gagnvart evrunni, en glatað yfirburðum sínum sem grunnmynt heimsins. Dollar og evra hafa í staðinn myndað tvíeyki. Einstaka myntum hefur vegnað betur, svissneskum franka og kínversku yuan, sem nú er þó farið að ramba hættulega. Í grimmum gengisheimi er ekki bara þýðingarlaust, heldur beinlínis sjálfsvíg að halda úti örmynt, sem hefur að baki langa og linnulausa harmsögu.

U-beygja lögreglustjóra

Punktar

Marklaus er Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri Hönnu Birnu. Fyrir nokkrum árum flutti hún erindi við Háskólann á Akureyri um, að lögreglan þyrfti að deila upplýsingum með almenningi. Hún þyrfti að tengjast fólkinu betur. Svo snýr hún við blaðinu, þegar hún er orðin lögreglustjóri í Reykjavík. Vill núna kerfisbundið ekki tjá sig við fjölmiðla. Á henni dynja spurningar um framferði hennar sem lögreglustjóra í Keflavík, en hún svarar engu. Margir hafa ítrekað reynt að ná sambandi við hana, en ekkert gengið. Skelfilegt dæmi um marklausan embættismann flokkspólitískan, er gerir sig breiða í fyrirlestrum án innihalds.

Ferðin eða dvölin

Ferðir

Ungur eignaðist ég bíl. Varð frjáls, gat ferðast. Ferðin skipti mig meira máli en koman og dvölin á öðrum stað. Í útlöndum voru bílaleigur. Ég gat þá farið án skipulags hvert á land sem var. Á Gullfossi var fyrsti klassi með hanastéli fyrir matinn, það var lífsstíll. Svo komu þotur með ævintýri, allt frá barnum í horninu á gömlu flugstöðinni yfir í ilm af víðum heimi í erlendum flugstöðvum. Að lokum komu svo hestaferðir með langvinnu flökkulífi, þar sem ferðin var komu og dvöl mikilvægari. Smám saman breyttist þetta, koma og dvöl urðu markmiðin. Ferðin sjálf varð að kvöl, einkum í biðröðum og í flugi. Eins og síld í tunnu.