Á ofskynjunarlyfjum

Punktar

Ráðherrar og læknar voru á ofskynjunarlyfjum, þegar þeir undirrituðu plagg um útópíu í rústum Landspítalans. Gott hefði verið plagg um, hvaða fé færi í að fá sérfræðinga og heimilislækna til að koma til landsins frá útlöndum. Hvaða fé færi í að fá lækna til að hætta við uppsagnir. Hvaða fé færi í að stytta bið eftir aðgerðum. Hvaða fé færi í að losna við myglusveppi á spítalanum. Ekki var skrifað undir neitt slíkt. Bara um fum, fúsk og loftkastala. Um nýjan spítala, beztu heilsu í heimi, frábær fjárlög og fleiri ofskynjanir forsætis. Ráðherrar efna aldrei loforð um fé, hvað þá loforð út í loftið um átök og metnað, tæki og nýjungar. Nýbúnir að reyna að kála spítalanum og ættu að liggja á geðdeildinni.

Grautar henta meltingu

Megrun, Punktar

Áreiðanlega er hollt að sníða fæði að steinaldarmönnum. Þeir höfðu milljón ár til að þróa meltinguna. Akuryrkjufæði hefur aðeins haft tíuþúsund ár til þess og verksmiðjufæði nútímans bara hundrað. Kenningar matarkúra um steinaldarfæði eru samt rangar. Fólk át eftir aðstæðum, kjöt norðan heimskautsbaugs, grænmeti sunnan hvarfbaugs. Fornleifagröftur sýnir, að steinaldarmenn þekktu ekki annað brauð en steinasteikt flatbrauð úr villikorni. Átu kjöt soðið, en ekki grillað. Þekktu ekki ávexti og grænmeti nútímans, heldur fornar útgáfur, sem nútímafólk mundi telja óætar. Fólk lifði mest á grautum úr villikorni blönduðu fiski, skordýrum og villigrænmeti.

Endurskilgreind fjölmenning

Punktar

Í Evrópu er vaxandi fylgi við pólitíkusa, sem fiska í gruggugu vatni haturs á múslimum. Framsókn reri á sömu mið í kosningunum í fyrra og uppskar óvænt tvo borgarfulltrúa. Hervirki öfgamúslima í París felur í sér stórt skref í þessa átt. Búast má við auknu fylgi múslimahatara næstu árin, ef miðlægir pólitíkusar og flokkar þeirra taka ekki á málinu. Skilgreina þarf fjölmenningu upp á nýtt með hliðsjón af spakmælinu: „Í Róm lifirðu eins og Rómverji.“ Heimafólki má ekki finnast, að verið sé að troða fjarlægum hugmyndum upp á sig. Aðlögun að siðum og reglum dvalarlands þarf að verða meginþáttur í fjölmenningarstefnu.

Eins og Rómverji

Punktar

„Í Róm lifirðu eins og Rómverji.“ Sumir múslimar eiga erfitt með að skilja það. Þegar ég er í Persíu haga ég mér eins og þarlendir. Sumir múslimar telja sig geta flutt með sér ýmsa ofsatrú, til dæmis karlrembu. Skilja ekki veraldlegt samfélag og vilja ekki aðlagast. Við slíkar aðstæður verður engin fjölmenning, bara stál í stál. Sumir múslimar eiga erfiðara en aðrir með að starfa með fólki af öðrum toga. Einangrast og láta klerka sína æsa sig upp gegn gestgjöfunum. Fjölmenningarstefna Evrópu bíður því skipbrot gagnvart sumum múslimum. Finna þarf leiðir fyrir þá inn í samfélagið eða hafna tilgangslausri aðild þeirra.

Verndun siðspilltra

Punktar

Persónuvernd úrskurðaði, að óheimilt væri að birta nöfn meðmælenda á framboðum flokkslista í Kópavogi. Birtingin sýndi, að frambjóðendur eins flokks mæltu með frambjóðendum hjá öðrum flokkum. Birtingin sýndi, að sumir pólitíkusar eru svo spilltir, að þeir reyna að skipta sér af framboðslistum annarra. Persónuvernd fannst þessi birting ótæk. Telur fréttir af spillingu vera vandamál, en ekki spillinguna sjálfa. Þannig hefur Persónuvernd starfað alla tíð. Reynir fyrst og fremst að vernda pólitíska og peningalega bófa. Reynir að breiða slæðu þagnar yfir skítinn í samfélaginu. Hún er réttnefnd Persónuvernd bófa og siðspilltra.

Gagnslaus lögregluvernd

Punktar

Franska lögreglan stóð sig illa. Henni mistókst að vernda fólk skoptímaritsins Charlie Hebdo, sem var undir verndarvæng hennar. Blaðið hefur lengi gert grín að múslimum og birt beittar skrípamyndir eins og Jyllandsposten 2005. Ljóst er, að múslimum fellur slíkt illa. Skopið er hins vegar hluti trúlausrar arfleifðar vestrænnar menningar. Það snýr jafnt að kristni og íslam. Til dæmis er í Evrópu viðurkennt að grínast megi með Jesú Krist eins og Múhameð. Múslimar, sem leita sér heimkynna á vesturlöndum, verða án skilyrða að sætta sig við siði og reglur þess heimshluta. Ríkinu ber að vernda þá, sem reita tryllt öfgafólk til reiði.

Fjölmenningin rústuð

Punktar

Fjölmenningarstefna riðar til falls. Fjöldamorð á vegum öfgamúslima í París í morgun verða Vesturlöndum tilefni til að herða varnir gegn ofbeldi öfgahópa. Finna þarf út, hvað atriði það eru í fortíð morðingja, sem leiða til slíkrar fólsku. Gildir bæði um öfgamúslima og um aðra slíka, til dæmis hægri öfgamenn eins og Breivik. Um múslima vitum við, að einstaka róttækir klerkar íslams á Vesturlöndum hvetja til óhæfuverka og lýsa fólsku sem hetjudáð. Slíkir klerkar eru til dæmis í Bretlandi og Danmörku. Einkum klerkar í söfnuðum wahabíta, kostaðir frá Sádi-Arabíu. Slíkar uppsprettur ofbeldis þarf að reka úr landi og loka viðkomandi moskum. Aðkomufólk verður að virða siði og reglur vesturlanda.

Slokknað í rústunum

Punktar

Fögnum því, að Kristján Þór hundskaðist til að semja við spítalalækna. Eldurinn er slokknaður í rústunum, hægt að fást við uppsagnir lækna, verkfall skurðlækna og tvöföldun biðlista. Ráðherrann var í felum mestan tímann, taldi enda hrun Landspítalans ágætt skref í átt til einkavæðingar að hætti Albaníu. Þvermóðska heilsuráðherra og fjármálaráðherra endurspeglaði þrá teboðsmanna í gróða af einkastofum Albaníu-Ásdísar. Samt er fyrir löngu sannað, að opinber rekstur er ódýrari og nær betri árangri. Einkaæðið byggist ekki bara á þráhyggju, heldur einnig á heimsku og mannvonzku ráðherra og þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Laga má markaðskerfið

Punktar

Þekktustu hagfræðinar heims deila um, hvort markaðskerfið hafi gengið sér til húðar. Thomas Pikkety telur aukna stéttaskiptingu óhjákvæmilegan fylgifisk markaðskerfis. Joseph Stiglitz telur aukna stéttaskiptingu vera gerviútgáfu af markaðinum. Auka megi jöfnuð í þjóðfélaginu með því að falla frá aðgerðum, sem kenndar eru við Reagan og Thatcher. Endurheimta hagvöxt með því að hækka skatta á fjármagnstekjur og erfðafé, fjárfesta meira í menntun, þrengja möguleika á einokun, takmarka tekjur bankstera, forstjóra og annarra sníkjudýra. Þannig megi efla markaðsfrelsi og hagvöxt. Ísland stefnir í öfuga átt, til stöðnunar.

Teboðskonur hylltar

Punktar

„Leyfum [mennta]kerfinu að sigla, en mölvum út úr því“. Það sagði Margrét Pála Ólafsdóttir á fundi Samtaka atvinnulífsins. Síðar mætti Ásdís Halla Bragadóttir á fund sömu samtaka og sagði: „Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri“ Látum hjá líða að ræða heimsku orðanna. Voru sögð til að freista greifa til fjárfestinga í einkareknum fyrirtækjum í menntun og heilsu. Vil bara minna á ofsalegan fögnuð fundarmanna, sem hlustuðu á tvenn skilaboð frá íslenzkum anga hins fanatíska bandaríska teboðs. Æstir atvinnurekendur telja núna vera gott færi á að rústa ríkisrekstri innviða samfélagsins.

Orð ráðherrans

Punktar

Orð nýja ráðherrans á liðnu ári:
„Við sögðum, að við myndum aldrei ganga í Evrópusambandið nema að undangenginni kosningu og við ætlum ekkert að ganga í Evrópusambandið. Þannig að það þarf enga kosningu.“ „Alveg hrífst ég af, hvað stjórnarandstaðan er hrifin af formanni mínum og ég er ekki hissa á því“.  „Hvers vegna nærist þjóðarvitundin á sífellt neikvæðum fréttum, fremur en jákvæðum?“ „Mér finnst alltaf vera mjög tortryggt allt, sem framsóknarmenn leggja til og tala um og snúið út úr því á alla enda og kanta.“ „Ég held, að menn skilji ekki alveg hugsanagang framsóknarmanna, sem mér finnst vera bara ljúfur og góður.“ „Viljum við fórna því að spara kannski einhverjar krónur í innfluttu kjöti gegn heilsuleysi síðar á ævinni. Ég segi nei takk.“
Vonandi verða verkin viturlegri en orðin.

Opinber rekstur beztur

Punktar

RÚNAR VILHJÁLMSSON prófessor hefur dregið saman niðurstöður ýmissa rannsókna á árangri mismunandi heilbrigðiskerfa. Þær sýna, að félagslegt kerfi með ókeypis heilsuþjónustu skilar beztum árangri. Blandað kerfi einkarekstrar og opinbers rekstrar að evrópskum hætti skilar árangri í meðallagi. Einkarekstur eins og í Bandaríkjunum skilar lökustum árangri. Þar er kerfið dýrast á mann og þjónar aðeins hálfri þjóðinni. Enda eru heilsa og ævilíkur lakari þar en á Kúbu, sem hefur félagslegan rekstur. Öfugt við niðurstöður rannsókna stefnir ríkisstjórn Íslands að eyðileggingu ríkisrekstrar í heilsuþjónustu. Að einkavæðingu hennar.

Síminn hringir sífellt

Punktar

Vitið þið, við hvaða útlending Vladimir Putin talaði oftast í síma á liðnu ári? Við Angelu Merkel auðvitað. Vitið þið, við hvaða útlending Barack Obama talaði oftast í síma á liðnu ári? Við Angelu Merkel auðvitað. Vitið þið, hvaða ríki heims hefur mestan útflutning á eftir Kína? Auðvitað Þýzkaland Angelu Merkel. Stendur fyrir efnahagsrefsingum, sem eru um það bil að kollvarpa efnahag Rússa. Hún er ráðandi afl í Evrópusambandi, sem hefur meiri framleiðslu en Bandaríkin og Kína. Angela Merkel var stjórnmálamaður ársins 2014. Lesið það, sem TIMOTHY GARTON ASH segir í Guardian um voldugu prestsdótturina frá Austur-Þýzkalandi.

Gallaða himnaríkið

Punktar

Þótt ég sé hrifinn af Evrópu og Evrópusambandinu, geri ég mér grein fyrir ýmsu ólagi. Jean-Claude Juncker er spilltur pólitíkus, sem ræður ekki við framtíð Evrópu. Gullni meðalvegurinn hefur ekki fundizt milli sparnaðar Angelu Merkel og atvinnuverndar François Hollande og Matteo Renzi. Sem betur fer tekur enginn samt lengur mark á David Cameron. Í Suður-Evrópu er óbærilegt atvinnuleysi og svikult Grikkland verður rekið úr evrunni. Franskir bankar tapa á yfirvofandi gjaldþroti grískra banka. Fjölmenning hefur beðið skipbrot, einkum í Þýzkalandi og Frakklandi. Evrópa verður að taka fastar á skertri aðlögunarhæfni múslima.

Albanía er fyrirmyndin

Punktar

Ásdís Halla Bragadóttir skefur ekki af skrímslinu sínu. „Albanía er ljósárum á undan okkur í valfrelsi og samkeppni í heilbrigðisrekstri“, segir hún. ALBANÍA er einmitt illræmt fyrir versta heilbrigðiskerfi Evrópu. Þar verður fólk að mestu leyti að borga sjálft fyrir ömurlega heilsuþjónustu, en auðgreifar hafa aðgang að þolanlegu kerfi. Þetta er það, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill hingað. Þess vegna er hann að rústa Landspítalanum. Vill rýma til fyrir einkareknum spítala Ásdísar Höllu. Hún er galin. Myrka miðaldaríkið Albanía er fyrirmyndin. Svartasta afturhald álfunnar er himnaríki í augum samtaka atvinnurekenda. Galið lið.