Vandræðaunglingur

Punktar

John A. McKinnon er sálfræðingur, sem stjórnar skóla fyrir vandræðaunglinga. Hann segir í International Herald Tribune, að ríkisstjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta hugsi og hagi sér eins og vandræðaunglingur. Hún tengi ekki gerðir sínar í nútímanum við afleiðingar þeirra í framtíðinni. Hún skilji ekki vináttu og sé ákaflega eigingjörn. Siðfræði og siðferði sé henni lokuð bók. Hann nefnir ýmis dæmi um þetta og önnur einkenni vandræðaunglinga, sem ríkisstjórnin þjáist af. Hann segir barnaskapinn koma unglingum í vandræði og svo muni einnig verða með ríkisstjórnina. Hann segir umhverfið fyrirlíta vandræðaunglinga, neita að hjálpa þeim og gleðjast yfir óförum þeirra. Þannig séu einmitt viðhorf umheimsins til ríkisstjórnar Bandaríkjanna.

Kemur niður á öllum

Punktar

Nóbelshagfræðingurinn Joseph Stiglitz segir í Guardian, að ekki sé ástæða fyrir umheiminn að gleðjast yfir feiknarlegu getuleysi ríkisstjórnar Bandaríkjanna í fjármálum (spectacular fiscal incompetence), sem meðal annars komi fram í rosalegum viðskiptahalla og ríkishalla, sem muni taka nýja ríkisstjórn tólf ár að laga. Hann segir, að afleiðingar fáránleikans komi niður á umheiminum, sogi til sín fjármagn, sem annars nýttist annars staðar, og valdi vaxtahækkunum, fjármagnsskorti og stöðnun, samhliða öryggisleysi á alþjóðlegum peningamarkaði og magni verndarstefnu á kostnað fríverzlunar, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur um allan heim.

Tímarnir breytast

Punktar

Er það ekki upphafið að endalokum sauðfjárræktar á Íslandi, þegar gangnamenn á Gnúpverjaafrétt fá alls enga kjötsúpu í matinn í fjallaskálum, heldur kjúklinga og reykt svínakjöt?

Járnbrautarórar

Punktar

Eitt er, að borgarskipulagið og Reykjavíkurlistann gangi með grillur um járnbrautarkerfi í Reykjavík, en alvarlegra er að láta draumóra leiða til meiri tafa en þegar eru orðnar á mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Sósíalistísk andúð á einkabílisma gengur út í öfgar hjá yfirvöldum Reykjavíkur. Hagkerfi höfuðborgarsvæðisins byggist á, að fólk og vörur komist viðstöðulaust leiðar sinnar með sem minnstum töfum af umferðarljósum. Og strætisvagnar þurfa líka að komast leiðar sinnar.

Vitlaust gefið

Punktar

Hnattvæðingarþing Heimsviðskiptastofnunarinnar í Cancun í Mexikó fór út um þúfur, af því að níutíu fátæk ríki komu sér saman um að neita að láta auðþjóðir heimsins valta yfir sig enn einu sinni. Með aðstoð hlutdrægra embættissmanna stofnunarinnar reyndu Vesturlönd að láta þingið snúast um vestræna hagsmuni í stað þess að fjalla um brottfall landbúnaðarstyrkja. Fulltrúar þriðja heims ríkjanna og hugsjónasamtaka sögðu, að vitlaust væri gefið og fögnuðu niðurstöðunni. Þeir sögðu hana vera áfall fyrir Heimsviðskiptastofnunina. Frá þessu segja Associated Press og Independent.

Fyrirmynd harðstjóra

Punktar

Verstu harðstjórar Afríku skýla sér bak við klisjur frá George W. Bush Bandaríkjaforseta og segjast til dæmis vera að “útrýma” hryðjuverkum. Þeir skýla sér bak við ný bandarísk lög, sem takmarka borgaralegt frelsi. Þeir hafna alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum og neita eins og Bandaríkin og Ísrael að taka mark á alþjóðalögum. Þeir halda mönnum án dóms og laga eins og Bandaríkin gera í Guantanamo-flóa. Þeir reka eins og Bandaríkin hrikalegan hallabúskap á fjárlögum til að fjármagna hervæðingu. Frá þessu segir Shehu Sani í International Herald Tribune.

Stjarnfræðilegt tap

Punktar

Allur kostnaður við árásir Bandaríkjanna á önnur ríki er greiddur með lántökum ríkissjóðs. Hallinn á fjárlögum bandaríska ríkisins verður 400 milljarðar dollara á þessu ári og 540 milljarðar á næsta ári. Gert er ráð fyrir, að skuldir Bandaríkjanna muni eftir átta ár vera komnar yfir 6000 milljarða dollara, sem er stjarnfræðileg tala. Gert er ráð fyrir, að velferð verði skert verulega. Frá þessu segir David Firestone í New York Times.

Þrír bíómenn

Punktar

Frank Rich segir í New York Times, að eingöngu í Bandaríkjunum geti maður gengið um í Aktion-Man búningi, gelt karlrembusetningar úr kvikmyndahandritum og þótzt vera efni í stjórnmálamann. Hann er ekki aðeins að tala um Arnold Schwarzenegger, heldur líka George W. Bush, sem fer í herflugmannabúning og notar lélegri kvikmyndasetningar (“dead or alive”, “bring ’em on”) en Schwarzenegger. Einnig Ronald Reagan, sem einu sinni bauð sig fram til starfs ríkisstjóra í Kaliforníu. Spurningunni um, hvað hann mundi gera í starfinu, svaraði Reagan: “Ég veit það ekki, ég hef aldrei leikið ríkisstjóra”.

Óvinsæl Evrópa

Punktar

Ósigur evrunnar í Svíþjóð var aðvörun til Evrópusambandsins. Því hefur hrapallega mistekizt að ná eyrum, hugum og hjörtum almennings í aðildarríkjunum. Ekkert fækkar þeim, er líta á það sem skriffinnskubákn í Bruxelles. Almannatengl virðast vera lokuð bók fyrir ráðamönnum sambandsins. Það þarf í senn að breyta ímynd og innihaldi sínu til að geta orðið marktækt sameiningarafl Evrópubúa.

Ofsakátur Osama

Punktar

Osama bin Laden er ofsakátur þessa dagana. Taugaveikluð og skotglöð viðbrögð Bandaríkjanna gegn hryðjuverkum Al Kaída hafa verið honum að skapi. Borgaraleg réttindi hafa verið skert í Bandaríkjunum og lögregluríkið er þar að halda innreið sína. Erlendis hafa Bandaríkin margeflt hatur múslima og gert Íraka og Afgana að andstæðingum sínum. Hryðjuverkahópar og sjálfsmorðssveitir hafa magnazt um allan heim. Vinaríkjum Bandaríkjanna hefur snarfækkað og munar þar mest um gömlu lýðræðisríkin í Evrópu, þar sem menn hafa viðbjóð á framgöngu Bandaríkjanna. Osama bin Laden er því að takast ætlunarverk sitt.

Arafat vakinn upp

Punktar

Hatursáróður Ísraels og Bandaríkjanna gegn Jasser Arafat, forseta Palestínu, hefur leitt til aukins stuðnings Palestínumanna við hann. Ef Ísrael rekur hann úr Palestínu, má búast við, að Arafat verði enn meiri þjóðhetja þar í landi. Ef Ísrael lætur taka hann af lífi, eins og slúðrað er í sumum fjölmiðlum, er það George W. Bush Bandaríkjaforseta að kenna, því að Ísraelsstjórn telur réttilega, að hann leyfi henni að komast upp með hvað sem er.

Kolvetnisástin

Punktar

Caroline Overington skrifar í Sidney Herald í Ástralíu um sífellt áleitnari kenningar gegn kolvetnisást manneldisstofnana á Vesturlöndum. Offita hefur orðið að faraldri síðan manneldisstofnanir lögðu fram núgildandi manneldismarkmið lítillar fitu og mikils kolvetnis, sem gerir fólk svangt. Einnig verða sífellt vinsælli kenningar um, að verksmiðjukeðjur í matvælaiðnaði auki sykur og síróp í matvælum til að gera þau ódýrari og til að fólk verði fyrr svangt á nýjan leik. Hornsteinn hins hrikalega offituvandamáls endurspeglast í orðum seinheppins íslenzks næringarfræðings: “Sykur er ódýr orkugjafi”.

Fátækir rísa upp

Punktar

Hávaðinn fyrir utan fundi hnattvæðingarstofnana er nú að komast inn á fundina sjálfa. Á landbúnaðarfundi Heimsviðskiptastofnunarinnar í Cancun í Mexikó hafa mörg þróunarríki tekið saman höndum um að ráðast harkalega á verndarstefnu Evrópusambandsins og Bandaríkjanna í landbúnaði, sem kemur í veg fyrir, að þróunarlöndin fái sannvirði fyrir afurðir sínar. Heljartök ríku þjóðanna á heimsviðskiptum eru rétt að byrja að linast. Frá þessu segir í BBC.

50 ríki staðfestu

Punktar

Á fimmtudaginn tók gildi Cartagena fjölþjóðasamningurinn, sem veitir ríkjum rétt til að neita innflutningi á erfðabreyttum lífefnum. Fimmtíu ríki höfðu þá staðfest samninginn gegn eindregnum vilja Bandaríkjanna, sem vilja troða erfðabreyttum matvælum sínum upp á umheiminn. Náttúruverndarsamtök hafa lýst stuðningi við samninginn. Frá þessu segir í BBC.

Kemur vel á vondan

Punktar

Íslenzk verkalýðshreyfing studdi eindregið ofbeldið gegn stærsta ósnortna víðerni landsins norðan Vatnajökuls. Leiðtogar hennar höfðu peningaglýju í augunum, þegar þeir lögðust á sveif með eyðingaröflunum. Því kemur vel á vondan, að verkalýðsleiðtogarnir skuli nú væla látlaust um, að erlendir verkamenn við Kárahnjúkavirkjun séu á undirkaupi að taka vinnuna af íslenzkum verkamönnum og koma á launaskriði niður á við í þjóðfélaginu. Leiðtogarnir geta sjálfum sér um kennt.