Bankar borga ruglið

Punktar

Samkvæmt síðustu Gallup-mælingu ársins 2001 var lestur DV 36%. Samkvæmt fyrstu mælingu ársins 2002 var lesturinn dottinn í 29%. Nú er hann kominn niður í 23%. Í árslok 2001 hætti ég sem ritstjóri DV. Þá höfðu nýir eigendur tekið við blaðinu í skjóli fjárhagslegrar ábyrgðar Landsbankans, sem tapaði nokkur hundruð milljónum króna í tengslum við eigendaskiptin. Síðan er bankinn búinn að tapa nokkur hundruð milljónum króna í viðbót á fánýtum rekstri nýju eigendanna. Þegar upp er staðið, verður Landsbankinn búinn að tapa meira en milljarði á að taka gróið fyrirtæki úr traustum rekstri og færa það í hendur manna, sem settu það á hausinn. Svona geta bankar leikið markaðshagfræðina grátt í hagkerfi fáokunar.

Hernaðar-klofningur

Punktar

Frakkland og Þýzkaland hafa fallizt á, að stuðningsmaður Bandaríkjanna og sá, sem stóð að baki stuðningi Hollands við árás Bandaríkjanna á Írak, verði framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Þetta er Jaap de Hoop Scheffer, utanríkisráðherra Hollands. Þetta felur í sér, að Bandaríkin ráða því sem þau vilja ráða í bandalaginu. Í staðinn hefur Bretland fallizt á að sætta sig við, að Frakkland, Þýzkaland og Belgía og stuðningsríki þeirra innan Evrópusambandsins myndi sérstakt hernaðarbandalag, sem farið hefur fyrir brjóstið á Bandaríkjunum. Frá fyrra málinu segir Gregory Crouch í New York Times og frá hinu síðara segja Ian Black og Patrick Wintour í Guardian. Hugsanlega er þetta upphafið að hernaðarlegum klofningi Vesturlanda, enda er tímabært, að hann fylgi pólitískum klofningi þeirra.

Gjaldþrot byggðastefnu

Punktar

Könnun hefur leitt í ljós, að unga fólkið heima í héraði vill ekki flytja suður, heldur alla leið til útlanda. Þetta er gjaldþrot byggðastefnunnar og áfellisdómur yfir þeim, sem hafa stjórnað landinu undanfarna áratugi. Þeir hafa reynt að halda fólki í héraði með því að níða skóinn niður af Reykjavíkursvæðinu og kalla slíkt byggðastefnu. Þeir hefðu heldur átt að hossa höfuðborgarsvæðinu svo að til væri einn staður á landinu samkeppnishæfur við útlönd. Eina raunhæfa byggðastefnan á Íslandi er að reyna að verja Reykjavík gegn fólksflótta til útlanda. Á þeim vígvelli stendur Ísland eða fellur sem sjálfstætt ríki.

Brýnt að kvelja Bush

Punktar

Simon Tisdall segir í Guardian, að mikilvægt sé, að Sameinuðu þjóðirnar og aðildarríki þess geri allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra endurkjör George W. Bush Bandaríkjaforseta, sem hefur óbeit á útlöndum og hatar Sameinuðu þjóðirnar. Þær skulda honum ekki neitt, segir Tisdall. Með því að setja ströng skilyrði fyrir að taka þátt í að borga tjónið, sem Bandaríkin hafa valdið Írak, aukist líkur á, að bandarískum kjósendum þyki Bush hafa orðið of dýr í rekstri, hann falli í næstu kosningum og viðmælandi forseti komi til skjalanna.

Rússakerfi á Íslandi

Punktar

Þrír risabankar eiga hver um sig fullt af fyrirtækjum, allt frá risafyrirtækjum niður í lítil hallærisfyrirtæki, sem hafa orðið gjaldþrota á kostnað bankanna eða er haldið frá gjaldþroti á kostnað þeirra. Fyrirtækjum á framfæri bankanna er haldið úti í óheiðarlegri samkeppni við heilbrigð fyrirtæki, sem ekki eru á framfæri bankakerfisins. Þannig eru bankarnir með eignarhaldi og margvíslegri annarri mismunum búnir að gera markaðshagkerfið á Íslandi að skrípamynd, sem minnir á rússneska hagkerfið.

Frelsi frá GPS

Punktar

Kínverska ríkið hefur ákveðið að leggja 230 milljón evrur í Galileo, staðarákvörðunarkefi gervitungla, sem Evrópusambandið er að byggja upp í samkeppni við GPS kerfi bandaríska stríðsmálaráðuneytins. Kína hyggst borga 20% af kostnaði við Galileo. Eins og Evrópusambandið vill Kína ekki vera háð staðarákvörðunarkerfi, sem heimsvaldasinnuð Bandaríkin geta lokað eða deyft, þegar þeim þóknast. Galileo verður borgaralegt kerfi, en ekki hernaðarlegt. Gert er ráð fyrir, að það leysi meðal annars hefðbundna flugumferðarstjórn af hólmi. Frá þessu segir í BBC.

Ekki einu sinni peð

Punktar

Áður voru þið peð í lýðræðinu. Þið voruð fákænir kjósendur, sem fóruð illa með atkvæði ykkar. Þess vegna fylgir Ísland í humátt á eftir Bandaríkjunum í átt til auðræðis. Þið verðið ekki einu sinni peð í auðræðinu, aðeins hluti af landslaginu. Þið tapið meira að segja á eignarhaldi á atkvæðaseðlum auðræðisins, því að gengi hlutabréfa mótast í valdatafli, þar sem innherjar einir hafa næga þekkingu og misnota hana skefjalaust.

Sjón er sögu fátækari

Punktar

Sjónvarpið er ein af ástæðunum fyrir hnignun lýðræðisins. Ósjálfrátt forheimskar það kjósendur. Þeir ímynda sér, að trausts verðir séu þeir, sem eru fagrir og einlægir á svipinn á skjánum. Sagan sýnir okkur, að svo er alls ekki. Ekkert samhengi er milli útlits og innihalds. Sjáið til dæmis Tony Blair. Þið hafið meira gagn af sjónvarpsfréttum, ef þið hlustið á þær, en horfið ekki. Mest gagn hafið þið af að nota aðrar tegundir fréttamiðla, útvarp eða dagblöð. Sjón er sögu fátækari.

Lýðræði á lokastigi

Punktar

Mestur tími pólitískra frambjóðenda í Bandaríkjunum fer í að afla fjárstuðnings stórfyrirtækja og samtaka stórfyrirtækja. Án hans eru þeir bjargarlausir í vaxandi fjáraustri kosningabaráttunnar. Þess vegna eru flestir stjórnmálamenn fangar öflugra sérhagsmuna. Kjósendur skilja þetta ekki eða sætta sig við það. Þannig hefur auðræði leyst lýðræði af hólmi í Bandaríkjunum og mun einnig gera það í ríkjum, sem fylgja í humáttina.

Vestræn framleiðsla

Punktar

Trúarbragðasagnfræðingurinn Karen Armstrong útskýrir í Guardian, hvernig Vesturlönd framleiða hryðjuverkamenn og sjálfsmorðssveitir meðal örvæntingarfullra þjóða þriðja heimsins.

Háð og spott

Punktar

Maureen Dowd hefur Bandaríkjaforseta að háði og spotti í New York Times. Ég ætla ekki að endursegja spaugið, en flestir geta lesið ensku og notið þess beint af skepnunni.

Ózongatið stækkar

Punktar

Nýjustu mælingar sýna, að ózongatið yfir Suðurskautslandinu er orðið stærra en nokkru sinni fyrr. Gatið myndaðist fyrst um miðjan níunda áratug síðustu aldar og hefur farið stækkandi, þótt það hafi minnkað sum ár. Aðgerðir gegn myndun ózoneyðandi lofttegunda hafa enn ekki megnað að stöðva þessa óheillaþróun, sem sagt er frá í San Francisco Chronicle.

Hafskip hlær síðast

Punktar

Eimskip lét á sínum tíma ríkisvaldið koma Hafskipum fyrir kattarnef með ofbeldi. Kaldhæðnisleg niðurstaða undangenginna hamfara á íslenzkum fjármálamarkaði er, að forstjóri Hafskipa hefur nú eignazt Eimskip. Sá hlær bezt, sem síðast hlær.

Þríhöfða þurs

Punktar

Peningavaldið safnast ógnarhratt á þrjár hendur hér á landi. Bankarnir þrír eru þungamiðja þriggja blokka, sem stjórna landinu og ráða í smáatriðum, hvaða rekstur og framtak lifir eða deyr. Þær eru að breytast í þríhöfða þurs, sem hefur gert hlutabréfamarkaðinn marklausan og kjósendur að feitum þrælum óligarka. Smám saman semja blokkirnar þrjár um gagnkvæmt svigrúm og koma á illa dulbúinni einokun, sem er endastöð núverandi markaðshagkerfis og um leið aðdragandi nýrrar ringuleiðar að hætti Hegels.

Hræsni eða hroki

Punktar

Hinn þekkti dálkahöfundur Nicolas D. Kristof segir í New York Times, að andstaða Bandaríkjanna við hvalveiðar Íslendinga, Norðmanna og Japana sé hræsnin einber, því að. Bandaríkjamenn stundi sjálfir hvalveiðar. Vísar hann þar til hvalveiða inúíta og indjána við Alaska. Það er hins vegar ekki rétt hjá Kristof að kalla þetta hræsni, því að ríkisstjórn Bandaríkjanna og fjöldi þarlendra kjósenda telur einfaldlega, að Bandaríkin séu hafin yfir reglur, sem þrengja kosti annarra ríkja. Það er ekki hræsni, heldur hroki.