Bankar borga ruglið

Punktar

Samkvæmt síðustu Gallup-mælingu ársins 2001 var lestur DV 36%. Samkvæmt fyrstu mælingu ársins 2002 var lesturinn dottinn í 29%. Nú er hann kominn niður í 23%. Í árslok 2001 hætti ég sem ritstjóri DV. Þá höfðu nýir eigendur tekið við blaðinu í skjóli fjárhagslegrar ábyrgðar Landsbankans, sem tapaði nokkur hundruð milljónum króna í tengslum við eigendaskiptin. Síðan er bankinn búinn að tapa nokkur hundruð milljónum króna í viðbót á fánýtum rekstri nýju eigendanna. Þegar upp er staðið, verður Landsbankinn búinn að tapa meira en milljarði á að taka gróið fyrirtæki úr traustum rekstri og færa það í hendur manna, sem settu það á hausinn. Svona geta bankar leikið markaðshagfræðina grátt í hagkerfi fáokunar.