Trúarsamkoma um Örfirisey

Punktar

Á Hótel Sögu í dag verður haldin trúarsamkoma verktakavina um byggð í sjó við Örfirisey. Þar fer Björn Ingi Hrafnsson með ritningarorðin og Gísli Marteinn Baldursson predikar fyrir altari. Safnaðarfólk vitnar um ágæti dýrra lóða úti í sjó. Enginn mun hins vegar vitna um aukinn hraða á hækkun yfirborðs sjávar. Að sjálfsögðu mun enginn vitna um landbrot sjávar í vor við Örfirisey. Alls ekki verður spáð í aukið öngþveiti í umferð á gömlum götum Vesturbæjar. Verktakar ætla ekki að borga fyrir neitt af þessu. Þeir ætla að selja áður. Þetta verður hugguleg trúarsamkoma, monní, hallelúja.

Plokkað með ljósleiðara

Punktar

Ég sit við tölvuna og næ með háhraða ADSL sambandi við allan heiminn. Á sekúndubroti fæ ég mikilvægustu fréttir, gögn og skoðanir veraldar, jafnvel bíómyndir. Hvað vil ég betra? Bæjarstjórinn hér skrifaði um það fjálglega grein í Moggann í gær. Með því að borga til viðbótar mánaðargjald fyrir ljósleiðara muni ég fá aðgang að rafrænni þjónustu Seltjarnarness! Kannski að nuddi? Er Jónmundur Guðmarsson lasinn? Hann segir ljósleiðarann hjálpa þeim, sem ekki séu vanir tölvum. Hvernig? Ljósleiðarinn breytir raunar litlu sem engu. En menn þurfa að borga töluvert meira, það er plokkið.

Siðvæðing verkfræðinga

Punktar

Búið er að strika út marga virkjunarkosti í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Eftir standa umdeild atriði á borð við vatnsvirkjanir í neðri hluta Þjórsár og á vatnasviði Héraðsvatna. Svo og gufuvirkjanir á Þeistareykjum og víða um Reykjanesskaga. Þetta breytir áherzlum umhverfisbaráttunnar. Hún mun beina athygli sinni að hönnun gufuvirkjana. Sandkassaleikur Orkuveitunnar við Hveradali bendir til, að brýnt sé að kenna verkfræðingum veitunnar góða siði í umgengni við náttúruna. Slíkt tekst varla í Landsvirkjun fyrr en þar er búið að skipta út ráðamönnum. Þeir umpólast tæpast af sjálfu sér.

Dýr ljósleiðari

Punktar

Ég borga tæpar 8.000 krónur fyrir ADSL hraða á tengingu við húsið. Einnig borga ég fyrir sjónvarpsrásir. Nú er kominn ljósleiðari hér og menn bjóða þjónustu á honum. Ég á að borga á mánuði 2.400 fyrir sambandið og 8.000 krónur fyrir hraðann. Mér er ekki ljóst, hvað ég á að borga fyrir tengingar innanhúss. En ég þarf áfram að borga fyrir rásirnar. Því spyr ég: Hver er plúsinn við ljósleiðarann? Um mínusinn veit ég, hann kostar miklu meira. Því skyldi ég borga meira? Hvernig dettur þeim í hug að rukka 8.000 fyrir hraða? Svarið er einfalt, þetta eru fá fyrirtæki og saman eru þau einokun.

Spunakerlingar

Fjölmiðlun

Pólitískur spuni felst í að taka fréttir og spinna þær inn á brautir, sem eru hagstæðar umbjóðandanum. Halldór Ásgrímsson hafði þrjár spunakerlingar til að spinna fyrir sig á vefnum, Björn Inga Hrafnsson, Pétur Gunnarsson og Steingrím Sævarr Ólafsson. Spunakerlingar prentmiðla hafa barizt um, hvort ný ríkisstjórn sé Baugsstjórn eða Þingvallastjórn. Feitasta spunakerling landsins er Morgunblaðið, sem framleiðir svonefndar fréttaskýringar, oft á forsíðu. Þær eiga að framleiða atburði, hanna atburðarásir, en ekki að segja fréttir. Mogginn hannar pólitík, en stundar ekki blaðamennsku.

Vestrið límt að nýju

Punktar

Fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi lýsti vel í gær mun á lýðræði í Bandaríkjunum og í Evrópu, einkum Frakklandi. Felix G. Rohatyn segir í International Herald Tribune, að sambúðin muni lagast, þegar Bandaríkin hafi losnað úr “krabbameini Íraks”. Lýðræði vestan og austan hafs muni áfram vera misjafnt, en menn muni geta farið að tala saman. Bandaríkin muni að loknum George W. Bush færast í átt til aukinnar velferðar að hætti Evrópu. Lýsing Rohatyn á misjöfnum grundvallaratriðum hugsunar í Evrópu og Bandaríkjunum er mjög góð. Hún er sett fram í stuttu og aðgengilegu máli.

Ég vann, bara ég

Punktar

Rúv.is sagði í gær, að deCode Genetics hafi fundið erfðabreytileika í tölfræðilegu samhengi við brjóstakrabbamein. Guardian.com segir í gær, að Cancer Research í Cambridge í Englandi hafi fundið erfðabreytileika í tölfræðilegu samhengi við brjóstakrabbamein. Samkvæmt fjölmiðlunum virðast tvö gengi vísindamanna hafa gert nákvæmlega sömu uppgötvunina á sama tíma. Líklegra er samt verið að tala um sama hlutinn frá tveimur sjónarhornum. Nature.com fjallar um þetta í gær og telur Cancer Research hafa verið að verki. Þar er þó nefnt, að einn þáttur málsins hafi verið unninn á Íslandi.

Ríkisreknir flokkar

Punktar

Flokkarnir hafa skammtað sér 412 milljónir á árinu af fé skattborgaranna. Þeir skipta herfanginu með sér eftir flóknum reglum, sem taka tillit til fjölda þingmanna. Og til prósentna í fylgi, ef þeir ná ekki manni á þing. Þannig fær Íslandshreyfingin tíu milljónir af herfangi ársins. Þetta nægir flestum flokkum til að reka hefðbundið flokksstarf og kosningabaráttu. Þótt það sé mikið fé, má einnig skoða, að það hlífir flokkum við að hórast með stórfyrirtækjum. Flokkarnir þurfa ekki að selja sál sína tryggingarfélögum, álverum og genafyrirtækjum, sem vilja hafa áhrif á pólitíska framvindu.

Tímaskekkja Landsvirkjunar

Punktar

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra segir Landsvirkjun “verða að gera sér grein fyrir, að nú séu ný viðhorf við stjórnvölinn og alls ekki sé um að ræða neina sjálfsafgreiðslu í þessum málum lengur.” Hér er rösklega talað um Norðlingaölduveitu. Stjórnarsáttmálinn segir: “Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum verði tryggð þannig að það ná yfir hið sérstaka votlendi veranna.” Í sáttmálanum segir líka, að ekki verði virkjað við Langasjó, Brennisteinsfjöll, Hveravelli, Kerlingarfjöll, Kverkfjöll, Torfajökul, Öskju og Jökulsá á Fjöllum. Og Framsókn fær senn að fjúka úr Landsvirkjun.

Jörðin er flöt

Punktar

Einar K. Guðfinnsson hefur tvær skoðanir samtímis. Annars vegar mundi landbúnaðurinn ekki lifa af innflutning á erlendum kjötvörum. Hins vegar megi ekki rekja hátt matarverð hér á landi til landbúnaðarins. Hann gæti eins sagt, að jörðin sé flöt. Ef landbúnaðurinn þolir ekki innflutta vöru, má rekja hátt matarverð til hans. Svo einföld er rökfræðin. En hinn nýi landbúnaðarráðherra þarf ekkert á rökum að halda. Hann fullyrðir bara það, sem honum dettur í hug hverju sinni, því að hann hirðir ekki um að lúta rökum. Jafnvel þótt hann flytji óvart sjálfur rökin samtímis.

Styttur um helming

Punktar

Ég hafði nýlega námskeið í textastíl við Háskólann í Reykjavík. Við gerðum okkur að leik að laga texta úr prentmiðlum. Við klipptum óþörf orð og orðasambönd og styttum málsgreinar. Þannig var hægðarleikur að stytta forsíðufréttir Moggans um helming án þess að neitt týndist af innihaldinu. Við eyddum froðu og klisjum, sem ræðumenn bæta við texta meðan þeir eru að hugsa um, hvað þeir eigi að segja næst. Við klipptum óþörf lýsingar- og atviksorð og settum sérstæk sagnorð í staðinn. Enginn texti í fréttum Moggans var svo góður, að ekki mætti stytta hann átakalítið um helming.

Gráu fíflin eru verst

Punktar

Wolfowitz hefði áfram getað verið forstjóri Alþjóðabankans sem heimskur arkitekt bandarískrar innrásar í Írak í þágu Ísraels. Hefði áfram getað predikað siðsemi í meðferð lánsfjár bankans. En grái fiðringurinn varð að falli eyrnastórum karli í götugum sokkum með hráka í greiðu. Cristina Odone fjallaði um þann gráa í Observer í gær. Hún minnir á örlög nokkurra miðaldra fífla, Júlíusar Caesar vegna Kleópötru, Oscar Wilde vegna Bosie, Conrad Black vegna Barböru Amiel. Wolfowitz missti stjórn á sér vegna Shaha Riza. Hennar vegna framdi hann það, sem hann sjálfur fordæmdi, spillingu.

Hrokinn hefur magnazt

Punktar

Mér fannst sjálfstæðismenn ekki vera hrokafullir á tólf ára stjórnartíma fráfarandi stjórnar. Þeir þóttust ekki eiga heiminn. Þetta hefur breyzt við stjórnarskiptin. Þeir notuðu áður varfærin orð um virkjanir, en tala nú prívat eins og umhverfið skipti engu. Þeir eru líka aftur farnir að tala eins og nemendur í Chicago-hagfræði. Þetta stafar af, að vægi flokksins er meira í nýju stjórninni en hinni gömlu. Samfylkingin var of lin í samningum um stjórnina, sýndi veiklyndi stjórnarþorstans. Úlfar Sjálfstæðisflokksins telja sig því geta farið að bera tennurnar. Ríkið, það er ég, segja þeir

Gefa ekki tommu eftir

Punktar

Japan hefur snúizt á sveif með Evrópu í umhverfismálum. Þau vilja takmarka hlýnun jarðar um 2% og auka orkunýtni um 20% fyrir árið 2020. Tony Blair í Bretlandi og Angela Merkel í Þýzkalandi hafa árangurslaust reynt að selja George W. Bush þessa stefnu. Á fundi áttveldanna í Heiligendamm eftir tvær vikur munu Bandaríkin hafna öllum tillögum um verndun andrúmsloftsins. Ráðamenn Evrópu eru að vonum súrir. Þjóðverjar hóta að beita neitunarvaldi gegn öðrum tillögum áttveldafundarins. Einangruð Bandaríkin gefa samt ekki tommu eftir, enda er Evrópa vön að gefast upp, þegar að hörkunni kemur.

Þeir elska Pútín sinn

Punktar

Sunday Times lýsir í morgun Rússlandi og kemst að sömu niðurstöðu og ég hef nokkrum sinnum lýst í bloggi. Almenningur í Rússlandi elskar Pútín, því að hann er andvígur lýðræði. Rússar vilja hverfa frá lýðræði til einræðis. Sumpart voru hefðir einræðis orðnar rammar og sumpart var reynsla Rússa af lýðræði skelfileg á Jeltsínstímanum. Þá komu þangað róttækir fræðimenn frá Bandaríkjunum og Alþjóðabankanum. Þeir predikuðu snögga einkavæðingu atvinnulífsins. Á skömmum tíma rýrnuðu ellilaun niður í nánast ekkert og venjuleg laun hættu að duga til framfæris. Síðan hefur vestrið verið hatað.