Flokkarnir hafa skammtað sér 412 milljónir á árinu af fé skattborgaranna. Þeir skipta herfanginu með sér eftir flóknum reglum, sem taka tillit til fjölda þingmanna. Og til prósentna í fylgi, ef þeir ná ekki manni á þing. Þannig fær Íslandshreyfingin tíu milljónir af herfangi ársins. Þetta nægir flestum flokkum til að reka hefðbundið flokksstarf og kosningabaráttu. Þótt það sé mikið fé, má einnig skoða, að það hlífir flokkum við að hórast með stórfyrirtækjum. Flokkarnir þurfa ekki að selja sál sína tryggingarfélögum, álverum og genafyrirtækjum, sem vilja hafa áhrif á pólitíska framvindu.