Blaðakóngum fækkar enn

Punktar

Robert Maxwell framdi sjálfsmorð, þegar hann hafði rænt lífeyrissjóði starfsmanna. Conrad Black var hrakinn frá fyrirtæki sínu og dæmdur fyrir þjófnað. Rupert Murdoch gengur enn laus. Blaðakóngar heimsins hafa sætt misjöfnum örlögum. Murdoch á þó enn möguleika á að deila örlögum með öðrum hvorum hinna. Tími þessara mislukkuðu höfðingja er liðinn. Nú eru komnar grúppur, sem eru skráðar á markaði. Þær leika sér ekki að fjölmiðlum eins og börn með vatnsbyssur. Þær vilja bara 20% arð. Vafasamt er, hvort sé verra. Hvort tveggja eyðir góðvilja í garð fjölmiðla, holar þá að innan.

Jóhannes er ekki ríkisstjórnin

Punktar

Bloggarar slátruðu Jóhannesi Benediktssyni, sýslumanni í Leifsstöð, á einum degi. Síðastur þeirra kom dómsmálaráðherrann, Björn Bjarnason. Hann sagði svigrúm til að bæta þjónustu eiga að nýtast öllum, ekki sérvöldum hópi. Jóhannes hafði opnað hraðbraut fyrir farþega Flugleiða á viðskiptafarrými. Auðvitað er fráleitt, að embættismaður hagi sér eins og Jóhannes. Slíkir marka ekki stefnu, sem gæti smitast inn í samfélagið almennt. Til dæmis í sérleiðir fyrir auðkýfinga á spítölum. Jóhannes er ekki ríkisstjórn, getur ekki tekið róttækar, pólitískar ákvarðanir, sem stuða samfélagið gróft.

Ímyndarfræði í stað veruleika

Punktar

Rio Tinto líkist Landsvirkjun. Á báðum stöðum kemur ímyndarfræði í stað veruleikans. Ef Rio Tinto er sakað um illa meðferð launafólks, fer það í ímyndarherferð, en breytir engu. Ef Rio Tinto er sakað um náttúruspjöll, fer það í ímyndarherferð, en breytir engu. Ef Rio Tinto er sakað um tilraun til stjórnarbyltingar, fer það í ímyndarherferð, en breytir engu. Rio Tinto er félagi í klúbbi glæpafyrirtækja, sem stofna sjóði til að verðlauna hvert annað fyrir afrek í starfsmanna- og umhverfismálum. Rio Tinto er eitt af allra verstu fyrirtækjum í heimi. Það ætlar nú að taka yfir Straumsvík.

Bush stælir Jón Baldvin

Punktar

Bandaríkin hóta að viðurkenna sjálfstæði Kosovo án hjálpar Öryggisráðsins eða annarra. Eins og Jón Baldvin Hannibalsson viðurkenndi Litháen árið 1991. Frægðarverk hans hafði stórpólitísk áhrif. Nú ætlar George W. Bush að stæla Jón Baldvin. Það verður niðurlæging Rússlands, sem þykist aftur vera orðið heimsveldi. Enn skammarlegra verður það fyrir Evrópusambandið, sem jafnan tvístígur, ef heilbrigð skynsemi og réttlæti býður því að taka hendur úr vösum. Heimsblöðin sögðu í gær, að sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum hefði hótað einhliða viðurkenningu sjálfstæðis Kosovo.

Nú vantar landvættina

Punktar

Nýr húsbóndi í álverinu í Straumsvík verður líklega Rio Tinto. Um það má lesa í alfræðiorðabókinni Wikipedia. Það er eitt af umdeildari fyrirtækjum heims. Hefur reynt að níðast á starfsmönnum og umhverfi. Það hefur jafnvel staðið fyrir borgarastyrjöld á Papúa Nýju Guineu. Til að fegra ímynd sína hefur það útvegað sér umdeild verðlaun, Worldaware Award. Þau eru veitt á vegum annars fjölþjóðafyrirtækis, Tate & Lyle. Rio Tinto er sjálft með önnur umhverfisverðlaun, sem Shell í Pakistan hefur fengið. Allt er þetta bara bræðralag skálkanna. Hvar eru nú landvættir skjaldarmerkisins?

Félagslegur réttrúnaður

Punktar

Tinni í Kongó er fórnardýr félagslegs rétttrúnaðar í Bretlandi. Bókin hefur verið fjarlægð úr bókabúðum Borders, einnar af stóru bókabúðakeðjunum. Jafnréttisráðið þar telur bókina fela í sér kynþáttamismunun. Sjálfsagt er það rétt athugað, en dálítið yfirkeyrt. Tinnabækurnar eru 23 og hafa verið gefnar út á 77 tungumálum í 220 milljónum eintaka. Ofsinn gegn Tinna minnir á tilraunir sannkristinna manna í Bandaríkjunum til að hreinsa Harry Potter úr bókasöfnum. Vilja ekki hafa þar neitt galdrafár. Margir reyna að hafa vit fyrir fólki. Páfagarður hafði til 1966 mikla skrá yfir bannaðar bækur.

Fjölgum eftirlitsmyndavélum

Punktar

Gott er, að eftirlitsmyndavélum fjölgar ört. Þær eiga að vera sem flestar á almannafæri. Sem almannafæri skilgreini ég staði, þar sem fólk er á ferli innan um annað fólk. Til dæmis í verzlunum og á veitingahúsum, börum og kaffihúsum, svo og auðvitað úti á götum. Hins vegar ber að banna þær á salernum og snyrtingum, böðum og fatahengjum. Ekkert eftirlit þarf með eftirlitsmyndavélum, annað en bann á þessum tilgreindu stöðum. Stundum hefur jaðrað við, að andstaða gegn þessari tækni falli undir félagslegan rétttrúnað. Til dæmis er Persónuvernd sífellt að amast við henni.

Fjölmiðli gefið á kjaftinn

Punktar

Gaman var að sjá kvikmyndaframleiðandann Michael Moore valta kruss og þvers yfir gervimanninn Wolf Blitzer á CNN. Þeir voru að ræða Sicko, nýjustu kvikmynd Moore. Hann vildi, að CNN bæði sig og þjóðina afsökunar. Í fyrsta lagi á rangfærslum um Írak í viðtali við sig fyrir þremur árum. Einnig á rangfærslum CNN nú um heilbrigðismál. Hann kvartaði um, að CNN væri á mála pilluframleiðenda. Hefðbundnir bandarískir fjölmiðlar eins og CNN og New York Times hafa raunar hrapallega brugðizt í mestu stórmálum heimsins og ekki haft uppi neina andstöðu við breiðsíðu lyga í Fox og New York Post.

Fréttir án innihalds

Punktar

Í fréttum sagði, að farþegar Icelandair í Saga Class fái nú hraðþjónustu í öryggiseftirliti Leifsstöðvar. Ekki var sagt, hver borgaði fríðindin. Ef það er Icelandair, þá er spurning, hvort aðrir geti keypt slíka þjónustu hjá sýslumanni. Alltaf er þó spurning, hvort rétt sé, að menn fái að kaupa sig framhjá íslenzka biðraðakerfinu. Ef ríkið borgar sérþjónustuna við Icelandair, þá er það fráleit ákvörðun. Að venju fjölmiðla landsins var ekki sagt orð um það tvennt, sem máli skipti: Hver borgaði brúsann? Seinkar öryggisafgreiðslu heiðarlegra borgara til jafnvægis fríðindunum?

Nýtendur auðlinda án gangráðs

Punktar

Fjölmiðlafárið um samdrátt veiðiheimilda sýnir, að hagsmunaaðilar geta ekki metið auðlindir. Sjómenn, skipstjórar, útvegsmenn, fiskverkendur, sjómenn, sveitastjórnarmenn, samtök þessara aðila. Allir fullyrða þeir, að nóg sé af þorski, þótt rannsóknir sýni annað. Ef þeir réðu, útrýmdu þeir þorskinum. Þeir eru skammsýnir eins og bændurnir, sem segjast vita öðrum betur, hversu mikið sauðfé land getur borið. Nýtendur auðlinda vernda þær ekki. Þannig hefur gróðri á landi og fiski í sjó verið eytt víða um heim. Hagsmunaaðila skortir framsýni, þeir hugsa bara um skammtímagróða. Þeir eru án gangráðs.

Rafbyssur drápu hundruð manna

Punktar

Farið á Wikipedia.org. Sjáið þar, að hundruð manna hafa verið drepin með rafbyssunum, sem ríkislögreglustjórinn hér vill taka í notkun. Talsmaður embættisins laug á mbl.is í gær, að þær væru hættulausar. Í alfræðibókinni er rækilega rakið, hversu hættulegt vopnið er. Þar er sagt frá ýmsum málaferlum, sem hafin eru vegna þess. Ég fæ ekki skilið, að nokkur sé svo geðsjúkur að vilja afhenda það löggunni hér á landi. En ljóst er þó, að ríkislögreglustjóri okkar fetar skref fyrir skref í átt til lögregluríkis. Til þess hefur hann stuðning dómsmálaráðherrans. Vaknið þið því, borgarar.

Framhleypni öryggisvarða

Punktar

Terroristar Kringlunnar telja, að almannafæri í Kringlunni sé friðhelgt fyrir mótmælum. Líklega af því, að Kringlan á þar göturnar, en fyrirtækin við Laugaveginn eiga ekki götuna. Út í hött er, að prívat öryggisverðir abbist upp á friðsama mótmælendur á almannafæri. Það sást þó í sjónvarpinu. Ekkert hefur komið fram um, að mótmælendur hafi verið með ólæti eða skemmdir. Þetta er eins og að vísa harmoníkuleikara frá Laugavegi, sem var dæmigerður terrorismi löggunnar. Ráðamenn Kringlunnar siguðu terroristum sínum á fólkið og klöguðu það til löggunnar. Als ekki meiri viðskipti þar.

Meintar þarfir lögreglunnar

Punktar

“Lögregla þurfti að hafa afskipti af umhverfisverndarsinnum”, segir Jón Örn Guðbjartsson á Vísir.is í dag. Hann veit samt ekkert um þarfir löggunnar. Hún sagði honum þetta og hann étur það hugsunarlaust upp. Aftar í fréttinni segir svo, að löggan hafi ekki haft afskipti af mótmælendum. Þar segir: “Voru lögreglumenn sendir á svæðið í kjölfarið til að tryggja að mótmælin færu friðsamlega fram. Að öðru leyti segist lögregla ekki hafa skipt sér af mótmælendum.” Í fréttum Mbl.is kom fram, að amerískur predikari var fjarlægður með valdi. Enda hefur löggan áratugum saman logið um atburði.

Hættur við Kringluna

Punktar

Ég sé eftir Kringlunni, keypti þar lengi í matinn. Nú verð nú að fara í Nótatún til að kaupa grænmeti, í Ostabúðina og í Gallerí Kjöt. Ég keypti stundum í Waage og Pennanum, Herragarðinum og Boss. Nú verð ég að fara annað. Ég hef nefnilega ákveðið að breyta viðskiptum mínum. Kringlan klagaði saklaus mótmæli gegn virkjunum til lögreglunnar og sigaði vörðum á þau. Ég er ósáttur við aðkomu Kringlunnar að fáránlegu máli. Vil sýna það í á borði eins og í orði. Eins og ég hætti að koma í Þjóðleikhúsið, þegar það var klætt með sjaldgæfri og stolinni hrafntinnu úr Hrafntinnuskeri.

Állinn er kominn

Punktar

Ég komst í fyrsta ál sumarsins í gær hjá Kjartani sægreifa í verbúðunum við Ægisgarð. Fínn áll og bragðmildur, frekar lítill, ekki eins stinnur og stóri állinn í útlöndum. Kjartan er forvígismaður álaveiða og reykir álinn sjálfur. Útvegar körlum álagildrur, svo að þeir geti hætt að nudda punginn eins og hann orðar það. Állinn var frá upphafi einkennistákn Sægreifans, þótt humarsúpa og ýmis fiskispjót hafi síðar gert staðinn heimsfrægan. Það er alltaf spennandi biðin eftir fyrsta álinum á hverju sumri. Að þessu sinni kom hann frá Grindavík. Annars staðar eru menn latir og nudda enn.