Állinn er kominn

Punktar

Ég komst í fyrsta ál sumarsins í gær hjá Kjartani sægreifa í verbúðunum við Ægisgarð. Fínn áll og bragðmildur, frekar lítill, ekki eins stinnur og stóri állinn í útlöndum. Kjartan er forvígismaður álaveiða og reykir álinn sjálfur. Útvegar körlum álagildrur, svo að þeir geti hætt að nudda punginn eins og hann orðar það. Állinn var frá upphafi einkennistákn Sægreifans, þótt humarsúpa og ýmis fiskispjót hafi síðar gert staðinn heimsfrægan. Það er alltaf spennandi biðin eftir fyrsta álinum á hverju sumri. Að þessu sinni kom hann frá Grindavík. Annars staðar eru menn latir og nudda enn.