Dula á berum keisurum

Punktar

Var að skoða brot úr svörum forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum við erfiðum spurningum. Í sjónvarpinu komu þeir vel fyrir og virtust hafa sómasamleg svör við öllu. Síðan bar ég þau saman við sömu svör í bókstöfum, eins og þau sjást á prenti. Þá fyrst sá ég gegnum svörin, hvílíkt rugl þau voru. Prentmiðlar eru óvæginn vettvangur skoðana, þar sjást keisarar án klæða. Í sjónvarpinu kemur karisma, meintur persónuleiki, til sögunnar og varpar dulu yfir keisarana. Þess vegna vilja stjórnmálamenn koma fram í sjónvarpi, en ekki í prentmiðlum. Sjónvarpið blekkir fólk, en textinn frelsar það.

Tilveran er toppstaður

Veitingar

Eini galli Tilverunnar er að vera í Hafnarfirði, þangað sem ég á sjaldan erindi. Hún býður sex ferska fiskrétti í hverju hádegi. Þeir kosta að meðaltali bara 1.500 krónur með súpu dagsins. Hún er að vísu hveitigrautur að íslenzkri hefð. En fiskurinn er fínlega eldaður, betur en í flestum sparistöðum landsins. Hann á að vera heillegur, lyktarlaus, með fiskbragði. Eldað er sér fyrir hvern kúnna. Ég prófaði hlýra með plómusósu og stöðluðu grænmeti, bakaðri kartöflu góðri og ágætu hrásalati smásöxuðu. Þetta var svo gott, að ég verð að finna upp tækifæri til að koma tíðar í Hafnarfjörð.

Bjartara yfir pólitíkinni

Punktar

Mér finnst pólitíkin vera málefnalegri núna en hún hefur verið undanfarin haust. Það er bjartara kringum hana. Meira er talað málefnalega um mikilvæg mál eins og kvóta og veiðiheimildir, evru og Evrópu. Ástæðan fyrir þessu er, að Framsókn er dottin út úr pólitík. Hún hvarf í vor í kosningunum. Hún var ætíð plága í pólitíkinni, vinnumiðlun undir yfirvarpi stjórnmála. Hún var öflugasta tæki hræsninnar, sem áður einkenndi pólitíkina. Nú hefur þetta tæki legið forsmáð utan garðs í nokkra mánuði. Mikilvægasta verkefnið í pólitík er að hindra þessa vinnumiðlun í að komast aftur til valda.

Nostalgía án rauðgrauts

Veitingar

Ég kem ekki á Jómfrúna við Lækjargötu vegna brauðsneiðanna. Þó fæ ég mér alltaf frábæran rækjuturn með stórum og glansandi rækjum. Ég kem vegna nostalgíu. Sem barn fékk ég hjá ömmu hakkebøf, rødspætte, ribbensteg, mørbrad, leverpostej og frikadeller. Allt gamlir vinir. Hún gaf líka bolsjer og bilæt í bíó. Í gær fékk ég rauðsprettu með remúlaði, mjög fínt eldaða, betri en í gamla daga. Það eina, sem vantar í Jómfrúna er rødgrød med fløde, mér minnisstæðastur úr fortíðinni. Jómfrúin er ætíð full gesta í hádeginu. Rauðsprettan kostar bara 1350 krónur, rækjuturninn 1180 krónur.

Víðfeðmt hugmyndaflug

Punktar

Bæklingur um tímaritið Lifandi vísindi kom inn um lúguna. Þar er auglýst í bak og fyrir, að menn borgi 790 krónur fyrir áskrift og ódýra myndavél. Á áskriftarseðlinum er þessari upphæð slegið upp. Annars staðar í bæklingnum segir í smáu letri, að menn skuldbindi sig til að borga til viðbótar 6.786 krónur á hálfs árs fresti. Það eru 13.572 krónur á ári. Einnig skuldbindur fólk sig til að borga árbók á 3.990 krónur. Samtals virðast ársviðskiptin því nema 17.562 krónum, þótt aðeins sé flaggað 790 króna startgreiðslu. Ég hef ekki áður séð svo víðfeðmt hugmyndaflug við að plata sveitamanninn.

Lexía frá Cronkite

Fjölmiðlun

Walter Cronkite er nestor fréttaþátta í sjónvarpi heimsins yfirleitt. Í ævisögunni gerir hann skemmtilega upp sakirnar við oflátunga, sem tóku við rekstri sjónvarpskeðja. Þeir fóru að laga það, sem ekki var bilað, losuðu sig t.d. við Cronkite. Alveg eins og nú er verið að laga það, sem ekki er bilað í Ríkissjónvarpinu. Spaugstofuna, sem hefur flesta viðskiptavini. Á CBS tókst oflátungunum skjótt að minnka áhorf og rústa fyrirtækið. Ég hef ekki trú á, að breytingar á Spaugstofunni auki notkun hennar. Vitlegra er að breyta þáttum, sem áhorfendur nota lítið. Og láta hina þættina í friði.

Þýzkaland er blóraböggull

Punktar

Bandaríkjastjórn undirbýr árás á Íran vegna meintra atómvopna. Þótt Mohamed ElBaradei, eftirlitsstjóri Sameinuðu þjóðanna, segi Íran fara að tilmælum. Bandaríkjastjórn réðst á Írak af sama tilefni, þótt eftirlitsmennirnir Hans Blix og Scott Ritter segðu landið fara að tilmælum. Bandaríkjastjórn lýgur nú eins og hún laug þá. Hún veður fram og lætur ekki staðreyndir aftra sér. Þýzkaland hefur ákveðið að taka engan þátt í ofsa Bandaríkjanna gegn Íran. Stjórn Bandaríkjanna segir þeim mun meiri ástæðu til að ráðast á Íran. Fasistastöðin Fox segir fyrirhugaða árás vera þýzkri linkind um að kenna.

Fela sig bak við trúna

Punktar

Trúað fólk fremur ekki færri glæpi en vantrúaðir. Trúað fólk hegðar sér ekki betur en vantrúaðir. Trúað fólk er ekki siðaðra en vantrúaðir. Jafnvel þótt yfirlögregluþjónn úr Fíladelfíu haldi því fram á Ómega. Þvert á móti eru trúaðir að meðaltali til meiri vandræða í samfélaginu en vantrúaðir. Yfirleitt eru vantrúaðir bezta fólk. Þeir eru ekki og þurfa ekki að fela sig bak við neitt. Algengt er hins vegar, að fólk, sem er eitthvað skrítið eða afbrigðilegt, feli sig. Bak við útbreidd trúarbrögð og önnur “sannindi” í samfélaginu. Án sannana fullyrðum við ekki, að vantrúaðir brjóti gler.

Samfylkingin rústar land

Punktar

Samfylkingin er ekki umhverfisflokkur. Afstaðan er svipuð og Framsóknar, þegar hún var í stjórn. Ekkert hald er í iðnaðar- og umhverfisráðherrum flokksins. Smám saman mun koma í ljós á einu ári, að óbreyttur hraði er á stóriðju. Tvær virkjanir verða reistar í Neðri-Þjórsá. Borað verður í Gjástykki, virkjað á Þeistareykjum og víða um Reykjanes. Ekkert verður reynt að hægja á fullu ferðinni. Áfram verður hræsnað “newspeak” upp úr bókinni “1984” eftir George Orwell. Talað verður um að fara varlega, en farið geyst í raun. Talað um að vernda land, en því rústað í raun.

Frítt fyrir alla

Punktar

Fólk, sem vill ekki fara í strætó, vill enn síður borga fyrir það. Nánast allir, sem geta, fara sinna ferða á bíl, hvað sem menn predika. Nú hefur verið prófað að gefa skólafólki frítt í strætó. Margir virðast sætta sig við að fara í strætó upp á þau býti. Skipulagsvitringar telja, að aukin notkun á strætó létti á umferðinni og spari framkvæmdir. Rökrétt framhald þeirrar skoðunar er að gefa öllum frítt í strætó. Sums staðar erlendis er farið að gera það. Tekjutapið ætti að jafnast upp með sparnaði í kostnaði við umferð og mannvirki. Frítt fyrir alla er sanngjarnt næsta skref.

Þreyta lélegs verkmanns

Punktar

Þægilegt er að liggja í laut og horfa á annan járna. Hann var að járna fyrir mig níu hesta fyrir sumarferðir. Ég gæti ekki járnað einn á dag. Er slakur í erfiðisvinnu og verð fljótt þreyttur. Sem bóndi þarf ég að sinna girðingum, nýjum og gömlum, nokkra daga á sumri. Alltaf verð ég jafnþreyttur. Verð líka þreyttur af að sitja á hestbaki. Sex tímar í hnakk á dag eru nóg, tíu tímar of mikið. Þegar hestar eru komnir í næturhaga og ég í skála, á ég nánast enga orku eftir í bloggið. Engar hugmyndir, tómur að innan. Kannski gerir þessi tæming hestaferðir svo unaðslega þægilegar.

Bilað eldhús á Geysi

Veitingar

Þjónusta er góð á Geysi, nýjum og björtum stað ofan við Sjávarkjallarann austast í Vesturgötu. Stílhreinn er hann ekki. Ég kann ekki við mislitt burðarvirki og enn síður við spegilglansandi diner-stíl á rauðum skenk. Ljósakrónur eru smart. Geysir hefur náð vinsældum ungs fólks, sem étur pöstur og hamborgara. Sápulykt var að vatnsglasinu. Spergilkálssúpa var hveitigrautur að hefðbundnum hætti íslenzkum. Ýsa var fyrst pönnusteikt og svo gratíneruð með meðlæti. Aðallega meðlæti, hrísgrjónum, sveppum og rækjum. Áhugaverður samkomustaður, en ekki innlegg í gastrónómíu bæjarins.

Draumur fjölþjóðafyrirtækis

Punktar

Icelandair lætur Letcharter taka yfir flug, sem íslenzkir flugmenn hafa áður sinnt. Að því leyti er flugfélagið að brjóta á Íslandi. Flugfólk getur hins vegar ekki ætlast til að fá störf, sem lettneskt flugfólk hefur áður sinnt. Deilan milli Icelandair og flugmanna er ekki spurning um svart og hvítt. Sumpart hefur félagið samt verið að færa verkefni frá íslenzku flugfólki yfir til ódýrara fólks. Það er draumur fjölþjóðafyrirtækja að kaupa vinnu, þar sem hún er ódýrust. Sá draumur er ástæða þess, að Ísland verður að taka fast á slíkum fyrirtækjum. Aðgerðir flugmanna eru réttmætar.

Þjóðin áttar sig á Evrópu

Punktar

Þótt Evrópusambandið sé ekki fullkomið og evran ekki fullkomin, eigum við að vera með. Þótt embættismenn séu fyrirferðarmiklir í sambandinu, eru þeir ekki vanhæfir eins og þeir íslenzku. Þeir evrópsku kunna stjórnsýslu, en íslenzkir embættismenn kunna ekkert í henni. Þótt lýðræði sé lítið í sambandinu, er það enn minna hér á landi. Mestu máli skiptir, að krónan er orðin hættuleg hagkerfinu. Hún rambar út og suður, viðkvæm fyrir árásum fjárglæframanna. Sem betur fer er þjóðin loksins eftir dúk og disk að átta sig á, að fullyrðingar Davíðs Oddssonar í evrópumálum eru hlægilegar.

Bandaríkjamönnum að kenna

Punktar

Stríðið í Írak er ekki bara George Bush að kenna. Það er Bandaríkjamönnum að kenna. Þeir kusu hann og endurkusu hann meira að segja eftir að eðli hans var orðið ljóst. Hvar eru milljónir manna að mótmæla á götum borga í Bandaríkjunum? Hvergi. Hér og þar eru hundrað manns. Hvar er hin heilaga reiði, sem drap stríðið gegn Víetnam? Hvergi. Demókratar malda í móinn, en eru meira eða minna sammála repúblikönum. Obama frambjóðandi vill meira að segja ráðast á Íran. Clinton frambjóðandi studdi stríðið gegn Írak fram á þetta ár. Veruleiki almennra Bandaríkjamanna er firrtur sýndarveruleiki.