Þægilegt er að liggja í laut og horfa á annan járna. Hann var að járna fyrir mig níu hesta fyrir sumarferðir. Ég gæti ekki járnað einn á dag. Er slakur í erfiðisvinnu og verð fljótt þreyttur. Sem bóndi þarf ég að sinna girðingum, nýjum og gömlum, nokkra daga á sumri. Alltaf verð ég jafnþreyttur. Verð líka þreyttur af að sitja á hestbaki. Sex tímar í hnakk á dag eru nóg, tíu tímar of mikið. Þegar hestar eru komnir í næturhaga og ég í skála, á ég nánast enga orku eftir í bloggið. Engar hugmyndir, tómur að innan. Kannski gerir þessi tæming hestaferðir svo unaðslega þægilegar.