Orkuveitan hirt

Punktar

Menn með góð sambönd við opinbera aðila nota hér á landi sömu aðferðir og ólígarkarnir í Rússlandi. Þeir hirða Orkuveituna, eign útsvarsgreiðenda í Reykjavík. Ráðamenn Orkuveitunnar hafa lengi verið að undirbúa valdatökuna. Orkuverði borgarana hefur verið haldið háu, svo að þeir hafa myndað digra sjóði. Hluti sjóðanna hefur verið notaður til ýmissa gæluverkefna, svo sem fiskeldis og ljósleiðara. Nú á að gefa ólígörkum afganginn. Það á að vera tannfé þeirra í útrás á erlenda markaði. En þetta er röng aðferð. Þeir eiga sjálfir að borga sína útrás. Ósiðlegt er að hirða Orkuveituna í því skyni.

Gagnkvæmir greiðar

Punktar

Auðræðið, sem hefur leyst lýðræði af hólmi í Bandaríkjunum, er ekki auðræði frjálshyggjunnar. Það er auðræði greiðabandalags stjórnmála og auðhringja. Allir stjórnmálamenn landsins eru fjármagnaðir af auðhringjum og reka erindi þeirra í stjórnmálum og stjórnsýslu. Þeir setja upp hindranir í viðskiptum, þegar það hentar auðhringjum. Þeir fara í stríð við fátæk lönd, þegar það hentar auðhringjum. Þeir beita pólitísku valdi til að skekkja leikreglur auðræðisins. Auðræði nútímans felst í gagnkvæmri greiðasemi stjórnmála og fjármagns. Hefðbundnir fjölmiðlar nefna ekki þessa staðreynd.

Metnaðarfull ágirnd

Punktar

Flest skil ég í atvinnuauglýsingunum. Orðið metnaðarfullur hefur þó vafizt fyrir mér. Það komst í tízku fyrir fimmtán árum á vegum stjórnunarfræða. Þá var ég hvattur til að leita að “metnaðarfullu” starfsfólki. Mér sýndist það vera skylt orðinu ágirnd. Það nái til fólks, sem vill verða ríkt á skömmum tíma. Að minni reynslu urðu þeir vandræðagemlingar, sem lögðu áherzlu á metnað sinn til starfa. Einkenni þeirra var að stytta sér leið og skálda í stað þess að vinna vinnuna sína. Núna auglýsa flestir eftir metnaðarfullu (ágjörnu) fólki, meira að segja félagsþjónusturnar. Ágirndin er í sókn.

Hér vantar evrópugæði

Punktar

Við þurfum margt að gera til að fá heilsuþjónustu af evrópugæðum. Health Consumer Powerhouse rekur ýmis atriði, sem máli skipta og eru hér skammt á veg komin. Heilsukerfið er ekki notendavænt, fólk veit ekki, hvað það á gera og hvaða rétt það hefur. Raunar veit enginn, hvaða rétt fólk hefur. Fólk hefur ekki greiðan aðgang að heilsusögu sinni, samskiptum sínum við kerfið um langt árabil. Hér er ekki umboðsmaður sjúklinga. Hér blaðra ráðherrar sífellt um frábært heilsukerfi og um einkavæðingu að brezk-bandarískum hætti. Í stað þess að læra af kjarnaríkjum Evrópusambandsins.

Peningaflóð til demókrata

Punktar

Wall Street Journal bendir á, að ýmsir peningafurstar repúblikana veðji nú á demókrata. Þeim ofbýður skeytingaleysi gamla flokksins í fjármálum og efnahagsmálum. Og þeir telja tímabært að taka tillit til nýrra tíma í velferð og umhverfi. Tvöfalt meira fé streymir nú til demókrata en til repúblikana. Um leið hafa frambjóðendur demókrata hliðrað skoðunum sínum inn á miðjuna. Dæmigerð fyrir það er Hilary Clinton, sem er að drukkna í peningaflóði. Greinin í Wall Street Journal minnir á, að auðræðið vestra ræður ferð, hvor flokkurinn sem stjórnar landinu. Lýðræðið er bara form.

Slúbbertar heimsins

Punktar

Umgengni herstjóra Burma við Ibrahim Gambari sýnir eymd Sameinuðu þjóðanna. Hann var í Burma á vegum samtakanna að reyna að ná tali af ráðamönnum. Þeir gáfu honum ekki færi á sér, létu hann bíða á biðstofum. Jafnframt leituðu þeir að fulltrúum samtakanna í landinu og tóku þá fasta. Gambari varð að flýja og hefur ekki þorað að tala við blaðamenn síðan. Er hann þó kominn í öryggið í New York. Sneypuför hans sýnir virðingarleysi við heildarsamtök ríkja heims. Enginn talar um að hernema Burma, af því að Bandaríkin hafa komið illu orði á hernám harðstjórnarríkja. Það vita slúbbertar heimsins.

Tilgangslítil frístundakort

Punktar

Frístundakortin eru notuð af þeim, sem hafa ráð á að borga frístundir sínar sjálfir. Gjafir hins opinbera, sem kosta framtak viðtakenda, eru nýttar af fjölskyldum, sem hafa framtak og bezt eru settar. Fjölskyldur, sem þurfa kortin, sitja áfram framtakslausar við sjónvarpið. Frístundakortin eru að hluta þáttur athafnastjórnmála. Slík stjórnmál felast sumpart í að úða fé í fyrirtæki, til dæmis verktaka og íþróttafélög. Og sumpart felast þau bara í æðibunugangi taugaveiklaðra pólitíkusa. Auðvitað eru þau að hluta lýðskrum borgarfulltrúa í kosningabaráttu. Frístundastaðirnir hækkuðu bara prísana.

Heilsuþjónusta bezt í Evrópu

Punktar

Staðfest er, að heilsuþjónusta er bezt í Frakklandi, Þýzkalandi, Svíþjóð, Hollandi, Austurríki og Sviss. Nýjar tölur eru komnar frá Health Consumer Powerhouse, sem byggist tölur sínar á traustum aðferðum. Meðal annars eru mældir biðlistar og niðurgreiðsla á lyfjum og sjúkrakostnaði. Við eigum í ríkidæmi okkar að miða við þessi ríki, en ekki við Bretland, sem er lágt skrifað á skalanum, neðan við Írland. Bretland er eina ríkið í Evrópu, sem hefur fetað í átt til einkavæðingar í heilsuþjónustu. Enda er frægt, hversu léleg þjónustan er þar, þótt hún sé betri en í einkavæddum Bandaríkjunum.

Sá hvalkjöt og fraus

Punktar

Renée Loth hjá Boston Globe segir þar frá skelfingu, sem greip hann, þegar hvalkjöt var á borðum. Það var í Japan, að udurfögur kona var leiðsögumaður hans í borðhaldi. Hún sagði honum nákvæmlega, hvað væri í hvaða rétti. Þegar kom að hvalkjötinu, fraus Loth. Hann segist ekki vera grænfriðungur, en sér finnist óhugsandi að éta hval. Það er ein helzta forsenda lífs hans (axiomatic), segir hann. Í fátinu fékk hann sér bita, og skrifar greinina til að afsaka framferði sitt. Greinin er gott dæmi um, að andúð á hvalveiði er inngróin í sál Bandaríkjamanna. Rökræður geta hvergi komið þar nálægt.

Reitir eru dellan í ár

Punktar

Olíufélagið og Bílanaust heita núna N1 og Oddi heitir A4. Það er tízkan í ár. Senn munu mörg fyrirtæki heita eftir reitum í töflureikni. Fyrir nokkru var fínt að heita -lausnir. Kassagerðin var skírð Umbúðalausnir. Rakarinn hét Hárlausnir. Ferðaskrifstofa hét Ferðalausnir. Skúringar heita líklega þrifalausnir. Almannatenglar heita þá ímyndarlausnir og stjórnmálaflokkur getur kallað sig þjóðlausnir. Þessi tízka stóð í nokkur ár og lifir enn í nokkrum smáfyrirtækjum. Einkenni á tízkudellum af þessu tagi er, að þær endast skammt. Ófrjóir almannatenglar fá sífellda vinnu við nýjar skírnir.

Meðvitaður samdráttur

Punktar

Minnkaður lestur dagblaða í Bandaríkjunum stafar einkum af ásettu ráði útgefenda. Auglýsendur eru hættir að vilja ná til sem flestra og vilja heldur ná til sem auðugastra. Ekki borgar sig að auglýsa í eintökum, sem fara til fátækrahverfa. Það stendur ekki undir pappír og dreifingu. Þess vegna eru bandarísk blöð hver um annað þvert að skera niður dreifingu til óheppilegra staða. Frægt er, að Rupert Murdoch kvartaði yfir að tízkubúðin Bloomingdale auglýsti í New York Times, en ekki í hans alþýðlega New York Post. Forstjórinn svaraði um hæl: “Lesendur þínir eru hnuplarar okkar.”

Fylgispekt í fótbolta

Punktar

Ekki vildi ég styðja fótboltafyrirtæki auðhringsins American Glazers. Ekki heldur auðrússans Alisher Usmanov. Né bandarísku auðjöfranna Tom Hicks og George Gillet. Enn síður auðrússans Roman Abramovits. Fyrirtækin heita í sömu röð Manchester United, Arsenal, Liverpool og Chelsea. Á Íslandi lifa menn í villtri fylgispekt við þessa auðmenn. Með trefla um háls og nærbuxur í lit, þótt jöfrarnir séu einfærir um að passa upp á sitt. Níu félög ensku úrvalsdeildarinnar eru í eigu erlendra auðjöfra og níu önnur að hluta. Hér ganga menn svo langt að safna fé til að borga glæpasektir McLaren Ltd.

Enn er langt til Evrópu

Punktar

Evrópusinnar eru enn í minnihluta með þjóðinni. Meðan svo er, mun enginn pólitíkus og því síður stjórnmálaflokkur setja Evrópu á oddinn. Fylgið við Evrópu þarf að fara upp í 60% til að það verði þorandi. Þegar á reynir, munu afturhalds- og þjóðernisöflin taka til óspilltra málanna. Þau munu segja, að fullveldi landsins sé í voða. Evran sé óþjóðleg. Í kjölfar hennar muni dópaðir útlendingar setjast hér að. Þjóðernisstefna hefur makað krókinn í Evrópuslag í öðrum löndum. Á síðustu metrum í erlendri kosningabaráttu hafa sjónarmið sameinaðrar Evrópu og evrópsks gjaldmiðils jafnan látið undan síga.

Hersh slettir skyrinu

Punktar

Seymour Hersh gæti sætt sig við Henry Kissinger sem forseta Bandaríkjanna. Í viðtali við Spiegel segir þessi frægasti rannsóknablaðamaður heims, að Kissinger sé útreiknanlegur. Hann ljúgi eins og annað fólk andar. Menn viti, hvað þeir fá. Annað sé með George W. Bush. Hann sé óútreiknanlegur, telji sig vera handbendi guðs á jörðinni. Hirð Bush sé ónæm fyrir andstöðu, jafnvel meirihluta þingsins. Hún fari bara sínu fram, þvert á alla. Hersh segir bandaríska fjölmiðla hafa staðið sig hraksmánarlega. Um blaðið, sem Hersh starfaði lengst við, New York Times, segir hann, að það stinki. Stinki.

Síðbúinn púðluhundur

Punktar

Nicolas Sarkozy vill koma í stað Tony Blair. Frakklandsforseti hyggst verða fylgismaður George W. Bush númer eitt í Evrópu. Í stað forsætisráðherra Bretlands, sem framdi pólitískt sjálfsmorð með sínum stuðningi. Frakkland græðir ekkert á þessari stefnubreytingu. Bush er að drukkna í Afganistan og Írak, fyrirlitinn um heim allan. Frambjóðendur repúblikana í þingkosningum gæta þess að nefna hann aldrei á nafn. Sarkozy er að leggja af stað í sína skondnu krossferð, þegar aðrir eru komnir til baka. Áður var Tony Blair kallaður púðluhundurinn, en nú er Sarkozy að verða helzti púðluhundurinn.