Okrið er á oddinum

Punktar

Í Portúgal virkaði tölvan mín hratt og örugglega í þráðlausu sambandi við ADSL. Það er annað en hér heima. Hér hef ég þráðlaust ADSL-samband og kaupi hæsta fáanlega hraða hjá Símanum, 12 MB/s. Auðvitað kostar það stórfé. Ég gizka á, að allt gangi hér helmingi hægar en á sveitahóteli í Portúgal. Mælingar Símans sýna samt, að allt eigi að vera í lagi. En það er samt ekki í lagi. Ég horfi bara á auðan skjáinn og ekkert gerizt. Á 12 MB/s hraða. Ég gruna Símann um flöskuhálsa í þagnargildi. Mér sýnist, að þar gildi sama reglan og hjá öðrum einokurum landsins. Okrið er auðvitað á oddinum.

“Flokksræfilsháttur”

Punktar

Einn allra bezti dálkahöfundur landsins afgreiðir Orkuveitumálið í kjallara á baki Fréttablaðsins í dag. Davíð Þór Jónsson er einn fárra núlifandi manna, sem kann íslenzku og skilur pólitík. Við pistil hans má aðeins bæta tveimur atriðum. Annað er, að spillingin sigraði að lokum með Björn Inga Hrafnsson í broddi nýrrar fylkingar. Hitt er, að kontóristarnir Guðmundur Þóroddsson og Hjörleifur Kvaran gáfu REI útrásir Orkuveitunnar með svindli. Pólitíkusarnir, sem skilja ekki ensku, segjast hafa verið gabbaðir til að skrifa undir þetta. Þannig virkar ágirndin á Íslandi í dag, haustið 2007.

Bændasamtökin biluðu

Punktar

Við munum hætta að fallbeygja og fara að þýða enska málshætti orðrétt. Nú þegar eru mörg áherzluorð komin á ensku og bankarnir biðja um fleira. Þótt íslenzka hafi reynzt ágæt til síns brúks, er mörgum ofviða að nota tvö mál. Einn þáttur íslenzku mun þó lifa um aldir. Ekki bara hér á landi, heldur úti um allar álfur. Íslenzkir hestar eru orðnir fleiri erlendis en þeir eru hér á landi, hundrað þúsund. Þorri þeirra heitir á íslenzku. Alþjóðasamtök eigendanna hafa sett um það reglu. Einn aðili hefur þó bilað, íslenzku Bændasamtökin, sem halda ættbókina. Þau hleypa þar inn erlendum bannorðum.

Þráðlaust á herbergjum

Ferðir

Radisson-hótelið á Stansted flugvelli er við hlið flugstöðvarinnar, vel í sveit sett. Það er svo alþjóðlegt, að þú veizt ekki hvar þú ert í heiminum, þegar þú vaknar. Sumt er gott við slíkt hótel. Þau vita vel, hvað gestir vilja. Þar þarf ég ekki að fara í móttökuna til að nota tölvu. Þráðlaust netsamband er í öllum herbergjum. Þar er buxnapressa í hverju herbergi, svo og straujárn. Líka kaffivél og peningaskápur. Svo er gaman að stjóranum, sem hefur á stefnuskrá sinni, að kúnninn hafi alltaf rétt fyrir sér. Alþjóðavæðingin hefur sína kosti, sem koma í ljós á Radisson við Stansted.

Dómstólar á villigötum

Fjölmiðlun

Dómstólar landsins að Hæstarétti meðtöldum eru í herferð gegn fjölmiðlun. Hver dómurinn á fætur öðrum snýst um mál, þar sem fjölmiðillinn hafði rétt fyrir sér í stóru og smáu. En er dæmdur fyrir að særa persónu viðkomandi slúbberts. Þar á ofan er farið að vísa ábyrgð á efni frá ritstjórum yfir til forstjóra, sem er nýlunda. Dómarnir sýna breyttan forgang. Málfrelsi víkur fyrir persónurétti. Sá réttur snertir almenning lítið. En verndar slúbberta, þegar fjölmiðlar vilja réttilega fjalla um svínarí þeirra. Í þessum flótta frá málfrelsinu eru dómstólar landsins komnir á villigötur.

Gönguleiðum lokað

Punktar

Nokkrir húseigendur í Fossvogi hafa lokað göngustígum til að stækka lóðir sínar og minnka umferð nálægt sér. Í lóðareglum eru kvaðir um, að þarna séu gönguleiðir almennings. Menn komast upp með að loka þessu eins og menn komast upp með aðra frekju. Sama er uppi á teningnum á Seltjarnarnesi. Þar á að vera greið leið um ströndina samkvæmt landslögum. Allt frá Suðurnesi inn í Fossvogsdal. Samt hafa húseigendur við Sæbraut lokað þessum aðgangi með því að reisa veggi í sjó fram. Aldrei hafa yfirvöld hreppsins amast við því. Þannig komast frekjudallar upp með að hrifsa til sín sameiginleg gæði.

Netokur á hótelum

Ferðir

Ég er búinn að ferðast dálítið um nágrenni Lissabon. Hvar sem ég hef gist á hóteli, hef ég fengið aðgang að heitum reit, þráðlausu netsambandi. Alls staðar hefur aðgangurinn verið ókeypis, enda tilkostnaður enginn. Fortaleza Guincho var með annað kerfi, samkrull með Og Vodafone um að plokka gesti. Þar þurfti sambandið að fara um hendur símaokrara, sem tók stóran pening fyrir. Ef þið pantið pláss á erlendu hóteli, spyrjið endilega um þetta. Hvort þráðlaust netsamband sé ókeypis eða kosti formúu. Hafnið hótelum, sem hleypa að símaokri. Ýtið okrurunum þannig út af markaði hótelgistinga.

Börn í borgarstjórn

Punktar

Ljósmynd Brynjars Gauta í Mogganum af grátbólgnum minnihluta Sjálfstæðis í borgarstjórn opnaði augu mín: Flokkurinn hafði sett börn í borgarstjórnina. Þau eiga að vera í sandkassa, ekki í pólitík. Þau töldu sig geta haldið fundi út og suður án þáttöku borgarstjórans. Þau töldu sig geta kúgað hann til hlýðni. En þau kunnu ekki að telja. Sex manns töldu sig vera átta. Þau voru svo sannfærð um að geta stjórnað Binga og Framsókn, að þau virtu hann ekki viðlits. Þá fattaði Bingi, að þetta voru börn. Lífsreyndi pólitíkusinn sá, að ekki borgaði sig að vera kominn upp á meirihluta skipaðan börnum.

Ólykt af meirihlutaskiptum

Punktar

Ólykt er af nýjum meirihluta í Reykjavík, einkum af Birni Inga Hrafnssyni. Hann samdi í fyrrakvöld um framhald fyrri meirihluta. Var í gærmorgun á leið til fundar við þáverandi borgarstjóra. Í stað þess að mæta þar, fór hann á fund með minnihlutanum og skipti þar um skoðun. Hann gekk þar í nýjan vinstri meirihluta að hætti Reykjavíkurlistans. Áttavilltur akstur Björns um borgina nokkrar mínútur milli 10:25 og 10:30 í gærmorgun leiddi til nýs meirihluta. Þótt gamli meirihlutinn hafi riðað vegna ágirndar manna í Orkuveitumálinu, verður nýja fjórflokkastjórnin enn valtari í sessi.

Virkin við Lissabon

Punktar

Fortaleza í Guincho er eitt bezta hótelið í nágrenni Lissabon. Í rúmlega tveggja alda gömlu virki á litlu nesi út í Atlantshafið við Sintra-fjöll. Aðalkostur hótelsins felst þó í nýklassískum matsal með Michelin-stjörnu, annarri af tveimur í Portúgal: reservations@guinchotel.pt. Annað skondið hótel nálægt Lissabon er Pousada Castelo de Palmela í klaustri uppi á fjallstindi ofan við Setúbal. Það var áður virki Mára, sem kaþólskir náðu ná sitt vald fyrir rúmlega átta öldum. Þar er ógleymanlegt útsýni til allra átta. Það er hluti af portúgalski ríkiskeðju hallarhótela: www.pousadas.pt.

Farsinn um framboðið

Punktar

Utanríkisráðherra fórnaði Bjarna Vestmann til að hafa harðstjóra Sri Lanka góða. Hún vildi halda stuðningi þeirra við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þess vegna kallaði hún Bjarna heim eftir fund hans með Tamilselvan, yfirmanni frelsissamtaka Tamíla. Hún baðst líka afsökunar í klukkustundar símtali við utanríkisráðherra Sri Lanka. Núna hefur hún snúið við blaðinu og segir Bjarna njóta fulls trausts ráðuneytisins. Þetta heitir flip-flop á amerísku. Þannig þarf ráðherra að haga sér, þegar ráðuneytið er í framboði til öryggisráðsins. Hún þarf að haga seglum eftir sviptivindum.

Æðri menntun opnast

Punktar

Atvinnulífið kallar á langskólamenntun og lætur verk fylgja orðum. Fólk og fyrirtæki eru farin að gefa stórfé til að bæta menntun. Auðvitað framhjá menntaráðuneytinu, sem liggur eins og mara á æðri menntun. Sem reynir að passa, að allt sé eins og það hefur alltaf verið. Breytist eins hægt og unnt er. Róbert Wessman, forstjóri Actavis, gaf milljarð í Þróunarsjóð Háskólans í Reykjavík. Það er vonandi upphaf að ferli, sem við höfum séð um áratugi í Bandaríkjunum. Einkaframtakið kemur til skjalanna, þar sem ríkið bregzt skyldum sínum. Við það opnast þróun æðri menntunar upp á gátt.

Rykfallið ráðuneyti

Punktar

Menntaráðuneytið hefur ekki forustu um þróun æðri menntunar. Starfsgreinar rísa og hníga án afskipta þess. Til dæmis skortir fjármálafræðinga í banka og atvinnulíf, án þess að ráðuneytið hafi afskipti af því. Á sama tíma er rekin kennsla með árlegum rytma í hefðbundnum greinum. Þótt tveggja ára rytmi mundi duga, til dæmis í guðfræði eða tannlækningum, þar sem fáir útskrifast. Risið hafa fjölmennar stéttir fagmanna, án þess að ráðuneytið hafi boðið kennslu í grein þeirra. Atvinnulífið er farið að grípa í tauma. Róbert Wessman, forstjóri Actavis, setti milljarð í Háskólann í Reykjavík.

Frumkvæði atvinnulífsins

Fjölmiðlun

Tíu ritstjórar og níu fréttastjórar á 29 manna námskeiði mínu í ritstjórn við Háskólann í Reykjavík. Þetta þriggja mánaða námskeið er til marks um þorsta fólks og atvinnulífs fyrir símenntun. Sem ekki fæst á annan hátt og alls ekki með aðkomu ríkisins. Fyrirtækin og samtök blaðamanna hafa gert þetta námskeið kleift. Eins og önnur námskeið, sem ég hef verið með við skólann. Ríkið kemur auðvitað hvergi nærri. Það er upptekið við að veita fé til kennslu í fjölmiðlafræði. Þótt tæpast þurfi meira en þrjá-fjóra slíka vandamálafræðinga á ári. Frumkvæði menntamála rennur til atvinnulífsins.

Kunnátta fyrir blaðamenn

Fjölmiðlun

Fjölmiðlafræði er fræðigrein, sem fjallar um fjölmiðla sem vandamál. Hún er grein af meiði vandamálafræða. Hún ræðir um kynjamisrétti, hliðvörzlu og fleira skemmtilegt. Gott er að fá slíka fræðinga, kannski tvo-þrjá árlega. Kannski fá þeir kaup einhvers staðar. Á sama tíma þurfa fjölmiðlar ekki tvo-þrjá blaðamenn árlega, heldur tuttugu-þrjátíu. Þeir þurfa að kunna textastíl. Þeir þurfa að kunna rannsóknir. Þeir þurfa að kunna ritstjórn fjölmiðla. Þeir þurfa að kunna nýmiðlun. Þeir þurfa að sjá, hvernig ekkert stendur kyrrt í faginu. En þeir þurfa ekki að kunna mikla vandamálafræði.