Bezt að byrja á núlli

Punktar

Vilhjálmur, Gísli Marteinn og Hanna Birna taka pólitískum afleiðingum Orkuveitumálsins. Saman eru þau hópslys, þótt hlutur Vilhjálms sé verstur. Ágirndarkarlar hrærðu svo í honum, að hann vissi tæpast lengur, hvað hann hét. Björn Ingi tekur enga pólitíska ábyrgð á þætti sínum í svindlinu. Hann er kominn á kaf í nýjan meirihluta með nýjum gróðavonum. Enn hafa Guðmundur Þóroddsson og Hjörleifur Kvaran ekki snautað brott. Þeir sviku Reykvíkinga. Ætluðu að gefa bröskurum mannauð Orkuveitunnar, að vísu með samþykki aumrar Orkuveitustjórnar. Nú er bezt að strika yfir allt málið og byrja á núlli.

Óskabörn þjóðarinnar

Punktar

Nokkrir ágjarnir Íslendingar hafa lent í kasti við lög í fjarlægum löndum. Þjóðin dauðvorkennir þeim eins og öðrum skúrkum. Fjölmiðlar rekja, hversu skelfilegt sé að vera í erlendum fangelsum. Þar komi ekkert lukkudýr ágirndarinnar færandi hendi með rúm og flatskjái. Það síðasta telst til mannréttinda íslenzkra fanga. Mér hefur aldrei dottið í hug að kaupa slíka vöru handa sjálfum mér, hvað þá föngum. Fangar eru forgagnsstétt. Þeir fljúga inn á Alþingi undir merkjum ágirndarflokksins. Næst þarf að senda lukkudýrið um heiminn með rúm og flatskjái handa óskabörnum þjóðarinnar.

Vitjunartími kansellista

Punktar

Allir eiga rétt á að fá að sjá gögn, sem opinberir aðilar safna um þá. Það er hornsteinn mannréttinda gagnvart stjórnsýslu. Helmingurinn af hlutverki Úrskurðarnefndar um upplýsingamál felst í að gæta þessara hagsmuna fólks. Út í hött er, að Barnaverndarnefnd Kópavogs haldi upplýsingum leyndum fyrir Breiðuvíkurdrengjum. Hún liggur á 56 síðum um Guðmund Gissurarson. Lét hann aðeins hafa fjórar ritskoðaðar síður. Barnaverndarnefndin er greinilega af meiði kansellista, sem telja sig yfir aðra hafnir. Hún heldur sig geta ráðskast með fólk að vild. En þeir tímar eru sem betur fer löngu liðnir.

Kraftaverk í tímaritum

Fjölmiðlun

Sum tímarit hafa fókus, hafa því áskrifendur og eru traust til langs tíma. Svo sem Gestgjafinn og Hús & híbýli. Önnur reiða sig á frábæran ritstjóra, sem dregur að lausasölu, þótt fókus sé víður. Dæmi um það eru Ísafold og endurreist Mannlíf. Ef hann hættir, má ætla, að tímaritið hrynji. Þetta las ég úr fundi í gær. Hann héldu nemendur mínir á námskeiði í RITSTJÓRN með jöxlunum Reyni Traustasyni og Mikael Torfasyni. Þeir voru að svara þessu: Á fókus tímarita að vera víður eða þröngur? Kennslubókin mælir með þröngum fókus. En manískir ritstjórar geta sem kraftaverkamenn notað víðan fókus.

Réttlæting stríðs

Punktar

Just War er ný bók eftir Charles Guthrie lávarð og Sir Michael Quinlan. Guthrie var formaður brezka herráðsins og Quinlan stjórnaði ráðuneyti hermála. Þeir segja, að Bretland hafi oft farið í stríð bara sisvona án raka. Írak er nýjasta dæmið. Tony Blair hóf það út á eigið hugboð, gegn ráðum kerfiskarla. Höfundarnir rekja sex réttlætingar stríðs. Þær eru: Réttlæti. Mikilvægi. Góður vilji. Rétt heimild. Sigurlíkur. Síðasti kostur. Tony Blair braut fimm af þeim. Höfundarnir segja Íraksstríðið hafa kálað getu vesturlanda til að hefja stríð, þegar réttlætingarnar sex leyfa það.

Batnandi Útlendingastofnun

Punktar

Feginn er ég, að Útlendingastofnun ákvað að vísa Miriam Rose jarðfræðinema ekki úr landi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bað um brottvísunina. Því að Rose tók þátt í mótmælaaðgerðum gegn stóriðju. Hún klifraði í burðarvirki og sat inni átta daga. Löggustjóri höfuðborgarsvæðisins hneigist til fasisma eins og ríkislöggustjórinn. Þessar stofnanir hafa farið á taugum. Þær telja náttúruvæna óvini ríkisins hvarvetna sitja á svikráðum í myrkri. Útlendingastofnun hefur ófagran feril, hefur sýnt óbeit á útlendingum. Hún komst þó þarna að réttri niðurstöðu. Batnandi stofnun er bezt að lifa.

Kálbögglar á forsíðu

Fjölmiðlun

Nú fæst svar við spurningunni: Má Ítalíumatur vera á forsíðu Gestgjafans? Eða kálbögglar? Er að fara upp í Háskólann í Reykjavík, kenni þar RITSTJÓRN á haustönn. Í dag er von á Reyni Traustasyni og Mikael Torfasyni. Þeir ætla að taka þátt í umræðu um tímarit. Hvort efnisval í þeim eigi að vera vítt eða þröngt. Erlenda kennslubókin segir efnisval eiga að vera þröngt. En hér á landi eru kenningar um, að við íslenzkar aðstæður þurfi það að vera vítt. Þetta er mikilvæg spurning, sem verður vafalaust þaulrædd. Því fjölmargir ritstjórar tímarita sitja á bezt mannaða námskeiði sögunnar í blaðamennsku.

Forsenda heimsfriðar

Punktar

Með friðarverðlaunum Al Gore hefur nóbelsnefndin viðurkennt, að barátta fyrir umhverfinu sé forsenda friðar í heiminum. Ef mannkynið missir tökin, munu ríki heimsins senn berjast um vatn og olíu, flóðahættu og góðmálma. Hægri afturhaldsmenn hengja sig í örfáar villur í kvikmynd hans, An Inconvenient Truth. Þeir hata Gore eins og pestina. Enda opnaði hann augu milljóna fyrir vitfirringu valdhafa með kvikmyndinni. Staðan er orðin svo slæm, að börn okkar munu eftir örfáa áratugi sæta hruni lífskjara. Þá fer allur auður heimsins í neyðaraðgerðir, því að menn fresta aðgerðum núna.

Morgunverður á flugvallarhóteli

Ferðir

Helmingur morgunverðargesta voru viðgerðamenn tækjasala áleiðis í útköll. Þeir voru í strigaskóm og gallabuxum. Helmingur afgangsins voru sölumenn sömu fyrirtækja. Þeir voru í blankskóm, ljósbláum skyrtum og bleiserjökkum. Fimmtándi hver var kona. Dæmigerður morgunverður á hótelinu við Stansted-flugstöðina. Þetta er eins og fyrir mörgum áratugum, þegar ég tók þátt í að kaupa prenttækni. Ég kannaðist við týpurnar og hef meiri samúð með viðgerðarmönnunum. Flugvallarhótel er skrítinn samkomustaður fólks, sem á ekkert sameiginlegt, er að koma og fara. Enginn gistir meira en eina nótt.

Ríkið og sæstrengir

Punktar

Fullvalda ríki getur ekki sætt sig við annað en að ráða innviðum samgangna. Íslenzka ríkið verður að eiga eða vera stór eignaraðili að sæstrengjum til landsins. Þótt ekki sé nema af öryggisástæðum. Það er engin sósíalismi að hafna kverkataki einkafyrirtækja á sæstrengjum, vatnsveitum, flugvöllum, hitaveitum, vegum, raflínum og orku. Ríkisstjórnin hlýtur að geta skýrt stefnuna fyrir eftirlitsstofnun Fríverzlunarsamtakanna. Aðild ríkisins og opinberra fyrirtækja að nýjum sæstreng gerir kleift að vista fjölþjóðlega netþjóna hér á landi. Það kemur auðmanninum Kenneth Peterson ekkert við.

Dauðagildra á Nesinu

Punktar

Sjúkrabörum er ekki hægt að koma inn í útiklefa sundlaugar Seltjarnarness. Slösuðu fólki er bara unnt að koma út í keng. Meðalfeitt fólk verður að deyja á staðnum. Þetta kom í ljós um helgina. Sjúkrabíll kom til að sækja granna konu í klefann. Björgunarfólkið lenti í vandræðum með að troða henni út. Allt bjargaðist um síðir á bráðavaktinni. Laugin er eitt af snilldarverkum íslenzkra arkitekta. Notendur hennar hafa reynt að fá dauðagildruna lagaða, til dæmis með því að setja upp skerm í stað hurðar. En arkitektar og apparatið á Seltjarnarnesi virðast vilja hafa minnisvarðann óbreyttan.

Bjartsýni Bandaríkja

Punktar

Gary Younge skrifar ágætan kjallara í Guardian um bjartsýni Bandaríkjanna. Þar vilja menn heyra glaðar fréttir, en hafna harmafréttum. Þess vegna tóku Bandaríkjamenn George W. Bush fram yfir Al Gore, að vísu með stuðningi Hæstaréttar. Greinin sýnir vel, hvernig Bandaríkjamenn hafa almennt neitað staðreyndum. Þeir telja sig hafa unnið stríð og geta áfram unnið stríð. Þeir telja sig forusturíki heims í lýðræði og umhverfi og efnahag. Þeir telja sig elskaða af öllum. Allt er þetta rugl eins og alheimur veit. Og nú er komið að því, að Bandaríkjamenn eru farnir að horfast í augu við það.

Letifrétt Fréttablaðsins

Fjölmiðlun

Hefðbundið er, að fréttir svari örfáum spurningum: Hver gerði (sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo? Þetta virðist ekki flókið, en vefst samt fyrir þeim, sem kunna lítið til starfa. Fréttablaðið er fullt af yfirborðsfréttum, sem káfa utan í sumar þessar spurningar, en svara þeim ekki öllum. Blaðið virðist hafa sérstaka fíkn í að fjalla um mig með þessum lélega hætti. Sennilega af því að ég kenni blaðamennsku. Í dag birtir það letifrétt um sex málaferli, þar sem ég kem við sögu í þremur tilvikum af sex. Þar er ekki svarað spurningunum: Hvernig, hvers vegna og hvað svo?

Yfirborðsfrétt dagsins

Fjölmiðlun

Í Fréttablaðinu í dag er ein af þessum dæmigerðu yfirborðsfréttum, þar sem ekki er talað við málsaðila. Hún snýst um nokkra dóma yfir ýmsum ritstjórum DV síðustu ár Sameiginlegt einkenni allra þessa mála er, að ekki var deilt um málsatvik. Þetta voru réttar fréttir. Dæmt var vegna ónærgætni við þá, sem skrifað var um. Íslenzkir dómstólar hafa byrjað að hunza rétt og rangt í fréttum. Dæma bara á þeim forsendum, að ekki skuli raska persónuvernd fólks. Ég hef áður bent á, að þetta sé hættulegt ferli, sem slúbbertar muni notfæra sér í auknum mæli. Fréttablaðið í dag varpar engu ljósi á það.

Guðfinna skaðar Ísland

Punktar

Guðfinna S. Bjarnadóttir greiddi furðulega atkvæði á fundi Evrópuráðsins. Hún greiddi atkvæði gegn ályktun, sem varaði við kennslu í sköpunarhyggju. Eins og flestir vita er þróunarkenningin almennt viðurkennd sem grundvöllur vestrænna vísinda. Sköpunarhyggja er hins vegar sértrú róttækra trúarhópa í nokkrum miðríkjum Bandaríkjanna. Miklu máli skiptir, að söfnuðir innleiði hana ekki í Evrópu. En Guðfinna studdi trúarofstækið í þessu máli. Ef henni er illa við þróunarkenninguna og raunvísindi almennt, hefði verið betra fyrir hana að sitja hjá. Fremur en að gera Ísland að umtalsefni erlendis.