Talíbanar á sigurbraut

Punktar

Rúmlega helmingur Afganistans er kominn í hendur talíbana eftir langvinnan hernað Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins. Það er niðurstaða Senlis stofnunarinnar, sem starfar á vegum IISS, Alþjóða herfræðistofnunarinnar. Nákvæmlega tilgreint ráða talíbanar 54% landsins. Mikið mannfall óbreyttra borgara af völdum skotglaðra hermanna frá Vesturlöndum hefur snúið áliti almennings gegn hernáminu. Senlis segir, að menn vinni ekki hug og hjörtu fólks með því að drepa það. Það er ráðgjöf, sem Bandaríkin hafa aldrei fattað. Enn er spurt, hvers vegna Ísland styður morðsveitir Vesturlanda.

Vill banna erfðabreytt

Punktar

Umhverfisdeild Evrópusambandsins vill banna erfðabreytt korn frá þremur framleiðendum, því að það skaði lífríki. Málið er í skoðun ráðherraráðsins. Það sætir gagnþrýstingi frá moldríkum líftækniiðnaði, sem nýtur stuðnings Heimsviðskipta-stofnunarinnar. Erfðabreytt vara hefur verið sérmerkt í Evrópu, en ekki bönnuð. Hún hefur aðeins náð 1% útbreiðslu í evrópskri búvöru. Þar hafa heil lönd og landshlutar verið lýst frí af erfðabreyttri vöru. Hér á Íslandi léku líftæknifyrirtæki lausum halda undir verndarvæng Guðna Ágústssonar, meðan hann var ráðherra. Við lendum því á svörtum lista.

Sérvizkan er sönn

Fjölmiðlun

Brezkir og bandarískir blaðamenn eru farnir að kortleggja stjórn opinberra heimilda á fjölmiðlun. Hvernig New York Times skýrði frá kjarnorkuvopnum í Írak. Sem reyndust ekki vera til. Sem Hans Blix hjá Sameinuðu þjóðunum var búinn að segja, að væru ekki til. Hvernig fjölmiðlar fjölyrða núna um kjarnorkuvopn Írana, sem þó eru ekki til. Svokallaðir “ábyrgir fjölmiðlar” á Vesturlöndum eru meðvirkar málpípur ósvífinna svindlara á borð við Tony Blair og George W. Bush. Sannleikur ríkisvaldsins er tekinn trúanlegur. Réttum upplýsingum um hið gagnstæða er vikið til hliðar sem sérvizku.

Tækni krefst stíls

Fjölmiðlun

Smám saman deyja kynslóðir, sem vanizt hafa lestri texta af pappír. Nýjar kynslóðir venjast skönnun texta á skjá. Yngsta kynslóðin notar tákn sem skilaboð í farsíma. Lestur er að breytast í skönnun. Bókstafir breytast í broskarla. Allt þarf að vera stutt og hnitmiðað. Þá er ekki rétta stundin til að fara úr knöppum ritstíl Íslendingasagna og Halldórs Laxness yfir í froðusnakk háskólamenntaðra. Þá er ekki rétta stundin til að leysa sagnorð af hólmi með nafnorðum. Tækni nútímans kallar á einfaldan og tæran texta. Samt eru fjölmiðlar nútímans meira eða minna enn í langdregnum froðustíl.

Gott tilboð deCode

Punktar

DeCode gerir okkur gott tilboð. Fyrir 60.000 krónur fáum við forvitnilegar upplýsingar um sjúkdóma okkar. Hver áhættan sé í samanburði við meðaltalið. Hvort líkur okkar á hjartabilun eða sykursýki séu miklar eða litlar. Þetta eru fréttir, sem allir þurfa að vita. Munið líka, að upplýsingarnar eru til, hvort sem þið kaupið þær eða ekki. Þær rata á endanum til þeirra, sem sízt skyldi, einkum tryggingarfélaga. Vitneskja þín eykur ekki áhættuna. Miðlægir gagnagrunnar leka alltaf. Þannig fór um korta- og reikningsnúmer 25 milljóna Breta. Þau týndust í pósti frá skattinum til ríkisendurskoðunar.

Póltík fyrir fávita

Punktar

Horfið á bandarísku kosningabaráttuna. Þannig mun hún einnig verða hér fyrr eða síðar. Pólitíkin verður að leiksviði. Frambjóðendur hafa ekki lengur skoðanir, heldur viðhorf. Fjölmiðlar miða atburði ekki við tímans rás, heldur við væntingar til atburða. “Bush stóð sig vel, miðað við væntingar.” Markmið stjórnmála er að vera ekki leiðinleg. Þetta er veruleikasjónvarp, ódýrt sjónvarp, þar sem örlög ráðast. Kjallarahöfundar verða leikhúsrýnar. Sviðsetningin var fín, segjum við. Hann heillar ekki, segjum við. Pólitík snýst ekki lengur um lýðræði, heldur um ódýrt sjónvarpsefni fyrir fávita.

Áhrifalaus meistari

Punktar

Svo langt er liðið frá hátíð Jónasar Hallgrímssonar, að gæsahúðin er farin að sléttast. Menntavitar tóku til máls og spúðu froðu yfir mannskapinn. Í hefðbundnum stíl viðurkenndra skólaritgerða. Munurinn á málfari þeirra og skáldsins skar í augu. Tveimur spurningum er í huga mínum ósvarað: Hvernig gat langt leiddur alkóhólisti ort svona vel? Viðurkennda ævisagan er langt leidd af meðvirkni og skilur ekki, að mikill ferðadugnaður er eitt einkenna alkóhólisma. Hin spurning mín er nærtækari: Hvernig stendur á, að þjóð, sem elskar skáldið sitt svona heitt, hefur alls ekkert getað lært af því?

Ágjarnir bændur

Punktar

Bezta skemmtileið á Íslandi er Kjalvegur frá Haukadal í Biskupstungum til Mælifells í Skagafirði. Leiðin, sem Gizur jarl fór með 900 manns til að lækka rostann í Sturlungum. Með Fúlukvísl, um Þjófadali, Blöndukvíslar og Mælifellsdal. Oft hef ég riðið þessa 180 km leið. Eini ömurlegi staðurinn á leiðinni eru Hveravellir. Ágjarnir bændur í Húnavatnssýslum hrifsuðu þar staðarhald af Ferðafélagi Íslands. Hafa æ síðan verið sér til skammar. Ég sé enn fyrir mér hrákasmíði þeirra á sturtuklefum í snyrtingu staðarins. Leiðin til verndar hálendisins liggur ekki um handarverk ágjarnra bænda.

Siðferðisdvergarnir

Fjölmiðlun

Nýju fjölmiðlarnir kunna ekki mannasiði. Yahoo, Microsoft, Google og Rupert Murdoch sleikja ráðamenn Kína og taka á sig skyldur ritskoðunar til að fá svigrúm. Í bandarískri þingnefnd var stjóri Yahoo sagður siðferðisdvergur. Yahoo hafði afhent Kínastjórn tölvupóst, sem leiddi til tíu ára fangelsis Wang Xiaoning og Shi Tao. Þingmennirnir völtuðu kruss og þvers yfir Jerry Yang forstjóra. Full ástæða var til þess. Til sögu í fjölmiðlun eru komnir efnahagsrisar með víða hagsmuni og hamslausa ágirnd. Vestrænar leikreglur fjúka, þegar Kínastjórn veifar dollurum framan í nýju siðferðisdvergana.

Laskaðar klisjur

Fjölmiðlun

Gagnrýnendur textastíls í fjölmiðlum kvarta flestir um ranga notkun fastra orðasambanda. Að menn rugli þeim saman eða misskilji þau. Föst orðasambönd eru stundum kölluð orðtök, málshættir eða spakmæli. Sameiginlegt einkenni þeirra er hugtakið “klisja”. Einu sinni var sagt eitthvað minnisstætt og síðan tönnlast menn á því. Þótt sérhver notkun til viðbótar hinni fyrstu hafi bleytt í púðrinu. Einfaldara er að klippa klisjur en að fá fólk til að fara rétt með þær. Þótt klisjur kallist orðtök, málshættir eða spakmæli, leiðir notkun þeirra til flatneskju, ófrumleika og hugsunarleysis í texta.

Pútín hafnar eftirliti

Punktar

Alræðisstjórn Pútíns í Rússlandi hindrar eftirlit með þingkosningunum í desember. Skar niður um tvo þriðju fjölda eftirlitsmanna RÖSE, Ráðstefnu um öryggi og samvinnu í Evrópu. Neitaði svo restinni um vegabréfsáritun. Pútín hefur markvisst unnið gegn tilraunum til mótframboða. Stjórn hans hefur hafnað þeim flestum, til dæmis framboði Kasparofs. Og hún ein ræður, hvað birtist í sjónvarpinu. Það er orðið að áróðurstæki Pútíns. Embættismenn RÖSE segja kosningarnar verða marklausar. Eins og hjá Stalín í gamla daga. Samt segir utanríkisráðherra okkar ranglega, að ekki stafi hætta af Pútín.

Dauðarefsingar óvinsælar

Punktar

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt til afnáms dauðarefsinga. Að frumkvæði Ítalíu og Evrópusambandsins greiddu 99 ríki því atkvæði fyrir helgina. 52 ríki voru á móti, undir forustu Bandaríkjanna. Í liði með þeim voru einkum Kína, Íran, Írak, Pakistan og Súdan, ófrýnilegt og blóði drifið gengi. Öll Evrópa var auðvitað í hinu liðinu. Tvisvar áður var þetta reynt án árangurs, 1994 og 1999. Vinsældir dauðarefsinga hafa síðan fara dvínandi í heiminum, 130 ríki hafa lagt þær niður. Bandaríkin vildu setja inn ákvæði um bann við fóstureyðingum, en fengu því ekki framgengt frekar en öðru.

Tvö orð eða tíu

Fjölmiðlun

“Ekki er vitað til, að neinn hafi orðið fyrir slysi.” Þessi tvöfalda þvæla er einkennistexti íslenzkrar fjölmiðlunar. Í fyrri hluta málsgreinarinnar getur fjölmiðlungurinn hvorki fullyrt sjálfur um málsefni né borið neinn marktækan fyrir því. Hann brýtur fyrstu reglu blaðamennskunnar með því að fela sig að baki ónafngreindra heimildarmanna. Í seinni hlutanum fljúga slys um loftin og lenda á fólki. Eins og börn, sem sögð eru lenda á bílum og skemma þá. Einfalt og rökrétt er að orða svona: “Engan sakaði”. Eða “Enginn slasaðist”. Tvö orð segja skýra sögu, en tíu orð þyrla upp ryki.

Dýrkun hins sterka

Punktar

Pervez Musharraf leikur í Pakistan rulluna, sem Mohammad Reza Pahlavi lék í Íran fram til 1979. Bandaríkin hafa lag á að finna einn sterkan herforingja og setja allt sitt traust á hann. Þegar hann fellur, hrynur allt kerfið í kring. Þannig féll Íran í hendur Khomeini erkiklerks. Þannig mun Pakistan falla í hendur einhvers af togi Osama bin Laden. Pakistan er þegar orðin heimsins langmesta gróðrarstía andúðar á Bandaríkjunum. Þar á ofan á ríkið kjarnorkuvopn, sem geta fallið í skaut handóðra. Bandarísk tunga greinir illa milli ríkja og þjóða. Það sést hjá fjölmiðlum og valdhöfum þar vestra.

Verstu spár rætast

Punktar

Sameinuðu þjóðirnar staðfestu á laugardaginn, að rætzt hafa verstu spár um vistkerfi mannsins. Við erum á hraðari leið til glötunar en áður var talið. Litlar breytingar til viðbótar á hitastigi munu hafa rándýrar afleiðingar. Skýrsla vísindanefndar samtakanna verður lögð til grundvallar viðræðum, sem eiga að leysa af hólmi Kyoto-bókunina. Hún rennur út eftir fimm ár og hefur þegar reynzt hafa gengið of skammt. Að venju vilja Bandaríkin áfram skíta í bælið sitt. Þau hafa stuðning Indlands og Kína, sem eru upprennandi sóðar heimsins. Í þessum ríkjum er fólk sátt við, að börn sín lendi í skítnum.