Kiðagilshnjúkur

Frá Laugafelli í Kiðagil um norðurbrún Sprengisands.

Jeppaslóðin liggur fyrir sunnan Kiðagil og sést ekki af veginum til gilsins. Gamla þjóðleiðin lá norðan gilsins niður í Dældir og síðan niður með Skjálfandafljóti vestanverðu norðvestur í Kvíar, þar sem farið var austur yfir fljótið. Áningarstaður biskupa og annarra ferðamanna var í Dældum.

Farin er jeppaslóðin úr Laugafelli yfir á jeppaslóðina á Sprengisandi. Hér er farið um eyðisanda, grasleysi og vatnsleysi, unz við nálgumst Kiðagil, sem frægt er af kvæði Gríms Thomsen, þar sem segir meðal annars: “Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn, / rökkrið er að síga á Herðubreið, / álfadrottning er að beisla gandinn, / ekki er gott að verða á hennar leið; / vænsta klárinn vildi ég gefa til / að vera kominn ofan í Kiðagil.” Enn í dag eru margir fegnir á þessari leið, þegar landið fer að lækka niður að Bárðardal. Þvert yfir þessa leið reið Þórður kakali Sighvatsson úr Bleiksmýrardal suður á Sprengisand.

Förum frá Laugafelli í 740 metra hæð og fyrst eftir Eyjafjarðarleið til norðausturs, beygjum síðan af henni á Dragaleið til austurs og komumst þar í 900 metra hæð. Leiðin liggur síðan meira til suðurs af austri, nálægt skálanum í Galtabóli, og síðan aftur til austurs unz hún mætir jeppaveginum yfir Sprengisand. Þeim vegi fylgjum við til norðausturs um Kiðagilsdrög, förum vestan við Kiðagilshnjúk og síðan um Fossgilsmosa. Að lokum förum við eftir afleggjara í 660 metra hæð niður að Skjálfandafljóti, þar sem heitir Kvíahraun í 420 metra hæð. Þar tekur við Biskupavegur yfir Ódáðahraun.

21,1 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Laugafell : N65 01.703 W18 19.934.
Hjörvarsskáli: N65 01.636 W18 19.926.
Galtaból: N65 01.654 W18 03.243.
Fossgilsmosar : N65 05.864 W17 36.452.
Kvíakofi: N65 06.739 W17 31.179.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Háöldur, Hofsafrétt, Fjórðungsalda.
Nálægar leiðir: Eystripollar, Laugafell, Hólafjall, Miðleið, Gásasandur, Biskupaleið, Suðurárhraun, Bleiksmýrardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort