Borgarfjörður-Mýrar

Hafnarskógur

Frá Súlunesi í Melasveit að Selseyri við Borgarfjarðarbrú.

Gæta þarf flóðs og fjöru í Narfastaðaósi.

Leið lá fyrrum frá Akranesi yfir Leirárvog á fjöru. Vel byggð brú úr grjóti og mold var á þessari leið úr Vogum á Akranesi og út á fjörur Grunnafjarðar. Var þá komið í land í Súlunesi og farnar norður fjörur til Hafnar eða farið upp með Leirá og yfir Skarðsheiði. Einnig var leið um Fiskilækjarmela til Hafnar. Hjá Fiskilæk var vönduð brú. Sjófang sóttu menn landveg út á Akranes ekki síður en út undir Jökul. Var þá ýmist farinn Skarðsheiðarvegur eða með Hafnarfjalli í gegnum Hafnarskóg, sem hér er lýst. Hún ekki farin með bílvegi.

Förum frá Eystra-Súlunesi suðvestur að Súlueyri og beygjum þar til norðvesturs í fjörunni. Förum þar neðan við sjávarhamra á fjöru og síðan um Belgsholtsnes og beint norður yfir Narfastaðaós að Höfn í Melasveit. Frá Höfn norðnorðaustur um Hafnarskóg og síðan austnorðaustur hjá hótel Venusi við Borgarfjarðarbrú. Þaðan liggur leið austur með gamla þjóðveginum inn í Andakíl.

20,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Katlavegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson

Gufá

Frá Laxholti á Mýrum um Gufá til Grenja á Mýrum.

Förum frá Laxholti norður með Gufuá til Valbjarnarvalla og beygjum þar um eyðibýlið Litlafjall vestur að Grenjum.

10,2 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Mýravegur, Sópandaskarð.
Nálægar leiðir: Valbjarnarvellir.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Grunnafjörður

Frá Arkarlæk um leirur að Skipanesi í Leirársveit.

Gamla þjóðleiðin frá Akranesi upp í Borgarfjörð. Sæta verður sjávarföllum. Grunnafjörður er raunar víðáttumiklar leirur með miklu fuglalífi, viðkomustaður farfugla. Svæðið er verndað samkvæmt Ramsar-samþykkt um votlendi sem hefur alþjóðlegt gildi, einkum fyrir fuglalíf. Leirurnar eru auðugar af burstaormum, svo sem sandmaðki og leiruskera. Nokkuð er um krækling og sandskel, fjöruflær og lónafló. Margir vaðfuglar eru hér, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur, svo og æðarfuglar. Margæs hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna vor og haust. Fjörðurinn er mikilvægur fyrir ýmsa aðra fargesti, t.d. rauðbrysting.

Förum frá Arkarlæk norður Arkarlækjarnes og austur af því framarlega. Beygjum þaðan norðaustur um Arkarlækjarhólma og Kjalardalshólma og síðan norður í Álftatanga. Síðan áfram norður með ströndinni að Skipanesi og þaðan heimreiðina norður á þjóðveg 1.

5,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Ekki fyrir göngufólk

Nálægar leiðir: Hafnarskógur, Leirárdalur, Skarðsheiði.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Grjótháls

Frá Þverárhlíð um Grjótháls að Norðurárdal í Borgarfirði.

Förum frá eyðibýlinu Húsnesi eftir jeppaslóðinni 525 norður yfir Grjótháls að þjóðvegi 528 við Hól í Norðurárdal.

6,9 km
Borgarfjörður-Mýrar

Jeppafært

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Grímsstaðaleið

Frá þjóðvegi 54 austan Urriðaár að Grímsstöðum á Mýrum.

Förum frá þjóðveginum eftir bílvegi alla leið norðnorðaustur í Grímsstaði.

11,6 km
Borgarfjörður-Mýrar

Bílvegur

Skálar:
Grímsstaðir: N64 41.836 W21 56.604

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Grímsárbugar

Frá Oddsstöðum í Lundareykjadal um Grímsárbuga að Norðlingavaði á Grímsá.

Þetta er kjörleið fyrir hestamenn. Riðið er á hörðum árbökkum og í ánni. Fyrrum ein helzta sportleið Borgfirðinga, stundum farin með hestakerrur á ís.

Förum frá Oddsstöðum vestur að brúnni yfir Grímsá. Síðan vestur eftir ánni og á bökkum hennar að Norðlingavaði nálægt Mannamótsflöt.

16,2 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Mávahlíðarheiði, Hálsaleið, Hestháls.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Grillirahryggur

Frá Stóra-Botni í Botnsdal í Hvalfirði að Fitjaá í Skorradal.

Fáfarin vermannaleið úr uppsveitum Borgarfjarðar. Var þá haldið áfram suður um Hrísháls, Reynivallaháls og Svínaskarð. Einnig fjárrekstrarleið til slátrunar í Reykjavík fram á 20. öld. Ekki er vitað, hvað nafn leiðarinnar þýðir.

Förum frá Stóra-Botni upp fáfarinn slóða á Svartahrygg milli Víðiblöðkudals að vestan og Kálfadals að austan upp á Víðhamrafjall. Síðan norður eftir Grillirahrygg og upp Beinabrekku á Hrosshæð í 440 metra hæð. Síðan niður með Skúlagili vestanverðu alla leið niður að Fitjaá í Skorradal.

10,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Reynivallaháls, Múlafjall, Leggjabrjótur, Teigfell, Skorradalur, Kúpa.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Grafardalur

Hringleið frá Haga í Skorradal um Grafardal.

Hagi hét áður Svangi. Þar bjó á 20. öld Þórður Runólfsson í Haga, sem varð þjóðsagnapersóna af sjónvarpsviðtölum Ómars Ragnarssonar.

Förum frá Haga austsuðaustur með Skorradalsvatni inn að botni vatnsins við eyðibýlið Vatnshorn. Þaðan suðvestur á Sjónarhól í 400 metra hæð. Beygjum vestnorðvestur Grafardal að Þjófadal fyrir austan bæinn Dragháls. Förum norðnorðaustur um Kjóasund og austan til í hlíðum Þjófadals niður til Haga.

21,2 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægar leiðir: Sjónarhóll, Síldarmannagötur, Mávahlíðarheiði, Teigfell, Kúpa, Skorradalur, Grímsárbugar.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Geldingadragi

Frá Ferstiklu við Hvalfjörð um Geldingadraga að Drageyri í Skorradal.

Þessa leið nefnir Konrad Maurer Hálsveg, fór hana 1858. Um Geldingadraga lá gamla póstleiðin norður í land yfir Andakílsá á brú skammt frá Skorradalsvatni, um Hestháls að Hvítárbrú. Hörður hólmverji og Geir Grímsson fóru eftir jól ásamt fjörutíu manns um Álftaskarð og Svínadal og þaðan í Skorradal. Þeir leyndust um daginn en fóru til sauðahúsa um nóttina. Þaðan ráku þeir áttatíu geldinga sem Indriði átti uppi hjá Vatni. Er þeir nálguðust Geldingadraga brast á aftakaveður með snjókomu. Forustusauðirnir mæddust og vildi Geir þá hætta við allt saman. Hörður tók þá forustusauðina í sitt hvora hendi og dró þá upp Geldingadraga. Þannig er komið nafn heiðarinnar.

Förum frá Ferstiklu með þjóðvegi 520 alla leið að Drageyri.

14,1 km
Borgarfjörður-Mýrar

Bílvegur

Nálægar leiðir: Grafardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Gagnheiði

Frá Skógarhólum í Þingvallasveit að Gilstreymi í Lundareykjadal.

Leiðin er svo fáfarin í seinni tíð, að reiðgötur eru víða ekki sýnilegar lengur. En auðvelt er að rekja sig eftir landslaginu, ef skyggni er sæmilegt. Minni truflun er á þessari leið en á Uxahryggjum. Gott væri, að hestamenn með rekstur sinntu henni betur. Gamla leiðin liggur norður frá Svartagili, en léttara kann að vera að fara fyrst frá Svartagili um kílómetra vestur eftir jeppaslóð áður en beygt er til norðurs. Þannig dreifist brattinn betur.

Þetta er gömul þjóðleið milli Suðurlands og Vesturlands. Í Sturlungu er sagt frá för Órækju Snorrasonar og Sturlu Sighvatssonar um Gagnheiði á Þingvöll með fimmhundruð manna liði 1236 til að hefna Snorra Sturlusonar. Gagnheiðarvegur er styttri leið milli byggða en Uxahryggir og Sandkluftir. Öldum saman riðu Vestlendingar þessa leið til Alþingis á Þingvöllum.

Förum frá Skógarhólum í Þingvallasveit í 140 metra hæð eftir afleggjara vestur fyrir Biskupsbrekkur og síðan norður að bænum Svartagili. Vörður á vesturbrún Svartagils vísa veginn. Við förum þar upp á kambinn og síðan eftir honum inn á Gagnheiði austan Súlnabergs. Höldum okkur nálægt berginu. Þar heitir Gagnheiðarvegur. Förum beint norður fyrir endann á Súlnabergi í 580 metra hæð og síðan niður brekkurnar og vestur fyrir Krókatjarnir þrjár, sem eru austan og ofan við Hvalvatn. Áfram þvert yfir veginn að Hvalvatni og frá honum til norðurs vestan við Hrosshæðir. Þar er hlið á girðingu, sem liggur niður í Hvalvatn. Síðan vestan við Kvígindisfell, yfir Kvígindisfellshala og niður Selhæðir að austurenda Eiríksvatns. Norður fyrir vatnið, meðfram Eiríksfelli, yfir jeppaveginn niður í Skorradal og síðan yfir Lágafell að þjóðvegi 52 við Gilstreymi í Lundareykjadal í Borgarfirði.

22,1 km
Árnessýsla, Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Eyfirðingavegur, Hrafnabjörg, Biskupavegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði, Selkotsvegur, Kóngsvegur, Leggjabrjótur, Teigfell, Skorradalur, Kúpa, Grillirahryggur, Helguvík.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Fróðastaðavað

Frá Reykholti um Skáneyjarbungu og Fróðastaðavað að Síðumúla í Hvítársíðu.

Ég veit ekki, hvort þetta vað hefur verið nýlega riðið.

Sennilega sama vað og kallað er Steinsvað í Sturlungu. Vaðið þótti nokkuð djúpreitt, en fá slys urðu þar. Guðmundur góði biskup vígði vaðið. Áður sagði hann: “Stundin er komin, en manninn vantar.” Í sömu andrá kom maður ríðandi hinum megin árinnar. Hann hleypti hesti sínum á bólakaf og drukknaði. Eftir að Guðmundur góði vígði vaðið hafa engir drukknað þar. Vigdís Jónsdóttir í Deildartungu var þó hætt komin þar kringum 1860. Hún var á ferð ásamt fleira fólki og losnaði frá hesti sínum úti í miðri á. Loft komst í pils hennar og flaut hún niður ána. Einn samferðamaður hennar fór fyrir hana neðar í ánni greip hana í straumiðunni og hífði hana upp á hest sinn. Hún var þá meðvitundarlaus.

Förum frá Reykholti ofan byggðar norðvestur eftir Grjótagötu um eyðibýlið Grímsstaði að bænum Skáney og þaðan til norðurs vestan við Skáneyjarbungu og áfram norður í nesið sunnan Hvítár. Þar er Fróðastaðavað, andspænis Fróðastöðum í Hvítársíðu. Norðan vaðsins er stutt leið frá Fróðastöðum vestur í Síðumúla.

7,7 km
Borgarfjörður-Mýrar

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Nálægir ferlar: Hvítársíða.
Nálægar leiðir: Skáneyjarbunga, Húsafell, Hálsaleið, Bugar.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Örn H. Bjarnason

Fossdalur

Frá Torfhvalastöðum við Langadal um Beilárdal og inn í botn Fossdals.

Förum frá Torfhvalastöðum suðaustur á Beilárvelli. Þaðan norðaustur um Beilárdal að Vikravatni og loks norður Fossdal inn í dalbotn.

11,1 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH

Fljótsdrög

Frá Álftakrók til Fljótsdraga.

Fyrri hluti leiðarinnar er um Arnarvatnsheiði og síðari hlutinn um Stórasand. Hér standa stök fjöll upp úr sandinum, Bláfell og einkum Krákur við norðurenda Langjökuls. Stórisandur er lítt gróið hæðaland, í 700-800 m hæð norðan Langjökuls, milli Arnarvatnsheiðar og Kjalvegar norðan Seyðisár.  Þarna eru jökulsorfin og grýtt grágrýtishraun, sem eru þó víða greiðfær. Fljótsdrög eru vin á milli jökla, kennd við Norðlingafljót. Þar er fjallaskáli, sem notaður er af Húnvetningum. Við skálann eru tjarnir með grónum bökkum. Þetta er einangraður fjallasalur með kyrrð í lofti á góðum degi. Ásgrímur Kristinsson: ”Enn um þetta óskaland / ótal perlur skína. / Hitti ég fyrir sunnan Sand / sumardrauma mína.” Staðurinn heitir Fljótsdrög á húnvetnsku og Fljótadrög á borgfirzku.

Förum frá Álftakróki í 480 metra hæð norðnorðaustur eftir Arnarvatnsleið, milli Krummavatns að vestanverðu og Mordísarvatns að austanverðu. Áfram norðnorðaustur um Leggjabrjót fyrir norðan Leggjabrjótstjarnir og norðaustur um Hvannamó að Skammá milli Réttarvatns og Arnarvatns, sem heiðin heitir eftir. Við förum þaðan suðaustur eftir slóð beina leið í Fljótakrók við Áfangatjörn, þar sem er Fljótsdragaskáli í 560 metra hæð.

21,1 km
Húnavatnssýslur, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Álftakrókur: N64 53.274 W20 26.388.
Fljótsdrög: N64 54.884 W20 08.437.

Nálægir ferlar: Norðlingafljót, Aðalbólsheiði, Arnarvatnsheiði, Suðurmannasandfell, Bláfell.
Nálægar leiðir: Stórisandur, Skagfirðingavegur, Grímstunguheiði, Öldumóða, Krákur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins

Fiskivatn

Frá Hamri í Þverárhlíð um Fiskivatn til Glitstaða í Norðurárdal.

Förum frá Hamri vestur milli Skálafells að sunnan og Fiskivatns að norðan. Síðan norður heiðina í 200 metra hæð, til Glitstaða.

3,4 km
Borgarfjörður-Mýrar

Nálægir ferlar: Jafnaskarð.
Nálægar leiðir: Skálavatn, Svartagil.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort

Fagraskógarfjall

Frá Hítardal á Mýrum að hestarétt ofan við Kaldármela.

Tengileið milli reiðleiða á Mýrum og í Hnappadal.

Grettisbæli er strýta með helli í Fagraskógarfjalli, þar sem Grettir hafðist lengi við. Leiðin liggur undir strýtunni.

Byrjum á vegi frá Hítardal að Hítarvatni, rétt vestan bæjar í Hítardal. Förum þaðan eftir veiðivegi suðvestur að Hítará og Fagraskógarfjalli. Rétt sunnan við eyðibýlið Velli förum við yfir Hítará og eftir götum undir fjallinu fyrir suðausturhorn þess. Við erum þar undir Grettisbæli og Fagraskógarfjalli. Förum vestur með fjallinu um eyðibýlin Moldbrekku og Skóga og síðan norður með fjallinu að rétt við Kaldá í mynni Kaldárdals. Þaðan er farið niður með ánni um Hraunsmúla að Kaldármelum.

11,6 km
Borgarfjörður-Mýrar, Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Svínbjúgur, Múlavegur, Kolbeinsstaðafjall.
Nálægar leiðir: Hítardalur.

Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Jónas Kristjánsson