Punktar

Óvenju slunginn lygari

Punktar

Frá fyrstu tíð hefur mér litizt illa á Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Hann minnir mig á norskan prentvélasala fyrir 30 árum, sem var eins og engill á svipinn, en sagði aldrei satt orð, svo ég muni. Enginn getur verið eins einlægur á svipinn og Blair án þess að vera töfralyfjasali. Hingað til hafa Bretar átt erfitt með að átta sig á, að Blair er fyrst og fremst sölumaður í heimsklassa, algerlega laus við einlægni. Það er fyrst á síðustu vikum uppljóstrana um falsaðar skýrslur um Írak, að brezkir dálkahöfundar eru sumir hverjir byrjaðir að átta sig á, að Tony Blair er óvenju slunginn lygari.

Ekki tekur því að bíða

Punktar

Alan L. Isenberg telur í International Herald Tribune, að ekki taki því fyrir Evrópu að bíða eftir stjórnarskiptum í Bandaríkjunum í von um, að tiltölulega kurteisir demókratar komist til valda að nýju. Hann telur, að hugsanleg ríkisstjórn demókrata verði að vísu ekki eins ruddaleg í umgengni við útlönd og ríkisstjórn Bush hefur verið, en efnislega muni hún halda áfram einstefnu í utanríkismálum. Skynsamlegra sé fyrir Evrópuríki og Evrópusambandið að gera ráð fyrir, að hin nýja valdbeitingarstefna Bandaríkjanna sé komin til að vera, og miða viðbrögð sín við það.

Allar fréttir erlendar

Punktar

Íslenzkir fréttamiðlar eru fullir af innlendum fréttum og telja réttilega, að notendur fjölmiðla hafi lítinn áhuga á erlendum fréttum. Samt er heimsmálunum svo komið um þessar mundir, að erlendar fréttir skipta okkur meiru en innlendar. Veraldarsagan liggur stundum í dvala og tekur kippi þess á milli. Nú stendur yfir eldgosahrina heimsfrétta, þar sem Bandaríkin seilast til heimsyfirráða og kjarnaríki Evrópu þvælast fyrir þeim, meðal annars með því að reisa mesta efnahagsveldi veraldarsögunnar. Ýfingarnar varða íslenzka hagsmuni, allt frá Keflavíkurvelli yfir í vaxtakostnað, sem við höfum af sérstakri krónu íslenzkri. Af þessum ástæðum hef ég miklu meira gaman af að segja ykkur frá margvíslegri túlkun heimsviðburðanna, heldur en að túlka meira eða minna fáfengilegar fréttir innlendar.

Við erum Afríkumenn

Punktar

Samkvæmt fundi 300.000 ára gamalla mannabeina í Eþiópíu er nútímamðurinn, Homo Sapiens, upprunninn í Afríku eins og ýmsar eldri tegundir mannsins, Homo Erectus og fleiri. Áður hafði verið talið hugsanlegt, að nútímamaðurinn hafi orðið til annars staðar en í Afríku, þótt eldri og útdauðar ættkvíslir mannsins séu þaðan. Beinin í Eþiópíu eru ótrúlega lík beinum hávaxinna og grannra nútímamanna. Áður höfðu ekki fundizt Homo Sapiens bein eldri en 100.000 ára gömul. Frá þessu segir John Noble Wilford í New York Times.

Seðlabankar tugtaðir

Punktar

Áhrifamesti hagfræðingur síðustu ára er Joseph Stiglitz, sem er hvort tveggja í senn, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og fyrrverandi aðstoðarbankastjóri Alþjóðabankans. Hann átti mikinn þátt í að brjóta skörð í múr hins hægri sinnaða Chicago-skóla hagfræðinga, sem hefur sitt síðasta vígi í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, svo sem sjá má af ofstækisfullum tillögum sjóðsins um einkavæðingu heilsustofnana og menntastofnana á Íslandi. Stiglitz skrifaði í gær grein í Guardian um hlutverk seðlabanka, annars vegar gegn verðbólgu og hins vegar gegn atvinnuleysi. Hann telur, að Seðlabanki Evrópu miði stefnu sína of þröngt gegn verðbólgu. Hann telur almennt, að seðlabankar séu fílabeinsturnar, sem taki ekki tillit til þarfa þjóðanna.

Þriðja heims Ísland

Punktar

Bandaríkjastjórn rótast nú við að bregða fæti fyrir nýjan stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna, sem 137 ríki hafa samþykkt og 90 ríki staðfest. Um allan þriðja heiminn er ríkjum hótað afnámi allrar bandarískrar aðstoðar, nema þau geri tvíhliða samning um að kæra ekki bandaríska borgara fyrir dómstólnum. 37 fátæk smáríki hafa bitið í þetta súra epli, þar af ekkert vestrænt ríki, nema glæpamiðstöðin Albanía teljist vera það. Evrópusambandið hefur varað væntanleg aðildarríki við undirritun slíks samnings, sem væri ávísun á bandaríska stríðsglæpi. Þar sem við höfum þriðja heims valdahafa hér á landi, má benda þeim á að skoða möguleika á að verzla við Bandaríkin um undanþágu gegn stríðsglæpum annars vegar og óskert framhald hermangs á Keflavíkurvelli hins vegar. Það væri í góðu samræmi við reisnarskort utanríkisstefnu okkar.

Skrúfað frá og fyrir

Punktar

Þegar borin er saman skylda Ísraels og Palestínu að fylgja útgefnu vegakorti friðar í miðausturlöndum, verður að hafa í huga, að landnám og hryðjuverk af hálfu Ísraels eru ríkisrekin og því hægt að skrúfa fyrir þau og frá þeim eftir efnum og ástæðum. Hryðjuverk af hálfu Palestínu eru hins vegar einkarekin af hópum, sem eru í andstöðu við heimastjórn Palestínu. Því getur heimastjórnin ekki skrúfað fyrir þau og frá þeim eftir þörfum. Ariel Sharon er herra í sínu húsi, en Mahmud Abbas er ekki herra í sínu húsi. Hann hefur þar ekki einu sinni lögregluvald, því að Ísraelsher hefur lamað lögreglu Palestínumanna og þar með getu hennar til að hafa hemil á óeirðamönnum.

Þagað um falsanir

Punktar

Þótt skrifað sé um málið í New York Times, sem lesið er af sáralitlu broti bandarísku þjóðarinnar, er nánast engin umræða þar í landi um, að ríkisstjórn landsins fór í stríð við Írak á fölsuðum forsendum. Írak studdi ekki Osama bin Laden og átti ekki gereyðingarvopn, sem voru hættuleg Bandaríkjunum. Mikil umræða er í Bretlandi um sama efni, en bandarískir fjölmiðlar þegja nærri allir þunnu hljóði. Þögnina má hafa til marks um, að bandarísk fjölmiðlun og fréttamennska er almennt á afar lágu plani. Paul Krugman skrifar um þetta í New York Times.

Vaxandi trúarofsi

Punktar

Trúarofsi fer vaxandi í Bandaríkjunum, ekki bara hjá forseta landsins og stríðsmálaráðherra. Sjónvarpsprédikarar fara mikinn og kalla Múhameð spámann ræningja og barnanauðgara, til dæmis Franklin Graham, sonur Billy Graham. Þetta er meiri ofsi en hjá róttækum múslimum, sem ekki tala svona illa um Krist. Bandaríkjamenn flykkjast í kristna ofsatrúarsöfnuði, þar sem predikað er hatur og refsing, ofstæki og ofbeldi. Nicholas D. Kristof skrifar í New York Times um ofsatrúaða söfnuði og sjónvarpsprédikara á hægri kanti stjórnmálanna.

Gagnslitlar flugvélar

Punktar

Þegar landsfeður okkar segja herflugvélar nauðsynlegar til að halda uppi vörnum landsins, tala þeir þvert á staðreyndir nútímans. Ósennilegt er, að okkur stafi hætta af loftárásum hefðbundins stríðs tuttugustu aldar. Meiri líkur eru á hryðjuverkum að hætti ofstopaflokka nýrrar aldar. Gegn slíkri hættu er betra að treysta á góða landamæravörzlu, einkum í borgaralegu flugi á Keflavíkurvelli. Að svo miklu leyti sem varnir eru hér, er þeim sinnt af íslenzkri lögreglu og tollgæzlu í Leifsstöð, en ekki bandaríska setuliðinu. Ef bandarísk stjórnvöld kæra sig ekki lengur um að hafa hér herflugvélar, geta þau auðveldlega rökstutt, að þær þjóni ekki lengur vörnum landsins.

Völdin færast austur

Punktar

Thomas Fuller telur í dag í International Herald Tribune, að völd og áhrif í Evrópusambandinu séu að færast frá Bretlandi til Þýzkalands. Brezka stjórnin hefur frestað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að evrunni, af því að brezku skrílblöðin berjast af hörku gegn henni. Hann segir frestunina fela í sér eins konar aukaaðild Bretlands á jaðri sambandsins. Á sama tíma sé stjórnarskrárnefnd Evrópusambandsins undir forsæti Valery Giscard d’Estaing að ná samkomulagi um breytt vægi atkvæða, sem tekur aukið tillit til fjölmennis Þýzkalands. Í þriðja lagi séu Pólland og nýju aðildarríki bandalagsins í Austur-Evrópu í nánu efnahags- og viðskiptasambandi við Þýzkaland, en ekki Bretland. Þetta eru slæmar fréttir fyrir einræðishneigða ráðamenn Bandaríkjanna, sem er mjög uppsigað við Þýzkaland eftir stríðið gegn Írak.

Stuðningurinn dugði ekki

Punktar

Svo virðist sem lítils sé metinn stuðningur ríkisstjórnar Íslands við svokallað stríð gegn Írak, sem í rauninni var ekki stríð, heldur fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Sennilega hefði Ísland þurft að senda herdeild til aðstoðar við stríðið, væntanlega undir stjórn Hjálmars Árnasonar alþingismanns, til að fá áfram að njóta bandarísks setuliðs og hermangsins, sem því fylgir. Munnlegur stuðningur við stríðið átti að mati Hjálmars að gulltryggja framhald hermangsins, en hefði þurft að vera verklegur, því að ríkisstjórn Bandaríkjanna virðist ekki taka í mál að hafa flugvélar á Keflavíkurflugvelli fram á næsta ár.

Latir Evrópumenn

Punktar

Max Weber átti einkum við kalvínisma Skota, Hollendinga og Svisslendinga, þegar hann samdi fyrir tæpri öld kenninguna um fjárhagslega velgengni þeirra, sem eru mómælendatrúar. Vinnusemi og sjálfsafneitun kalvínista átti að hans mati að leiða til meiri velmegunar þjóða. Nú hefur sagnfræðingurinn Niall Ferguson endurvakið úrelta kenningu Weber og snúið henni upp í samanburð milli Bandaríkjamanna, sem hann segir iðna og nægjusama, og Evrópumanna, sem hann segir lata og nautnasjúka. Bendir hann meðal annars á, að Bandaríkjamenn fái lítil frí frá vinnu, en Evrópumenn mikil. Leti Evrópumanna stafi af, að þeir séu ekki lengur trúræknir. Ferguson skrifar grein í International Herald Tribune um þessa skemmtilegu, en vafasömu kenningu sína. Hann spáir, að innganga miðevrópskra þjóða í Evrópusambandið muni gera þær latar líka.

Trúarbragðahatur

Punktar

Ráðgert er að reka 13.000 múslima frá Bandaríkjunum. Þetta eru ólöglegir innflytjendur eins og margir aðrir. Eingöngu múslimar eru teknir í gegn. Þeir tengjast ekki hryðjuverkum eða hryðjuverkasamtökum. Frá þessu segir Rachel L. Swarns í New York Times. Með því að beita innflytjendalögum á valinn hátt er Bandaríkjastjórn að sýna trúarbragðahatur í verki. Hugsun stjórnvalda er, að engin hryðjuverk verði í Bandaríkjunum, ef þar verði engir múslimar. Þá gleymist, að flest hryðjuverk þar í landi eru framin af ljóshærðum og kristnum heimamönnum.

Óskhyggja er grunnurinn

Punktar

Í Observer í morgun skrifar Anthony Sampson langa grein um miðstýringu brezkrar utanríkisstefnu og leyniþjónustu hjá aðstoðarmönnum forsætisráðherrans í Downing Street 10. Hann upplýsir, að Alastair Campell, aðstoðarmaður ráðherra, hafi ekki einu sinni sýnt yfirmönnum leyniþjónustunnar fölsuðu skýrsluna, sem höfð var eftir þeim. Síðan rekur Sampson hvernig brezk utanríkisþjónusta er ekki lengur rekin á grundvelli upplýsinga úr utanríkisráðuneytinu, heldur á grundvelli óskhyggju í Downing Street, þar sem ferðinni ráði ekki Campbell, heldur maður að nafni David Manning.