Punktar

Betra hjá Talibönum

Punktar

BBC-fréttastofan segir, að Afganistan sé tifandi tímasprengja. Í opnu bréfi hafa áttatíu hjálparstofnanir hvatt Sameinuðu þjóðirnar til að efla öryggi borgaranna, því að margir íbúar séu farnir að tala um, að ástandið hafi verið betra á valdadögum Talibana. Hjálparstofnanir þora ekki að senda menn út fyrir höfuðborgina Kabúl. Út um þúfur hafa farið ráðagerðir um að efla leppstjórn Bandaríkjanna og 70.000 manna herlið á þess vegum. Fá ríki vilja taka að sér kostnað og fyrirhöfn við að reyna að koma á lögum og reglu í landinu eftir innrás Bandaríkjanna. Ætlunin er að afhenda Atlantshafsbandalaginu kaleikinn í ágúst. Hlutverkið verður ekki til þess fallið að auka traust manna á bandalagi, sem er á fallanda fæti á heimavígstöðvum.

Eitur frá Afganistan

Punktar

Reuters-fréttastofan segir í ýmsum fjölmiðlum, að ópíumframleiðslan í Afganistan hafi slegið öll fyrri met eftir mikla lægð á valdadögum Talibana, sem voru andvígir fíkniefnum. Í skjóli innlendra herstjóra, svo og hernáms Bandaríkjanna og bandamanna þeirra, er hún orðin hin mesta í heiminum, meiri en í Burma og Laos. Þetta er haft eftir Antonio Maria Costa, framkvæmdastjóra fíkniefna- og glæpastofu Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg. Ópíum er flutt til Evrópu og notað við framleiðslu á heróíni.

Þjást fyrir hugsjón

Punktar

Skipuleg óbeit Bandaríkjastjórnar á Evrópu kemur fram í margvíslegum smáatriðum, meðal annars í minni þátttöku bandarískra fyrirtækja og yfirmanna bandaríska flughersins í flugsýningunni í París, sem nú stendur yfir. Mörg lítil bandarísk fyrirtæki eru háð flughernum og fylgja ábendingum hans, þótt það hafi í för með sér, að evrópsk fyrirtæki fái meiri athygli þeirra, sem koma í viðskiptaerindum á mest sóttu flugsýningu heimsins. Edward Wong segir frá þessu í New York Times. Á sýningunni var gerður stærsti breiðþotusamningur sögunnar, þegar Emirates Airlines keyptu 41 evrópskan Airbus, þar af 21 af tegundinni A380, sem á að taka 500-650 farþega. Segja má, að bandarísk fyrirtæki þjáist fyrir hugsjón eða óra Bandaríkjastjórnar.

Írakar andvígir hernámi

Punktar

Nicholas D. Kristof, nýkominn frá Írak, skrifar í New York Times, að fólkið í landinu sé andvígt hernámsliðinu, þótt það hafi áður hatað Saddam Hussein. Fólk segir ástandið í landinu vera verra nú. Fáir þora að vera á ferli eftir að skyggja tekur, af því að löggæzla er lítil sem engin. Heilbrigðisstofnanir eru meira eða minna óstarfhæfar. Þetta er svipuð sagan og í Afganistan, nema hvað óöldin í kjölfar hernáms Bandaríkjanna skall skarpar á Írak. Stríðið vinnst, en friðurinn tapast.

Illa farnar stofnanir

Punktar

George Monbiot segir í Guardian í dag, að fjórar fjölþjóðastofnanir séu svo illa farnar, að þeim verði ekki bjargað. Þær séu öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, Heimsviðskiptastofnunin, Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn. Bandaríkjastjórn eyðilagði þá fyrstu með stríðinu við Írak og almenningsálitið í heiminum hefur snúist gegn hinum þremur, sem hafa rekið erindi hinna sterku gegn hinum veiku. Hann telur tímabært, að andstæðingar þessara þriggja fjármálastofnana láti af andstöðu við hnattvæðingu þeirra og einbeiti sér að andstöðu við ranglæti þeirra og leggur fram tillögur um, hvernig öllum þessum stofnunum verði breytt, svo að þær stuðli að réttlátri hnattvæðingu fremur en ranglátri. Hann vill, að þær striki út skuldir þróunarlanda. Ennfremur vill hann, að vald öryggisráðsins færist til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, þar sem atkvæði verði reiknuð eftir íbúafjölda og lýðræðisvísitölu ríkja.

Áttaviti Rússa lagaður

Punktar

Katinka Barysch og Laza Kekic spá því í International Herald Tribune, að Rússland muni í náinni framtíð halla sér meira að Evrópusambandinu en Bandaríkjunum, enda hafi Rússland ekki fengið neitt nema langt nef að launum fyrir að viðra sig upp við Bandaríkin. Viðskiptahagsmunir Rússlands séu einkum í Evrópu og fjárfestar í Rússlandi eru einkum evrópskir. Þessi lagfæring á rússneska áttavitanum verði enn brýnni, þegar langflest ríki Austur-Evrópu eru gengin í Evrópusambandið.

Hvalirnir sigruðu

Punktar

Þótt Japan hafi borið mikið fé á smáríki í Hvalveiðiráðinu, tókst ekki að hindra, að ráðið samþykkti að gera friðun hvala að hornsteini starfsins. Þar með hefur rúmlega hálfrar aldar gömul stofnun breyzt úr hvalveiðiklúbbi í hvalafriðunarklúbb. Öll stórveldin studdu tillöguna, sem samþykkt var í gær með 25 atkvæðum gegn 20 við mikinn fögnuð náttúruverndarsamtaka. Á móti voru Japan, Noregur, Ísland og ýmsar smáeyjar í Karabíahafi, sumar fámennari en Ísland.

Allt er við það sama

Punktar

Enginn árangur hefur náðst af tilraunum til að endurheimta auðlindir hafsins úr höndum forréttindahópa. Enginn árangur hefur náðst af tilraunum til að vernda ósnortin víðerni landsins fyrir eyðingaröflum ríkisvaldsins. Enginn árangur hefur náðst af tilraunum til að vísa þjóðinni veginn til stjórnmála- og efnahagssamstarfs í Evrópusambandinu. Enginn árangur hefur náðst af tilraunum til að stöðva aukningu stéttaskiptingar í landinu. Ekkert ofangreindra mála kveikti í hjörtum fólks og málflutningi flokka í kosningabaráttunni. Allt verður á þessu kjörtímabili eins og það hefur verið mörg umliðin kjörtímabil. Ísland er pólitísk eyðimörk um þessar mundir. Íslendingar eru saddir þrælar úti að grilla.

Gagnslítill hagvöxtur

Punktar

Á nánast hverju ári batnar efnahagur Íslendinga eins og allra nágrannaþjóðanna. Ekki eykst hamingja okkar við það og enn síður verður lífið auðveldara viðfangs. Fólk vinnur sem fyrr myrkranna minni við að koma sér upp þaki yfir höfuðið og geta komið börnum sínum til manns. Gjaldþrot einstaklinga eru orðin svo tíð, að Lögbirtingablaðið kemur út þrisvar í viku að minnsta kosti. Tíuþúsund prózak-töflur eru gleyptar á hverju morgni. Þótt þjóðartekjur á mann hafi margfaldazt á nokkrum áratugum, sér þess ekki umtalsverðan stað í gæfu og gengi. Einhvern veginn sáldrast hagvöxturinn á tvist og bast í neyzlu og eyðslu, svo og tilgangslitlar fjárfestingar. Samt hefur árlegur hagvöxtur, stækkun þjóðarkökunnar, lengi verið pólitískt trúaratriði hér á landi og í nágrannalöndunum.

Þar eigum við heima

Punktar

Ísland er með minnstu smáríkjum og má sín einskis hernaðarlega. Í staðinn hefur það talið henta sér að leita skjóls hjá Bandaríkjunum, sem áður voru mildur húsbóndi, en kæra sig nú ekki um neina vini, heldur vilja hafa þræla til að tuska til. Íslandi hentar betur en öðrum ríkjum, að deilur milli ríkja séu ekki leystar með vopnavaldi, heldur með samningaþjarki. Þess vegna á Ísland ekki lengur heima í skjóli heimsveldis, sem gerzt hefur ofbeldishneigðara með árunum, heldur ríkjasamtaka, sem leggja og munu leggja höfuðáherzlu á þjark sem samskiptatæki ríkja. Evrópusambandið er eina stofnunin, sem gæti verið Íslandi skjól á tímum aukinnar áherzlu á ofbeldi. Það er friðarvin á vígvelli ríkisrekinna og einkarekinna hryðjuverka nútímans. Evrópuríki standa í biðröð við að reyna að komast inn í sambandið. Þar eigum við heima.

Hugarórar Rambó

Punktar

Sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm, sem skrifaði bókina Öld öfganna, skrifar langa grein í Guardian um sókn Bandaríkjanna að heimsyfirráðum. Hann telur þá sókn að því leyti öðru vísi en sókn Rómarveldis, Bretaveldis og ýmissa fleiri heimsvelda sögunnar, að þau síðarnefndu stefndu ekki meðvitað að heimsvöldum. Hins vegar séu Bandaríkin að því leyti lík Sovétríkjunum sálugu og Frakklandi byltingarinnar í lok átjándu aldar, að þau telja sig vera að frelsa heiminn og gefa öðrum færi á að fylgja fordæmi sínu. Hann telur Bandaríkin ekki hafa efni á ofbeldi víða um heim og endalausum rekstri setuliðs hjá þjóðum, sem ekki kæra sig um bandaríska frelsun. Bandarískir kjósendur muni að lokum ekki hafa áhuga á að fórna efnahag sínum fyrir þessa Rambó-hugaróra, sem hafa magnað öryggisleysi í heiminum.

Löggu sigað á borgarana

Punktar

Michael Bloomberg, borgarstjóri í New York, hefur fundið ýmsar skemmtilegar leiðir til að ná peningum í galtóman borgarsjóð. Meðal annars hafa lögreglustöðvar borgarinnar viðurkennt, að þær séu skyldaðar til að ná tilskildum kvóta í fjárhagslegum ofsóknum á hendur borgurunum, rétt eins og hraðamælingalöggan í Húnaþingi. Jesse Taveras var sektaður um 50 dollara fyrir að sitja á mjólkurkassa á gagnstétt. Yoav Kashida var sektaður um 50 dollara fyrir að taka upp tvö sæti í neðanjarðarlestinni, þegar honum rann í brjóst. Crystal
Rivera var sektuð um 50 dollara fyrir að setjast í tröppum neðanjarðarlestarinnar, komin sex mánuði á leið. Gary Younge segir frá þessu í Guardian.

Enn eitt kraftaverkið

Punktar

Þótt Evrópusambandið sé frægt fyrir mikla skriffinnsku og eilíft þjark, hefur það unnið hvert kraftaverkið á fætur öðrum á liðnum árum. Í gær náðist samkomulag í stjórnlaganefnd þess um uppkast að fyrstu stjórnarskrá sambandsins. Fáir hefðu spáð slíku fyrir áratug, ekki frekar en þeir hefðu þá spáð að sambandið mundi að áratug liðnum eiga sinn eigin seðlabanka og sína eigin mynt, sem efldist með hverjum mánuði. Uppkast að stjórnarskrá Evrópusambandsins er enn eitt skref í átt til öflugrar og friðsamrar Evrópu framtíðarinnar, öruggu skjóli borgara álfunnar fyrir pólitískum jarðskjálftaöflum í þriðja heiminum og Bandaríkjunum. Í International Herald Tribune fjallar Heather Grabbe um fyrirhugaða stjórnarskrá Evrópu.

Gagnslitlar herflugvélar

Punktar

Ekki er líklegt, að öryggi Íslands stafi hætta af því tagi, sem herflugvélum er ætlað að ráða við. Sovétríkin eru horfin og kalda stríðið búið. Einu ríkin, sem einhvers mega sín hernaðarlega, eru vestræn og fara varla að ráðast á okkur. Að svo miklu leyti, sem hætta er á ferðum, stafar hún af fámennum hópum ofstækismanna eða einstaklingum af því tagi, sem mundu koma hingað undir fölsku flaggi í farþegaflugi. Beztu varnir landsins felast í góðu eftirliti íslenzkra aðila í Leifsstöð fremur en í bandarískum flugvélum á Keflavíkurvelli.

Fá gæsahúð af Rumsfeld

Punktar

Að venju reyndi stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna að koma illu af stað á fundi Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles. Þegar starfsbræður hans frá Þýzkalandi og Frakklandi töluðu, hafði Donald Rumsfeld mikið fyrir að þykjast ekki hafa áhuga á að heyra, hvað þeir sögðu, var önnum kafinn við að fletta skjölum og tala við sessunautana, samkvæmt fréttum Craig S. Smith í New York Times. Ráðherrann hótaði Belgíumönnum brotthvarfi aðalstöðva bandalagsins frá borginni, ef þeir féllu ekki frá víðtækum heimildum í lögum til að draga stríðsglæpamenn fyrir dómstóla. Belgíumenn ætla ekki að taka neitt mark á Rumsfeld. Mjög gott er fyrir evrópska einingu, að vitfirringurinn skuli ganga laus, því að valdamenn fá gæsahúð af návistinni.