Punktar

Allt í lýðræðis-blóma

Punktar

Lilja D. Alfreðsdóttir er að vísu vel ættuð, dóttir fyrrum starfsfélaga míns á Tímanum, Don Alfredo. Er samt ekki viss um, að hún henti utanríkismálum. Hefur að vísu sýnt diplómatíska hæfni í að snúast 180 gráður í Evrópumálunum í einu vetfangi. Sýnir ekki bara tækifærissinna, heldur líka hæfni í að ljúga erlendis í þágu lands og þjóðar. Gaf skýrslu um viðbrögð heims við gleðileik Sigmundar Davíðs. Telur allt vera í fínu lagi til langs tíma litið. Bezt að senda hana um heiminn til að básúna ritninguna. Þar enduróma enn frábærir háðsþættir úr ýmsum heimsálfum. Hún sá þó kostinn í mótmælum, sem orsaka, að hér er talið vera lýðræði. Þrátt fyrir Framsókn.

Framtalið segir ekki neitt

Punktar

Siðblindingi á félag á Tortóla. Selur fisk á 10 kr kílóið til félagsins. Það selur síðan fiskinn áfram til Frakklands á 30 kr kílóið. Heitir hækkun í hafi. Hagnaðurinn situr eftir á Tortóla og engir skattar greiddir. Sama gildir, ef félagið kaupir verðbréf (SDG) eða fasteignir (BB). Féð er í rauninni geymt í evrópskum banka. Skattaframtal á Íslandi segir ekkert um innihald. Þar stendur bara: Hlutafé upp á eina milljón. Innihaldið er samt 200 milljarðar. Ekkert er skráð um hagnað. Engin leið er að kanna mál, engin tilkynningaskylda. Öldungar á Tortóla í stjórn. Þú ert löglegur og hefur frítt spil að blóðmjólka Ísland fram að byltingu.

Minnisstæð orð grínista

Punktar

Máttur orðsins er mikill. Ég má ekki sjá svo bregða fyrir Sigurði Inga, að mér verði ekki hugsað til orða Dóra DNA: „Jæja, nú er hann pabbi þinn farinn í meðferð. En drykkjufélagi hans ætlar að búa hérna hjá okkur.“ Og Jón Gnarr bætir við: „Og hann er ekki að fara í meðferð.“ Þetta samtal húmoristanna snýst einmitt um tilveru ríkisstjórnarinnar. Þar var hrókerað og niðurstaðan er alveg sama ríkisstjórn. Eini munurinn er, að höfuðbófinn í starfi fjármálaráðherra lítur á sig sem yfirmann forsætisráðherra. Æðsti bananinn bætir svo við alveg óvenjulega loðnu loforði um haustkosningar, sem hann mun svíkja eins og annað.

Pólitískur armur þjófnaðar

Punktar

Gallinn við Sjálfstæðisflokkinn er, að hann er spilltur ofan í rass. Ekki bara Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal, sem reyndu að fela peninga í skattaskjóli aflandseyjar. Stuðningslið þeirra á þingi er gerspillt eins og það leggur sig, enda kalla ég þetta bófaflokk. Sumir eru svo forstokkaðir, að þeir játa sig vera fulltrúa kvótagreifa. Nú eru kjördæmisráð flokksins farin að álykta um stuðning við helztu tortólingana. Meðal eftirsitjandi kjósenda flokksins er lítill sem enginn skilningur á siðum, siðmæti, siðleysi og siðbroti. Niður í rass er þessi 20% flokkur fulltrúi þjófnaðar auðgreifanna á arði þjóðarinnar.

Dansinn á fávitahælinu

Punktar

InDefence hópurinn laug Sigmundi Davíð upp á þjóðina. Þá var mér ljóst, að maðkur væri í mysunni, loforð Sigmundar Davíðs voru út úr sólkerfinu. Fulltrúi hópsins varð síðan þingmaður. Margir sögðu Frosta vera eina vitið í aulunum, sem komust á þing fyrir tilverknað InDefence. Þegar til kastanna kom, dansaði Frosti fremst á myndinni, sem veldur mér þjáningu, hvenær sem ég sé hana. Þið munið eftir henni: Dansinn á fávitahælinu. Nú er Sigmundur Davíð pólitískt smáður og dauður og þá hrökkva menn upp í InDefence og afneita líkinu. Verða að gera betur: Biðja þjóðina afsökunar á að hafa logið Sigmundi Davíð upp á hana.

Ísland er banani

Punktar

Erlendis er öðru vísi tekið á Panama og Tortóla. David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur birt sex skattskýrslur sínar. Ekkert bólar á slíku hjá Sigmundi Davíð, Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal. François Hollande Frakklandsforseti þakkar lekann. Hér birta málgögn stjórnarinnar dylgjur um lekann. Í Frakklandi hófst vinna við að grafa upp skuldir skattsvikara. Hér reynir Bjarni Ben að hindra sektir svikaranna. Um allan heim er hlegið að bananaríkinu Íslandi. Birt eru myndskeið af helztu dólgum íslenzkra stjórnmála. Allt suðaustur í Ástralíu er þetta kryddað með háði í skemmtiþáttum. Enginn efast um, að Ísland er bananaríki.

Þungbært sumar bófanna

Punktar

Græðgi pilsfaldabófa að baki pólitískra bófa er ferleg. Heimta sí og æ meira og meira. Þetta er stjórnlaus geðsjúkdómur. Pólitísku bófarnir telja sig verða að sauma enn frekar að öllu, sem snertir velferð og menningu. Halda sér og stjórn sinni á floti með innantómum loforðum að hætti Sigmundar Davíðs. Meðan hálf þjóðin kemst sæmilega af, eru ekki líkur á byltingu. En fleiri og fleiri detta úr miðstétt niður í undirstétt sárrar fátæktar. Einn góðan veðurdag springur blaðran og hér verður blóðug bylting à la française. Nú er hin undarlega staða orðin ljós öllum þeim, sem vita vilja. Sumarið verður bófunum þungt í skauti.

Af hverju skattaskjól

Punktar

Allri framleiðniaukningu þjóðarinnar síðustu þrjá áratugi hefur verið stungið undan skiptum með ýmsum aðferðum. Til dæmis með hækkun sjávarafurða í hafi. Því eru til skattaskjól á aflandseyjum. Til að fela illa fengið fé og til að komast undan sköttum. Hafi einhverjir falið fé sitt af öðrum hvötum, væri fróðlegt að fatta það. Eins og Sigmundur Davíð fullyrða Bjarni Ben og Ólöf, að allt sé með felldu með sinn feluleik. Sýna samt engar skattskýrslur því til sönnunar. Þegar þetta fólk lýgur þindarlaust um aðra hluti, getur það ekki ætlast til að þjóðin trúi órökstuddum fullyrðingum um þetta. Burt með alla tortólingana úr pólitík.

Með sína gráðugu putta

Punktar

Loksins áttar fólk sig á, að rangt er gefið í spilunum. Hér búa tvær þjóðir í einu landi, Aflendingar og Íslendingar. Þeir síðarnefndu eru fjötraðir í krónu og höftum. Aflendingar hafa ráð til að komast hjá gjaldeyrisskilum. Ósvífnastir eru kvótagreifar, sem selja sjálfum sér fiskinn og hækka síðan verðið í hafi, þegar varan er komin út úr landhelginni. Öll pólitík bófaflokkanna snýst um að varðveita og efla þennan auðlindaþjófnað flokkseigenda. Tortólingurinn Bjarni Ben er enn fjármálaráðherra með sína gráðuga putta eins lengi og honum er sætt. Lýgur um haustkosningar. Þjóðin ákveður á Austurvelli, hvort siðrofið blífur.

Helreiðin á fullu

Punktar

Efinn vegna helreiðar bófaflokkanna er meiri hjá Framsókn en Sjálfstæðis. Sumir oddvitar Framsóknar í kjördæmi Sigmundar Davíðs eru honum fráhverfir og vilja hann út úr pólitík. Minna er um efa í stóra bófaflokknum, þótt Unnur Brá vilji þingrof og kosningar. Afsögn Sigmundar Davíðs friðaði suma af þeim, sem áður var nóg boðið. Um helgina sést, hvort krafturinn hjaðnar í mótmælum. Bjarni Ben rífur kjaft á þingi í skjóli þess, að flokkur hans riðlaðist ekki. Hann hyggst svíkja vilyrði um haustkosningar. Flokksmenn fatta ekki siðrof bófanna. Svo er að vita, hvort fylgið bilar, þegar sagt verður frá földu þýfi flokkseigendanna.

Íslenzkir hrægammar

Punktar

Nú rennur upp fyrir almenningi, að hrægammarnir voru ekki vogunarsjóðir, heldur íslenzkir auðgreifar og valdagreifar. Keyptu í þrotabúum bankanna fyrir 3% af nafnverði. Þar á meðal er Sigmundur Davíð, sem græddi tugi milljóna á að semja um lágt stöðugleikaframlag í staðinn fyrir háan stöðugleikaskatt. Sat báðum megin borðs. En hann var ekki einn. Enn er eftir að birta 600 nöfn Íslendinga. Fyrir utan þá, sem notuðu aðra heildsala en Mossack Fonseca. Gróði íslenzkra greifa mælist alls í hundruðum milljarða. Til viðbótar við gróðann af að skafa gömlu bankana að innan og fela gjaldeyrinn á annarri kennitölu á aflandseyjum.

Fimm syndir Aflendinga

Punktar

Syndir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru þessar:
1. Kreisti út eftirsóttan gjaldeyri, sem venjulegir Íslendingar geta ekki.
2. Faldi peninga sína í skattaskjóli á aflandseyju.
3. Hélt þessu leyndu fyrir kjósendum.
4. Meðan menn birta ekki skattagögn, er skattahagræði af skattaskjóli líklegt.
5. Átti þátt í ákvörðunum
A. um stöðugleikaframlag og
B. um refsileysi skattahagræðis.
Sérhver þessara fimm synda er nægt tilefni brottfarar úr pólitík.
Syndir Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal eru flestar hinar sömu.
Þeim ber að láta sig hverfa að fullu úr pólitík.
Áður hafa Júlíus Vífill Ingvarsson og Vilhjálmur Þorsteinsson sagt af sér.
Nú hefur Sigmundur sagt af sér. Hvenær kemur röðin að Bjarna og Ólöfu?

Fólk er reiðara núna

Punktar

Aldrei hef ég hitt jafn reitt fólk og nú í dauðateygjum ríkisstjórnar Bjarna Ben. Fólk var ekki svona ofsalega reitt í dauðateygjum ríkisstjórnar Geirs Haarde. Venjulegt fólk á miðjum og háum aldri, sem í gamla daga kaus þetta venjulega sull. Nú eru bófaflokkarnir búnir að ganga gersamlega fram af fólki. Reyna að sefa fólk með því að stokka upp í ríkisstjórn. Og hvað má sjá, Bjarni Ben er enn á toppnum. Með hrokann feita á frontinum, byrðar lyga og leyndar af Tortóla-málum á bakinu. Fólk fattar loksins, að hér búa tvær þjóðir. Venjulegt fólk og fámennur hópur rummunga, sem skafa innan auðlindir okkar og fela þýfið.

Burt með Bjarna úr pólitík

Punktar

Sem fjármálaráðherra hefur Bjarni Ben saumað grimmt að velferðinni, einkum í heilbrigðismálum. Engin mál hans núna eru óumdeild og því þarf ekki að fresta kosningum til að gefa honum séns. Stjórnarflokkarnir eru líka að mestu andvígir málum hvers annars. Hættulegast er, að þeir munu ná saman um að búa til gróða vildarvina á einkavæðingu banka og minnkun hafta. Pilsfaldakapítalismi er alfa og ómega beggja. Mikilvægast er, að 61% fólks vantreystir Bjarna. Vantraustið jókst við lygar og leynd í Tortola-málum. Framlenging á pólitísku dauðastríði hans stríðir gegn óbeit fólksins. Bjarni á að víkja eins og aðrir tortólingar.

Mótmælin bjarga heiðrinum

Punktar

Ef einhverjir bjarga heiðri þessa bananalýðveldis, þá eru það þeir, sem standa vaktina í mótmælum. Ríkisstjórnin bjargar hvorki sínum heiðri né þjóðarinnar. Hún er staðráðin að halda áfram auðgreifaþjónustu með stuðningi hinna sjaldséðu þingmanna sinna. Hún er staðráðin að valta yfir allt siðferði í landinu. Í virðulegum erlendum fjölmiðlum, til dæmis Süddeutsche Zeitung, er Ísland kallað bananalýðveldi. Þriðjungur þjóðarinnar er nógu siðblindur til að styðja þessa bófaflokka stjórnmálanna. Takist mótmælendum að bregða fæti fyrir ráðagerðir ríkisstjórnarinnar, munu erlendir fjölmiðlar telja það gáfumerki á Íslendingum.