Punktar

Ekkert fangelsi

Punktar

Hæstiréttur fríaði í gær barnaníðing frá fangelsi. Samt var viðurkennt, að hann framdi afbrot gegn tíu ára stúlku. Einnig var viðurkennt, að hún beið þess bætur, getur ekki sofið ein og hrapaði í námsárangri. Hæstiréttur viðurkenndi brotið. Samt sá hann ástæðu til að skilorðsbinda alla fjóra mánuðina, sem niðingurinn fékk í héraðsdómi. Hann þarf því ekki að sitja neitt inni, en verður að borga barninu 300.000 króna miskabætur, rúmlega mánaðarlaun. Þetta er Ísland í dag. Getur verið, að Hæstiréttur og þjóðin telji barnaníð vera þolanlegt?

Krónan er fín

Punktar

Ferðamönnum fjölgaði í fyrra eins og önnur ár. Þeir koma í auknum mæli, þótt talsmenn ferðaþjónustu kvarti yfir genginu með grátkór útgerðarinnar. Samt er krónan bara einn tíundi af gengi danskrar krónu eins og verið hefur frá ómunatíð. Staðreyndin er, að gengi krónunnar er ekki of hátt. Það er gott gengi, hæfilegt til að góð fyrirtæki dafni og vond fyrirtæki hætti. Þannig á þróunin að vera. Ekki er atvinnuleysinu fyrir að fara. Við getum sleppt áhyggjum af genginu meðan ferðamenn hvers árs eru fleiri en þeir voru árið áður. Nú koma hingað jafn margir í kuldanum í október og komu í júní fyrir fjórum árum.

Gufan blífur

Punktar

Jarðvarmi er sagður munu standa undir fjórðungi allrar rafmagnsframleiðslu í landinu eftir tvö ár. Það eru orkuver á borð við Bláa lónið, Nesjavelli og það nýja við Kolviðarhól, sem eru að slá út vatnsorkuver. Mannvirki gufunnar valda miklu minna raski á yfirborði jarðar en mannvirki vatnsins. Ekki eru reistir voldugir garðar og ekki mynduð víðfeðm uppistöðulón með misjafnri vatnshæð eftir árstíðum. Miklar deilur risu um Kárahnjúka, hafa nú staðið um Þjórsárver og munu senn rísa við Fögrufjöll. Miklu nær er að hvíla vatnið um sinn og kanna, hversu mikið er hægt að virkja af gufu, án þess að þjóðfélagið fari á hvolf.

Klufta-Huppa

Punktar

Frá hestagerðinu við Kaldbak sé ég upp í heiðina, þar sem er eyðibýlið Kluftir. Þar er hvorki hús né vegur, en verður kannski skógur með tímanum. Þar fæddist kýrin Huppa fyrir hundrað árum og varð fræg fyrir mesta nyt í landinu. Bændur og búfélög kepptust um að eignast kvígur undan henni. Smám saman varð hún formóðir allra kúa. Ekki hefur það dugað kúabændum, því að þeir keppast um að reyna að flytja inn útlendar á borð við Galloway á sínum tíma. Nú er talað um norskar eða danskar kýr. Um leið gleymist, að gamla og góða kynið frá Huppu er bragðbesta nautakjöt landsins. Hvað um minnisvarða á Kluftum, Guðni?

Hafa það gott

Punktar

Muhammad Omar, yfirmaður talíbana í Afganistan, og helztu ráðgjafar hans eru í Balúkistan. Osama bin Laden, yfirmaður al Kaída, og helztu ráðgjafar hans eru í Waziristan. Hvort tveggja eru héruð í Pakistan. Þeir hafa náð völdum í vesturhluta landsins, útrýmt glæpaflokkum og náð hylli heimamanna, sem leyna þeim fyrir herjum Bandaríkjana og Pakistans. Í Waziristan eru embættismenn ríkisins flúnir af hólmi. Ríkisstjórnin hefur reynt að endurheimta völdin, en getur hvorki treyst á her né embættismenn. Þannig hefur krossferð George W. Bush gengið hægt víðar en í Afganistan og Írak. Jafnvel bandamenn bila.

Ríkir gamlingjar

Punktar

Sumum lífeyrissjóðum vegnaði vel á síðasta ári. Ávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna nam 21%. Sjóðurinn ætlar í kjölfarið að hækka greiðslur lífeyris um 4%. Athyglisvert er, að sameignarsjóður skilar betri árangri en flestir séreignasjóðir. Ráðamenn sjóða hafa náð betri færni í fjárfestingum en áður, græddu mest á innlendum hlutabréfum að þessu sinni. Velgengni lífeyrissjóða skilar ekki bara hækkuðum lífeyri, heldur treystir hún framtíðarstöðu þjóðarinnar. Við sjáum fram á, að miklu fleiri gamalmenni muni í framtíðinni hafa efni á að sjá um sig sjálf, án hjálpar ellistyrks frá ríkinu.

Framsóknarfé

Punktar

Sigurjón Þórðarson þingmaður segir prófkjörsbaráttu Framsóknarflokksins vera mjög dýra, kosta meira en öll kosningabarátta Frjálslynda flokksins. Einmitt hefur vakið athygli í tveimur síðustu þingkosningum, hversu miklu fé Framsókn hefur úr að spila. Fróðlegt verður að fylgjast með baráttu flokksins í kosningunum í vor og næsta vor þar á eftir. Í þetta sinn snýst fjáraustrið aðeins um að koma aðstoðarmanni forsætisráðherra upp fyrir þau tvö, sem starfað hafa fyrir flokkinn að borgarmálum á þessu kjörtímabili. Hve mikið verður ausið, þegar flokkurinn er kominn úr innanflokksátökum yfir í átök við aðra flokka?

Gagnrýnin eykst

Punktar

Ein þekktasta stofnun heimsins á sviði mannréttinda, Human Rights Watch, sakaði fyrir helgina í ársskýrslu sinni ríkisstjórn George W. Bush um að hafa pyndingar að markvissri stefnu. Þetta hafi orðið mannréttindum áfall um allan heim, því að harðstjórar telji sig hafa frírra spil, úr því að áhrifamesta heimsveldið stundi pyndingar skipulega. Sérgrein Bandaríkjanna hefur verið að umorða pyndingar, kalla þær nýjum nöfnum. Í skýrslunni eru ríkisstjórnir í Evrópu sakaðar um að hafa vitað um pyndingarnar án þess að hafa gert neitt til að stöðva þær, meðal annars af því að þær vilja framar öllu halda friðinn við eina heimsveldi heimsins.

Murdoch bíður

Punktar

Þótt samsteypum í fjölmiðlun hafi gengið illa að ná fjárhagslegum fótum á netinu, hefur Rupert Murdoch ekki gefizt upp. Á ráðstefnum kemur fram, að hann er sannfærður um, að netið sé það, sem koma skuli. Hingað til hefur einkum falizt í því kostnaður án mikilla tekna á móti. Murdoch hefur svo miklar tekjur af hefðbundinni fjölmiðlun á borð við Fox og Sun, að hann hefur efni á að bíða. Öðrum hefur gengið betur að fóta sig á framtíðinni, brezka dagblaðið Guardian eykur útbreiðsluna á sama tíma og heimasíða þess hefur orðið mest notaða fréttasíða Bretlands. Murdoch hefur undanfarið keypt ýmsar vinsæla netmiðla á borð við MySpace.com.

Pútín gengur illa

Punktar

Alexander Pútín komst áfram í lífinu með því að vera fyrst lífvörður hins spillta borgarstjóra í Sankti Pétursborg, Anatolí Sobsjak, og síðan sjálfs hins fordrukkna forseta Rússlands, Boris Jeltsín. Það er gömul og ný saga, að lífverðir verða valdamiklir hjá veiklunduðum einræðisherrum. Síðan Pútín tók við völdum í ríkinu hefur gengi þess versnað á alþjóðlegum vettvangi. Vesturlöndum hefur tekizt að beina olíu- og gasleiðslum til annarra ríkja og ekki hafa tekizt tilraunir hans til fjárkúgunar á olíu og gasi. Þær ráku Úkraínu í faðm Vesturlanda. Pútín drekkur að vísu ekki brennivín, en hann er engu viturri einræðisherra en Jeltsín var.

Hamas styrkist

Punktar

Skoðanakannanir sýna, að stjórnarandstaðan í Palestínu, Hamas, fái 35% fylgi og stjórnarflokkurinn Fatah, fái 41% fylgi í kosningunum á miðvikudaginn. Fatah verður því að leita samstarfs við Hamas um nýja ríkisstjórn. Hamas er er róttækur flokkur og harðari í trúmálum, en einkum þó laus við spillinguna, sem gróf um sig í Fatah á tíma Arafats heitins. Fyrir nokkrum árum spáði ég, að ruddalegt framferði Ísraels í Palestínu mundi leiða til þess, að Hamas mundi taka við af Fatah sem meginflokkur Palestínumanna. Unga fólkið í Palestínu telur aðferðir Fatah í sjálfstæðisbaráttunni ekki hafa náð miklum árangri.

Rangar skoðanir

Punktar

Brezkur sagnfræðingur og æsingamaður hefur setið í gæzluvarðhaldi í Austurríki síðan í nóvember. David Irving er sakaður um að segja, að ekki hafi verið nein helför gyðinga. Frá 1945 hafa í Austurríki verið lög, sem banna mönnum að lýsa jákvæðum skoðunum í garð nazista og halda uppi vörnum fyrir glæpi þeirra. Slík lög eru líka í Þýzkalandi og Póllandi. Í Austurríki getur brot varðað 20 ára fangelsi. Þar í landi eru um 25 menn dæmdir á ári fyrir slík brot. Irving átti að tala í Vínarborg á þingi róttækra manna á hægri kanti stjórnmálanna og var þá handtekinn. Málfrelsið á stundum erfitt uppdráttar.

Nýríkir Rússar

Punktar

Ólígarkar eru vestrænt samheiti yfir nokkur þúsund Rússa, sem hafa mjólkað einkavæðingu ríkisvaldsins í Rússlandi. Þeir fara mikinn um heiminn til að skemmta sér, eru að venju núna í franska skíðabænum Courchevel. Þeir fara ekki mikið á skíði, en drekka þeim mun meira af freyðivíni á 200.000 krónur flöskuna. Abramovits fótboltaeigandi er þeirra á meðal og borgar rúma milljón króna á dag fyrir gistinguna eina. Eftir situr Rússland fátækara en það var á tímum kommúnista, en óligarkana varðar ekki mikið um hag almennings. Abramovits vill raunar kaupa Courchevel, en því góða boði hefur ekki verið tekið.

Erkiklerkar unnu

Punktar

Kosningaúrslitin frá Írak sýna, að samtök ofsatrúarmanna hafa sigrað í öllum fylkingum, en borgaraleg samtök hafa tapað. Meðal þeirra, sem töpuðu, var flokkur Ijad Allawi, sem Bandaríkin gerðu að leppstjóra, og flokkur Ahmed Sjalabi, sem taldi Bandaríkjunum trú um að fara í stríð. Sá síðari fékk engan þingmann. Erkiklerkurinn Ali Sistani er áhrifamestur í landinu, en aukizt hafa völd hins róttækari erkiklerks, Moktada al-Sadr. Fullreynt er orðið í hverjum kosningunum á fætur öðrum, að vinir Bandaríkjamanna eru sárafáir í Írak.

Vanstilltur forseti

Punktar

Jacques Chirac talaði dólgslega um atómvopn Fraka í ræðu í vikunni, sagði þeim mundu verða beitt gegn ríkjum, sem styddu árás hryðjuverkamanna á Frakkland. Væntanlega skilgreinir hann sjálfur, hver séu slík ríki eins og George W. Bush skilgreindi Írak ranglega sem hryðjuverkaríki. Hvernig geta vesturveldin haft hemil á ríkjum á borð við Norður-Kóreu og Íran, þegar forseti Frakklands talar svona ógætilega? Skillítið tal stjórnmálamanna um fælingu, það er eigin árásir að fyrra bragði, sýnir dómgreindarbrest manna með putta á atómgikk.