Punktar

Logið um innhaldið

Punktar

Leyniskjölin úr TTIP leynisamningunum sýna ekki bara yfirgang stórfyrirtækja. Sýna líka, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins laug að þingi sambandsins um stöðu mála í viðræðunum. Eftir uppljóstrun Greenpeace má búast við, að allt fari á hvolf á þinginu og úti um alla Evrópu. Jean-Claude Juncker, forstjóri sambandsins, verður enn einu sinni kjöldreginn fyrir svindl og svínarí. Skiptir okkur máli, því Ísland er aðili að viðræðum um TISA, hliðstæðan leynisamning á Fríverzlunarsvæðinu. Alltaf kemur skýrar í ljós, að TTIP og TISA fela í sér, að auðræði stórfyrirtækja leysir lýðræði af hólmi. Þessir samningar eru landráð.

FRÉTTIN

Ríkinu kennd markaðsfræði

Punktar

ETA, Eftirlitsstofnun EFTA-ríkja, varar íslenzk stjórnvöld við að niðurgreiða orku til stóriðju. Samræmist ekki samstarfi Evrópuríkja. Orku skuli selja á  markaðsverði. Leggur fram línur um verklag til að finna markaðsverð. Tilefnið er Kárahnjúkavirkjun. Niðurgreiðir orku til Alcoa Fjarðaáls samkvæmt fjörutíu ára landráðasamningi. ETA vill, að strax verði hafið ferli til að leiðrétta orkuverðið. Ríkið hefur einn mánuð til að fallast á þá kröfu. Að öðrum kosti muni ETA opna formlega rannsókn um næstu áramót. Að venju kemur allt réttlæti á Íslandi frá Evrópu. Án aðhalds að utan væri stolið hér öllu steini léttara.

Guðni getur fellt Ólaf

Punktar

Reynist skoðanakönnun Frjálsrar verslunar rétt, markar hún þáttaskil í slagnum um forsetaembættið. Fáist svipuð útkoma frá ábyrgum og viðurkenndum aðila, þarf að hlusta á upplýsingarnar. Könnunin bendir til, að Guðni Th. Jóhannesson eigi möguleika á að leggja Ólaf Ragnar Grímsson. Andri Snær Magnason er hins vegar með mun minna fylgi, þótt allir þrír skari fram úr öðrum. Þá kæmi sterklega til álita, að Andri Snær dragi sig til baka til að efla líkur Guðna. Hann er álitinn eins konar miðjumaður, sem flestir sætta sig við. Að vísu á hann eftir að tjá sig um stórpólitísk mál. En Andri Snær er talinn of róttækur og Ólafur Ragnar dinglar í snöru skrautlegrar tækifærastefnu.

Lýðræðistýran dofnar

Punktar

Flest bendir til, að sem heild vanti Íslendinga reisn til að endurreisa lýðræði í rústum auðræðis. Bakslagið hófst, þegar hálf þjóðin kaus bófaflokka 2013 til að stjórna landinu. Enn hafa bófaflokkarnir þriðjungs fylgi, þótt gegnrotið innihaldið megi öllum ljóst vera. Útifundir á Austurvelli fjara smám saman út. Klappstýra útrásarinnar og varðhundur auðgreifa verður endurkjörinn forseti. Í haust hefja bófarnir brunaútsölu á eigum þjóðarinnar. Enn er árlega stolið tugum milljarða undan skiptum í þjóðarbúinu. Í næstu alþingiskosningum fórna auðgreifar milljarði til að hindra endurreisn lýðræðis úr rústum auðræðis.

Brunaútsalan mikla

Punktar

Þrá Bjarna Benediktssonar aflendings í hraða brunaútsölu ríkiseigna fer saman við þrá hans í frestun kosninga. Vill vera fjármálaráðherra, þegar handvalin brunasölunefnd hans höndlar með einkavæðinguna. Í brunaútsölunni er meiningin að selja 500 milljarða eignarhald á Landsbankanum og Íslandsbanka. Á sama tíma og selja þarf 300 milljarða stöðugleikaeignir og erlendar krónueignir. Ljóst er, að aflendingar einir geta boðið í svo gífurleg verðmæti. Þar mun margt fara fyrir slikk og það er stefna Bjarna. Ekki liggur á að selja allt þetta í grænum hvelli. En hagsmunir Bjarna og félaga hans ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Tortóla inn á hvert heimili

Punktar

Dagur verkalýðsins kallar á slagorð, er hæfa hagfræðingum Alþýðusambandsins, sem tóku trú á úreltu brauðmolatilgátuna. Slagorð, sem varpa ljósi á mikilvægi Salek-samkomulagsins, er bindur launafólk í fjötra. Stétt með stétt, eins og hjá Mussolini heitnum. Nú fossa árlega tugir milljarða framhjá skiptum búsins. Með hækkun í hafi hverfa þeir inn í skattaparadísir aflandseyja og koma hvergi fram í hagtölum. Engir brauðmolar hrynja af borðum auðgreifanna. Slagorð Gylfa og félaga gætu verið: Stétt með stétt! Séra Jón má græða á daginn og grilla á kvöldin! Græðgi er góð! Ég mæli þó með skiltinu: Tortóla inn á hvert heimili!

Þungbært Evrópusamband

Punktar

Hef lengi verið hlynntur Evrópusambandinu. Varð þó þungbært á tíma José Manuel Barroso, er orðið óbærilegt á tíma rónans Jean-Claude Juncker. Lengst var það málsvari neytenda, almennings og réttlætis. Undir Barroso og Juncker hefur það hins vegar hallazt að auðhringum. Gengur svo langt, að í kyrrþey er verið að búa til samning um að jafnsetja auðhringa þjóðríkjum. Endar með yfirtöku þeirra á Evrópu eins og gerðist í Bandaríkjunum. Þjónkun við peninga og peningamenn gerði Evrópusambandið að skrímsli í samskiptum við Grikkland. Evrópa er þannig litlu skárri en Ísland, sem tekur sjálfstæðan þátt í landráðum TISA-viðræðna.

Sæluríki séranna

Punktar

Sértu séra Jón er ævin fín. Eigirðu fé, geturðu skipt því í gjaldeyri, sem Jón getur ekki. Eigirðu ekki fé fyrir gjaldeyrinum, færðu lán, sem þú flytur á nýja kennitölu og lætur þá gömlu verða gjaldþrota. Sértu Jón biskup, færðu lánið bara án veðbanda, sem Jón getur ekki. Þú færð bankann til að semja við Mossack Fonseca um aflandsreikning. Sértu séra Jón færðu tilboð frá Seðlabankanum um 20% álag ofan á summuna, ef hún er flutt heim, sem Jón fær ekki. Sértu séra Jón gerist þú hrægammur, kaupir hlut í gjaldþroti bankans fyrir skít og kanil. Færð þá sem kröfuhafi feitan afslátt af stöðugleikagjaldi. Hér er sæluríki séranna.

Engar blautar tuskur

Punktar

Grunnþjónusta á að vera á vegum ríkisins, þar á meðal heilsa og samgöngur. Með samgöngum á ég við vegi, raflínur, símalínur, internet og flugvelli. Afturkalla ber hlutafélagavæðingu Landsvirkjunar, Landsnets, grunnnetsfyrirtækja, Símans og Isavia. Einnig á ríkið að reka allar heilsugæzlustöðvar og spítala. Þá ber ríkinu að rjúfa fáokun samráðsfyrirtækja á atvinnugreinum á borð við banka, tryggingar og olíu. Það gerist með yfirtöku eins olíufélags, eins banka og eins tryggingafélags. Þegar fylgislaus ríkisstjórn er á síðustu metrum, má ekki eyða orku í blautar tuskur í andlit fólks. Hvorki reyna að einkavæða Landspítalann né Landsnet.

Ópólitískir kjósendur

Punktar

Flestir, sem fylgjast pínulítið með pólitík, gera sér grein fyrir stöðu Bjarna Benediktssonar. Gætir ekki kjósenda eða kosningaloforða sinna. Einbeitir sér að þjónustu við ættingja sína og aðra auðgreifa. Fylgið hrynur samt ekki og hann fær jafnvel ábót, þegar Framsókn tapar fylgi. Kjósendur flokkanna tveggja eru ekki pólitískir. Munurinn er, að Framsókn er þjóðrembdari. Kjósendur þeirra fylgja sínu liði eins og áhugafólk um fótbolta. Raunar hefur Flokkurinn juðast frá hruni úr 40% fylgi niður í 25%. Afrek út af fyrir sig, sem ekki má vanmeta. Vonandi leiða fréttir úr skattaskjólum til, að botninn færist enn neðar, í 20%.

Hreyfing á fylginu

Punktar

Skoðanakönnun MMR var tekin áður en leki tengdi Ólaf Ragnar við skattaskjól. Segir því fátt um fylgi hans núna. Þá var bara vitað, að hann er gamalgróinn tækifærissinni og afturhaldsinni úr Framsókn. Andvígur nýrri stjórnarskrá og auðlindarentu. Sundrungarafl þjóðarinnar, margsaga um mikilvæg mál, klappstýra útrásar og málvinur einræðisfauta. Ekki var vitað um gimsteinaviðskipti Dorrit. Annast fjármál föður síns heitins, frægs smyglara, án þess að vita neitt um þau. Er sem forsetafrú ekki skattborgari í landinu. Þeytist samt frí og frjáls á diplómatapassa. Lekinn kom hreyfingu á fylgið, sem ekki hefur enn verið mæld.

Vinstri villugötur

Punktar

Vinstri stefnu verður ekki bjargað með upptöku hægri sinnaðra viðhorfa. Slíkt grefur undan hornsteinunum. Þannig fór fyrir Blair-ismanum í Bretlandi, kratar misstu hina siðferðilegu kjölfestu. Corbyn sækir hana aftur. Þess vegna út með Árna Pál og aðra Blair-ista. Vinstri stefna bjargast ekki heldur með vinstri sveitaframsókn, sem treður inn á okkur álverum í krummaskuð. Þess vegna út með Steingrím og aðra framsóknarmenn. Líka út með alla sérvitringa, sem geta ekki unnið með öðrum, út með Ögmund og aðra slíka. Þetta er sjálft afturhaldið. Píratar hirða lungann úr vinstra fylginu, af því að þeir skilja unga fólkið.

Furðulegur ruslahaugur

Punktar

Frumvörpin 77, sem ríkisstjórnin segist þurfa að fá samþykkt fyrir kosningar, eru furðulegur ruslahaugur. Fyrirferðarmest eru þau frumvörp, sem eru alls ekki til, hafa ekki verið samin. Listinn er sýndur til að tefja kosningar. Draga þær fram á næsta vor. Nokkur frumvörp eru þó fagleg, einkum evrópskar tilskipanir, sem þola stjórnarskipti. Svo eru frumvörp rugludallanna, Ragnheiðar Elínar og Eyglóar, sem koma engu í verk. Verri eru beinlínis hættuleg ofstækisfrumvörp Kristjáns Þór og Illuga. Vilja kyrkja heilsu og skóla og einkavæða rústirnar. Eldfimast verður fjárlagafrumvarp Bjarna, svanasöngur einkavinavæðingar hans.

Heimsmet í spillingu

Punktar

Sumir hafa lengi komið milljörðum í skjól með hækkun í hafi í utanríkisverzlun. Aðrir geta gengið í banka fyrir gengishrun, skipt lánsfé í gjaldeyri og komið honum í skjól. Öll glæpastarfsemin er enn á fullu. Menn gerast síðan hrægammar, kaupa bankaskuldir fyrir slikk og verða kröfuhafar. Sem slíkir hafa þeir fengið bónus hjá þjóðinni upp á milljarða króna. Fá afslátt af stöðugleikaframlagi upp á milljarða króna. Ryðja heilbrigðum rekstri úr vegi og innleiða fólsku sína í atvinnulífið. Hafa ekki verið rukkaðir um skattaskil né látnir útskýra hvarf á fengnu lánsfé og öðru kennitöluflakki. Ríkisstjórnin stjórnar þessu heimmeti.

Bjarni er kóngulóin

Punktar

Bjarni Benediktsson skipaði einkavæðingarnefnd, sem á að starfa „í hæfilegri fjarlægð frá ráðuneytinu“. Kónguló ríkisstjórnarinnar ræður ekki lengur við klær sínar. Sér fram á hrun ríkisstjórnarinnar í næstu kosningum. Vill klófesta sem mest af ríkinu fyrir sig og sína. Pólitíska ógeðið hvarf ekki með Sigmundi Davíð, sem var bara vitleysingur. Kóngulóin gráðuga er Bjarni Benediktsson aflandseyingur. Tryggir hag þeirra, sem forðuðu lánsfé undan endurgreiðslu með kennitöluflakki. Þeir geta mokað gjaldeyri úr bönkum, falið í skattaskjóli og notað stöðugleikafríðindin til að gína yfir enn stærri hlut samfélagsins.