Punktar

Viljum ekki álver

Punktar

Feginn er ég, að meirihluti þjóðarinnar vill ekki fleiri álver á næstu árum samkvæmt niðurstöðu skoðanakönnunar. Þar á ofan hefur Fitch Rating lækkað lánshæfi ríkissjóðs niður í neikvæða einkunn vegna ört vaxandi erlendra skulda, sem stafa einkum af fjármögnun orkuvera. Við vitum líka, að arðsemi þessara orkuvera hefur verið ofmetin, einkum Kárahnjúkavirkjunar, þar sem vandræði hafa komið upp við borun á göngum. Kominn er tími til að hætta að niðurgreiða orku til stóriðju og stefna frekar að ódýru rafmagni fyrir okkur sjálf.

Vill minna öryggi

Punktar

Vegagerðin fer með þær tölur, sem beztar eru vitaðar, þegar hún segir göng til Eyja munu kosta 70-100 milljarða. Ægisdyr, félag Árna Johnsen, er ekki sátt. Félagið telur mat Vegagerðarinnar á jarðfræði bergsins vera of svartsýnt og alþjóðlegar öryggiskröfur útreikninganna vera of strangar. Þetta eru gamalkunn viðhorf, ef fræðimenn eru mér ekki nógu hagstæðir, skipti ég um fræðimenn, -ef jarðlagaspá er mér ekki nógu hagstæð, skipti ég um jarðlagaspá. Verra er þó, að Ægisdyr telja, að öryggi Eyjabúa þurfi ekki að ná alþjóðlegum stöðlum.

Misskilur hagtæki

Punktar

Útboð á lóðum hafa þann tilgang að fá rétt verð fyrir þær í markaðshagkerfi nútímans. Þau eru leið auðhyggjunnar til að láta af hendi verðmæti, sem eru til í takmörkuðu magni. Um leið segja þau sveitarstjórnafólki, hvort nóg sé til af lóðum eða ekki. Kjánalegt er að bjóða út lóðir í merkingarleysu og fá svo hland fyrir hjartað, þegar aðferðinni tekst hvort tveggja í senn, að færa borginni björg í bú og sanna fyrir borgarstjórninni, að stórauka þarf framboð á lóðum. Það er eins og meirihlutinn í Reykjavík misskilji hagtækin, sem hann notar.

Miklir skattmenn

Punktar

Hrokafull eru viðbrögð Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra við gagnrýni á stimpilgjöld ríkisvaldsins. Þau eru og hafa lengi verið til skammar, notuð til tekjuöflunar í stað þess að endurspegla kostnað við stimplun. Til dæmis leggja stimpilgjöld mikinn og ósanngjarnan skatt á fólk, sem er að reyna að koma þaki yfir höfuðið. Það er andstætt stefnu Sjálfstæðisflokks, ef Árni getur fundið hana og dustað af henni rykið. Það er rétt hjá Kristjáni Möller, að fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins eru miklir skattmenn og vilja áfram vera það.

Álitsgjöfum mútað

Punktar

Fall þrýstifræðingsins Jack Abramoff í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós mútugreiðslur til álitsgjafa í fjölmiðlum. Doug Bandow fékk rúmlega hundrað þúsund krónur á grein fyrir 12-14 greinar með hægri sinnuðum sjónarmiðum í Copley News Service, Peter Ferrera sömuleiðis. Michael Fumento missti líka dálkinn sinn fyrir að hafa þegið rúmlega þrjár milljónir frá Monsanto fyrir að styðja erfðabreytta líftækni í bókinni Biotechnology. Sumir eru sáttir við skrifin, Iain Murray segir í American Spectator, að álitsgjafar skuli ekki að leita sannleikans, heldur vinna fólk á sitt band.

Skaðræðisklerkar

Punktar

Nóbelsverðlaunahafinn indverski, Amartya Sen, segir í bók, sem kemur út um mitt þetta ár, að ýmis Evrópuríki hafi gert þau mistök að líta á klerka sem fulltrúa minnihlutaþjóða og að efla stöðu þeirra í stað þess að snúa sér að þeim fulltrúum, sem tekizt hefur að laga sig að háttum vestræns fólks, hafa menntun og vinnu og virða stjórnarskrána. Einkum finnst honum slæmt, að trúarskólar megi koma í stað ríkisskóla, slíkt efli vald ofsatrúarmanna.
Sen telur, að stefna fjölþjóðahyggju í Bretlandi hafi þegar valdið miklum pólitískum skaða.

Fylgisrýrir harðstjórar

Punktar

Illa hefur gengið að laga stöðu miðausturlanda með því að knýja þar fram frjálsar kosningar. Það hefur ekki leitt til lýðræðis að vestrænum hætti. Þvert á móti hafa þær leitt klerka og aðra róttæka trúarofstækismenn til valda. Harðstjórar undir vestrænum áhrifum á borð við Hosni Mubarak í Egyptalandi og prinsana í Arabíu hafa aðeins 2% fylgi í könnunum í ríkjum múslima. Nánast allir vilja losna við bandarískan her og bandarísk áhrif. Þróunin í kosningum er í átt frá gömlu furstunum yfir til róttæklinga í trúarofstæki.

Evrópa er þægari

Punktar

Gegn vilja kjósenda eru Evrópusambandið og sumar ríkisstjórnir í Evrópu að færa sig nær Bandaríkjunum í málum þriðja heimsins. Sumpart stafar það af, að ráðamönnum í Evrópu hefur ekki tekizt að fá Íran með góðu til að hætta við kjarnorkuáætlun. Sumpart stafar það af, að róttæki flokkurinn Hamas vann frjálsar kosningar í Paltestínu gegn vilja evrópskra ráðamanna. Sumpart stafar það af valdi nokkurra hægri manna, Jose Manuel Barroso í Evrópusambandinu, Tony Blair í Bretlandi og Angela Merkel í Þýzkalandi.

Hundrað í handrukkun

Punktar

Húsleitir hefur verið gerðar hjá handrukkurum og hundrað manns yfirheyrt í tengslum við þær. Markmiðið er sagt vera að hvetja fólk til að láta af ótta sínum við handrukkara og koma fram með kærur eða vera vitni í dómsölum. Svo lofleg sem þessi afskipti lögreglunnar eru, þá duga þau ekki til að fá fólk til að koma úr felum. Vandséð er, hvernig afskiptin auki öryggi vitna, sem þurfa miklu frekar að fá vitnavernd. Athyglisverðast er þó við mál þetta, hversu margir eru taldir handrukkarar, þegar yfirvöld taka loksins hendur úr vösum.

Súdan er næst

Punktar

George W. Bush sagði í gær, að æskilegt sé, að Atlantshafsbandalagið taki meiri þátt í friðargæzlu í héraðinu Darfur í Súdan. Nató er þar nú með flugliða, sem flytja afríkanska hermenn á vegum Sameinuðu þjóðanna. Í raun er Bush að segja, að Afríka ráði ekki við verkefnið og að Bandaríkin hafi ekki tök á að gera meira vegna anna við stríðsbrölt annars staðar í heiminum. Nató var illu heilli dregið inn í Afganistan til að létta á Badaríkjunum. Ljóst er, að Bandaríkin vilja meira en litla fingurinn, sem þeim var réttur þar.

Opin prófkjör

Punktar

Hægt er að losna við hlaup manna milli flokka til að greiða atkvæði í opnum prófkjörum með almennu samkomulagi flokkanna um að hafa sameiginlegt prófkjör á einum degi. Menn geta þá ekki lengur greitt atkvæði nema hjá einum flokki. Þannig er hægt að varðveita lýðræðið, sem felst í opnum prófkjörum, um leið og dregið er úr neikvæðum afleiðingum þeirra. Nýir menn geta komizt til áhrifa án þess að óviðkomandi kjósendur ráði niðurstöðunni. Ef opnum prófkjörum verður ekki breytt á slíkan hátt, er hætt við, að þau fái á sig óorð.

Konur og menning

Punktar

Konur eru að taka yfir menninguna á vesturlöndum samkvæmt nýrri tölfræði beggja vegna Atlantshafsins. Bóklestur þeirra vex, en karla minnkar. Tveir þriðju af lesendum skáldrita eru konur. Einkum er áberandi, að konur eru hrifnari af hámenningu, en karlar halda sig við rokk, djass og rapp, meðan þær eru í klassík. Fleiri konur en karlar koma í leikhús og á listsýningar. Upp á síðkastið eru konur orðnar fleiri en karlar í sumum háskólum. Enn eru karlar forstjórar menningarstofnana, en deildarstjórastöður eru almennt orðnar skipaðar konum.

Jökull bráðnar

Punktar

Nýjar rannsóknir með gervitunglum sýna, að meginísinn á Grænlandi bráðnar tvöfalt hraðar en áður var talið. Voðinn af völdum útblásturs koltvísýrings er því nærtækari en áður var talið. Yfirborð sjávar mun rísa hraðar en áður var talið. Búast má við, að ofviðri versni og sjór gangi meira á land en áður var talið. Enda eru ýmis merki um það í veðri síðasta árs, að ofviðri valdi meira tjóni en áður, til dæmis í New Orleans. Ríkisstjórnir heimsins þurfa að taka betur á sameiginlegum umhverfisvanda og fá Bandaríkin til samstarfs um aðgerðir.

Spekúlera ekki

Punktar

Lífeyrissjóðir eru sagðir fyrirferðarlitlir á hlutabréfamarkaði. Gott er að vita, að þeir hafa ekki glýju í augum út af hækkun hlutabréfa á síðustu árum. Innlend hlutabréf er fyrir þá, sem eiga lífið framundan, en ekki fyrir félaga lífeyrissjóða, sem eru að safna fyrir elliárunum. Lífeyrissjóðir eiga að setja fé okkar í traustari farvegi, því að þeim er treyst fyrir því, að verðgildi sparnaðar fólks haldist inn í óvissa og fjarlæga framtíð. Miklu máli skiptir, að sjóðirnir hlaupi ekki á eftir þeim, sem eru að spekúlera.

Eilíf illindi

Punktar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra er ekki maður sátta og samninga. Hann þrífst þvert á móti á illindum. Ef hann á kost á sáttum, velur hann alltaf stríðið. Nýjasta dæmið um þetta er vændið. Hann leggur fram um það sérstakt frumvarp, meðan þverpólitískt nefnd er að búa til annað frumvarp. Bloggsíða hans einkennist af hundalógík og hroka. Hann telur, að hans menn hafi ætíð rétt fyrir sér og allir aðrir alltaf rangt, þar á meðal Framsókn. Winston Churchill sagðist þó vera heppinn, ef hann hefði rétt fyrir sér í annað hvert skipti.